Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 703. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1335  —  703. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar
(BjörgvS, ÓGunn, OH, HHj, ÁÞS).


1. gr.

    Í stað „eða 20. gr.“ í e-lið 5. mgr. 6. gr. laganna kemur: 20. gr. eða 20. gr. a.

2. gr.

    Í stað „20. gr.“ í 1. mgr. 12. gr. h laganna kemur: 20. gr. og 20. gr. a.

3. gr.

    Í stað „1. mgr. 20. gr.“ í b-lið 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 1. mgr. 20. gr. eða 1. mgr. 20. gr. a.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað „b- eða c-lið 1. mgr. 20. gr.“ í e-lið 1. mgr. kemur: c- eða d-lið 1. mgr. 20. gr. eða b- eða c-lið 1. mgr. 20. gr. a.
     b.      Á eftir i-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: endanleg ákvörðun stjórnvalds í Schengen-ríki um frávísun eða brottvísun liggur fyrir á grundvelli þess að ástæða sé til að ætla að hann hafi framið alvarlega glæpi eða vegna raunverulegra vísbendinga um að hann ætli að fremja slíka glæpi innan Schengen-svæðisins.

5. gr.

    Í stað 20. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar er orðast svo, ásamt fyrirsögnum:

    a. (20. gr.)

Brottvísun útlendings án dvalarleyfis.

    Heimilt er að vísa úr landi útlendingi sem er án dvalarleyfis ef:
     a.      hann dvelst ólöglega í landinu,
     b.      hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
     c.      hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu í útlöndum eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     d.      hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
     e.      stjórnvald í Schengen-ríki hefur tekið endanlega ákvörðun um frávísun hans eða brottvísun fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu og dvöl útlendinga,
     f.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Svo framarlega sem 21. gr. á ekki við skal vísa úr landi útlendingi sem er án dvalarleyfis ef:
     a.      hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 33. gr.,
     b.      honum er ekki veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 33. gr.:
                  1.      vegna þess að hætta er á að hann muni ekki fara sjálfviljugur,
                  2.      vegna þess að umsókn um dvalarleyfi hefur verið synjað þar sem hún þyki bersýnilega tilhæfulaus eða vegna þess að veittar voru rangar eða villandi upplýsingar,
                  3.      útlendingur er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum, sbr. 2. mgr. 33. gr.

    b. (20. gr. a.)

Brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi.

    Heimilt er að vísa úr landi útlendingi sem hefur dvalarleyfi ef:
     a.      hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum þessum eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
     b.      hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu í útlöndum eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en eitt ár, samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     c.      hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en eitt ár eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
     d.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Hafi brotið verið framið áður en viðkomandi var veitt dvalarleyfi gilda ákvæði 20. gr. eftir því sem við á.

    c. (20. gr. b.)

Brottvísun útlendings sem hefur búsetuleyfi.

    Heimilt er að vísa úr landi útlendingi sem hefur búsetuleyfi ef:
     a.      hann hefur afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og það hafi átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
     b.      það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
    Hafi brotið verið framið áður en viðkomandi var veitt búsetuleyfi gilda ákvæði 20. gr. a eftir því sem við á.

    d. (20. gr. c.)

Áhrif brottvísunar og endurkomubann.

    Við endanlega ákvörðun um brottvísun falla útgefin dvalar-, atvinnu- og búsetuleyfi útlendings úr gildi.
    Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal ekki gilda skemur en tvö ár.
    Samkvæmt umsókn má fella úr gildi endurkomubann enda hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubann falli úr gildi.
    Brot gegn endurkomubanni er refsivert skv. a-lið 1. mgr. 57. gr. Þegar endurkomubann er tímabundið getur brot gegn því orðið grundvöllur nýrrar ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann og er þá heimilt að lengja endurkomubann ef ástæða þykir til.
    Ráðherra getur með reglugerð sett frekari reglur um endurkomubann.

6. gr.

    21. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Vernd gegn frávísun og brottvísun. Takmarkanir við ákvörðun um brottvísun.

    Óheimilt er að vísa frá eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fasta búsetu óslitið síðan.
    Norrænum ríkisborgara, sem búsettur hefur verið hér á landi lengur en þrjá mánuði, má því aðeins vísa frá eða úr landi að refsiverð háttsemi hans geti varðað eins árs fangelsi eða meira.
    Brottvísun skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér óhóflega íþyngjandi ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
    Ákvæði 1. málsl. 3. mgr. á ekki við þegar brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna, sbr. f-lið 1. mgr. 20. gr., d-lið 1. mgr. 20. gr. a og b-lið 1. mgr. 20. gr. b.
    Í reglugerð getur ráðherra kveðið nánar á um mat á aðstæðum skv. 3. mgr.

7. gr.

    Í stað „a–i-lið“ í 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. kemur: a–j-lið.
    

8. gr.

    31. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Hvenær ákvörðun getur komið til framkvæmda.

    Ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. er heimilt að framfylgja þegar í stað. Synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um búsetuleyfi, sem sótt er um innan frests skv. 2. mgr. 14. gr., er ekki heimilt að framfylgja fyrr en ákvörðunin er endanleg. Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi, EES- eða EFTA-borgara sem hefur skráð sig hér á landi skv. VI. kafla eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalist hér á landi lengur en þrjá mánuði. Að öðru leyti gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa.
    Heimilt er að fresta framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna viðkomandi eða ómögulegt er að framfylgja ákvörðun að svo stöddu.
    Áður en ákvörðun, sem felur í sér að fylgdarlaust barn skuli yfirgefa landið, er tekin skal tryggja barninu aðstoð barnaverndarnefndar til að tryggja að það sem barninu er fyrir bestu sé haft að leiðarljósi. Áður en fylgdarlausu barni er vísað úr landi skal Útlendingastofnun ganga úr skugga um það að í ríkinu, sem vísað er til, séu til staðar fjölskyldumeðlimir, forsjáraðilar eða fullnægjandi móttökuaðstaða fyrir börn.
    Synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 2. mgr. 14. gr. er ekki heimilt að framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru.

9. gr.

    33. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Framkvæmd ákvörðunar.

    Við synjun á umsókn um dvalarleyfi eða endurnýjun á dvalarleyfi þar sem útlendingur er staddur hér á landi skal skýrt kveðið á um heimild viðkomandi til áframhaldandi dvalar hér á landi.
    Í málum skv. 1. mgr. og í öðrum tilvikum, þar sem útlendingur hefur ekki rétt til dvalar hér á landi eða ákvörðun felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið, skal lagt skriflega fyrir hann að hverfa á brott. Að jafnaði skal útlendingi veittur frestur í 7 til 30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur en heimilt er að fella niður þann frest ef:
     a.      útlendingur hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn,
     b.      slíkt telst nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna,
     c.      útlendingur fellur undir c- eða d-lið 1. mgr. 46. gr. a um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi,
     d.      útlendingi er vísað úr landi á grundvelli b-, c- eða d-liðar 1. mgr. 20. gr., 20. gr. a eða 20. gr. b,
     e.      útlendingur hefur heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki.
    Þegar það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða er Útlendingastofnun heimilt að veita lengri frest en þann sem tilgreindur er í 2. mgr.
    Meðan á fresti skv. 2. mgr. stendur eða þegar framkvæmd ákvörðunar hefur verið frestað skv. 31. gr. skal tryggt að útlendingur fái eins og kostur er að dveljast með fjölskyldu sinni, sé hún til staðar í landinu, fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og að tekið sé tillit til sérþarfa hans er kunna að vera fyrir hendi vegna viðkvæmrar stöðu hans. Börnum skal einnig tryggður aðgangur að skyldunámi.
    Útlendingur skal tilkynna Útlendingastofnun um brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir er lagt, frestur skv. 2. mgr. er ekki veittur eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur úr landi skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um að færa útlendinginn úr landi án frekari fyrirvara og endurkomubann í samræmi við ákvæði IV. kafla og er lögreglu þá heimilt að færa hann úr landi. Ef sérstaklega stendur á má færa útlendinginn til annars lands en þess sem hann kom frá. Ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki skal hann fluttur til þess lands. Ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega. Útlendingi, sem fellur undir ákvæðið og ekki hefur gild ferðaskilríki, er skylt að afla sér þeirra.
    Málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið frestar ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur ráðherra þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en fimmtán dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun á réttaráhrifum bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan tíu daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur ráðherra tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að ákvörðun var tekin.
    Lögregla framfylgir ákvörðunum um frávísun og brottvísun.
    Ráðherra getur sett reglugerð um eftirlit með framkvæmd brottvísana.

10. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, er orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þvingunarúrræði til að tryggja framkvæmd ákvörðunar.

    Til að tryggja að ákvörðun skv. 33. gr verði framkvæmd og í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta getur lögregla lagt fyrir útlendinginn að:
     a.      tilkynna sig,
     b.      afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 5. gr., og
     c.      halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.
    Fyrirmæli sem greinir í 1. mgr. má því aðeins gefa að ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar skv. 33. gr. eða í þeim tilvikum sem útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta fyrir samfélagið. Við mat á því hvort ástæða sé til að ætla að útlendingur muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar skv. 33. gr. má taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í fjórar vikur nema útlendingurinn samþykki það eða dómari ákveði samkvæmt reglum um meðferð sakamála.
    Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Samsvarandi gildir ef útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 5. mgr. 33. gr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki.
    Gæsla skal ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Gæslutíma má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar sem greinir í 33. gr. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur, en þó ekki oftar en tvisvar.
    Útlending má hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun, eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum skv. 1. mgr.
    Þvingunarúrræðum skv. 1. og 3. mgr. má beita þegar ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið er tekin og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Í stað „5. mgr. 33. gr.“ í 1. mgr. kemur: 3. mgr. 33. gr. a.
     b.      Í stað „3. og 4. mgr. 33. gr.“ í 1. mgr. kemur: 1. og 2. mgr. 33. gr. a.
     c.      Í stað „b- og c-lið 1. mgr. 20. gr., b-lið 2. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 42. gr.“ í 2. mgr. kemur: b- og c-lið 1. mgr. 20. gr. , b- og c-lið 1. mgr. 20. gr. a, a-lið 1. mgr. 20. gr. b og 3. málsl. 2. mgr. 42. gr.

12. gr.

    Í stað 35.–43. gr. laganna koma 18 nýjar greinar er orðast svo, ásamt fyrirsögnum:

    a. (35. gr.)

Gildissvið.

    Ákvæði þessa kafla gilda um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hér eftir nefndir EES-borgarar, og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), hér eftir nefndir EFTA-borgarar, til að koma til landsins og dveljast hér á landi.
    Ákvæði kaflans gilda einnig um aðstandendur EES- og EFTA-borgara sem fylgja EES- eða EFTA-borgara til landsins eða koma til hans. Ákvæði kaflans gilda enn fremur um aðstandendur íslenskra ríkisborgara sem fylgja íslenskum ríkisborgara eða koma til íslensks ríkisborgara sem snýr aftur til Íslands eftir að hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar samkvæmt EES-samningnum eða stofnsamningi EFTA í öðru EES- eða EFTA-ríki.

    b. (35. gr. a.)

Koma og dvöl.

    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla veitir rétt til að dveljast hvar sem er á Íslandi nema takmarkanir hafi verið settar samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla kemur ekki í veg fyrir að útlendingur skv. 1. mgr. 35. gr. fái dvalarleyfi samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.
    Útlendingur, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, má koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári sé hann sannanlega starfsmaður þjónustuveitanda á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki.
    Ekki má neita EES- eða EFTA-borgara um að fá að njóta réttinda sinna á þeim grundvelli einum að viðkomandi sé ekki handhafi skráningarvottorðs skv. 39. gr., vottorðs eða skírteinis sem staðfestir rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 39. gr. b, skjals sem vottar að umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur hafi verið lögð fram eða dvalarskírteinis skv. 39. gr. a, þar eð viðkomandi getur fært sönnur á rétt með ýmsum öðrum skjölum.
    Aðstandendur, sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar, skulu vera undanþegnir kvöð um vegabréfsáritun ef þeir eru handhafar gilds dvalarskírteinis skv. 39. gr. a. Slíkar vegabréfsáritanir skulu að öðrum kosti gefnar út án endurgjalds eins fljótt og hægt er og hljóta flýtimeðferð samkvæmt almennum reglum þar um.
    Hafi EES- eða EFTA-borgari, eða aðstandandi sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, ekki nauðsynleg ferðaskilríki eða tilskildar vegabréfsáritanir, sé þeirra krafist, skal áður en slíkum einstaklingum er vísað frá gefa þeim tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma eða til að fá framburð sinn staðfestan eða fá viðurkennt á annan hátt að þeir falli undir réttinn til frjálsrar farar og dvalar.
    Ráðherra er heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um flýtimeðferð skv. 5. mgr.

    c. (35. gr. b.)

Dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara.

    Aðstandandi EES- eða EFTA-borgara, sem fellur undir ákvæði þessa kafla, á rétt til að dveljast með honum hér á landi. Aðstandendur EES- eða EFTA-borgara, sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, skulu, óháð ríkisfangi, eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi.
    Aðstandandi EES- og EFTA-borgara er:
     a.      maki og sambúðarmaki ef aðilar eru í skráðri sambúð eða sambúð er staðfest með öðrum hætti,
     b.      niðjar viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem eru yngri en 21 árs eða á framfæri EES- eða EFTA-borgarans,
     c.      ættingjar viðkomandi, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem eru á framfæri EES- eða EFTA-borgarans.

    d. (36. gr.)

Réttur til dvalar í allt að þrjá mánuði.

    EES- eða EFTA-borgara er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi.
    EES- eða EFTA-borgara, sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er í atvinnuleit, er heimilt að dveljast hér á landi í allt að sex mánuði frá komu til landsins svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi. Hið sama gildir um aðstandendur EES- eða EFTA-borgarans.
    Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf.
    Ráðherra er heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um útreikninga á lengd dvalar. Ráðherra, er fer með málefni félagsþjónustu sveitarfélaga, er heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um skilgreiningu hugtaksins ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

    e. (36. gr. a.)

Réttur til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir EES- eða EFTA-borgara.

    EES- eða EFTA-borgari á rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirgreindum skilyrðum:
     a.      er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi, eða,
     b.      ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og fullnægir jafnframt skilyrðum c-liðar, eftir því sem við á,
     c.      hefur nægilegt fé sér til handa og aðstandendum sínum til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir,
     d.      er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.
    Krefja má EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 35. gr. a. Þá má krefja EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og sýna fram á með yfirlýsingu, eða jafngildum aðferðum, að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr., sbr. þó 4 mgr. 35. gr. a.
    EES- eða EFTA-borgari, sem dvelst á landinu, sbr. a-lið 1. mgr., en hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, heldur stöðu sinni sem slíkur við eftirfarandi aðstæður:
     a.      á meðan hann er tímabundið óvinnufær vegna veikinda eða slyss,
     b.      staðfestir að vera atvinnulaus án eigin atbeina eftir að hafa unnið við launað starf í meira en eitt ár og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar,
     c.      staðfestir að vera atvinnulaus án eigin atbeina eftir að ráðningarsamningi, sem er til skemmri tíma en eins árs, er lokið eða hefur án eigin atbeina misst atvinnu á því tímabili og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar; í því tilviki skal hann halda stöðu sinni sem launþegi í a.m.k. sex mánuði,
     d.      hefji hann starfsnám; sé ekki um að ræða atvinnuleysi fyrir eigin atbeina skal hann einungis halda stöðu sinni sem launþegi ef starfsnámið tengist fyrra starfi hans.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um gögn skv. 2. mgr., um skilgreiningu á nægilegu fé, sbr. c-lið 1. mgr., um viðurkenndar námsstofnanir skv. d-lið 1. mgr. og um rétt EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir a-lið 1. mgr. til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans.

    f. (37. gr.)

Réttur til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur
sem eru EES- eða EFTA-borgarar.

    EES- eða EFTA-borgara, sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 36. gr. a, er heimilt að dveljast á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á sjálfstæðan rétt EES- eða EFTA-borgarans til dvalar skv. 36. gr. a
    EES- eða EFTA-borgari, sem er maki, sambúðarmaki eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs og fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara, sem á rétt til dvalar skv. d-lið 1. mgr. 36. gr. a, má dveljast á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir.
    Ef EES- eða EFTA-borgari fer af landi brott eða fellur frá njóta aðstandendur hans, sem eru EES- eða EFTA-borgarar, réttar til dvalar svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði 1. mgr. 36. gr. a. Barn EES- eða EFTA-borgara og það foreldri sem fer með forsjá þess mega dveljast á landinu svo lengi sem barnið er innritað til náms hjá viðurkenndri námsstofnun.
    Þrátt fyrir lögskilnað, ógildingu hjúskapar eða slit á sambúð heldur aðstandandi EES- eða EFTA-borgara dvalarrétti sínum svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði 1. mgr. 36. gr. a.

    g. (37. gr. a.)

Réttur til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara
og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. gilda, eftir því sem við á, um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 36. gr. a. Hið sama gildir um maka, sambúðarmaka eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 36. gr. a.
    Við andlát EES- eða EFTA-borgara heldur aðstandandi, sem er ekki EES- eða EFTA- borgari, dvalarrétti sínum hafi viðkomandi dvalist á landinu sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara í minnst eitt ár fyrir andlát EES- eða EFTA-borgarans svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 36. gr. a eða dvelst á landinu sem aðstandandi einstaklings sem uppfyllir þau skilyrði. Barn EES- eða EFTA-borgara og það foreldri sem fer með forsjá þess mega dveljast á landinu ef EES- eða EFTA-borgarinn fer af landi brott eða fellur frá, óháð skilyrðum greinarinnar að öðru leyti, svo lengi sem barnið býr hér á landi og er innritað hjá viðurkenndri námsstofnun.
    Þrátt fyrir lögskilnað, ógildingu eða slit á sambúð heldur maki eða sambúðarmaki EES- eða EFTA-borgara, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, dvalarrétti sínum svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 36. gr. a, að því tilskildu að:
     a.      hjúskapur eða sambúð hafi varað í minnst þrjú ár, þar af eitt ár hér á landi, þegar skilnaður eða ógilding á sér stað eða sambúð er slitið,
     b.      forsjá barns EES- eða EFTA-borgarans hafi með samningi eða dómi verið fengin viðkomandi maka eða sambúðarmaka,
     c.      viðkomandi maki, sambúðarmaki eða barn/börn hafi orðið fyrir ofbeldi eða annarri alvarlegri misnotkun í hjúskapnum eða sambúðinni,
     d.      viðkomandi maki eða sambúðarmaki fái með samkomulagi eða dómi umgengnisrétt við barn hér á landi.

    h. (38. gr.)

Réttur EES- eða EFTA-borgara til ótímabundinnar dvalar.

    EES- eða EFTA-borgari, sem skv. 36. gr. a eða 37. gr. hefur dvalist löglega á landinu samfellt í minnst fimm ár, á rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Réttur til ótímabundinnar dvalar er óháður skilyrðum 36. gr. a og 37. gr. Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður dveljist viðkomandi utan landsins lengur en í tvö ár samfellt.
    Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár af ríkum ástæðum, svo sem vegna meðgöngu, fæðingar, alvarlegra veikinda, náms eða starfsnáms eða starfa sem viðkomandi er sendur til í öðru landi, telst ekki rof á samfelldri dvöl skv. 1. mgr.
    EES- eða EFTA-borgari, sem dvalist hefur hér á landi skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. a, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar þrátt fyrir að hafa ekki haft samfellda búsetu í fimm ár ef hann:
     a.      hefur við starfslok náð lögbundnum ellilífeyrisaldri hér á landi eða hættir í launuðu starfi til að fara snemma á eftirlaun, að því tilskildu að hafa dvalist á landinu samfellt lengur en í þrjú ár og starfað hér á landi í minnst tólf mánuði samfellt þegar hann hættir störfum,
     b.      hefur dvalist hér á landi í meira en tvö ár samfellt en hefur orðið að hætta störfum sökum varanlegrar örorku eða,
     c.      hefur starfað í öðru EES- eða EFTA-ríki eftir að hafa starfað og dvalist hér á landi samfellt í þrjú ár, og telst hafa dvalist hér áfram enda hafi hann snúið aftur til heimilis síns hér á landi a.m.k. einu sinni í viku.
    Ef örorka skv. b-lið 3. mgr. er tilkomin vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms, sem veitir rétt til bóta úr almannatryggingum, að hluta eða að öllu leyti, falla kröfur um lengd dvalar niður.
    EES- eða EFTA-borgari, sem er aðstandandi einstaklings sem nýtur réttar til ótímabundinnar dvalar skv. 3. mgr. og býr hjá honum, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar frá þeim tíma þegar réttur til ótímabundinnar dvalar hins hefst skv. 3. mgr.
    EES- eða EFTA-borgari, sem er aðstandandi einstaklings sem nýtur réttar til dvalar skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. a og býr hjá honum, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar við andlát þess fyrrnefnda jafnvel þrátt fyrir að hinn látni hafi ekki öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 1. eða 3. mgr., ef:
     a.      hinn látni hafði dvalist á landinu í minnst tvö ár samfellt fyrir andlátið,
     b.      hinn látni lést í vinnuslysi eða af vinnutengdum sjúkdómi.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um skilgreiningu á samfelldri dvöl.

    i. (38. gr. a.)

Réttur aðstandenda sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar
til ótímabundinnar dvalar.

    Aðstandandi EES- eða EFTA-borgara, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, en hefur búið með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 37. gr. a, og hefur dvalist löglega á landinu samfellt í fimm ár, öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi. Hið sama á við um aðstandanda sem er ekki EES- eða EFTA-borgari og hefur dvalist löglega á landinu í minnst fimm ár, sbr. 1. málsl. 2. mgr. eða 3. mgr. 37. gr. a. Réttur til ótímabundinnar dvalar er óháður skilyrðum 36. gr. a. Réttur til ótímabundinnar dvalar fellur niður dveljist viðkomandi utan landsins lengur en í tvö ár samfellt.
    Dvöl erlendis í skemmri tíma en samtals sex mánuði á ári, dvöl erlendis vegna herþjónustu eða dvöl í eitt skipti að hámarki í eitt ár af ríkum ástæðum, svo sem vegna meðgöngu, fæðingar, alvarlegra veikinda, náms eða starfsnáms eða starfa sem viðkomandi er sendur til í öðru landi, telst ekki rof á samfelldri dvöl skv. 1. mgr.
    Réttur til ótímabundinnar dvalar skv. 5. og 6. mgr. 38. gr. gildir einnig um aðstandendur sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, þar á meðal um skilgreiningu á samfelldri dvöl.

    j. (39. gr.)

Skráningarvottorð.

    EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans, sem dvelst hér á landi skv. 36. gr. a eða 37. gr. lengur en í þrjá mánuði, ber að skrá sig. Frestur til skráningar er þrír mánuðir frá komu til landsins. Skráningarvottorð skal gefið út eins fljótt og unnt er eftir að viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. og 3. mgr.
    Við skráningu EES- eða EFTA-borgara skv. 36. gr. a er stjórnvöldum heimilt að óska eftir að hann leggi fram, auk gilds kennivottorðs eða vegabréfs:
     a.      staðfestingu á ráðningu frá vinnuveitanda eða sönnun þess að hann sé sjálfstætt starfandi eða bjóði upp á þjónustu, sbr. a- eða b-lið 1. mgr. 36. gr. a,
     b.      staðfestingu á sjúkratryggingu og gögn um að hann hafi nægilegt fjármagn til að framfleyta sjálfum sér og aðstandendum sínum, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. a,
     c.      staðfestingu á innritun viðkomandi til náms hjá viðurkenndri menntastofnun, staðfestingu á sjúkratryggingu og gögn um að hann hafi nægilegt fjármagn til að framfleyta sjálfum sér og aðstandendum sínum, sbr. d-lið 1. mgr. 36. gr. a
    Við skráningu EES- eða EFTA-borgara, sem dvelst á landinu sem aðstandandi skv. 37. gr., er stjórnvöldum heimilt að óska eftir að hann leggi fram, auk gilds kennivottorðs eða vegabréfs:
     a.      gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar,
     b.      skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til,
     c.      staðfestingu á framfærslu þegar réttur viðkomandi sem aðstandanda er háður framfærslu hins, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 35. gr. b.
    Ráðherra er heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um framkvæmd skráningar og útgáfu skráningarvottorðs, um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þess og um skyldu EES- eða EFTA-borgara í atvinnuleit til þess að skrá sig fái hann atvinnu eftir að frestur skv. 1. mgr. rennur út.

    k. (39. gr. a.)

Dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar
og eiga rétt til dvalar skv. 37. gr. a.

    Útlendingur, sem dvelst hér á landi skv. 37. gr. a í meira en þrjá mánuði, skal fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins. Staðfesting á umsókn er gefin út um leið og viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. mgr.
    Með umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda skulu lögð fram eftirtalin gögn:
     a.      gilt vegabréf,
     b.      gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar,
     c.      skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til,
     d.      staðfesting á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hins, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 35. gr. b.
    Umsókn um dvalarskírteini skal afgreidd innan sex mánaða frá því að hún er lögð fram. Gildistími dvalarskírteinis er fimm ár frá útgáfudegi, eða jafnlangur dvalartíma EES- eða EFTA-borgarans ef hann er styttri en fimm ár. Skírteinið fellur úr gildi ef viðkomandi dvelst utan landsins lengur en í sex mánuði á ári nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um útgáfu skírteinis samkvæmt ákvæði þessu, að fenginni umsókn.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um framkvæmd skráningar og útgáfu dvalarskírteinis, um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þess, um nauðsynleg gögn, sbr. 2. mgr., um gildistíma dvalarskírteinis og um nánari skilyrði þess að tímabundin dvöl erlendis hafi ekki áhrif á samfellda dvöl, sbr. 3. mgr. Þá er heimilt í reglugerð m.a. að kveða á um að aflað skuli lífkenna í formi andlitsmyndar og fingrafara og þau varðveitt í dvalarskírteini sem útgefið er samkvæmt þessu ákvæði.

    l. (39. gr. b.)

Vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 38. og 38. gr. a.

    EES- eða EFTA-borgari, sem á rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skv. 38. gr., fær eftir umsókn vottorð um rétt til ótímabundinnar dvalar svo fljótt sem verða má.
    Útlendingur, sem á rétt til fastrar búsetu á landinu skv. 38. gr. a, fær skírteini til staðfestingar á rétti til ótímabundinnar dvalar á grundvelli umsóknar. Umsókn um slíkt skírteini skal afgreidd fyrir lok gildistíma dvalarskírteinis skv. 39. gr. a.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, þar á meðal um framkvæmd skráningar og útgáfu vottorðs og skírteinis um rétt til ótímabundinnar dvalar og um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þeirra. Þá er heimilt í reglugerð m.a. að kveða á um að aflað skuli lífkenna í formi andlitsmyndar og fingrafara og þau varðveitt í skírteini sem útgefið er samkvæmt þessu ákvæði.

    m. (40. gr.)

Brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerninga að hætti 3. mgr. 13. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 36. gr. a, 37. gr. eða 37. gr. a. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.
    Heimilt er að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti eða ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.
    Réttur til dvalar hér á landi skv. a- eða b-lið 1. mgr. 36. gr. a fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda, slyss eða ef um er að ræða þvingað atvinnuleysi EES- eða EFTA-borgara eftir að hann hefur starfað hér á landi lengur en eitt ár.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um takmarkanir á brottfalli dvalarréttar.

    n. (40. gr. a.)

Afturköllun dvalarskírteina eða vottorða og skírteina
um rétt til ótímabundinnar dvalar.

    Á grundvelli 40. gr. er heimilt að afturkalla skráningarvottorð, dvalarskírteini og vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar.
    Skráningarvottorð og dvalarskírteini er einnig heimilt að afturkalla ef skráning er ógild af öðrum ástæðum.
    Vottorð og skírteini, sem nefnd eru í 1. mgr., skulu afturkölluð þegar réttur til dvalar fellur niður skv. 3. málsl. 1. mgr. 38. gr. og 4. málsl. 1. mgr. 38. gr. a
    Dvalarskírteini útlendings, sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, skal afturkalla ef útlendingurinn fær dvalarleyfi samkvæmt öðrum köflum laganna.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun samkvæmt ákvæði þessu.

    o. (41. gr.)

Frávísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef:
     a.      viðkomandi fullnægir ekki reglum sem settar eru um ferðaskilríki eða komu til landsins, sbr. þó 6. mgr. 35. gr. a,
     b.      viðkomandi hefur verið vísað úr landi og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
     c.      um er að ræða háttsemi sem greinir í 1. mgr. 42. gr.,
     d.      það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
    Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a- og b-lið 1. mgr. en Útlendingastofnun skv. c- og d-lið 1. mgr. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
    Ef meðferð máls skv. 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar innan þriggja mánaða frá komu til landsins.

    p. (42. gr.)

Brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
    Brottvísun skv. 1. mgr. er heimilt að ákveða ef framferði viðkomandi felur í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skal ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnarforsendum. Ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar er brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.
    Einnig er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 36. gr., 36. gr. a, 37. gr. eða 37. gr. a.
    Einstaklingi, sem hefur rétt til dvalar skv. 36. gr., er heimilt að vísa á brott ef það er talið nauðsynlegt til verndar almannaheilbrigði og stjórnvöld hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun samkvæmt ákvæði þessu.

    q. (42. gr. a.)

Endurkomubann EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

    Brottvísun skv. 1. og 4. mgr. 42. gr. felur í sér bann við komu inn í landið síðar. Endurkomubann getur verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skal sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 42. gr.
    Samkvæmt umsókn er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Taka skal ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans.
    Við sérstakar aðstæður getur sá sem vísað hefur verið á brott, eftir umsókn, fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun.
    Útlendingastofnun tekur ákvörðun um heimild EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.

    r. (43. gr.)

Takmarkanir á heimild til brottvísunar skv. 42. gr.

    Brottvísun skal þrátt fyrir ákvæði 42. gr. ekki ákveða ef viðkomandi:
     a.      hefur rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 38. gr. eða 38. gr. a nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis,
     b.      er EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans og hefur haft fasta búsetu á landinu í tíu ár nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi,
     c.      er EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans undir lögaldri nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi. Þetta gildir þó ekki um barn ef brottvísun þess er nauðsynleg til að gæta hagsmuna þess eins og kveðið er á um það í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Brottvísun skal ekki ákveða ef það, með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda við landið, mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skal m.a. tekið mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt.
    Brottvísun skal ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans hafi leitað sér félagslegrar aðstoðar. Þá skal brottvísun aldrei ákveðin af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi.
    Með fyrirvara um ákvæði 42. gr. er ekki heimilt að vísa brott EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, ef viðkomandi:
     a.      uppfyllir skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. a,
     b.      er í atvinnuleit, svo lengi sem viðkomandi getur lagt fram sönnun þess að hann sé í virkri atvinnuleit og hafi raunverulega möguleika á því að fá atvinnu.

13. gr.

    Í stað „d-lið 1. mgr. 20. gr. eða a-lið 2. mgr. 21. gr.“ í 4. mgr. 45. gr. laganna kemur: f-lið 1. mgr. 20. gr., d-lið 1. mgr. 20. gr. a eða b-lið 1. mgr. 20. gr. b.

14. gr.

    Í stað „42. gr.“ í 56. gr. laganna kemur: 41. gr.

15. gr.
Innleiðing.

    Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2007 frá 7. desember 2007 um breytingu á V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992. Jafnframt er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/ EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísunum ríkisborgara utan EES sem dvelja ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

16. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta miðar að því að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins. Sú fyrri er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2007. Í tilskipuninni er að finna reglur um komu og dvöl EES-borgara í öðrum aðildarríkjum ESB og EES- og EFTA-ríkjunum. Tilskipunin var innleidd að hluta til með lögum nr. 86/2008, um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, og með lögum nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en frumvarp þetta miðar að því að innleiða tilskipunina að fullu og koma til móts við athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að Ísland hafi ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi hætti. ESA hefur samkvæmt upplýsingum nefndarinnar gert athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar og hefur stofnunin gefið út rökstutt álit (e. reasoned opinion) þar sem íslenskum stjórnvöldum var veittur ákveðinn frestur til að ljúka innleiðingunni. Til að komast hjá málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum og tryggja fullan rétt þeirra einstaklinga sem tilskipunin nær til telur nefndin afar brýnt að sá kafli frumvarpsins sem hefur að geyma ákvæði til innleiðingar á tilskipuninni nái fram að ganga og verði að lögum.
    Síðari tilskipunin fjallar um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl en það er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísunum ríkisborgara utan EES sem dvelja ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísanatilskipunin). Tilskipunin öðlaðist gildi 24. desember 2010 og var Ísland bundið af henni frá þeim tíma vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu. Ísland er hins vegar eina ríkið sem ekki hefur enn innleitt tilskipunina.
    Tilskipunin hefur að geyma sameiginleg viðmið og málsmeðferðarreglur fyrir heimsendingu útlendinga sem dveljast í ólögmætri dvöl, þar á meðal reglur um það í hvaða tilvikum skuli brottvísa útlendingi í ólögmætri dvöl.
    Innleiðing þessara tveggja tilskipana er aðkallandi og verður því ekki frestað frekar. Leggur nefndin því til nauðsynlegar breytingar á útlendingalögunum svo að innleiðingu tilskipananna verði lokið án frekari eftirmála fyrir íslensk stjórnvöld.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–3. gr.

    Hér eru lagðar til breyttar tilvísanir til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í greininni er tilvísun í e-lið uppfærð til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins. Einnig er lagður til nýr stafliður sem hafi að geyma nýtt ákvæði um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi þegar endanleg ákvörðun stjórnvalds í Schengen-ríki um brottvísun eða frávísun liggur fyrir á grundvelli þess að ástæða sé til að ætla að hann hafi framið alvarlega glæpi eða vegna raunverulegra vísbendinga um að hann ætli að fremja slíka glæpi innan Schengen-svæðisins. Ákvæðið byggist á 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 40/2001/EB um gagnkvæma viðurkenningu á ákvörðunum um brottvísun ríkisborgara utan EES. Með því að viðurkenna ákvörðun annars Schengen-ríkis um frávísun eða brottvísun á grundvelli þeirra ástæðna sem ákvæðið byggist á er tryggt að útlendingurinn ferðist ekki til baka til viðkomandi lands um ytri landamæri Íslands. Enn fremur verður þá ekki nauðsynlegt að senda útlending til baka til þess ríkis sem tók ákvörðunina í þeim tilvikum þegar viðkomandi kemur til Íslands áður en ákvörðunin er framkvæmd.

Um 5. gr.

    Lagt er til að fjórar nýjar greinar komi í stað 20. gr. laganna. Sú breyting er lögð til að aðgreina brottvísunarheimildir í þrjár greinar eftir því hvort útlendingur hefur dvalarleyfi, er án þess eða hefur búsetuleyfi. Kemur þessi aðgreining til vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins 2008/115/EB (brottvísanatilskipuninni). Ekki eiga við sömu reglur um brottvísun þessara hópa að öllu leyti. Þannig er til að mynda gert ráð fyrir að undanfari brottvísunar vegna ólögmætrar dvalar sé að útlendingi er veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum, þ.e. án atbeina lögreglu, en það á ekki endilega við um útlending sem hefur dvalarleyfi en til stendur að vísa úr landi á grundvelli refsidóms. Við samningu ákvæðisins var horft til norskra laga.
     Um a-lið. (20. gr.)
    Lagt er til í a-lið að ný 20. gr. mæli fyrir um í hvaða tilvikum er heimilt að vísa útlendingi úr landi (brottvísun) sem er án dvalarleyfis. Skv. a-lið 1. mgr. er heimilt að vísa útlendingi brott ef hann dvelst ólöglega í landinu. Er þá heimild að finna í gildandi a-lið 1. mgr. 20. gr. laganna og hvíla sömu sjónarmið að baki ákvæðinu hér. Dvöl útlendinga hér á landi verður að vera í samræmi við ákvæði laga en ólögmæt dvöl brýtur gegn megintilgangi útlendingalaga og ber því að líta alvarlegum augum. Þá er Ísland bundið af tilskipun 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl og er því skuldbundið til að bregðast við ólögmætri dvöl útlendinga í landinu þar sem viðkomandi dvelst um leið ólöglega á Schengen-svæðinu.
    Skv. b-lið 1. mgr. er í fyrsta lagi heimilt að vísa útlendingi brott ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna. Hér undir mundu sem fyrr geta fallið fleiri en eitt brot gegn lögunum sem hvert fyrir sig telst ekki alvarlegt. Í öðru lagi er heimilt að vísa útlendingi brott sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi hefur gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum. Þessi heimild er nýmæli en sambærilegt ákvæði er í norsku útlendingalögunum og er það ákvæði haft sem fyrirmynd hér. Þykir rétt að lögfesta heimild til að bregðast við því þegar útlendingur hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum enda kunna afleiðingar þess að vera öðrum víti til varnaðar, þ.e. brottvísun fyrir slíkt brot kann að hafa forvarnaráhrif gagnvart öðrum sem hafa ranga eða villandi upplýsingagjöf í huga. Slík upplýsingagjöf er jafnframt refsiverð skv. b-lið 1. mgr. 57. gr. laganna. Í þriðja lagi er skv. b-lið heimilt að vísa útlendingi brott sem kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Áfram er gert ráð fyrir að undir þetta gætu fallið ákvarðanir um að vísa útlendingi frá landi, synjun á umsókn um fyrsta dvalarleyfi eða endurnýjun leyfis eða synjun á umsókn um hæli þegar dvalarleyfi verður heldur ekki veitt á öðrum grundvelli eða um afturköllun leyfis. Þessir útlendingar hafa ekki lengur leyfi til að dveljast í landinu. Aðrir útlendingar kunna hins vegar að dveljast ólöglega í landinu án þess að fyrir liggi ákvörðun um að þeir skuli yfirgefa landið. Þá mætti eftir atvikum beita brottvísun á grundvelli a-liðar eða frávísun á grundvelli 19. gr.
    Skv. c-lið 1. mgr. er einnig heimild til brottvísunar ef útlendingur hefur afplánað refsingu erlendis á síðustu fimm árum eða verið dæmdur þar til refsingar á sama tíma enda geti brotið að íslenskum lögum varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Það er því refsiramminn sem slíkur samkvæmt íslenskum lögum sem skiptir máli. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi sem fellur undir liðinn.
    Skv. d-lið 1. mgr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða verið dæmdur oftar en einu sinni á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar. Einnig hér er það refsiramminn sem skiptir máli. Heimildin er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í e-lið 1. mgr. er að finna nýmæli sem felur í sér heimild til brottvísunar ef stjórnvald í Schengen-ríki hefur tekið endanlega ákvörðun um frávísun hans eða brottvísun fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu eða dvöl útlendinga. Ákvæðið er byggt á b-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/40/EB um gagnkvæma viðurkenningu á ákvörðunum um brottvísun ríkisborgara utan EES. Ákvæðið felur í sér að ef útlendingi hefur verið vísað brott frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu og sú ákvörðun er í gildi, er unnt að framfylgja ákvörðuninni strax eftir atvikum þannig að hann verði sendur beint til heimalands eða þess ríkis sem tekur við honum án þess að senda þurfi hann fyrst til þess ríkis sem tók ákvörðunina.
    Skv. f-lið 1. mgr. er loks heimilt að vísa útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Ákvæðið er samhljóða gildandi d-lið 1. mgr. 20. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli sem leiðir af brottvísanatilskipuninni. Ákvæðið byggist á a- og b-lið 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar en nýmælið felst í því að kveða á um skyldu til að vísa útlendingi úr landi í nánar tilteknum tilvikum en hingað til hafa brottvísunarheimildir útlendingalaga falið í sér heimild, en ekki skyldu, til brottvísunar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meginregla tilskipunarinnar er sú að útlendingi í ólögmætri dvöl skal veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Fresturinn getur verið mislangur eða 7–30 dagar allt eftir því hvernig aðstæðum útlendings er háttað. Yfirgefi útlendingur ekki landið eins og fyrir hann hefur verið lagt skal honum vísað úr landi. Þau tilvik sem skyldan tekur til eru annars vegar þegar útlendingur í ólögmætri dvöl hefur ekki yfirgefið landið sjálfviljugur innan veitts frests skv. 2. mgr. 33. gr. laganna (sbr. 9. gr. frumvarpsins) og hins vegar þegar útlendingi í ólögmætri dvöl hefur ekki verið veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum skv. 2. mgr. 33. gr. Samkvæmt ákvæðinu og 2. mgr. 33. gr. er gert ráð fyrir að útlendingi í ólögmætri dvöl verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur þegar:
     a.      hætta er á að útlendingur fari ekki sjálfviljugur,
     b.      umsókn um dvalarleyfi hefur verið synjað vegna þess að hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða veittar voru rangar eða villandi upplýsingar við umsóknina eða
     c.      útlendingur er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
    Ákvæðunum sem verða 2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 33. gr. laganna er ætlað að endurspegla fyrrnefnda meginreglu tilskipunarinnar.
     Um b-lið. (20. gr. a.)
    Lagt er til að í nýrri grein, 20. gr. a, verði mælt fyrir um heimildir til að vísa úr landi útlendingi sem hefur dvalarleyfi hér á landi. Heimildirnar í 1. mgr. eru nánast þær sömu og í nýrri 20. gr. að undanskildum a- og e-lið 1. mgr. 20. gr. en um sömu heimildir vísast til athugasemda hér að framan. Við samningu ákvæðisins var jafnframt horft til norskra laga. Ákvæðið í 2. mgr. felur í sér að útlendingur verður að hafa fengið útgefið dvalarleyfi á því tímamarki þegar brot er framið til að geta notið góðs af þeirri vernd gegn brottvísun sem ákvæði þetta veitir þeim sem hafa dvalarleyfi. Hafi brotið verið framið áður en dvalarleyfi var gefið út gilda ákvæði nýrrar 20. gr. eftir því sem við á.
     Um c-lið (20. gr. b.)
    Þá er lagt til að í nýrri grein, 20. gr. b, verði mælt fyrir um hvenær heimilt er að vísa úr landi útlendingi sem hefur búsetuleyfi en þær heimildir eru óbreyttar frá 21. gr. laganna. Þeim útlendingum sem hafa búsetuleyfi er því aðeins heimilt að vísa úr landi að um hafi verið að ræða afplánun refsingar eða refsidóm fyrir háttsemi þar sem refsirammi að íslenskum lögum er þriggja ára fangelsi eða meira (a-liður 1. mgr.), þ.e. hærri en segir í 20. gr., 20. gr. a og 20. gr. b, eða það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Ástæða þótti til að bæta við almannahagsmunum til samræmis við 20. gr. a. Ef um er að ræða afplánun refsingar eða refsidóm hér á landi er áskilið að það hafi átt sér stað árið áður. Samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna refsiverðrar háttsemi.
    Ákvæðið í 2. mgr. felur í sér að útlendingur verður að hafa fengið útgefið búsetuleyfi á því tímamarki þegar brot er framið til að geta notið góðs af þeirri vernd gegn brottvísun sem greinin veitir þeim sem hafa búsetuleyfi. Hafi brotið verið framið áður en búsetuleyfi var gefið út gildir 20. gr. a eftir því sem við á.
     Um d-lið (20. gr. c.)
    Lagt er til að í nýrri grein, 20. gr. c, verði kveðið á um áhrif brottvísunar og endurkomubanns. Ákvæðið svarar að hluta til gildandi 3. mgr. 20. gr. laganna, að hluta til 57. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 og að hluta er verið að innleiða ákvæði úr tilskipun 2008/ 115/EB. Skv. 1. mgr. falla útgefin dvalar-, atvinnu- og búsetuleyfi úr gildi þegar endanleg ákvörðun um brottvísun liggur fyrir.
    Skv. 2. mgr. nýrrar 20. gr. c. felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt, þ.e. gilt fyrir fullt og allt, eða verið tímabundið, þ.e. gilt um tiltekinn tíma. Lagt er til að lágmarkstími endurkomubanns verði færður niður í tvö ár þannig að endurkomubanni verði að jafnaði ekki markaður skemmri tími en tvö ár í stað þriggja áður. Tvær ástæður liggja einkum að baki þessari tillögu að breyttu viðmiði, annars vegar sú að lágmarkstími endurkomubanns fyrir EES-borgara er tvö ár og hins vegar sú að með innleiðingu á tilskipun 2008/115/EB er verið að herða framkvæmdina á brottvísun útlendinga sem hér dveljast í ólögmætri dvöl. Samkvæmt ákvæðum þessa kafla er til að mynda skylda að vísa brott útlendingi í ólögmætri dvöl að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Sem dæmi má nefna að hafi útlendingur einungis dvalist á landinu örfáum dögum lengur en honum var heimilt og af einhverri ástæðu ekki virt þann frest sem honum var veittur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum ber að vísa honum brott en samkvæmt tilskipuninni væri ekki val um slíka ákvörðun. Til að milda þau áhrif sem harðari framkvæmd kann að hafa þykir því rétt að leggja til lægri lágmarkstíma endurkomubanns. Sú var leið einnig farin í Noregi en þar var þó gengið lengra og lágmarkstími bundinn við eitt ár. Gert er ráð fyrir að viðmið um endurkomubann verði útfærð í reglugerð.
    Endurkomubann felur samkvæmt ákvæðinu jafnframt í sér bann við komu útlendings sem ekki er norrænn ríkisborgari til annars norræns lands án sérstaks leyfis. Samkvæmt umsókn má fella úr gildi endurkomubann enda hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin, sbr. 3. mgr. nýrrar 20. gr. c. Er það í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2008/ 115/EB. Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem hefur verið vísað úr landi að heimsækja landið án þess þó að ákvörðun um endurkomubann falli úr gildi. Við ákvörðun um hvort útlendingi skuli heimiluð endurkoma skal m.a. tekið mið af persónulegum högum viðkomandi og fjölskyldu hans.
    Í 4. mgr. nýrrar 20. gr. c er lagt til að lögfest verði heimild til að endurákvarða endurkomubann brjóti útlendingur gegn gildandi endurkomubanni. Þau tilvik geta átt sér stað að útlendingi tekst að koma til landsins þrátt fyrir að hafa verið vísað úr landi og fengið endurkomubann sem enn er í gildi, t.d. með því að framvísa fölsuðum ferðaskilríkjum á landamærum. Brot gegn endurkomubanni er refsivert skv. a-lið 1. mgr. 57. gr. laganna en sem fyrr segir þykir nauðsynlegt að lögfesta heimild til að taka nýja ákvörðun um brottvísun og endurkomubann í þeim tilvikum þar sem tekið verði tillit til þess að endurkomubann var rofið og því kunni það að verða lengt.
    Í 5. mgr. nýrrar 20. gr. c er heimild fyrir ráðherra til að setja frekari reglur um endurkomubann. Gert er ráð fyrir að í þeirri reglugerð verði t.d. sett viðmið um lengd endurkomubanns í tilteknum tilvikum.

Um 6. gr.

    Í greininni felast annars vegar ákvæði um vernd gegn frávísun og brottvísun og hins vegar ákvæði um takmarkanir á heimild til brottvísunar útlendings. Skv. 1. mgr. er óheimilt að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er á Íslandi og hefur átt hér fasta búsetu óslitið síðan. Auk fæðingar hér á landi þarf að hafa verið um að ræða órofna búsetu allan tímann. Skemmri dvöl erlendis mundi þó ekki leiða til þess að búseta teldist rofin, t.d. vegna orlofs, starfs eða náms, sbr. athugasemdir við 1. mgr. 15. gr. gildandi laga. Ákvæðið er nú að finna í 1. mgr. 21. gr. laganna.
    Skv. 2. mgr. er því aðeins heimilt að vísa norrænum ríkisborgara úr landi, sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði, að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi 2. mgr. 20. gr. laganna.
    Ákvæði 3. mgr. svarar til gildandi 2. mgr. 20. gr. laganna og kveður á um takmarkanir á brottvísun þegar slík ákvörðun felur í sér óhóflega íþyngjandi ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendingsins við landið. Ákvæðið felur í sér að við ákvörðun um brottvísun þarf að fara fram mat á heildaraðstæðum í málinu. Líta ber til refsirammans þegar svo á við, dæmdrar refsingar og þess hvort viðkomandi hafi hlotið fleiri dóma. Einnig þarf að líta til tengsla við landið. Eðlilegt og sanngjarnt er að meira þurfi til að vísa útlendingi úr landi sem hefur dvalist í landinu um lengri tíma en þeim sem hefur haft stutta viðdvöl. Þá þarf að skoða fjölskyldutengsl hér á landi og er eðlilegt að horft sé til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við mat á því hvort ákvörðun sé óhóflega íþyngjandi gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Þannig geta aðstæður verið með þeim hætti að þrátt fyrir að skilyrði brottvísunar séu fyrir hendi kunni slík ákvörðun að vera svo íþyngjandi að brotið sé gegn réttinum til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Tilskipun 2008/115/EB, brottvísanatilskipunin, gerir auk þessa ráð fyrir að tekið verði mið af heilsu þess útlendings sem til stendur að vísa brott. Ákvæðið hefur að geyma það nýmæli að sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða auk þess sem það sem barni er fyrir bestu skal haft að leiðarljósi við ákvörðun. Ákvæðið er sett í tilefni af 5. gr. tilskipunar 2008/115/EB en þar er sérstaklega kveðið á um að það sem barninu sé fyrir bestu skuli haft að leiðarljósi við ákvörðun um brottvísun. Ákvæðið á enn fremur rætur sínar að rekja til ákvæða barnasáttmálans. Rétt er að geta þess að norsk lög innleiða ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar með svipuðum hætti og hér er lagt til að verði gert.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að ákvæði 1. málsl. 3. mgr. eigi ekki við þegar brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Sama regla er nú í lögunum, sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um mat á aðstæðum skv. 3. mgr. í reglugerð.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til breytt tilvísun til samræmis við breytingu sem lögð er til í 4. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Í greininni eru ákvæði um hvenær einstakar ákvarðanir geta komið til framkvæmda og eru 1. og 4. mgr. samhljóða gildandi 1. og 2. mgr. 31. gr. laganna.
    Skv. 1. málsl. 1. mgr. er heimilt að framfylgja ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. laganna þegar í stað í samræmi við almennar reglur. Gagnstæð regla um að kæra fresti ákvörðun mundi skapa verulega erfiðleika við framfylgd slíkra ákvarðana. Ákvæðið felur hins vegar ekki í sér skyldu til að framfylgja ákvörðun um frávísun þegar í stað heldur verður það háð mati stjórnvalds. Um kærufrest fer skv. 30. gr. laganna. Ákvæðið breytir ekki þeirri reglu að æðra stjórnvald hafi heimild til að ákveða að kæra fresti réttaráhrifum til að framfylgja ákvörðun. Þá ber að gæta þess að útlendingi sem vill kæra ákvörðun gefist tími til að leggja fram kæru. Skv. 2. málsl. 1. mgr. má ekki framfylgja synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um búsetuleyfi ef sótt er um innan þess frests sem greinir í 3. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. minnst mánuði áður en leyfið fellur úr gildi, fyrr en ákvörðunin er endanleg. Ákvörðun er endanleg þegar kærufrestur er úti eða fyrir liggur endanleg stjórnsýsluákvörðun í kærumáli. Sama á við skv. 3. málsl. um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. laganna og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalist hér á landi lengur en þrjá mánuði. Hvað norræna ríkisborgara varðar er haft í huga að þeir þurfa ekki dvalarleyfi, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Af ákvæðinu leiðir að réttarstaða norræna ríkisborgara verður ekki lakari en útlendinga með dvalarleyfi en slíkt leyfi þarf ef útlendingur hyggst dveljast hér lengur en þrjá mánuði. Skv. 4. málsl. gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga að öðru leyti um frestun réttaráhrifa. Ákvörðun getur þá komið til framkvæmda þótt ákvörðun sé ekki orðin endanleg, einnig áður en kærufrestur rennur út.
    2. mgr. er nýmæli og byggist á 2. lið 9. gr. tilskipunar 2008/115/EB (brottvísanatilskipunarinnar). Þar er lagt fyrir að vegna heilbrigðisástæðna eða aðstæðna sem gera brottvísun ómögulega, t.d. ef ekki fæst flugsæti eða þess háttar, skuli fresta brottvísun. Ákvæði 2. mgr. er víðara og heimilar stjórnvöldum meira mat á því hvenær heimilt er að fresta brottvísun því orðalagið snýr almennt að sérstökum aðstæðum.
    3. mgr. byggist á 10. gr. brottvísanatilskipunarinnar en þar er kveðið á um að það sé haft að leiðarljósi við brottvísun sem barni sé fyrir bestu og að þess bíði ásættanlegar aðstæður í því landi sem senda á það til, einkum að til staðar sé einhver sem getur séð um það.
    Skv. 4. mgr. gilda sérákvæði um synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 2. mgr. 14. gr. laganna. Þeirri synjun er ekki heimilt að framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina.

Um 9. gr.

    Greinin fjallar um hvernig framfylgja skuli ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið. Að jafnaði hverfur útlendingur sem hér hefur heimild til dvalar á brott þegar dvalartími án vegabréfsáritunar, vegabréfsáritun eða dvalarleyfi rennur út og hefur ekki verið endurnýjað. Yfirgefi hann ekki landið þegar sá tími sem hann hefur heimild til dvalar er liðinn skal taka ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið. Ákvæði greinarinnar eiga einnig við þegar tekin er ákvörðun um brottvísun skv. nýrri 20. gr. a og 20. gr. b en þau ákvæði mæla fyrir um það hvenær megi vísa útlendingum í löglegri dvöl úr landi.
    1. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að óvissa myndist um heimild útlendings til dvalar þegar hann hefur verið staddur á landinu við umsókn um dvalarleyfi en fengið synjun.
    2. mgr. lýsir því þegar ljóst er að útlendingur skal yfirgefa landið. Þá er honum að jafnaði gefinn frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Er þetta í samræmi við 7. gr. tilskipunar 2008/115/EB (brottvísanatilskipunarinnar). Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar er ekki veittur slíkur frestur í ákveðnum tilvikum, svo sem ef útlendingur hefur gefið rangar upplýsingar við umsókn um dvalarleyfi, hætta er á að hann reyni að koma sér undan því að yfirgefa landið, t.d. með því að fara í felur, eða hann telst ógn við öryggi ríkisins eða almannahagsmuni. Tilvikin eru nánar upp talin í ákvæðinu.
    Í 3. mgr. er heimild til að lengja þann frest sem kveðið er á um í 2. mgr. ef nauðsynlegt telst vegna sanngirnissjónarmiða. Undir sanngirnissjónarmið geta átt margvíslegar aðstæður útlendings, t.d. skóladvöl barna hans, tækifæri til að taka saman eigur sínar og fjölskyldulíf.
    Í 4. mgr. er áréttað að útlendingur skuli njóta ákveðinna grundvallarréttinda meðan á fresti þeim er greinir frá í 2. mgr. stendur og er ákvæðið byggt á 14. gr. brottvísanatilskipunarinnar.     5. mgr. leggur þá skyldu á herðar útlendingnum að sýna fram á brottför sína og tilkynna hana Útlendingastofnun. Hún veitir einnig heimild að liðnum fresti sem tilgreindur er skv. 2. mgr. til að færa útlending úr landi hafi hann ekki orðið við ákvörðun um brottvísun. Miðað er við að flestir fari sjálfviljugir úr landi innan þess frests sem gefinn er en ef þeir gera það ekki eru þeir færðir úr landi og að auki er kveðið á um endurkomubann en nánar er vikið að því í umfjöllun um nýja 20. gr. c. Meginreglan er sú að útlendingur er fluttur til þess lands er hann kom frá, að jafnaði til heimalands hans, en jafnframt er gefin heimild til að flytja hann annað ef þannig stendur á en forsenda þess er að það ríki sé tilbúið að taka við honum. Útlendingur getur óskað þess að vera sendur til lands þar sem hann getur sýnt fram á heimild til landgöngu og skal þá að jafnaði orðið við þeirri ósk. Ef útlendingur hefur dvalarheimild í öðru EES- eða EFTA-ríki skal hann sendur þangað. Eru þessi ákvæði í samræmi við 3. lið 3. gr. og 8. gr. brottvísanatilskipunarinnar. Ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega samkvæmt 5. mgr. Þá er loks mælt fyrir um í þessari málsgrein að útlendingi, sem fellur undir ákvæðið og hefur ekki gild ferðaskilríki, sé skylt að afla sér þeirra. Þessi hluti ákvæðisins er samhljóða gildandi 1. mgr. 33. gr. laganna.
    Ákvæði 6. mgr. er óbreytt frá gildandi 1. mgr. 33. gr. laganna og fjallar um málshöfðun fyrir dómstólum þegar fyrir liggur endanlegur úrskurður ráðuneytisins. Í málsgreininni er mælt fyrir um að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar.
    Skv. 7. mgr. framfylgir lögregla ákvörðunum um frávísun og brottvísun.
    8. mgr. kveður á um heimild til ráðherra til að setja reglugerð um eftirlit með framkvæmd brottvísana, í samræmi við 6. lið 8. gr. brottvísanatilskipunarinnar. Þar er kveðið á um sjálfstætt eftirlitskerfi með brottvísunum. Ýmsar leiðir eru til innleiðingar þessu eins og fram hefur komið í mismunandi framkvæmd Evrópuríkja. Sum ríki hafa falið félagasamtökum þetta hlutverk en önnur hafa falið það stofnunum hliðstæðum umboðsmanni Alþingis. Er þá ætlunin að slíkar stofnanir hafi aðgang að málsgögnum er varða brottvísanir og geti að eigin frumkvæði og/eða eftir ósk útlendings tekið mál til nánari skoðunar. Þetta er m.a. gert til þess að reyna að tryggja að ekki sé brotið gegn grundvallarmannréttindum þeirra útlendinga sem vísað er brott.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að 3.–8. mgr. 33. gr. laganna verði færðar í nýja grein og að fyrirsögn hennar endurspegli þau úrræði sem lögreglu er heimilt að beita til að framkvæma ákvörðun þegar nauðsynlegt þykir. Ekki er um neinar efnisbreytingar að ræða.

Um 11. gr.

    Hér eru lagðar til breyttar tilvísanir til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 5. og 12. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Lagt er til að 18 nýjar greinar komi komi í stað 35.–43. gr. sem eru í VI. kafla laganna. Með þessum kafla er innleidd að fullu tilskipun 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Sú tilskipun var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2007. Í tilskipuninni er að finna reglur um komu og dvöl EES-borgara í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES- og EFTA-ríkjunum. Tilskipunin var innleidd að hluta til með lögum nr. 86/2008, um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, og með lögum nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en frumvarp þetta miðar að því að innleiða tilskipunina að fullu og koma til móts við athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að Ísland hafi ekki innleitt tilskipunina með fullnægjandi hætti. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, kemur fram að vorið 2011 hafi ESA sent innanríkisráðuneytinu bréf með fyrirspurn í 28 liðum um stöðu innleiðingar Íslands á tilskipun 2004/38/EB þar sem gerðar voru nokkrar athugasemdir við innleiðingu Íslands á tilskipuninni. Bréfinu hafi verið svarað nokkuð ítarlega af hálfu ráðuneytisins í júlí 2011 með loforðum um úrbætur á haustmánuðum 2011. Það hafi ekki reynst raunhæft markmið en með frumvarpinu væri leitast við að gera þær breytingar á lögum um útlendinga sem telja mætti óhjákvæmilegar í ljósi athugasemda ESA. Við innleiðingu tilskipunarinnar í frumvarpi þessu hefur m.a. verið litið til þess hvernig Noregur hefur innleitt efni tilskipunarinnar í sína löggjöf. Í frumvarpinu er lagt til að hugtökin EES- borgari og EFTA-borgari verði tekin upp en nú er notast við hugtökin EES- eða EFTA- útlendingur í lögunum. Er þessi breyting gerð í samræmi við tilskipun 2004/38/EB og athugasemdir frá ESA. Með tilskipuninni er steypt saman í eina gerð helstu reglum sem gilt hafa um rétt EES- og EFTA-borgara til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Um a-lið. (35. gr.)
    Lagt er til að í nýrri 35. gr. verði fjallað um gildissvið kaflans. Skv. 1. mgr. gildir kaflinn um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hér eftir nefndir EES-borgarar, og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), hér eftir nefndir EFTA-borgarar, til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. kemur fram að ákvæði kaflans gilda einnig um aðstandendur EES- og EFTA- borgara, svo fremi sem þeir fylgja EES- eða EFTA-borgara eða koma til hans í því ríki þar sem EES- eða EFTA-borgarinn dvelst. Ákvæði kaflans gilda jafnframt um aðstandendur íslenskra ríkisborgara svo fremi sem þeir fylgja íslenskum ríkisborgara eða koma til íslensks ríkisborgara sem snýr aftur til Íslands eftir að hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar samkvæmt EES-samningnum eða stofnsamningi EFTA í öðru EES- eða EFTA-ríki.
     Um b-lið. (35. gr. a.)
    Í nýrri 35. gr. a er að finna reglur um heimild EES- og EFTA-borgara til að koma til landsins og dveljast hér. Í 1. mgr. kemur fram að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum kaflans veiti rétt til að dveljast hvar sem er á Íslandi nema takmarkanir hafi verið settar samkvæmt lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Skv. 2. mgr. kemur réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla ekki í veg fyrir að útlendingur skv. 1. mgr. 35. gr. fái dvalarleyfi samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. 3. mgr. er í samræmi við gildandi 2. mgr. 35. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu er útlendingi, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis til að veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári sé hann sannanlega starfsmaður þjónustuveitanda á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki. Í 4. mgr. kemur fram að ekki megi neita EES- eða EFTA-borgara um að fá að njóta réttinda sinna á þeim grundvelli einum að viðkomandi sé ekki handhafi skráningarvottorðs skv. 39. gr., skjals eða skírteinis sem staðfestir rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 39. gr. b, skjals sem vottar að umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandendur hafi verið lögð fram eða dvalarskírteinis skv. 39. gr. a, þar eð viðkomandi getur fært sönnur á rétt með ýmsum öðrum skjölum. Þetta skilyrði kemur fram í 1. mgr. 25. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem innleidd var með 5. gr. laga nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, en í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að ESA hafi gert athugasemdir við að þetta ákvæði hafi ekki verið innleitt af Íslands hálfu. Í 5. mgr. kemur fram að aðstandendur skuli vera undanþegnir kvöð um vegabréfsáritun ef þeir eru handhafar gilds dvalarskírteinis skv. 39. gr. a laganna. Slíkar vegabréfsáritanir skulu gefnar út án endurgjalds eins fljótt og hægt er og hljóta flýtimeðferð. Umrætt ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 6. mgr. kemur fram að hafi EES- eða EFTA-borgari, eða aðstandandi sem er ekki EES- eða EFTA-borgari, ekki nauðsynleg ferðaskilríki eða tilskildar vegabréfsáritanir, sé þeirra krafist, skal áður en slíkum einstaklingum er vísað frá, gefa þeim tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma eða til að fá framburð sinn staðfestan eða fá viðurkennt á annan hátt að þeir falli undir réttinn til frjálsrar farar og dvalar. Er þetta í samræmi við 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 7. mgr. ákvæðisins er síðan heimild til að setja frekari fyrirmæli í reglugerð, m.a. um flýtimeðferð skv. 3. mgr.
     Um c-lið. (35. gr. b.)
    Lagt er til að í nýrri 35. gr. b verði kveðið á um dvöl aðstandenda EES- eða EFTA-borgara en skv. 1. mgr. á aðstandandi EES- eða EFTA-borgara, sem dvelst löglega hér á landi, rétt til að dveljast með honum hérlendis. Ákvæðið er nánast samhljóða gildandi 37. gr. laganna er kveður á um dvöl aðstandenda en nýmæli er að finna í 2. málsl. 1. mgr. um að aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, skuli óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi. Er þetta í samræmi við 3. mgr. 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 2. mgr. er tilgreint hverjir séu aðstandendur EES- eða EFTA-borgara. Undir hugtakið maki fellur einnig samvistarmaki.
     Um d-lið. (35. gr.)
    Ný 36. gr. er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2004/38/EB og kveður á um rétt EES- eða EFTA-borgara til dvalar í allt að þrjá mánuði hér á landi. Ákvæðið gildir einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sem ekki er EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf. Í 1. mgr. kemur fram að EES- eða EFTA-borgari megi koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi. Er það í samræmi við 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB en það skilyrði hefur þegar verið innleitt í lögin, sbr. 4. gr. laga nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Með þeirri grein voru gerðar breytingar á 35. gr. laganna og því bætt við að réttur skv. 1. mgr. 35. gr. væri háður því að viðkomandi einstaklingur yrði ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að breytingin eigi rætur að rekja til 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB. ESA hafi gert athugasemdir við að orðin „verða ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar“ vantaði í lög um útlendinga. Var því lagt til að þetta orðalag yrði fært inn í ákvæði 35. gr. laganna.
    Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út leiðbeiningar varðandi túlkun tilskipunar 2004/38/ EB (Communication from the Commission to the European Parliament and the Council on guidance for better transposition and application of Directive 2004/38/EC on the rights of citizens of the Union and their family members to move and reside freely within the territory of the Member States) frá 2. júlí 2009. Þar kemur m.a. fram að við mat á því hvort einstaklingur sé talinn ósanngjörn byrði á gistiríkinu verði viðkomandi ríki að framkvæma meðalhófspróf. Ríki verði í þeim efnum að líta til þriggja atriða. Í fyrsta lagi í hversu langan tíma viðkomandi hafi þegið bætur, hvort líklegt sé að breyting verði á högum viðkomandi fljótlega og hversu lengi viðkomandi hafi verið búsettur í gistiríkinu. Í öðru lagi persónulegar aðstæður, þ.e. tengsl viðkomandi og fjölskyldu hans í gistiríkinu og hvort einhverjar sérstakar aðstæður sem varða viðkomandi þurfi að taka til skoðunar, svo sem aldur, heilsufar, fjölskyldu og efnahagslegar aðstæður. Í þriðja lagi upphæð bóta, þ.e. hversu miklar bætur viðkomandi hefur þegið, hvort bakgrunnur viðkomandi bendi til þess að hann hafi ítrekað þegið félagslega aðstoð og hvort viðkomandi hafi lagt eitthvað af mörkum til félagslega kerfisins í aðildarríkinu. Með þessu er vísað til þess að hafi einstaklingur greitt skatta og sinnt skyldum sínum við samfélagið sé ekki hægt að halda því fram að hann reynist ósanngjörn byrði gagnvart gistiríkinu.
    Í 2. mgr. segir að EES- eða EFTA-borgari, sem falli undir skilgreiningu 1. mgr. og sé í atvinnuleit, megi dveljast hér á landi í allt að sex mánuði frá komu til landsins svo lengi sem hann verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi. Hið sama gildi um aðstandendur EES- eða EFTA-borgarans. Í 3. mgr. kemur fram að dvöl í öðru norrænu landi skuli ekki draga frá dvalartímanum og er það ákvæði að finna í gildandi 1. mgr. 35. gr. laganna. Í 4. mgr. kemur fram að ákvæði 1. mgr. gildi einnig um aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sem ekki sé EES- eða EFTA-borgari, að því tilskildu að aðstandandinn fylgi eða komi til EES- eða EFTA-borgarans og hafi gilt vegabréf. Þá segir í 5. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um útreikninga á lengd dvalar. Þá er ráðherra, er fer með málefni félagsmála, heimilt að setja frekari fyrirmæli í reglugerð um skilgreiningu hugtaksins „ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar“.
     Um e–g-lið. (36. gr. a, 37. gr. og 37. gr. a.)
    Í nýrri 36. gr. a, 37. gr. og 37. gr. a er kveðið á um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði, í fyrsta lagi fyrir EES- eða EFTA-borgara, í öðru lagi fyrir aðstandendur sem eru EES- eða EFTA-borgarar og í þriðja lagi fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Þessi ákvæði eru í samræmi við 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem hefur að hluta til verið innleidd í lögin. Með lögum nr. 83/2012 var orðalagi c-liðar 36. gr. laganna breytt þannig að viðkomandi verður að þiggja nægilegar fastar reglubundnar greiðslur eða eiga nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á dvalartímabilinu og hafa fullnægjandi sjúkratryggingu, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 83/2012. Í 2. mgr. 36. gr. a er kveðið á um það að krefja megi EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 35. gr. a. Þá er heimilt að krefja EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og sýna fram á með yfirlýsingu, eða jafngildum aðferðum, að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr. 36. gr. a, sbr. þó 4. mgr. 35. gr. a. Þetta ákvæði er að finna í gildandi 2. mgr. 36. gr. laganna. Fyrirvara 4. mgr. 35. gr. a er að finna í gildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 83/2012 og vísast í athugasemdir við 4. mgr. 35. gr. a hvað það varðar.
    Í 3. mgr. 36. gr. a er kveðið á um að EES- eða EFTA-borgari, sem dvelst á landinu sbr. a- lið 1. mgr., en hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, haldi stöðu sinni sem launþegi eða sjálfstætt starfandi við tilteknar aðstæður. Í 4. mgr. 36. gr. a kemur fram að ráðherra geti sett nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð, m.a. um gögn skv. 2. mgr., um skilgreiningu á nægilegu fé, sbr. c-lið 1. mgr., um viðurkenndar menntastofnanir skv. d-lið 1. mgr. og um rétt EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir a-lið 1. mgr. til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans, en þetta síðastnefnda samsvarar heimild í gildandi 38. gr. laganna.
    Í 37. gr. og 37. gr. a. er áréttað að aðstandendur EES- eða EFTA-borgara haldi rétti sínum til dvalar er EES- eða EFTA-borgari fer af landi brott eða fellur frá, við skilnað, ógildingu hjúskapar eða slit á sambúð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi ákvæði koma að hluta til fram í 12. og 13. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem hafa ekki verið innleiddar í lögin en í athugasemdum með tilskipun 2004/38/EB kemur fram að aðstandendur skuli njóta verndar að lögum við andlát ríkisborgara aðildarríkis ESB, skilnað, ógildingu hjúskapar eða slit staðfestrar samvistar. Þá skuli að teknu tilhlýðilegu tilliti til fjölskyldulífs og mannlegrar reisnar og við sérstakar aðstæður til verndar gegn misnotkun gera ráðstafanir til að tryggja að við slíkar aðstæður haldi þeir aðstandendur sem dveljast þegar á yfirráðasvæði gistiaðildarríkis dvalarrétti sínum á persónubundnum grundvelli eingöngu.
    Ákvæðin þarfnast að öðru leyti ekki frekari skýringa.
     Um h- og i-lið. (38. gr. og 38. gr. a.)
    Ný 38. gr. og 38. gr. a fjalla um rétt til ótímabundinnar dvalar fyrir EES- eða EFTA-borgara og aðstandendur þeirra, hvort sem þeir eru EES- eða EFTA-borgarar eða ekki. Þetta ákvæði er í samræmi við 16. og 17. gr. tilskipunar 2004/38/EB en þau ákvæði hafa að hluta til verið innleidd, sbr. 39. gr. laganna. Í athugasemdum með tilskipun 2004/38/EB kemur fram að réttur ríkisborgara aðildarríkis ESB, sem hafa kosið að setjast að til frambúðar í gistiaðildarríki til ótímabundinnar dvalar, mundi efla vitund fólks um ríkisborgararétt í aðildarríkjum ESB og sé lykilþáttur í því að stuðla að félagslegri samheldni sem sé eitt af grundvallarmarkmiðum sambandsins. Því sé rétt að mæla fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar fyrir alla ríkisborgara aðildarríkja ESB og aðstandendur þeirra sem hafa dvalist í gistiaðildarríki í samræmi við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í tilskipuninni samfleytt í fimm ár án þess að gripið hafi verið til ráðstafana til brottvísunar þeirra.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. kemur fram að réttur til ótímabundinnar dvalar sé óháður skilyrðum 36. gr. a. og 37. gr. Umrætt ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 2004/38/ EB en í athugasemdum í greinargerð við 7. gr. laga nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, kemur fram að ESA hafi bent á að ákvæði 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar hafi ekki verið réttilega innleitt, þ.e. að ekki kæmi fram í 39. gr. laganna að búseturéttur væri óháður skilyrðum þeim sem koma fram í 1. mgr. 36. gr. laganna.
    Í 2. mgr. 38. gr. og 2. mgr. 38. gr. a er orðalagi breytt til samræmis við 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í athugasemdum við 7. gr. laga nr. 83/2012, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, kemur fram að ESA hafi ekki talið 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 2004/ 38/EB hafa verið réttilega innleidda þar sem um tæmandi talningu hafi verið að ræða í 3. mgr. 39. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002. Var því lögð til breyting á 3. mgr. 39. gr. til áréttingar á því að um upptalningu í dæmaskyni væri að ræða. Þessu til viðbótar eru nú lagðar til frekari breytingar til að samræma orðalag við 3. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar. Nokkur nýmæli er einnig að finna í 3.–6. mgr. 38. gr. þar sem fjallað er m.a. um undanþágur fyrir fimm ára samfelldri búsetu fyrir EES- eða EFTA-borgara og aðstandendur þeirra. Ákvæðin þarfnast að öðru leyti ekki frekari skýringa.
     Um j-lið. (39. gr.)
    Í nýrri 39. gr. er kveðið á um skráningu EES- og EFTA-borgara og aðstandenda sem dveljast á landinu skv. 36. gr. a. eða 37. gr. Er þetta í samræmi við 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í gildandi 3. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 37. gr. laganna er að finna skyldu EES- eða EFTA-útlendings og aðstandanda hans til skráningar. Í lögunum er þó ekki að finna reglur um skráningarvottorð eins og hér eru lagðar til. Skv. 3. málsl. 1. mgr. skal skráningarvottorð gefið út eins fljótt og unnt er eftir að viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um þau gögn sem stjórnvöldum er heimilt að óska eftir að EES- eða EFTA-borgari og aðstandendur leggi fram. Þá kemur fram í 4. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt ákvæðinu í reglugerð, m.a. um gjald fyrir útgáfu skráningarvottorðs sem ætlað er að standa undir kostnaði við útgáfuna.
     Um k-lið. (39. gr. a.)
    Í nýrri 39. gr. a er kveðið á um dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar og eiga rétt til dvalar skv. 37. gr. a laganna. Ákvæðið er í samræmi við 9., 10. og 11. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í gildandi 4. mgr. 37. gr. laganna er kveðið á um að aðstandandi, sem er ekki EES- eða EFTA-útlendingur, skuli sækja um dvalarskírteini innan þriggja mánaða frá komu til landsins. Í 2. mgr. er kveðið á um þau gögn sem leggja skal fram með umsókn um dvalarskírteini og í 3. mgr. er kveðið á um afgreiðslufrest fyrir umsókn um dvalarleyfisskírteini og gildistíma þess. Umrædd skilyrði er ekki að finna nú í lögunum. Í 4. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um útgáfu skírteinis samkvæmt ákvæði þessu, að fenginni umsókn. Þá er í 5. mgr. reglugerðarheimild þar sem m.a. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir útgáfu dvalarskírteinis sem ætlað er að standa straum af kostnaði við útgáfuna.
     Um l-lið. (39. gr. b.)
    Ný 39. gr. b kveður á um vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 38. og 38. gr. a laganna. Umrætt ákvæði er í samræmi við 19. og 20. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í gildandi 4. mgr. 39. gr. laganna kemur fram að samkvæmt umsókn og að uppfylltum skilyrðum skuli gefin út staðfesting á rétti til ótímabundinnar dvalar. Í athugasemdum við 25. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 86/2008 segir að gert sé ráð fyrir að Útlendingastofnun gefi út staðfestingu á rétti til ótímabundinnar dvalar, hvort sem er í formi vottorðs eða skírteinis. Í 1. mgr. segir að EES- eða EFTA-borgari sem eigi rétt til ótímabundinnar dvalar á landinu skv. 38. gr., fái eftir umsókn vottorð um rétt til ótímabundinnar dvalar svo fljótt sem verða má. Umrætt ákvæði er í samræmi við 19. gr. tilskipunar 2004/38/EB en í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 83/2012 kemur fram að ESA hafi gert athugasemd við að í 39. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, vantaði þann áskilnað 19. gr. tilskipunarinnar að skírteini skyldi útgefið svo fljótt sem verða má. Í 2. mgr. kemur fram að útlendingur sem eigi rétt til búsetu á landinu skv. 38. gr. a, fái skírteini til staðfestingar á rétti til ótímabundinnar dvalar eftir umsókn. Umsókn um slíkt skírteini skuli afgreidd fyrir lok gildistíma dvalarskírteinis skv. 39. gr. a. Þá kemur fram í 3. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt ákvæðinu í reglugerð, m.a. um heimild til þess að taka gjald fyrir útgáfu vottorðs og skírteinis um rétt til ótímabundinnar dvalar til að standa undir kostnaði við útgáfuna. Þá er heimilt að ákveða í reglugerð að aflað skuli lífkenna í formi andlitsmyndar og fingrafara og þau varðveitt í skírteini sem útgefið er samkvæmt þessu ákvæði.
     Um m-lið. (40. gr.)
    Í nýrri 40. gr. er kveðið á um brottfall dvalarréttar og er ákvæðið nánast samhljóða gildandi 40. gr. laganna. Greininni var breytt með lögum nr. 86/2008 og í athugasemdum við frumvarpið sem varð að þeim lögum segir að skv. 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB sé gert ráð fyrir því að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna við misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mælir fyrir um, t.d. vegna málamyndahjúskapar.
    Í 1. mgr. kemur fram að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla falli niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerninga að hætti 3. mgr. 13. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en samræmist þessum kafla. Sama eigi við ef um aðra misnotkun er að ræða. Skv. 2. mgr. er heimilt að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, eða ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna eða ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga.
    3. mgr. er samsvarandi gildandi 2. mgr. 40. gr. laganna. Rétt þykir að taka fram hvenær dvalarréttur fellur ekki niður jafnvel þótt viðkomandi útlendingur uppfylli ekki lengur skilyrði a- eða b-liðar 1. mgr. 36. gr. a um rétt til dvalar. Skv. 4. mgr. skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður. Í 5. mgr. kemur fram að ráðherra sé heimilt að setja frekari fyrirmæli samkvæmt ákvæðinu í reglugerð, m.a. um takmarkanir á brottfalli dvalarréttar.
     Um n-lið. (40. gr. a.)
    Ákvæði nýrrar 40. gr. a er ekki að finna í lögunum en í því er að finna heimildir til að afturkalla dvalarskírteini eða vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar. Í 1. mgr. kemur fram að afturkalla megi á grundvelli 40. gr. skráningarvottorð, dvalarskírteini og vottorð og skírteini um rétt til ótímabundinnar dvalar. Í 2. mgr. segir að skráningarvottorð og dvalarskírteini megi einnig afturkalla ef skráning er ógild af öðrum ástæðum. Skv. 3. mgr. ákvæðisins skulu vottorð og skírteini, sem nefnd eru í 1. mgr., afturkölluð þegar réttur til dvalar fellur niður skv. 3. málsl. 1. mgr. 38. gr. og 4. málsl. 38. gr. a. Í 4. mgr. kemur fram að dvalarskírteini útlendings sem er ekki EES- eða EFTA-borgari skuli afturkalla ef útlendingurinn fær dvalarleyfi samkvæmt öðrum köflum laganna. Í 5. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun samkvæmt þessu ákvæði.
     Um o-lið. (41. gr.)
    Í nýrri 41. gr. er kveðið á um frávísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Ákvæðið er nánast samhljóða gildandi 41. gr. laganna. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins er þó gerður fyrirvari með vísan til 6. mgr. 35. gr. a sem kveður m.a. á um tækifæri til að afla nauðsynlegra skjala eða fá þau send innan sanngjarns tíma áður en slíkum einstaklingum er vísað frá. Þá er orðalagi d-liðar 1. mgr. ákvæðisins breytt í samræmi við orðalag tilskipunar 2004/38/EB en þar kemur fram að takmarka megi réttinn til frjálsrar farar og dvalar á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis.
     Um p-lið. (42 gr.)
    Í nýrri 42. gr. er kveðið á um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi. Umrætt ákvæði er að hluta til að finna í gildandi 42. gr. laganna. Í 1. mgr. kemur fram að heimilt sé að vísa EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. er orðalagi breytt til að það samræmist betur efni tilskipunar 2004/38/EB en áréttað er m.a. að fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt, sbr. 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Í 3. mgr. kemur fram að einnig sé heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 36. gr., 36. gr. a, 37. gr. eða 37. gr. a.
    Í 4. mgr. kemur fram að einstaklingi, sem hefur rétt til dvalar skv. 36. gr., sé heimilt að vísa úr landi ef það er talið nauðsynlegt til verndar heilsu almennings og stjórnvöld hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara. Þeir sjúkdómar sem geta réttlætt brottvísun með skírskotun til almannaheilbrigðis er hver sá sjúkdómur sem getur valdið farsótt eins og skilgreint er í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, sem og aðrir smitsjúkdómar af völdum sníkjudýra í samræmi við ákvæði laga um sóttvarnir. Ekki er heimilt að vísa úr landi EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, með skírskotun til almannaheilbrigðis ef lengri tími en þrír mánuðir eru liðnir frá komu til landsins. Koma þessi sjónarmið fram í athugasemdum með 27. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 86/2008.
    Í 5. mgr. kemur fram að Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun og er það í samræmi við gildandi 5. mgr. 42. gr. laganna.
     Um q-lið. (42. gr. a.)
    Ný 42. gr. a kveður á um endurkomubann EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Þetta ákvæði miðar að því að gera reglur er varða endurkomubann skýrari en þær eru nú í lögunum en ákvæðið er í samræmi við 32. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Ákvæðið er að hluta til að finna í gildandi 4. mgr. 42. gr. laganna en þar er m.a. gert ráð fyrir því að ráðherra setji nánari reglur um endurkomubann.
    Í 1. mgr. kemur fram að brottvísun skv. 1. og 4. mgr. 42. gr. laganna feli í sér bann við komu í landið síðar. Endurkomubann geti verið tímabundið eða varanlegt en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skal sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 42. gr. laganna.
    Í 2. mgr. kemur fram að samkvæmt umsókn megi fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og sýna að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá skal taka ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans. Eru þessi ákvæði í samræmi við 32. gr. tilskipunar 2004/38/EB en í athugasemdum með tilskipuninni segir að í samræmi við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, sem bannar aðildarríkjum að taka ákvarðanir um að útiloka einstaklinga, sem þessi tilskipun tekur til, frá yfirráðasvæði sínu fyrir lífstíð, sé rétt að staðfesta að ríkisborgarar aðildarríkja ESB og aðstandendur þeirra, sem hafa verið útilokaðir frá yfirráðasvæði aðildarríkis, eigi rétt á því að leggja fram nýja umsókn að hæfilega löngum tíma liðnum og í öllum tilvikum þegar þrjú ár eru liðin frá endanlegu endurkomubanni (e. exclusion order).
    Í 3. mgr. kemur fram að við sérstakar aðstæður geti sá sem vísað hefur verið á brott, eftir umsókn, fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun.
    Í 4. mgr. segir að Útlendingastofnun taki ákvörðun um heimild EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu
     Um r-lið. (43. gr.)
    Í nýrri 43. gr. er kveðið á um takmarkanir á heimild til brottvísunar skv. 42. gr. laganna. Ákvæðið er í samræmi við 28. gr. tilskipunar 2004/38/EB sem hefur að hluta til verið innleidd í gildandi 42. gr. laganna. Í 1. mgr. kemur fram að þeim EES- eða EFTA-borgurunum, eða aðstandendum þeirra, sem hér hafa rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 38. gr. eða 38. gr. a verði veitt aukin vernd gegn brottvísun þannig að þeim verði ekki vísað úr landi nema alvarlegar ástæður er varða allsherjarreglu eða almannaöryggi krefjist þess. Þá er einnig kveðið á um það að tilteknum hópi EES- eða EFTA-borgara, eða aðstandenda þeirra, verði veitt aukin vernd þannig að þeim sem hafa dvalist hér löglega í lengri tíma en tíu ár verði ekki vísað úr landi nema brýnar ástæður er varða almannaöryggi krefjist þess. Sama gildi um ólögráða einstaklinga nema annað verði talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins eins og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 kveður á um (meginreglan um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. 3. gr. sáttmálans).
    Í 2. mgr. koma fram dæmi um atriði sem Útlendingastofnun ber að leggja mat á varðandi aðstæður EES-eða EFTA-borgara, eða aðstandanda hans, þegar ákvörðun um brottvísun kemur til álita. Nýmæli koma fram í 1. málsl. 3. mgr. en þar er áréttað að brottvísun skuli ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans leiti til kerfis félagslegrar aðstoðar. Er þetta í samræmi við 3. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB en í athugasemdum með tilskipuninni kemur fram að svo lengi sem einstaklingar með dvalarrétt séu ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiaðildarríkinu skuli þeim ekki vísað úr landi. Brottvísun skuli því ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að leitað sé til kerfis félagslegrar aðstoðar. Þá segir að við mat á því hvort bótaþegi sé orðinn ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar í gistiaðildarríkinu og hvort það skuli varða brottvísun skuli gistiaðildarríkið kanna hvort um er að ræða tímabundna erfiðleika og taka tillit til þess hve lengi viðkomandi hefur dvalist í landinu, til persónulegra aðstæðna og til þess hve mikla aðstoð hann hefur þegið. Ekki skuli undir neinum kringumstæðum beita brottvísun gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum eða fólki í atvinnuleit samkvæmt skilgreiningu Evrópudómstólsins nema það sé gert á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Í 2. málsl. 3. mgr. segir að brottvísun skuli aldrei beitt af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi og er það í samræmi við 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 2004/38/EB.
    Í 4. mgr. er innleitt ákvæði 4. mgr. 14. gr. tilskipunar 2004/38/EB og komið til móts við athugasemdir ESA um að ákvæðið hafi ekki verið innleitt, sbr. athugasemdir við 9. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 83/2012.

Um 13. og 14.. gr.

    Hér eru lagðar til breyttar tilvísanir til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 5. og 12. gr. frumvarpsins.

Um 15. og 16. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.