Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 857. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1703  —  857. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar
um gjaldeyrisvarasjóð.


    Svör við fyrirspurninni byggjast á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.

     1.      Hversu mikil hætta stafar gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar af:
              a.      breytingum á gengi evru,
              b.      skuldabréfum útgefnum í evrum?


a.    Seðlabanki Íslands stýrir gengisbundnum eignum sínum, þ.m.t. eignum í gjaldeyrisforða, þannig að gjaldeyrisjöfnuður myndist gagnvart gengisbundnum skuldum bankans. Þá nýtir Seðlabankinn afleiður við að stilla gjaldeyrisjöfnuðinn. Opin staða Seðlabankans í erlendum gjaldeyri, þ.e. gengisbundnar eignir umfram gengisbundnar skuldbindingar, felur alltaf í sér gengisáhættu. Seðlabankinn hefur almennt hagað stýringunni þannig að opinni stöðu er skipt á milli hinna hefðbundnu SDR-forðagjaldmiðla, þar á meðal evru.
         Við núverandi aðstæður í hinu alþjóðlega greiðslukerfi er ekki eingöngu horft til gjaldmiðlaáhættu sem varðar evruna. Komi upp hnökrar í greiðslumiðlun við ákveðin lönd skiptir seljanleiki forðans miklu máli, þ.e. hvort hægt er að breyta forðanum í greiðslumiðil þar sem á þarf að halda.
         Stjórnvöld og Seðlabankinn hafa á undanförnum árum verið að byggja upp gjaldeyrisforða og lengt í endurgreiðsluferli erlendra lána. Það hefur því dregið verulega úr greiðslubyrði erlendra skulda til skamms tíma. Með því að draga úr endurfjármögnunaráhættu forðans hefur það hlutverk hans að vera lausafjárpúði í erlendum viðskiptum þjóðarbúsins styrkst verulega á undanförnum árum.
         Við stýringu á auknum gjaldeyrisforða hefur Seðlabankinn tekið tillit til þróunar í alþjóðlegri greiðslumiðlun. Í hagtölum Seðlabankans kemur fram að á seinni hluta árs 2010 lækkaði hlutfall forðans sem geymt er hjá erlendum viðskiptabönkum en hlutfall innstæðna hjá seðlabönkum, Alþjóðagreiðslubankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hækkaði. Á mynd 1 má sjá hver þróunin hefur verið á gjaldeyrisforðanum og skiptingu eigna.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


b.    Í ársskýrslu Seðlabankans kemur fram að lánshæfiseinkunn verðbréfa í skuldabréfasafni Seðlabankans, sem almennt hefur verið mjög há, hefur hækkað enn frekar. Þá hefur landfræðileg dreifing útgefenda skuldabréfa verið aukin. Á hinn bóginn hefur dregið úr vægi Evrópuríkja í skuldavanda að því marki að engin ríkisskuldabréf frá slíkum löndum eru nú í forðanum. Á mynd 2 má sjá dreifingu á erlendum skuldabréfum eftir lánshæfismati og mynd 3 sýnir dreifingu skuldabréfa eftir heimalandi útgefanda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hversu mikill hluti gjaldeyrisvaraforðans er geymdur:
              a.      í bönkum á evrusvæðinu,
              b.      í evrópskum seðlabönkum?

a.    Ekki er sundurgreint í opinberum gögnum hvaða stöður eru á evrusvæðinu. Í maí sl. voru um 3% gjaldeyrisvaraforðans varðveitt í erlendum bönkum. Um þessar mundir heldur Seðlabankinn lágmarksstöðum í innstæðum hjá erlendum bönkum og til þess að geta sinnt eigin greiðslumiðlun.
b.    Ekki er sundurgreint í opinberum gögnum hvaða stöður eru í evrópskum seðlabönkum. Í maí sl. voru um það bil 62% gjaldeyrisvaraforðans geymd í seðlabönkum, Alþjóðagreiðslubankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

     3.      Hvaða lán voru tekin til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar, hvenær voru þau tekin, hverjir eru gjalddagar þeirra, hver voru vaxtakjör þeirra lána og í hvaða myntum voru þau lán tekin?
    Í töflu 1 eru upplýsingar um hvaða lán voru tekin til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Íslands, hvenær þau voru tekin, greiðslur af láni, eftirstöðvar lána, gjalddaga þeirra, vaxtakjör og myntsamsetningu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.