Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 15  —  15. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum
(þunn eiginfjármögnun).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.


1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Til tekna sem vextir skv. 3. tölul. C-liðar 7. gr. teljast hvers kyns tekjur, sbr. 1. mgr. 7. gr., sem áskildar eru, fengnar eða teknar fyrir peningalán.

2. gr.

    1. mgr. 49. gr. laganna orðast svo:
    Til gjalda sem vextir og gengistöp af skuldum, sbr. 1. tölul. 31. gr., teljast:
     1.      Vextir, sbr. 1. mgr. 8. gr.
     2.      Vextir af stofnsjóðsinnstæðum í félögum sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.
     3.      Gengistöp af hvers konar skuldum í erlendum verðmæli á því ári sem gengisbreyting á sér stað og miðast þau við sölugengi viðkomandi erlends gjaldeyris í árslok.
    Frá gengistapi ársins skal draga gengishagnað, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr., og færa mismuninn til gjalda sem gengistap með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári sem gengistap fellur til.
    Gjöld samkvæmt þessari grein eru aðeins frádráttarbær að fullu séu þau tengd atvinnurekstri eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 55. gr. a., svohljóðandi:
    Félag er móðurfélag:
     a.      ef það fer með meiri hluta atkvæða í öðru félagi,
     b.      ef það er hluthafi að öðru félagi og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnar og framkvæmdastjórn þess,
     c.      ef það er hluthafi að öðru félagi og fer með ákvörðunarvald um rekstur og fjárhagslega stjórn þess, á grundvelli laga, samþykkta félagsins eða samningi við það,
     d.      ef það er hluthafi að öðru félagi og fer með meiri hluta atkvæðaréttar í því á grundvelli hluthafasamkomulags eða
     e.      á eignarhlut í öðru félagi og fer með ákvörðunarvald um rekstur og fjárhagslega stjórn þess.
    Við útreikning á atkvæðamagni í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skal:
     a.      leggja saman atkvæðamagn móðurfélags og dótturfélags í viðkomandi félagi,
     b.      draga frá heildaratkvæðamagninu í viðkomandi félagi atkvæðamagn sem er í höndum þess sjálfs eða dótturfélaga þess og
     c.      draga frá atkvæðamagni móðurfélagsins það atkvæðamagn sem það hefur til tryggingar ef félagið beitir aðeins atkvæðaréttinum í samræmi við fyrirmæli þess sem setti trygginguna, eða ef umráðin eru liður í lánastarfsemi og atkvæðisréttinum er aðeins beitt í þágu þess sem setti trygginguna.
    Dótturfélag er félag undir yfirráðum annars félags á þann hátt sem lýst er í 1. og 2. mgr.
    Með samstæðu er átt við móðurfélag og dótturfélag/félög þess eins og þau eru skilgreind í 1., 2. og 3. mgr.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 57. gr. b., svohljóðandi:
    Leyfilegt er að draga frá tekjum hrein vaxtagjöld félagasamstæðna vegna lánaviðskipta við önnur félög í samstæðunni og takmarkast slíkt við 30% af hagnaði félags, sem hyggst draga vaxtagjöldin frá tekjum sínum fyrir fjármagnsliði, skatta, afskriftir fastafjármuna og niðurfærslur.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef:
     a.      hrein vaxtagjöld samstæðufélagsins eru lægri en 160 millj. kr.,
     b.      samstæðufélag sýnir fram á með óyggjandi hætti að vaxtakjörin séu eins og um ótengda aðila sé að ræða,
     c.      um ræðir fjármálafyrirtæki, tryggingafélög og félög í þeirra eigu sem starfa í skyldum rekstri. Umræddir aðilar eru undanskildir ákvæði 1. mgr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu ársins 2015 vegna tekna ársins 2014.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 142. löggjafarþingi (38. mál).
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, (tekjuskattslög) í þeim tilgangi að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun og að auki eru lagðar til nokkrar nauðsynlegar breytingar á tekjuskattslögunum svo taka megi reglurnar upp í lögin. Við samningu frumvarpsins var m.a. litið til skýrslu starfshóps um reglur þunnrar eiginfjármögnunar, sem fjármálaráðherra skipaði 13. september 2011 og skilaði skýrslu sinni í júní 2012. Þá tekur frumvarp þetta m.a. mið af hugmyndum AGS sem hefur hvatt Ísland til að taka upp reglur um þunna eiginfjármögnun, sem og þeirri vinnu sem átt hefur sér stað innan OECD í þessum efnum. Markmið frumvarpsins er að bæta og þétta skattheimtu og tryggja að þær tekjur sem verða til hér á landi renni til samfélagsins og uppbyggingar þess.
    Með hugtakinu þunnri eiginfjármögnun er vísað til fjármögnunar félags sem fengin er frá tengdum aðilum. Þannig er félag með þunna eiginfjármögnun ef skuldsetning þess er mjög mikil og hátt hlutfall af heildarfjármögnun félagsins eru lán frá tengdum aðilum. Umfjöllun um þunna eiginfjármögnun snýr því að félagasamstæðum, þ.e. móður- og dótturfélögum. Ef fjármögnun dótturfélaga kemur frá móðurfélagi sem staðsett er erlendis og í ríki sem ber lægra skatthlutfall en Ísland þá hvetja íslenskar skattareglur, sem og einnig skattareglur ýmissa annarra þjóða, fremur til fjármögnunar með lánum en hlutafé þar sem vaxtagreiðslur vegna lána eru frádráttarbærar frá tekjuskattsstofni en arðgreiðslur eru það ekki. Vilji móðurfélagið þannig geta tekið sem mestan hluta hagnaðar dótturfélags til sín er núna hagkvæmara að móðurfélagið láni dótturfélaginu háar fjárhæðir sem síðan eru greiddar til baka með háum vöxtum sem fela í raun í sér greiðslu á hagnaði dótturfélagsins, sem alla jafna væri greiddur út sem arður til eigenda félagsins, til móðurfélagsins í formi vaxtagreiðslna. Hafa ber þó í huga að þunn eiginfjármögnun er í sjálfu sér ekki vandamál þegar öll félög innan samstæðunnar eru innlend þar sem fjárhæð til frádráttar í einu félagi kemur þá til skattlagningar í öðru. Vandamálið er aðeins þegar móðurfélagið er staðsett þar sem skattareglur eru hagstæðari en í því ríki þar sem dótturfélagið starfrækir sína starfsemi. Ljóst er að þetta gerir alþjóðlegum félagasamstæðum auðveldara með að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum sem minni fyrirtæki hins vegar greiða og eiga ekki kost á að komast hjá með þessum hætti. Þessi háttsemi skekkir því samkeppnisstöðu fyrirtækjanna auk þess sem hún rýrir skattstofna ríkisins. Eins og alkunna er stendur ríkissjóður höllum fæti um þessar mundir og munar um allan löglega álagðan og innheimtan skatt og mikilvægt að koma í veg fyrir skattasniðgöngu til framtíðar.
    Reglur um þunna eiginfjármögnun eiga aðeins við tengda aðila en ljóst er að mikil skuldsetning félags, eins og átt er við þegar um þunna eiginfjármögnun tengdra aðila er að ræða, ætti sér ekki stað í viðskiptum milli ótengdra aðila. Vísi að sams konar reglum og lagðar eru til í frumvarpi þessu, með milliverðlagsákvæði, er í lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011, en í 2. mgr. 10 . gr. þeirra kemur fram að eigi sé heimilt að draga frá tekjum ársins hærri fjármagnskostnað en sem nemur 5% af stöðu skulda að frádregnum peningalegum eignum, þ.m.t. kröfum og birgðum, í lok viðkomandi reikningsárs. Lögin ná aðallega til alþjóðlegra félagasamstæða sem stunda kolvetnisvinnslu en þau geta með sölu afurða til félaga innan samstæðunnar eða kaupum á þjónustu, flutt til hagnað innan samstæðunnar og haft þannig áhrif á hvar skattlagning fer fram. Með ákvæðinu er tryggt að skattlagning sé sem næst raunhagnaði vinnsluaðila. Frumvarp þetta hefur sama tilgang, að skattlagning þeirra aðila sem falla undir frumvarpið sé í réttu samhengi við raunhagnað þeirra.
    Ljóst er að reglur um þunna eiginfjármögnun munu aðeins taka til fárra fyrirtækja á Íslandi. Reglunum er aðallega ætlað að taka til stórra alþjóðlegra félagasamstæðna og þó svo að fáar slíkar séu starfandi hér á landi eru þær sem þó eru starfandi gríðarlega stórar og starfsemi þeirra hér á landi veltir miklum fjármunum og skilar töluverðum hagnaði. Er því um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska ríkið en einnig hefur lögfesting reglna um þunna eiginfjármögnun fyrirbyggjandi áhrif í því skyni að koma í veg fyrir hugsanleg skattaundanskot í framtíðinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að tekin verði upp ný vaxtaskilgreining í tekjuskattslögum. Núverandi vaxtaskilgreining í 8. gr. tekjuskattslaga er ófullkomin auk þess sem innan hennar eru ýmsar tegundir tekna sem alla jafna teljast ekki til vaxta og eru ekki í samræmi við vaxtaskilgreiningar í öðrum lögum. Til að reglur um þunna eiginfjármögnun geti virkað á eðlilegan hátt er nauðsynlegt að skilgreina vexti með öðrum hætti en gert er í núgildandi 8. gr. tekjuskattslaga. Er því lagt til að hið rúma tekjuhugtak 7. gr. laganna verði notað til að skilgreina vexti. Vaxtahugtakið afmarkist þannig af tekjum, skv. 7. gr., sem áskildar eru, fengnar eða teknar fyrir peningalán. Í þessu felst að vextir falla aðeins til vegna lána á peningum en ekki annarra lána og þá skiptir ekki máli hvort kröfuhafi er upphaflegur lánveitandi eða hvort krafan er keypt. Þá falla undir vaxtahugtakið hvers kyns tekjur af peningalánum, t.d. uppsafnaðir en ógreiddir vextir, afföll og fleira.
    Ný vaxtaskilgreining hefur það í för með sér að utan hennar falla ýmsar tegundir tekna sem nú falla undir vaxtaákvæði tekjuskattslaga án þess að vera vextir í raun. Aðrar almennar skilgreiningar laganna ættu þó að ná til þessara gjalda og tekna og ætti því almennt ekki að verða breyting á frádráttarbærni viðkomandi gjalda þó svo þau teljist ekki lengur til vaxta.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 49. gr. tekjuskattslaga sem er til samræmis við þá breytingu sem gerð er á vaxtaskilgreiningu laganna með 1. gr. frumvarps þessa. Í 49. gr. er fjallað um þau gjöld sem teljast til vaxta, affalla og gengistapa af skuldum, en þessi gjöld eru frádráttarbær í atvinnurekstri, sbr. 1. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga. Breytingin felur aðeins í sér að vísað er almennt til vaxta skv. 8. gr. laganna en undir það hugtak falla þau gjöld sem nú eru talin sérstaklega upp í 1. tölul. 1. mgr. 49. gr. Þau atriði sem nefnd eru í 2.–4. tölul. ákvæðisins falla ekki undir nýja vaxtaskilgreiningu frumvarpsins og munu því halda sér.

Um 3. gr.

    Efni frumvarpsins tekur til félagasamstæðna en samstæður, móður- og dótturfélög, eru ekki skilgreindar í tekjuskattslögunum. Í ákvæðinu eru lagðar til skilgreiningar á móður- og dótturfélögum og eru þær í samræmi við skilgreiningar í félagarétti og á ákvæðið sér fyrirmynd í 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, sem og aftur í sjöundu félagaréttartilskipun EB, tilskipun 83/349/EBE.
    Félag telst móðurfélag annars félags ef eitt af skilyrðum a–e-liðar 1. mgr. ákvæðisins er uppfyllt. Í a-lið 1. mgr. kemur fram að félag sé móðurfélag ef það fer með meiri hluta atkvæða í öðru félagi. Í þessu felst að félagið þarf að eiga og fara með einfaldan meiri hluta atkvæða í öðru félagi, eða yfir 50%. Miðast reglan við atkvæðamagn en ekki hlutafjáreign, en aðili getur átt meiri hluta hlutafjár í félagi án þess að fara með meiri hluta atkvæða, t.d. vegna hluthafasamkomulags. Það felst í að fara með meiri hluta atkvæða að ekki þarf að vera um beinan eignarrétt að meiri hluta hlutafjár að ræða, t.d. getur dæmið snúist við og aðili átt minna en helming hlutafjár en vegna hluthafasamkomulags eða annars, raunverulega farið með meiri hluta atkvæða í félagi. Í b–e-liðum er að finna frekari skilyrði fyrir því að félag teljist móðurfélag annars félags ef móðurfélagið fer með nánar tilgreind réttindi á grundvelli stöðu sinnar eða vegna samnings við félagið, hluthafasamkomulags, samþykkta félags eða á grundvelli laga. Í 2. mgr. eru reglur um hvernig atkvæðamagn í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skuli fundið út og er um samsvarandi ákvæði að ræða og í 5. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Í 3. og 4. mgr. eru skilgreiningar á dótturfélagi annars vegar og samstæðu hins vegar og eru þær samhljóða 6. og 7. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
    Samsvarandi skilgreining á félagasamstæðu kom inn í lög um ársreikninga með lögum nr. 56/2003, og sætir sömu skýringu.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er að finna hinar eiginlegu reglur um þunna eiginfjármögnun. Mismunandi er hvernig tekið er á álitaefnum tengdum þunnri eiginfjármögnun í löggjöf annarra ríkja en að meginstefnu til er um tvær aðferðir að ræða, svokölluð skuldahlutfallsregla annars vegar og EBITDA-regla hins vegar. Í frumvarpi þessu er valið að nota EBITDA-regluna og er það í samræmi við álit skattasérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. EBITDA-reglan er skilvirkari og einfaldari í framkvæmd en skuldahlutfallsreglan og mörg ríki sem styðjast við skuldahlutfallsregluna hafa í hyggju að skipta yfir í EBITDA-regluna og lögfesta hana.
    Í ákvæðinu er miðað við að leyfilegt verði að draga frá tekjum hrein vaxtagjöld félagasamstæðna vegna lánaviðskipta við önnur félög í samstæðunni og takmarkist það við 30% af hagnaði félags er hyggst draga vaxtagjöldin frá tekjum sínum, fyrir fjármagnsliði, skatta, afskriftir lausafjármuna og niðurfærslur. Reglan miðast því við að heimilt verði að draga frá vaxtagreiðslur upp að 30% af EBITDA félags sem hyggst draga vaxtagjöldin frá tekjum sínum. Er miðað við 30% af EBITDA félags þar sem það er hæfilegt hlutfall og er það sama og í Þýskalandi og á Ítalíu. Eðlilegt er að miða við alþjóðlegar reikningsskilareglur þegar EBITDA félags er reiknuð út.
    Í 2. mgr. eru undantekningar frá reglu 1. mgr. Þannig eiga reglur um þunna eiginfjármögnun ekki við ef hrein vaxtagjöld samstæðufélagsins, sem hyggst draga vaxtagjöld frá tekjum sínum, eru lægri en 160 millj. kr. á ári, ef félagið sýnir fram á það með óyggjandi hætti að vaxtakjörin séu sambærileg og um ótengda aðila væri að ræða, eða ef um er að ræða fjármálafyrirtæki, tryggingafélög og félög í þeirra eigu sem starfa í skyldum rekstri.
    Með hreinum vaxtagjöldum í skilningi ákvæðisins er átt við vaxtagjöld að frádregnum vaxtakostnaði. Þá er rétt að miða við að reglur um þunna eiginfjármögnun taki til félaga sem hafa hærri hreinar vaxtagreiðslur en 160 millj. kr. árlega, sem samsvarar um 1 milljón evra á núverandi gengi. Til samanburðar er miðað við 3 milljónir evra í Þýskalandi. Þá taka reglur um þunna eiginfjármögnun ekki til tilvika þegar sýnt er fram á með óyggjandi hætti að vaxtakjör milli aðilanna séu sambærileg og um ótengda aðila væri að ræða. Liggur sönnunarbyrðin fyrir því að um eðlileg viðskipti sé að ræða á félaginu sem hyggst draga vaxtagjöldin frá tekjum sínum. Er hér nokkurn veginn um öfuga reglu að ræða miðað við 1. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga, en ákvæðið hefur að geyma skattasniðgönguákvæði vegna viðskipta milli tengdra aðila. Þá gilda reglurnar ekki um fjármálafyrirtæki, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða tryggingafélög, sbr. lög um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, eða félög í þeirra eigu sem starfa í skyldum rekstri, sbr. c-lið 2. mgr.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.