Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.

Þingskjal 956  —  566. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012
um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB, frá 14. nóvember 2011, um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB, frá 14. nóvember 2011, um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Með tilskipun 2011/90/ESB er gerð breyting á tilskipun ESB er varðar lánasamninga fyrir neytendur. Felst breytingin í því að þær viðbótarforsendur, sem miða skal útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar vegna lánssamninga við, verða nokkuð ítarlegri en áður.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB, frá 14. nóvember 2011, um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Tilskipun 2011/90/ESB breytir II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB (neytendalánatilskipuninni) með þeim hætti að viðbótarforsendur við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar verða nokkuð ítarlegri. Þessi breyting er talin nauðsynleg því í ljós hefur komið að viðbótarforsendurnar eins og þær koma fyrir í neytendalánatilskipuninni eru ekki fullnægjandi til þess að tryggja samræmdan útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Frumvarpi til nýrra laga um neytendalán (þskj. 228, 220. mál) er ætlað að innleiða tilskipun 2008/48/EB (neytendalánatilskipunina). Verði frumvarpið að lögum óbreytt er komin viðhlítandi lagastoð til innleiðingar á tilskipun 2011/90/ESB, sbr. c-lið 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að teljanlegur kostnaður hljótist af innleiðingu tilskipunar 2011/90/ESB hér á landi.


Fylgiskjal I.

ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 229/2012

frá 7. desember 2012


um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB frá 14. nóvember 2011 um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar ( 1 ).
2)        XIX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í lið 7h (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB ) í XIX. viðauka við EES-samninginn:

„eins og henni var breytt með:
–     32011 L 0090: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB frá 14. nóvember 2011 (Stjtíð. ESB L 296, 15.11.2011, bls. 35).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2011/90/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 8. desember 2012, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 7. desember 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Atle Leikvoll

formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 2011/90/ESB
frá 14. nóvember 2011
um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE ( 1 ) (tilskipun um neytendalán), einkum 5. mgr. 19. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Sú reynsla, sem aðildarríkin hafa aflað með framkvæmd tilskipunar 2008/48/EB hefur leitt í ljós að forsendurnar, sem settar eru fram í II. hluta I. viðauka við þá tilskipun, nægja ekki til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á samræmdan hátt og enn fremur að þær eru ekki lengur lagaðar að stöðu viðskipta á markaðnum.
2)          Nauðsynlegt er að bæta við þessar forsendur og kveða á um nýjar forsendur fyrir reglur um útreikning á árlegri hlutfallstölu lánskostnaðar vegna lána, sem ekki eru með föstum gildistíma eða lána sem eru endurgreiðanleg að fullu, með reglulegu millibili. Einnig er nauðsynlegt að kveða á um reglur til að tímasetja fyrstu nýtingu láns og þær greiðslur, sem neytandi innir af hendi.
3)          Því ber að breyta II. hluta I. viðauka við tilskipun 2008/48/EB til samræmis við það.
4)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið er á fót skv. 1. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 2008/48/EB, og hvorki Evrópuþingið né ráðið hefur andmælt þeim.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Ákvæðum II. hluta I. viðauka við tilskipun 2008/48/ EB er breytt í samræmi við viðaukann við þessa tilskipun.

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 2012. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 1. janúar 2013.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 14. nóvember 2011.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
    forseti.
    José Manuel BARROSO

VIÐAUKI

Í stað II. hluta I. viðauka við tilskipun 2008/48/EB komi eftirfarandi:
„II. Viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skulu vera sem hér segir:
a)    Ef lánssamningur gerir neytanda kleift að nýta lánið að vild skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt þegar í stað og að fullu.
b)    Ef lánssamningur gerir neytanda almennt kleift að nýta lán að vild en setur, meðal mismunandi nýtingarmöguleika, takmarkanir að því er varðar lánsfjárhæðina og tímabilið, skal litið svo á að lánsfjárhæðin sé nýtt á fyrsta degi sem kveðið er á um í lánssamningnum og í samræmi við þessar takmarkanir á nýtingu.
c)     Ef lánssamningur gefur kost á mismunandi nýtingarmöguleikum með mismunandi kostnaði eða útlánsvöxtum skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt með mesta kostnaði og útlánsvöxtum sem er beitt við algengasta nýtingarmöguleikann fyrir þessa tegund lánssamnings.
d)     Þegar um er að ræða yfirdráttarheimild skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt til fulls og á öllum gildistíma lánssamningsins. Ef gildistími yfirdráttarheimildar er ekki þekktur skal, við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, gera ráð fyrir að gildistími lánsins sé þrír mánuðir.
e)     Þegar um er að ræða opinn lánssamning sem ekki er yfirdráttarheimild skal gera ráð fyrir:
    i.    að lánið sé veitt til eins árs frá þeim degi sem það var fyrst nýtt og að með lokagreiðslu neytandans séu eftirstöðvar höfuðstóls, vextir og önnur gjöld, ef einhver eru, að fullu greidd,
    ii.    að neytandinn endurgreiði höfuðstól með jöfnum mánaðargreiðslum, sem hefjast einum mánuði eftir þann dag, sem lánið var fyrst nýtt. Þegar eingöngu skal endurgreiða höfuðstólinn að fullu í formi eingreiðslu á hverju greiðslutímabili, skal þó gera ráð fyrir að neytandinn nýti og endurgreiði í áföngum allan höfuðstólinn á eins árs tímabili. Nota skal vexti og önnur gjöld í samræmi við slíka nýtingu og endurgreiðslu höfuðstóls og eins og kveðið er á um í lánssamningnum.
    Að því er varðar þetta atriði er opinn lánssamningur sá lánssamningur, sem ekki miðast við tiltekinn tíma og tekur til lána, sem eru endurgreiðanleg að fullu innan tiltekins tímabils eða að því loknu, og sem má nýta aftur þegar þau hafa verið endurgreidd.
f)    Þegar um er að ræða lánssamninga aðra en yfirdráttarheimildir og opna lánssamninga sem um getur í forsendunum sem settar eru fram í d- og e-lið:
    i.     ef ekki er unnt að ganga úr skugga um dagsetningu eða endurgreiðslu á höfuðstól sem neytandanum ber að inna af hendi skal gera ráð fyrir því að endurgreiðsla fari fram á fyrsta degi, sem kveðið er á um í lánssamningnum, og nemi lægstu fjárhæð sem kveðið er á um í honum,
    ii.    ef lokadagsetning lánssamnings liggur ekki fyrir skal gera ráð fyrir að dagsetning fyrstu nýtingar sé sú dagsetning sem fengin er með stystum fresti milli þeirrar dagsetningar og dagsetningar fyrstu greiðslu sem neytandi skal inna af hendi.
g)    Ef ekki er unnt að ganga úr skugga um dagsetningu eða fjárhæð greiðslu, sem neytandi skal inna af hendi, út frá lánssamningnum eða forsendunum, sem settar eru fram í d-, e- eða f-lið, skal gera ráð fyrir því að greiðsla sé innt af hendi í samræmi við dagsetningar og skilyrði, sem lánveitandi fer fram á, og þegar slíkt liggur ekki fyrir skal eftirfarandi gilda:
    i.    vaxtakostnaður greiðist ásamt endurgreiðslum á höfuðstól,
    ii.    gjald utan vaxta, sem sett er fram sem eingreiðsla, greiðist daginn sem lánssamningi lýkur,
    iii.    gjöld önnur en vextir sem skiptast í margar greiðslur greiðast með reglulegu millibili og hefjast á degi fyrstu endurgreiðslu á höfuðstól og sé fjárhæð slíkra greiðslna ekki þekkt skal gera ráð fyrir því að um jafnar greiðslur sé að ræða,
    iv.    með lokagreiðslu eru eftirstöðvar höfuðstóls greiddar að fullu, einnig önnur gjöld, ef einhver eru.
h)    Ef ekki hefur ennþá verið samið um þak á lánið er gert ráð fyrir að það sé 1 500 evrur.
i)    Ef mismunandi lánsvextir og kostnaður eru í boði í takmarkaðan tíma eða vegna takmarkaðrar fjárhæðar skal litið svo á að lánsvextirnir og kostnaðurinn eigi að vera hæsta hlutfallstalan allan gildistíma lánssamningsins.
j)    Útreikningur á árlegri hlutfallstölu að því er varðar samninga um neytendalán, sem fastir útlánsvextir fyrir upphaflega tímabilið hafa verið samþykktir fyrir, en við lok þess eru nýir útlánsvextir ákvarðaðir og aðlagaðir eftir það með reglulegu millibili samkvæmt umsömdum vísi, skal grundvallast á þeirri forsendu að við lok tímabils fastra útlánsvaxta séu útlánsvextir hinir sömu og þegar árleg hlutfallstala var reiknuð út á grundvelli gildis umsamins vísis á þeim tíma.

___________

Neðanmálsgrein: 1
(1) Stjtíð. ESB L 296, 15.11.2011, bls. 35.    
Neðanmálsgrein: 2
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.    
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66.