Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1317  —  579. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um fyrirtækið Ísavía
og rétt starfsmanna til að vera í stéttarfélagi.


     1.      Getur Ísavía ohf. skyldað starfsmenn sína til að vera í öðru stéttarfélagi en þeir kjósa sjálfir?
    Félagafrelsi er varið í 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, en þar segir m.a. í 2. mgr. að engan megi skylda til aðildar að félagi. Hins vegar má með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki sínu eða vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.
ISAVIA ohf. getur ekki krafist þess að starfsfólk þess eigi aðild að tilteknu stéttarfélagi og er það jafnframt skilningur ISAVIA ohf.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til þeirra skilyrða um stéttarfélagsaðild sem yfirmenn Ísavía ohf. settu við nýlegar ráðningar á Akureyrarflugvelli, sbr. m.a. erindi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna til ráðherra annars vegar, og Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar til Ísavía ohf. 13. febrúar sl.?
    Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sendu ISAVIA bréf dags. 13. febrúar sl., þar sem m.a. kom fram að ISAVIA hefði kynnt starfsmönnum sínum fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á starfsemi tiltekinna flugvalla. Af því tilefni hefðu verið boðaðar breytingar á störfum og starfssviði, auk þess að upp hefðu komið álitaefni um stéttarfélagsaðild starfsmanna. Í kjölfar breytinga á Akureyrarflugvelli hafi nokkrum starfsmönnum verið gert að greiða til annars stéttarfélags en þeir kjósi að vera í og gerðu stéttarfélög þessara manna í kjölfarið athugasemdir við framkvæmdina og áréttuðu félagafrelsi þeirra. Í bréfinu kemur svo fram að ISAVIA hafi látið útbúa yfirlýsingu sem í segi m.a. að ef félagið standi skil á félagsgjöldum starfsmanna til þess stéttarfélags sem starfsmaðurinn óski eftir að vera í samþykki stéttarfélag fyrir sitt leyti að um kjör, réttindi og skyldur umræddra starfsmanna fari samkvæmt kjarasamningi sem ISAVIA geri við Félag flugmálastarfsmanna ríkisins. Yfirlýsingin feli þannig í sér að starfsmenn og stéttarfélög samþykki að starfsmaður taki laun samkvæmt öðrum kjarasamningi en tilheyri því stéttarfélagi sem hann greiðir til. ASÍ og BSRB lýsa andstöðu sinni við þessa framkvæmd, sem þau telja að gangi gegn þeim réttindum að launafólk njóti um þátttöku í stéttarfélagi án afskipta atvinnurekenda. Jafnframt leggja þau til að fyrirtækið og viðkomandi aðildarfélög ASÍ og BSRB gangi frá nýjum og sameiginlegum kjarasamningi um kaup og kjör starfsmanna ISAVIA innann ramma gildanandi kjarasamninga. Með þeim hætti telja félögin að hægt verði að tryggja rétt og hagsmuni viðkomandi starfsmanna, en um leið skapa fyrirtækinu þann sveigjanleika í samsetningu starfsmannahópsins sem það telur nauðsynlegan miðað við reynslu.
    Í bréfi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS), dags. 1. mars sl., kemur m.a. fram að félaginu virðist sem ISAVIA ætli að hverfa frá því fyrirkomulagi sem gilt hafi um áratugi á flugvöllum landsins. Að undanförnu virðist sem við ráðningar í störf geri ISAVIA þá kröfu að þeir sem ráðnir séu til björgunar- og slökkvistarfa séu ekki félagsmenn LSS, þótt þeir hafi unnið að slíkum störfum í áratugi og séu jafnframt félagsmenn í LSS. Félagsmenn LSS virðist þannig hafa lent í að þeim hafi verið tjáð að þeir yrðu ekki ráðnir, nema þeir gengju úr LSS og í annað stéttarfélag. Þannig virðist félaginu sem ISAVIA ætli leynt og ljóst að útiloka félagsmenn LSS frá störfum við flugvelli landsins, eins og segir í bréfinu. Af því tilefni vekur LSS athygli ISAVIA á 4. gr. laga nr. 80/1983, um stéttarfélög og vinnudeilur, en samkvæmt því ákvæði er vinnuveitendum óheimilt að hafa áhrif á stéttarfélagsaðild starfsmanna. Telur LSS afskipti ISAVIA af stéttarfélagsaðild vera brot á umræddu ákvæði. Skýringar ISAVIA til LSS hafi verið þær að ákvæði 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launþega o.fl., geri það að verkum að ekki sé hægt að ráða félagsmenn LSS. Að mati LSS breyti það ákvæði ekki félagsaðild starfsmanna né geri þá kröfu að henni verði breytt. Það eina sem ákvæðið fjalli um sé að vinnuveitendum beri að skila umsömdum gjöldum samkvæmt kjarasamningum til þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn tilheyra. Þannig skili ISAVIA nú slíkum gjöldum til LSS af þeim félagsmönnum er starfa hjá félaginu. Ákvæðið standi því ekki í vegi að hægt sé að ráða félagsmenn LSS til starfa á flugvöllum landsins. Þá minnir LSS á að félagið sé opinbert hlutafélag sem sé alfarið í eigu ríkisins.
    Í tilefni af framangreindri fyrispurn og framangreindra bréfa aflaði ráðuneytið upplýsinga um málið hjá ISAVIA ohf. Í svari ISAVIA kemur fram að lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna kveði t.d. á um skyldu til greiðslu félagsgjalda til þess félags sem gert hafi kjarasamninga um viðkomandi starf, óháð aðild starfsmanns að stéttarfélagi. Þannig sé gert ráð fyrir því á almennum vinnumarkaði að til þess að tryggja sér forgangsrétt til starfs verði launamaður að greiða félagsgjald til þess stéttarfélags sem geri kjarasamninga um starfið. Kjósi launamaður að eiga aðild að stéttarfélagi beri atvinnurekanda skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 að halda eftir af launum hans iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum um kjarasamninga. Atvinnurekandi þurfi því að vera bundinn af kjarasamningi sem hafi að geyma ákvæði um innheimtu iðgjalda og honum verði ekki gert að hafa milligöngu um skil félagsgjalda til annarra stéttarfélaga en þeirra sem gert hafi kjarasamninga um viðkomandi starf.
    Þá kemur fram að ISAVIA hafi að undanförnu unnið að samþættingu starfa á flugvöllum landsins og fái flugvallaverðir aukna þjálfun til að geta sinnt þjónustu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til ISAVIA ohf. samkvæmt lögum um loftferðir og reglugerð um flugvelli. Flugvallaverðir eru, og hafa verið, félagsmenn í Félagi flugmálastarfsmanna en til starfanna séu einnig ráðnir einstaklingar sem geti sinnt sérhæfðum tilfallandi verkefnum sem falla undir löggiltar iðngreinar, svo sem viðgerðum á tækjum. Eini kjarasamningurinn sem taki til þessa starfs í dag sé kjarasamningur ISAVIA ohf. við Félag flugmálastarfsmanna ríkisins og umræddir launamenn séu því ráðnir samkvæmt kjörum sem samið sé um í þeim kjarasamningi. ISAVIA ohf. telur ekki unnt að gera marga kjarasamninga um sama starfið, enda náist markmið fyrirtækisins um samþættingu starfa ekki nema launamaður starfi a grundvelli eins kjarasamnings. ISAVIA ohf. hefur einnig bent á að einungis 15–20% af verktíma í hinu nýja starfi sé ætlaður í verkefni sem hafi fram að þessu verið í höndum annarra en félagsmanna í Félagi flugmálastarfsmanna. ISAVIA ohf. útlokar hins vegar ekki að stéttarfélögin sem um ræðir komi saman að gerð eins vinnustaðarsamnings vegna starfs flugvallarvarða.
    Í upplýsingum ISAVIA ohf. kemur fram að með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 hafi verið dregið iðgjald af flugvallarvörðum og því skilað til Félags flugmálastarfsmanna. ISAVIA ohf. geri hins vegar ekki, og geti ekki gert, þá kröfu að launamaður gerist félagi í því stéttarfélagi. Að sama skapi geti ISAVIA ohf. ekki gert athugasemdir við að launamaður eigi aðild að öðru stéttarfélagi en það sé hins vegar ekki þar með sagt að ISAVIA ohf. sé skylt að hafa milligöngu um skil þeirra félagsgjalda, enda hafi félagið ekki gert kjarasamninga við önnur stéttarfélög um umrædd störf. Hins vegar hafi ISAVIA ohf. orðið við þeirri beiðni Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri að iðnmenntaðir flugvallaverðir gætu átt aðild að því fagfélagi, jafnvel þótt þeir tækju kjör samkvæmt kjarasamningi ISAVIA við Félag flugmálastarfsmanna og nýlega hafi verið gengið frá samkomulagi þess efnis. Ekki hafi borist beiðnir frá öðrum stéttarfélögum um sambærilegt samkomulag.
    Þá hefur ráðuneytið upplýsingar um að ISAVIA hafi fundað í mars sl. með forystumönnum ASÍ og BSRB. Þá hafi breytingar verið kynntar og farið fram umræður um framangreint mál. Niðurstaðan var sú að ISAVIA ohf. féllst á að taka þátt í könnunarviðræðum fyrir atbeina ASÍ og BSRB um mögulegan heildarkjarasamning eða fyrirtækjasamning, þar sem viðeigandi stéttarfélög komi að málum. Í kjölfarið var svo haldinn fundur með ríkissáttasemjara með LSS. Þá hefur ISAVIA ohf. ritað ASÍ og BSRB bréf, dags. 12. mars sl., þar sem félagið greinir frá því að það leggi áherslu á að skipulagsbreytingar á flugvöllum geti gengið eftir í góðri sátt við starfsmenn og hlutaðeigandi stéttarfélög. Nauðsynlegt sé að gagnkvæmur skilningur ríki á milli aðila og því óski ISAVIA ohf. eftir því að samböndin svari nokkrum spurningum, til að mynda varðandi óskir starfsmanns um aðild að stéttarfélagi, jafnvel þótt viðkomandi félag hafi ekki gert kjarasamning sem nái til starfans; hvort gerðar séu athugsemdir við að starfsmenn sem ráðnir séu til ISAVIA ohf. í iðnaðarstörf eingöngu óski eftir aðild að Félagi flugmálastarfsmanna og taka þá kjör samkvæmt kjarasamningi ISAVIA ohf. og FFR; hvort BSRB geri athugasemdir við að starfsmenn sem ráðnir séu til starfa flugvallavarða óski eftir aðild að stéttarfélagi innan Starfsgreinasambands Íslands og taka þá kjör samkvæmt samningi SA og SGS; og hvort ASÍ og BSRB geri athugasemdir við að starfsmenn óski þess að standa utan stéttarfélaga og greiða þar af leiðandi ekki til þeirra iðgjöld og þá, ef það sé skoðun sambandanna að greiða beri iðgjöld til stéttarfélaga, á grundvelli hvaða lagareglu eða samningsákvæðum það sé gert.
    Samkvæmt nýjustu upplýsingum eiga ISAVIA og Samtök atvinnulífsins í kjaraviðræðum við LSS vegna starfa á flugvelli í flokki 1, sbr. reglugerð um flugvelli. Viðræður hafa gengið vel, en ekki hefur verið rætt um félagsaðild eða iðgjöld á meðan hafa viðræðurnar staðið, enda verða nýir ráðningarsamningar við flugvallaverði á umræddum flugvöllum gerðir á grundvelli þessa kjarasamnings. Ekki varð úr að BSRB eða ASÍ boðuðu viðeigandi stéttarfélög til könnunarviðræðna um heildarskjarasamning en sáttasemjari hefur boðað til viðræðna við LSS og er málið nú í þeim farvegi. BSRB og ASÍ hafa ekki komið frekar að málinu, þótt ágreiningur hafi verið milli tveggja félaga innan BSRB um það í hvaða stéttarfélagi starf flugvallarvarðar ætti að vera. Það sem helst stendur út af í viðræðum er hvert starfsheiti eigi að vera og svo greiðslur vegna þrekálags.
    Samvæmt framangreindu er málið nú í ákveðnum farvegi. Rétt er að sjá hvað kemur út úr framangreindum viðræðum og er afstaða ráðherra sú að leitast eigi við að koma á heildarsamningi þar sem viðeigandi stéttarfélög komi að málum, eins og viðræður standa nú til. Eins og ISAVIA ohf. hefur bent á er mikilvægt að framangreindar breytingar gangi í gegn í góðri sátt við starfsmenn og hlutaðeigandi stéttarfélög og að gagnkvæmur skilningur ríki milli aðila um réttindi starfsmanna. Þetta er hins vegar mál sem er í verkahring ISAVIA ohf. og viðkomandi stéttarfélaga að leysa úr, í ljósi stöðu ISAVIA sem opinbers hlutafélags en fjármálaráðherra fer með allan eignarhlut í félaginu fyrir hönd íslenska ríksins, sbr. 2. gr. laga nr. 76/2008.
    Treysta verður að viðræður milli fyrirtækisins og hagsmunasamtaka launþega leiði til þess að viðunandi sátt náist í málinu og gefa verður viðkomandi aðilum svigrúm til að ná samkomulagi sín á milli.