Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 470  —  394. mál.
Flutningsmenn. Viðbót.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Flm.: Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    1. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Viðskiptabanki skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. 3. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      7.–9. tölul. 1. mgr. 20. gr. falla brott.
     b.      Orðið „viðskiptabankar“ í lokamálsgrein fellur brott.

3. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðila, einum sér eða í samstarfi við aðra, sem fer með virkan eignarhlut í viðskiptabanka er ekki heimilt að fara með virkan eignarhlut í lánafyrirtæki eða verðbréfafyrirtæki.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.


Greinargerð.

    Frumvarp um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka hefur áður verið lagt fram á 130. þingi (7. mál), 135. þingi (661. mál) og 136. þingi (14. mál), síðast af þingmönnunum Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni. Frumvörpin náðu ekki fram að ganga og frumvarpið sem nú er lagt fram er með breyttu sniði og að afstöðnu hruni íslensku bankanna haustið 2008. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað ályktað um mikilvægi þess að aðskilja umrædda starfsþætti til að tryggja öruggari viðskipti fyrir hinn almenna borgara sem ekki vill taka á sig áhættufjárfestingar. Má um það m.a. vísa til ályktunar flokkráðsfundar frá 2. febrúar 2012 og landsfundar VG sem haldinn var 20.–22. mars 2009 (sjá fylgiskjal III).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar með það að leiðarljósi að aðskilja starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Í kafla 8.5 í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins frá mars 2012 er talið að óheppileg tengsl milli þessara þátta hafi átt snaran þátt í rótum kreppunnar 2008. Alhliða bankar hafi fyrir tilstuðlan ríkisábyrgðar á innstæðum og annarra óheppilegra hvata í fjármálakerfinu haft tilhneigingu til að stunda áhættusamar fjárfestingar og af því hafa skattgreiðendur borið mikinn skaða. Í frumvarpinu er af þeim sökum mælt fyrir um að starfsheimildir viðskiptabanka verði takmarkaðar við hefðbundna viðskiptabankaþjónustu með nokkuð svipuðum hætti og ákveðið var við setningu laga nr. 77/2012, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, er varðaði sparisjóði.
    Lagt er til í 1. og 2. gr. frumvarpsins að starfsemi viðskiptabankanna verði bundin við inn- og útlánastarfsemi en ekki viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en undir þau lög fellur meðal annars verðbréfamiðlun, viðskipti fyrir eigin reikning og fjárfestingarráðgjöf. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að viðskiptabönkum verði heimilt að afla sér heimild verðbréfafyrirtækis eins og sparisjóðum var heimilað með umræddum breytingarlögum auk þess sem lagt er til í 3. gr. að girt verði fyrir að sömu aðilar fái heimildir til þess að eiga fyrirtæki í viðskiptabankastarfsemi annars vegar og fjárfestingarstarfsemi hins vegar.
    Umsagnir sem efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, bárust við framangreinda skýrslu sýna að skoðanir eru skiptar um aðskilnað umræddra starfsþátta og hafa sumir bent á að tillaga frumvarpsins dragi úr rekstrarhagkvæmni fjármálafyrirtækja og möguleikum þeirra til þess að veita viðskiptavinum sínum heildstæða þjónustu. Aðrir hafa bent á nauðsyn þess að reisa skorður við starfsemi viðskiptabanka sem fyrir tilstuðlan innlánstryggingakerfisins hafi notið ríkisstyrktar fjármögnunar. Innlán almennings hafi í skjóli þeirrar ábyrgðar verið nýtt til áhættusamra fjárfestinga með tilheyrandi áhættu fyrir skattgreiðendur. Má um þetta vísa í greinargerð Straums fjárfestingarbanka en þar er einnig vakin athygli á þeim freistnivanda sem er til staðar þegar sami viðskiptabankinn hefur á hendi fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun og eigin viðskipti (sjá fylgiskjal II).
    Með hliðsjón af því að fjárfestingarbankastarfsemi viðskiptabankanna hefur verið í lágmarki eftir hrun fjármálakerfisins má halda því fram að nú sé hentug tímasetning til þess að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í tillögu til þingsályktunar sem fulltrúar allra flokka utan Sjálfstæðisflokks hafa flutt á yfirstandandi þingi um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka (228. mál) er þróun stefnumótunar þessara mála á alþjóðavettvangi rakin og tekið undir mikilvægi þess að aðskilja áhættusama fjárfestingarstarfsemi og hefðbundna bankastarfsemi. Tillagan virðist líkt og frumvarp þetta ganga lengra en tillögur þriggja manna ráðgjafarhóps atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra frá október 2012 þar sem lögð er áhersla á að fjármálafyrirtæki verði þannig uppbyggð að hægt verði að aðgreina fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi við skilameðferð.
    Komi í ljós að breytingar samkvæmt frumvarpsinu standi í vegi fyrir því að viðskiptabankar geti sinnt ákveðinni kjarnastarfsemi fyrir viðskiptavini sína, eins og á reyndi í tilviki sparisjóðanna, er eðlilegt að það komi til skoðunar við þinglega meðferð frumvarpsins en á það hefur verið bent að mikilvægt sé að viðskiptabönkum verði áfram heimilt að sinna fjárstýringu og taka þannig þátt í markaðsviðskiptum með gjaldeyri og vaxtaafleiður. Jafnframt er við hæfi að umsagnaraðilar skoði tillögur frumvarpsins, sem fela í sér róttæka breytingu á skipulagi bankastarfsemi, í samhengi við önnur ákvæði laga um fjármálafyrirtæki.


Fylgiskjal I.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umsögn Straums fjárfestingabanka hf. um skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan íslensks fjármálalífs.
(21. ágúst 2012.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal II.


Tillögur Straums fjárfestingabanka hf. að lagabreytingum sem fela í sér aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(7. september 2012.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Endurskipulagning bankanna.

Úr ályktun landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs,
Reykjavík, 20.–22. mars 2009.


    Landsfundur leggur til að:
1.    […]
2.    starfsemi bankanna sinni eingöngu inn- og útlánastarfsemi fyrir almenning auk grunnþjónustu við atvinnuvegina.
3.    þeir bankar sem einungis sinna fjárfestingar- og áhættustarfsemi séu aðskildir almennri bankastarfsemi og séu alfarið á ábyrgð eigenda þeirra. Slíkur aðskilnaður starfseminnar ætti að tryggja öruggari viðskipti fyrir hinn almenna borgara sem ekki vill taka á sig áhættufjárfestingar.
    […]

                              Gagnsætt bankakerfi – burt með verðtryggingu – þak á vexti.

Ályktað á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs,
20. nóvember 2010.

    Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar –græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.–20. nóvember 2010, skorar á ráðherra og þingmenn flokksins að beita sér fyrir því að stjórnsýsla í bankakerfinu verði gerð gagnsæ og ákvarðanir þar öllum kunnar. Opin aðkoma að vinnu í þrotabúum gömlu bankanna sem og eftirlit með því sem fer fram fer innan bankanna er ein af forsendum þess að hér fái myndast heilbrigðari bankastarfsemi. Skilanefndir verði lagðar niður svo fljótt sem auðið er. Flokksráðsfundurinn krefst þess að tryggður verði með lögum aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingasjóða og að afnumin sé með lögum verðtrygging lána og þak sett á fjármagnskostnað.
     www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/4911

                                  

Aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi.

Ályktað á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs,
25. febrúar 2012.

    Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.
     www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/5273