Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 844. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1669  —  844. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um sýklalyfjanotkun.

     1.      Hversu mikið hefur notkun sýklalyfja breyst á Íslandi frá árinu 1990?
    Vel er fylgst með sölu sýklalyfja hér á landi. Frá árinu 1993 hefur sala sýklalyfja verið nokkuð stöðug. Hún hefur mælst á bilinu 20–23 skilgreindir dagskammtar á dag á hverja 1.000 íbúa. Minnst var salan á árunum 2000–2003 en mest á árunum 2004–2008.
    Samanborið við hin Norðurlöndin hefur heildarsala sýklalyfja hér landi löngum verið áþekk heildarsölunni í Finnlandi. Árið 2009 var salan hér um 20% meiri en í Danmörku, um 12% meiri en í Noregi og um 50% meiri en í Svíþjóð.
    Talsverðar sveiflur eru á sölu einstakra flokka sýklalyfja hér á landi milli ára og sala þeirra mjög breytileg milli landa.
    Þá má geta þess að sala sýklalyfja hefur farið vaxandi á öllum hinum Norðurlöndunum síðustu árin nema á Íslandi og í Svíþjóð.
    Einnig er fylgst með ávísunum einstakra sýklalyfja og þróun notkunar á þeim.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að hafa áhyggjur af ofnotkun sýklalyfja hér á landi?
    Full ástæða er til að hafa áhyggjur af notkun sýklalyfja hérlendis og fylgjast vel með þróuninni.
    Öllum er ljóst að notkun sýklalyfja hefur valdið byltingu í meðferð alvarlegra og lífshættulegra sjúkdóma. Hins vegar lærðist mönnum fljótt að notkun sýklalyfja gat leitt af sér ónæmi og þol sýklanna fyrir lyfjunum. Þetta hefur leitt af sér að margar bakteríur eru nú orðnar vel þolnar gagnvart sýklalyfjum þannig að fólk hefur um færri lyf að velja. Nú er svo komið að til eru bakteríustofnar sem engin sýklalyf duga við og má í því sambandi til dæmis nefna suma stofna berklabakteríunnar.
    Ein skýring á útbreiðslu ónæmisins er mikil notkun sýklalyfja. Skynsamleg notkun sýklalyfja er því mjög nauðsynlegur þáttur í baráttunni við útbreiðslu ónæmra sýkla. Fræðsla og þekking er lykillinn að því að lyfin verði notuð rétt í þeirri baráttu og hefur margvíslegt verið gert á undanförnum árum hvað það varðar.
    Hér á landi er það lögum samkvæmt hlutverk sóttvarnalæknis að fylgjast með notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis. Sýklalyfjagrunnur hefur nýlega verið tekinn í gagnið og gefur hann áreiðanlegar upplýsingar um ávísanir á sýklalyf og auknar upplýsingar um heildarnotkun sýklalyfja. Einnig er fylgst vel með notkun sýklalyfja á stofnunum.
    Velferðarráðherra hefur skipað nefnd um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi til að vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til að hindra myndun ónæmis. Gefnar eru út ítarlegar skýrslur árlega um sölu og ávísanir á sýklalyf og fer nefndin yfir þær niðurstöður.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að náið samstarf er milli heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) um skynsamlega notkun sýklalyfja og baráttu við að halda sýklalyfjaónæmi í skefjum. Í nóvembermánuði á hverju ári er haldinn dagur vitundarvakningar um ábyrga sýklalyfjanotkun í Evrópu. Í samvinnu við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina hefur sóttvarnalæknir staðið fyrir fræðsluaðgerðum í fjölmiðlum um sýklalyf.
    Á Íslandi er þannig hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Lögð er áhersla á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni. Einnig er fylgst með notkun sýklalyfja innan stofnana og utan í því skyni að greina þróunina og hvernig hún tengist myndun sýklalyfjaónæmis. Upplýsingar um notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi geta gagnast læknum sem ávísa þessum lyfjum. Í samvinnu við lækna og læknasamtök hefur sóttvarnalæknir einnig unnið að aðgerðum sem miða að bættri notkun sýklalyfja. Árangur þessara aðgerða verður metinn með tilliti til þess hvort aðgerðirnar megi nýta almennt á landsvísu.
    Á undanförnum árum hefur nokkur árangur náðst við að beina notkun sýklalyfja meðal barna og ungmenna á betri veg.