Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 644  —  308. mál.




Svar



fjármálaráðherra (SJS) við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


     1.      Hver var fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árunum 2005–2010?
    Í fylgigögnum nr. 1–6 (sbr. fylgiskjal), sem stafa frá framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er að finna upplýsingar um fjárfestingarstefnu sjóðsins fyrir árin 2005– 2010. Unnt er að afhenda fjárfestingarstefnur sjóðsins í heild sinni sé þess óskað.

     2.      Í hvaða íslenskum/erlendum fyrirtækjum keypti lífeyrissjóðurinn hluti á árinu 2008, flokkað eftir mánuðum frá janúar fram í október, og fyrir hvaða upphæðir?
    Svar við þessum lið fyrirspurnarinnar er að finna í fylgigagni nr. 7 (sbr. fylgiskjal), sem stafar frá framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Skjalið inniheldur yfirlit yfir innlend hlutabréfaviðskipti frá mánuði til mánaðar, þar sem fram kemur hvort sjóðurinn hafi verið nettó kaupandi eða nettó seljandi í viðkomandi fyrirtæki í hverjum mánuði fyrir sig.
    Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, að því er erlend hlutabréfaviðskipti varðar, hefur sjóðurinn einkum fjárfest í hlutabréfasjóðum en einnig að nokkru leyti í sérgreindum hlutabréfasöfnum. Á tímabilinu 2005–2010 nam sala erlendra hlutabréfa, umfram kaup, 580 millj. kr.

     3.      Hvað er talið að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi tapað mörgum milljörðum króna í bankahruninu?
    Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er erfitt að svara spurningunni með því að tilgreina tilteknar fjárhæðir þar sem enn eru til staðar óvissuþættir. Þá er í sumum tilvikum óljóst út frá hvaða forsendum reikna eigi tap sjóðsins. Til að leitast við að svara spurningunni listaði sjóðurinn stuttlega upp þá eignaflokka sem koma til skoðunar, sbr. hér að aftan.

Skuldabréf á fyrirtæki og lánastofnanir.
    Frá bankahruni hefur lífeyrissjóðurinn fært 40,7 milljarða á afskriftareikning, sem svarar til 13,3% af meðaleignum sjóðsins á þeim árum sem afskriftir voru færðar í reikning sjóðsins. Að hluta er um varúðarfærslur að ræða vegna óvissu um endurheimtur en að mestum hluta er um endanlega afskrift að ræða. Þar af eru afskriftir vegna taps á skuldabréfum á banka, sparisjóði og aðrar fjármálastofnanir 20,3 milljarðar. Vakin er athygli á að reglum um forgangsröð krafna var breytt með lagasetningu þegar innstæður voru settar í forgang fram yfir skuldabréfakröfur.

Lán til sjóðsfélaga.
    Lífeyrissjóðurinn hefur fært 1,1 milljarð kr. á afskriftareikning til að mæta mögulegu tapi vegna lánveitinga til sjóðsfélaga, eða sem nemur 0,32% af heildareignum sjóðsins.

Innlend hlutabréf.
    Erfiðast er að meta tap lífeyrissjóðsins af innlendum hlutabréfum. Þar skipta forsendur, aðferðafræði og tímasetning meginmáli. Á að horfa til þess á hvaða verði hlutabréf var keypt eða verð þess við hrun? Ef hlutabréf er keypt fyrir 100 kr. og markaðsverð þess hækkar í 1.000 kr. en fer í 0 kr. vegna gjaldþrots, er tapið þá 100 kr. eða 1.000 kr.?
    Frá árinu 2001–2007 var samfellt hækkunartímabil á innlendum hlutabréfamarkaði. Í ársbyrjun 2001 var innlend hlutabréfaeign sjóðsins 7,4 milljarðar kr. Í árslok 2007 var innlend hlutabréfaeign 48,3 milljarðar kr. Þrátt fyrir að hlutabréfaeign sjóðsins hafi aukist um 40,9 milljarða kr. var ekki sett viðbótarfjármagn í innlend hlutabréf heldur var sjóðurinn nettó seljandi á fjárhæð sem nam tæplega 2 milljörðum kr.
    Við hrun bankakerfisins og á næstu mánuðum þar á eftir varð stór hluti fyrirtækja á innlendum hlutabréfamarkaði gjaldþrota eða fór í nauðungarsamning. Ef horft er til markaðsverðs þeirra hlutabréfa sem sjóðurinn tapaði vegna þess, eins og það var í lok þriðja ársfjórðungs eða við fall bankanna, var tapið 26,6 milljarðar eða 8,4% af eignum sjóðsins á sama tíma.
    Eftir mitt ár 2008 bætti lífeyrissjóðurinn ekki viðbótarfjármagni við hlutabréfaeign sína heldur var eingöngu um innbyrðis skipti á milli hlutafélaga að ræða.

Erlend hlutabréf.
    Um það bil þriðjungur af eignum sjóðsins hefur verið í þessum eignaflokki. Þar er um að ræða hlutabréfasjóði eða sérgreind hlutabréfasöfn og hefur verð þessara safna sveiflast mikið en ekki er rétt að líta svo á að um tap sé að ræða.

Gjaldmiðlavarnir.
    Frá árinu 2001 hefur lífeyrissjóðurinn notast við gjaldmiðlavarnir vegna erlendra fjárfestinga. Meginforsenda gjaldeyrisstýringar sjóðsins var að jafna út flökt vegna styrkingar eða veikingar íslensku krónunnar og þar með að sveiflujafna ávöxtun milli ára. Í þessu sambandi er rétt að minna á að allar skuldbindingar sjóðsins eru í íslenskum krónum. Við fall bankanna varð algjör óvissa um afdrif þessara samninga. Sjóðurinn sem og aðrir lífeyrissjóðir hafa haldið því fram að fella eigi samningana niður vegna brostinna forsendna en skilanefndir gömlu bankanna hafa hins vegar beint kröfum að sjóðunum vegna þeirra. Er um að ræða óleyst ágreiningsmál.
    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur fært varúðarfærslur í reikning sjóðsins vegna þessara samninga að fjárhæð 18,5 milljarða kr. eða sem nemur 6,1% af meðaleignum sjóðsins á þeim árum sem varúðarfærslan var gerð. Verði þetta niðurstaðan er tapið tilkomið vegna veikingar krónunnar. Minnt er á að sú erlenda eign sem samningunum var ætlað að verja hefur að sama skapi hækkað vegna veikingar krónunnar.

Skuldabréf með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.
    Það hefur ekki komið til afskriftar hjá lífeyrissjóðnum vegna skuldabréfa með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga og ekki hefur verið færð varúðarfærsla sem er sérstaklega skilgreind vegna þeirra bréfa.

     4.      Hvað fóru starfsmenn og stjórnendur sjóðsins í margar boðsferðir á árunum 2004–2008 og hvert var farið?
    Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðnum þáðu hvorki starfsmenn né stjórnarmenn hans boð í boðsferðir á umræddu tímabili. Fram kemur að vinnuferðir hafi ýmist verið greiddar af lífeyrissjóðnum, útgefendum hluta- eða skuldabréfa eða öðrum samstarfsaðilum sjóðsins. Á því tímabili sem spurt er um var rúmlega þriðjungur eigna sjóðsins í erlendum verðbréfum, eða að jafnaði um og yfir 100 milljarðar kr. Þá var stór hluti af starfsemi íslenskra fyrirtækja utan Íslands. Þetta átti ekki hvað síst við um skráð íslensk hlutafélög og stærri fyrirtæki sem höfðu gefið út skuldabréf sem seld voru á markaði. Umsýsla og ávöxtun eigna sjóðsins hefur því kallað á nokkur ferðalög. Hverju sinni var lagt mat á nauðsyn þess að sækja starfsstöðvar erlendis heim til að kynna sér þá valkosti sem í boði voru. Þá var einnig lagt mat á það hverju sinni hvort lífeyrissjóðurinn borgaði kostnað við slíkar ferðir, eða hvort útgefendur verðbréfa eða söluaðilar þjónustu borguðu kostnað af slíkum kynningum.
    Í svari Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins kemur fram að á þeim fimm árum sem um er spurt fóru starfsmenn sjóðsins í 30 ferðir þar sem kostnaður var greiddur af öðrum en lífeyrissjóðnum. Það voru sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn við eignastýringu hjá sjóðnum sem fóru í þessar ferðir, en þær voru í samstarfi við 14 fyrirtæki. Sum þeirra voru með starfsstöðvar í fleiri en einu landi og sum voru heimsótt oftar en einu sinni. Þau lönd sem sótt voru heim voru: England, Bandaríkin, Danmörk, Noregur, Frakkland, Holland, Skotland, Þýskaland, Spánn, Rússland og Tékkland. Stjórnarmenn sjóðsins tóku ekki þátt í þessum ferðum.

     5.      Hver er tryggingaleg staða sjóðsins núna?
    Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins var áfallin skuldbinding A-deildar sjóðsins í árslok 2010 neikvæð um 4,2 milljarða kr. eða –2,5%. Heildarskuldbinding (þ.e. þegar til viðbótar við áfallna stöðu hefur verið tekið tillit til þeirra réttinda sem núverandi sjóðfélagar eiga eftir að ávinna sér í framtíðinni) var neikvæð um 47,4 milljarða kr. eða –12,0%.
    Í árslok 2010 var áfallin skuldbinding B-deildar sjóðsins neikvæð um 320 milljarða kr. eða –62,5%. Heildarskuldbinding var hins vegar neikvæð um 350 milljarða kr. eða –12,0%.

     6.      Hvernig ætlar ríkið að mæta fjárskuldbindingum sjóðsins til framtíðar?
    Á árinu 1999 ákvað fjármálaráðherra að ríkissjóður skyldi hefja greiðslur til B-deildar (og LH) umfram lagaskyldu. Þessar aukagreiðslur hafa verið háðar stöðu ríkissjóðs hverju sinni. Frá þeim tíma og til ársins 2010 nema þessar greiðslur samtals 85,3 milljörðum kr. (uppfært með verðbótum og hreinni raunávöxtun er þessi upphæð 146,5 milljarðar kr). Vegna stöðu ríkissjóðs í ljósi þess efnahagshruns sem hér varð haustið 2008 var gert hlé á þessum aukagreiðslum. Ef engar frekari aukagreiðslur koma frá ríkissjóði mun B-deild sjóðsins komast í þrot á árinu 2025. Í þeim forsendum er gert ráð fyrir 3,5% raunávöxtun eigna frá árslokum 2010 eða sem nemur 2% umfram hækkun dagvinnulauna hjá B-deildinni.
    Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að ríkissjóður muni svo fljótt sem aðstæður leyfa hefja aftur aukagreiðslur til sjóðsins til að dreifa greiðslum vegna bakábyrgðar til lengri tíma en ella. Það gefur auga leið að því fyrr sem byrjað er aftur að greiða aukagreiðslur inn í sjóðinn því lægri verður sú fjárhæð sem greiða þarf. Ef gert væri ráð fyrir að ríkissjóður greiddi jafna fjárhæð frá og með árinu 2012 þá yrði sú greiðsla að nema 7,8 milljörðum kr. í næstu 40 ár. Með því framlagi mundi sjóðurinn duga fyrir þeim skuldbindingum sem á honum hvíla. Greiðsla ríkissjóðs vegna bakábyrgðar kemur til viðbótar greiðslu lífeyrishækkana. Fylgiskjal.

1. Úr ársreikningi 2004


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2. Úr ársreikningi 2005


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


6.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


7.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.