Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 299  —  118. mál.




Svar



forseta Alþingis við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um starfsmannaveltu á Alþingi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er fjöldi stöðugilda lögfræðinga hjá Alþingi sl. 10 ár samanborið við fjölda stöðugilda annarra sérfræðinga, sundurliðað eftir árum, menntun, sviðum og deildum?
     2.      Hver hefur starfsmannavelta lögfræðinga/nefndarritara Alþingis verið sl. 10 ár samanborið við starfsmannaveltu hjá öðrum sérfræðimenntuðum starfsmönnum?


    Af ýmsum ástæðum er erfitt að mæla starfsmannaveltu háskólamenntaðra starfsmanna, sem hér eftir verða nefndir sérfræðingar, hjá skrifstofu Alþingis. Heildarfjöldi sérfræðinga á öllum sviðum hefur vaxið á síðastliðnum árum og allmargir eru enn með stuttan starfsaldur hjá Alþingi. Mat á starfsmannaveltu væri auðveldara ef heildarfjöldi starfsmanna hefði verið stöðugur á viðmiðunarárunum og eins skipting þeirra á milli sviða.
    Undanfarin tíu ár hafa verið ráðnir margir nýútskrifaðir sérfræðingar til starfa hjá Alþingi. Það er viss ávísun á hreyfingu á starfsmannahaldi þar sem meira er um barnsburðarleyfi hjá ungum sérfræðingum og skammtímaráðningum þeim tengdum. Þensla á almennum vinnumarkaði ýtti jafnframt undir starfsmannaveltuna í vissum sérfræðistörfum hjá Alþingi og starfsreynsla þeirra þótti eftirsóknarverð á öðrum vettvangi.
    Í eftirfarandi töflu má sjá samtölur um heildarfjölda lögfræðinga og annarra sérfræðinga hjá Alþingi á sl. 10 árum ásamt upplýsingum um hlutfall lögfræðinga af heildarfjölda sérfræðinga. Ef litið er yfir tímabilið má sjá að fjölgun hefur verið bæði í hópi sérfræðinga og lögfræðinga.

Heildarfjöldi sérfræðinga (háskólamenntaðra starfsmanna) á skrifstofu Alþingis 2000–2009.

2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009
Heildarfjöldi sérfræðinga 37 39 43 46 48 54 55 57 57 62
Heildarfjöldi lögfræðinga 5 6 6 7 6 8 8 9 8 10
Hlutfall lögfræðinga 13,5% 15,4% 14,0% 15,2% 12,5% 14,8% 14,5% 15,8% 14,0% 16,1%

    Meðaltalsviðdvöl allra sérfræðinga í starfi frá upphafi til loka viðmiðunartímabilsins er 5,2 ár, miðað við að samfelldur starfstími geti mest orðið 10 ár. Skekkjan í þessum samanburði er að starfsmaður sem unnið hefur í 15 ár hjá stofnuninni og hættir árið 2001 fær einungis 1 ár í starfstíma samkvæmt fyrrnefndum stuðli. M.a. lækka nýráðnir sérfræðingar í nýjum störfum stuðulinn. Sem dæmi eru þrjú ný stöðugildi á nefndasviði til að efla þjónustu við stjórnarandstöðuna. Þrátt fyrir skekkju hefur stuðullinn samanburðargildi.
         Meðaltalsstarfsaldur á nefndasviði er samkvæmt þessari samantekt eftirfarandi:
    
Skjaladeild á nefndasviði 8,5
Alþjóðadeild á nefndasviði 4,4
Nefndadeild á nefndasviði 4,0

    Til viðmiðunar er sami stuðull hjá öðrum sviðum sem hér segir:

Upplýsinga- og útgáfusvið 6,3
Rekstrar- og þjónustusvið 6,2

Skrifstofa forseta 5,2
Nefndasvið (heild) 4,7
Tölvudeild 3,8
Fjármálaskrifstofa 3,6

    Það vekur athygli í þessum samanburði að minnsta starfsmannaveltan er í skjaladeild á nefndasviði og á upplýsinga- og útgáfusviði. Á þessum sviðum starfa margir sérfræðingar sem eru menntaðir íslenskufræðingar og meðallífaldur þeirra er hærri en á öðrum sviðum. Þessi atriði skýra að hluta þann stöðugleika (minni starfsmannaveltu) sem aðgreinir sviðin frá samanburðarhópunum ásamt því að fjölgun stöðugilda hefur verið minni á þessum sviðum en ýmsum öðrum sviðum hjá skrifstofu Alþingis.
    Fjórir nokkuð ólíkir hópar starfsmanna eru með stuðul undir 4,5 og má helst skýra meiri starfsmannaveltu í þeim með fyrrnefndum rökum, fjölgun starfa, ungir starfsmenn og eftirspurn eftir þeirra sérhæfingu. Ekki er þó hægt að draga marktækar samanburðarályktanir af þessum hópum sérfræðinga út frá tölunum þar sem miklar breytingar hafa orðið í samsetningu starfshópsins á viðmiðunartímanum.