Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 16. máls.
142. löggjafarþing 2013.
Þingskjal 116  —  16. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar
um málefni sparisjóða.


     1.      Hvaða afleiðingar eru líklegastar fyrir samkeppni á bankamarkaði ef sparisjóðirnir hverfa af honum? Hefði það jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir bankaþjónustu á landsbyggðinni ef sparisjóðirnir yrðu ekki hluti af fjármálakerfi landsins til framtíðar? Mundi áframhaldandi starfsemi sparisjóðanna draga úr eða auka kerfisáhættu í bankakerfi Íslendinga?
    Bæði Bankasýsla ríkisins og Samkeppniseftirlitið hafa fjallað um og reynt að leggja mat á samkeppni á bankamarkaði og svo sérstaklega hlutverk sparisjóðanna og mikilvægi þeirra fyrir samkeppni á þessum markaði. Er vísað til þessara úttekta varðandi fyrstu tvo liðina í spurningu fyrirspyrjandi (sjá ársskýrslu Bankasýslu ríkisins 2013, bls. 45, og umfjöllun í 6. kafla sömu skýrslu; sjá einnig ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 18/2012 og skýrslu sömu stofnunar frá febrúar 2013, Samkeppni á bankamarkaði).
    Varðandi þá spurningu hvort það hefði jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir bankaþjónustu á landsbyggðinni ef sparisjóðirnir hyrfu af markaði má jafnframt vísa til yfirlits sem er að finna í síðustu ársskýrslu Bankasýslu ríkisins yfir fjölda útibúa viðskiptabanka og sparisjóða eftir landsvæðum í árslok 2012, sbr. eftirgreinda töflu:

Landsvæði Viðskiptabankar Sparisjóðir Samtals
Höfuðborgarsvæðið 32 0 32
Reykjanes 6 0 6
Suðurland 12 3 15
Vesturland 7 0 7
Vestfirðir 6 4 10
Norðurland vestra 6 1 7
Norðurland eystra 6 10 16
Austurland 9 3 12
Samtals 84 21 105

    Í töflunni kemur m.a. fram að sparisjóðirnir starfrækja engin útibú á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Vesturlandi og einungis eitt útibú á Norðurlandi vestra. Af töflunni að dæma mun það hafa mest áhrif á bankaþjónustu á Norðurlandi eystra ef þjónusta sparisjóða legðist af.
    Varðandi spurninguna um áhrif áframhaldandi starfsemi sparisjóðanna á kerfisáhættu í bankakerfi á Íslandi má benda á að talið hefur verið að litlar einingar geti í ákveðnum tilvikum haft ákveðin áhrif á fjármálastöðugleika. Í þessum efnum má minna á ummæli Charlotte Sickermann, hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, á ársfundi Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári, en í kynningu hennar sagði meðal annars: „Even smaller banks can pose threat to financial stability.“ 1 Það verður þó eðli máls samkvæmt að meta það eftir aðstæðum hverju sinni hvað sé til þess fallið að raska fjármálastöðugleika.
    Hér á eftir má sjá upplýsingar um innlán og útlán lánastofnana, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í árslok 2011, en taflan byggist á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu. 2

Viðskiptabankar og sparisjóðir Útlán (samstæða) Innlán (samstæða)
Arion banki hf. 561.550.000 489.994.732
Íslandsbanki hf. 564.394.762 462.943.219
Landsbankinn hf. 639.130.000 443.590.208
Sparisjóðirnir 36.870.455 46.003.546
MP banki hf. 13.294.303 34.594.083
Samtals 1.815.239.520 1.477.125.788

    Samkvæmt sömu skýrslu Fjármálaeftirlitsins er samanlögð hlutdeild sparisjóðanna í heildarútlánum, að meðtöldum útlánum lánafyrirtækja, 1,4% en hlutdeild sparisjóðanna í heildarinnlánum er 3,1%.

     2.      Hafa sparisjóðirnir fengið sambærilegar afskriftir af lánasöfnum sínum og bankarnir fengu þegar þeir tóku yfir lánasöfn föllnu bankanna? Ef ekki, hvaða áhrif hefur það á samkeppnisstöðu sparisjóðanna gagnvart bönkunum?
    Fimm sparisjóðir sem ríkið fer með eignarhlut í fóru í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árinu 2010 en starfa eftir sem áður á sömu kennitölum og fyrir hrun. Viðskiptabankarnir þrír voru hins vegar endurreistir sem nýjar fjármálastofnanir og eignir keyptar yfir í nýja banka frá þrotabúum gömlu bankanna með afslætti vegna óvissu um raunvirði eigna. Að þessu leyti var endurskipulagning sparisjóða (sem fór fram skuldamegin á efnahagsreikningi þeirra) með öðrum hætti heldur en endurskipulagning viðskiptabankanna (sem fór fram eignamegin á efnahagsreikningi þeirra). Erfitt er að fullyrða um áhrif þessa á samkeppnisstöðu sparisjóðanna gagnvart bönkunum en benda má á að við upphaflega endurskipulagningu fengu þeir fimm sparisjóðir, sem eru að hluta til í eigu ríkisins, 5,5 milljarða kr. afskrifaða af samtals 10,7 milljarða kr. kröfum, eða um 51,3 %, samkvæmt ársskýrslu Bankasýslu ríkisins 2011. Sumir sparisjóðir hafa fengið frekari eftirgjöf frá kröfuhöfum sínum eftir upphaflega endurskipulagningu. Erfitt er að bera þessar afskriftir saman við kaupverð hinna föllnu banka á lánasöfnum þar sem ekki liggur fyrir hvort sambærileg lán hafi verið metin með sambærilegum hætti og ekki er víst að samsetning lánasafna sparisjóðanna og viðskiptabankanna hafi verið sambærileg. Hér má þó hafa í huga að fjárhagsleg endurskipulagning á skuldum sparisjóðanna tók mið af þeirra eigin mati á verðmæti útlánasafns þeirra.

     3.      Með tilliti til þess hversu mikilvægu hlutverki Afl á Siglufirði gegnir innan sparisjóðafjölskyldunnar, hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að lokið verði uppgjöri Arion banka við sparisjóðinn á sömu forsendum og viðhafðar voru við uppgjör Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands á erlendum skuldum þeirra sparisjóða sem voru í umsjá þess?
    Engin áform eru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að beita sér í gagnkvæmum samningum einstakra fyrirtækja eða sparisjóða.

     4.      Hver er markaðshlutdeild íslensku bankanna, hvers um sig, og sparisjóðanna, samtals, miðað við fyrirliggjandi tölur um annars vegar útlán og hins vegar innlán?
    Eftirfarandi tafla (heimild: Fjármálaeftirlitið) sýnir útlán til viðskiptavina og innlán frá viðskiptavinum lánastofnana í árslok 2011, en það eru nýjustu tölur sem birtar hafa verið frá Fjármálaeftirlitinu. Sýnir taflan útlán viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja en innlán viðskiptabanka og sparisjóða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     5.      Hversu miklar eignir liggja í skuldum sparisjóðanna við Eignarhaldsfélag Seðlabankans, í stofnfé í eigu Bankasýslunnar, verðmæti vörumerkisins og bankaleyfum sparisjóðanna?

    Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins nema kröfur Eignarhaldsfélags Seðlabankans ehf. á hendur sparisjóðum 1.062,6 millj. kr. miðað við 31. desember 2012 og stofnfé íslenska ríkisins sem er í umsjón Bankasýslu ríkisins er samtals 1.663,2 millj. kr. að nafnverði við ritun þessa svars. Verðmæti vörumerkis og bankaleyfa sparisjóðanna ætti að endurspeglast í markaðsvirði stofnfjár viðkomandi sparisjóðs á hverjum tíma en ekki hefur verið lagt sjálfstætt mat á þessi verðmæti af hálfu ráðuneytisins. Varðandi verðmæti bankaleyfis sparisjóðs þarf að hafa í huga að leyfið er óframseljanlegt, eða ekki seljanlegt, og því vandséð að það geti talist sjálfstætt verðmæti.

     6.      Hvernig hyggst ríkisstjórnin vinna að því að endurheimta þá fjármuni sem lagðir hafa verið í stofnfé sparisjóðanna?
    Endurheimt þeirra verðmæta sem lögð hafa verið í stofnfé sparisjóðanna er verkefni Bankasýslu ríkisins, sbr. lög nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins. Þá hafa verið sett lög nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Skv. 4. gr. laganna annast Bankasýsla ríkisins sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins, m.a. á eignarhlut ríkisins í sparisjóðum. Bankasýslan skoðar um þessar mundir ýmsar mismunandi aðferðir til endurheimtar á fjármunum ríkisins til sparisjóða og hefur lýst þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt sé að sameina sparisjóði til þess að þeir megi vaxa og dafna. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu leit dagsins ljós á miðju ári 2013 en á stofnfjáreigendafundum 4. júlí sl. samþykktu stofnfjárhafar Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis samruna sjóðanna. Frekari sameininga má vænta á næstu missirum að mati Bankasýslu ríkisins. Vinna að sameiningu sparisjóða er liður í áformum Bankasýslunnar að auka arðsemi sjóðanna, styrkja samkeppni á markaði og um leið áfangi í því að losa um eignarhlut ríkisins í sparisjóðum, sbr. umfjöllun í ársskýrslu Bankasýslunnar 2013.

     7.      Hafa nýfallnir dómar um gengistengd lán, einkum varðandi Sparisjóð Mýrasýslu, áhrif á möguleika sparisjóðanna til að halda velli, að undangenginni hagræðingu og hugsanlegri sameiningu? Hvenær má ætla að lokauppgjöri á erlendum skuldum þeirra verði lokið?
    Ráðuneytið hefur ekki lagt mat á það hvort nýfallnir dómar um gengistryggð lán hafi áhrif á uppgjör gengistryggðra lána sparisjóðanna og á ráðuneytið ekki aðild að samningum sparisjóðanna við kröfuhafa um uppgjör eða leiðréttingu skulda. Réttindi og skyldur hvers sparisjóðs gagnvart kröfuhafa sínum ræðst eflaust af þeim atvikum og samningum sem búa að baki hverju sinni.

     8.      Er hugsanlegt að auka þjónustu við landsbyggðina og hagkvæmni í sparisjóðakerfinu með því að efna til samstarfs sparisjóðanna við Byggðastofnun og/eða Íslandspóst? Kemur til greina að tryggja sparisjóðum og öðrum smærri fjármálastofnunum aðgang að heildsölufjármögnun íbúðalána með skipulagsbreytingum á Íbúðalánasjóði?
    Ráðuneytið telur að stofnfjáreigendur, þ.m.t. Bankasýsla ríkisins vegna stofnfjár íslenska ríkisins, sem og stjórnir og stjórnendur sparisjóðanna eigi að skoða alla möguleika til þess að efla og styrkja rekstur sparisjóðanna. Ef tækifæri til slíks er að finna í samstarfi við Byggðastofnun og/eða Íslandspóst ber skoða og leggja mat á það af hálfu þessara aðila. Stjórnir og stjórnendur sparisjóðanna þurfa að leita hagkvæmustu leiða til fjármögnunar á sparisjóðunum, en slík fjármögnun verður að byggjast á markaðslausnum enda ríkinu óheimilt að veita þessum aðilum eða öðrum ríkisaðstoð í gegnum niðurgreiðslu á lánum eða með því að veita ríkisábyrgð á lántökum. Komi til breytinga á Íbúðalánasjóði, líkt og oft hefur verið rætt, er rétt og viðbúið að litið verði til þess hvernig sparisjóðir og aðrar smærri fjármálastofnanir geti best gegnt því hlutverki að bæta þjónustu við lántakendur vegna húsnæðiskaupa.

     9.      Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin varðandi hlutverk sparisjóða á fjármálamarkaði landsmanna í framtíðinni og hvaða aðgerðir þyrfti að ráðast í til að framfylgja þeirri stefnu?
    Sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í fjármálakerfinu og veita viðskiptamönnum sínum mikilvæga þjónustu, sem víða ríkir almenn ánægja með, þrátt fyrir smæð þeirra og takmarkaða hlutdeild í heildarút- og innlánum. Sparisjóðirnir hafa víða sérstöku samfélagslegu hlutverki að gegna, sem getur verið frábrugðið öðrum stærri fjármálafyrirtækjum, og auka þannig við fjölbreytni og valkosti innan fjármálakerfisins. Æskilegt er að slíkir valkostir séu fyrir hendi, um leið og stuðlað sé að samkeppni á fjármálamarkaði.
    Af hálfu stjórnvalda hlýtur alltaf að verða lögð áhersla á að gætt sé jafnræðis hvað starfsskilyrði allra fyrirtækja á fjármálamarkaði varðar.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá erindi á ársfundi FME 2012, www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/1653.
Neðanmálsgrein: 2
2     Skjal Fjármálaeftirlitsins má nálgast á eftirfarandi vefslóð: www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og- tilkynningar/frettir/nr/1638.