Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 826  —  468. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar


    Fjárhagsþrengingar heimilanna jukust umtalsvert eftir hrun, einkum vegna kaupmáttarrýrnunar og aukinnar skuldabyrði. Núverandi ríkisstjórn ber ekki síður en fyrri ríkisstjórnir ábyrgð á slæmri fjárhagsstöðu heimilanna þar sem hún framfylgdi af mikilli stefnufestu kreppudýpkandi niðurskurðar- og hávaxtastefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gerði lítið sem ekkert til að koma í veg fyrir gífurlega hækkun verðtryggðra skulda eftir hrun. Nú er svo komið að mörg heimili þola ekki frekari hækkanir útgjalda og skulda án þess að fara í þrot eða neyðast til að leita aðstoðar hjálparsamtaka. Tillögur ríkisstjórnarinnar um skatta- og gjaldskrárhækkanir áttu fyrst að leiða til 0,46% hækkunar neysluverðsvísitölunnar sem hefði haft í för með sér 6–8 milljarða kr. hækkun á höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna. Þær lagfæringar sem meiri hlutinn leggur til draga úr hækkuninni svo nemi um 0,14%. Eftir stendur 0,32% hækkun vísitölunnar sem aftur leiðir til 4–5 milljarða kr. hækkunar á höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna. Þessi lækkun dugar þó ekki til þar sem mörg heimili geta ekki tekið á sig þyngri byrðar.
    Samkvæmt upplýsingum á vef Sambands Íslenskra sveitarfélaga fjölgaði einstaklingum sem fengu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga um 80% milli áranna 2007 til 2011. Litlar líkur eru á að fækka muni í hópi þeirra sem glíma við fátækt þar sem hækkun bóta í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins mun ekki duga til að tryggja að bætur dugi til framfærslu. Í ársbyrjun 2008 voru tæplega 16 þúsund í alvarlegum vanskilum en þeir eru núna rúmlega 26 þúsund samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um 420 milljarða kr. frá upphafi árs 2008. Þessi hækkun er til komin vegna hruns krónunnar og bankakerfisins. Afleiðingarnar eru neikvæð eignastaða fjölda heimila og sérstaklega þeirra sem keyptu eftir 2004 þegar eignaverð var hátt og fór hækkandi. Ef eignastaða þeirra sem eru 45 ára og yngri er skoðuð kemur í ljós að hún hefur hrunið frá því að vera um 20% af eignum allra einstaklinga á árunum 1996–2006 niður í -2% árið 2011 (www.visir.is/sighvatur-og-sjalfhverfa-kynslodin/article/2012711179886).
    Skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar, þ.e. 110% leiðin og sérstaka vaxtaniðurgreiðslan á árunum 2011 og 2012, hafa að verulegu leyti fallið í skaut heimila sem ekki eru í greiðsluvanda heldur skuldavanda. Hækkun vaxtabóta gerir skuldsettum heimilum kleift að standa í skilum á lánum sínum en leysir ekki skuldavanda þeirra. Það er því ekki hægt að lækka eða afnema niðurgreiðslu skattgreiðenda á vöxtum fjármálakerfisins án þess að mörg heimili fari í þrot. Þetta er m.a. ástæða þess að lagt er til í frumvarpinu að ákvæðið um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu verði framlengt um eitt ár (sbr. 13 gr.). Samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins frá 3. okt. 2012 voru vaxtabætur á árinu 2007 að meðaltali 15,6% af vaxtakostnaði húsnæðislána. Þessi niðurgreiðsla á vaxtakostnaði heimilanna var verulega aukin eftir hrun og náði hámarki í um 31% árið 2010, en lækkaði svo lítillega í 27,5% árið 2011 vegna lægri skulda og hækkunar ráðstöfunartekna á því ári. Fram til þessa hefur niðurgreiðsla skattgreiðenda á vöxtum fasteignalána yfirleitt verið lækkuð á þensluskeiðum og stóraukin þegar illa árar til að tryggja að heimilin ráði við að standa undir mun hærra vaxtastigi hér á landi en almennt gerist á Norðurlöndunum. Mun meiri samþjöppun/fákeppni á fjármálamarkaði er ein ástæða hærra vaxtastigs hér á landi. Í stað stóraukinnar niðurgreiðslu skattgreiðenda á alltof háu vaxtastigi þarf að leiðrétta lán og tryggja með m.a. lagasetningu að vextir hér séu sambærilegir við það sem gerist í nágrannalöndunum. Bankar sem búa við mikla samþjöppun eða fákeppni geta krafist mun hærri vaxta á útlánum sínum og hærri þjónustugjalda en bankar á samkeppnismarkaði. Stjórnmálaflokkar sem vilja tryggja að fákeppnishagnaðurinn renni í vasa almennings í gegnum arðgreiðslur og lægra vaxtastig berjast fyrir því að ráðandi banki/bankar séu í almannaeigu eða eigu viðskiptavina sinna (sparisjóðir).
    Skuldavandi heimilanna opinberast í framlengingu sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, heimildar til úttektar séreignarsparnaðar og tímabundinnar undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila, sbr. 36. gr. 3. minni hluti stendur ásamt Eygló Harðardóttur að breytingartillögu sem leggur ekki aðeins þá skyldu á ríkið að gefa eftir tekjur af stimpilgjöldum við skilmálabreytingar heldur einnig á fjármálafyrirtæki sem verður með samþykkt hennar gert óheimilt að innheimta lántökugjald. Samþykkt breytingartillögunnar mun draga úr kostnaði lántakenda sem kjósa að endurfjármagna skuldir sínar og gera fleirum kleift að endurfjármagna þær á hagstæðum kjörum.
    Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að fjársýsluskatturinn, þ.e. sá hluti hans sem lagður er á launagreiðslur, hækki úr 5,45% í 6,57%. Markmiðið með upptöku almenns fjársýsluskatts var að koma í veg fyrir launaskrið í fjármálakerfinu. Þessu markmiði hefur ekki að öllu verið náð þar sem laun hækkuðu mest í fjármálaþjónustu, eða um 9,3%, og minnst í byggingarstarfsemi, um 4,0% frá þriðja ársfjórðungi 2011 og fram til þriðja ársfjórðungs 2012 samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Það er hins vegar umhugsunarvert að aðeins er lagt til að sá hluti fjársýsluskattsins sem lagður er á launagreiðslur hækki en ekki sá hluti sem fellur á hagnað fjármálafyrirtækja umfram milljarð sem rýrir beint hlut kröfuhafa bankanna. Fjársýsluskatturinn hefur reynst verulega íþyngjandi fyrir rekstur lítilla fjármálafyrirtækja eins og sparisjóða 3. minni hluti varar við hættunni á því að hækkun þess hluta fjársýsluskattsins sem lagður er á laun muni grafa undan veikum rekstrargrundvelli sparisjóðakerfisins.
    Fjárhæðir og tekjuskerðingarmörk barnabóta munu hækka á næsta ári. Markmið ríkisstjórnarinnar er að bæta hag barnafjölskyldna. Hækkun barnabóta er fagnaðarefni en vonbrigði að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferðarkerfið skuli ekki á tæpum fjögurra ára valdatíma hafa treyst sér til að innleiða aðalsmerki norræna velferðarkerfisins eða ótekjutengdar barnabætur. Þess má geta að barnabætur eru ótekjutengdar annars staðar á Norðurlöndunum.
    Fyrirvaralítil hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu mun kollvarpa fjárhagsáætlunum ferðaþjónustunnar fyrir næsta ár. Frestun á gildistöku 14% virðisaukaskattsþrepsins frá 1. mars til 1. september dugar ekki til. Flest ferðaþjónustufyrirtæki hafa nú þegar gefið út verðskrár fyrir næsta ár og gert bindandi sölusamninga við viðskiptavini sína. Eins og KPMG bendir á í umsögn sinni ber seljanda þjónustu að innheimta og tiltaka á reikningum virðisaukaskatt samkvæmt því skatthlutfalli sem í gildi er á útgáfudegi reiknings. Tekjuauki ríkissjóðs mun því að öllum líkindum verða minni á árinu 2013 en gert er ráð fyrir. Auk þess hafa komið fram vísbendingar um meiri samdrátt í bókunum vegna væntanlegra skattahækkana en Hagfræðistofnun gerði ráð fyrir í útreikningum á áhrifum skattlagningarinnar. Ríkisskattstjóri telur jafnframt að upptaka nýs skattþreps, þ.e. 14%, muni flækja skattkerfið og auka hættu á undanskotum. Embættið hvetur til þess að gildistökunni verði frestað til 1. janúar 2014 og tekur 3. minni hluti undir nauðsyn þess.
    Að lokum vill 3. minni hluti fagna því að búið er að draga til baka breytingu á skattlagningu tekna af afleiðusamningum, sem hefði falið í sér að þær yrðu skattlagðar eins og söluhagnaður en ekki sem vaxtatekjur. Þegar tekjur af afleiðusamningum er skattlagðar eins og söluhagnaður opnast möguleiki á að draga sölutap frá áður en til skattlagningar kemur. Slíkur frádráttur hefði lækkað tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarða kr. Skattrannsóknarstjóri taldi að fyrirhuguð breyting á skattlagningu afleiðusamninga hefði getað haft veruleg áhrif á refsiþátt mála sem varða afleiðuviðskipti. Í 20 málum sem embættið hefur haft til rannsóknar og varða afleiðuviðskipti einstaklinga hefur verið lagt til grundvallar að ekki sé heimilt að draga tapsamninga frá hagnaðarsamningum.
    Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er vaxtakostnaður orðinn þriðji stærsti útgjaldamálaflokkurinn á eftir almannatrygginga- og velferðarmálum og heilbrigðismálum. Gjaldeyrishöftin gáfu okkur einstakt tækifæri til að keyra vaxtastigið niður án þess að þurfa að óttast fjármagnsflótta. Norræna velferðarstjórnin gat fjármagnað velferðina eftir hrun með skatti á aflandskrónur og lágum vöxtum. Þessi tækifæri nýtti hún ekki og hækkaði þess í stað álögur og skar niður velferðina. Nú er komið að endimörkum niðurskurðar og skattahækkanastefnu hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Heimilin geta ekki tekið á sig þyngri byrðar.

Alþingi, 21. desember 2012.



Lilja Mósesdóttir.