Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 104. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 232  —  104. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um innheimtuaðgerðir á vegum LÍN og viðbrögð sjóðsins við vanskilum lántakenda.

     1.      Á hvaða forsendum starfa innheimtufyrirtæki sem taka að sér þjónustu fyrir LÍN og eftir hvaða verklagsreglum starfa þau?
    Við undirbúning þessa svars var leitað upplýsinga hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þeir aðilar sem sinna innheimtu fyrir sjóðinn eru Intrum, Juris og Mandat og hefur Lánasjóðurinn gert samninga við þessi fyrirtæki um að sinna innheimtustörfum. Þá vinna fyrirtækin á grundvelli innheimtulaga, nr. 95/2008, og laga um lögmenn, nr. 77/1998, auk þess sem unnið er á grundvelli réttarfarslaga, þar á meðal laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, aðfararlaga, nr. 90/1989, og nauðungarsölulaga, nr. 90/1991. Verklagsreglur sem starfað er eftir koma fram í samningi innheimtuaðila við sjóðinn og í ýmsum fyrirmælum frá sjóðnum, bæði almennum og í einstaka tilvikum. Þá ber að geta þess að þó að mál hafi verið sent til innheimtu, annaðhvort milli- eða löginnheimtu, eiga skuldarar þess ávallt kost að leggja mál sín fyrir stjórn sjóðsins og eftir atvikum málskotsnefnd.

     2.      Hver eru rökin fyrir því að innheimtufyrirtæki sjái um innheimtu krafna LÍN?
    Rökin fyrir því að fela innheimtuaðilum innheimtuna eru þau að sjóðurinn þarf líkt og aðrir að innheimta kröfur sínar og hefur talið hagkvæmara að semja við innheimtuaðila um þá þjónustu í stað þess að setja upp sérstaka innheimtudeild hjá sjóðnum vegna þessa. Þannig hafa lögmenn um ártugaskeið annast lögfræðilega innheimtu námslána í góðu samráði við sjóðinn. Varðandi milliheimtu þá ákvað sjóðurinn fyrir nokkrum árum að fela Intrum milliheimtu til þess að lengja innheimtuferlið enn frekar með lágmarkstilkostnaði áður en gripið er til lögfræðilegra aðgerða og veita greiðendum þannig svigrúm til samninga. Í því samhengi er vert að nefna að nú er hægt að dreifa greiðslu hjá Intrum í allt að sex mánuði. Loks er mikilvægt að hafa í huga að áður en krafan er send frá LÍN hefur skuldarinn fengið senda greiðsluseðla frá sjóðnum auk aðvarana um framhald innheimtunnar. Fruminnheimta námslánanna er því hjá sjóðnum þar sem skuldurum eru boðin fjölþætt úrræði til þess að standa í skilum, svo sem fjögurra eða sex mánaða greiðsludreifing, undanþága frá afborgun, frysting o.fl. Sjá nánar í yfirliti yfir greiðsluerfiðleikaúrræði hjá LÍN í svari við 6. tölulið.

     3.      Hvernig samræmist starfsemi innheimtufyrirtækja tilmælum ríkisstjórnarinnar um vægar innheimtuaðgerðir?
    Eins og að framan greinir þá setur sjóðurinn innheimtuaðilum sínum fyrirmæli um hvernig innheimtunni skuli hagað og tryggir að innheimta sé á hverjum tíma í samræmi við vilja sjóðsins. Hafa innheimtuaðilar í því sambandi leiðbeint skuldurum um þau úrræði sem standa til boða hjá sjóðnum. Innheimtuaðilar ganga eins langt og kostur er í að gera skuldurum kleift að ljúka málum með samkomulagi eða öðrum þeim úrræðum sem í boði eru. Fullyrða má að innheimta fyrir sjóðinn sé með mun vægari hætti en almennt gengur og gerist. Innheimta á vegum sjóðsins ætti því að fullnægja tilmælum ríkisstjórnarinnar um vægar innheimtuaðgerðir.
    Sú staðreynd að LÍN nýtir þjónustu milliinnheimtufyrirtækis er til merkis um að beitt sé vægum innheimtuaðgerðum á fyrri stigum. Þegar rætt er um hvort innheimtuaðgerðir séu vægar eða ekki er yfirleitt litið til þriggja þátta:
          Hvaða sveigjanleiki er greiðendum boðinn til samninga um vanskil.
          Hvaða innheimtuaðgerða er gripið til.
          Hver kostnaður greiðanda sé af innheimtuaðgerðum.
    Þó að LÍN hafi valið þá leið að nýta þjónustu milliinnheimtufyrirtækis þá hefur LÍN ekki afsalað sér ákvörðunarvaldi um framgang innheimtunnar og hafa stjórnendur LÍN fulla stjórn á því með hvaða hætti innheimtunni er háttað, hvaða svigrúm til samninga er veitt og til hvaða innheimtuaðgerða er gripið.
    Almennur ferill mála í lögfræðilegri innheimtu er sá að áður en kemur að fjárnámi hjá skuldurum vegna skulda þeirra við Lánasjóðinn eru send innheimtubréf. Berist engin viðbrögð við þeim er að jafnaði send ítrekun. Berist engin viðbrögð við ítrekun er útbúin stefna í málinu sem birt er með lögbundnum fyrirvara. Hafi skuldari ekki samband er málið dómtekið. Þegar árituð stefna (dómur) berst frá héraðsdómi er í kjölfarið send aðfararbeiðni til sýslumanns vegna fjárnáms. Þetta ferli tekur að lágmarki hálft ár. Fyrir innheimtu svonefndra R-lána og skuldabréfa þar sem heimild er til að senda kröfu beint í fjárnám án undangengins dóms er þó ávallt send greiðsluáskorun. Á öllum stigum er í framangreindu ferli unnt að hafa samband við lögmannsstofuna og semja um innborganir á kröfuna og/eða greiðsluáætlun með þeim afleiðingum að frekari aðgerðum er frestað á meðan skuldari stendur við áætlunina. Einnig er farið yfir það með öllum sem eiga í erfiðleikum með að greiða sín vanskil að þeim standi til boða skuldbreyting vanskila sinna. Eins er skuldurum bent á önnur úrræði sem þeim kunna að standa til boða eftir atvikum, t.d. endurútreikning lána ef þeim hefur láðst að skila skattframtali þannig að tekjutengdur gjalddagi sé reiknaður út frá áætluðum tekjum. Loks ef það á við er skuldurum leiðbeint um að senda stjórn Lánasjóðsins erindi um frestun gjalddaga, t.d. vegna heilsubrests. Skuldurum er því veitt greinargott yfirlit yfir þau úrræði sem lög og reglur um Lánasjóðinn heimila og þeim leiðbeint um réttindi sín í þeim efnum.

     4.      Hver er fjöldi vanskilamála á borðum innheimtufyrirtækja vegna krafna LÍN?
    LÍN gefur út 53.652 greiðsluseðla á ári og eru lánþegar LÍN 29.595 talsins.
    Það sem af er árinu 2010 hafa 1.260 mál farið til innheimtu í milliinnheimtu og eru 292 þeirra enn í innheimtuferli en önnur hafa verið greidd. Upp úr næstu mánaðamótum verða vanskil vegna gjalddaga 1. september send í milliinnheimtu en eins og fyrr segir er hægt að dreifa greiðslum á allt að sex mánuði hjá Intrum.
    Miðað við útgefinn fjölda greiðsluseðla fyrstu átta mánuði ársins, greiða um 97% greiðsluseðla sína áður en innheimta á milliinnheimtustigi hefst. Það hlutfall hefur hækkað á milli ára úr 95% árið 2009. Af þeim kröfum sem fóru í milliinnheimtu til Intrum sl. tvö ár voru 63% greiddar hjá fyrirtækinu. Aðeins 1,5% af kröfum LÍN fara að meðaltali áfram í löginnheimtu.
    Hjá Juris, lögmannsstofu eru nú til meðferðar 468 innheimtumál fyrir sjóðinn með misjafnlega langa forsögu. Hjá Mandat lögmannsstofu eru 922 lántakar með mál sín í innheimtu. Hver skuldari er hins vegar með mismarga gjalddaga í innheimtu og skiptist það svona: Með 1–5 gjalddaga eru 671, sem felur í sér að vanskilin hafa staðið í allt að tvö og hálft ár. Með 6–10 gjalddaga eru 175, sem felur í sér að vanskil hafa staðið í þrjú til fimm ár. Með 11–20 gjalddaga 64, sem felur í sér að vanskil hafa staðið í fimm til tíu ár. Með fleiri en 20 eru 12, sem felur í sér að vanskil hafa staðið lengur en í tíu ár. Þess skal getið að í minnstu hópunum sem eru með langa sögu vanskila eru að jafnaði einstaklingar sem ekki hafa greitt af lánum sínum, t.d. vegna greiðsluþrots í kjölfar gjaldþrotameðferðar en einnig lántakar sem hafa flutt af landi brott án þess að greiða námslánaskuldir sínar. Innheimtuaðilar vinna í samræmi við ákveðnar verklagsreglur sem stjórn LÍN hefur samþykkt. Þessar reglur eru hugsaðar til að auka enn möguleika greiðenda til að koma námslánum sínum í skil og nýta sér þannig þau almennu úrræði sem eru í boði. Í þessu samhengi má nefna að veita skuli 50% afslátt af innheimtuþóknun á fyrsta stigi innheimtu, heimild til að fella niður dráttarvexti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, heimild til að greiða vanskil með skuldabréfi (sem tíðkast hvergi annars staðar).

     5.      Hversu mörg fjárnám hafa verið gerð vegna krafna frá LÍN frá og með október 2008?
    Hjá Juris og Mandat hafa verið gerð um 160 fjárnám fyrir sjóðinn á því tímabili sem nefnt er í fyrirspurninni.

     6.      Hvaða úrræði standa þeim til boða sem komast í greiðsluvanda og hvernig upplýsir LÍN, og eftir atvikum innheimtufyrirtæki á vegum sjóðsins, skuldara um þau?
    Hér á eftir fer stutt samantekt á helstu úrræðum sem eru í boði fyrir þá sem lent hafa í greiðsluvanda og hversu margir hafa nýtt sér þau ásamt frekari upplýsingum um vanskil sjóðsins:

     a.      Árlegri afborgun námslána (G-, R-, S- og V-lána) er skipt í tvennt. Annars vegar er föst afborgun á fyrri hluta árs og hins vegar viðbótarafborgun á seinni hluta árs. Fasta afborgunin er dregin frá tilteknum hundraðshluta tekna fyrra árs, sú upphæð sem eftir stendur er viðbótarafborgunin. Þannig reiknast engin viðbótarafborgun fyrir tekjulægstu lánþegana.

     b.      Greiðsludreifing.
                  –      Afborgun dreifist jafnt á fjóra eða sex mánuði samkvæmt vali lántaka.*
                   Fjórar eða sex dreifigreiðslur.
                   Dreifigreiðslurnar eru greiddar gegnum íslenskan banka (í íslenskum heimabanka, í beingreiðslu eða hjá gjaldkera í íslenskum banka).
                   Hverja dreifigreiðslu þarf að greiða í heilu lagi.
                   Afgreiðslugjald er 1,5% vegna fjögurra mánaða dreifingar en 2% vegna sex mánaða dreifingar. Gjaldið leggst á fyrstu dreifigreiðsluna.
                    Greiðsludreifing hefst frá og með næstu afborgun eftir umsókn en sé sótt um innan tveggja mánaða frá gjalddaga afborgunar er unnt að fá greiðsludreifinguna frá og með þeirri afborgun.
                   Sjá nánar skilmála fjögurra mánaða dreifingar og skilmála sex mánaða dreifingar á www.lin.is. Umsókn um greiðsludreifingu er á „Mínu svæði“, eldri afborganir þurfa að vera í skilum.
          *Afborgun undir kr. 30.000 er ekki dreift.

     c.      Undanþágur frá afborgun námslána (kafli 7.4 í úthlutunarreglum LÍN).
        Hægt er að sækja um undanþágur frá afborgun námslána að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:

        7.4.1. Undanþága vegna lágra tekna.
             Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.

        7.4.2. Undanþága vegna skyndilegra og verulegra breytinga.
             Einnig er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum, ef skyndileg og veruleg breyting hefur orðið á högum lánþega þannig að útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluárinu. Heimildin miðast við að skyndileg og alvarleg veikindi, slys eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegri skerðingu á ráðstöfunarfé og á möguleikanum til að afla tekna.

        7.4.3. Sótt um undanþágu.
             Lánþegi sem óskar eftir undanþágu frá endurgreiðslu námsláns, til lækkunar eða niðurfellingar, skal sækja um það á þar til gerðu umsóknareyðublaði og láta fylgja nákvæmar upplýsingar sem þar er óskað eftir. Umsókn um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Hafi ósk um undanþágu ekki borist sjóðnum fyrir þessi tímamörk er óheimilt að veita undanþágu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um sjóðinn.
             Ef veitt er undanþága frá endurgreiðslu S- og/eða V-láns hefur undanþágan ekki áhrif á fjölda endurgreiðsluára, þ.e. endurgreiðslutíminn lengist sem nemur undanþágutímanum. Vegna undanþágu frá fastri afborgun árið 2010 er miðað við að útsvarstekjur lánþega (ef G-lán, þá útsvarstekjur að viðbættum fjármagnstekjum) árið 2009 hafi verið lægri en kr. 4.000.000 (upphæð uppfærð 10. mars 2009) og að möguleikar til að afla tekna séu skertir, sbr. ástæður í grein 7.4.1.

     d.      Frysting námslána til þriggja ára.
             Nýtt tímabundið úrræði (frá 12. mars 2010) fyrir lántaka sem þegar eru með algjöra frystingu á lánum sínum hjá viðskiptabanka (bönkum), í skuldaaðlögun eða með mat frá umboðsmanni skuldara þar sem fram kemur að greiðslugeta sé það slæm að grípa þurfi til sértækra úrræða hjá kröfuhöfum. Frysting getur orðið frá og með árinu 2009, ef um eldri vanskil er að ræða þarf að ganga frá þeim fyrst. Senda þarf yfirlýsingu frá viðskiptabanka og/eða tillögu frá umboðsmanni skuldara sem staðfestir að um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða.

     e.      Vanskil.
             Ef afborgun er ekki greidd fyrir eða á eindaga, leggst viðbótarkostnaður á skuldina. Dráttarvextir eru reiknaðir frá gjalddaga og gjald er lagt á fyrir innheimtuviðvörun samkvæmt heimild í reglugerð. Komi til milliinnheimtu og lögmannsinnheimtu hækkar enn kostnaðurinn. Sjóðurinn hvetur því lánþega til að standa í skilum. Eindagi reglubundinna afborgana er að jafnaði þriðja virka dag eftir gjalddaga. Séu ekki gerð skil er ítrekun með viðvörun um milliinnheimtu send greiðanda um 20 dögum eftir gjalddaga og til greiðanda og ábyrgðarmanna um 45 dögum eftir gjalddaga. Séu enn ekki gerð skil fer krafan í milliinnheimtu 60 dögum eftir eindaga kröfu og leggur Intrum á gjald samkvæmt heimildum í reglugerð. Sé krafa í milliinnheimtu skulu greiðendur snúa sér til Intrum vegna greiðslu. Intrum hefur heimild til að semja um greiðslu til allt að sex mánaða. Reynist innheimta enn árangurslaus fer krafan áfram til lögmannsinnheimtu. Sé hins vegar afborgun í greiðsludreifingu hjá LÍN og hafi skil ekki verið gerð um tíu dögum eftir eindaga síðustu dreifikröfunnar er ítrekun send lánþega og ábyrgðarmanni. Séu enn ekki gerð skil er lánþega og ábyrgðarmanni send ítrekun með viðvörun um lögmannsinnheimtu. Reynist skuldin ógreidd að gefnum fresti liðnum fer skuldin til lögmannsinnheimtu. Sé skuld í lögmannsinnheimtu skulu greiðendur snúa sér til viðkomandi lögmannsstofu vegna greiðslu. Lögmenn hafa heimild til að semja við greiðendur og ef um veruleg vanskil er að ræða er hægt að útbúa sérstakt vanskilaskuldabréf sem fer síðan í innheimtu til Landsbanka Íslands. Ef krafa á hendur lánþega er óuppgerð í innheimtu hjá lögmönnum þegar ný afborgun kemur á gjalddaga fer nýja krafan beint til lögmanna og gefst greiðendum kostur á að gera upp vanskil sín gagnvart LÍN í heild hjá lögmönnum án milligöngu LÍN.
             Markaðskjaralán, vanskilaskuldabréf eða skuldabréf vegna ofgreiddra lána eru í innheimtu hjá Landsbanka Íslands. Unnið er að því að hægt verði að sækja um skilmálabreytingu til Landsbanka Íslands samkvæmt sérstakri heimild LÍN.