Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 664. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1637  —  664. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar um stöðu atvinnulausra sem ekki eiga rétt á bótum.

     1.      Hversu margir eru á atvinnuleysisskrá sem eiga ekki rétt á bótum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru samtals 48 manns á skrá hjá Vinnumálastofnun sem atvinnuleitendur sem eru ekki jafnframt tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

     2.      Hversu lengi hafa þeir einstaklingar verið á skrá?
    Fimmtán atvinnuleitendur sem ekki eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafa verið á skrá hjá Vinnumálastofnun skemur en eitt ár en þar af hafa ellefu verið skráðir skemur en sex mánuði. Sjö atvinnuleitendur hafa verið á skrá í eitt til tvö ár, sjö í tvö til þrjú ár og sjö í þrjú til fjögur ár. Átta atvinnuleitendur hafa verið á skrá lengur en fjögur ár en upplýsingar vantar um fjóra einstaklinga.

     3.      Hvaða vinnumarkaðsúrræði bjóðast þessu fólki?
    Markmið laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Samkvæmt lögunum er atvinnuleitendum á aldrinum 16 til 70 ára heimilt að sækja um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum til Vinnumálastofnunar en tekið er fram að umsókn feli í sér skráningu hjá vinnumiðlun stofnunarinnar og beiðni um aðstoð ráðgjafa stofnunarinnar við atvinnuleitina, sbr. 7. gr. laganna. Enn fremur kemur fram í lögunum að Vinnumálastofnun skuli aðstoða alla á aldrinum 16 til 70 ára sem hafa heimild til að ráða sig til starfa hér á landi án takmarkana við atvinnuleit, sbr. 10. gr. laganna. Vinnumiðlun Vinnumálastofnunar er því öllum opin sem vilja nýta sér hana óháð því hvort einstaklingarnir eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða ekki.
    Samkvæmt 11. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir er gert ráð fyrir að hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar fari fram mat á vinnufærni atvinnuleitanda og honum gefinn kostur á að taka þátt í einstökum vinnumarkaðsúrræðum. Vinnumálastofnun annast skipulag vinnumarkaðsúrræða sem skiptast í sex flokka: einstök námskeið, starfsúrræði, ráðgjöf samhliða námskeiðsþátttöku og reynsluráðningu, námsúrræði, atvinnutengda endurhæfingu og atvinnutengda endurhæfingu einstakra hópa, sbr. 12. gr. laganna.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um vinnumarkaðsaðgerðir var það undirliggjandi markmið við setningu laganna að leitast „við að koma í veg fyrir að þær vinnumarkaðsaðgerðir sem í boði eru takmarkist við einstök greiðslukerfi en miði í staðinn við þarfir einstaklinganna sem þurfa á þeim að halda“. Áhersla var lögð á getu einstaklinganna þannig að litið yrði á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur og að þeir hinir sömu sem þyrftu á aðstoð að halda til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði gætu óskað eftir þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum á vegum stofnunarinnar.
    Lögin um vinnumarkaðsaðgerðir gera jafnframt ráð fyrir að í einstökum greiðslukerfum sem ætlað er að tryggja framfærslu einstaklinga meðan á atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum stendur sé unnt að taka mið af árangri vinnumarkaðsaðgerða. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins, er varð að 15. gr. laganna, kemur meðal annars fram að „[þ]annig getur ákveðinn hvati falist í því að tengja rétt atvinnuleitanda til fjárhagsaðstoðar úr einstökum greiðslukerfum við þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum í því skyni að tryggja virka þátttöku í úrræðunum. Með þeim hætti er leitast við að auka líkur á árangri vinnumarkaðsaðgerða“. Náin tengsl hafa skapast að þessu leyti milli vinnumarkaðsaðgerðakerfisins og atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. einnig lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.
    Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir að kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni er jafnframt gert ráð fyrir að leita skuli eftir samstarfi við aðra aðila um fjármögnun, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins, er varð að 4. gr. laganna, kemur jafnframt fram að gert sé „ráð fyrir að einstök greiðslukerfi kunni að koma að fjármögnun vinnumarkaðsúrræða vegna þátttöku skjólstæðinga þeirra samkvæmt þjónustusamningum“.
    Vinnumálastofnun annast fjárvörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs og framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Samkvæmt 62. gr. sömu laga er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita styrki vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum um atvinnuleysistryggingar í vinnumarkaðsaðgerðum, þar á meðal í starfsþjálfunarúrræðum. Í athugasemdum við 62. gr. frumvarpsins, er varð að 62. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar, kemur fram að gert sé „ráð fyrir að meginreglan verði sú að vinnumarkaðsaðgerðir verði fjármagnaðar úr ríkissjóði enda réttur fólks til þátttöku í slíkum úrræðum óháður rétti þeirra til framfærslu úr einstökum kerfum“. Síðan segir engu síður að til þess geti komið „að einstök framfærslukerfi þurfi að veita sérstaka styrki til vinnumarkaðsaðgerða óski þau eftir að rétthafar úr þeim kerfum taki þátt í einstökum úrræðum. Er þátttaka hins tryggða í hlutaðeigandi vinnumarkaðsúrræðum þannig háð því að hlutaðeigandi framfærslukerfi greiði til verkefnisins. Má þetta oft rekja til þess að rekstrarkostnaður hlutaðeigandi úrræðis er nokkuð mikill en eigi síður þykir réttlætanlegt að bjóða upp á það. Er með þessu jafnframt verið að stuðla að ákveðnum tengslum milli þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og þess að eiga rétt á greiðslum sér og sínum til framfærslu“. Þá kemur einnig fram að þetta fyrirkomulag eigi sérstaklega við um „starfsþjálfunarúrræði er vinnuveitandi gerir samning um að taka hinn tryggða í starfsþjálfun með það að skilyrði að hann greiði hinum tryggða laun samkvæmt gildandi kjarasamningum og hann fái greitt mótframlag er jafngildir fjárhæð atvinnuleysisbóta“.
    Reyndin hefur hins vegar verið sú að þrátt fyrir að lögin um vinnumarkaðsaðgerðir geri ráð fyrir að meginreglan hafi átt að vera sú að kostnaður við vinnumarkaðsaðgerðir væri greiddur úr ríkissjóði hafa vinnumarkaðsaðgerðir sem Vinnumálastofnun hefur boðið upp á eingöngu verið fjármagnaðar úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt fjárlögum síðustu ára, sbr. einnig 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Þar af leiðandi hafa eingöngu þeir atvinnuleitendur sem teljast tryggðir samkvæmt þeim lögum átt rétt á þátttöku í þeim vinnumarkaðsaðgerðum enda eingöngu heimilt skv. 62. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar að veita styrki til þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum. Þannig gerðu fjárlög ársins 2010 ráð fyrir að kostnaður vegna almenns rekstrar Vinnumálastofnunar væri 980 millj. kr. en þar af væru greiddar 213,7 millj. kr. úr ríkissjóði og 578,9 millj. kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna umsýslukostnaðar stofnunarinnar með sjóðnum. Enn fremur var áætlaður kostnaður vegna vinnumarkaðsúrræða 912 millj. kr. á árinu 2010 sem greiddist úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hið sama á við um fjárlög fyrir árið 2011. Þar er gert ráð fyrir að kostnaður vegna almenns rekstrar Vinnumálastofnunar verði 971 millj. kr. en þar af verði greiddar 196,5 millj. kr. úr ríkissjóði og 582,6 millj. kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna umsýslukostnaðar stofnunarinnar með sjóðnum. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður vegna virkra vinnumarkaðsaðgerða á árinu 2011 verði 857 millj. kr. sem greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í tengslum við fjármögnun vinnumarkaðsaðgerða hjá Vinnumálastofnun hefur þannig í fjárlögum ekki verið gert ráð fyrir að aðrir en þeir sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti nýtt sér vinnumarkaðsúrræðin.
    Öðrum greiðslukerfum sem ætlað er að tryggja framfærslu atvinnuleitenda sem ekki eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins stendur til boða að greiða fyrir þátttöku þessara atvinnuleitenda í vinnumarkaðsúrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, og eiga þá þeir atvinnuleitendur jafnframt kost á að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum stofnunarinnar. Hefur stofnunin meðal annars gert samning við Reykjavíkurborg þar sem leitast verður við að ná samkomulagi um kostnaðarskiptingu milli Vinnumálastofnunar annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsúrræðum enda sé um að ræða atvinnuleitendur sem ekki eiga rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins og Reykjavíkurborg er ætlað að tryggja framfærslu.
    Þá eru í gildi samningar ríkisins við starfsendurhæfingarmiðstöðvar sem og aðra þjónustuaðila á vettvangi starfsendurhæfingar. Þangað er einstaklingum sem þurfa á verulegri aðstoð að halda við að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði vísað frá heilsugæslu, félagsþjónustu og Vinnumálastofnun. Þeir samningar eru fjármagnaðir úr ríkissjóði enda þótt ákveðin óvissa hafi ríkt um þá fjármögnun vegna niðurskurðar í opinberum ríkisrekstri. Þau úrræði hafa staðið öllum opin sem á þeim hafa þurft að halda samkvæmt mati fagaðila.
    Mál þessi hafa verið um nokkurt skeið til skoðunar hjá stjórnvöldum í samvinnu við ýmsa aðila án þess að fundin hafi verið viðunandi lausn á skipulagi þeirra. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði kemur fram að almennt samkomulag sé um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar svo stuðla megi að þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Draga þurfi markvisst úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði, meðal annars með því að bregðast við áður en fólk hverfur úr störfum sínum með virkri heilsuvernd á vinnustöðum, þar á meðal forvörnum. Þýðingarmikið er að atvinnulífið í heild komi að þeirri uppbyggingu ásamt stjórnvöldum og lífeyrissjóðum, en þegar greiðir stór hluti launagreiðenda 0,13% iðgjald til Starfsendurhæfingarsjóðs á grundvelli kjarasamninga.
    Velferðarráðherra mun skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011 þar sem miðað verði við jafna kostnaðarskiptingu í þrjá hluta. Útfæra þarf aðkomu ríkisvaldsins varðandi faglegar útfærslur og samspil starfsendurhæfingar tengdri vinnumarkaði og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Verður nefndinni meðal annars falið að fjalla um rétt allra til virkra vinnumarkaðsaðgerða, þar á meðal atvinnutengdrar endurhæfingar, og þá einnig hvernig unnt verði að tryggja fjármögnun slíkra úrræða með viðunandi hætti.

     4.      Eru þau úrræði frábrugðin þeim sem bjóðast fólki sem á rétt á bótum? Ef svo, hvers vegna?
    Vísað er til svars við 3. tölul.