Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 663  —  130. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,
nr. 19/1940, með síðari breytingum (mútubrot).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Kristjánsson frá Ákærendafélaginu. Umsögn barst frá ASÍ.
    Tilurð frumvarpsins má rekja til fyrirhugaðrar fullgildingar á viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu frá 15. maí 2003. Frumvarpið tekur einnig mið af tilmælum GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, sem og tilmælum vinnuhóps Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) um mútur í alþjóðlegum viðskiptum.
    Frumvarpið kveður á um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem taka til mútubrota. Lagt er til að alþingismenn og gerðarmenn í gerðardómi falli undir ákvæði laganna um mútugreiðslur og mútuþágu. Þá er lagt til að refsiábyrgð erlendra opinberra starfsmanna taki jafnframt til erlendra gerðarmanna, erlendra kviðdómenda og manna sem eiga sæti á erlendum fulltrúaþingum sem hafa stjórnsýslu með höndum. Einnig er gert gerir ráð fyrir að refsihámark fyrir brot vegna mútugreiðslna verði hækkað úr þremur árum í fjögur ár. Jafnframt er lagt til að stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu verði felldir undir gildissvið ákvæðis sem mælir fyrir um refsingu fyrir mútubrot í almennri atvinnustarfsemi og lagt til að refsihámark þess liðar hækki úr tveimur árum í þrjú ár.
    Nefndin ræddi sérstaklega þau ákvæði frumvarpsins er lúta að sviptingu réttinda lögaðila en með breytingum sem lagðar eru til er tekið tillit til tilmæla vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Samkvæmt íslenskum lögum má einungis beita sektum sem viðurlögum við brotum lögaðila en önnur samningsríki hafa hins vegar heimildir í lögum til að beita einnig öðrum viðurlögum. Fram kemur í 19. gr. c almennra hegningarlaga að refsiábyrgð lögaðila er bundin því skilyrði, nema annað komi fram í lögum, að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsiverðan og ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Skv. 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga má með dómi í sakamáli gegn manni svipta hann heimild sem hann hefur öðlast til að stunda starfsemi sem opinbert leyfi, löggildingu, skipun eða próf þarf til að gegna enda gefi brotið til kynna að veruleg hætta sé á því að sakborningur muni fremja brot í stöðu sinni. Með frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði einnig látin ná til lögaðila og bundin sömu skilyrðum og þurfa að vera uppfyllt til að láta lögaðila að öðru leyti sæta refsiábyrgð. Einvörðungu er hægt að beita lögaðila varanlegri sviptingu réttinda ef sýnt þykir að brot sé stórfellt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Ernir Rúnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. desember 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, frsm.


Skúli Helgason.



Þráinn Bertelsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Tryggvi Þór Herbertsson.



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.