Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1097  —  438. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um innheimtur og fullnustugerðir vegna neytendalána í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga.


    Leitað var eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands og eru svör við fyrirspurninni byggð á upplýsingum bankans.

     1.      Hvernig er innheimtu neytendalána í eigu Seðlabanka Íslands og dótturfélaga hans háttað, sem og öðrum samskiptum við skuldara vegna þeirra?
    Hluti af lánum í eigu Hildu er þjónustaður hjá Arion banka og hluti er þjónustaður af Dróma, framangreindir aðilar taka við erindum og annast samskipti við lántakendur en beiðnir fara fyrir lánanefnd Hildu í stað lánanefnda Arion banka og/eða Dróma.

     2.      Hvaða úrræði vegna greiðsluerfiðleika hafa neytendum verið boðin af hálfu bankans og dótturfélaga?
    Hilda býður lántökum sínum öll sömu úrræði og viðskiptabankarnir. Varðandi 110%- leiðina svokölluðu, þá hefur Hilda fylgt sömu aðferðafræði og Landsbankinn hf. Geta má þess að eftirlitsnefnd sem starfar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur farið sérstaklega yfir ákvarðanir lánanefndar Hildu og gerir ekki athugasemdir við þær.

     3.      Hversu mörg neytendalán í eigu bankans eða dótturfélaga, sem eru með ólöglega gengistryggingu, hafa verið endurreiknuð og á hvaða forsendum?
    Hilda á 186 lán til einstaklinga með ólögmætri gengistryggingu. Þau voru endurreiknuð samkvæmt lögum nr. 151/2010. Í kjölfar dómafordæma Hæstaréttar er nú unnið er að nánari greiningu á framangreindum lánum og er gert ráð fyrir að hægt verði að hefja endurútreikning að nýju á hluta þeirra á næstu vikum en í einhverjum tilfellum kann að þurfa frekari dómafordæmi.

     4.      Hvaða þriðju aðilar hafa tekið að sér að þjónusta lánasöfn í eigu bankans og dótturfélaga og hversu mikla þjónustu veitir hver um sig?
    Lánasöfn Hildu eru þjónustuð af Arion banka hf. og Dróma hf. eins og áður hefur komið fram, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Um er að ræða frum- og milliinnheimtu ásamt hagsmunagæslu við nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti.
    Unnið er að flutningi lána frá Dróma yfir til Arion banka og er gert ráð fyrir að Arion banki þjónusti öll lán Hildu fyrir árslok.

     5.      Hversu mörgum beiðnum um aðfarar- og fullnustugerðir hafa bankinn og dótturfélög beint til sýslumannsembætta vegna neytendalána sem þessir aðilar hafa eignast?
     6.      Hversu mörgum aðfarar- og fullnustubeiðnum hafa þriðju aðilar beint til sýslumanna fyrir hönd bankans og dótturfélaga vegna neytendalána í eigu þessara aðila?
     7.      Hversu mörgum fyrrgreindra aðfarar- og fullnustubeiðna hefur lyktað með nauðungarsölu, fjárnámi, gjaldþroti eða einhvers konar aðför að skuldara og/eða eigum hans, sundurliðað eftir gerðarbeiðendum?
    
Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar standa lántökum Hildu öll sömu úrræði til boða og viðskiptabankarnir bjóða sínum viðskiptamönnum, svo sem sértæk skuldaaðlögun og svokölluð 110%-leið. Þrátt fyrir það verður ekki hjá því komist í einhverjum tilfellum að fylgja eftir málum með nauðungarsölu.
    Í nafni Hildu voru lagðar fram tíu beiðnir um nauðungarsölur hjá sýslumannsembættunum á árinu 2012, fjórar þeirra hafa verið afturkallaðar. Hilda hefur leyst til sín tíu fasteignir á nauðungarsölu. Hafa verður í huga að nokkuð er um að aðrir veðhafar, þar með talið lögveðshafar, hafi farið fram á nauðungarsölu sem lokið hefur með þeim hætti að Hilda hefur þurft að verja hagsmuni sína sem veðhafi og leysa viðkomandi fasteign til sín.
    Engar beiðnir um fjárnám hafa enn sem komið er verið sendar en það kann að breytast á næstunni, sama á við um gjaldþrotaskiptabeiðnir.

     8.      Hverjar eru heildartekjur ríkissjóðs af gjöldum til sýslumannsembætta fyrir fullnustugerðir vegna neytendalána í eigu bankans og dótturfélaga, sundurliðað eftir gerðarbeiðendum og gjaldflokkum eftir því sem við á?
    Hilda heldur þessum upplýsingum ekki aðgreindum sérstaklega frá öðrum kostnaði vegna fullnustueigna eða lögfræðiinnheimtu.