Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 722. máls.

Þskj. 1246  —  722. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Orkustofnun og lögum
um Íslenskar orkurannsóknir.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, með síðari breytingum.
1. gr.

    6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    6. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 86/2003, um Íslenskar orkurannsóknir.
3. gr.

    Í stað orðanna „fimm menn“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: þrjá menn.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til annars vegar að orkuráð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, verði lagt niður og hins vegar að stjórnarmenn Íslenskra orkurannsókna verði þrír í stað fimm.
    Í samræmi við tillögur nefndar um endurskipulagningu Orkusjóðs, sem skipuð var með skipunarbréfi ráðherra frá júlí 2008 og skilaði skýrslu sinni og tillögum í mars 2011, er lagt til að orkuráð verði lagt niður. Í 6. gr. laga um Orkustofnun er kveðið á um orkuráð með eftirfarandi hætti: „Hjá Orkustofnun skal starfa orkuráð. Ráðherra skipar fimm menn í orkuráð til fjögurra ára í senn. Verkefni orkuráðs skulu m.a. fólgin í ráðgjöf við framkvæmd verkefna skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. og að gera tillögur um lánveitingar og greiðslur úr Orkusjóði. Um starfssvið orkuráðs skal nánar mælt í reglugerð.“
    Með þessari breytingu er lagt af hlutverk sérstaks orkuráðs um að vera ráðgefandi um starfsemi Orkustofnunar og almennt um orkumál. Ástæður þess eru annars vegar að Orkustofnun er stjórnað samkvæmt sérstökum árangursstjórnarsamningi við iðnaðarráðuneytið og hins vegar að aðkoma ríkisvaldsins að orkumálum hefur tekið miklum breytingum frá því að orkuráð var sett á laggirnar. Viðfangsefni orkuráðs hafa færst í ríkari mæli yfir í að meta tæknilega möguleika og útfærslur vegna þeirra verkefna sem Orkusjóður kemur að. Þessi tillaga kemur einnig til móts við þær athugasemdir Ríkisendurskoðunar að núverandi fyrirkomulag kunni að vera of kostnaðarsamt miðað við umfang verkefna orkuráðs og Orkusjóðs.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að verkefni orkuráðs færist yfir til Orkustofnunar og að nánar verði fjallað um framkvæmdina í árangursstjórnarsamningi iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lögð til sú breyting að stjórn Íslenskra orkurannsókna verði skipuð þremur mönnum í stað fimm manna, sbr. lög nr. 86/2003, um Íslenskar orkurannsóknir. Iðnaðarráðherra skipar stjórnarmenn og ákveður stjórnarlaun, eins og verið hefur. Hagræði fæst af því að skipa þrjá stjórnarmenn í stað fimm. Íslenskar orkurannsóknir eru B- hluta stofnun sem aflar allra tekna sinna á markaði. Nýtur stofnunin því nokkurrar sérstöðu. Stjórn Íslenskra orkurannsókna hefur, lögum samkvæmt, á hendi stjórn stofnunarinnar og samþykkir fjárhagsáætlun hennar og starfsáætlun fyrir eitt ár í senn. Stjórnin gegnir því mikilvægu hlutverki og ekki er því lagt til að hún verði lögð niður en hins vegar er í hagræðingarskyni lagt til að fækkað verði í henni um tvo stjórnarmenn.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun. Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir. Nánar er vísað til kostnaðarumsagnar um frumvarpið.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og lögum um Íslenskar orkurannsóknir.

    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að orkuráð verði lagt niður og hins vegar að stjórnarmönnum í Íslenskum orkurannsóknum verði fækkað úr fimm í þrjá. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að verkefni orkuráðs færist yfir til Orkustofnunar og að nánar verði fjallað um framkvæmdina í árangursstjórnunarsamningi milli iðnaðarráðuneytis og stofnunarinnar. Einnig kemur þar fram að með fækkun í stjórn Íslenskra orkurannsókna sé leitast við að ná fram hagræðingu í rekstri stofnunarinnar.
    Í fyrra námu þóknanir vegna orkuráðs 0,4 m.kr. Verði frumvarpið að lögum mun sá kostnaður Orkusjóðs falla niður. Fjárreiður Orkusjóðs tilheyra C-hluta fjárlaga en stofnunin fær rekstrarstyrk úr A-hluta ríkissjóðs sem nemur 30,2 m.kr. í fjárlögum 2011. Ekki er gert ráð fyrir að breyting verði á því framlagi í tengslum við lögfestingu á þessu frumvarpi.
    Í fyrra námu þóknanir til stjórnarmanna í Íslenskum orkurannsóknum 3,6 m.kr. að meðtöldum launatengdum gjöldum. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að árlegur kostnaður við yfirstjórn Íslenskra orkurannsókna geti lækkað um 1,2 m.kr. Fjárreiður Íslenskra orkurannsókna tilheyra B-hluta fjárlaga. Stofnunin fær ekki rekstrarstyrk úr ríkissjóði en starfar á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði og aflar sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum eða öðrum verkefnum á starfssviði sínu.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs.