Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 694. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1530  —  694. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um lánveitingar til Saga Capital, VBS fjárfestingarbanka og Askar Capital.

     1.      Hafa Saga Capital og VBS fjárfestingarbanki staðið við eftirgreind skilyrði lánveitingar samkvæmt samkomulagi sem fjármálaráðuneytið gekk frá við fyrirtækin í mars 2009 til að treysta innheimtu veðskulda, sem ríkið yfirtók frá Seðlabankanum, en samkomulag við fyrirtækin fól í sér að verðbréfum var breytt í lán til sjö ára sem yrðu verðtryggð með 2% vöxtum og voru skilyrðin sett sem forsenda fyrir skuldbreytingunni, og ef lántaki stæði ekki við skilyrðin meðan skuld lánsins væri enn ógreidd gæti lánveitandi með skriflegri tilkynningu og 30 daga fyrirvara til skuldara gjaldfellt lánið:
              a.      ekki greitt út arð á lánstímanum, nema til komi samsvarandi niðurgreiðsla á höfuðstól þessa láns; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Hvorugt félagið hefur greitt út arð frá því ritað var undir lánasamninginn.

              b.      stillt kaupaukum til starfsmanna lántaka í hóf og tryggt að þeir séu í samræmi við gengi lántaka og almennar launagreiðslur og umbun á fjármálamarkaði; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
              c.      lagt fram rökstuðning vegna kaupaukagreiðslna og aflað samþykkis lánveitanda áður en stofnað hefur verið til réttar starfsmanns eða stjórnarmanns til slíks kaupaukaréttar; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum félaganna, sem m.a. kom fram í máli þeirra fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, hafa ekki verið um neinar bónusgreiðslur að ræða hjá félögunum.

              d.      ekki heimilað kaup lántaka á eigin bréfum til niðurfærslu hlutafjár (óbein arðgreiðsla); ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    Félögin hafa ekki keypt eigin bréf.

              e.      tryggt að einstakar stórar áhættuskuldbindingar lántaka fari ekki yfir 20% af CAD eigin fé;
    
VBS tilkynnti um að einstakar stórar áhættuskuldbindingar væru yfir mörkum. Það stafaði ekki af nýjum lánum til aðila heldur af minnkandi eiginfjárgrunni og breyttum hlutföllum í efnahagsreikningi bankans.

              f.      skilað ítarlegu rekstraryfirliti og skýrslu um stöðu og horfur í rekstri lántaka á þriggja mánaða fresti til lánveitanda, í sambærilegu formi og skýrslugjöf og forstjóri veitir stjórn á hverjum tíma; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    Viðskipta- og rekstraráætlanir voru kynntar ráðuneytinu reglulega sem liður í því að meta endurgreiðsluáhættu skuldara og framtíðarhorfur rekstrar.
              g.      tryggt að útlánavöxtur takmarkist við innlendan fjármögnunargrunn og að vöxtur útlánasafns leiði ekki til skerts endurgreiðsluhæfis lántaka; hefur ítarlegu yfirliti um þróun útlána verið skilað til lánveitanda á þriggja mánaða fresti og hafa verið gerðar athugasemdir eða frekari skilyrði um frekari vöxt útlánasafns skuldara; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Hvorugur bankinn hafði viðskiptabankaleyfi og var þar með óheimilt að safna innlánum sem á þessum tíma var eina færa fjármögnunarleið banka á Íslandi.

              h.      tryggt að CAD-hlutfall lántaka sé ekki lægra en 10% á lánstímanum; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
CAD-hlutfall VBS fjárfestingarbanka var komið undir 10% snemma árs 2010 og óskaði stjórn bankans eftir því við Fjármálaeftirlitið þann 3. mars 2010 að skipuð yrði bráðabirgðastjórn skv. 100 gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. VBS fjárfestingarbanki var svo tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. CAD hlutfall Saga Capital hefur verið fyrir ofan 10%.

              i.      hefur lántaki viðhaldið viðunandi lausafé og rekstrarhæfi að mati Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands á lánstímanum; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Ráðuneytinum er ekki kunnugt um að Seðlabankinn og FME hafi gert formlegar athugasemdir við lausafjárstöðu bankanna. VBS fjárfestingarbanki tilkynnti hins vegar ráðuneytinu um erfiða lausafjárstöðu síðla árs 2009.

              j.      hefur fyrirgreiðsla verið aukin til venslaðra aðila (með þeirri undantekningu þó ef einstaklingur í viðskiptum hefur störf eða tekur sæti í stjórn, eða aukningin er tilkomin vegna breytingar á hjúskaparstöðu viðkomandi); ef svo er, af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að fyrirgreiðslur til venslaðra aðila hafi aukist.
    
              k.      hefur lántaki fyrir lok árs 2009 lokið innleiðingu Stjórnarhátta fyrirtækja skv. 2. útgáfu leiðbeininga sem útgefnar voru af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Saga Capital hefur lokið við innleiðingu Stjórnarhátta fyrirtækja skv. 2. útgáfu um leiðbeininga sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins en ráðuneytinu er ekki kunnugt um það hvernig staðan var hjá VBS fjárfestingarbanka þegar félagið fór í slitameðferð.

              l.      tryggt að ársreikningar lántaka fyrir árið 2008 hafi verið samþykktir af stjórn og undirritaðir af löggiltum endurskoðendum eigi síðar en 31. mars 2009; ef ekki, þá af hverju og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við;
    
Forstjóri Saga Capital óskaði eftir fresti til 2. apríl 2009 til að skila inn árituðu eintaki endurskoðenda þar sem þeir gátu ekki lokið verkefninu fyrr vegna anna. Ráðuneytið samþykkt beiðni um aukinn frest.

              m.      varð lausafjárstaða lántaka óviðunandi að mati Seðlabanka eða fór CAD-hlutfall skuldara einhvern tímann undir 10% á lánstímanum; ef svo er, af hverju og hvernig brást ráðuneytið við;
    
Ráðuneytinu var kunnugt um áhyggjur Seðlabankans af lausafjárstöðu VBS fjárfestingarbanka.

              n.      hefur lántaki einhvern tímann á lánstímanum tilkynnt um atvik sem eru fyrirsjáanleg til að valda vanefnd á lánasamningum eða fyrrnefndum skilyrðum?
    
Stjórnendur VBS fjárfestingarbanka tilkynntu ráðuneytinu áhyggjur sínar af því á 4. ársfjórðungi 2009 að félagið gæti átt erfitt með að standa við vaxtagreiðslu af láninu ef ekki kæmi til nýr fjárfestir að félaginu sem gæti styrkt efnahag og viðskiptaáætlun félagsins.

     2.      Voru sett sambærileg skilyrði þegar gengið var frá sambærilegu samkomulagi við Askar Capital hf.? Ef svo er, hver eru þá svörin við áðurgreindum spurningum? Ef svo er ekki, af hverju og hver voru þá lánaskilyrðin?

    Askar Capital fengu einnig lán eins og fyrrnefndir fjárfestingarbankar og voru sambærileg skilyrði sett fyrir lánafyrirgreiðslu til þeirra. Það skuldabréf var svo selt um mitt ár 2009 til skilanefndar Glitnis sem notaði það sem eiginfjárframlag í fjárhagslegri endurskipulagningu Sjóvár. Frá þeim tíma hefur Sjóvá sinnt eigendahlutverkinu og framfylgt þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lánasamningnum. Stjórn Askar Capital óskaði þann 14. júlí eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að félaginu yrði skipuð slitastjórn.
    Þann 11. febrúar 2010 var gert samkomulag við Eignaumsýslufélag Seðlabanka Íslands (ESÍ) um að það félag keypti til baka kröfur af fjármálaráðuneytinu og var framsal réttinda og uppgjör m.v. árslok 2009. Frá þeim tíma hefur ESÍ sinnt eigendahlutverkinu og eftirliti með skilmálum. Því nær svar við fyrirspurninni einungis til ársins 2009 þegar umræddir lánasamningar voru á forræði ráðuneytisins.