Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 983  —  554. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis
og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.


     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði er skýr forsenda þess að unnt sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til að lifa eðlilegu lífi. Ráðuneytið hefur því í þeim stefnuskjölum sem það hefur unnið eftir á undanförnum árum lagt ríka áherslu á atvinnumál fatlaðs fólks. Þessar áherslur birtast meðal annars í drögum að stefnu ráðuneytisins „Mótum framtíð“ frá því í mars 2007 en þar er lögð áhersla á að allt fatlað fólk fái tækifæri til atvinnu eða annarra verka í samræmi við áhuga, færni og hæfileika og sé haft með í ráðum þar að lútandi. Þar er einnig hnykkt á mikilvægi þess að ríkisvaldið og sveitarfélög hlutist til um að svo verði og hvetji vinnuveitendur, jafnt á opinberum vinnustöðum sem einkareknum, til samfélagslegrar ábyrgðar til þess að móta sér stefnu í þeim efnum og ráða fatlað fólk til atvinnu. Á þessum markmiðum var vakin athygli á reglulegum samráðsfundum með svæðisskrifstofum málefna fatlaðra og svo þeim sveitarfélögum sem höfðu yfirtekið þjónustuna samkvæmt samningi við ráðuneytið. Jafnframt var samningur Sameinuðu þjóðanna sem þá var í lokavinnslu hafður til hliðsjónar í þessu samstarfi.
    Í tillögu að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er áhersla lögð á jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar og viðurkennt að fötlun sé hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verði til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Framkvæmdaáætlunin tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Kostir framkvæmdaáætlunarinnar liggja einnig í því að markmiðin eru nákvæmlega skilgreind, hvernig skuli unnið að því að ná þeim, hver beri ábyrgð á framkvæmd, innan hvaða tímaramma, hver séu árangursviðmiðin og loks hvaða fjármagn þurfi til að ná markmiðunum. Framkvæmdaáætlunin skiptist í átta málasvið og innan hvers þeirra eru þrjú til átta verkefni með skilgreindu markmiði. Eitt þessara málasviða snertir sérstaklega atvinnumál fatlaðs fólks þar sem skilgreind eru verkefni sem ætlað er að gera vinnustaði aðgengilega og styðja við fatlað fólk á vinnumarkaði. Háleit markmið eru sett sem snúa meðal annars að því að 85% af fötluðu fólki stundi virkniúrræði eða séu í námi við hæfi í lok árs 2014.
    Önnur markmið sem vert er að vekja athygli á í þessu sambandi snúa meðal annars að því að:
     *      Vinna að tilraunaverkefnum á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar með stofnunum og fyrirtækjum innan vébanda ríkis og sveitarfélaga og meðal einkafyrirtækja.
     *      Auka atvinnu með stuðningi við fatlað fólk á almennum vinnumarkaði sem fylgt verði eftir með skýrum einstaklingsáætlunum.
     *      Sett verði þau viðmið að allt fatlað fólk eigi kost á virkniúrræðum við hæfi a.m.k. fjóra tíma á dag.
     *      Unnið verði að uppbyggingu nýsköpunar og frumkvöðlahugsunar sem auki fjölbreytni og verklag við þau verkefni sem unnið er að.
     *      Unnið verði að því að auka þátttöku fatlaðs fólks í hugbúnaðar- og tæknigeiranum með samstarfi við fyrirtæki á þeim vettvangi.
    Til þess að ná þessum markmiðum er áhersla lögð á breytta ímynd og fræðslu þar sem stefnt er að því að auka þekkingu og almenna vitund um málefni tengd fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Þetta verði gert með því að auka þátttöku þess í samfélaginu þannig að það verði sýnilegra, svo sem í menntastofnunum, fjölmiðlum og á vinnustöðum. Jafnframt verði fatlað fólk gert meðvitaðra um rétt sinn svo það geti nýtt hann. Skilningur verði aukinn meðal almennings og fatlaðs fólks um réttindi fatlaðs fólks og um notendasamráð, aukna virkni og samfélagsþátttöku þess. Samið verði fræðsluefni fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk félagsþjónustu og námskeið verði haldin með skipulögðum hætti á öllum þjónustusvæðum félagsþjónustu sveitarfélaga á næstu 24 mánuðum.
    Með samþykkt Alþingis á tillögu til þingsályktunar telur ráðuneytið sig geta unnið með markvissum hætti að því að fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og XII. kafla laga um málefni fatlaðs fólks og þannig auðveldað ráðningar fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði.
    Þess skal jafnframt getið að í mannauðsstefnu Stjórnarráðsins eru skýr ákvæði um að gæta skuli jafnræðis í ráðningarferlinu í samræmi við gildandi lög og reglur sem og að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður sé metinn á eigin forsendum. Þegar ráðningar eiga sér stað í ráðuneytinu er þeim sem að því koma fullljóst um ákvæði laga um málefni fatlaðs fólks sem snýr að ráðningum, sbr. 32. gr. laga nr. 59/1992. Enda er við ráðningar ávallt fylgt lögum og reglum þegar ráðið er nýtt fólk til starfa. Einnig ber að geta þess að í sumum tilvikum, þegar þörf er á fólki í afleysingar eða ákveðin verkefni sem ekki reynist unnt að leysa af hendi með því fólki sem er starfandi í ráðuneytinu, er oft reynt að leita eftir fólki sem mest þarf á vinnu að halda. Oft er þá um að ræða fólk með fötlun eða fólk af atvinnuleysisskrá. Ráðuneytið gerði í þessu skyni samkomulag við Klúbbinn Geysi sem er félagsskapur þar sem fólk með geðraskanir er aðstoðað við að komast út á vinnumarkaðinn.
    Hjá stofnunum ráðuneytisins er almennt vísað í mannauðsstefnu varðandi áherslu á jafnrétti án tillits til kynferðis, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Ráðuneytið hefur ávallt gætt þess að fylgja skýrum viðmiðum um verklag þegar kemur að ráðningum í störf hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur notað ýmsar leiðir til þess að ráða til sín fólk með fötlun. Ráðuneytið hefur meðal annars verið í sambandi við samtök eða félög sem aðstoða fólk með fötlun til að komast í virkni og til þátttöku á almennum vinnumarkaði. Á síðastliðnu ári gerði ráðuneytið vinnusamninga samkvæmt reglugerð um öryrkjavinnu, nr. 159/1995, þar sem ráðnir voru tveir einstaklingar í þrjá til fjóra mánuði bæði í afleysingar og í sérstakt átaksverkefni. Síðast þegar ráðuneytið réð til sín einstakling tímabundið frá Klúbbnum Geysi fékk viðkomandi ótímabundna ráðningu og starfar þar enn. Að auki réð ráðuneytið til sín á fyrra ári einstakling sem var búinn að vera lengi á atvinnuleysisskrá tímabundið til starfa.
    Í stofnunum ráðuneytisins er lögð áhersla á að gæta jafnréttis í hvívetna og að jafnframt skuli farið eftir lögum og reglum þegar nýtt fólk er ráðið til starfa eins og fram kemur í svari við 1. tölul. Einstakar stofnanir eru í tengslum við samtök eða félög sem vinna að því að koma fólki út á vinnumarkaðinn, meðal annars fötluðu fólki.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Allt frá undirskrift samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í lok mars 2007 hefur ráðuneytið haldið samningnum á lofti. Bæði átti það sér stað í aðdraganda að yfirfærslu sértækrar þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna á árinu 2010 og síðan er ráðuneytinu kunnugt um sérstakar kynningar á ákvæðum samningsins á vettvangi sveitarfélaga í aðdraganda og eftir umrædda yfirfærslu.
    Ráðuneytið lítur svo á að með samþykkt tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks skapist frekari grundvöllur fyrir markvissa kynningu á ákvæðum samningsins sem snerta atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Frá árinu 2007 hafa þessar áherslur verið kynntar sérstaklega innan ráðuneytis félagsmála, síðar félags- og tryggingamála. Eftir að ráðuneyti félags- og tryggingamála og heilbrigðismála voru sameinuð í eitt ráðuneyti er litið svo á að nauðsynlegt sé að standa fyrir sérstakri kynningu á hinum félagslega skilningi á fötlun meðal heilbrigðisstofnana sem falla undir velferðarráðuneytið. Ráðuneytið hyggst standa fyrir slíkri kynningu á árinu 2012 og 2013.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Hjá ráðuneytinu hefur í gegnum tíðina starfað fólk með fötlun, sbr. svar við 2. tölul. Jafnréttissjónarmið eru í hávegum höfð og óheimilt er að mismuna starfsfólki eftir aldri, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, ætterni eða stöðu að öðru leyti. Þessi sömu viðmið gilda einnig hjá stofnunum ráðuneytisins. Það er þó ekki algengt að fólk með fötlun starfi hjá stofnunum ráðuneytisins. Á þessu eru þó undantekningar og má þar nefna að hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga eru 22,5% starfsmanna sjónskertir eða blindir.