Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 866. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1591  —  866. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Frá allsherjarnefnd.



    Alþingi ályktar að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er leiti sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots íslenskra sparisjóða. Þá leggi nefndin mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um starfsemi sparisjóða á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.
    Nefndin skal í þessu skyni:
     a.      Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu m.a. til gjaldþrots margra þeirra og endurfjármögnunar annarra.
     b.      Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, aukning stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár og hlutafélagavæðing þeirra, svo og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.
     c.      Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.
     d.      Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti og endurskoðun hjá sparisjóðunum og hvernig niðurstöðum eftirlitsaðila var fylgt eftir.
     e.      Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir á.
     f.      Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
     g.      Skila forseta Alþingis skýrslu eigi síðar en 1. september 2012 um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að forsætisnefnd Alþingis verði falið að skipa þriggja manna nefnd til að rannsaka starfsemi íslenskra sparisjóða í samræmi við frumvarp til laga um rannsóknarnefndir sem allsherjarnefnd hefur afgreitt og lagt til að verði samþykkt sem lög um rannsóknarnefndir. Lagt er til að rannsóknarnefndin skili skýrslu til forseta Alþingis eigi síðar en 1. september 2012.
    Tillagan er unnin upp úr frumvarpi til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna (þskj. 926, 548. mál) sem byggist á lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, nr. 142/2008, og er til meðferðar í allsherjarnefnd.
    Á síðasta löggjafarþingi voru tvær tillögur til þingsályktunar fluttar í þeim tilgangi að hefja rannsókn á aðdraganda falls nokkurra íslenskra sparisjóða (þskj. 1033, 603. mál og þskj. 1537, 705. mál). Hinn 28. september 2010 samþykkti Alþingi ályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010, þ.e. þá síðarnefndu, þar sem meðal annars er kveðið á um að á vegum Alþingis skuli fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls og að í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna.

Sparisjóðirnir.
    Í mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir rekstur SPRON og Sparisjóðabankans, þjónustubanka sparisjóða um allt land. Allar innstæður viðskiptavina SPRON og nb.is voru færðar til Arion banka og gefið út skuldabréf sem var tryggt með veði í öllum eignum SPRON. 22. júlí 2009 skipaði Fjármálaeftirlitið bráðabirgðastjórn yfir Sparisjóði Mýrasýslu, en sjóðurinn hafði þá átt í miklum erfiðleikum í lengri tíma. Mánuðina fyrir bankahrunið 2008 höfðu verið uppi hugmyndir um að Kaupþing legði til nýtt stofnfé í sparisjóðinn og eignaðist 70% eignarhlut í honum, aðrir fjárfestar legðu fram frekara stofnfé og færu með um 10% eignarhlut en Borgarbyggð héldi um 20% eignarhlut. Þær áætlanir náðu ekki fram að ganga fyrir hrunið í október 2008. Í apríl 2009 tók Nýja Kaupþing yfir lánasafn Sparisjóðs Mýrasýslu og varð jafnframt eigandi meiri hluta stofnfjár þriggja norðlenskra sparisjóða, þ.e. sparisjóða Siglufjarðar og Skagafjarðar, sem saman mynda Afl sparisjóð, og Sparisjóð Ólafsfjarðar. Stofnfé þessara sparisjóða hafði áður verið að mestu í eigu Sparisjóðs Mýrasýslu.
    23. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir starfsemi Byrs – sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík. Þær ákvarðanir voru teknar eftir að stjórnir sjóðanna höfðu farið fram á að Fjármálaeftirlitið tæki yfir starfsemi þeirra þar sem samningaviðræðum við kröfuhafa lauk án árangurs. Í byrjun árs 2011 lauk svo endurfjármögnun Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis þar sem ríkið endurfjármagnaði og tók yfir meiri hluta stofnfjár sjóðanna.
    Af þessu má sjá að sparisjóðirnir hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum í undangengnum áföllum á fjármálamörkuðum heimsins og voru merki þess orðin ljós fyrir október 2008 og setningu neyðarlaganna. Bankasýsla ríkisins hefur komið að endurfjármögnun þessara sjóða samkvæmt heimild í lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
    Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Rannsóknarnefnd um sparisjóði.
    Með tillögunni er lagt til að skipuð verði þriggja manna rannsóknarnefnd er leita skal sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots íslenskra sparisjóða. Einnig er lagt til að rannsóknarnefndin leggi mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um starfsemi sparisjóða á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Verkefni nefndarinnar.
    Verkefni nefndarinnar eru afmörkuð í tillögugreininni:
     a.      Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir rekstrarerfiðleika íslenskra sparisjóða sem leiddu m.a. til gjaldþrots margra þeirra og endurfjármögnunar annarra.
     b.      Meta starfshætti sparisjóðanna á undanförnum árum og varpa ljósi á hverjar séu helstu orsakir mismunandi árangurs rekstrar þeirra. Meðal annars verði fjármögnun og útlánastefna þeirra skoðuð, eignarhald, aukning stofnfjár, greiðslur arðs, kaup og sala stofnfjár og hlutafélagavæðing þeirra, svo og aðrir þættir sem kunna að skipta máli.
     c.      Gera úttekt á lagaramma og öðru starfsumhverfi sparisjóðanna og bera saman við starfsumhverfi sambærilegra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum.
     d.      Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti og endurskoðun hjá sparisjóðunum og hvernig niðurstöðum eftirlitsaðila var fylgt eftir.
     e.      Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera sparisjóðum kleift að starfa á þeim samfélagslegu og rekstrarlegu forsendum sem þeir voru stofnaðir á.
     f.      Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
     g.      Skila forseta Alþingis skýrslu eigi síðar en 1. september 2012 um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

    Nefndin telur mikilvægt að í rannsókninni verði farið töluvert aftur í tímann og skoðaðar breytingar á lagaumhverfi sparisjóðanna og rekstrarformi þeirra sem og ákvarðanir eftirlitsaðila og túlkun þeirra á gildandi reglum um starfsumhverfi þeirra. Eru því lögð til skýr markmið og lýsing á verkefnum rannsóknarnefndarinnar í tillögugreininni. Nauðsynlegt er að metið verði hvaða áhrif framangreint hafi haft á stöðu sparisjóðanna og rekstur almennt og jafnframt með tilliti til þeirra samfélagssjónarmiða sem þeir störfuðu eftir. Rannsóknin á því ekki að einskorðast við aðdraganda hrunsins í október 2008 heldur taka einnig til tímans eftir hrun enda eru áhrif hrunsins enn að koma í ljós hjá sparisjóðum um allt land.