Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 484  —  236. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um aðgerðir gegn einelti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur ráðherra framfylgt tillögum sem koma fram í „Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum“ frá júní 2010?

    Í byrjun maí 2009 var settur á laggirnar óformlegur starfshópur með aðkomu þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarráðuneytis og þáverandi heilbrigðisráðuneytis ásamt Lýðheilsustöð. Hópnum var falið það verkefni að kortleggja með heildstæðum hætti umfang eineltis, framkvæma nauðsynlega greiningu og koma með tillögur að lausnum.
    Hópurinn sendi í júní 2010 frá sér greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum en í inngangi greinargerðarinnar kemur meðal annars fram að vegna umfangs málsins hafi verið tekin ákvörðun um að afmarka umfjöllunina við stöðu eineltismála í skólum landsins og á vinnustöðum.
    Fram kemur í umræddri greinargerð að henni sé skipt upp í þrennt. Í fyrsta lagi séu tilgreindar almennar aðgerðir gegn einelti, í öðru lagi séu tilgreindar sérstakar aðgerðir sem snúa að skólum og loks sé um að ræða tillögur um aðgerðir á vinnustöðum.
    Ein af þeim tillögum sem fram koma í greinargerðinni er að skipuð verði verkefnisstjórn um einelti. Í því sambandi ber að geta þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði 28. október 2010 verkefnisstjórn þar sem í eiga sæti fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að fylgja eftir þeim tillögum að aðgerðum gegn einelti sem fram koma í þeirri greinargerð sem hér um ræðir auk þess að ráðstafa því opinbera fjármagni sem ætlað hefur verið til umræddra aðgerða.
    Í desember 2010 auglýsti verkefnisstjórnin laust til umsóknar 50% starf verkefnisstjóra en um var að ræða starf í eitt ár í tilraunaskyni. Fjölmargar umsóknir bárust og tók ráðningarferlið langan tíma en í byrjun maí 2011 var gengið frá ráðningunni. Hlutverk verkefnisstjórans var að vinna fyrir verkefnisstjórn ásamt því að hafa umsjón með og fylgja eftir þeim verkefnum sem verkefnisstjórnin vildi að framkvæmd yrðu. Verkefnisstjórinn hóf þá þegar störf við undirbúning ýmissa verkefna sem fram koma í greinargerðinni. Verkefnisstjórinn lét af störfum í ágúst 2011 en í september var annar starfsmaður ráðinn til að starfa með verkefnisstjórninni.
    Hér á eftir verður farið yfir þau atriði fyrrnefndrar greinargerðar þar sem velferðarráðuneytið, áður félags- og tryggingarmálaráðuneytið annars vegar og heilbrigðisráðuneytið hins vegar, og stofnanir þess hafa verið skilgreind sem ábyrgðaraðilar, ýmist eingöngu eða ásamt fleiri aðilum. Um er að ræða eftirfarandi tillögur:

Úr V. kafla greinargerðarinnar: Almennar aðgerðir gegn einelti.


1. Skýrt verklag við úrlausn erfiðra eineltismála.
    Ábyrgðaraðili: Vinnueftirlit ríkisins.

    Staða:
Ekki til reglur um skyldur þjónustuaðila í eineltismálum. Gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun reglna í tengslum við einelti á vinnustöðum, sem skipuð var af velferðarráðherra 2. september 2011, muni taka til umfjöllunar hvort rétt sé að lögfesta slíkar reglur.
    Í greinargerðinni er tekið fram að því miður sé það of algengt að þjónustuaðilar séu ekki fengnir til að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti í samræmi við reglugerð nr. 1000/2004 heldur sé eingöngu lögð áhersla á að rannsaka eineltismál og leita að sekt eða sakleysi þeirra sem aðild eiga að málinu. Í erfiðum eineltismálum hafi Vinnueftirlitið gert kröfu um að vinnustaðurinn fái þjónustuaðila í vinnuvernd til að aðstoða við gerð áhættumats, mótun stefnu og viðbragðsáætlunar gegn einelti ásamt skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði í samræmi við reglugerðir og enn fremur að freista þess að finna leiðir til að leysa vandamál sem upp séu komin.
    Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að mikilvægt sé að finna leiðir til að tryggja að þjónustuaðilarnir leggi áherslu á að aðstoða við framangreint á vinnustöðum og að hægt sé að fylgja eftir aðgerðum til lausnar í erfiðum málum.
    Í umræðum um eineltismál á undanförnum missirum hefur margoft verið bent á nauðsyn þess að kveðið sé á um skyldur þjónustuaðila í löggjöf en slíkar lögfestar reglur eru ekki fyrir hendi. Gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun reglna í tengslum við einelti á vinnustöðum, sem skipuð var af velferðarráðherra 2. september 2011, muni taka til umfjöllunar hvort rétt sé að setja slíkar reglur.
    
2. Stuðningur við þolendur eineltis.
    Ábyrgðaraðilar: Velferðarráðuneyti og heilsugæslustöðvar út um land allt.

    Staða:
Vinna hafin við að koma þessari aðgerð í framkvæmd.
    Fram kemur í greinargerðinni að nauðsynlegt sé að þolendur geti leitað aðstoðar og stuðnings vegna afleiðinga eineltis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi með sem minnstum kostnaði. Því sé með þessari aðgerð sem hér um ræðir gert ráð fyrir að skoðað verði hvort unnt sé að veita stuðning við þolendur á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem tilraunaverkefni frá 1. júní 2011 til 1. júní 2013.
    Unnið er að því að koma þessari aðgerð í framkvæmd en hún hefur meðal annars verið kynnt stjórn heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tekið hefur vel í hugmyndina.

3. Samvinna verði aukin um forvarnir og aðgerðir gegn einelti.
    Ábyrgðaraðilar: Velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    Staða:
Vinna við forvarnaráætlun ekki hafin.
    Í greinargerðinni kemur fram að einelti sé alvarlegt samfélagsvandamál sem best verði tekist á við með samstilltum aðgerðum vinnustaða, stofnana og félagasamtaka. Enn fremur sé mikilvægt að skoða hlutverk og aðkomu stéttarfélaga að eineltismálum og auka samstarf þeirra um þennan málaflokk. Þá muni ráðuneytin stilla saman strengi og beina tilmælum til að leiðbeina stofnunum sem undir þau heyra um forvarnir og forvarnaráætlanir.
    Samkvæmt greinargerðinni er gert ráð fyrir að mótuð verði forvarnaráætlun með vel skilgreindum markmiðum og leiðum að þeim auk þess sem ráðuneytin muni á árinu 2012 standa að könnun á árangri þess forvarnarstarfs sem unnið hefur verið.
    Forvarnarstarf hefur á undanförnum missirum verið með ýmsum hætti. Fyrrnefnd forvarnaráætlun hefur þó enn ekki verið unnin en stefnt er að því að hefja þá vinnu eins fljótt og kostur er. Í þessu sambandi ber jafnframt að geta þess að í forvarnarskyni hefur Vinnueftirlit ríkisins ásamt Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, embætti landlæknis, Kennarasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins staðið að útgáfu veggspjalds, 10 ráð til að vinna gegn einelti á vinnustöðum, sem eftirlitsmenn Vinnueftirlits ríkisins hafa meðal annars dreift í eftirlitsheimsóknum til fyrirtækja.

4. Einn dagur árlega tileinkaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
    Ábyrgðaraðilar: Velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

     Staða: Þriðjudagurinn 8. nóvember 2011 var tileinkaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
    Í greinargerðinni er lagt til að ríkisstjórn Íslands taki ákvörðun um að einn dagur á ári verði tileinkaður baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu og aðgerðum gegn einelti. Jafnframt er lagt til að skipuð verði sérstök verkefnisstjórn með aðkomu hagsmunaaðila til að undirbúa daginn ár hvert. Fram kemur að meginmarkmiðið með slíkum degi sé að skapa umræður í samfélaginu um mikilvægi þess að móta samfélag þar sem einelti fái ekki þrifist og kynna vel heppnaðar aðgerðir í því skyni
    Í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins 1. júlí 2010 kemur fram að ríkisstjórnin hafi samþykkt að styðja sérstaklega við þær aðgerðir sem koma fram í umræddri greinargerð (http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr/5528). Þá kemur fram í frétt á heimasíðu velferðarráðuneytisins 2. nóvember 2011 að verkefnisstjórn aðgerða gegn einelti hafi ákveðið að standa að sérstökum degi gegn einelti 8. nóvember 2011 (http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33080). Í tilefni þessa dags undirrituðu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar auk borgarstjóra Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti. Við undirritunina voru jafnframt afhent gul armbönd sem gerð voru í tilefni dagsins og báru yfirskriftina Jákvæð samskipti. Í kjölfar undirskriftarinnar var armböndunum dreift til almennings eftir því sem upplagið entist. Í tilefni dagsins var enn fremur opnuð heimasíðan www.gegneinelti.is en þar gefst fólki kostur á að undirrita fyrrnefndan þjóðarsáttmála.

7. Rannsóknir/gagnaúrvinnsla til að greina áhrif mismununar, fordóma og eineltis á samfélagið.
    Ábyrgðaraðilar: Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vinnueftirlit ríkisins og Lýðheilsustöð.

    Staða:
Þessi aðgerð hefur enn ekki komið til framkvæmda.
    Í greinargerðinni er gert ráð fyrir að með þessari aðgerð verði á árunum 2011 og 2012 tilteknir aðilar hvattir til að nýta sér fyrirliggjandi rannsóknir og gagnabanka til þess að greina þau gögn sem eru aðgengileg hjá ýmsum aðilum.
    Þessi aðgerð hefur enn ekki komið til framkvæmda en stefnt er að því að hrinda henni í framkvæmd eins fljótt og auðið er.

8. Breytt hugtakanotkun.
    Ábyrgðaraðilar: Velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálráðuneyti.

    Staða:
Vinna hafin en um langtímaverkefni er að ræða.
    Í greinargerðinni kemur fram að mikilvægt sé að breyta orðræðunni og taka upp orðræðu sem byggist á því að draga fram það jákvæða með því að tala um hvernig megi auka velferð fólks, bæta skólabrag og stofnanamenningu, virðingu og umhyggju en ekki tala eingöngu um aðgerðir gegn einelti, heldur aðgerðir sem stuðlað geti að aukinni velferð og jafnrétti meðal fólks og aukinni vellíðan almennt.
    Gera verður ráð fyrir að einhvern tíma taki að hafa áhrif á umræðu um eineltismál með framangreindum hætti en vísi að þessari breyttu orðræðu má sjá í grein eftir velferðarráðherra sem birt var á heimasíðu velferðarráðuneytisins 9. nóvember 2011 (http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33089) sem og í texta þjóðarsáttmálans sem undirritaður var af velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar auk borgarstjóra Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga 8. nóvember 2011, degi sem var tileinkaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni á árinu 2011. Þjóðarsáttmálann má finna á vefslóðinni gegneinelti.is. Þar er jafnframt unnt að undirrita sáttmálann.

10. Stjórnun og skipulag aðgerða gegn einelti.
a. Stofnun starfshóps (verkefnisstjórnar) um einelti.
     Ábyrgðaraðilar: Velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og starfsmannaskrifstofa fjármálaráðneytis.

     Staða: Búið að skipa verkefnisstjórn.
    Í greinargerðinni er gerð sú tillaga að skipaður verði starfshópur með fulltrúum velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis í því skyni að stuðla að framgangi þeirra tillagna sem settar eru fram í greinargerðinni.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði verkefnisstjórn 28. október 2010 sem í eiga sæti fulltrúar framangreindra ráðuneyta, þar með talið velferðarráðuneytis. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að fylgja eftir þeim tillögum að aðgerðum gegn einelti sem fram koma í umræddri greinargerð auk þess að ráðstafa því opinbera fjármagni sem ætlað hefur verið til umræddra aðgerða.
    Í desember 2010 auglýsti verkefnisstjórnin laust til umsóknar 50% starf verkefnisstjóra en um var að ræða starf í eitt ár í tilraunaskyni. Fjölmargar umsóknir bárust og tók ráðningarferlið langan tíma en í byrjun maí 2011 var gengið frá ráðningunni. Hlutverk verkefnisstjórans var að vinna fyrir verkefnisstjórn ásamt því að hafa umsjón með og fylgja eftir þeim verkefnum sem verkefnisstjórnin vildi koma í framkvæmd. Verkefnisstjórinn hóf þá þegar störf við undirbúning ýmissa verkefna sem fram koma í greinargerðinni. Verkefnisstjórinn lét af störfum í ágúst 2011 en í september var annar starfsmaður ráðinn til að starfa með verkefnisstjórninni.

b. Kostnaður við framkvæmd verkefnisins.
    Ábyrgðaraðilar: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti.

    Staða: Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir 9 millj. kr. til verkefnisins.
    Fram kemur í greinargerðinni að heildarkostnaður við tillögurnar sé áætlaður um 9 millj. kr. á ári.
    Árið 2010 veitti ríkisstjórnin níu milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til þessa verkefnis og á fjárlögum fyrir árið 2011 voru 9 millj. kr. settar í þetta verkefni. Þá er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 gert ráð fyrir níu milljónum króna til verkefnisins.

11. Eineltisteymi – fagráð.
    Ábyrgðaraðilar: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti.

    Staða: Fagráði ekki enn verið komið á fót en vinna hafin.
    Í greinargerðinni er lagt til að komið verði á eineltisteymi eða fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til komi upp erfið og illleysanleg eineltismál og allt annað hafi verið reynt innan ramma gildandi laga og reglugerða.
    Vinna við að koma þessari aðgerð í framkvæmd er hafin. Framangreindu fagráði hefur þó enn ekki verið komið á fót en unnið hefur verið að mótun þess. Í því skyni hefur verkefnisstjórnin meðal annars kynnt sér starfsemi þeirra fagráða sem nú þegar eru starfandi á hinum ýmsu sviðum. Í því sambandi verður þó jafnframt að líta til þess að samkvæmt nýrri reglugerð nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, er gert ráð fyrir að foreldrar eða skólar geti óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfi á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrri ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu.

Úr VII. kafla greinargerðarinnar: Tillögur um aðgerðir á vinnustöðum.

6. Að vinnu við reglugerð um starf þjónustuaðila í vinnuvernd verði lokið.
    Ábyrgðaraðili: Velferðarráðuneyti.

    Staða: Reglugerð um viðurkenningu þjónustuaðila ekki enn verið sett en vinna á lokastigi.
    Í greinargerðinni er hvatt til þess að reglugerð um viðurkennda þjónustuaðila taki gildi sem fyrst.
    Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að reglugerð um viðurkenningu þjónustuaðila en reglugerð þessi verður sett á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Stefnt er að því að ljúka framangreindri vinnu fyrir lok árs 2011.
    Líkt og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að nefnd um endurskoðun reglna í tengslum við einelti á vinnustöðum, sem skipuð var af velferðarráðherra 2. september 2011, muni taka til umfjöllunar hvort rétt sé að kveða á um skyldur þjónustuaðila í löggjöf en slíkar lögfestar reglur eru ekki fyrir hendi.

7. Að reglugerð um einelti verði endurskoðuð.
    Ábyrgðaraðili: Velferðarráðuneyti.

    Staða: Nefnd að störfum sem hefur meðal annars það hlutverk að endurskoða reglur í tengslum við einelti á vinnustöðum.
    Í greinargerðinni kemur fram að nauðsynlegt sé í ljósi reynslunnar að reglugerð um einelti verði endurskoðuð. Í því sambandi verði sérstaklega horft til skýrari skilgreiningar á einelti sem og hlutverks þjónustuaðila og stöðu starfsmanna gagnvart aðgengi að upplýsingum sem þá snerta.
    Líkt og áður hefur komið fram skipaði velferðarráðherra nefnd um endurskoðun reglna í tengslum við einelti á vinnustöðum. Í skipunarbréfi kemur meðal annars fram að hlutverk nefndarinnar sé að endurskoða reglur í lögum og reglugerðum sem fjalla um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega áreitni. Nefnd þessi hefur hafið störf.

8. Að jafnréttislög, nr. 10/2008, verði endurskoðuð.
    Ábyrgðaraðili: Velferðarráðuneyti.

    Staða: Nefnd að störfum sem hefur meðal annars það hlutverk að endurskoða reglur í tengslum við kynferðislega áreitni.
    Í greinargerðinni kemur fram að skýrari ákvæði þurfi að vera í jafnréttislögum um aðgerðir vegna kynferðislegrar áreitni.
    Í skipunarbréfi fyrrgreindrar nefndar um endurskoðun reglna í tengslum við einelti á vinnustöðum kemur meðal annars fram að auk þess að endurskoða reglur í lögum og reglugerðum sem fjalla um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega áreitni, sé það hlutverk nefndarinnar að fjalla um þau álitaefni sem upp hafa komið í tengslum við einelti á vinnustöðum, þar á meðal samspil laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Því má gera ráð fyrir að umrædd nefnd muni taka til umfjöllunar þau ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er snúa að hvers konar ofbeldi á vinnustað, þar með talið einelti og kynferðislegri áreitni.