Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.

Þingskjal 78.  —  78. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013, frá 14. júní 2013, um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013, frá 14. júní 2013, um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.
    Tilskipunin kveður á um samræmingu á reglum er varða innkaup á verk-, vöru- eða þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála sem hafa það að markmiði að jafna samkeppnisskilyrði og lækka kostnað. Nýju reglurnar taka að sama skapi tillit til þeirra sértæku krafna sem eðli málsins samkvæmt fylgja þessu sviði, einkum á sviði afhendingar- og upplýsingaröryggis, en gildandi reglur hafa hvorki þótt fyllilega tryggja upplýsingaöryggi né sem hagkvæmast innkaupaferli.
    Hér að aftan er gerð nánari grein fyrir efni gerðanna sem um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt tilskipuninni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB.
    Sem fyrr greinir kveður tilskipunin á um samræmingu á reglum er varða opinber innkaup á verk-, vöru- eða þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og getur því eftir aðstæðum varðað verkefni á sviði landamæravörslu, landhelgisgæslu, löggæslu og hættustjórnun. Eftir sem áður munu samningar sem krefjast sérstaklega strangrar þagnarskyldu verða undanþegnir reglunum. Tilskipunin er að mestu leyti byggð á fyrirliggjandi tilskipun um sama efni sem var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Hún hefur þó að geyma nýjar reglur varðandi innkaup á sviði varnar- og öryggismála, en fyrirliggjandi reglur á þessu sviði hafa ekki þótt tryggja upplýsingaöryggi eða sem hagkvæmast innkaupaferli.
    Á meðal nýmæla tilskipunarinnar eru reglur um gerð og framkvæmd samninga um innkaup á sviði varnar- og öryggismála. Þannig kveður tilskipunin á um að samningskaup, að undangenginni auglýsingu, skuli vera það innkaupaferli sem að jafnaði skal nota við innkaup á sviði varnar- og öryggismála. Þá er gert ráð fyrir því að samkeppnisviðræður verði einnig heimilaðar við flóknari innkaup. Reglur tilskipunarinnar taka jafnframt tillit til þeirra sértæku krafna sem eiga við um sviðið, einkum hvað varðar afhendingar- og upplýsingaöryggi.
    Tilskipunin gildir um innkaup stofnana sem falla undir lög um opinber innkaup. Þá gildir tilskipunin jafnframt um stofnanir sem falla undir svokallaða veitutilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, ef innkaupin varða kaup á vörum, verkum eða þjónustu á sviði öryggismála eða tengjast öryggisupplýsingum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2009/81/EB kallar á breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, en gert er ráð fyrir því að innleiða tilskipunina með setningu reglugerðar með stoð í framangreindum lögum. Auk þess verður að gera breytingar á reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti. Vinna við innleiðingu er á byrjunarstigi en stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi þingi til breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 129/2013

frá 14. júní 2013

um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB ( 1 ).

2)        XVI. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XVI. viðauka við EES-samninginn breytist sem hér segir:

1.    Eftirfarandi undirliður bætist við í 2. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/ 18/EB) og 4. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB):

    „–     32009 L 0081: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 (Stjtíð. ESB L 216, 20.8.2009, bls. 76).“

2.     Eftirfarandi bætist við á eftir lið 5b (tilskipun ráðsins 92/50/EBE):

    „5c.     32009 L 0081: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB (Stjtíð. ESB L 216, 20.8.2009, bls. 76), eins og henni var breytt með:

                –     32011 R 1251: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1251/2011 frá 30. nóvember 2011 (Stjtíð. ESB L 319, 2.12.2011, bls. 43).

            Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

            Gerðin á ekki að taka til Liechtensteins.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/81/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi 15. júní 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 14. júní 2013.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/81/EB
frá 13. júlí 2009
um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um      breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Þjóðaröryggi er á ábyrgð hvers aðildarríkis fyrir sig, bæði á sviði varnarmála og öryggis.
2)        Nauðsynlegt er að koma á evrópskum markaði fyrir varnarbúnað í áföngum til að efla grundvöll evrópska varnargeirans að því er varðar tækni og iðnað og við þróun nauðsynlegrar hernaðargetu til að taka upp evrópska öryggis- og varnarmálastefnu.
3)        Aðildarríkin eru einhuga um þörfina á að koma á, þróa og viðhalda evrópskum varnargeira að því er varðar tækni og iðnað sem skal miðast við getu, hæfni og samkeppnishæfni. Til að ná þessu markmiði geta aðildarríkin notað mismunandi tæki, í samræmi við lög Bandalagsins, sem hafa það að markmiði að koma á evrópskum markaði fyrir varnarbúnað og jöfnum samkeppnisskilyrðum, bæði á Evrópu- og heimsvísu. Þau skulu einnig stuðla að alhliða þróun á fjölbreytni varnartengds evrópsks birgjagrunns, einkum með því að styðja hlutdeild lítilla og meðalstórra fyrirtækja og óhefðbundinna birgja í evrópskum varnargeira að því er varðar tækni og iðnað og hlúa að samvinnu á sviði iðnaðar jafnframt því sem skilvirkir og fljótvirkir undirbirgjar eru kynntir. Í þessu samhengi skulu þau taka tillit til túlkandi orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar frá 7. desember 2006 um beitingu 296. gr. sáttmálans á sviði innkaupa til varnarmála og orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar frá 5. desember 2007 um áætlun varðandi sterkari og samkeppnishæfari evrópskan varnarmálaiðnað.
4)        Ein forsenda fyrir stofnun evrópsks markaðar með varnarbúnað er gerð viðeigandi lagaramma. Á sviði innkaupa felur þetta í sér samræmingu á útboðsferli samninga til að uppfylla öryggiskröfur aðildarríkja og skuldbindingar sem leiðir af sáttmálanum.
5)        Til að ná fram þessu markmiði fór Evrópuþingið þess á leit við framkvæmdastjórnina í ályktun sinni frá 17. nóvember 2005 um grænbókina varðandi innkaup til varnarmála ( 3 ) að leggja fram tilskipun þar sem sérstakt tillit er tekið til öryggishagsmuna aðildarríkja, frekari þróunar sameiginlegrar stefnu í utanríkis- og öryggismálum, og hvatt til aukinnar evrópskrar samheldni og varðveislu hlutverks Sambandsins sem „borgaralegs valds“.
6)        Betri samræming útboðsferlis, t.d. vegna samninga er varða þjónustu, tengda vöruferilsstjórnun, flutningum og birgðageymslu, veita enn fremur möguleika á lækkun kostnaðar á varnarsviði og minnka verulega umhverfisáhrif sviðsins.
7)        Þetta ferli á að endurspegla heildarnálgun Sambandsins á sviði öryggis, sem viðbrögð við breytingum á hernaðarlega mikilvægu umhverfi. Tilkoma ósamhverfra fjölþjóðlegra ógnana hefur í auknum mæli þurrkað út mörk á milli innra og ytra öryggis og hernaðarlegs öryggis og öryggis af öðrum toga en hernaðarlegum.
8)        Varnar- og öryggisbúnaður er bæði nauðsynlegur vegna öryggis og fullveldis aðildarríkja og vegna sjálfræðis Sambandsins. Þess vegna eru kaup á vörum og þjónustu á öryggis- og varnarsviði oft af viðkvæmum toga.
9)        Þetta leiðir af sér sértækar kröfur, einkum á sviði afhendingaröryggis og upplýsingaöryggis. Þessar kröfur tengjast einkum kaupum á vopnum, herbúnaði og stríðstólum og -tækjum fyrir herafla, svo og þjónustu og vinnu í beinum tengslum við það, en einnig tilteknum, sérstaklega viðkvæmum kaupum vegna öryggis af öðrum ástæðum en hernaðarlegum. Ef ekki er ríkjandi fyrirkomulag á þessum sviðum, sem gildir í öllu Evrópusambandinu, getur það orðið hindrun fyrir opna varnarmála- og öryggismarkaði milli aðildarríkja. Þetta ástand þarfnast skjótra úrbóta. Sérstaklega gagnlegt væri fyrirkomulag með upplýsingaöryggi, sem gildir í öllu Evrópusambandinu, þ.m.t. gagnkvæm viðurkenning á þjóðaröryggisvottun og til að gera samningsyfirvöldum/stofnunum og evrópskum fyrirtækjum kleift að skiptast á trúnaðarupplýsingum. Aðildarríki skulu jafnframt gera raunhæfar ráðstafanir til að bæta afhendingaröryggi milli þeirra með það að markmiði að koma smám saman á kerfi með viðeigandi ábyrgð.
10)         Að því er varðar þessa tilskipun, eru hergögn einkum þær vörutegundir sem eru á skránni yfir vopn, herbúnað og stríðstól og -tæki sem innleiddar voru með ákvörðun ráðsins 255/58 frá 15. apríl 1958 ( 1 ), og aðildarríki geta, við lögleiðingu þessarar tilskipunar, takmarkast við þann lista. Skráin felur aðeins í sér hergögn sem eru hönnuð, þróuð og framleidd í tilteknum hernaðarlegum tilgangi. Skráin er þó almenns eðlis og ber að túlka hana vítt í ljósi þeirrar þróunar sem er á tækni, opinberri innkaupastefnu og hernaðarlegum kröfum, sem hefur í för með sér þróun á nýjum búnaði, t.d. á grundvelli Sameiginlegs hernaðarlista Evrópusambandsins. Að því er varðar þessa tilskipun, skulu hergögn einnig ná yfir vörur sem, þrátt fyrir að vera upphaflega ætlaðar til borgaralegra nota, hafa síðar verið aðlagaðar í hernaðarlegum tilgangi til notkunar sem vopn, herbúnaður eða stríðstól og -tæki.
11)         Á sviði öryggis af öðrum toga en hernaðarlegum, gildir þessi tilskipun um innkaup sem eru svipaðs eðlis og innkaup tengd varnarmálum og eru jafn viðkvæm. Þetta getur einkum verið með þessum hætti, ef herafli og afli af öðrum toga en hernaðarlegum vinna saman að sömu verkefnum og/eða ef tilgangur innkaupanna er að tryggja öryggi Evrópusambandsins og/eða aðildarríkjanna, á eigin yfirráðasvæði eða utan þess, gagnvart alvarlegri hættu af völdum aðila af öðrum toga en hernaðarlegum og/eða ekki á vegum stjórnvalda. Til dæmis getur verið um að ræða verkefni varðandi landamæravörslu, löggæslu og hættustjórnun.
12)         Í þessari tilskipun skal taka þarfir samningsyfirvalds/-stofnunar allan líftíma vörunnar til greina, þ.e. rannsóknir og þróun, iðnþróun, framleiðsla, viðgerð, nútímavæðing, breyting, viðhald, vöruferilsstjórnun, þjálfun, prófun, afturköllun og förgun. Þessi stig fela t.d. í sér rannsóknir, mat, geymslu, flutning, samþættingu, þjónustu, sundurhlutun, eyðingu og alla aðra þjónustu í kjölfar upphaflegrar hönnunar. Sumir samningar geta falið í sér afhendingu hluta, íhluta og/eða undireiningar ætlaðar í eða til festingar á vörur, og/eða afhendingu tiltekinna áhalda, prófunaraðstöðu eða stuðning.
13)         Að því er varðar þessa tilskipun skulu rannsóknir og þróun eiga við um grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf. Grunnrannsóknir eru tilraunastarf eða fræðileg vinna sem fer fram fyrst og fremst til að afla nýrrar þekkingar á grundvallarþáttum fyrirbæra eða á áþreifanlegum staðreyndum, án þess að um sé að ræða sérstakan tilgang eða áform um notkun. Hagnýtar rannsóknir eru einnig frumvinna sem er unnin með það í huga að afla nýrrar þekkingar. Sú vinna beinist þó fyrst og fremst að tilteknum raunhæfum tilgangi eða markmiði. Þróunarstarf er vinna á grundvelli þekkingar sem fengin er með rannsóknum og/eða fenginni reynslu með það í huga að hvetja til framleiðslu nýrra efna, vöru eða búnaðar, koma á fót nýjum aðferðum, kerfum og þjónustu eða bæta verulega það sem fyrir er. Þróunarstarf getur falið í sér að til verði tæknileg sýningareintök, þ.e. búnaður sem sýnir virkni nýrrar hugmyndar eða tækninýjunga á viðkomandi sviði eða í dæmigerðu umhverfi.
        Rannsóknir og þróun fela ekki í sér gerð og hæfismat frumgerða í forframleiðslu, tæki og iðnaðarverkfræðistarfsemi, iðnhönnun eða framleiðslu.
14)        Þessi tilskipun skal taka tillit til þarfa samningsyfirvalds/stofnunar vegna verkefna og þjónustu sem, þrátt fyrir að vera ekki beinlínis tengt afhendingu hergagna eða viðkvæms búnaðar, eru nauðsynleg til að uppfylla tilteknar hernaðar- eða öryggiskröfur.
15)         Samningar milli samningsstofnana í aðildarríkjunum, eins og um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu ( 1 ) og samningsyfirvalda eins og um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga ( 2 ) eru háðir því að farið sé að ákvæðum meginreglna sáttmálans, einkum varðandi frjálsa vöruflutninga, staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu, og meginreglur sem leiðir af þeim, svo sem meginreglur um jafna meðferð, bann við mismunun, gagnkvæma viðurkenningu, meðalhóf og gagnsæi.
        Gagnsæi og samkeppnisskilyrði í tengslum við samninga, sem eru undir þeim viðmiðunarmörkum sem eiga við samkvæmt þessari reglugerð, skulu ákvörðuð af aðildarríkjum í samræmi við þessar meginreglur og einkum skal taka tillit til aðstæðna þar sem um er að ræða hagsmuni yfir landamæri. Það er einkum á valdi aðildarríkja að ákvarða hentugasta fyrirkomulag við gerð þess háttar samninga.
        Sé um að ræða samninga yfir tilteknu verðmæti er þó ráðlegt að setja ákvæði, sem eru byggð á þessum meginreglum, um samræmingu á vettvangi Bandalagsins á málsmeðferð einstakra ríkja í Bandalaginu við útboð og gerð slíkra samninga til að tryggja áhrif meginreglnanna og skilvirka samkeppni í opinberum innkaupum. Þessi samræmingarákvæði ber því að túlka bæði samkvæmt framangreindum meginreglum og öðrum reglum sáttmálans.
16)        Í ákvæðum 30., 45., 46., 55. og 296. gr. sáttmálans er kveðið á um tilteknar undanþágur frá beitingu meginreglnanna sem settar eru fram í sáttmálanum og, þar af leiðandi, beitingu laga sem byggjast á þeim. Þar af leiðandi skulu engin ákvæði þessarar tilskipunar koma í veg fyrir setningu eða beitingu neinna ráðstafana sem taldar eru nauðsynlegar til að gæta hagsmuna sem viðurkenndir eru lögmætir samkvæmt ákvæðum sáttmálans.
        Þetta þýðir einkum að gerð samninga, sem falla innan gildissviðs þessarar tilskipunar, getur verið undanþegin hinu síðarnefnda, ef það er réttlætanlegt á grundvelli almannaöryggis eða nauðsynlegt til að gæta mikilvægra öryggishagsmuna aðildarríkis. Þetta getur átt við um samninga bæði á sviði varnarmála og öryggis, sem útheimta miklar kröfur um afhendingaröryggi eða eru svo leynilegir og/eða mikilvægir varðandi fullveldi að jafnvel sértæk ákvæði þessarar tilskipunar eru ekki nægjanleg til að gæta mikilvægra öryggishagsmuna aðildarríkja, sem er aðeins á valdi aðildarríkja að skilgreina.
17)         Í samræmi við dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalaganna, skal túlka möguleikann á að nýta þær undanþágur með þeim hætti að áhrif þeirra verði ekki meiri en bráðnauðsynlegt er til að gæta lögmætra hagsmuna sem þessar greinar standa vörð um. Þannig skulu frávik frá beitingu þessarar tilskipunar vera í hlutfalli við sett markmið og valda eins lítilli truflun á frjálsa vöruflutninga og frelsi til að veita þjónustu og mögulegt er.
18)         Samningar varðandi vopn, herbúnað og stríðstól og -tæki gerðir af samningsyfirvöldum/ stofnunum sem starfa á sviði varnarmála, eru undanskildir gildissviði samningsins um opinber innkaup (GPA) sem gerður var hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Aðrir samningar sem þessi tilskipun tekur til eru einnig undanþegnir beitingu samningsins um opinber innkaup samkvæmt XXIII. gr. þess. Ákvæði 296. gr. sáttmálans og 1. mgr. XXIII. gr. samningsins um opinber innkaup hafa mismunandi gildissvið og heyra undir mismunandi málsmeðferð við úrskurð dómstóla. Aðildarríki geta þó vitnað til 1. mgr. XXIII. gr. samningsins um opinber innkaup í tilvikum þar sem ekki er unnt að bera fyrir sig 296. gr. sáttmálans. Því þarf að uppfylla mismunandi skilyrði við beitingu þessara tveggja ákvæða.
        Að því er varðar varnarmála- og öryggismarkaði þýðir þessi undanþága einnig að aðildarríki haldi rétti sínum til að ákvarða hvort samningsyfirvald/stofnun megi leyfa rekstraraðila frá þriðja landi að eiga aðild að útboði og gerð samnings eða ekki. Þau skulu taka þá ákvörðun á grundvelli gæða fyrir verð, þörf fyrir hnattræna samkeppnishæfni Evrópuvarna að því er varðar tækni og iðnað, mikilvægi frjálsra og sanngjarnra markaða og gagnkvæms ávinnings. Aðildarríki skulu þrýsta á um aukið frjálsræði markaða. Samstarfsaðilar þeirra skulu einnig sýna fram á frjálsræði, á grundvelli samþykktra alþjóðareglna, einkum varðandi frjálsa og sanngjarna samkeppni.
19)         Samningur telst aðeins vera verksamningur ef efni hans tekur sérstaklega til framkvæmdar starfsemi skv. 45. gr. sameiginlegs innkaupaorðasafns sem mælt er fyrir um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2195/2002 frá 5. nóvember 2002 um sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV) ( 1 ) (hér á eftir nefnt „CPV“), jafnvel þótt samningurinn taki til veitingar annarrar þjónustu sem nauðsynleg er við framkvæmd þess konar verkefna. Þjónustusamningar taka í sumum tilvikum einnig til verka. Ef slík verk tengjast meginefni samningsins, og eru því hugsanlega aðeins afleiðing af eða viðbót við hann, er það þó ekki gild ástæða fyrir því að slíkur samningur sé flokkaður sem verksamningur að slík verk séu innifalin í samningum.
20)         Samningar um varnar- og öryggismál fela oft í sér trúnaðarupplýsingar sem skal, í samræmi við lög, reglugerðir eða stjórnsýsluákvæði sem eru í gildi í hlutaðeigandi aðildarríki, verja fyrir óheimilum aðgangi af öryggisástæðum. Aðildarríki skulu, á sviði hermála, hafa flokkunarkerfi fyrir þessar upplýsingar í hernaðarskyni. Að því er varðar öryggismál af öðrum toga en hernaðarlegum, er þó meiri fjölbreytni aðferða innan aðildarríkja, ef vernda þarf aðrar upplýsingar með svipuðum hætti. Því þykir rétt að nota hugtak sem tekur tillit til mismunandi aðferða innan aðildarríkja og getur tekið bæði til hermála og mála á öðrum sviðum en hernaðarlegum. Kaupsamningar á þessum sviðum skulu því ekki, eftir því sem við á, hafa áhrif á skuldbindingar sem leiðir af ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/844/EB, Kola- og stálbandalags Evrópu, Kjarnorkubandalags Evrópu frá 29. nóvember 2001 um breytingu á innri reglum málsmeðferðar ( 2 ) eða ákvörðun ráðsins 2001/264/EB frá 19. mars 2001 um samþykkt öryggisreglna ráðsins ( 3 ).
        Þar að auki veitir a-liður 1. mgr. 296. gr. sáttmálans aðildarríkjum möguleika á að undanþiggja samninga bæði á sviði her- og öryggismála frá reglum þessarar tilskipunar ef beiting þessarar tilskipunar myndi skylda þau til að veita upplýsingar, ef þau telja upplýsingagjöfina andstæða meginöryggishagsmunum sínum. Þetta á einkum við ef samningar eru það viðkvæmir að sjálf tilvist þeirra skal vera leyndarmál.
21)         Samningsyfirvöldum/stofnunum skal heimilt að nota rammasamninga, sem gerir það nauðsynlegt að setja fram skilgreiningu á rammasamningum og sértækum reglum. Þegar samningsyfirvald/stofnun gerir rammasamning í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar auglýsingar, tímafresti og skilyrði um framlagningu tilboða, getur það, samkvæmt þessum rammasamningi, gengið til samninga á grundvelli og innan gildistíma þess rammasamnings, annaðhvort með því að nota skilmálana sem settir voru í rammasamningnum eða, ef ekki hafa allir skilmálar verið settir fyrir fram, með því að efna á ný til samkeppni milli aðila að rammasamningnum. Ef efnt er til samkeppni á ný skal fara að ákveðnum reglum sem miða að því að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika og að farið sé að almennum meginreglum, einkum meginreglunni um jafna meðferð. Af sömu ástæðu skal takmarka skilmála rammasamningsins og þeir ekki gilda lengur en í sjö ár, nema í tilvikum þar sem samningsyfirvöld/stofnanir geta fært gild rök fyrir því.
22)         Samningsyfirvöld/stofnanir geta nýtt sér rafræna innkaupatækni að því tilskildu að sú notkun samrýmist reglunum sem settar eru með þessari tilskipun og meginreglunum um jafna meðferð, bann við mismunun og gagnsæi. Þar sem líkur eru á því að notkun rafrænna uppboða fari vaxandi er rétt að setja fram skilgreiningu Bandalagsins um þau og að um þau gildi sérstakar reglur til að tryggja að þau fari fram í fullu samræmi við þær reglur. Því skal setja ákvæði um að slík rafræn uppboð verði aðeins notuð þegar um er að ræða verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga sem hægt er að ákvarða nákvæmar forskriftir fyrir. Þetta á einkum við um endurnýjaða vöru-, verk- og þjónustusamninga. Af sömu ástæðu skal einnig vera hægt að ákveða viðeigandi röðun bjóðenda á öllum stigum rafræns uppboðs. Þegar kostur gefst á því að nota rafræn uppboð gerir það samningsyfirvöldum/stofnunum kleift að hvetja bjóðendur til að bjóða nýtt og lægra verð og, þegar tilboð er valið á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta boðs, að fara fram á úrbætur í öðrum þáttum tilboðsins en verðinu. Til að tryggja samræmi við meginregluna um gagnsæi má einungis taka með í rafrænt uppboð þá þætti sem hægt er að meta sjálfvirkt með rafrænum aðferðum án allra afskipta og/eða samþykkis samningsyfirvalds/ stofnunar, þ.e. aðeins þá þætti sem setja má fram sem magn svo að unnt sé að tilgreina þá í tölum eða sem hlutfall. Hins vegar skal ekki taka með í rafrænum uppboðum þau svið tilboða sem varða þætti sem ekki er hægt að setja fram í tölum. Þar af leiðandi skal ekki bjóða upp, með rafrænum aðferðum, tiltekna verksamninga og þjónustusamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, svo sem hönnun verka.
23)         Miðstýrðar innkaupaaðferðir hjálpa til við að auka samkeppni og einfalda kaup. Af þessum sökum skal aðildarríkjum heimilt að kveða á um að samningsyfirvöld/stofnanir geti keypt vörur, verk og/eða þjónustu með milligöngu miðlægrar innkaupastofnunar. Þar af leiðandi skulu sett ákvæði um skilgreiningu Bandalagsins á miðlægum innkaupastofnunum og hvaða skilyrði – í samræmi við meginreglur um bann við mismunun og jafna meðferð – samningsyfirvöld/stofnanir, sem kaupa verk, vörur og/ eða þjónustu með milligöngu miðlægrar innkaupastofnunar, skulu uppfylla svo að þau teljist hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar. Samningsyfirvaldi/stofnun sem er bundin af þessari tilskipun skal ávallt vera heimilt að koma fram sem miðlæg innkaupastofnun. Aðildarríkjum skal jafnframt vera frjálst að tilnefna evrópska opinbera aðila sem falla ekki undir þessa tilskipun, svo sem Evrópsku varnarmálastofnunina, sem miðlæga innkaupastofnun, að því tilskildu að þeir aðilar beiti við þau innkaup reglum um innkaup sem eru í samræmi við öll ákvæði þessarar tilskipunar.
24)         Samningsyfirvöld/stofnanir geta verið skuldbundin til að gera aðeins einn samning um yfirtöku, sem þessi tilskipun tekur til að hluta, á meðan sá hluti sem eftir stendur fellur annaðhvort innan gildissviðs tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB eða fellur ekki undir þessa tilskipun, tilskipun 2004/17/EB eða tilskipun 2004/18/EB. Þetta á við ef, af hlutlægum ástæðum, ekki er mögulegt að skilja viðkomandi innkaup að og gera um þau aðskilda samninga. Í þeim tilvikum skulu samningsyfirvöld/stofnanir eiga möguleika á því að gera aðeins einn samning, að því tilskildu að ákvörðun þeirra sé ekki tekin í þeim tilgangi að undanþiggja samning frá beitingu þessarar tilskipunar eða tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB.
25)        Því fleiri viðmiðunarfjárhæðir sem notaðar eru við beitingu samræmdu ákvæðanna, því meiri vandkvæði hefur það í för með sér fyrir samningsyfirvöld/stofnanir. Með hliðsjón af meðalfjárhæð samninga á sviði varnar- og öryggismála, þykir rétt að samræma beitingu viðmiðunarmarka þessarar tilskipunar þeim viðmiðunarmörkum sem samningsstofnanir þegar skulu uppfylla við beitingu tilskipunar 2004/ 17/EB. Viðmiðunarfjárhæðir í þessari tilskipun skulu einnig endurskoðaðar ásamt fjárhæðunum í tilskipun 2004/17/EB ef þær síðarnefndu eru endurskoðaðar.
26)         Að auki skal gera ráðstafanir vegna tilvika þar sem þessi tilskipun gildir ekki vegna þess að sértækar reglur um gerð samninga, sem leiðir af alþjóðasamningum eða samþykktum milli aðildarríkja og þriðja lands, eiga við. Reglurnar fyrir tiltekna samninga að því er varðar staðsetningu herliðs aðildarríkis í öðru aðildarríki eða þriðja landi, eða staðsetningu herliðs þriðja lands í aðildarríki, skal einnig útiloka notkun útboðsferla samkvæmt þessari tilskipun. Þessi tilskipun gildir hvorki um samninga sem alþjóðastofnanir gera í eigin þágu né samninga sem aðildarríki verða að gera í samræmi við reglur sem eiga sérstaklega við þær stofnanir.
27)         Sumir samningar á sviði varnar- og öryggismála eru svo viðkvæmir að það væri óheppilegt að beita þessari reglugerð, þrátt fyrir sértækni hennar. Það á við um innkaup leyniþjónustu eða kaup á hvers konar leyniþjónustustarfsemi, þ.m.t. gagnnjósnastarfsemi, eins og hún er skilgreind af aðildarríkjum. Þetta á einnig við um önnur sérstaklega viðkvæm innkaup sem krefjast ákaflega strangrar þagnarskyldu, svo sem, t.d., tiltekin innkaup sem ætluð eru til landamæravörslu eða í baráttunni gegn hryðjuverkum eða skipulagðri afbrotastarfsemi, innkaupum í tengslum við dulkóðun eða innkaup ætluð sérstaklega til leynilegrar starfsemi eða annarrar jafn viðkvæmrar starfsemi sem framkvæmd er af lögreglu og öryggissveitum.
28)         Aðildarríki gera oft með sér samstarfsáætlanir um að þróa í sameiningu nýjan varnarbúnað. Þess háttar samstarfsáætlanir eru sérstaklega mikilvægar vegna þess að þær stuðla að þróun nýrrar tækni og bera háan rannsóknar- og þróunarkostnað vegna flókinna vopnakerfa. Sumar áætlananna eru undir stjórn alþjóðastofnana, nánar tiltekið stofnunarinnar um sameiginlegt vopnasamstarf (OCCAR) og NATO (fyrir milligöngu tiltekinna stofnana), eða stofnana Evrópusambandsins, svo sem Evrópsku varnarmálastofnunarinnar, sem síðan gerir samninga fyrir hönd aðildarríkja. Þessi tilskipun gildir ekki um þá samninga. Að því er varðar aðrar þess háttar samstarfsáætlanir, eru samningar gerðir af samningsyfirvöldum/stofnunum eins aðildarríkis fyrir hönd eins eða fleiri annarra aðildarríkja. Þessi tilskipun gildir heldur ekki um þau tilvik.
29)         Ef her- eða öryggissveitir aðildarríkja stunda starfsemi utan landamæra Evrópusambandsins, og starfsemin krefst þess, skal heimila samningsyfirvöldum/stofnunum, sem starfa á svæðinu, að beita ekki reglum sem kveðið er á um í þessari tilskipun við gerð samninga við rekstraraðila sem staðsettir eru á því svæði þar sem starfsemin fer fram, þ.m.t. varðandi borgaraleg innkaup sem tengjast beint framkvæmd viðkomandi starfsemi.
30)        Með tilliti til sérhæfni varnar- og öryggismálageirans, skulu kaup einnar ríkisstjórnar af annarri á búnaði, sem og verkum og þjónustu, falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
31)        Á sviði þjónustu hafa samningar um kaup eða leigu á fasteignum eða réttur til slíkrar eignar séreinkenni sem valda því að óheppilegt er að beita reglum um opinber innkaup.
32)         Gerðardóms- og sáttameðferð er vanalega veitt af aðilum eða einstaklingum sem eru tilnefndir eða valdir á einhvern þann hátt sem ekki getur fallið undir útboðsreglur.
33)         Fjármálaþjónusta er einnig falin einstaklingum eða aðilum samkvæmt skilyrðum sem samrýmast ekki beitingu reglna um innkaup.
34)         Samkvæmt 163. gr. sáttmálans ber að hvetja til rannsókna og tækniþróunar til að renna stoðum undir vísinda- og tæknigrundvöll iðnaðar í Bandalaginu og með því að opna aðgang að þjónustusamningum er stuðlað að því að þetta markmið náist. Þessi tilskipun gildir ekki um sameiginlega fjármögnun til rannsóknar- og þróunarverkefna. Rannsóknar- og þróunarsamningar falla því ekki undir þessa tilskipun nema þeir komi eingöngu samningsyfirvöldum/ stofnunum til góða í þeirra eigin starfsemi og að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu/stofnuninni.
35)         Atvinna og störf eru grundvallaratriði þegar tryggja á jöfn tækifæri fyrir alla og stuðla að félagslegum samruna. Í því sambandi eru verndaðir vinnustaðir og áætlanir um verndaða vinnu mikill stuðningur við aðlögun eða enduraðlögun fatlaðs fólks á vinnumarkaðnum. Hins vegar er hugsanlegt að slíkir vinnustaðir nái ekki samningum við venjulegar samkeppnisaðstæður. Þess vegna er rétt að setja ákvæði um að aðildarríkin geti bundið réttinn til þátttöku í útboði vegna opinberra samninga slíkum vinnustöðum eða bundið útkomu samninga áætlunum um verndaða vinnu.
36)        Við beitingu þessarar tilskipunar gagnvart þjónustusamningum sem falla undir gildissvið hennar og í eftirlitstilgangi, skal skipta þjónustu upp í flokka sem samsvara tilteknum liðum sameiginlega innkaupaorðasafnsins og færa saman í tveimur viðaukum samkvæmt því fyrirkomulagi sem þau falla undir. Að því er varðar þjónustu í II. viðauka skulu ákvæði þessarar tilskipunar ekki hafa áhrif á beitingu Bandalagsreglna sem gilda sérstaklega um viðkomandi þjónustu. Til þess að beita ákvæðum þessarar tilskipunar í stað ákvæða tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB, þarf þó að fastsetja að viðeigandi þjónustusamningar falli innan gildissviðs beitingar þessarar tilskipunar.
37)        Að því er varðar þjónustusamninga skal full beiting þessarar tilskipunar takmarkast, á aðlögunartímabili, við samninga sem eru þannig að ákvæði hennar gera það kleift að nýta alla möguleika á auknum viðskiptum yfir landamæri. Fylgjast skal með samningum um aðra þjónustu á þessu aðlögunartímabili áður en ákvörðun er tekin um að beita þessari tilskipun að fullu.
38)         Tækniforskriftirnar, sem samningsyfirvöld/ stofnanir semja, verða að vera á þann veg að opnað sé fyrir samkeppni í innkaupum. Þess vegna á að vera hægt að leggja fram tilboð þar sem gefnir eru möguleikar á fjölbreyttum, tæknilegum lausnum. Til að það sé hægt þarf, annars vegar, að koma á tækniforskriftum á grundvelli frammistöðu og virknikrafna. Hins vegar er vísað í Evrópustaðal eða í alþjóðlega staðla eða landsstaðla, þ.m.t. þeirra sem eiga sérstaklega við svið varnarmála, skulu samningsyfirvöld/stofnanir taka til athugunar tilboð á grundvelli annarra sambærilegra reglna. Þetta jafngildi má einkum meta með tilliti til rekstrarsamhæfis og krafna um skilvirka starfrækslu. Leyfa skal bjóðendum að leggja fram hvers konar sönnunargögn til að sýna að tilboð séu jafngild. Samningsyfirvöld/stofnanir skulu geta rökstutt allar ályktanir þess efnis að ekki hafi verið um jafngild tilboð að ræða í tilteknu tilviki. Einnig finnast alþjóðasamningar um stöðlun sem miða að því að tryggja rekstrarsamhæfi herafla og geta gilt sem lög í aðildarríkjum. Ef einn þessara samninga á við geta samningsyfirvöld/stofnanir krafist þess að tilboð séu í samræmi við þá staðla sem lýst er í þeim samningi. Tækniforskriftirnar skulu settar fram á skýran hátt svo að öllum bjóðendum sé það ljóst hvað felst í þeim kröfum sem samningsyfirvöld/stofnanir gera.
39)         Ítarlegar tækniforskriftir og frekari upplýsingar varðandi samninga skulu, samkvæmt venju í aðildarríkjum, veittar í útboðsgögnum fyrir hvern samning eða í jafngildu skjali.
40)         Ekki skal mismuna mögulegum undirverktökum á grundvelli þjóðernis. Í tengslum við varnar- og öryggismál getur það verið viðeigandi fyrir samningsyfirvöld/stofnanir að skylda hlutskarpasta bjóðandann til að skipuleggja gagnsæja samkeppni án mismununar við útboð undirverktakastarfsemi til þriðja aðila. Þessi skylda getur átt við alla samninga við undirverktaka eða aðeins gagnvart tilteknum samningum við undirverktaka, sem samningsyfirvald/stofnun velur.
        Þar að auki er viðeigandi að réttur bjóðanda til að nota undirverktaka sé bættur með þeim valkosti að aðildarríki heimili eða krefjist þess að samningsyfirvöld/stofnanir þess setji fram tilmæli um að í það minnsta hluti af virði samningsins sé látinn undirverktaka í té, að því tilskildu að tengd fyrirtæki teljist ekki vera þriðji aðili. Ef þess háttar kröfur eru gerðar, skal hlutskarpasti bjóðandinn gera undirverktakasamninga í kjölfar gagnsærrar samkeppni án mismununar, þannig að öll fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta hafi sömu möguleika á ávinningi af undirverktakastarfsemi. Jafnframt skal ekki tefla í tvísýnu réttri framkvæmd aðfangakeðju hlutskarpasta bjóðandans. Þess vegna skal sá hundraðshluti sem hægt er að láta þriðja aðila í té með undirverktakasamningi samkvæmt tilmælum samningsyfirvalds/stofnunar endurspegla markmið og virði samnings með viðeigandi hætti.
        Við samningskaup eða samkeppnisviðræður með kröfum um notkun undirverktaka, geta samningsyfirvöld/stofnanir og bjóðendur rætt kröfur um notkun undirverktaka eða tilmæli með það í huga að tryggja að samningsyfirvald/stofnun sé fyllilega upplýst um áhrif mismunandi valkosta undirverktöku, einkum á kostnað, gæði eða áhættu. Í öllum tilvikum skal undirverktökum, sem hlutskarpasti bjóðandinn upphaflega leggur til, vera frjálst að taka þátt í samkeppnum vegna útboðs undirverka.
        Í tengslum við varnarmála- og öryggismarkaði, skulu aðildarríkin og framkvæmdastjórnin einnig hvetja til þróunar og útbreiðslu bestu starfsvenja milli aðildarríkja og evrópsks iðnaðar með það í huga að stuðla að frjálsum flutningum og samkeppnishæfni á undirverktakamarkaði í Evrópusambandinu, auk skilvirkrar stjórnunar á birgjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, til að ná fram mestu gæðum fyrir verð. Aðildarríki skulu upplýsa alla hlutskörpustu bjóðendurna um ávinning af gagnsæju og samkeppnishæfu útboði og fjölbreytni birgja við undirverktöku og þróa og útbreiða bestu starfsvenjur við stjórnun aðfangakeðjunnar á varnarmála- og öryggismörkuðum.
41)         Skilyrði fyrir framkvæmd samnings eru samrýmanleg þessari tilskipun að því tilskildu að þau hafi ekki, beint eða óbeint, mismunun í för með sér og séu tilgreind í útboðstilkynningu eða í útboðsgögnum.
42)         Einkum geta skilyrðin um frammistöðu falið í sér kröfur samningsyfirvalda/stofnana að því er varðar upplýsingaöryggi og afhendingaröryggi. Þessar kröfur eru sérstaklega mikilvægar vegna viðkvæms eðlis þess búnaðar sem fellur undir þessa tilskipun og varða alla aðfangakeðjuna.
43)        Til að tryggja öryggi upplýsinga, geta samningsyfirvöld/stofnanir einkum krafist skuldbindingar bæði verktaka og undirverktaka um að vernda trúnaðarupplýsingar fyrir óheimilum aðgangi, auk fullnægjandi upplýsinga um getu þeirra til að standa við skuldbindingarnar. Ef ekki er um að ræða fyrirkomulag um upplýsingaöryggi innan Bandalagsins er það á ábyrgð samningsyfirvalda/stofnana að skilgreina þessar kröfur í samræmi við landslög og reglur, og að ákvarða hvort þau telji að öryggisvottanir, sem gefnar eru út í samræmi við landslög annars aðildarríkis, séu jafngildar þeim sem eigin lögbær yfirvöld gefa út.
44)         Afhendingaröryggi getur falið í sér fjölda mismunandi krafna, þ.m.t., t.d. innri reglur milli dótturfélaga og móðurfélags að því er varðar hugverkaréttindi, eða getu til að veita mikilvæga þjónustu, viðhald og viðgerðir til að tryggja stuðning við keyptan búnað allan líftíma þess.
45)         Skilyrði varðandi framkvæmd geta undir engum kringumstæðum varðað aðrar kröfur en þær sem tengjast framkvæmd sjálfs samningsins.
46)         Gildandi lög, reglur og kjarasamningar, bæði innanlands og á vettvangi Bandalagsins, á sviði ráðningarskilmála og öryggis í starfi, skulu gilda á meðan opinber samningur stendur yfir, að því tilskildu að slíkar reglur og beiting þeirra sé í samræmi við lög Bandalagsins. Varðandi starfsemi sem teygir sig yfir landamæri þar sem starfsmenn frá einu aðildarríki veita þjónustu í öðru aðildarríki í tengslum við framkvæmd samnings er mælt fyrir um lágmarksskilyrði, sem gistilandið þarf að virða í tengslum við slíka útsenda starfsmenn, í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna ( 1 ) í tengslum við veitingu þjónustu. Ef ákvæði eru um þetta í innlendum lögum má líta á það sem alvarlegt misferli eða brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila ef ákvæðin eru ekki virt og getur það valdið því að hann verði útilokaður frá þátttöku í útboði.
47)         Samningar sem falla undir þessa tilskipun einkennast af tilteknum kröfum að því er varðar það hve flóknir þeir eru, upplýsingaöryggi eða afhendingaröryggi. Oft þarf yfirgripsmiklar samningaviðræður til að uppfylla þessar kröfur við gerð samninga. Að því er varðar samninga sem falla undir þessa tilskipun, geta samningsyfirvöld/stofnanir því, auk lokaðs útboðs, notað samningskaup með birtingu útboðstilkynningar.
48)    Samningsyfirvöld/stofnanir, sem vinna að mjög flóknum verkefnum, geta, án þess að eiga á því nokkra sök, komist í þá aðstöðu að þau geta ekki skilgreint á hlutlægan hátt aðferðir til að uppfylla þarfir þeirra, eða að meta hvað er í boði á markaðnum af tæknilegum lausnum og/eða fjárhagslegum eða lagalegum lausnum. Þessi staða getur einkum komið upp við framkvæmd verkefna sem þarfnast samþættingar eða samspils margs konar tækni- eða rekstrareiginleika, eða verkefna sem fela í sér flókna og samsetta fjármögnun þar sem ekki er hægt að skilgreina lagalegu hliðina fyrir fram. Í þessu tilviki væri ekki æskilegt að beita lokuðu útboði og samningskaupum með birtingu útboðstilkynningar, þar sem ekki væri hægt að skilgreina samninginn með nægilega mikilli nákvæmni til að þátttakendur geti gert tilboð. Þess vegna er nauðsynlegt að kveða á um sveigjanlega málsmeðferð til að tryggja samkeppni milli rekstraraðila og gera samningsyfirvöldum/stofnunum kleift að ræða alla þætti samnings við hvern þátttakanda. Þessa aðferð má þó ekki nota á þann hátt að það takmarki eða raski samkeppni, t.d. með því að breyta einhverjum grunnþáttum tilboðanna, setja fram nýjar, mikilvægar kröfur á hendur hlutskarpasta bjóðandanum eða með því að velja einhvern annan bjóðanda en þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.
49)         Áður en útboðsferli hefst geta samningsyfirvöld/-stofnanir, með tæknilegum skoðanaskiptum, leitað ráða eða þegið ráð sem geta komið að gagni við gerð útboðstilkynningar en þó því aðeins að slík ráðgjöf verði ekki til þess að hindra samkeppni.
50)         Notkun samningskaupa með birtingu útboðstilkynningar gæti verið ógerleg eða alfarið óviðeigandi í tilteknum undantekningartilvikum. Samningsyfirvöld/stofnanir ættu því, í tilteknum sérstökum tilvikum eða við sérstakar aðstæður, að geta notað samningskaup án birtingar útboðstilkynningar.
51)         Tilteknar aðstæður ættu að hluta til að vera þær sömu og kveðið er á um í tilskipun 2004/18/ EB. Hvað þetta varðar, skal athuga sérstaklega að varnar- og öryggisbúnaður er oft tæknilega flókinn. Af þessum sökum, skal meta ósamrýmanleika eða óhófleg tæknileg vandamál við rekstur og viðhald, sem réttlæta notkun samningskaupa án útboðstilkynningar í tilviki vörusamninga vegna viðbótarafhendingar, í ljósi þess hversu flókið það er og tengdra krafna um rekstrarsamhæfi og stöðlun búnaðar. Þetta á t.d. við um samþættingu nýrra þátta í starfandi kerfi eða nútímavæðingu þess háttar kerfa.
52)        Það getur átt við um tiltekin kaup, sem falla innan gildissviðs þessarar tilskipunar, að einungis einn rekstraraðili getur framkvæmt samninginn vegna þess að hann hefur einkarétt, eða af tæknilegum ástæðum. Ef svo er skal samningsyfirvaldi/stofnun heimilt að gera samning eða rammasamning beint við þann rekstraraðila. Tæknilegar ástæður þess að einungis einn rekstraraðili getur uppfyllt samning skal þó skilgreina ítarlega og færa rök fyrir því í hverju tilviki fyrir sig. Það gæti t.d. verið tæknilega óraunhæft að annar en sá bjóðandi sem varð fyrir valinu gæti náð settum markmiðum, eða verið nauðsynlegt að nota tiltekna verkkunnáttu, áhöld eða aðferðir sem aðeins einn rekstraraðili býr yfir. Þetta getur t.d. átt við um breytingar eða ísetningu sérstaklega flókins búnaðar. Tæknilegar ástæður má einnig rekja til tiltekins rekstrarsamhæfis eða öryggiskrafna, sem skylt er að uppfylla til að tryggja rekstur herafla eða öryggissveita.
53)         Sérstakir eiginleikar samninga sem falla undir þessa tilskipun sýna einnig fram á þörf fyrir að taka tillit til nýrra aðstæðna, sem gætu komið upp á þeim sviðum sem tilskipunin nær yfir.
54)         Herafli aðildarríkjanna getur t.d. verið kallaður til að grípa inn í hættuástand erlendis, t.d. sem hluti af friðargæslustarfsemi. Við upphaf, eða meðan á þess háttar inngripi stendur, getur öryggi aðildarríkja og herafla þeirra útheimt að tilteknir samningar séu gerðir með hraða sem samræmist ekki hefðbundnum frestum sem settir eru vegna útboðsferla sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Þess háttar neyðartilvik geta einnig komið upp varðandi öryggissveitir, t.d. í tilviki hryðjuverkaárásar á yfirráðasvæði Evrópusambandsins.
55)         Örvun rannsókna og þróunar er lykilatriði við eflingu evrópska varnargeirans að því er varðar tækni og iðnað, og aukið frjálsræði innkaupa stuðlar að því að ná fram því markmiði. Mikilvægi rannsókna og þróunar á þessu tiltekna sviði réttlætir hámarkssveigjanleika við gerð samninga um vörur og þjónustu vegna rannsókna. Þessi sveigjanleiki skal þó ekki, jafnframt, útiloka sanngjarna samkeppni á síðari stigum líftíma vöru. Samningar um rannsóknir og þróun skulu því aðeins ná yfir starfsemi að því marki að hægt sé að meta líftíma nýrrar tækni á hæfilegan hátt og að líkindum án áhættu. Ekki skal beita samningum um rannsóknir og þróun umfram það stig til þess að komast hjá ákvæðum þessarar tilskipunar, þ.m.t. með því að ákveða fyrir fram val á bjóðanda á seinni stigum.
        Hins vegar skal samningsyfirvald/stofnun ekki þurfa að bjóða síðari stig út sérstaklega ef samningurinn sem nær yfir rannsóknastarfsemi felur þegar í sér valkost varðandi þau stig og var boðið út í lokuðu útboði eða samningskaupum með birtingu útboðstilkynningar eða, eftir atvikum, samkeppnisviðræðum.
56)         Til að tryggja gagnsæi, skal kveða á um reglur um birtingu samningsyfirvalda/stofnana á viðeigandi upplýsingum fyrir og við lok útboðsferlis. Auk þess skal veita frekari sértækar upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda varðandi niðurstöður þess ferlis. Þó skal samningsyfirvöldum/stofnunum heimilt að halda eftir einhverjum af þeim upplýsingum sem krafist er ef og svo fremi sem birting þeirra bryti í bága við lög eða myndi með öðrum hætti brjóta í bága við hagsmuni almennings, valda tjóni á lögmætum viðskiptahagsmunum rekstraraðila eða koma í veg fyrir sanngjarna samkeppni þeirra á milli. Í ljósi eðlis og eiginleika verka, birgða og þjónustu sem fellur undir þessa tilskipun, eru hagsmunir almennings, sem varða það hvort farið sé að lögboðnum innlendum ákvæðum sem eru innan gildissviðs opinberrar innlendrar stefnu, einkum varðandi varnar- og öryggismál, sérstaklega mikilvægir í þessu tilliti.
57)        Í ljósi nýrrar þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og þeirrar einföldunar sem hún getur skilað, skulu rafrænar aðferðir settar jafnfætis hefðbundnum aðferðum í fjarskiptum og upplýsingaskiptum. Þær aðferðir og sú tækni, sem valið er að nota, skal, eftir því sem unnt er, vera samrýmanleg þeirri tækni sem notuð er í öðrum aðildarríkjum.
58)        Til að tryggja þróun virkrar samkeppni á sviði innkaupa sem falla undir þessa tilskipun er nauðsynlegt að útboðstilkynningar samningsyfirvalda/stofnana aðildarríkja séu birtar alls staðar í Bandalaginu. Upplýsingarnar í þessum tilkynningum skulu gera rekstraraðilum í Bandalaginu kleift að meta hvort þeir hafi áhuga á fyrirhuguðum samningum. Þess vegna ber að veita þeim nægilegar upplýsingar um efni samningsins og skilyrði sem honum fylgja. Aukinn sýnileiki skal því tryggður að því er varðar opinberar auglýsingar með notkun viðeigandi tóla, svo sem staðlaðra útboðstilkynninga og sameiginlega innkaupaorðasafnsins, sem er tilvísunarflokkunarkerfi fyrir samninga.
59)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/ EB frá 13. desember 1999 um ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/ EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti) ( 2 ) skulu, í samhengi þessarar tilskipunar, gilda um flutning upplýsinga með rafrænum aðferðum. Í innkaupaferli er þörf á hærra öryggis- og trúnaðarstigi en krafist er samkvæmt þessum tilskipunum. Samkvæmt því skal búnaður fyrir rafræna móttöku tilboða og þátttökutilkynninga uppfylla tilteknar viðbótarkröfur. Í þessu skyni ber að hvetja til notkunar rafrænna undirskrifta, einkum háþróaðra, rafrænna undirskrifta, eftir því sem unnt er. Auk þess geta valfrjáls faggildingarkerfi myndað heppilegan ramma um bætta vottunarþjónustu fyrir þennan búnað.
60)         Notkun rafrænna aðferða sparar tíma. Þess vegna ber að setja ákvæði um styttingu lágmarksfrests vegna móttöku tilboða og þátttökutilkynninga ef rafrænum aðferðum er beitt, þó með því skilyrði að þau samrýmist sérstökum ákvæðum um flutningsaðferðir sem notaðar verða í Bandalaginu.
61)        Sannprófun á hæfi þátttakenda og val á þeim skal því fara fram við gagnsæ skilyrði. Þess vegna skal tilgreina hvaða viðmiðanir um bann við mismunun samningsyfirvöld/stofnanir geta stuðst við þegar þau velja samkeppnisaðila og hvaða aðferðir rekstraraðilar geta notað til að sanna að þeir hafi uppfyllt þessar viðmiðanir. Með tilliti til gagnsæis skal einnig krefjast þess að samningsyfirvöld/stofnanir tilgreini, um leið og samningur er boðinn út, hvaða valforsendur þau muni nota og þá sérstöku hæfni sem hugsanlegt er að þau krefjist af rekstraraðilum svo að þeir geti tekið þátt í útboðinu.
62)        Samningsyfirvöld/stofnanir geta takmarkað fjölda þátttakenda í lokuðum útboðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og einnig í samkeppnisviðræðum. Allar takmarkanir á fjölda þátttakenda skulu vera á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem eru tilgreindar í útboðstilkynningunni. Þegar um er að ræða viðmiðanir, sem tengjast persónulegri stöðu rekstraraðila, getur nægt að í útboðstilkynningunni sé almennt vísað til þeirra atriða sem um getur í þessari tilskipun.
63)         Í samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, skulu samnings-yfirvöld/stofnanir, í ljósi þess sveigjanleika sem kann að vera þörf á og mikils kostnaðar við slíkar útboðsaðferðir, hafa leyfi til að láta útboðið fara fram í nokkrum áföngum til að fækka smám saman, á grundvelli fyrir fram tilgreindra valforsendna, þeim tilboðum sem þau þurfa áfram að ræða eða semja um. Þessi fækkun skal, að svo miklu leyti sem fjöldi viðeigandi tilboða eða þátttakenda leyfir hana, tryggja raunverulega samkeppni.
64)         Viðeigandi Bandalagsreglur um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina, vottorða eða annarra sönnunargagna um formlega menntun og hæfi skulu gilda þegar krafist er sönnunargagna um sérstaka menntun og hæfi vegna þátttöku í útboðsferli.
65)        Forðast skal að gera samninga við rekstraraðila sem hafa tekið þátt í glæpasamtökum eða hafa verið fundnir sekir um spillingu eða sviksemi, sem hefur beinst gegn fjárhagslegum hagsmunum Evrópubandalaganna, eða peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða hryðjuverkastarfsemi eða starfsemi sem tengist hryðjuverkum. Ef við á skulu samningsyfirvöld/stofnanir krefjast þess að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram viðeigandi skjöl og ef þau hafa efasemdir varðandi persónulega stöðu þátttakanda eða bjóðanda geta þau leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í viðkomandi aðildarríki. Þess háttar rekstraraðilar skulu útilokaðir um leið og samningsyfirvöld/stofnanir fá vitneskju um að dómur hafi fallið vegna slíkra brota í samræmi við innlend lög sem hafa dómsígildi. Ef ákvæði eru um það í landslögum má líta á það sem brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila, eða alvarlegt misferli, ef hann fer ekki að lögum um innkaup og ólögmætt samkomulag í samningum og það hefur verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun. Það skal einnig vera mögulegt að útiloka rekstraraðila ef samningsyfirvald/stofnun býr yfir upplýsingum, sem eftir atvikum koma frá vernduðum heimildum, sem sýna fram á að þeir séu ekki nægilega áreiðanlegir til að öryggi aðildarríkis sé ekki stofnað í hættu. Þess konar áhætta getur verið afleiðing tiltekinna séreinkenna á vörum sem afhentar eru af þátttakanda, eða hluthafafyrirkomulags þátttakanda.
66)         Ef ekki er farið að ákvæðum landslaga við framkvæmd tilskipunar ráðsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennan ramma um jafna meðferð með tilliti til atvinnu og starfa ( 1 ) og tilskipun ráðsins 76/207/EBE frá 9. febrúar 1976 um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör ( 2 ) sem hafa verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun, má líta á það sem brot á siðareglum af hálfu hlutaðeigandi rekstraraðila eða alvarlegt misferli.
67)         Varnar- og öryggisgeirinn eru viðkvæms eðlis og því er áreiðanleiki rekstraraðila, sem samningar eru gerðir við, mjög mikilvægur. Þessi áreiðanleiki er einkum háður getu þeirra til að bregðast við kröfum sem samningsyfirvald/ stofnun gerir til þeirra að því er varðar afhendingar- og upplýsingaöryggi. Auk þess skal ekkert í þessari tilskipun koma í veg fyrir útilokun samningsyfirvalds/stofnunar á rekstraraðila á hverjum tímapunkti í útboðsferlinu ef samningsyfirvald/stofnun býr yfir upplýsingum sem valda því að veiting hluta eða alls samningsins til þess rekstraraðila gæti skaðað mikilvæga öryggishagsmuni þess aðildarríkis.
68)        Ef ekki er um að ræða fyrirkomulag að því er varðar öryggi upplýsinga í Bandalaginu, er það á ábyrgð samningsyfirvalda/stofnana að ákvarða þá tæknilega getu sem krafist er hvað þetta varðar vegna þátttöku í útboði og að meta hvort þátttakendur hafi það öryggisstig sem krafist er. Oft hefur aðildarríki gert tvíhliða öryggissamninga með reglum um gagnkvæma viðurkenningu þjóðaröryggisvottana. Jafnvel þegar þess háttar samningar eru til staðar, má sannprófa getu rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum að því er varðar upplýsingaöryggi, og skal þess háttar sannprófun framkvæmd í samræmi við meginreglur um bann við mismunun, jafna meðferð og meðalhóf.
69)         Samningar skulu gerðir á grundvelli hlutlægra forsendna sem tryggja að farið sé að meginreglunum um gagnsæi, bann við mismunun og jafna meðferð og sem tryggja að tilboð séu metin á gagnsæjan og hlutlægan hátt á grundvelli virkrar samkeppni. Þar af leiðandi þykir rétt að heimila aðeins beitingu tveggja valforsendna: „lægsta verð“ og „hagstæðasta tilboð“.
70)         Til að tryggja að farið sé að meginreglunni um jafna meðferð við val á tilboði ber að mæla fyrir um þá skyldu, sem hefur verið komið á í samræmi við dómaframkvæmd, að tryggja nauðsynlegt gagnsæi svo að unnt sé að veita öllum bjóðendum eðlilegar upplýsingar um forsendur og fyrirkomulag við mat á því hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast. Það er því skylda samningsyfirvalda/stofnana að gefa upp forsendur fyrir vali á tilboði og hlutfallslegt vægi hverrar forsendu með nægilegum fyrirvara svo að bjóðendur viti af þeim þegar þeir semja tilboð sín. Samningsyfirvöld/stofnanir geta gert undanþágu frá því að tilgreina vægi forsendna fyrir vali á tilboði þegar gildar ástæður eru fyrir því, sem þau verða að geta rökstutt, og ekki er unnt að meta vægið fyrir fram, einkum þegar um er að ræða flókna samninga. Í slíkum tilvikum verða þau að tilgreina forgangsröð forsendna eftir mikilvægi þeirra.
71)        Ef samningsyfirvöld/stofnanir ákveða að gera samning við þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið skulu þau meta tilboðin með tilliti til þess hvaða tilboð feli í sér besta hlutfallið á milli gæða og verðs. Með þetta í huga skulu þau ákvarða fjárhagslegar forsendur og gæðaforsendur sem eiga að gera kleift að ákvarða hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast fyrir samningsyfirvöld/stofnanir, á heildina litið. Ákvörðun þessara forsendna er háð efni samningsins því að á grundvelli þeirra á að vera hægt að meta þá framkvæmd sem felst í hverju tilboði í ljósi þess hvert efni samningsins er, eins og skilgreint er í tækniforskriftunum, og einnig að ákvarða hlutfallið milli gæða og verðs hjá hverjum bjóðanda.
72)    Tryggja skal að farið sé að ákvæðum um gagnsæi og samkeppni með skilvirku endurskoðunarkerfi, á grundvelli kerfis sem kveðið er á um í tilskipun ráðsins 89/665/EBE ( 1 ) og 92/ 13/EBE ( 2 ), eins og þeim var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/66/EB ( 3 ), varðandi samninga sem falla undir tilskipanir 2004/17/EB og 2004/18/EB. Einkum skal kveða á um möguleika á að vefengja útboðsferli áður en samningur er undirritaður, auk nauðsynlegra trygginga varðandi skilvirkni sannprófunar, eins og stöðvunartímabil. Einnig skal kveða á um möguleikann á að vefengja ólöglega beina samninga eða samninga sem brjóta í bága við þessa tilskipun.
73)         Eigi að síður skulu reglur um meðferð kæru taka tillit til verndar varnarmála- og öryggishagsmuna að því er varðar málsmeðferð endurskoðunaraðila, val á tímabundnum ráðstöfunum eða viðurlögum við brotum á skuldbindingum sem varða gagnsæi og samkeppni. Einkum skulu aðildarríki geta kveðið á um að endurskoðunaraðili, óháður samningsyfirvaldi/ stofnun, geti litið svo á að samningur sé ógildur, þótt hann hafi verið gerður á ólögmætan hátt samkvæmt þessari tilskipun, ef sá aðili telur, í kjölfar athugunar á öllum viðeigandi þáttum, að sérstakar aðstæður í viðkomandi tilviki geri það að verkum að virða þurfi tilteknar brýnar þarfir í tengslum við almenna hagsmuni. Í ljósi eðlis og gerðar verka, birgða og þjónustu sem fellur undir þessa tilskipun, skulu þess háttar brýnar þarfir fyrst og fremst vera í tengslum við almenna hagsmuni varnar- og öryggismála aðildarríkja. Það getur t.d. átt við ef ógildi samnings myndi ekki aðeins stofna í verulega hættu framkvæmd tiltekins verkefnis, sem samningurinn á við um, heldur einnig tilveru varnar- og/eða öryggisáætlunar, sem verkefnið er hluti af, í víðara samhengi.
74)         Samþykkja þarf tiltekin tæknileg skilyrði, einkum að því er varðar auglýsingar og tölulegar skýrslur og einnig flokkunarkerfið sem er notað og skilyrði fyrir tilvísun í það flokkunarkerfi, og breyta þeim í samræmi við breyttar tæknikröfur. Því er rétt að komið verði á fót sveigjanlegu og hröðu samþykktarferli í þessum tilgangi.
75)        Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 4 ).
76)         Einkum skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að endurskoða viðmiðunarfjárhæðir fyrir samninga með því að samræma þær viðmiðunarfjárhæðum sem mælt er fyrir um í tilskipun 2004/17/EB og til að breyta tilteknum tilvísunarnúmerum í flokkunarkerfi sameiginlega innkaupaorðasafnsins og málsmeðferð við tilvísun í tiltekna flokka í sameiginlega innkaupaorðasafninu, auk tæknilegra eiginleika búnaðar til rafrænnar móttöku.
        Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar verður að samþykkja þær í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
77)        Ef málefnið er svo brýnt að ekki reynist unnt að standa við hefðbundinn frest í tengslum við reglunefndarmeðferð með grannskoðun skal framkvæmdastjórnin geta beitt flýtimeðferðinni, sem kveðið er á um í 6. mgr. 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB, við samþykkt þessara ráðstafana.
78)        Í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1), eru aðildarríkin hvött til að taka saman, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og að birta þær.
79)        Framkvæmdastjórnin skal framkvæma reglubundið mat til að athuga hvort markaðurinn með varnarbúnað sé starfræktur með frjálsum, gagnsæjum og samkeppnishæfum hætti, þ.m.t. áhrif þessarar tilskipunar á markaðinn, t.d. varðandi þáttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:
1
EFNISYFIRLIT
I. BÁLKUR SKILGREININGAR, GILDISSVIÐ OG MEGINREGLUR
1. gr. Skilgreiningar
2. gr. Gildissvið
3. gr. Blandaðir samningar
4. gr. Meginreglur um innkaup
II. BÁLKUR REGLUR UM SAMNINGA
I. KAFLI Almenn ákvæði
5. gr. Rekstraraðilar
6. gr. Trúnaðarkvöð samningsyfirvalda/stofnana
7. gr. Vernd leynilegra upplýsinga
II. KAFLI Viðmiðunarfjárhæðir, miðlægar innkaupastofnanir og undantekningarákvæði
1. þáttur. Viðmiðunarfjárhæðir
8. gr. Viðmiðunarfjárhæðir fyrir samninga
9. gr. Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti samninga og rammasamninga
2. þáttur. Miðlægar innkaupastofnanir
10. gr. Samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum
3. þáttur. Samningar sem falla ekki undir tilskipunina
11. gr. Undanþágur
12. gr. Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum
13. gr. Sérstakar undanþágur
4. þáttur. Sérstakt fyrirkomulag
14. gr. Samningar bundnir við ákveðna hópa
III. KAFLI Reglur um þjónustusamninga
15. gr. Þjónustusamningar sem eru skráðir í I. viðauka
16. gr. Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka
17. gr. Blandaðir samningar þ.m.t. þjónusta sem er skráð í I. og II. viðauka
IV. KAFLI Sértækar reglur sem gilda um útboðsskjöl
18. gr. Tækniforskriftir
19. gr. Frávikstilboð
20. gr. Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings
21. gr. Undirverktakastarfsemi
22. gr. Öryggi upplýsinga
23. gr. Afhendingaröryggi
24. gr. Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði
V. KAFLI Útboðsaðferðir
25. gr. Starfsaðferðir sem skal beita
26. gr. Samningskaup með birtingu útboðstilkynningar
27. gr. Samkeppnisviðræður
28. gr. Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar
29. gr. Rammasamningar
VI. KAFLI Reglur um tilkynningar og gagnsæi
1. þáttur. Birting tilkynninga
30. gr. Tilkynningar
31. gr. Birting án skyldu
32. gr. Form tilkynninga og aðferð við birtingu þeirra
2. þáttur. Frestur
33. gr. Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
3. þáttur. Efni upplýsinga og sendingaraðferðir
34. gr. Boð um að leggja fram tilboð, ganga til samninga eða taka þátt í viðræðum
35. gr. Upplýsingar fyrir þátttakendur og bjóðendur
4. þáttur. Samskipti
36. gr. Reglur um samskipti
5. þáttur. Skýrslur
37. gr. Efni skýrslna
VII. KAFLI Framvinda málsmeðferðar
1. þáttur. Almenn ákvæði
38. gr. Athugun á hæfi og vali þátttakenda og vali tilboða
2. þáttur. Forsendur fyrir hæfismiðuðu vali
39. gr. Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda
40. gr. Starfsréttindi
41. gr. Efnahagsleg og fjárhagsleg staða
42. gr. Tæknileg og fagleg geta
43. gr. Gæðastjórnunarkerfi
44. gr. Umhverfisstjórnunarstaðlar
45. gr. Viðbótargögn og upplýsingar
46. gr. Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum
3. þáttur. Gerð samnings
47. gr. Forsendur fyrir samningsgerð
48. gr. Rafræn uppboð
49. gr. Óeðlilega lág tilboð
III. BÁLKUR REGLUR UM UNDIRVERKTAKASTARFSEMI
I. KAFLI Samningar hlutskörpustu bjóðenda, sem eru ekki samningsyfirvöld/stofnanir, við undirverktaka
50. gr. Gildissvið
51. gr. Meginreglur
52. gr. Viðmiðunarfjárhæðir og reglur um auglýsingar
53. gr. Viðmiðanir um hæfismiðað val á undirverktökum
II. KAFLI Samningar hlutskörpustu bjóðenda, sem eru samningsyfirvöld/stofnanir, við undirverktaka
54. gr. Reglur sem skal beita
IV. BÁLKUR REGLUR SEM SKAL BEITA VIÐ KÆRUR
55. gr. Gildissvið reglna um meðferð kæru og aðgangur að því
56. gr. Kröfur um reglur um meðferð kæru
57. gr. Stöðvunartímabil
58. gr. Undanþágur frá stöðvunartímabilinu
59. gr. Frestur til að beita kærum
60. gr. Óvirkni
61. gr. Brot á þessum bálki og annars konar viðurlög
62. gr. Frestur
63. gr. Leiðréttingaraðferð
64. gr. Efni tilkynningar að því er varðar valfrjálst gagnsæi fyrir fram
V. BÁLKUR SKYLDAN AÐ VEITA TÖLULEGAR UPPLÝSINGAR, FRAMKVÆMDARVALD OG LOKAÁKVÆÐI
65. gr. Skyldan að veita tölulegar upplýsingar
66. gr. Inntak tölulegrar skýrslu
67. gr. Nefndarmeðferð
68. gr. Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða
69. gr. Breytingar
70. gr. Breyting á tilskipun 2004/17/EB
71. gr. Breyting á tilskipun 2004/18/EB
72. gr. Lögleiðing
73. gr. Endurskoðun og skýrslugjöf
74. gr. Gildistaka
75. gr. Viðtakendur
VIÐAUKAR
I. viðauki Þjónusta sem um getur í 2. og 15. gr.
II. viðauki Þjónusta sem um getur í 2. og 16. gr.
III. viðauki Skilgreining á tilteknum tækniforskriftum sem um getur í 18. gr.
IV. viðauki Upplýsingar sem skulu vera í tilkynningunni sem um getur í 30. gr.
V. viðauki Upplýsingar sem skulu vera í tilkynningunni sem um getur í 52. gr.
VI. viðauki Birting
VII. viðauki Skrár
VIII. viðauki Kröfur sem varða búnað til rafrænnar móttöku á þátttökutilkynningum og tilboðum

I. BÁLKUR
SKILGREININGAR, GILDISSVIÐ OG MEGINREGLUR
1. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV)“: tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir fyrir samninga samningsyfirvalda/stofnana, eins og samþykkt var með reglugerð (EB) nr. 2195/2002,
2.    „Samningar“: skriflegir samningar fjárhagslegs eðlis, eins og um getur í a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/17/EB og a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/18/EB,
3.    „Verksamningar“: samningar sem fjalla annaðhvort um framkvæmd eða bæði hönnun og framkvæmd verka sem tengjast einhverri þeirri starfsemi sem um getur í 45. gr. sameiginlega innkaupaorðasafnsins eða verk eða hvers konar framkvæmd verks sem svarar til þeirra krafna sem samningsyfirvaldið/stofnunin setur fram. „Verk“: heildarafrakstur af byggingarvinnu eða verkfræðivinnu sem getur, sem slíkur, þjónað fjárhagslegu eða tæknilegu hlutverki,
4.    „Vörusamningar“: samningar, aðrir en verksamningar um kaup, langtíma- eða skammtímaleigu eða kaupleigu á vörum, með eða án kaupréttar.
    Samningur um vöruafhendingu, sem einnig felur í sér tilfallandi ísetningu og uppsetningu, skal teljast „vörusamningur“,
5.    „Þjónustusamningar“: samningar, aðrir en verk- og vörusamningar, sem varða veitingu þjónustu.
    Samningur, sem varðar bæði vörur og þjónustu, skal teljast „þjónustusamningur“ ef verðmæti viðkomandi þjónustu er meira en verðmæti vörunnar sem samningurinn nær til.
    Samningur, sem varðar þjónustu og felur í sér starfsemi sem nefnd er í 45. gr. sameiginlega innkaupaorðasafnsins, sem er einungis tilfallandi viðbót við meginefni samningsins, skal teljast þjónustusamningur,
6.    „Hergögn“: gögn sem eru sérstaklega hönnuð eða breytt í hernaðarlegum tilgangi og ætluð til notkunar sem vopn, herbúnaður eða stríðstól og -tæki,
7.    „Viðkvæmur búnaður“, „viðkvæm verk“ og „viðkvæm þjónusta“: búnaður, verk og þjónusta sem, af öryggisástæðum, felur í sér, þarfnast og/eða nær yfir trúnaðarupplýsingar,
8.    „Trúnaðarupplýsingar“: allar upplýsingar eða efni, án tillits til gerðar, hvers eðlis þær eru, eða flutningsaðferðar þeirra, sem hafa fengið tiltekna öryggisflokkun eða vernd og sem þarfnast verndar gegn óréttmætri nýtingu, eyðingu, fjarlægingu, birtingu, tapi eða óleyfilegum aðgangi einstaklinga, eða annars konar málamiðlunarsamkomulag, vegna þjóðaröryggis og í samræmi við gildandi lög, reglugerðir eða stjórnsýsluákvæði í hlutaðeigandi aðildarríki,
9.    „Stjórnvöld“: ríkið, héraðsstjórn eða staðbundin stjórn aðildarríkis eða þriðja lands,
10.    „Hættuástand“: ástand í aðildarríki eða þriðja landi þar sem tjónsatburður hefur átt sér stað sem er augljóslega meiri að umfangi en tjónsatburðir í daglegu lífi og sem stofnar verulega í hættu eða hamlar lífi og heilsu íbúa, eða hefur veruleg áhrif á verðmæti eigna, eða þarfnast ráðstafana til að veita íbúunum nauðsynjar; það skal einnig teljast vera hættuástand ef þess háttar tjónsatburður telst yfirvofandi; vopnuð átök og stríð telst hættuástand samkvæmt þessari tilskipun,
11.    „Rammasamningur“: samningur eins eða fleiri samn-ingsyfirvalda/stofnana við einn eða fleiri rekstraraðila, sem er gerður í þeim tilgangi að ákveða skilmála samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og, ef við á, fyrirhugað magn,
12.    „Rafrænt uppboð“: endurtekið ferli þar sem nýtt og lægra verð og/eða nýtt verðgildi tiltekinna þátta í tilboðum er sett fram með rafrænum hætti og hefst eftir að full afstaða hefur verið tekin til tilboðanna í upphafi og gerir kleift að raða þeim með sjálfvirkum matsaðferðum.
    Þar af leiðir að ekki er heimilt að bjóða upp, með rafrænum aðferðum, tiltekna þjónustusamninga og verksamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, svo sem hönnun verka,
13.    „Verktaki“, „birgir“ og „þjónustuveitandi“: hver sá einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili eða samtök slíkra aðila og/eða stofnanir sem bjóða framkvæmd verka, vörur og þjónustu á markaðnum, eftir því sem við á,
14.    „Rekstraraðili“: verktaki, birgir eða þjónustuveitandi. Það er einungis notað til einföldunar,
15.    „Þátttakandi“: rekstraraðili sem hefur óskað eftir að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum,

16.    „Bjóðandi“: rekstraraðili sem hefur lagt fram tilboð í lokuðu útboði eða samningskaupum eða samkeppnisviðræðum,
17.    „Samningsyfirvöld/stofnanir“: samningsyfirvöld eins og um getur í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/18/EB og samningsstofnanir eins og um getur í 2. gr. tilskipunar 2004/17/EB,
18.    „Miðlæg innkaupastofnun“: samningsyfirvald/ stofnun eins og um getur í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/18/EB og a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/17/EB eða opinber evrópskur aðili, sem:
    –    aflar vöru og/eða þjónustu fyrir önnur samningsyfirvöld/stofnanir, eða
    –    gerir samninga eða rammasamninga um verk, vöru eða þjónustu fyrir samningsyfirvöld/ stofnanir,
19.    „Lokað útboð“: ferli þar sem allir rekstraraðilar geta tilkynnt þátttöku en aðeins þeir rekstraraðilar, sem samningsyfirvald/stofnun býður þátttöku, geta lagt fram tilboð,
20.    „Samningskaup“: ferli þar sem samningsyfirvald/ stofnun hefur samráð við rekstraraðila sem hann velur og semur um samningsskilmála við einn eða fleiri þeirra,
21.    „Samkeppnisviðræður“: ferli, þar sem allir rekstraraðilar geta tilkynnt um þátttöku, þar sem samningsyfirvald/stofnun á viðræður við þá þátttakendur sem hafa fengið aðgang að ferlinu, með það fyrir augum að finna einn eða fleiri heppilega kosti, sem uppfylla kröfur þess, sem lagðir eru til grundvallar þegar völdum þátttakendum er boðið að leggja fram tilboð.
    Varðandi notkun ferlisins, sem um getur í fyrstu undirgrein, telst samningur vera „sérlega flókinn“ þegar samningsyfirvald/stofnun getur ekki á hlutlægan hátt:
    –    skilgreint tæknilegar leiðir í samræmi við b-, c- eða d-lið 3. mgr. 18. gr. sem geta uppfyllt þarfir þeirra eða markmið, og/eða
    –    ákvarðað lagalegan og/eða fjárhagslegan ramma um verkefnið,
22.    „Undirverktakasamningur“: skriflegur samningur fjárhagslegs eðlis milli hlutskarpasta bjóðanda og eins eða fleiri rekstraraðila í þeim tilgangi að inna þann samning af hendi, og varðar verk, vörubirgðir eða veitingu þjónustu,
23.    „Tengt fyrirtæki“: fyrirtæki sem hlutskarpasti bjóðandi getur haft bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem getur öðlast yfirráð yfir valda bjóðandanum eða sem er, ásamt hinum valda bjóðanda, undir yfirráðum annars fyrirtækis á grundvelli eignarhalds, hlutafjáreignar eða reglna sem gilda um fyrirtækið. Fyrirtæki telst hafa yfirráð yfir öðru fyrirtæki þegar það, beint eða óbeint:
    –    á meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki, eða
    –    ræður yfir meirihluta atkvæða sem fylgja hlutafjáreign í fyrirtækinu, eða
    –    hefur rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins,
24.    „Skriflegt“: hvers konar tjáning með orðum eða tölum sem hægt er að lesa, endurgera og miðla. Þar með má telja upplýsingar sem hægt er að senda og geyma með rafrænum aðferðum,
25.    „Rafrænar aðferðir“: notkun rafræns búnaðar til vinnslu (þ.m.t. með stafrænni samþjöppun) og geymslu gagna sem eru send, flutt og móttekin með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum,
26.    „Lífsferill“: öll möguleg stig vöru, þ.e. rannsóknir og þróun, iðnþróun, framleiðsla, viðgerð, nútímavæðing, breyting, viðhald, flutningur, þjálfun, prófun, innköllun og förgun,
27.    „Rannsóknir og þróun“: öll starfsemi sem felur í sér undirstöðurannsóknir, hagnýtar rannsóknir og þróunar-starf, þar sem það síðarnefnda getur falið í sér útvegun tæknilegra sýningareintaka, þ.e. búnaðar sem sýnir virkni nýs hugtaks eða nýrrar tækni í viðeigandi eða dæmigerðu umhverfi,
28.    „Borgaraleg innkaup“: samningar sem falla ekki undir 2. gr. og sem ná yfir innkaup, sem eru ekki ætluð til hernaðar, á vörum, verkum eða þjónustu vegna flutnings, og gerðir í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í 17. gr.

2. gr.
Gildissvið

Með fyrirvara um 30., 45., 46., 55. og 296. gr. sáttmálans, gildir þessi tilskipun um samninga, sem gerðir eru á sviði varnar- og öryggismála, að því er varðar:
a)    afhendingu hergagna, þ.m.t. allir hlutir, íhlutir og/eða undireiningar þeirra,
b)    afhendingu viðkvæms búnaðar, þ.m.t. allir hlutir, íhlutir og/eða undireiningar þeirra,
c)    verk, birgðir og þjónustu, sem tengjast beint þeim búnaði sem um getur í a- og b-lið fyrir alla þætti lífsferils þess,
d)    verk og þjónustu í sérstökum hernaðarlegum tilgangi eða viðkvæm verk og viðkvæma þjónustu.

3. gr.

Blandaðir samningar

1.     Samningur sem varðar verk, birgðir eða þjónustu, sem fellur innan gildissviðs þessarar tilskipunar og að hluta til innan gildissviðs tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB, skal gerður í samræmi við þessa tilskipun, að því tilskildu að gerð staks samnings sé réttlætanleg af hlutlægum ástæðum.
2.     Gerð samnings sem varðar verk, birgðir eða þjónustu, sem fellur að hluta innan gildissviðs þessarar tilskipunar, á meðan hinn hlutinn fellur hvorki undir þessa tilskipun né tilskipun 2004/17/EB eða tilskipun 2004/18/EB, skal ekki falla undir þessa tilskipun, að því tilskildu að gerð staks samnings sé réttlætanleg af hlutlægum ástæðum.
3.     Ákvörðun um að gera stakan samning skal þó ekki tekin í þeim tilgangi að undanþiggja samning frá beitingu þessarar tilskipunar eða tilskipunar 2004/17/EB eða tilskipunar 2004/18/EB.

4. gr.

Meginreglur um innkaup

Rekstraraðilar skulu fá jafna meðferð, án mismununar og á gagnsæjan hátt hjá samningsyfirvöldum/ stofnunum.

II. BÁLKUR
REGLUR UM SAMNINGA
I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
5. gr.
Rekstraraðilar

1.     Ekki skal hafna þátttakendum eða bjóðendum, sem eiga rétt á að veita viðeigandi þjónustu samkvæmt lögum aðildarríkisins þar sem þeir hafa staðfestu, af þeirri ástæðu einni að þess er krafist í lögum aðildarríkisins, þar sem samningurinn er gerður, að þátttakendur eða bjóðendur einskorðist við annaðhvort einstaklinga eða lögaðila.
Ef um er að ræða þjónustu- og verksamninga svo og vörusamninga, sem taka að auki til þjónustu og/eða ísetningar- eða uppsetningarstarfs, er hægt að krefjast þess að lögaðilar tilgreini, í tilboði eða þátttökubeiðni, nöfn og faglegt hæfi starfsmanna sem eiga að bera ábyrgð á framkvæmd viðkomandi samnings.
2.     Hópar rekstraraðila geta lagt fram tilboð eða leitað eftir þátttöku. Samningsyfirvöld/stofnanir geta ekki krafist þess að þessir hópar taki upp ákveðið rekstrarform að lögum til að geta lagt fram tilboð eða þátttökutilkynningu en þó er hægt að krefjast þess að hópur, sem hefur verið valinn og gerður við hann samningur, taki upp ákveðið rekstrarform að lögum ef það er nauðsynlegt til að unnt sé að framkvæma samninginn á fullnægjandi hátt.

6. gr.

Trúnaðarkvöð samningsyfirvalda/stofnana

Með fyrirvara um ákvæði þessarar tilskipunar, einkum ákvæði um skyldur sem tengjast auglýsingu samninga, sem hafa verið gerðir, og upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda, sem getið er í 3. mgr. 30. gr. og 35. gr., og í samræmi við landslög sem samningsyfirvald/stofnun heyrir undir, einkum löggjöf varðandi aðgang að upplýsingum, skal samningsyfirvaldið/-stofnunin, sem fellur undir samningsbundinn rétt, ekki afhenda upplýsingar sem það hefur fengið frá rekstraraðilum ef þeir hafa merkt þær sem trúnaðarmál; slíkar upplýsingar fela einkum í sér tæknileg og viðskiptaleg leyndarmál og þá þætti tilboða sem eru trúnaðarmál.

7. gr.

Vernd trúnaðarupplýsinga

Samningsyfirvöld/stofnanir geta sett skyldur á rekstraraðila, sem miða að því að vernda trúnaðarupplýsingar sem þau afhenda í útboðs- og samningsferlinu. Þau geta einnig krafist þess að viðkomandi rekstraraðilar sjái til þess að undirverktakar þeirra fari að þess háttar skyldum.

II. KAFLI
VIÐMIÐUNARFJÁRHÆÐIR, MIÐLÆGAR INNKAUPASTOFNANIR OG UNDANTEKNINGARÁKVÆÐI
1. ÞÁTTUR
VIÐMIÐUNARFJÁRHÆÐIR
8. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir fyrir samninga

Þessi tilskipun gildir um samninga sem teljast ekki vera minni að verðmæti, fyrir utan virðisaukaskatt, en eftirfarandi viðmiðunarfjárhæðir:
a)    412 000 evrur þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga,
b)    5 150 000 evrur þegar um er að ræða verksamninga.

9. gr.

Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti samninga og rammasamninga

1.     Útreikningur á áætluðu verðmæti opinbers samnings skal byggjast á heildarfjárhæð, sem samningsyfirvald/stofnun áætlar að beri að greiða, án virðisaukaskatts. Við þennan útreikning skal taka tillit til áætlaðrar heildarfjárhæðar, þ.m.t. til hvers konar valréttar og hugsanlegra ákvæða um endurnýjun samningsins.
Þegar samningsyfirvald/stofnun ákveður verð eða greiðslur til þátttakenda eða bjóðenda skal það taka tillit til þess við útreikning á áætluðu verðmæti samningsins.
2.     Þessi áætlun skal gilda á þeim tíma sem útboðstilkynning er send, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 32. gr., eða, í tilvikum þar sem slíkrar tilkynningar er ekki krafist, á þeim tíma þegar samningsyfirvaldið/stofnunin hefur samningsferlið.
3.     Óheimilt er að skipta upp framkvæmdum eða fyrirhuguðum innkaupum á tilteknu magni vöru og/eða þjónustu til að gera sambærilega hlutasamninga eða skipta upp með öðrum hætti til að komast hjá beitingu þessarar tilskipunar.
4.     Við gerð verksamninga skal, við útreikning á áætluðu verðmæti, taka tillit bæði til kostnaðar við verkið og áætlaðs heildarverðmætis vara sem eru nauðsynlegar til að framkvæma verkið og samningsyfirvöld/stofnanir fá verktakanum til ráðstöfunar.
5.    a)    Þegar hægt er að skipta fyrirhugaðri framkvæmd eða     fyrirhuguðum kaupum á þjónustu í aðgreinda hluta     samninga sem eru gerðir samtímis skal taka tillit til     áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga.
            Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 8. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um samningsgerð hvers hluta.
            Samningsaðilar/stofnanir geta þó gert undantekningu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutanna er minna en 80 000 evrur án virðisaukaskatts fyrir þjónustu eða 1 000 000 evrur fyrir framkvæmdir, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna,
    b)    Þegar hægt er að skipta tilboði um kaup á líkum vörum í aðgreinda hlutasamninga sem eru gerðir samtímis skal taka tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga við beitingu a- og b-liðar 8. gr.
            Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 8. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um samningsgerð hvers hluta.
            Samningsyfirvöld/stofnanir geta þó gert undantekningu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutasamninganna er minna en 80 000 evrur án virðisaukaskatts, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna.
6.     Varðandi vörusamninga í tengslum við fjármögnunarleigu, langtíma- eða skammtímaleigu, eða kaupleigu á vörum skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)    áætlað heildarverðmæti tímabundinna samninga, sem gilda í 12 mánuði eða skemur, eða, ef samningur gildir lengur en í 12 mánuði, heildarverðmætið auk áætlaðs verðmætis eftirstöðva,
b)    verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48, þegar um er að ræða ótímabundna samninga eða samninga sem ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega.
7.     Sé um að ræða vöru- eða þjónustusamninga sem eru gerðir með reglulegu millibili eða sem á að endurnýja innan tiltekins tíma skal leggja eftirfarandi til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)    annaðhvort samanlagt raunvirði sams konar samninga, sem hafa verið gerðir hver á eftir öðrum á síðustu 12 mánuðum eða á síðasta fjárhagsári, leiðrétt, ef unnt er, með tilliti til magn- eða verðbreytinga sem gætu orðið á 12 mánuðum eftir að fyrsti samningurinn er gerður, eða
b)    áætlað heildarverðmæti síðari samninga sem eru gerðir á 12 mánuðum eftir fyrstu afhendingu eða á samningstímanum ef hann er lengri en 12 mánuðir.
Ekki má velja aðferð við útreikning áætlaðs verðmætis samnings í þeim tilgangi að samningurinn verði undanþeginn gildissviði þessarar tilskipunar.
8.     Varðandi þjónustusamninga skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)     fyrir þjónustu á eftirfarandi sviðum:
    i.        vátryggingaþjónusta: greidd iðgjöld og aðrar greiðslur,
    ii.    hönnunarsamningar: þóknun, umboðslaun og aðrar greiðslur,
b)    fyrir þjónustusamninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind:
    i.        ef um er að ræða tímabundinn samning sem er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma: heildarverðmæti samningsins allan gildistímann,
     ii.     verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48, þegar um er að ræða ótímabundna samninga eða samninga sem gilda lengur en í 48 mánuði.
9.     Varðandi rammasamninga skal verðmætið, sem miðað er við, vera áætlað hámarksverðmæti allra fyrirhugaðra samninga, án virðisaukaskatts, sem áætlað er að gera á gildistíma samningsins.

2. ÞÁTTUR
MIÐLÆGAR INNKAUPASTOFNANIR
10. gr.

Samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum

1.     Aðildarríkin geta mælt fyrir um að samningsyfirvöldum/stofnunum sé heimilt að kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir, sem kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar, í tilvikum sem um getur í 18. mgr. 1. gr., teljast hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar svo fremi að:
–    miðlæga innkaupastofnunin hafi farið að ákvæðum hennar, eða
–    ef miðlæg innkaupastofnun er ekki samningsyfirvald/-stofnun, sú samningsgerð sem er beitt sé í samræmi við öll ákvæði þessarar tilskipunar og gerðir samningar geti fallið undir skilvirk úrræði sambærileg þeim sem kveðið er á um í IV. bálki.

3. ÞÁTTUR
SAMNINGAR SEM FALLA EKKI UNDIR TILSKIPUNINA
11. gr.
Beiting undanþága

Ekki má beita reglum, málsmeðferð, áætlunum, samkomulagi, fyrirkomulagi eða samningum sem um getur í þessum lið í þeim tilgangi að sniðganga ákvæði þessarar tilskipunar.

12. gr.

Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum

Þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem gilda um:
a)    sérstakar reglur um málsmeðferð samkvæmt alþjóðasamningi eða samkomulag milli eins eða fleiri aðildarríkja og eins eða fleiri þriðju landa,
b)    sérstakar reglur um málsmeðferð á grundvelli milliríkjasamnings eða samkomulags í tengslum við setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki í aðildarríki eða þriðja landi,
c)    sérstakar reglur alþjóðastofnunar, sem kaupir inn í eigin þágu, um málsmeðferð, eða um samninga sem skulu gerðir af aðildarríki í samræmi við þær reglur.

13. gr.

Sérstakar undantekningar

Tilskipun þessi gildir ekki um eftirtalið:
a)    samninga, þar sem beiting reglnanna í þessari tilskipun myndi skylda aðildarríki til að veita upplýsingar ef það telur að birting þeirra brjóti í bága við meginöryggishagsmuni sína,
b)    samninga sem varða öflun trúnaðargagna,
c)    samninga sem gerðir eru innan ramma samvinnuáætlunar á grundvelli rannsókna og þróunar, gerðir af í það minnsta tveimur aðildarríkjum, í þeim tilgangi að þróa nýja vöru og, eftir atvikum, síðari stig á hluta af eða öllum lífsferli viðkomandi vöru. Við gerð þess háttar samvinnuáætlunar einungis á milli aðildarríkja, skulu aðildarríki upplýsa framkvæmdastjórnina um hlut rannsóknar- og þróunarkostnaðar af heildarkostnaði áætlunarinnar, samkomulag um kostnaðarskiptingu auk fyrirhugaðs hluta hvers aðildarríkis í kaupum, ef einhver er,
d)    samninga sem gerðir eru í þriðja landi, þ.m.t. vegna borgaralegra innkaupa, sem eru framkvæmdir þegar herafli er staðsettur utan yfirráðasvæðis Evrópusambandsins, þar sem rekstrarþarfir valda því að samningar eru gerðir við rekstraraðila sem staðsettir eru á rekstrarsvæðinu,
e)    þjónustusamninga vegna kaupa eða leigu, á hvaða fjárhagsgrundvelli sem er, á landi, byggingum sem til eru fyrir eða öðrum fasteignum eða réttindum til þeirra,
f)    samninga sem gerðir eru af ríkisstjórn við aðra ríkisstjórn að því er varðar:
    i.        afhendingu hergagna eða viðkvæms búnaðar,
    ii.    verk eða þjónustu sem tengist beint þess háttar búnaði, eða
    iii.    verk og þjónustu í sérstökum hernaðarlegum tilgangi eða viðkvæm verk og viðkvæma þjónustu,
g)    gerðardóms- og sáttagerðarþjónustu,
h    fjármálaþjónustu, að undanskilinni tryggingaþjónustu,
i)    ráðningarsamninga,
j)    aðra rannsóknar- og þróunarþjónustu en þá sem er eingöngu til hagsbóta fyrir samningsyfirvöld/ stofnanir í þeirra eigin starfsemi, að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu/-stofnuninni.

4. ÞÁTTUR
SÉRSTAKT FYRIRKOMULAG
14. gr.
Samningar bundnir við ákveðna hópa

Aðildarríki geta bundið réttinn til að taka þátt í útboðsferli við verndaða vinnustaði eða kveðið á um að slíkir samningar séu framkvæmdir innan ramma áætlana um verndaða vinnu ef flestir starfsmennirnir eru fatlaðir einstaklingar sem geta ekki, vegna þess hvers eðlis eða hve alvarleg fötlunin er, unnið störf við venjulegar aðstæður.
Vísa skal í þetta ákvæði í útboðstilkynningunni.

III. KAFLI
REGLUR UM ÞJÓNUSTUSAMNINGA
15. gr.

Þjónustusamningar sem eru skráðir í I. viðauka

Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem tilgreind er í 2. gr. og eru skráðar í I. viðauka skulu gerðir í samræmi við 18. til 54. gr.

16. gr.
Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka

Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem fellur undir 2. gr. og tilgreind er í II. viðauka, skulu einungis heyra undir 18. gr. og 3. mgr. 30. gr.

17. gr.

Blandaðir samningar þ.m.t. þjónusta sem er skráð í I. og II. viðauka

Samningar, sem varða bæði þjónustu sem fellur undir 2. gr. og er tilgreind í I. og II. viðauka, skulu gerðir í samræmi við 18.–54. gr. þegar verðmæti þjónustunnar, sem tilgreind er í I. viðauka, er meira en verðmæti þjónustunnar sem tilgreind er í II. viðauka. Í öðrum tilvikum skulu samningar gerðir skv. 18. gr. og 3. mgr. 30. gr.

IV. KAFLI
SÉRTÆKAR REGLUR SEM GILDA UM ÚTBOÐSSKJÖL
18. gr.
Tækniforskriftir

1.     Tækniforskriftirnar, sem eru skilgreindar í 1. lið III. viðauka, skulu koma fram í útboðsskjölum (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum).
2.     Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jafna aðgangsmöguleika og skulu ekki fela í sér tilefnislausar hindranir í vegi fyrir því að opinber útboð séu opnuð fyrir samkeppni.
3.     Með fyrirvara um lögboðnar innlendar tæknireglur (þ.m.t. reglur í tengslum við vöruöryggi) eða tæknilegar kröfur sem aðildarríki skulu uppfylla samkvæmt alþjóðlegum staðlasamningum til þess að tryggja rekstrarsamhæfi sem krafist er samkvæmt þessum samningum, og að því tilskildu að þær séu í samræmi við lög Bandalagsins, skulu tækniforskriftir samdar:
a)    annaðhvort með tilvísun til tækniforskrifta sem skilgreindar eru í III. viðauka og, í eftirfarandi röð, til:
    –    innlendra borgaralegra staðla sem varða lögleiðingu Evrópustaðla,
    –     evrópsks tæknisamþykkis,
    –     almennra borgaralegra tækniforskrifta,
    –     innlendra borgaralegra staðla sem varða lögleiðingu alþjóðlegra staðla,
    –     annarra alþjóðlegra borgaralegra staðla,
    –     annarra tæknilegra tilvísunarkerfa sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, eða, ef þær eru ekki til, annarra innlendra staðla, innlends tæknisamþykkis eða innlendra tækniforskrifta í tengslum við hönnun, útreikning og framkvæmd verka og notkun vörunnar,
    –     borgaralegra tækniforskrifta sem koma frá iðnaði og eru almennt viðurkenndar í iðnaði, eða
    –     innlendra „varnarmálastaðla“ sem skilgreindir eru í 3. lið III. viðauka og forskrifta varnarbúnaðar sem eru sambærilegar þeim stöðlum,
    Orðalagið „eða jafngilt“ skal fylgja hverri tilvísun,
b)    eða í formi krafna um útkomu eða virkni; hið síðarnefnda getur náð til umhverfiseiginleika.
    Slíkar breytur verða þó að vera nægilega nákvæmar til að bjóðendur geti ákvarðað efni samningsins og samningsyfirvöld/stofnanir geti gert samning,
c)    eða í formi krafna um útkomu eða virkni, eins og getið er um í b-lið, og vísað til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, til að sýna að reiknað sé með að slíkar kröfur um útkomu eða virkni hafi verið uppfylltar,
d)    eða með því að vísa til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, fyrir tiltekna eiginleika og til krafna um útkomu eða virkni, sem getið er um í b-lið, fyrir aðra eiginleika.
4.     Ef samningsyfirvald/stofnun nýtir þann kost að vísa til forskriftanna, sem um getur í a-lið 3. mgr., getur það ekki vísað frá tilboði af þeirri ástæðu að varan og þjónustan, sem er boðin, sé í ósamræmi við forskriftirnar, sem vísað hefur verið til, ef bjóðandinn færir sönnur á það í tilboði sínu, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar, að lausnir þær sem hann leggur til uppfylli nægilega vel kröfurnar sem eru ákvarðaðar í tækniforskriftunum.
Sönnun með viðeigandi hætti getur falist í tækniskjölum frá framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
5.     Ef samningsyfirvaldið/stofnunin nýtir þann kost, sem kveðið er á um í 3. mgr., að tilgreina kröfur um útkomu eða virkni getur það ekki vísað frá tilboði um verk, vörur eða þjónustu sem er í samræmi við landsstaðal til lögleiðingar Evrópustaðli, evrópskt tæknisamþykki, sameiginlega tækniforskrift, alþjóðlegan staðal eða tæknilegt tilvísunarkerfi sem evrópsk staðlastofnun hefur komið á fót ef þessar forskriftir varða kröfurnar um útkomu eða virkni sem yfirvaldið hefur mælt fyrir um.
Í tilboði sínu verður bjóðandi að sanna, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar, að verkið, varan eða þjónustan, sem er í samræmi við staðalinn, uppfylli kröfur samningsyfirvaldsins um útkomu eða virkni.
Sönnun með viðeigandi hætti getur falist í tækniskjölum frá framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
6.     Ef samningsyfirvöld/stofnanir mæla fyrir um umhverfiseiginleika í formi krafna um útkomu eða virkni, eins og um getur í b-lið 3. mgr., geta þeir notað nákvæmar forskriftir eða, ef nauðsyn krefur, hluta þeirra eins og skilgreint er fyrir evrópsk eða (fjöl-)þjóðleg umhverfismerki eða einhver önnur umhverfismerki, að því tilskildu:
    að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem samningurinn fjallar um,
    að kröfur, varðandi merkið, byggist á vísindalegum upplýsingum,
    að umhverfismerkin séu samþykkt á grundvelli málsmeðferðar sem allir hagsmunaaðilar, s.s. ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifingaraðilar og umhverfisstofnanir, geta tekið þátt í, og
    að umhverfismerkin séu aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum,
Samningsyfirvöld/stofnanir geta mælt fyrir um að vörur og þjónusta, sem hafa fengið umhverfismerki, teljist uppfylla tækniforskriftirnar sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum; þeir skulu samþykkja hvers konar önnur viðeigandi sönnunargögn, s.s. tæknileg skjöl frá framleiðanda eða prófunarskýrslur frá viðurkenndri stofnun.
7.     „Viðurkenndar stofnanir“ í skilningi þessarar greinar eru prófunar- og kvörðunarstofur og vottunar- og skoðunaraðilar sem fullnægja gildandi Evrópustöðlum.
Samningsyfirvöld/stofnanir skulu samþykkja vottorð frá viðurkenndum stofnunum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.
8.     Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar tegundar eða upphafs eða tiltekins vinnsluferlis né til vörumerkja, einkaleyfa, gerða eða sérstaks uppruna eða framleiðslu með það fyrir augum að halda fram eða útiloka tiltekin fyrirtæki eða tilteknar vörur, sé ekki rökstuðningur fyrir því í efni samningsins. Í undantekningartilvikum er þess háttar tilvísun leyfð ef nægilega nákvæm og skiljanleg lýsing á efni samningsins skv. 3. og 4. gr. er ekki möguleg; orðin „eða jafngilt“ skulu fylgja slíkri tilvísun.

19. gr.
Frávikstilboð

1.     Ef forsenda fyrir samningsgerð er fjárhagslega hagstæðasta tilboðið geta samningsyfirvöld/stofnanir heimilað bjóðendum að leggja fram frávikstilboð.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu í útboðstilkynningunni upplýsa um það hvort þau heimili frávikstilboð eður ei. Frávikstilboð skulu ekki heimiluð án þessara upplýsinga.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir, sem heimila frávikstilboð, skulu, í útboðslýsingum, gera grein fyrir lágmarkskröfum sem þarf að uppfylla í frávikstilboðum og öllum sérkröfum varðandi framlagningu frávikstilboða.
Samningsyfirvöld/stofnanir skulu einungis taka til greina frávikstilboð sem uppfylla tilskildar lágmarkskröfur.
4.     Í útboðum vegna opinberra vöru- eða þjónustusamninga geta samningsyfirvöld/stofnanir, sem hafa heimilað frávikstilboð, ekki vísað frávikstilboði frá af þeirri ástæðu einni að ef það tilboð yrði fyrir valinu yrði annaðhvort gerður þjónustu-samningur fremur en vörusamningur eða vörusamningur fremur en þjónustusamningur.

20. gr.

Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings

Samningsyfirvöld/stofnanir geta mælt fyrir um sérstök skilyrði varðandi framkvæmd samnings, að því tilskildu að þau samrýmist Bandalagslögum og séu tilgreind í útboðsgögnunum (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum). Þessi skilyrði geta einkum átt við um undirverktöku eða miðað að því að tryggja öryggi trúnaðarupplýsinga og afhendingaröryggi sem krafist er af samningsyfirvaldi/stofnun, í samræmi við 21., 22. og 23 gr. eða tekið er mið af umhverfis- eða félagslegum sjónarmiðum.

21. gr.

Undirverktakastarfsemi

1.     Hlutskarpasta bjóðandanum skal frjálst að velja þá undirverktaka sem hann gerir undirverktakasamning við, sem ekki fellur undir þau skilyrði sem um getur í 3. og 4. mgr. og einkum skal ekki skylda hann til að mismuna hugsanlegum undirverktökum á grundvelli þjóðernis.
2.     Samningsyfirvald/stofnun getur óskað eftir eða þess verið krafist af aðildarríki að það óski eftir því að bjóðandi:
    tilgreini í tilboði sínu þá hlutdeild samningsins sem fyrirhugað er að fela þriðja aðila í undirverktöku og fyrirhugaðan undirverktaka, auk inntaks samninga við undirverktaka, og/eða
    tilgreini um allar breytingar á vettvangi undirverktaka á framkvæmdatíma samnings.
3.     Samningsyfirvald/stofnun getur skyldað eða þess verið krafist af aðildarríki að skylda hlutskarpasta bjóðandann til að beita ákvæðum sem sett eru fram í III. bálki gagnvart öllum eða tilteknum undirverktakasamningum sem hlutskarpasti bjóðandinn fyrirhugar að gera við þriðju aðila.
4.     Aðildarríki geta kveðið á um að samningsyfirvald/stofnun geti mælst til eða þess verið krafist að það óski eftir því að hlutskarpasti bjóðandinn veiti undirverktaka hluta samnings. Samningsyfirvald/ stofnun sem gerir þess háttar undirverktakasamninga, skal gefa þetta lágmarkshlutfall upp sem verðmætabil, sem nær yfir lágmarks- og hámarkshlutfall. Hámarkshlutfall má ekki vera hærra en 30% af verðmæti samnings. Þess háttar bil skal vera í réttu hlutfalli við markmið og verðmæti samnings og það hvers eðlis viðkomandi atvinnugrein er, þ.m.t. samkeppnisstig á þeim markaði og viðeigandi tæknilega getu iðnaðar.
Það hlutfall undirverktakastarfsemi sem fellur innan verðmætabils sem samningsyfirvald/stofnun gefur upp, telst uppfylla skilyrði sem sett eru fram um undirverktöku í þessari málsgrein.
Bjóðendur geta lagt til að fela undirverktaka hluta af því verðmæti samnings sem er umfram það bil sem samningsyfirvald/stofnun krefst.
Samningsyfirvald/stofnun skal biðja bjóðendur að tilgreina í tilboði sínu hvaða hlut eða hluta tilboðs síns fyrirhugað er að fela undirverktaka til að uppfylla skilyrðin sem um getur í fyrstu undirgrein.
Samningsyfirvald/stofnun getur óskað eftir, eða aðildarríki krafist þess að það óski eftir, að bjóðandi tilgreini einnig hvaða hlut eða hluta tilboðs þeirra, umfram lágmarkshlutfall sem krafist er, þeir fyrirhuga að fela undirverktaka, auk þeirra undirverktaka sem þeir hafa þegar tilgreint.
Hlutskarpasti bjóðandinn skal gera undirverktakasamninga í samræmi við það hlutfall sem samningsyfirvald/stofnun setur skilyrði um að sé falið undirverktökum í samræmi við ákvæði III. bálks.
5.     Í þeim tilvikum sem aðildarríki kveður á um að samningsyfirvöld/stofnanir geti hafnað þeim undirverktökum, sem valdir eru af bjóðanda, í útboðsferlinu við gerð meginsamningsins eða af hlutskarpasta bjóðandanum við framkvæmd samnings, má þess háttar höfnun aðeins vera á grundvelli viðmiðana sem beitt er við val á bjóðendum í meginsamninginn. Ef samningsyfirvald/stofnun hafnar undirverktaka, skal það leggja fram skrifleg rök til bjóðandans eða hlutskarpasta bjóðandans, þar sem lagðar eru fram ástæður þess að það telur að undirverktakinn uppfylli ekki skilyrðin.
6.     Skilyrðin sem um getur í 2.– 5. mgr. skulu tilgreind í útboðstilkynningum.
7.     Ákvæði 1.– 5. mgr. skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð rekstraraðilans sem er aðalverktaki.

22. gr.

Öryggi upplýsinga

Ef samningar taka til, krefjast og/eða fela í sér trúnaðarupplýsingar, skal samningsyfirvald/stofnun tilgreina, í útboðsgögnunum (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum), nauðsynlegar ráðstafanir og skilyrði til að tryggja öryggi þess háttar upplýsinga á tilskildu stigi.
Í þessu skyni getur samningsyfirvald/stofnun krafist þess að tilboð feli m.a. í sér eftirfarandi atriði:
a)    skuldbindingu bjóðenda og undirverktaka, sem þegar eru tilgreindir, um að tryggja með viðeigandi hætti trúnaðarkvöð allra trúnaðarupplýsinga sem þeir búa yfir eða koma til með að búa yfir á samningstímanum og eftir riftun eða gerð samningsins, í samræmi við viðeigandi lög og stjórnsýslufyrirmæli,
b)    skuldbindingu bjóðanda um að fá skuldbindinguna, sem kveðið er á um í a-lið, frá öðrum undirverktökum sem hann mun semja við á samningstímanum,
c)    fullnægjandi upplýsingar um undirverktaka sem þegar eru tilgreindir, í því skyni að samningsyfirvald/stofnun geti ákvarðað að hver þeirra búi yfir þeirri getu sem krafist er til að vernda með viðeigandi hætti trúnaðarupplýsingar sem þeir hafa aðgang að eða sem þeim er skylt að framleiða við framkvæmd undirverktakastarfsemi sinnar,
d)    skuldbindingu bjóðanda um að veita þær upplýsingar, sem krafist er samkvæmt c-lið, um alla nýja undirverktaka áður en undirverktakasamningur er gerður.
Ef ekki er fyrir hendi samræming þjóðaröryggisvottunarkerfa á vettvangi Bandalagsins, geta aðildarríki kveðið á um að ráðstafanir og skilyrði sem kveðið er á um í annarri undirgrein skulu vera í samræmi við innlend ákvæði um öryggisvottun. Aðildarríki skulu viðurkenna öryggisvottanir sem þau telja jafngildar þeim sem gefnar eru út í samræmi við landslög þeirra, þrátt fyrir að mögulegt sé að framkvæma og taka tillit til frekari athugana þeirra, ef það er talið nauðsyn.

23. gr.

Afhendingaröryggi

Samningsyfirvald/stofnun skal tilgreina skilyrði sín um afhendingaröryggi í útboðsgögnunum (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum).
Í þessu skyni getur samningsyfirvald/stofnun krafist þess að tilboð feli m.a. í sér eftirfarandi atriði:
a)    vottun eða skjalfestingu sem sýnir samningsyfirvaldi/-stofnun með fullnægjandi hætti fram á að bjóðandi geti uppfyllt skyldur sínar varðandi útflutning, flutning og umflutning vara sem tengjast samningnum, þ.m.t. öll fylgiskjöl frá hlutaðeigandi aðildarríki(ríkjum),
b)    upplýsingar um allar takmarkanir sem samningsyfirvald/stofnun gerir varðandi birtingu upplýsinga, flutning eða notkun vara og þjónustu eða allar afleiðingar af notkun viðkomandi vara og þjónustu, sem myndi leiða af útflutningseftirliti eða öryggisfyrirkomulagi,
c)    vottun eða skjalfestingu sem sýnir að stofnun eða fyrirtæki og staðsetning aðfangakeðju bjóðanda geri honum kleift að uppfylla kröfur samningsyfirvalds/stofnunar varðandi afhendingaröryggi, sem sett eru fram í útboðsgögnunum, og skuldbindingu um að tryggja að mögulegar breytingar á aðfangakeðju á samningstímanum komi ekki í veg fyrir að hann geti uppfyllt þessi skilyrði,
d)    skuldbindingu bjóðanda um að koma á og/eða viðhalda getu sem krafist er til að uppfylla viðbótarþarfir sem krafist er af samningsyfirvaldi/ stofnun vegna neyðarástands, í samræmi við samþykkta skilmála og skuldbindingar,
e)    öll fylgiskjöl sem fengin eru frá innlendum yfirvöldum bjóðanda að því er varðar uppfyllingu viðbótarþarfa sem krafist er af samningsyfirvaldi/ stofnun vegna neyðarástands,
f)    skuldbindingu bjóðanda að annast viðhald, nútímavæðingu eða aðlögun birgða sem falla undir samninginn,
g)    skuldbindingu bjóðanda að upplýsa samningsyfirvald/-stofnun tímanlega um allar breytingar á skipulagi, aðfangakeðju eða áætlanagerð sem getur haft áhrif á skuldbindingu hans gagnvart viðkomandi yfirvaldi/stofnun,
h)    skuldbindingu bjóðanda um að veita samningsyfirvaldi/stofnun, í samræmi við skilmála og skilyrði sem samningsaðilarnir skulu samþykkja, allar tiltækar aðferðir sem nauðsynlegar eru við framleiðslu aukahluta, íhluta, samsetninga og sérhæfðs prófunarbúnaðar, þ.m.t. tækniteikningar, leyfi og notkunarleiðbeiningar, ef ekki er lengur hægt að útvega þessar birgðir.
Ekki má krefjast þess að bjóðandi fái skuldbindingu frá aðildarríki, sem myndi hafa áhrif á frelsi viðkomandi aðildarríkis til að beita, í samræmi við viðeigandi alþjóðleg lög eða lög Bandalagsins, eigin innlendum útflutnings-, flutnings- eða umflutningsviðmiðunum um leyfi við þær aðstæður sem eru ríkjandi á þeim tíma sem þess háttar ákvörðun um leyfi er tekin.

24. gr.

Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði

1.     Samningsyfirvald/stofnun getur tilgreint í útboðsgögnum, eða verið skyldað til þess af aðildarríki, að tilgreina þá eða þær stofnanir sem þátttakandi eða bjóðandi getur fengið viðeigandi upplýsingar hjá um skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði sem gilda í aðildarríkinu, á svæðinu, á staðnum eða þriðja landi þar sem framkvæma á verkið eða veita þjónustuna og sem skulu gilda um verk sem eru framkvæmd á byggingarstað eða um þjónustu sem er veitt meðan á framkvæmd samningsins stendur.
2.     Samningsyfirvald/stofnun, sem veitir upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., skal óska eftir því við bjóðendur að þeir staðfesti að þeir hafi, í tilboði sínu, tekið tillit til skyldna varðandi gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem verkið verður framkvæmt eða þjónustan veitt.
Fyrsta undirgreinin er með fyrirvara um beitingu ákvæða 49. gr. um rannsókn á óeðlilega lágum tilboðum.

V. KAFLI
ÚTBOÐSAÐFERÐIR
25. gr.
Útboðsaðferðir sem skal beita

Þegar gera á samninga skulu samningsyfirvöld/ stofnanir beita innlendri útboðsaðferð sem er löguð að efni þessarar tilskipunar.
Samningsyfirvöld/stofnanir geta kosið að gera samninga með beitingu lokaðs útboðs eða samningskaupa með birtingu útboðstilkynningar.
Við aðstæður sem um getur í 27. gr., geta þau gert samninga á grundvelli samkeppnisviðræðna.
Í þeim sérstöku tilvikum og við þær aðstæður sem sérstaklega er getið um í 28. gr. geta samningsyfirvöld/stofnanir gengið til samningskaupa með eða án útboðstilkynningar.

26. gr.

Samningskaup með birtingu útboðstilkynningar

1.     Við samningskaup með birtingu útboðstilkynningar skulu samningsyfirvöld/stofnanir ræða við bjóðendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram, með það fyrir augum að laga þau að kröfunum sem samningsyfirvöld/stofnanir hafa sett fram í útboðstilkynningu, útboðsgögnum og fylgigögnum, ef einhver eru, og leita besta tilboðsins í samræmi við 47. mgr.
2.     Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld/stofnanir tryggja að jafnræðis sé gætt meðal allra bjóðenda. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim tilboðum, sem fjalla þarf um í samningsviðræðum, með því að beita valforsendunum sem settar eru fram í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum. Í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum skal koma fram hvort þessi valkostur hefur verið nýttur eður ei.

27. gr.

Samkeppnisviðræður

1.     Ef um er að ræða sérlega flókna samninga geta aðildarríkin kveðið á um að samningsyfirvöldum/ stofnunum sé heimilt, ef þau telja að ekki sé hægt að gera samning á grundvelli samningskaupa með birtingu útboðstilkynningar, að gera hann á grundvelli samkeppnisviðræðna í samræmi við þessa grein.
Samningur skal eingöngu gerður á grundvelli valforsendu um fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu birta útboðstilkynningu þar sem fram koma þarfir þeirra og kröfur sem þau skulu skilgreina í tilkynningunni og/eða í skýringargögnum.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu hefja viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið í samræmi við viðeigandi ákvæði 38. til 46. gr., með það að markmiði að finna og skilgreina heppilegustu aðferðirnar við að uppfylla þarfir sínar. Í þessum viðræðum geta þau rætt öll atriði samningsins við hina völdu þátttakendur.
Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld/stofnanir tryggja að allir bjóðendur fái jafna meðferð. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
Samningsyfirvöldum/stofnunum er óheimilt að upplýsa aðra þátttakendur um fyrirhugaðar lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem þátttakandi í viðræðunum hefur veitt, án samþykkis hans.
4.     Samningsyfirvöld/stofnanir geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim lausnum sem fjalla þarf um í samningsviðræðum; það má gera á grundvelli valforsendna sem settar eru fram í útboðstilkynningu eða skýringargögnum. Tekið skal fram í útboðstilkynningunni eða skýringargögnum að unnt sé að nýta þennan kost.
5.     Samningsyfirvaldið/stofnunin skal halda áfram slíkum viðræðum þar til fundist hefur lausn eða lausnir sem geta líklega uppfyllt þarfir þeirra, og lausnirnar hafa verið bornar saman ef það er nauðsynlegt.
6.     Þegar samningsyfirvöld/stofnanir hafa lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt þátttakendum um það skulu þau gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð á grundvelli þeirrar lausnar eða lausna sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll atriði sem krafist er og eru nauðsynleg fyrir framkvæmd verkefnisins.
Þessi tilboð má skýra, skilgreina og lagfæra ef samningsyfirvaldið/stofnunin fer þess á leit. Slíkar skýringar, skilgreiningar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðsins eða boðsins um að leggja fram tilboð þar eð slík frávik eru líkleg til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun.
7.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu meta tilboð, sem þeim berast á grundvelli valforsendna, sem mælt er fyrir um í útboðstilkynningu eða skýringargögnum og skulu velja fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið í samræmi við 47. gr.
Samningsyfirvaldi/stofnun er heimilt að óska eftir því að bjóðandi, sem hefur lagt fram fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, skýri ákveðin atriði í tilboðinu eða staðfesti skuldbindingar sem felast í tilboðinu, að því tilskildu að það hafi ekki þau áhrif að breyta veigamiklum atriðum í tilboðinu eða boðinu um að leggja fram tilboð og ekki sé hætta á að það raski samkeppni eða ýti undir mismunun.
8.     Samningsyfirvöldum/stofnunum er heimilt að ákveða verð eða greiðslur til þátttakenda í viðræðunum.

28. gr.

Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar

Í eftirfarandi tilvikum geta samningsyfirvöld/stofnanir gert samninga með samningskaupum án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar og skal rökstyðja beitingu þeirrar málsmeðferðar í auglýsingu um samningsgerð eins og kveðið er á um í 3. mgr. 30. gr.:
1)    að því er varðar verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga:
    a)    ef engin tilboð eða engin gild tilboð eða engar umsóknir hafa borist vegna lokaðs útboðs, samningskaupa með fyrirframbirtingu útboðstilkynningar eða samkeppnisviðræðna, að því tilskildu að ekki hafi verið vikið frá upphaflegum samningsskilmálum í veigamiklum atriðum og að framkvæmdastjórninni sé send skýrsla, ef hún óskar eftir því,
    b)    ef um er að ræða ófullnægjandi eða gallað tilboð eða framlagningu tilboða sem eru óviðunandi samkvæmt innlendum ákvæðum sem samrýmast 5., 19., 21.–24. gr. og VII. kafla II. bálks, í tilviki lokaðs útboðs, samningskaupa með birtingu eða samkeppnisviðræðna, að því leyti sem:
        i.        upphaflegum skilmálum samnings er ekki breytt verulega og
        ii.    teknir eru með í samningskaupum allir þeir bjóðendur, og engir aðrir, sem uppfylla forsendur 39.–46. gr. og sem lögðu fram tilboð í samræmi við formlegar kröfur um tilboðsferli í undanfarandi almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum,
    c)    ef ekki er hægt að standa við fresti sem kveðið er á um í lokuðu útboði og samningskaupum með birtingu útboðstilkynningar, þ.m.t. stytta fresti sem um getur í 7. mgr. 33. gr., vegna neyðarástands. Þetta getur t.d. gilt í tilvikum sem um getur í d-lið annarrar málsgreinar 23. gr.,
    d)    ef það er algerlega nauðsynlegt og ekki er hægt, af knýjandi ástæðum sem viðkomandi samningsyfirvöld/stofnanir gátu ekki séð fyrir, að standa við fresti sem gilda við lokuð útboð eða samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, þ.m.t. styttan frest eins og um getur í 7. mgr. 33. gr. Aðstæðurnar, sem skírskotað er til sem knýjandi, mega ekki undir neinum kringumstæðum skrifast á reikning samningsyfirvalds/stofnunar,
    e)    þegar aðeins er unnt að gera samning við einn tiltekinn rekstraraðila af tæknilegum ástæðum eða þegar vernda þarf einkarétt,
2)    að því er varðar þjónustusamninga og vörusamninga:
    a)    að því er varðar aðra þjónustu, tengda rannsóknum og þróun, en þá sem um getur í 13. gr.,
    b)    varðandi vörur sem framleiddar eru einungis til notkunar við rannsóknir og þróun, að undanskilinni magnframleiðslu til að ná fram ágóða eða standa straum af rannsóknar- og þróunarkostnaði,
3)     að því er varðar vörusamninga:
    a)    varðandi viðbótarvörur frá upphaflegum birgi sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru viðbót við venjulegar birgðir eða búnað og val á nýjum birgi myndi skuldbinda samningsyfirvald/stofnun til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald.
            Þess háttar samningar, auk endurnýjaðra samninga, mega ekki gilda lengur en fimm ár, nema í undantekningartilvikum sem ákvörðuð eru með tilliti til áætlaðrar endingar afhentra vara, búnaðar eða kerfa, og tæknilega erfiðleika sem gætu orðið ef skipt er um birgi,
    b)    þegar um er að ræða vörur sem eru skráðar og keyptar á vörumarkaði,
    c)    þegar um er að ræða kaup á vörum á sérlega góðum kjörum, annaðhvort hjá birgi sem er að hætta starfsemi sinni eða bústjóra eða skiptastjóra við þrotabúsmeðferð, nauðasamninga eða svipaða málsmeðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,
4)    að því er varðar verksamninga og þjónustusamninga:
    a)    þegar um er að ræða viðbótarverk eða -þjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í verkefninu sem var upphaflega áætlað eða í upphaflegum samningi en sem hafa, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, orðið nauðsynleg fyrir framkvæmd verksins eða þjónustunnar sem þar er lýst, að því tilskildu að samningurinn sé gerður við rekstraraðilann sem annast framkvæmd þessa verks eða þjónustu:
            i.        þegar ekki er unnt að aðskilja slík viðbótarverk eða -þjónustu frá upphaflega samningnum af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án þess að valda samningsyfirvöldum/stofnunum miklum óþægindum, eða
            ii.    þegar slík viðbótarverk eða þjónusta eru alveg nauðsynleg fyrir framkvæmd upphaflega samningsins þótt unnt sé að aðskilja verkið eða þjónustuna frá honum.
                    Samanlagt verðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarverka eða viðbótarþjónustu, má þó ekki fara yfir 50% af verðmæti upphaflega samningsins,
    b)    þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á svipuðu verki eða þjónustu og sama samningsyfirvald/ stofnun samdi upphaflega um við sama fyrirtæki, að því tilskildu að slíkt verk eða þjónusta sé í samræmi við grunnverkefnið sem upphaflegi samningurinn var gerður um á grundvelli lokaðs útboðs, samningskaupa að undangenginni birtingu útboðstilkynningar eða samkeppnisviðræðna.
            Þegar fyrra verkefnið er boðið út skal taka fram að þessari aðferð kunni að verða beitt og samningsyfirvöld/stofnanir skulu taka tillit til áætlaðs heildarkostnaðar síðari verka eða þjónustu þegar þau beita ákvæðum 8. gr.
            Þessari málsmeðferð má aðeins beita á næstkomandi fimm árum eftir að upphaflegur samningur tekur gildi, nema í undantekningartilvikum sem ákvörðuð eru með tilliti til áætlaðrar endingar afhentra vara, búnaðar eða kerfa, og tæknilegra erfiðleika sem gætu orðið ef skipt er um birgi,
5)    varðandi samninga í tengslum við veitingu loft- og sjóflutningaþjónustu til her- eða öryggissveita aðildarríkis, sem staðsettur er eða fyrirhugað er að staðsetja erlendis, ef samningsyfirvald/stofnun þarf að fá þess háttar þjónustu frá rekstraraðilum sem ábyrgjast aðeins gildistíma tilboða sinna í svo skamman tíma að ekki er hægt að standa við frest í samræmi við lokað útboð eða samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, að meðtöldum styttum fresti sem um getur í 7. mgr. 33. gr.

29. gr.
Rammasamningar

1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum/-stofnunum sé heimilt að gera rammasamninga.
2.     Hafi samningsyfirvöld/stofnanir í hyggju að gera rammasamning skulu þau fylgja starfsreglunum, sem um getur í þessari tilskipun, á öllum stigum fram að gerð samnings sem grundvallast á rammasamningnum. Við val á aðilum að rammasamningum skal beita valforsendunum sem eru ákveðnar í samræmi við 47. gr.
Samningar á grundvelli rammasamnings skulu gerðir í samræmi við aðferðirnar sem mælt er fyrir um í 3. og 4. mgr. Einungis má beita þessum aðferðum í samningum á milli samningsyfirvalda/stofnana og rekstraraðila sem voru upphaflega aðilar að rammasamningnum.
Þegar gerðir eru samningar á grundvelli rammasamnings mega samningsaðilar undir engum kringumstæðum gera verulegar breytingar á skilmálunum, sem mælt er fyrir um í þeim rammasamningi, og alls ekki í tilvikum sem um getur í 3. mgr.
Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en sjö ár, nema í undantekningartilvikum sem ákvörðuð eru með tilliti til áætlaðrar endingar afhentrar vöru, búnaðar eða kerfa, og tæknilegra erfiðleika sem gætu orðið ef skipt er um birgi.
Í þess háttar undantekningartilvikum skulu samningsyfirvöld/-stofnanir leggja fram viðeigandi ástæður fyrir þessum tilvikum í tilkynningunni sem um getur í 3. mgr. 30. gr.
Samningsyfirvöld/stofnanir mega ekki misnota rammasamninga eða nota þá á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni.
3.     Ef rammasamningur er gerður við einn rekstraraðila skulu samningar, sem eru byggðir á þeim samningi, gerðir innan ramma þeirra skilmála sem mælt er fyrir um í rammasamningnum.
Við gerð slíkra samninga geta samningsyfirvöld/ stofnanir ráðfært sig skriflega við rammasamningshafa og óskað eftir viðbótum við tilboð hans ef þörf krefur.
4.     Ef rammasamningur er gerður við fleiri en einn rekstraraðila verða þeir að vera a.m.k. þrír talsins, að því tilskildu að fyrir hendi séu nægilega margir rekstraraðilar sem uppfylla valforsendur og/eða fullnægjandi tilboð sem uppfylla valforsendur.
Samninga, sem eru byggðir á rammasamningi við fleiri en einn rekstraraðila, má gera annaðhvort:
–    með því að beita þeim skilmálum, sem mælt er fyrir um í rammasamningnum, án þess að efnt sé til samkeppni á ný, eða
–    ef ekki hefur verið mælt fyrir um alla skilmála í rammasamningnum, eftir að aðilarnir hafa hafið samkeppni á nýjan leik á grundvelli sömu skilmála, sem skulu skýrðir nánar ef það er nauðsynlegt, og, eftir atvikum, á grundvelli annarra skilyrða sem um getur í útboðsgögnum rammasamningsins í samræmi við eftirfarandi reglur:
    a)    við gerð hvers samnings skulu samningsyfirvöld/-stofnanir ráðfæra sig skriflega við þá rekstraraðila sem hafa burði til að framkvæma samninginn,
    b)    samningsyfirvöld/stofnanir skulu ákveða tilboðsfrest sem er hæfilega langur til að bjóðendur geti lagt fram tilboð vegna hvers einstaks samnings, að teknu tilliti til þess hve flókið efni samningsins er, hve langan tíma það tekur að leggja fram tilboð og annarra slíkra þátta,
    c)    leggja skal fram skrifleg tilboð og efni þeirra skal vera trúnaðarmál þar til tilgreindur frestur til að svara þeim er útrunninn,
    d)    samningsyfirvöld/stofnanir skulu gera samning við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem koma fram í útboðsgögnum rammasamningsins.

VI. KAFLI
REGLUR UM AUGLÝSINGAR OG GAGNSÆI
1. ÞÁTTUR
BIRTING TILKYNNINGA
30. gr.
Tilkynningar

1.     Samningsyfirvöld/stofnanir geta gefið upplýsingar um eftirfarandi í kynningarauglýsingu, sem framkvæmdastjórnin birtir eða samningsyfirvöld birta sjálf í „upplýsingaskrá kaupanda“, eins og lýst er í 2. lið VI. viðauka:
a)    varðandi vörukaup, áætlað heildarverðmæti samninga eða rammasamninga fyrir hvert vörusvið, sem fyrirhugað er að gera á næstkomandi 12 mánuðum.
    Samningsyfirvöld/stofnanir ákvarða vörusvið með tilvísun til CPV-flokkunarkerfisins,
b)    varðandi þjónustu, áætlað heildarverðmæti samninga eða rammasamninga fyrir hvern þjónustuflokk, sem fyrirhugað er að gera á næstkomandi 12 mánuðum,
c)    varðandi verk, mikilvæga eiginleika samninga eða rammasamninga sem fyrirhugað er að gera.
Þær tilkynningar sem um getur í fyrstu undirgrein skulu sendar til framkvæmdastjórnarinnar eða birtar í upplýsingaskrá kaupanda við fyrsta tækifæri eftir ákvörðun um að samþykkja verkefnið sem samningsyfirvöld/stofnanir fyrirhuga að gera samning eða rammasamning um.
Samningsyfirvöld/stofnanir, sem birta kynningarauglýsingu í upplýsingaskrá kaupanda, skulu senda framkvæmdastjórninni rafræna tilkynningu um að kynningarauglýsing hafi verið birt í upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við það snið og þær nákvæmu reglur um sendingu tilkynninga sem settar eru fram í 3. lið VI. viðauka.
Birting auglýsinga, sem um getur í fyrstu undirgrein, er einungis skyldubundin þegar samningsyfirvöld/ stofnanir nýta heimild sína til að stytta tilboðsfrest eins og mælt er fyrir um í 3. mgr. 33. gr.
Þessi málsgrein gildir ekki um samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir, sem hyggjast gera samning eða rammasamning á grundvelli lokaðs útboðs eða á grundvelli samningskaupa, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar eða á grundvelli samkeppnisviðræðna skulu láta vita af fyrirætlun sinni með útboðstilkynningu.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir, sem hafa gert samning eða rammasamning, skulu senda tilkynningu um niðurstöður útboðs eigi síðar en 48 dögum eftir að tilboð er valið eða rammasamningur gerður.
Þegar um er að ræða rammasamning, sem er gerður í samræmi við 29. gr., ber samningsyfirvöldum/ stofnunum ekki skylda til að senda tilkynningu um niðurstöður vals fyrir hvern samning sem er grundvallaður á þeim rammasamningi.
Heimilt er að halda eftir tilteknum upplýsingum um gerð samnings eða rammasamnings ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum, einkum varnar- og/eða öryggishagsmunum, eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna fyrirtækja eða réttmæta samkeppni þeirra á milli.

31. gr.

Birting án skyldu

Samningsyfirvöld/stofnanir geta, í samræmi við 32. gr., birt tilkynningar um samninga sem falla ekki undir kröfur um birtingu sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

32. gr.

Form tilkynninga og aðferð við birtingu þeirra

1.     Í tilkynningum skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í IV. viðauka, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem samningsyfirvöld/stofnanir telja gagnlegar, á stöðluðu eyðublaði sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt í samræmi við ráðgjafarnefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 67. gr.
2.     Tilkynningar, sem samningsyfirvöld/stofnanir senda framkvæmdastjórninni, skulu sendar annaðhvort með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær reglur um sendingu sem settar eru fram í 3. lið VI. viðauka, eða á annan hátt. Þegar um er að ræða hraðútboð, sem fjallað er um í 7. mgr. 33. gr., skal senda tilkynningar annaðhvort með símbréfi eða með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær reglur um sendingu sem settar eru fram í 3. lið VI. viðauka.
Tilkynningar skulu birtar í samræmi við tæknilegar kröfur um birtingu sem settar eru fram í a- og b-lið 1. liðar VI. viðauka.
3.     Tilkynningar, sem eru samdar og sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær reglur um sendingu sem eru settar fram í 3. lið VI. viðauka, skulu birtar eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær reglur um sendingu sem eru settar fram í 3. lið VI. viðauka, skulu birtar eigi síðar en 12 dögum eftir að þær eru sendar eða, þegar um er að ræða hraðútboð, sem um getur í 7. gr. 33. gr., eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
4.     Útboðstilkynningar skulu birtar í fullri lengd á opinberu tungumáli Bandalagsins sem samningsyfirvöld/stofnanir velja og skal einungis sá texti, sem er birtur á þessu upprunalega tungumáli, vera gildur texti. Birta skal samantekt á mikilvægum þáttum hverrar tilkynningar á öðrum, opinberum tungumálum Bandalagsins.
Bandalagið ber kostnað af birtingu framkvæmdastjórnarinnar á slíkum tilkynningum.
5.     Óheimilt er að birta tilkynningar og efni þeirra á innlendum vettvangi eða í upplýsingaskrá kaupanda fyrir þann dag sem þær eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar.
Tilkynningar, sem eru birtar á innlendum vettvangi, skulu ekki innihalda aðrar upplýsingar en þær sem koma fram í tilkynningum sem eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar, eða í upplýsingaskjali kaupanda samkvæmt fyrstu undirgrein 1. mgr. 30. gr. en í þeim skal getið um það hvaða dag tilkynningin er send til framkvæmdastjórnarinnar eða hvenær hún birtist í upplýsingaskjali kaupanda.
Ekki má birta kynningarauglýsingu í upplýsingaskrá kaupanda fyrr en tilkynning hefur verið send til framkvæmdastjórnarinnar um að birting verði á því formi; í henni skal getið um sendingardag.
6.     Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær reglur um sendingu sem settar eru fram í 3. lið VI. viðauka, skulu ekki vera lengri en u.þ.b. 650 orð.
7.     Samningsyfirvöld/stofnanir verða að geta sannað hvaða dag tilkynningar eru sendar.
8.     Framkvæmdastjórnin skal gefa samningsyfirvöldum/-stofnunum staðfestingu á því að upplýsingarnar, sem sendar voru, hafi verið birtar og tiltaka daginn sem þær birtust. Slík staðfesting skal vera sönnunargagn um birtingu.

2. ÞÁTTUR
FRESTUR
33. gr.
Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu

1.     Þegar samningsyfirvöld/stofnanir setja frest til að leggja fram tilboð og þátttökutilkynningar skulu þau einkum taka tillit til þess hve flókið efni samningsins er og hve langan tíma þarf til að semja tilboð, sbr. þó lágmarksfrest sem kveðið er á um í þessari grein.
2.     Við lokuð útboð, samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og við samkeppnisviðræður, skal lágmarksfrestur vegna móttöku þátttökutilkynninga vera 37 dagar frá þeim degi sem útboðstilkynning er send.
Í tilviki lokaðra útboða skal lágmarksfrestur til að taka á móti tilboðum í lokuðu útboði vera 40 dagar frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
3.     Ef samningsyfirvöld/stofnanir hafa birt kynningarauglýsingu er almenna reglan sú að heimilt er að stytta lágmarksfrest til að taka á móti tilboðum skv. 2. mgr. í 36 daga, en aldrei svo mikið að hann verði styttri en 22 dagar.
Fresturinn skal vera frá þeim degi sem útboðið var sent.
Leyfa skal styttan frest, sem um getur í fyrstu undirgrein, að því tilskildu að kynningarauglýsingin hafi að geyma allar upplýsingar, sem krafist er í IV. viðauka að séu í útboðstilkynningunni, svo fremi að þær upplýsingar séu tiltækar á þeim tíma sem tilkynningin er birt og að kynningarauglýsingin hafi verið send til birtingar minnst 52 dögum og mest 12 mánuðum fyrir sendingardag útboðstilkynningarinnar.
4.     Ef auglýsingar eru samdar og sendar rafrænt í samræmi við það snið og reglur um sendingu, sem eru tilgreindar í 3. lið VI. viðauka, er heimilt að stytta frestinn til að taka við þátttökutilkynningu, sem um getur í fyrstu undirgrein 2. mgr., um sjö daga.
5.     Heimilt er að stytta frest til að taka á móti tilboðum, sem um getur í 2. mgr., um fimm daga ef samningsyfirvald/stofnun býður ótakmarkaðan, beinan og fullan, rafrænan aðgang að útboðsgögnum og öllum fylgiskjölum frá birtingardegi tilkynningarinnar, í samræmi við VI. viðauka, og í texta tilkynningarinnar kemur fram veffangið þar sem hægt er að nálgast þessi gögn.
Heimilt er að bæta þessari styttingu við styttinguna sem um getur í 4. mgr.
6.     Ef útboðsgögn og fylgiskjöl eða viðbótarupplýsingar eru af einhverjum ástæðum ekki afhent innan þeirra tímamarka, sem eru sett í 34. gr., þótt beðið hafi verið um þessi gögn með góðum fyrirvara, eða, ef ekki er unnt að gera tilboð fyrr en farið hefur fram vettvangsskoðun eða athugun á fylgiskjölum útboðsgagna á vettvangi, skal lengja tilboðsfrest svo að allir viðkomandi rekstraraðilar geti kynnt sér allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við gerð tilboðs.
7.     Þegar um er að ræða lokuð útboð og samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og ógerlegt er að veita frest sem mælt er fyrir um í þessari grein, vegna tímaskorts, geta samningsyfirvöld/stofnanir sett:
–    frest til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem má ekki vera styttri en 15 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningarinnar og ekki styttri en 10 dagar ef tilkynningin er send með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og reglur um sendingu sem eru tilgreindar í 3. lið VI. viðauka og,
–    ef um er að ræða lokuð útboð, frest til að leggja fram tilboð sem skal ekki vera skemmri en 10 dagar frá dagsetningu boðs um að leggja fram tilboð.

3. ÞÁTTUR
EFNI UPPLÝSINGA OG SENDINGARAÐFERÐIR
34. gr.
Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða ganga til samninga

1.     Í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, skulu samningsyfirvöld/stofnanir bjóða völdum þátttakendum, samtímis og skriflega, að leggja fram tilboð sín eða ganga til samninga eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, að taka þátt í viðræðunum.
2.     Boð til þátttakenda skal hafa að geyma annaðhvort:
–    afrit af útboðsgögnum eða skýringargögnum ásamt öllum fylgiskjölum, eða
–    vísun í aðgang að gögnum sem um getur í fyrsta undirlið ef beinn aðgangur er veittur að þeim með rafrænum aðferðum í samræmi við 5. mgr. 33. gr.,
3.     Ef annar aðili en samningsyfirvöld/stofnun sem ber ábyrgð á útboðinu hefur útboðsgögnin, skýringargögnin og/eða einhvers konar fylgiskjöl undir höndum, skal koma fram í útboðinu hvar hægt er að fá aðgang að útboðsgögnunum og skjölunum og, ef við á, frestur til að leggja fram beiðni um þessi gögn og hvaða fjárhæð beri að greiða fyrir þau, svo og greiðsluskilmálar. Þar til bær aðili skal þegar í stað senda þessi gögn til rekstraraðilans sem óskar eftir þeim.
4.     Samningsyfirvöld/stofnun eða þar til bær aðili skal senda viðbótarupplýsingar um útboðsgögn, skýringargögn og/eða fylgiskjöl eigi síðar en sex dögum fyrir síðasta skiladag tilboða, að því tilskildu að beðið hafi verið um þessar upplýsingar með góðum fyrirvara. Sé um að ræða lokað útboð eða hraðútboð skal þessi frestur vera fjórir dagar.
5.     Auk upplýsinganna sem kveðið er á um í 2., 3. og 4. mgr., skal boðið í það minnsta hafa að geyma:
a)    tilvísun til útboðstilkynningar sem hefur verið birt,
b)    síðasta dag sem tekið er við tilboðum, heimilisfangið sem senda á tilboðin til og tilgreina verður á hvaða tungumáli eða tungumálum tilboðin skuli vera. Ef um er að ræða samkeppnisviðræður, skulu þessar upplýsingar ekki vera í boðinu um að taka þátt í umræðunum, heldur í boðinu um að leggja fram tilboð,
c)    sé um að ræða samkeppnisviðræður, dagsetningu og heimilisfangið þar sem viðræðustigið hefst og tungumálið eða tungumálin sem eru notuð,
d)    upplýsingar um það hvaða skjöl eigi að láta fylgja með, annaðhvort til stuðnings yfirlýsingum, sem unnt er að sannreyna og sem bjóðandi hefur sett fram, í samræmi við 38. gr., eða til að auka við upplýsingar, sem kveðið er á um í þeirri grein, og samkvæmt skilyrðum sem mælt er fyrir um í 41. og 42. gr.,
e)    hlutfallslegt vægi forsendna fyrir gerð samnings eða, ef við á, forgangsröð slíkra forsendna, sem beitt er við ákvörðun á hagstæðasta tilboði ef það er ekki tilgreint í útboðstilkynningu, útboðsgögnum eða skýringargögnum.

35. gr.

Upplýsingar fyrir þátttakendur og bjóðendur

1.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu við fyrsta tækifæri upplýsa þátttakendur og bjóðendur um ákvarðanir sem teknar eru varðandi gerð samnings eða rammasamnings, þ.m.t. rökstuðning vegna ákvarðana um að gera ekki samning eða rammasamning sem boðinn var út í samkeppnisútboði eða að endurtaka ferlið; þær upplýsingar skulu samkeppnisyfirvöld/stofnanir gefa skriflega samkvæmt beiðni til þeirra.
2.     Ef hlutaðeigandi aðili óskar eftir því, skal samningsyfirvald/stofnun, með fyrirvara um 3. mgr., við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 15 dögum eftir viðtöku skriflegrar beiðni um upplýsingar, upplýsa aðilana um eftirfarandi:
a)    hvern og einn þátttakanda um ástæður fyrir því að umsókn hans var vísað frá,
b)    hvern og einn bjóðanda um ástæður fyrir því að tilboði hans hafi verið hafnað, þ.m.t., einkum, í þeim tilvikum sem um getur í 4. og 5. mgr. 18. gr., ástæður fyrir því ef það ákvarðar að jafngildisákvæðið sé ekki uppfyllt eða að verk, vörur eða þjónusta uppfylli ekki kröfur um útkomu eða virkni, og í þeim tilvikum sem um getur í 22. og 23. gr., ástæður fyrir því að ákvarðað er að ósamræmi sé í kröfum varðandi upplýsingaöryggi og afhendingaröryggi,
c)    hvern og einn bjóðanda, sem hefur gert fullnægjandi tilboð sem hefur verið hafnað, um eiginleika og hlutfallslega kosti tilboðsins sem er valið og einnig nafn hlutskarpasta bjóðandans eða nöfn aðila að rammasamningnum.
3.     Samningsyfirvöldum/stofnunum er heimilt að halda eftir tilteknum upplýsingum um gerð samnings eða rammasamninga, sem um getur í 1. mgr., ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum, einkum varnar- og/eða öryggishagsmunum, eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna fyrirtækja eða réttmæta samkeppni þeirra á milli.

4. ÞÁTTUR
SAMSKIPTI
36. gr.
Reglur um samskipti

1.     Öll samskipti og upplýsingaskipti, sem um getur í þessum bálki, mega fara fram með pósti, símbréfum, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis, í þeim tilvikum og við þær aðstæður sem um getur í 6. mgr., eða með samsetningu þessara miðla að vali samningsyfirvalds.
2.     Samskiptamiðlarnir, sem valdir eru, skulu vera almennt aðgengilegir og skulu ekki hindra aðgang rekstraraðila að útboðsferlinu.
3.     Samskipti og miðlun og geymsla upplýsinga skal vera með þeim hætti að heilleiki gagna og leynd þátttökutilkynninga og tilboða sé varðveitt og að samningsyfirvöld/stofnanir kanni ekki efni tilboða og þátttökutilkynninga fyrr en fresturinn til að leggja þau fram er runninn út.
4.     Búnaður, sem er notaður í rafrænum samskiptum, svo og tæknilegir eiginleikar hans, skal vera þannig að engum sé mismunað og vera almennt aðgengilegur og innbyrðis samhæfður þeirri upplýsinga- og fjarskiptatækni sem er í almennri notkun.
5.     Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og um tæki fyrir rafræna móttöku þátttökutilkynninga:
a)    upplýsingar um forskriftir sem eru nauðsynlegar fyrir rafræna framlagningu tilboða og þátttökutilkynninga, þ.m.t. dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum áhugasömum aðilum. Tæki fyrir rafræna móttöku tilboða og þátttökutilkynninga skulu enn fremur vera í samræmi við kröfur sem koma fram í viðauka VIII,
b)    aðildarríkjum er heimilt, samkvæmt 5. gr. tilskipunar 1999/93/EB, að krefjast þess að rafrænum tilboðum fylgi fullgild rafræn undirskrift í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar,
c)    aðildarríki geta innleitt valfrjáls faggildingarkerfi eða viðhaldið þeim með það fyrir augum að bæta vottunarþjónustu fyrir þessi tæki,
d)    áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu þátttakendur leggja fram skjöl, vottorð og yfirlýsingar sem um getur í 39.–44. gr. og 46. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.
6.     Eftirfarandi reglur skulu gilda um sendingu þátttökutilkynninga:
a)    Tilkynning um þátttöku í útboði má vera skrifleg eða símleiðis,
b)    ef tilkynnt er um þátttöku í síma skal senda skriflega staðfestingu áður en frestur fyrir móttöku tilkynningar er liðinn,
c)    samningsyfirvöld/stofnanir geta krafist þess að þátttökutilkynning, sem berst með símbréfi, sé staðfest með pósti eða með rafrænum hætti þegar það er nauðsynlegt vegna lögfullrar sönnunar. Samningsyfirvald/stofnun skal setja fram allar slíkar kröfur í útboðstilkynningu, ásamt fresti til að uppfylla þær.

5. ÞÁTTUR
SKÝRSLUR
37. gr.
Efni skýrslna

1.     Fyrir hvern samning og rammasamning, skulu samningsyfirvöld/stofnanir taka saman skriflega skýrslu til að staðfesta að valaðferðinni hafi verið beitt á gagnsæjan hátt og án mismununar, og skal það fela í sér í það minnsta eftirfarandi:
a)    nafn og heimilisfang samningsyfirvalds/stofnunar og efni og verðmæti samningsins eða rammasamningsins,
b)     útboðsferlið sem valið er,
c)    í tilviki samkeppnisviðræðna, málavextir sem færa rök fyrir beitingu þessarar málsmeðferðar,
d)    þegar um er að ræða samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar, þá málavexti sem um getur í 28. gr. og færa rök fyrir beitingu þessarar málsmeðferðar; ef við á, rök fyrir að fara fram úr frestinum sem settur er fram í annarri undirgrein a-liðar 3. mgr. 28. gr. og þriðju undirgrein b-liðar 4. mgr. 28. gr. og fyrir að fara umfram 50% hámarksins sem sett er fram í annarri undirgrein a-liðar 4. mgr. 28. gr.,
e)    ef við á, rök fyrir því að rammasamningur sé til lengri tíma en sjö ára,
f)    nöfn þátttakenda sem valdir eru og ástæður fyrir því vali,
g)    nöfn þeirra þátttakenda sem vísað var frá og ástæðurnar fyrir frávísun þeirra,
h)    ástæður fyrir höfnun tilboða,
i)    nafn hlutskarpasta bjóðandans og ástæðurnar fyrir því að tilboð hans var valið og hvaða hluta samningsins eða rammasamningsins hlutskarpasti bjóðandinn hyggst, eða verður skyldaður til að fá þriðju aðila til að vinna sem undirverktaka, ef það er vitað,
j)    ef nauðsyn krefur, ástæðurnar fyrir því að samningsyfirvöld/stofnanir hafa ákveðið að gera ekki samning eða rammasamning.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að skrá framkvæmd rafrænna aðferða við val tilboða.
3.     Skýrslan eða meginefni hennar skal send til framkvæmdastjórnarinnar ef hún óskar eftir því.

VII. KAFLI
FRAMKVÆMD ÚTBOÐS
1. ÞÁTTUR
ALMENN ÁKVÆÐI
38. gr.

Athugun á hæfi og vali þátttakenda og gerð samninga

1.     Samningar skulu gerðir á grundvelli forsendna, sem mælt er fyrir um í 47. og 49. gr., að teknu tilliti til 19. gr., eftir að samningsyfirvöld/stofnanir hafa athugað hæfi fyrirtækjanna, sem voru ekki útilokuð skv. 39. eða 40. gr., í samræmi við forsendur um efnahagslega og fjárhagslega stöðu, faglega og tæknilega þekkingu eða getu sem um getur í 41.–46. gr. og, þar sem við á, reglur um bann við mismunun og forsendur sem um getur í 3. mgr.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir geta krafist þess að þátttakendur uppfylli kröfur um lágmarksgetu í samræmi við 41. og 42. gr.
Umfang upplýsinganna, sem um getur í 41. og 42. gr., og sú lágmarksgeta, sem krafist er vegna tiltekins samnings, skal tengjast og vera í réttu hlutfalli við efni samningsins.
Þetta lágmark skal tilgreint í útboðstilkynningunni.
3.     Við lokuð útboð, samningskaup með birtingu útboðstilkynningar og samkeppnisviðræður, geta samningsyfirvöld/-stofnanir takmarkað fjölda hæfra þátttakenda sem þau fyrirhuga að bjóða að gera tilboð eða sem þau munu ganga til viðræðna við. Í því tilviki:
–    skulu samningsyfirvöld/stofnanir tilgreina, í útboðstilkynningu, þær hlutlægu og óhlutdrægu forsendur eða reglur sem þau hyggjast beita, lágmarksfjölda þátttakenda sem þau hyggjast bjóða og, ef við á, hámarksfjölda. Lágmarksfjöldi þátttakanda sem fyrirhugað er að bjóða skal ekki vera minni en þrír,
–    samningsyfirvöld/stofnanir skulu í kjölfarið bjóða fjölda þátttakenda, sem jafngildir að lágmarki fyrirframákveðnum lágmarksfjölda, að því tilskildu að fullnægjandi fjöldi hæfra þátttakenda sé til staðar,
Ef þátttakendur, sem standast valforsendur og lágmarkskröfur um getu, eru færri en tiltekinn lágmarksfjöldi þátttakenda geta samningsyfirvöld/stofnanir haldið útboðsferli áfram með því að gefa þeim þátttakanda eða þátttakendum, sem uppfylla kröfur, kost á að leggja fram tilboð.
Ef samningsyfirvald/stofnun telur að fjöldi hæfra þátttakenda sé ekki nægur til að tryggja raunverulega samkeppni, getur það frestað ferlinu og endurbirt upphaflegu útboðstilkynninguna í samræmi við 2. mgr. 30. gr. og 32. gr. og sett nýjan frest vegna framlagningar þátttökutilkynninga. Í því tilviki skal bjóða þátttakendum sem voru valdir eftir fyrstu birtinguna og þá þátttakendur sem valdir voru eftir aðra birtingu, í samræmi við 34. gr. Þessi valkostur skal ekki hafa áhrif á getu samningsyfirvalds/stofnunar til að hætta við yfirstandandi innkaupaferli og setja af stað nýtt ferli.
4.     Í útboðsferli má samningsyfirvald/stofnun ekki taka aðra rekstraraðila til greina en þá sem tilkynntu þátttöku, né þátttakendur sem uppfylla ekki tilskilin skilyrði.
5.     Ef samningsyfirvöld/stofnanir nýta sér heimild til að fækka þeim lausnum sem ræða þarf, eða tilboðum sem samið er um, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 27. gr., skulu þau gera það með því að beita valforsendum sem koma fram í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum. Á lokastigi ferlisins skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunverulega samkeppni, að svo miklu leyti sem um er að ræða nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda.

2. ÞÁTTUR
FORSENDUR FYRIR HÆFISMIÐUÐU VALI
39. gr.
Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda

1.     Þátttakandi eða bjóðandi, sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi sem samningsyfirvaldi/stofnun er kunnugt um, af einni eða fleiri af þeim ástæðum sem fram koma hér á eftir, skal útilokaður frá gerð samnings:
a)    þátttöku í glæpasamtökum eins og skilgreint er í 1. mgr. 2. gr. sameiginlegrar aðgerðar 98/733/ JHA ( 1 ),
b)    spillingu eins og skilgreint er í 3. gr. gerðarinnar frá 26. maí 1997 ( 2 ) annars vegar og 1. mgr. 2. gr. rammaákvörðunar 2003/568/JHA ( 3 ) hins vegar,
c)    sviksemi í skilningi 1. gr. samningsins um vernd fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna ( 4 ),
d)    hryðjuverk eða afbrot tengd hryðjuverkastarfsemi, eins og skilgreint er í 1. og 3. gr. rammaákvörðunar 2002/475/JHA ( 5 ) eftir því sem við á, eða hvatningu til, aðstoð við eða stuðning við eða tilraun til að fremja afbrot, eins og um getur í 4. gr. þeirrar rammaákvörðunar,
e)    peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eins og skilgreint í 1. gr. tilskipunar 2005/60/EB ( 6 ).
Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
Þau geta ákveðið undanþágur frá kröfunum, sem um getur í fyrstu undirgrein, vegna forgangskrafna í þágu almennings.
Varðandi þessa málsgrein skulu samningsyfirvöld/ stofnanir, ef við á, biðja þátttakendur eða bjóðendur um að leggja fram skjölin, sem um getur í 3. mgr., og geta einnig, ef þau hafa efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakendanna eða bjóðendanna, leitað til þar til bærra yfirvalda um upplýsingar, sem þau telja nauðsynlegar og sem varða persónulegar aðstæður viðkomandi þátttakenda eða bjóðenda. Ef upplýsingarnar varða þátttakanda eða bjóðanda, sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki en samningsyfirvaldið/stofnunin, getur samningsyfirvaldið/stofnunin leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í því ríki. Með hliðsjón af landslögum í aðildarríkinu þar sem þátttakendur eða bjóðendur hafa staðfestu varða slíkar fyrirspurnir lögaðila og/eða einstaklinga, þ.m.t., ef við á, forstjórar fyrirtækja og aðrir aðilar sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvarðanatöku eða stjórnunar í fyrirtæki þátttakanda eða bjóðanda.
2.     Heimilt er að útiloka rekstraraðila frá þátttöku í útboði:
a)    ef fyrirtæki rekstraraðila er gjaldþrota eða félagi hefur verið slitið, ef bú þess hefur verið tekið til skiptameðferðar, ef það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar, ef það hefur lagt niður starfsemi tímabundið eða er í sambærilegri stöðu vegna álíka meðferðar samkvæmt innlendum lögum og reglum,
b)    ef óskað hefur verið gjaldþrotaskipta, slita á fyrirtæki eða skiptameðferðar eða ef leitað hefur verið eftir heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða ef óskað er eftir álíka meðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,
c)    ef rekstraraðili hefur verið fundinn sekur um refsivert brot á siðareglum í starfsgreininni með úrskurði, sem hefur dómsígildi, í samræmi við lagaákvæði í landinu þar sem brotið er framið, svo sem, t.d., brot á gildandi löggjöf um útflutning varnar- og eða öryggisbúnaðar,
d)    ef rekstraraðili hefur verið fundinn sekur um alvarlegt misferli í starfi, sem samningsyfirvaldi/ stofnun er unnt að sýna fram á, svo sem brot á skuldbindingum varðandi öryggi upplýsinga eða afhendingaröryggi á gildistíma fyrri samnings,
e)    ef kemur í ljós, á grundvelli hvers konar sönnunargagna, þ.m.t. verndaðar gagnalindir, að rekstraraðili býr ekki yfir þeim áreiðanleika sem þarf til að öryggi aðildarríkis sé ekki stofnað í hættu,
f)    ef rekstraraðili hefur ekki staðið skil á greiðslum til almannatrygginga eins og honum ber samkvæmt lögum landsins þar sem hann hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds/stofnunar,
g)    ef rekstraraðilinn hefur ekki staðið skil á skattgreiðslum samkvæmt lögum landsins þar sem hann hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds/stofnunar,
h)    ef rekstraraðilinn hefur gerst sekur um alvarlegar rangfærslur við veitingu upplýsinganna sem krafist er samkvæmt þessum þætti eða hefur ekki veitt upplýsingarnar.
Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu samþykkja eftirfarandi sem fullnægjandi sönnun þess að ekkert af þeim tilvikum, sem eru tilgreind í 1. mgr. eða a-, b-, c-, f- eða g-lið 2. mgr., eigi við um rekstraraðila:
a)    að því er varðar 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr., framlagning sakavottorðs eða, að öðrum kosti, jafngilds skjals sem er gefið út af þar til bæru dóms- eða stjórnvaldi í upprunalandi eða heimalandi fyrirtækisins, sem sýnir að þessum kröfum er fullnægt,
b)    að því er varðar f- og g-lið 2. mgr., vottorð sem þar til bært yfirvald í viðkomandi aðildarríki gefur út.
Ef slík skjöl eða vottorð eru ekki gefin út í viðkomandi ríki, eða ef þau ná ekki yfir öll þau tilvik sem tilgreind eru í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr. getur eiðsvarin yfirlýsing viðkomandi aðila komið í stað þeirra eða, í þeim aðildarríkjum þar sem ekki er kveðið á um slíka eiðsvarna yfirlýsingu, drengskaparheit sem viðkomandi gefur í viðurvist þar til bærs dóms- eða stjórnvalds eða, þar sem við á, lögbókanda eða hjá þar til bærri fag- eða viðskiptastofnun í heimalandi eða upprunalandi þess aðila.
4.     Aðildarríkin skulu tilnefna þar til bær yfirvöld og stofnanir til að gefa út skjölin, vottorðin og yfirlýsingarnar, sem um getur í 3. mgr., og tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Slíkar tilkynningar eru með fyrirvara um lög um gagnavernd.

40. gr.

Starfsréttindi

Ef þess er krafist að þátttakandi sé skráður í firma- eða viðskiptaskrá í upprunaaðildarríki eða staðfestuaðildarríki í því skyni að stunda iðn sína, getur þess verið krafist að hann sýni fram á skráningu í þess háttar skrá eða leggi fram eiðsvarna yfirlýsingu eða vottorð eins og lýst er í A-hluta VII. viðauka fyrir verksamninga, B-hluta VII. viðauka fyrir vörusamninga og C-hluta VII. viðauka fyrir þjónustusamninga. Skrárnar sem settar eru fram í VII. viðauka eru til leiðbeiningar. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum um allar breytingar á skrám sínum og þeim sönnunargögnum sem um getur í þeim skrám.
Ef um er að ræða gerð þjónustusamninga og þátttakendur þurfa að hafa sérstaka heimild eða vera félagar í tilteknum samtökum til að mega veita viðkomandi þjónustu í heimalandi sínu, getur samningsyfirvaldið/stofnunin krafist þess að þeir sýni fram á að þeir hafi slíka heimild eða séu félagar í slíkum samtökum.
Þessi grein hefur ekki áhrif á lög Bandalagsins um staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu.

41. gr.

Efnahagsleg og fjárhagsleg staða

1.     Að jafnaði skal vera hægt að færa sönnur á efnahagslega og fjárhagslega stöðu rekstraraðila með einni eða fleiri eftirfarandi aðferðum:
a)    með viðeigandi yfirlýsingu frá banka eða, þar sem við á, sönnunargögnum um starfsábyrgðartryggingu,
b)    með því að framvísa efnahagsreikningi eða útdrætti úr honum ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt landslögum í landinu þar sem rekstraraðilinn hefur staðfestu,
c)    með yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækisins og, eftir því sem við á, veltuna á því sviði sem fellur undir samninginn á síðustu þremur fjárhagsárum að hámarki, eftir því hvaða dag fyrirtækið var stofnað eða rekstur hafinn, ef þessar upplýsingar um veltu eru tiltækar.
2.     Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla hans við þessa aðila. Í því tilviki skal rekstraraðilinn sýna samningsyfirvaldinu/stofnuninni fram á að hann muni hafa nauðsynleg úrræði, t.d. með því að leggja fram skuldbindingu frá þessum aðilum þar að lútandi.
3.     Með sömu skilyrðum geta samtök rekstraraðila, sem um getur í 4. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.
4.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu tilgreina, í útboðstilkynningunni, hvaða gögn sem um getur í 1. mgr. þau gera kröfu um og hvaða annarra gagna kunni að verða krafist.
5.     Ef rekstraraðili getur ekki, af einhverri gildri ástæðu, lagt fram þau gögn sem samningsyfirvald/ stofnun krefst getur hann sýnt fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum sem samningsyfirvaldið/stofnunin telur fullnægjandi.

42. gr.

Tæknileg og fagleg geta

1.     Rekstraraðili getur að jafnaði sannað tæknilega getu sína með einni eða fleiri af eftirfarandi aðferðum, allt eftir eðli, magni, mikilvægi eða fyrirhugaðri notkun verksins, vörunnar eða þjónustunnar:
a)    i.        með skrá yfir þau verk sem unnin hafa verið á     undanförnum fimm árum ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir mikilvægustu verksamninganna. Í þessum vottorðum skal koma fram verðgildi, dagsetning og staðsetning verka ásamt upplýsingum um hvort þau hafi verið unnin í samræmi við faglegar reglur og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal þar til bært yfirvald afhenda samningsyfirvaldi/stofnun þessi vottorð milliliðalaust,
    ii.    með skrá yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið, að jafnaði, á þremur undanförnum árum ásamt upplýsingum um fjárhæðir, dagsetningar og viðtakendur, hvort heldur um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila. Sönnun um afhendingu vöru og þjónustu skal veitt:
            –    ef viðtakandinn er samningsyfirvald/stofnun, í formi vottorðs sem þar til bært yfirvald gefur út eða staðfestir með áritun,
            –    ef viðtakandinn er kaupandi sem er einkaaðili, með vottorði kaupanda eða, ef það er ekki unnt, með yfirlýsingu rekstraraðilans sjálfs,
b)    með tilvísun til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem koma að málinu, hvort sem þeir heyra beint undir fyrirtæki rekstraraðilans eða ekki, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og, þegar um er að ræða opinbera verksamninga, þeirra sem verktaki hefur aðgang að vegna framkvæmdar verksins,
c)    með lýsingu á tækniaðstöðu og ráðstöfunum sem gerðar eru af rekstraraðila til að tryggja gæði og athugunar- og rannsóknaraðstöðu, auk innri reglna varðandi hugverkaréttindi,
d)    með athugun á framleiðslugetu birgis eða tæknilegri getu rekstraraðila og, ef þörf krefur, á aðstöðu hans til athugana og rannsókna og ráðstöfunum hans til gæðaeftirlits og annast samningsyfirvöld/stofnanir þessa athugun eða, fyrir hönd þeirra, þar til bær, opinber aðili í landinu þar sem rekstraraðili hefur staðfestu, með fyrirvara um samþykki þess aðila,
e)    ef um er að ræða verksamninga, þjónustusamninga eða vörusamninga sem ná yfir ísetningu og uppsetningu eða þjónustu, með faglegri menntun og hæfi rekstraraðila og/eða stjórnenda fyrirtækis og einkum þess einstaklings eða einstaklinga sem bera ábyrgð á veitingu þjónustunnar eða verkstjórn,
f)    þegar um er að ræða verksamninga og þjónustusamninga, og einungis þegar það á við, með tilvísun til þeirra umhverfisstjórnunaraðgerða sem rekstraraðilinn getur beitt við framkvæmd samningsins,
g)    með yfirlýsingu um árlegan meðalfjölda starfsmanna hjá þjónustuveitanda eða verktaka og fjölda manna í stjórnunarstöðum á undanförnum þremur árum,
h)    með lýsingu á verkfærum, efni, tæknibúnaði, starfsmannafjölda og verkkunnáttu og/eða upprunastöðu birgða – með vísan í landfræðilega staðsetningu ef hún er utan Evrópusambandsins – sem rekstraraðili hefur til ráðstöf-unar til að uppfylla samninginn, mæta viðbótarþörfum sem krafist er af samningsyfirvaldi/stofnun vegna hættuástands eða inna af hendi viðhald, nútímavæðingu eða aðlögun vara sem falla undir samninginn,
i)    að því er varðar vörur sem skulu afhentar, með framlagningu á:
    i.        sýnishornum, lýsingum og/eða ljósmyndum sem unnt á að vera að sannvotta ef samningsyfirvald/stofnun krefst þess,
    ii.    vottorðum frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun sem staðfestir að varan, sem er skýrt skilgreind með tilvísunum í tilteknar forskriftir og staðla, sé í samræmi við þessar forskriftir og staðla,
j)    ef um er að ræða samninga sem fela í sér, hafa í för með sér og/eða hafa að geyma trúnaðarupplýsingar, með staðfestingu á getu til að vinna, geyma og senda þess háttar upplýsingar, á verndarstigi sem krafist er af samningsyfirvaldi/ stofnun.
Ef ekki er fyrir hendi samræming vottunarkerfa þjóðaröryggis á vettvangi Bandalagsins, geta aðildarríki kveðið á um að þessar staðfestingar þurfi að vera í samræmi við viðeigandi ákvæði innlendra laga um öryggisvottun. Aðildarríki skulu viðurkenna öryggisvottanir sem þau telja jafngildar þeim sem gefnar eru út í samræmi við landslög þeirra, þrátt fyrir að mögulegt sé að framkvæma og taka tillit til frekari athugana þeirra, ef það er talið nauðsynlegt.
Samningsyfirvald/stofnun getur, eftir því sem við á, veitt þátttakendum sem ekki hafa enn fengið öryggisvottun aukinn tíma til að fá þess háttar vottun. Í þessu tilviki skal það upplýsa um þennan möguleika og frestinn í útboðstilkynningunni.
Samningsyfirvald/stofnun getur óskað eftir því við þjóðaröryggisyfirvald aðildarríkis þátttakanda eða öryggisyfirvald, sem tilnefnt er af því aðildarríki, að það athugi samræmi húsnæðis og aðstöðu sem fyrirhugað er að nota, iðnaðar- og stjórnsýslumeðferð sem farið verður eftir, aðferða við upplýsingastjórnun og/eða stöðu starfsfólks sem líklegt er að verði ráðið til að uppfylla samninginn, við forsendurnar.
2.     Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla hans við þessa aðila. Ef þetta er gert skal hann sýna samningsyfirvaldinu/ stofnuninni fram á að hann muni hafa yfir að ráða þeim úrræðum sem eru nauðsynleg fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að aðilarnir stofni sameiginlega sérstakt fyrirtæki til að rekstraraðilinn hafi aðgang að nauðsynlegum úrræðum.
3.     Með sömu skilyrðum getur hópur rekstraraðila, sem um getur í 5. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.
4.     Þegar um er að ræða vörusamninga sem fela í sér ísetningu eða uppsetningu þjónustu og/eða framkvæmd verks, er heimilt að meta getu rekstraraðila, til að veita þjónustuna eða annast uppsetninguna eða verkið, einkum með hliðsjón af færni þeirra, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.
5.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu tilgreina í tilkynningunni hvaða gögn sem um getur í 1. mgr. þau hafa valið og hvaða annarra gagna kunni að verða krafist.
6.     Ef rekstraraðili getur ekki, af einhverri gildri ástæðu, lagt fram þau gögn sem samningsyfirvald/ stofnun krefjast, getur hann sýnt fram á tæknilega og/eða faglega getu sína með öðrum gögnum sem samningsyfirvaldið/stofnunin telur fullnægjandi.

43. gr.

Staðlar varðandi gæðastjórnunarkerfi

Ef samningsyfirvöld/stofnanir krefjast þess að lögð séu fram vottorð frá óháðum trúnaðarbundnum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna staðla varðandi gæðastjórnunarkerfi, skulu þau vísa til gæðastjórnunarkerfa, sem grundvallast á viðeigandi kerfi Evrópustaðla, sem hefur fengið vottun óháðra trúnaðarbundinna aðila sem standast kröfur um vottun samkvæmt Evrópustaðlakerfinu. Þau skulu viðurkenna jafngild vottorð frá óháðum trúnaðarbundnum aðilum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Samningsyfirvöld/stofnanir skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn um sambærileg gæðastjórnunarkerfi sem rekstraraðilar leggja fram.

44. gr.

Umhverfisstjórnunarstaðlar

Ef samningsyfirvöld/stofnanir krefjast þess, í tilvikum sem um getur í f-lið 1. mgr. 42. gr., að lögð séu fram vottorð frá óháðum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna umhverfisstjórnunarstaðla, skulu þau vísa til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfisstjórnunarstaðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum, sem eru vottaðir af stofnunum sem starfa í samræmi við lög Bandalagsins eða viðeigandi evrópska eða alþjóðlega vottunarstaðla. Þau skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Samningsyfirvöld skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn um sambærilegar ráðstafanir varðandi umhverfisstjórnun sem rekstraraðilar leggja fram.

45. gr.

Viðbótargögn og upplýsingar

Samningsyfirvald/stofnun getur krafist þess að rekstraraðilinn bæti við eða skýri vottorð og skjöl sem eru lögð fram samkvæmt 39.–44. gr.

46. gr.


Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum aðilum
1.     Aðildarríkin geta innleitt annaðhvort opinberar skrár yfir samþykkta verktaka, birgja eða þjónustuveitendur eða vottun frá opinberum eða einkaréttarlegum vottunaraðilum.
Aðildarríkin skulu laga skilyrðin fyrir skráningu í þessar skrár, ásamt skilyrðum fyrir útgáfu vottorða frá vottunaraðilum, að ákvæðum 39. gr. (a–d-liður og h-liður, 1. og 2. mgr.), 40. gr., 41. gr. (4. og 5. liður, 1. mgr.), 42. gr. (a–i-liður, 1. mgr., 2. og 4. mgr.,) 43. gr. og, þegar við á, 44. gr.
Aðildarríkin skulu einnig laga þau að 2. mgr. 41. gr. og 2. mgr. 42. gr. þegar um er að ræða skráningarumsóknir frá rekstraraðilum, sem eru hluti af hópi, og sýna fram á að þau ráði yfir tilföngum sem hin fyrirtækin í hópnum hafa fengið þeim til ráðstöfunar. Í þeim tilvikum skulu þessir rekstraraðilar sanna fyrir yfirvaldinu, sem innleiðir opinberu skrána, að þeir ráði yfir þessum tilföngum út allan gildistíma vottorðs sem staðfestir að þeir séu skráðir í opinberu skrána og að allt það tímabil muni þessi fyrirtæki uppfylla áfram kröfur um hæfismiðað val sem mælt er fyrir um í greinunum, sem um getur í annarri undirgrein, sem rekstraraðilar bera fyrir sig í tengslum við skráningu sína.
2.     Rekstraraðilar, sem eru skráðir í opinberar skrár eða hafa fengið vottorð, geta, í hverju útboði, afhent samningsyfirvaldi/stofnun vottorð um skráningu sem er gefið út af þar til bæru yfirvaldi eða skírteini sem þar til bær vottunaraðili gefur út. Í þessum vottorðum eða skírteinum skulu koma fram þær tilvísanir sem gerðu þeim kleift að fá skráningu eða vottorð og flokkun samkvæmt skránni.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir annarra aðildarríkja skulu ekki ganga út frá því að vottuð skráning þar til bærra yfirvalda í opinberum skrám eða vottorð, gefið út af vottunaraðila, sé til marks um hæfi nema að því er varðar ákvæði 39. gr. (a–d-liður og h-liður, 1. og 2. mgr.), 40. gr., 41. gr. (b og c-liður, 1. mgr.), 42. gr. (a–i-liður 1. mgr. og b- til g-liður ef um er að ræða verktaka), 42. gr. (a–ii-liður, b- til e-liður og i-liður ef um er að ræða birgja) og 42. gr. (a–ii-liður 1. mgr., b- til e-liður og g-liður ef um er að ræða þjónustuveitendur).
4.     Ekki er hægt að vefengja upplýsingar, sem rekja má til skráningar í opinberum skrám eða vottunarskráningar, án rökstuðnings. Að því er varðar greiðslu iðgjalda til almannatrygginga og skatta er þó heimilt að krefjast viðbótarvottorðs frá skráðum rekstraraðilum við hvert útboð.
Samningsyfirvöld/stofnanir hinna aðildarríkjanna skulu einungis beita 3. mgr. og fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar til hagsbóta þeim rekstraraðilum sem hafa staðfestu í aðildarríkinu þar sem opinbera skráin er haldin.
5.     Varðandi skráningu rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum í opinberri skrá eða vegna vottunar sem þeir fá hjá stofnunum sem um getur í 1. mgr. er ekki heimilt að krefjast frekari sannana eða yfirlýsinga en þeirra sem innlendir rekstraraðilar eru krafðir um og undir engum kringumstæðum annarra en þeirra sem kveðið er á um skv. 39.–43. gr. og, ef við á, 44. gr.
Þó er ekki hægt að skylda rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum til að fá slíka skráningu eða vottun til að geta tekið þátt í útboði. Samningsyfirvöld/stofnanir skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Þau skulu einnig samþykkja annars konar sannanir sem eru jafngildar.
6.     Rekstraraðilar geta óskað eftir því hvenær sem er að þeir verði skráðir í opinbera skrá eða að þeir fái vottorð. Þeir skulu látnir vita, áður en langt um líður, um ákvörðun yfirvaldsins, sem heldur skrána, eða þar til bærs vottunaraðila.
7.     Vottunaraðilarnir, sem um getur í 1. mgr., skulu fara að evrópskum vottunarstöðlum.
8.     Aðildarríkjum, sem halda opinberar skrár, og vottunaraðilum, sem um getur í 1. mgr., ber skylda til að upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um heimilisfang stofnunarinnar sem senda skal umsóknir til.

3. ÞÁTTUR
GERÐ SAMNINGS
47. gr.
Forsendur fyrir samningsgerð

1.     Með fyrirvara um innlend lög og stjórnsýslufyrirmæli er varða þóknun fyrir tiltekna þjónustu skulu forsendur, sem samningsyfirvöld/stofnanir byggja á við val þess aðila sem samningur er gerður við, vera annaðhvort:
a)    þegar samningur er gerður við fjárhagslega hagkvæmasta bjóðandann að mati samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar, ýmsar forsendur sem tengjast efni viðkomandi samnings: t.d. gæði, verð, tæknileg atriði, útlit og notagildi, umhverfiseiginleikar, rekstrarkostnaður, kostnaðarhagkvæmni, þjónusta eftir verklok og tæknileg aðstoð, afhendingardagur og afhendingartími eða frestur til að ljúka verki, afhendingaröryggi, rekstrarsamhæfi og rekstrarlegir eiginleikar, eða
b)    lægsta verð eingöngu.
2.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu tilgreina í útboðsgögnunum (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum), í tilvikum sem um getur í a-lið 1. mgr., hvert mat þeirra er á hlutfallslegu vægi hverrar forsendu sem valin er til að ákvarða fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, sbr. þó ákvæði þriðju undirgreinar.
Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum.
Ef samningsyfirvald/stofnun telur að ekki sé hægt að beita vægi vegna skorts á sönnun, skal samningsyfirvaldið/stofnunin tilgreina forsendurnar í forgangsröð eftir mikilvægi þeirra útboðsgagna (útboðstilkynningum, útboðsgögnum, skýringargögnum eða fylgigögnum).

48. gr.

Rafræn uppboð

1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum/stofnunum sé heimilt að nota rafræn uppboð.
2.     Þegar um er að ræða lokuð útboð eða samningskaup, að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar, geta samningsyfirvöld/stofnanir ákveðið að samningur skuli gerður að undangengnu rafrænu uppboði þegar unnt er að ákvarða samningsskilmála með nákvæmni.
Við sömu aðstæður má halda rafrænt uppboð þegar efnt er til samkeppni á ný milli aðila að rammasamningi, eins og kveðið er á um í öðrum lið annarrar undirgreinar 4. mgr. 29. gr.
Rafrænt uppboð skal grundvallast:
–    eingöngu á verði, ef samningur er gerður á grundvelli lægsta verðs, eða
–    á verði og/eða nýju verðmæti tilboðsþátta sem tilgreint er í útboðsgögnum, ef samningur er gerður á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
3.     Samningsyfirvöld/stofnanir, sem ákveða að halda rafrænt uppboð, skulu geta þess í útboðstilkynningu.
Í útboðsgögnum skulu meðal annars koma fram upplýsingar um eftirtalin atriði:
a)    þá þætti þar sem verðmætið liggur til grundvallar í rafrænu uppboði, að því tilskildu að slíkir þættir séu mælanlegir og hægt sé að setja þá fram í tölum eða hundraðshlutum,
b)    hvers konar takmörk sem hægt er að setja á verðmæti á grundvelli mats á skilmálum er varða efni samningsins,
c)    upplýsingarnar, sem bjóðendur eiga að hafa aðgang að á meðan rafræna uppboðið stendur yfir, og, eftir því sem við á, hvenær þeir fá aðgang að þeim,
d)    viðeigandi upplýsingar um rafræna uppboðsferlið,
e)    skilyrði sem bjóðendur verða að uppfylla til að geta lagt fram tilboð og einkum hvaða lágmarksmunur skuli vera á milli tilboða sem krafist er eftir því sem við á,
f)    viðeigandi upplýsingar um rafræna búnaðinn, sem notaður er, og um fyrirkomulag og tækniforskriftir fyrir tengingu við hann.
4.     Áður en rafrænt uppboð hefst skulu samningsyfirvöld/stofnanir leggja fullt, upphaflegt mat á tilboð í samræmi við forsendu eða forsendur fyrir vali tilboðs og það vægi sem er ákveðið fyrir þær.
Öllum bjóðendum, sem hafa lagt fram gild tilboð, skal samtímis boðið, með rafrænum hætti, að leggja fram nýtt verð og/eða verðgildi; í boðinu skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar varðandi tengingu hvers og eins við rafræna búnaðinn, sem er notaður, ásamt upplýsingum um upphafsdag og upphafstíma rafræna uppboðsins. Rafræna uppboðinu má skipta í nokkra áfanga sem fara fram hver á fætur öðrum. Rafræna uppboðið getur ekki hafist fyrr en tveimur virkum dögum eftir að boðin eru send út.
5.     Ef gera á samning á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs skulu fylgja boðinu niðurstöður úr fullu mati á tilboði viðkomandi bjóðanda sem fer fram í samræmi við það vægi sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein 2. mgr. 47. gr.
Í boðinu skal einnig koma fram hvaða reiknilíkan á að nota í rafrænu uppboði til að ákvarða sjálfkrafa endurröðun tilboða á grundvelli nýs verðs og/eða verðgildis. Þetta líkan skal taka tillit til vægis allra forsendna sem eru settar til að ákvarða fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið eins og tilgreint er í útboðstilkynningu eða útboðslýsingu; í því augnamiði skulu þó hugsanleg vikmörk skilgreind fyrir fram sem föst gildi.
Ef frávikstilboð eru heimil skal setja fram sérstakt reiknilíkan fyrir hvert frávik.
6.     Í hverjum áfanga rafræns uppboðs skulu samningsyfirvöld/stofnanir án tafar láta öllum bjóðendum í té a.m.k. nægilegar upplýsingar til að þeir hafi vitneskju um stöðu sína í röðinni hverju sinni. Samningsyfirvöld/stofnanir geta einnig veitt aðrar upplýsingar um önnur atriði varðandi verð og verðmæti, sem hafa verið sett fram, að því tilskildu að þær upplýsingar komi fram í útboðsgögnunum. Þau geta einnig, hvenær sem er, tilkynnt um fjölda bjóðenda í viðkomandi áfanga uppboðs. Þeim er þó aldrei heimilt að upplýsa um nafn bjóðenda á neinu stigi rafræns uppboðs.
7.     Samningsyfirvöld/stofnanir skulu loka rafrænu uppboði með einhverju af eftirfarandi:
a)    í samræmi við fyrir fram ákveðna dagsetningu og tíma, sem tiltekin er í boði um að taka þátt í uppboðinu,
b)    þegar ekki berst lengur nýtt verð eða verðgildi sem uppfyllir kröfur um lágmarksmun. Í því tilviki skulu samningsyfirvöld/stofnanir tiltaka, í boði um að taka þátt í uppboði, þann tíma sem látinn verður líða frá því að tekið er á móti síðasta tilboði og þar til rafræna uppboðinu er lokað,
c)    þegar þeim áföngum uppboðs, sem hafa verið tilteknir í boði um að taka þátt í uppboði, er lokið.
Þegar samningsyfirvöld/stofnanir ákveða að loka rafrænu uppboði í samræmi við c-lið, og hugsanlega einnig samkvæmt þeirri aðferð sem mælt er fyrir um í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hvern áfanga uppboðsins koma fram í boði um að taka þátt í uppboðinu.
8.     Þegar rafrænu uppboði hefur verið lokað skulu samningsyfirvöld/stofnanir gera samning í samræmi við 47. gr. á grundvelli niðurstaðna úr rafræna uppboðinu.
Samningsyfirvöld/stofnanir mega ekki nota rafrænt uppboð á ótilhlýðilegan hátt og ekki heldur á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni eða breyti efni samningsins eins og það var sett fram í birtri útboðstilkynningu og skilgreint í útboðsgögnum.

49. gr.

Óeðlilega lág tilboð

1.     Ef tilboð vegna tiltekins samnings virðast óeðlilega lág miðað við vöru, verk eða þjónustu skal samningsyfirvald/-stofnun, áður en það vísar þessum tilboðum frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem það telur skipta máli.
Þessar upplýsingar geta einkum varðað:
a)    hagkvæmni byggingaraðferðar, framleiðsluferlis eða þjónustu,
b)    tæknilegar lausnir, sem hafa verið valdar, og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, afhendingu vöru eða veitingu þjónustu,
c)    frumleika í tillögum bjóðanda varðandi verk, vöru eða þjónustu,
d)    samræmi við gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem framkvæmd verks, afhending vöru eða veiting þjónustu fer fram,
e)    möguleika bjóðanda á því að fá ríkisstyrki.
2. Samningsyfirvöld/stofnanir skulu sannreyna þessa efnisþætti með viðræðum við bjóðanda, að teknu tilliti til þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.
3.     Ef samningsyfirvald/stofnun kemst að raun um að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi hafi fengið ríkisstyrk er ekki hægt að vísa tilboðinu frá af þeirri ástæðu einni fyrr en samningsyfirvaldið hefur átt viðræður við bjóðanda og hann reynist, að loknum hæfilegum fresti sem samningsyfirvaldið/ stofnunin setur, ófær um að sanna að viðkomandi styrkur hafi verið veittur lögum samkvæmt. Ef samningsyfirvald/stofnun vísar tilboði frá við þessar aðstæður skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það.

III. BÁLKUR
REGLUR UM SAMSKIPTI
I. KAFLI

SAMNINGAR HLUTSKÖRPUSTU BJÓÐENDA, SEM ERU EKKI SAMNINGSYFIRVÖLD/STOFNANIR, VIÐ UNDIRVERKTAKA

50. gr.

Gildissvið

1.     Ef þessi bálkur á við, í samræmi við 3. og 4. mgr. 21. gr., skulu aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að hlutskörpustu bjóðendurnir, sem eru ekki samningsyfirvöld/stofnanir, beiti þeim reglum sem settar eru fram í 51.–53. gr. þegar þeir gera undirverktakasamninga við þriðju aðila.
2.     Fyrirtækjahópar, sem hafa verið myndaðir með það fyrir augum að fá samning, eða fyrirtæki í tengslum við þá skulu, að því er varðar 1. mgr., ekki teljast til þriðju aðila.
Bjóðandinn skal láta tæmandi skrá yfir þess háttar fyrirtæki fylgja tilboði sínu. Skrána skal uppfæra í samræmi við síðari breytingar á tengslum milli fyrirtækjanna.

51. gr.
Meginreglur

Hlutskarpasti bjóðandinn skal starfa á gagnsæjan hátt og meðhöndla alla mögulega undirverktaka jafnt og án mismununar.

52. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir og reglur um auglýsingar

1.     Ef hlutskarpasti bjóðandinn, sem ekki er samningsyfirvald/stofnun, gerir undirverktakasamning sem metinn er að verðmæti, án virðisaukaskatts, ekki lægri en viðmiðunarfjárhæð sem mælt er fyrir um í 8. gr., skal hann tilkynna um fyrirætlan sína.
2.     Tilkynningar um undirverktakasamninga skulu fela í sér upplýsingar sem um getur í V. viðauka og allar aðrar upplýsingar sem hlutskarpasti bjóðandinn álítur gagnlegar, ef nauðsyn krefur með samþykki samningsyfirvalds/stofnunar.
Tilkynningar um undirverktakasamninga skulu gerðar í samræmi við staðlað eyðublað, sem innleitt er af framkvæmdastjórninni í samræmi við ráðgjafarnefndarmeðferð sem um getur í 2. mgr. 67. gr.
3.     Tilkynningarnar skulu birtar í samræmi við 2.–5. mgr. 32. gr.
4.     Ekki skal krafist tilkynningar um undirverktakasamning ef undirverktakasamningur uppfyllir skilyrði 28. gr.
5.     Hlutskörpustu bjóðendur geta, í samræmi við 32. gr., birt tilkynningar um undirverktakasamninga ef auglýsingar er ekki krafist.
6.     Aðildarríki geta einnig kveðið á um að hlutskarpasti bjóðandinn geti uppfyllt kröfur um undirverktöku, sem settar eru fram í 3. eða 4. mgr. 21. gr., með því að gera undirverktakasamning á grundvelli rammasamnings, sem gerður er í samræmi við reglurnar sem settar eru fram í 51. og 53. gr. og í 1.–5. mgr. þessarar greinar.
Undirverktakasamningar sem eru byggðir á þess háttar rammasamningi skulu gerðir innan þeirra marka sem sett eru fram í skilmálum rammasamningsins. Aðeins má gera samningana við rekstraraðila sem voru upphaflegir aðilar að rammasamningnum. Við gerð samninga, skulu aðilar, undir öllum kringumstæðum, leggja til skilmála sem eru í samræmi við skilmála rammasamningsins.
Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en sjö ár, nema í undantekningartilvikum sem ákvörðuð eru með tilliti til áætlaðrar endingar afhentra vara, búnaðar eða kerfa, og tæknilegra erfiðleika sem gætu orðið ef skipt er um birgi.
Ekki má misnota rammasamninga eða nota þá á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni.
7.     Við gerð undirverktakasamninga sem eru lægri að verðmæti, án virðisaukaskatts, en viðmiðunarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í 8. gr., beita hlutskörpustu bjóðendurnir meginreglum sáttmálans varðandi gagnsæi og samkeppni.
8.     Ákvæði 9. gr. gilda um útreikning á áætluðu verðmæti undirverktakasamninga.

53. gr.

Viðmiðanir um hæfismiðað val á undirverktökum

Í tilkynningu um undirverktakasamning, skal hlutskarpasti bjóðandinn upplýsa um viðmiðanir við hæfismiðað val sem samningsyfirvald/stofnun setur fram, auk allra annarra viðmiðana sem það mun beita við hæfismiðað val á undirverktökum. Allar þessar viðmiðanir skulu vera hlutlægar, án mismununar og í samræmi við þær viðmiðanir sem samningsyfirvald/stofnun beitir við val á bjóðendum í meginsamninginn. Sú geta sem krafist er skal vera tengd, með beinum hætti, viðfangsefni undirverktakasamnings, og hæfnisstig sem krafist er skal vera í réttu hlutfalli við hann.
Þess skal ekki krafist að hlutskarpasta bjóðandanum, sem verður fyrir valinu, sé skylt að skipta samningi á undirverktaka ef hann sýnir fram á, með fullnægjandi hætti að mati samningsyfirvalds/stofnunar, að enginn þeirra undirverktaka, sem taka þátt í samkeppninni, eða framlögð tilboð þeirra uppfylli viðmiðin sem sett eru fram í tilkynningu um undirverktakasamning og koma þar með í veg fyrir að hlutskarpasti bjóðandinn uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í meginsamningnum.

II. KAFLI
SAMNINGAR HLUTSKARPASTRA BJÓÐENDA, SEM ERU SAMNINGSYFIRVÖLD/STOFNANIR, VIÐ UNDIRVERKTAKA
54. gr.
Reglur sem skal beita

Ef hlutskörpustu bjóðendur eru samningsyfirvald/ stofnun, skulu þau við gerð undirverktakasamninga fara að ákvæðum um meginsamninga sem mælt er fyrir um í I. og II. bálki.

IV. BÁLKUR
REGLUR SEM SKAL BEITA VIÐ KÆRUMÁL
55. gr.
Gildissvið reglna um meðferð kæru og aðgengi að því

1.     Meðferð reglna um meðferð kæru sem kveðið er á um í þessum bálki gildir um samninga sem um getur í 2. gr. með fyrirvara um undanþágur sem kveðið er á um í 12. og 13. gr.
2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að endurmeta ákvarðanir samningsyfirvalda/stofnana á skilvirkan hátt og svo fljótt sem unnt er, í samræmi við skilmála sem settir eru fram í 56.–62. gr., á þeim forsendum að ákvarðanir þessar brjóti í bága við lög Bandalagsins um opinber innkaup eða reglur sem aðildarríkin hafa sett til að innleiða þau lög.
3.     Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að fyrirtækjum, sem krefjast úrbóta í tengslum við málsmeðferðina við val tilboða, sé ekki mismunað vegna þess greinarmunar sem gerður er í þessum bálki á reglum sem aðildarríkin hafa sett til að framfylgja lögum Bandalagsins og öðrum reglum hvers lands.
4.     Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að a.m.k. allir þeir, er hafa eða hafa haft áhuga á að bjóða í tiltekinn samning og hafa orðið eða gætu orðið fyrir tjóni vegna meints brots, eigi kost á að leggja fram ósk um kærumeðferð samkvæmt reglum sem aðildarríkjunum er heimilt að kveða nánar á um.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að krefjast þess að sá aðili sem hyggst nýta sér reglur um meðferð kæru hafi tilkynnt samningsyfirvaldinu/stofnuninni um meint brot og þann ásetning sinn að óska eftir endurmati, að því tilskildu að þetta hafi ekki áhrif á stöðvunartímabilið í samræmi við 2. mgr. 57. gr. eða annan frest til að óska eftir endurmati, í samræmi við 59. gr.
6.     Aðildarríkjunum er heimilt að krefjast þess að hlutaðeigandi aðili óski eftir endurmati hjá samningsyfirvaldinu/stofnuninni. Í því tilviki ber aðildarríkjunum að sjá til þess að þegar slík ósk um endurmat er lögð fram leiði það þegar í stað til þess að ekki er unnt að gera samninginn.
Aðildarríkjunum ber að ákveða viðeigandi samskiptaaðferð, þ.m.t. símbréf eða rafræna aðferð, sem á að nota þegar lögð er fram ósk um endurmat sem kveðið er á um í fyrstu undirgreininni.
Tímabundnu stöðvuninni, sem um getur í fyrstu undirgrein, lýkur ekki fyrr en frestur, sem er a.m.k. tíu almanaksdagar frá deginum eftir að samningsyfirvaldið/stofnunin hefur sent svar með símbréfi eða rafrænni aðferð, rennur út eða, ef notuð er önnur samskiptaaðferð, áður en liðnir eru annaðhvort 15 almanaksdagar, frá deginum eftir að samningsyfirvaldið sendi svar, eða 10 almanaksdagar, frá deginum eftir að svar var móttekið, hið minnsta.

56. gr.

Kröfur um reglur um meðferð kæru

1.     Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að ráðstafanir þær sem gerðar eru og varða reglur um meðferð kæru, sem um getur í 55. gr., veiti heimild:
a)    til að gera, við fyrsta tækifæri og með bráðabirgðagerð, tímabundnar ráðstafanir í því skyni að uppræta meint brot eða koma í veg fyrir að viðkomandi hagsmunir skaðist frekar, þ.m.t. ráðstafanir til að fresta eða sjá til þess að samningsferlinu sé frestað eða framkvæmd ákvörðunar sem tekin er af samningsyfirvaldi/stofnun, og að fella úr gildi allar ólögmætar ákvarðanir eða sjá til þess að þær verði felldar úr gildi, m.a. með því að fella allar tæknilegar, efnahagslegar eða fjárhagslegar kröfur, sem leiða til mismununar, brott úr útboði, útboðsgögnum eða öðrum skjölum sem hafa með útboð og gerð samnings að gera, eða
b)    til að gera, við fyrsta tækifæri, ef hægt er með bráðabirgðagerð og ef nauðsyn krefur með endanlegri aðgerð varðandi efnið, tímabundnar ráðstafanir aðrar en þær sem kveðið er á um í a-lið í því skyni að uppræta meint brot og koma í veg fyrir að viðkomandi hagsmunir skaðist; einkum möguleika á að krefjast greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, í tilvikum þegar brot hefur ekki verið upprætt eða komið í veg fyrir það.
Í báðum framangreindum tilvikum, skulu heimildir sem kveðið er á um fela í sér heimild til að úthluta skaðabótum til einstaklinga sem verða fyrir skaða vegna brotsins.
2.     Heimildir þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. og 60. og 61. gr. má veita aðskildum aðilum sem fjalla um mismunandi hliðar reglna um meðferð kæru.
3.     Þegar aðili á fyrsta stigi, sem er óháður samningsyfirvaldinu/stofnuninni, endurmetur ákvörðunina um val tilboðs ber aðildarríkjunum að sjá til þess að samningsyfirvaldið/stofnunin geti ekki gert samninginn áður en sá aðili sem fjallar um endurmat hefur tekið ákvörðun um annaðhvort bráðabirgðaráðstafanir eða endurmat. Frestuninni lýkur ekki fyrr en við lok stöðvunartímabilsins sem um getur í 2. mgr. 57. gr. og 4. og 5. mgr. 60. gr.
4.     Nema þar sem kveðið er á um það í 3. mgr. þessarar greinar og 6. mgr. 55. gr., þurfa reglur um meðferð kæru ekki nauðsynlega að leiða sjálfkrafa til tímabundinnar stöðvunar á málsmeðferðinni við útboð og gerð samnings við þann sem endurmatið varðar.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að sá sem fjallar um reglur um meðferð kæru geti tekið mið af neikvæðum afleiðingum sem bráðabirgðaráðstafanir gætu haft í för með sér fyrir alla hagsmunaaðila og hagsmuni almennings að auki, einkum hagsmuni á sviði varnar- og öryggismála, og ákveðið að heimila ekki slíkar ráðstafanir þegar neikvæðar afleiðingar þeirra vega þyngra en kostirnir.
Ákvörðun um að grípa ekki til bráðabirgðaráðstafana hefur ekki áhrif á aðrar kröfur þess aðila sem fer fram á að slíkum ráðstöfunum verði beitt.
6.     Þegar bóta er krafist vegna ólögmætra ákvarðana, er aðildarríkjum heimilt að kveða á um að aðili, sem hefur heimild til þess, hafi áður fellt hina umdeildu ákvörðun úr gildi.
7.     Nema þar sem kveðið er á um það í 60.–62. gr., skal kveða á um í landslögum hvaða áhrif það hafi þegar heimild þeirri sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar er beitt eftir að samningsaðili hefur verið valinn og samningur gerður.
Aðildarríkjum er enn fremur heimilt að kveða á um, nema ógilding ákvörðunar sé skilyrði fyrir skaðabótum, að hafi samningur verið gerður í samræmi við 6. mgr. 55 gr., 3. mgr. þessarar greinar eða 57.–62. gr., skuli umboð þess aðila sem fjallar um reglur um meðferð kæru takmarkast við að dæma skaðabætur til allra sem kunna að hafa orðið fyrir tjóni vegna brots.
8.     Aðildarríkjunum ber að sjá til þess að framfylgja megi með árangri ákvörðunum þeirra aðila sem fjalla um reglur um meðferð kæru.
9.     Þegar aðilar, aðrir en dómstólar, fjalla um reglur um meðferð kæru, skulu þeir ávallt rökstyðja ákvarðanir sínar skriflega. Í þeim tilvikum skal enn fremur sjá til þess að unnt sé að áfrýja meintum ólögmætum ráðstöfunum þessara aðila eða meintri misbeitingu heimildar, sem þeim hefur verið veitt, til dómstóls eða nefndar sem hefur úrskurðarvald samkvæmt skilgreiningu 234. gr. sáttmálans og er óháð bæði samningsyfirvöldum/stofnunum og aðila þeim sem fjallaði um endurmat.
Aðilar þessarar óháðu nefndar skulu skipaðir og leystir frá störfum af sama yfirvaldi og samkvæmt sömu skilmálum og gilda um dómara, tilnefningu þeirra, kjörtímabil og brottvikningu úr embætti á kjörtímabili. Þess er krafist að formaður hinnar óháðu nefndar, að minnsta kosti, búi yfir sömu lögfræðilegu sérþekkingu og dómari. Ákvörðun sem tekin er af óháða aðilanum telst bindandi samkvæmt ákvæðum sem aðildarríkin fastsetja.
10.     Aðildarríki skulu sjá til þess að aðilarnir, sem bera ábyrgð á reglum um meðferð kæru, tryggi viðeigandi þagnarskyldu varðandi trúnaðarupplýsingar eða aðrar upplýsingar sem eru í þeim skrám sem aðilarnir senda, og starfi í samræmi við varnar- og öryggishagsmuni í öllu ferlinu.
Í þessu skyni getur aðildarríki ákvarðað að tiltekinn aðili hafi einn lögsögu varðandi meðferð endurmats að því er varðar svið varnar- og öryggismála.
Í öllum tilvikum geta aðildarríki kveðið á um að einungis fulltrúar aðila, sem fjalla um endurmat, sem hafa persónulega heimild til að sýsla með trúnaðarupplýsingar, hafi heimild til að taka ósk um endurmat til meðferðar sem felur í sér þess háttar upplýsingar. Þau geta einnig gert sértækar öryggisráðstafanir varðandi skráningu óska um endurmat, móttöku gagna og geymslu skráa.
Aðildarríki skulu setja nánari reglur um hvernig aðilar sem fjalla um endurmat skulu samræma þagnarskyldu varðandi trúnaðarupplýsingar með tilliti til réttinda varnaraðila og, ef um er að ræða úrskurð dómstóla eða meðferðar aðila sem er réttur eða dómstóll í skilningi 234. gr. sáttmálans, gera það með þeim hætti að málsmeðferðin sé í heild sinni í samræmi við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

57. gr.
Stöðvunartímabil

1.     Aðildarríkjum ber að sjá til þess að þeir aðilar, sem um getur í 4. mgr. 55. gr., hafi nægan tíma til skilvirkrar endurskoðunar á ákvörðunum samningsyfirvalda/stofnana um val tilboðs með því að samþykkja nauðsynleg ákvæði sem virða þá lágmarksskilmála sem eru settir fram í 2. mgr. þessarar greinar og í 59. gr.
2.     Ekki er heimilt að gera samning í kjölfar ákvörðunar um val tilboðs sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar áður en fresturinn, sem er a.m.k. 10 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðs er send til hlutaðeigandi bjóðenda og þátttakenda með símbréfi eða rafrænum aðferðum, rennur út eða, ef önnur samskiptaaðferð er notuð, áður en frestur, sem er a.m.k. annaðhvort 15 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðsins er send til hlutaðeigandi bjóðenda og þátttakenda eða a.m.k. 10 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðsins er móttekin, rennur út.
Bjóðendur teljast eiga hlut að máli ef þeir hafa ekki enn verið endanlega útilokaðir. Útilokun er endanleg ef hún hefur verið tilkynnt hlutaðeigandi bjóðendum og óháður aðili sem fjallar um kærur telur það vera lögmætt eða ekki er lengur unnt að fella hana undir reglur um meðferð kæru.
Þátttakendur teljast eiga hlut að máli ef samningsyfirvaldið/stofnunin hefur ekki greint frá upplýsingum um að beiðni þeirra hafi verið hafnað áður en hlutaðeigandi bjóðendum var tilkynnt um ákvörðunina um val tilboðs.
Orðsendingu til hvers og eins hlutaðeigandi bjóðanda og þátttakanda um ákvörðunina um að gera samning skal fylgja eftirfarandi:
–    samantekt á viðeigandi ástæðum, sem eru settar fram í 2. mgr. 35. gr., með fyrirvara um 3. mgr. 35. gr., og
–    greinargóð yfirlýsing um nákvæma lengd stöðvunartímabilsins sem gildir samkvæmt ákvæðum landslaga sem lögleiða þessa málsgrein.

58. gr.

Undanþágur frá stöðvunartímabilinu

Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að fresturinn, sem um getur í 2. mgr. 57. gr., gildi ekki í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef í þessari tilskipun er ekki gerð krafa um undangengna birtingu útboðstilkynningar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins,
b)    ef eini hlutaðeigandi bjóðandinn í skilningi 2. mgr. 57. gr. er sá sem á tilboðið sem er valið og ekki eru neinir hlutaðeigandi þátttakendur,
c)    ef um er að ræða samning sem byggist á rammasamningi eins og kveðið er á um í 29. gr.
    Ef skírskotað er til þessarar undanþágu ber aðildarríkjunum að sjá til þess að samningurinn sé óvirkur í samræmi við 60. og 62. gr. ef:
    –    brot á sér stað á öðrum lið annars undirliðar 4. mgr. 29. gr., og
    –    verðmæti samningsins er álitið vera jafnt eða meira en viðmiðunarfjárhæðirnar sem eru settar fram í 8. gr.

59. gr.

Frestur til að beita kærum

Þegar aðildarríki kveður á um að leggja verði fram allar óskir um endurmat vegna ákvörðunar samningsyfirvalds/stofnunar, sem var tekin með tilliti til eða í tengslum við málsmeðferð við val tilboðs sem fellur undir þessa tilskipun, áður en tiltekinn frestur rennur út, skal þessi frestur vera a.m.k. 10 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðun samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar er send bjóðandanum eða þátttakandanum með símbréfi eða rafrænum aðferðum, eða, ef önnur samskiptaaðferð er notuð, skal þessi frestur vera a.m.k. 15 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðun samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar er send bjóðandanum eða þátttakandanum, eða a.m.k. 10 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðun samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar er móttekin. Orðsendingu til hvers og eins bjóðanda eða þátttakanda um ákvörðun samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar skal fylgja samantekt viðeigandi ástæðna. Þegar um er að ræða að leggja fram ósk um endurmat varðandi ákvarðanir, sem um getur í b-lið 1. mgr. 56. gr. sem eru ekki bundnar af sérstakri auglýsingu, skal fresturinn vera a.m.k. 10 almanaksdagar frá þeim degi þegar hlutaðeigandi ákvörðun er birt.

60. gr.

Óvirkni

1.     Aðildarríkjunum ber að ganga úr skugga um að aðili, sem fjallar um endurmat og er óháður samningsyfirvaldinu/-stofnuninni, líti svo á að samningur sé óvirkur eða að hann sé óvirkur vegna ákvörðunar slíks aðila í öllum eftirfarandi tilvikum:
a)    ef samningsyfirvaldið/stofnunin hefur valið tilboð án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins án þess að það sé leyfilegt í samræmi við þessa tilskipun,
b)    ef um er að ræða brot á 6. mgr. 55. gr., 3. mgr. 56. gr. eða 2. mgr. 57. gr., og þetta brot hefur svipt bjóðanda, sem leggur fram ósk um endurmat, þeim möguleika að sækjast eftir úrræðum áður en samningur er gerður þegar slíkt brot er tengt broti á I. og II. bálki, ef það brot hefur haft áhrif á möguleika bjóðandans, sem leggur fram ósk um endurmat, að fá samninginn,
c)    ef aðildarríkin hafa, í þeim tilvikum sem um getur í annarri undirgrein c-liðar 58. gr., skírskotað til undanþágunnar frá stöðvunartímabilinu að því er varðar samninga á grundvelli rammasamnings.
2.     Í landslögum skal kveðið á um afleiðingar þess að samningur er talinn óvirkur. Í landslögum má kveða á um afturvirka uppsögn á öllum samningsbundnum skuldbindingum eða takmarkað gildissvið uppsagnarinnar við þær skuldbindingar sem hafa ekki enn verið gerðar. Í síðara tilvikinu ber aðildarríkjunum að kveða á um beitingu annarra viðurlaga í skilningi 2. mgr. 61. gr.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að aðila, sem fjallar um endurmat og er óháður samningsyfirvaldinu/-stofnuninni, sé ekki heimilt að telja samning óvirkan, jafnvel þótt tilboð í hann hafi verið valið á ólöglegan hátt, á þeim forsendum sem um getur í 1. mgr., ef aðilinn kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa kannað alla þætti sem málið varðar, að brýnir almannahagsmunir, fyrst og fremst í tengslum við varnar- og öryggishagsmuni, krefjist þess að samningurinn skuli áfram vera virkur.
Efnahagslegir hagsmunir af virkni samnings teljast einungis brýnir almannahagsmunir í skilningi fyrstu undirgreinar, ef óvirkni myndi hafa í för með sér óhóflegar afleiðingar.
Efnahagslegir hagsmunir, sem tengjast hlutaðeigandi samningi beint, skulu þó ekki teljast brýnir almannahagsmunir í skilningi fyrstu undirgreinar. Efnahagslegir hagsmunir, sem tengjast samningnum beint, eru m.a. kostnaður sem hlýst af töf við framkvæmd samningsins, kostnaður sem hlýst af því að nýju innkaupaferli er hrint af stað, kostnaður sem hlýst af því að skipt er um rekstraraðila sem annast samninginn og kostnaður vegna lagalegra skuldbindinga sem hljótast af því að samningurinn er óvirkur.
Samningur má ekki vera álitinn óvirkur ef afleiðingar óvirkninnar myndu stofna í hættu tilvist varnar- eða öryggisáætlunar, sem nauðsynleg er vegna öryggishagsmuna aðildarríkis, í víðara samhengi.
Í öllum ofangreindum tilvikum ber aðildarríkjunum að kveða á um annars konar viðurlög, í skilningi 2. mgr. 61. gr., sem skal beita í staðinn.
4.     Aðildarríkjum ber að kveða á um að 1. mgr. a gildi ekki ef:
–    samningsyfirvaldið/stofnunin telur að val tilboðs án undangenginnar birtingar útboðsauglýsingar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins sé leyfilegt í samræmi við þessa tilskipun,
–    samningsyfirvaldið/stofnunin hefur birt auglýsingu, eins og lýst er í 64. gr. í þessari tilskipun, í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins þess efnis að ætlunin sé að gera samninginn og
–    samningurinn hefur ekki verið gerður áður en frestur, sem er að lágmarki 10 almanaksdagar frá deginum eftir að auglýsingin er birt, rennur út.
5.     Aðildarríkjum ber að kveða á um að 1. mgr. c gildi ekki ef:
–    samningsyfirvald/stofnun telur að gerð samnings sé í samræmi við annan undirlið annarrar undirgreinar 4. mgr. 29. gr.,
–    samningsyfirvaldið/stofnunin hefur sent ákvörðun um val tilboðs til hlutaðeigandi bjóðenda, ásamt samantekt á ástæðum, eins og um getur í fyrsta undirlið fjórðu undirgreinar 2. mgr. 57. gr. og
–    samningurinn hefur ekki verið gerður áður en frestur, sem er a.m.k. 10 almanaksdagar og gildir frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðsins er send til hlutaðeigandi bjóðenda með símbréfi eða rafrænum aðferðum, rennur út eða, ef önnur samskiptaaðferð er notuð, áður en frestur, sem er a.m.k. 15 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðsins er send til hlutaðeigandi bjóðenda, eða a.m.k. 10 almanaksdagar frá deginum eftir að ákvörðunin um val tilboðsins er móttekin, rennur út.

61. gr.


Brot á þessum bálki og annars konar viðurlög

1.     Þegar um er að ræða brot á 6. mgr. 55. gr., 3. mgr. 56. gr. eða 2. mgr. 57. gr., sem fellur ekki undir b-lið 1. mgr. 60. gr., ber aðildarríkjunum að kveða á um að samningur sé óvirkur í samræmi við 1.–3. mgr. 60. gr. eða kveða á um annars konar viðurlög. Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að aðili, sem fjallar um endurmat og er óháður samningsyfirvaldinu/stofnuninni, skuli ákveða, eftir að hann hefur metið alla viðeigandi þætti, hvort telja beri samninginn óvirkan eða hvort beita eigi annars konar viðurlögum.
2.     Annars konar viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Annars konar viðurlög eru:
–    sektir sem eru lagðar á samningsyfirvaldið/ stofnunina eða
    stytting gildistíma samningsins,
Aðildarríkjunum er heimilt að fela aðilanum, sem fjallar um endurmat, víðtækar heimildir til að taka tillit til allra viðeigandi þátta, þar á meðal þess hversu alvarlegt brotið er, framkomu samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar og, í tilvikum sem um getur í 2. mgr. 60. gr., þess að hvaða marki samningurinn helst í gildi.
Skaðabætur teljast ekki vera viðeigandi viðurlög að því er þessa málsgrein varðar.

62. gr.

Frestur

1.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að leggja verði fram ósk um endurmat í samræmi við 1. mgr. 60. gr:
a)    áður en 30 almanaksdagar, að lágmarki, eru liðnir frá deginum eftir að:
    –    samningsyfirvaldið/stofnunin birtir auglýsingu um val tilboðs í samræmi við 3. mgr. 30. gr. og 31. og 32. gr., að því tilskildu að þessi auglýsing feli í sér rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun samningsyfirvaldsins/stofnunarinnar að velja tilboð án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, eða
    –    samningsyfirvaldið/stofnunin gerði hlutaðeigandi bjóðendum og þátttakendum grein fyrir gerð samningsins, að því tilskildu að þessar upplýsingar feli í sér samantekt á ástæðum sem málið varða og eru settar fram í 2. mgr. 35. gr., með fyrirvara um 3. mgr. 35. gr. Þessi möguleiki gildir einnig um tilvik sem um getur í c-lið 58. gr. og,
b)    hvað sem öðru líður, áður en frestur, sem er a.m.k. sex mánuðir frá deginum eftir að samningur er gerður, rennur út.
2.     Í öllum öðrum tilvikum, þ.m.t. þegar lagðar eru fram óskir um endurmat í samræmi við 1. mgr. 61. gr., skal fresturinn til að leggja fram ósk um endurmat ákvarðast af landslögum, með fyrirvara um 59. gr.

63. gr.
Leiðréttingaraðferð

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að grípa til málsmeðferðarinnar, sem kveðið er á um í 2.–5. mgr., þegar hún telur, áður en gengið er frá samningum, að alvarlegt brot á lögum Bandalagsins um opinber innkaup hafi verið framið við útboð og gerð samnings sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar.
2.     Framkvæmdastjórnin tilkynnir hlutaðeigandi aðildarríki um ástæðurnar fyrir því að hún telur að alvarlegt brot hafi verið framið og fer fram á að það verði leiðrétt með viðeigandi hætti.
3.     Hlutaðeigandi aðildarríki sendir framkvæmdastjórninni, innan 21 almanaksdags frá því að auglýsingin, sem um getur í 2. mgr., berst:
a)    staðfestingu á því að brotið hafi verið leiðrétt,
b)    greinargerð um ástæðurnar fyrir því að engar úrbætur hafi verið gerðar, eða
c)    auglýsingu þess efnis að útboð og gerð samnings hafi verið stöðvuð tímabundið, annaðhvort að frumkvæði samningsstofnunar eða samkvæmt heimild þeirri sem getið er um í a-lið 1. mgr. 56. gr.
4.     Greinargerð í samræmi við b-lið 3. mgr. getur m.a. vísað til þess að hið meinta brot sé þegar til umfjöllunar fyrir dómstólum eða hjá öðrum aðilum sem fjalla um endurmat eins og getið er í 9. mgr. 56. gr. Í því tilviki tilkynnir aðildarríkið framkvæmdastjórninni um niðurstöður þessarar umfjöllunar um leið og þær eru kunnar.
5.     Þegar tilkynnt hefur verið um tímabundna stöðvun málsmeðferðar við útboð og gerð samnings í samræmi við c-lið 3. mgr. tilkynnir aðildarríkið framkvæmdastjórninni um það þegar tímabundnu stöðvuninni er aflétt eða önnur samningsgerð, sem tengist að hluta eða öllu leyti sama viðfangsefni, er hafin. Í nýju tilkynningunni skal staðfesta að meint brot hafi verið upprætt eða gera grein fyrir ástæðunum fyrir því að engar úrbætur hafi verið gerðar.

64. gr.

Efni auglýsingar að því er varðar valfrjálst gagnsæi fyrir fram

Í auglýsingunni, sem um getur í öðrum undirlið 4. mgr. 60. gr., en framkvæmdastjórnin skal samþykkja form hennar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 67. gr., skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:
a)    nafn og samskiptaupplýsingar samningsyfirvalds/ -stofnunar,
b)     lýsing á markmiði samningsins,
c)    rökstuðningur fyrir ákvörðun samningsyfirvaldsins/-stofnunarinnar um val tilboðs án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins,
d)    nafn og samskiptaupplýsingar rekstraraðilans, sem ákveðið hefur verið að gera samninginn við, og
e)    ef við á, allar aðrar upplýsingar sem samningsyfirvaldið/-stofnunin telur gagnlegar.

V. HLUTI
SKYLDAN AÐ VEITA TÖLULEGAR UPPLÝSINGAR, FRAMKVÆMDARVALD OG LOKAÁKVÆÐI
65. gr.
Skyldan að veita tölulegar upplýsingar

Til að unnt sé að meta árangurinn af beitingu þessarar tilskipunar, skulu aðildarríkin, eigi síðar en 31. október ár hvert, senda framkvæmdastjórninni tölulega skýrslu sem, í samræmi við 66. gr., er samin sérstaklega fyrir hverja tegund samnings, vörusamninga, þjónustusamninga og verksamninga sem samningsyfirvöld/stofnanir hafa gert árið áður.

66. gr.
Inntak tölulegrar skýrslu

Í tölulegri skýrslu skal tilgreina fjölda og virði gerðra samninga, sem aðildarríki eða þriðja land hlutskarpasta bjóðanda hefur gert. Í henni skal fjalla sérstaklega um hverja tegund samnings, um vöru-, þjónustu- og verksamninga.
Þau gögn sem um getur í fyrstu málsgrein skulu sundurliðuð í samræmi við ferlið sem notað er og skulu tilgreina, fyrir hvert ferli, vörur, þjónustu og verk, skilgreind eftir hópum í flokkunarkerfi sameiginlega innkaupaorðasafnsins.
Ef samningar hafa verið gerðir á grundvelli samningskaupa, án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar, skal einnig sundurliða gögnin sem um getur í fyrstu málsgrein samkvæmt aðstæðum sem um getur í 28. gr.
Ákveða skal inntak tölulegu skýrslunnar í samræmi við ráðgjafarnefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 67. gr.

67. gr.

Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar ráðgjafarnefndarinnar um opinbera samninga, sem stofnuð var með 1. gr. ákvörðunar ráðsins 71/306/ EBE (hér á eftir kölluð „nefndin“).
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Að því er varðar endurskoðun viðmiðunarfjárhæða sem mælt er fyrir um í 8. gr., skal fastsetja fresti sem mælt er fyrir um í c-lið 3. mgr. 5. gr. a, b- og e-lið 4. mgr. ákvörðunar 1999/468/EB, til fjögurra, tveggja og sex vikna eftir því sem við á, með tilliti til tímatakmarkana vegna útreikninga- og birtingaraðferðir sem mælt er fyrir um í öðrum undirlið 1. mgr. 69. gr. og 3. mgr. 69. gr. tilskipunar 2004/17/EB.
4.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1., 2., 4. og 6. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

68. gr.

Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða

1.     Á sama tíma og endurskoðun viðmiðunarfjárhæða, sem mælt er fyrir um í tilskipun 2004/17/EB og um getur í 69. gr. hennar, á sér stað, skal framkvæmdastjórnin einnig endurskoða viðmiðunarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í 8. gr. þessarar tilskipunar með því að samræma:
a)    viðmiðunarfjárhæðina, sem fastsett er í a-lið 8. gr. þessarar tilskipunar, við endurskoðaða viðmiðunarfjárhæð sem mælt er fyrir um í a-lið 16. gr. tilskipunar 2004/17/EB,
b)    viðmiðunarfjárhæðina, sem fastsett er í b-lið 8. gr. þessarar tilskipunar, við endurskoðaða viðmiðunarfjárhæð sem mælt er fyrir um í b-lið 16. gr. tilskipunar 2004/17/EB.
Þessi endurskoðun og samræming, sem er ætlað að breyta þeim þáttum þessarar tilskipunar sem ekki teljast grundvallaratriði, skulu framkvæmdar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 67. gr. Ef málefnið er mjög brýnt er framkvæmdastjórninni heimilt að grípa til flýtimeðferðarinnar sem um getur í 4. mgr. 67. gr.
2.     Verðgildi viðmiðunarfjárhæða, sem fastsettar eru skv. 1. mgr., í innlendum gjaldmiðli aðildarríkja sem ekki hafa tekið upp evru, skal samræmt verðgildi viðmiðunarfjárhæða sem kveðið er á um í tilskipun 2004/17/EB sem um getur í 1. mgr., reiknað út í samræmi við annan undirlið 2. mgr. 69. gr. tilskipunar 2004/17/EB.
3.     Framkvæmdastjórnin skal birta endurskoðuðu viðmiðunarfjárhæðirnar, sem um getur í 1. mgr., og samsvarandi verðgildi í innlendum gjaldmiðli í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í upphafi næsta nóvembermánaðar eftir endurskoðun.

69. gr.

Breytingar

1.     Framkvæmdastjórnin hefur heimild til að breyta eftirfarandi í samræmi við ráðgjafarnefndarmeðferð sem um getur í 2. mgr. 67. gr.:
a)    reglum um samningu, sendingu, móttöku, þýðingu, söfnun og dreifingu auglýsinga sem um getur í 30. gr. og tölulegar skýrslur sem kveðið er á um í 65. gr.,
b)    reglum um sendingu og birtingu gagna, sem um getur í VI. viðauka, á grundvelli tækniþróunar eða af stjórnunarlegum ástæðum,
c)    lista yfir skrár, yfirlýsingar og vottorð, sem sett eru fram í VII. viðauka, á grundvelli auglýsinga frá aðildarríkjum, ef nauðsyn krefur.
2.     Framkvæmdastjórnin getur, í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 3. mgr. 67. gr., breytt eftirfarandi þáttum þessarar tilskipunar, sem ekki teljast grundvallarþættir:
a)    tilvísunarnúmerum til flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins, sem sett eru fram í I. og II. viðauka, að svo miklu leyti sem það breytir ekki efnislegu gildissviði þessarar tilskipunar, og reglunum um tilvísun í auglýsingum til tiltekinna titla í sameiginlega innkaupaorðasafninu innan þjónustuflokka sem skráðir eru í viðaukunum,
b)    tæknilegum atriðum og eiginleikum búnaðar fyrir rafræna mótttöku sem um getur í a-, f- og g-lið VIII. viðauka.
Ef málefnið er mjög brýnt er framkvæmdastjórninni heimilt að grípa til flýtimeðferðarinnar sem um getur í 4. mgr. 67. gr.

70. gr.
Breyting á tilskipun 2004/17/EB

Eftirfarandi grein er felld inn í tilskipun 2004/17/EB:
„Grein 22a
Samningar á sviði varnar- og öryggismála
Þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og um breytingu á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB gildir um, né um samninga sem sú tilskipun gildir ekki um skv. 8., 12. og 13. gr. hennar.“

71. gr.
Breyting á tilskipun 2004/18/EB

Í stað 10. gr. tilskipunar 2004/18/EB komi eftirfarandi:
„10. gr.
Samningar á sviði varnar- og öryggismála
Með fyrirvara um 296. gr. sáttmálans, gildir þessi tilskipun um opinbera samninga, sem gerðir eru á sviði varnar- og öryggismála, að undanskildum samningum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu reglna um útboð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála gildir um.
Þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem tilskipun 2009/81/EB gildir um skv. 8., 12. og 13. gr. hennar.“

72. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 21. ágúst 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

73. gr.
Endurskoðun og skýrslugjöf

1.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 21. ágúst 2012, leggja fram skýrslu um ráðstafanir sem aðildarríki gera með það í huga að lögleiða þessa tilskipun, einkum 21. gr. og 50. til 54. gr. hennar.
2.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða hvernig framkvæmd þessarar tilskipunar miðar og skila skýrslu um það til Evrópuþingsins og ráðsins fyrir 21. ágúst 2016. Hún skal einkum meta hvort, og að hve miklu leyti, markmið þessarar tilskipunar hafi náðst með tilliti til starfsemi innri markaðarins og þróunar evrópsks markaðar með varnarbúnað og evrópska varnargeirans að því er varðar tækni og iðnað, með hliðsjón, m.a., af aðstæðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Skýrslunni skal fylgja tillaga að lagafrumvarpi, ef við á.
3.     Framkvæmdastjórnin skal einnig endurskoða beitingu 1. mgr. 39. gr., með því að rannsaka sérstaklega hagkvæmni þess að samhæfa skilyrði við endurskipun þátttakenda og bjóðenda, sem hafa áður fengið sakfellingu sem útilokaði þá frá þátttöku í opinberum innkaupum, og skal, ef við á, leggja fram tillögu að nýrri löggjöf hvað þetta varðar.


74. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

75. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 13. júlí 2009.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING E. ERLANDSSON
forseti. forseti.

I.VIÐAUKI


Þjónusta sem um getur í 2. og 15. gr.

Flokkur nr. Viðfangsefni CPV-tilvísunarnúmer
1 Viðhalds- og viðgerðarþjónusta 50 000 000-5, frá 50 100 000-6 til 50 884 000-5 (nema 50 310 000-1 til 50 324 200-4 og 50 116 510-9, 50 190 000-3, 50 229 000-6, 50 243 000-0) og frá 51 000 000-9 til 51 900 000-1
2 Þjónusta, tengd hernaðaraðstoð erlendis 75 211 300-1
3 Þjónusta, tengd varnarmálum, þjónusta, tengd hervörnum, og þjónusta, tengd almannavörnum 75 220 000-4, 75 221 000-1, 75 222 000-8
4 Eftirgrennslan og öryggisþjónusta Frá 79 700 000-1 til 79 720 000-7
5 Landflutningaþjónusta 60 000 000-8, frá 60 100 000-9 til 60 183 000-4 (nema 60 160 000-7, 60 161 000-4) og frá 64 120 000-3 til 64 121 200-2
6 Farþega- og vöruflutningar í lofti, að frátöldum póstflutningum 60 400 000-2, frá 60 410 000-5 til 60 424 120-3 (nema 60 411 000-2, 60 421 000-5), frá 60 440 000-4 til 60 445 000-9 og 60 500 000-3
7 Póstflutningar í landi og í lofti 60 160 000-7, 60 161 000-4, 60 411 000-2, 60 421 000-5
8 Flutningsþjónusta á járnbrautum Frá 60 200 000-0 til 60 220 000-6
9 Flutningar á sjó og vatnaleiðum Frá 60 600 000-4 til 60 653 000-0 og frá 63 727 000-1 til 63 727 200-3
10 Stuðnings- og stoðþjónusta í tengslum við flutninga Frá 63 100 000-0 til 63 111 000-0, frá 63 120 000-6 til 63 121 100-4, 63 122 000-0, 63 512 000-1 og frá 63 520 000-0 til 6 370 000-6
11 Fjarskiptaþjónusta Frá 64 200 000-8 til 64 228 200-2, 72 318 000-7 og frá 72 700 000-7 til 72 720 000-3
12 Fjármálaþjónusta: Vátryggingaþjónusta Frá 66 500 000-5 til 66 720 000-3
13 Tölvur og tölvuþjónusta Frá 50 310 000-1 til 50 324 200-4, frá 72 000 000-5 til 72 920 000-5 (nema 72 318 000-7 og frá 72 700 000-7 til 72 720 000-3), 79 342 410-4, 9 342 410-4
14 Þjónusta, tengd rannsóknum og þróun (1) og matspróf Frá 73 000 000-2 til 73 436 000-7
15 Reikningshald, endurskoðun og bókhaldsþjónusta Frá 79 210 000-9 til 79 212 500-8
16 Rekstrarráðgjöf og skyld þjónusta (2) Frá 73 200 000-4 til 73 220 000-0, frá 79 400 000-8 til 79 421 200-3 og 79 342 000-3, 79 342 100-4, 79 342 300-6, 79 342 320-2, 79 342 321-9, 79 910 000-6, 79 991 000-7 og 98 362 000-8
17 Arkitektaþjónusta, verkfræðiþjónusta og samþætt verkfræðiþjónusta, þjónusta á sviði borgar- og landslagsskipulags, vísindaleg og tæknileg ráðgjöf sem tengist þessum greinum, tækniprófanir og greining Frá 71 000 000-8 til 71 900 000-7 (nema 71 550 000-8) og 79 994 000-8
18 Ræstingar- og húsvarðaþjónusta Frá 70 300 000-4 til 70 340 000-6 og frá 90 900 000-6 til 90 924 000-0
19 Skólpveitur, sorpförgun, hreinsunardeildir og skyld starfsemi Frá 90 400 000-1 til 90 743 200-9 (nema 90 712 200-3), frá 90 910 000-9 til 90 920 000-2 og 50 190 000-3, 50 229 000-6, 50 243 000-0
20 Þjálfunar- og hermunarþjónusta á sviði varnar- og öryggismála 80 330 000-6, 80 600 000-0, 80 610 000-3, 80 620 000-6, 80 630 000-9, 80 640 000-2, 80 650 000-5, 80 660 000-8
(1)     Að frátalinni annarri þjónustu, tengdri rannsóknum og þróun, en þeirri sem um getur í j-lið 13. gr.
(2)     Að frátalinni þjónustu vegna gerðardómsmeðferðar og sáttaumleitana.

II. VIÐAUKI


Þjónusta sem um getur í 2. og 16. gr.

Flokkur nr. Viðfangsefni CPV-tilvísunarnúmer
21 Hótel- og veitingahúsarekstur Frá 55 100 000-1 til 55 524 000-9 og frá 98 340 000-8 til 98 341 100-6
22 Stuðnings- og stoðþjónusta í tengslum við flutninga Frá 63 000 000-9 til 63 734 000-3 (nema 63 711 200-8, 63 712 700-0, 63 712 710-3) frá 63 727 000-3 til 63 727 200-3 og 98 361 000-1
23 Lögfræðiþjónusta Frá 79 100 000-5 til 79 140 000-7
24 Vinnumiðlun og ráðningarþjónusta (1) Frá 79 600 000-0 til 79 635 000-4 (nema 79 611 000-0, 79 632 000-3, 79 633 000-0) og frá 98 500 000-8 til 98 514 000-9
25 Heilbrigðisþjónusta og félagsþjónusta 79 611 000-0 og frá 85 000 000-9 til 85 323 000-9 (nema 85 321 000-5 og 85 322 000-2)
26 Önnur þjónusta
(1)     Að frátöldum ráðningarsamningum.

III. VIÐAUKI
Skilgreining á tilteknum tækniforskriftum sem um getur í 18. gr.

Í þessari tilskipun gilda eftirfarandi hugtök:
1.     a)         „tækniforskriftir“, þegar um er að ræða verksamninga: öll tæknileg fyrirmæli sem eru sérstaklega tekin fram í útboðsgögnum þar sem skilgreindir eru þeir eiginleikar sem krafist er fyrir efni, vöru eða aðföng sem gera það kleift að lýsa efninu, vörunni eða aðföngunum á þann hátt að það uppfylli kröfur um þá notkun sem samningsyfirvald/stofnun hefur fyrirhugað. Þessir eiginleikar skulu taka til tiltekins vistvænleika, hönnunar sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismats, nothæfis, öryggis eða umfangs, þ.m.t. málsmeðferð við gæðatryggingu, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merking og áletranir, framleiðsluferli og aðferðir. Þeir skulu einnig taka til reglna um hönnun og kostnaðarútreikninga, skilmála um prófun, eftirlit og samþykki verka og aðferða eða byggingartækni ásamt öllum öðrum tæknilegum skilyrðum sem samningsyfirvaldið getur sett samkvæmt almennum eða sérstökum reglum um verk sem er að fullu lokið og efni og hluta sem til þess teljast,
    b)        „tækniforskrift“, þegar um er að ræða vöru- eða þjónustusamninga: forskrift í skjali þar sem skilgreindir eru umbeðnir eiginleikar vöru eða þjónustu, s.s. gæði og vistvænleiki, hönnun sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismat, nothæfi, notkun vörunnar, öryggi eða stærðir, þ.m.t. kröfur varðandi viðskiptaheiti, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merkingu og áletranir, notendaleiðbeiningar, framleiðsluferli og -aðferðir og aðferðir við samræmismat,
2.    „staðall“: tækniforskrift, samþykkt af viðurkenndri staðlastofnun til endurtekinnar eða stöðugrar notkunar án þess að skylt sé að fylgja henni og sem fellur undir eftirtalda flokka:
               alþjóðlegur staðall: staðall sem er aðlagaður af alþjóðlegri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,
               Evrópustaðall: staðall sem er samþykktur af evrópskri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,
               innlendur staðall: staðall sem er samþykktur af innlendri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,
3.    „varnarmálastaðall“: tækniforskrift, sem ekki er skylt að fylgja, og sem er samþykkt af staðlastofnun sem sérhæfir sig í gerð tækniforskrifta fyrir endurtekna eða stöðuga beitingu á sviði varnarmála,
4.    „evrópskt tæknisamþykki“: jákvætt, tæknilegt mat á nothæfi vöru í ákveðnum tilgangi, gefið á grundvelli þess að innbyggðir eiginleikar vörunnar og skilgreind skilyrði um nýtingu og notkun uppfylli grunnkröfur um byggingarframkvæmdir. Evrópskt tæknisamþykki skal gefið út af samþykktaraðila sem aðildarríkið tilnefnir,
5.    „sameiginleg tækniforskrift“: tækniforskrift sem mælt er fyrir um í samræmi við málsmeðferð, sem aðildarríkin viðurkenna, og hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins,
6.    „tækniviðmiðun“: hvers konar framleiðsla evrópskra staðlastofnana, annað en opinberir staðlar, í samræmi við reglur sem settar eru vegna þróunar á markaðsþörfum.

IV. VIÐAUKI

Upplýsingar sem skulu vera í auglýsingunum sem um getur í 30. gr.

AUGLÝSING UM BIRTINGU KYNNINGARAUGLÝSINGA Í UPPLÝSINGASKRÁ KAUPANDA
1.     Heimaland samningsyfirvalds/stofnunar
2.     Heimaland samningsyfirvalds/stofnunar
3.     Netfang „upplýsingaskrár kaupanda“ (URL)
4.     CPV-flokkunarnúmer
KYNNINGARAUGLÝSING
1.    Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalds/stofnunar og, ef ástæða er til, samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar um, ef slík þjónusta er fyrir hendi, og, þegar um er að ræða þjónustu- og verksamninga, um upplýsingaaðila, t.d. heimasíðu viðkomandi stjórnvalds, þar sem hægt er að fá upplýsingar um regluverk fyrir skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuaðstæður sem gildir á staðnum þar sem samningurinn kemur til framkvæmda.
2.    Ef við á skal tilgreina hvort samningurinn sé bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkist við áætlanir um verndaða vinnu.
3.    Þegar um er að ræða verksamninga: hvers eðlis verkið er og umfang þess og staðinn þar sem verkið er framkvæmt, helstu eiginleika verkhluta miðað við verkið allt ef skipta á verkinu, áætlað kostnaðarbil fyrirhugaðra verka, ef það liggur fyrir, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins.
    Ef um er að ræða vörusamninga: eðli og umfang eða verðmæti vörunnar sem á að afhenda, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins.
    Ef um er að ræða þjónustusamninga: heildarfjárhæð fyrirhugaðra kaupa í hverjum og einum þjónustuflokki og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins.
4.    Áætluð dagsetning dagsins þegar útboðsferli samnings eða samninga hefst þegar um er að ræða þjónustusamninga sem er skipt eftir flokkum.
5.     Ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður.
6.     Aðrar upplýsingar ef við á.
7.     Sendingardagur kynningarauglýsingar eða sendingardagur auglýsingar um birtingu hennar í upplýsingaskrá kaupanda.
ÚTBOÐSTILKYNNINGAR
Lokuð útboð, samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og samkeppnisviðræður:
1.         Nafn, heimilisfang, síma- og bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda/stofnana.
2.        Ef við á skal tilgreina hvort samningurinn sé bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkist við áætlanir um verndaða vinnu.
3.         a)         Útboðstilhögunin sem valin er,
        b)         Ef við á, ástæðurnar fyrir notkun hraðútboðs (í lokuðu útboði og samningskaupum),
        c)         Ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður,
        d)         Ef við á, beiting rafræns uppboðs.
4.         Form samningsins.
5.         Framkvæmda- eða vinnslustaður verksins eða afhendingarstaður vöru eða þjónustu.
6.         a)         Verksamningar:
            –    eðli og umfang verksins og almenn lýsing á starfseminni. Einkum skal tilgreina valkosti um viðbótarverk og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Ef verkinu eða samningnum er skipt í nokkra verkhluta skal tilgreina stærð hinna ýmsu verkhluta, tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins,
            –     upplýsingar um tilganginn með verkinu eða samningnum þegar áætlanagerð er innifalin í samningnum,
            –    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð verksins á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.
        b)         Vörusamningar:
            –    eðli vörunnar sem á að afhenda, þar sem einkum er tilgreint hvort leitað er eftir tilboðum um kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu eða sambland af þessu, svo og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins. Magn vörunnar sem á að afhenda og skal einkum tilgreina valkosti um viðbótarkaup og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða fyrir nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins,
            –    ef um er að ræða tímasetta eða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal einnig tilgreina, ef unnt er, tímatöflu fyrir síðari samninga um fyrirhuguð vörukaup,
            –    ef um er að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð varanna á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.
    c)         Þjónustusamningar:
            –     flokkur þjónustunnar og lýsing á henni. CPV-flokkunarnúmer. Magn þjónustunnar sem á að veita. Einkum skal tilgreina valkosti um viðbótarkaup og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Ef um er að ræða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal tilgreina áætlaðan tímaramma, ef unnt er, fyrir síðari samninga um fyrirhuguð kaup á viðkomandi þjónustu.
                Ef um er að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð þjónustu á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera,
            –     tilgreina skal hvort framkvæmd þjónustunnar sé bundin við sérstaka starfsgrein í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,
                Tilvísun í lög og stjórnsýslufyrirmæli,
            –     tilgreina skal hvort lögaðilar skuli gefa upp nöfn og starfsmenntun og hæfi þeirra starfsmanna sem annast framkvæmd þjónustunnar,
7.        Sé samningum skipt í nokkra hluta skal geta um það hvort unnt sé fyrir rekstraraðila að bjóða í einn, nokkra eða alla hlutana.
8.         Samþykki eða bann við frávikstilboðum.
9.        Eftir atvikum, upplýsingar um hundraðshluta af heildarverðmæti samnings sem krafist er að verði falinn þriðju aðilum til undirverktöku með útboðsaðferð (4. mgr. 21. gr.).
10.        Eftir atvikum, valforsendur varðandi persónulega stöðu undirverktaka, sem geta gert það að verkum að þeim verði vísað frá, og umbeðnar upplýsingar sem sanna að þeir falli ekki undir tilvik sem réttlæta frávísun. Upplýsingar og öll nauðsynleg formsatriði vegna mats á lágmarks efnahagslegri og tæknilegri getu sem krafist er af undirverktökum. Hugsanlega eru gerðar sérstakar lágmarkskröfur um getu.
11.        Frestur til að ljúka verk-, vöru- eða þjónustusamningi eða lengd verk-, vöru- eða þjónustusamnings. Eftir atvikum, frestur til að hefja verk eða frestur til að afhenda vöru eða þjónustu.
12.        Sé framkvæmd samningsins sérstökum skilyrðum háð skal tilgreina það ef unnt er.
13.        a)         Síðasti skiladagur þátttökutilkynninga,
        b)         heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til,
        c)        tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á.
14.         Ef við á, tryggingarfé og aðrar ábyrgðir sem krafist er.
15.         Helstu skilmálar varðandi fjármögnun og greiðslur og/eða tilvísanir í texta þar sem þetta er að finna.
16.         Eftir því sem við á, hvaða rekstrarform að lögum sá hópur rekstraraðila, sem gera á samning við, skal hafa.
17.        Valforsendur varðandi persónulega stöðu rekstraraðila, sem geta gert það að verkum að þeim verði vísað frá, og umbeðnar upplýsingar sem sanna að þeir falli ekki undir tilvik sem réttlæta frávísun. Valforsendur, upplýsingar og öll nauðsynleg formsatriði vegna mats á lágmarks efnahags- og tæknistöðlum sem krafist er af undirverktökum. Hugsanlega eru gerðar sérstakar lágmarkskröfur.
18.        Ef um er að ræða rammasamninga: fjölda og, eftir því sem við á, tillagður hámarksfjöldi rekstraraðila sem geta orðið aðilar að þeim og tímalengd rammasamnings.
19.        Ef um er að ræða samkeppnisviðræður eða samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar skal tilgreina, ef við á, hvort ferlið fer fram í áföngum með það fyrir augum að fækka smám saman lausnum sem verða ræddar eða tilboðum sem samið verður um.
20.        Þegar um er að ræða lokað útboð, samningskaup eða samkeppnisviðræður og sá kostur tekinn að takmarka þann fjölda aðila sem boðið er að gera tilboð eða taka þátt í viðræðum eða samningum: lágmarksfjöldi og, ef við á, fyrirhugaður hámarksfjöldi þátttakenda og hlutlægar viðmiðanir sem nota á við að velja þann fjölda.
21.        Viðmiðanir, sem um getur í 47. gr., sem skal beita við gerð samningsins: „lægsta verð“ og „hagstæðasta tilboð“. Tilgreina skal forsendur fyrir fjárhagslega hagkvæmasta tilboði ásamt vægi þeirra eða flokka í forgangsröð eftir mikilvægi ef þær koma ekki fram í útboðslýsingu eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum.
22.        Eftir því sem við á, birtingardagur eða -dagar kynningarauglýsingar, í samræmi við tækniforskriftirnar um birtingu sem getið er í VI. viðauka, eða yfirlýsing um að slík birting hafi ekki átt sér stað.
23.        Sendingardagur auglýsingarinnar.
TILKYNNING UM GERÐ SAMNINGS
1.        Nafn og heimilisfang samningsyfirvalds/stofnunar.
2.        Tilhögun samningsferlis. Þegar um er að ræða samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar (28. gr.), rökstuðningur.
3.        Verksamningar: tilgreina skal eðli og umfang þjónustu.
        Vörusamningar: tilgreina skal eðli og magn vöru sem á að afhenda og, ef við á, birgi; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlegs innkaupaorðasafns.
        Þjónustusamningar: flokkur og lýsing á þjónustunni; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlegs innkaupaorðasafns; magn þjónustunnar sem er keypt.
4.        Dagsetning samningsgerðar.
5.        Forsendur fyrir samningsgerð.
6.         Fjöldi tilboða sem bárust.
7.         Nafn og heimilisfang rekstraraðilans eða rekstraraðilanna sem urðu hlutskarpastir.
8.         Verð eða verðbil (lágmark/hámark) sem greitt er.
9.         Fjárhæð tilboðs (tilboða) sem borist hafa eða hæsta og lægsta tilboð sem voru athuguð áður en samningur var gerður.
10.        Eftir því sem við á, hlutfall samnings sem fyrirhugað er að fela þriðja aðila með undirverktöku og verðmæti þess hluta.
11.        Ef við á, rök fyrir því að rammasamningur sé til lengri tíma en sjö ára.
12.        Birtingardagur útboðstilkynningar í samræmi við tækniforskriftir fyrir birtingu í VI. viðauka.
13.         Sendingardagur tilkynningarinnar.

V. VIÐAUKI
Upplýsingar sem skulu vera í tilkynningunni sem um getur í 52. gr.

1.    Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang hlutskarpasta bjóðandans og samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar.
2.     a)         Framkvæmda- eða vinnslustaður verksins eða afhendingarstaður vöru eða þjónustu,
    b)        Eðli, magn og umfang verka og almennt eðli verks; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlegs innkaupaorðasafns,
    c)        Eðli vörunnar sem á að afhenda, þar sem er tilgreint hvort leitað er eftir tilboðum um kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu eða sambland af þessu, svo og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlega innkaupaorðasafnsins,
    d)         Flokkur og lýsing á þjónustu; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis sameiginlegs innkaupaorðasafns.
3.     Frestur til að ljúka verkinu.
4.     Nafn og heimilisfang aðilans þar sem hægt er að leggja fram beiðni um útboðsgögn og viðbótargögn.
5.     a)         Skilafrestur umsókna um þátttöku og/eða tilboða,
    b)         heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til,
    c)         tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á.
6.     Hvers konar kröfur um tryggingarfé eða aðrar ábyrgðir.
7.    Hlutlægar viðmiðanir sem verður beitt við val á undirverktökum í tengslum við persónulega stöðu þeirra eða mat á tilboði þeirra.
8.     Allar aðrar upplýsingar.
9.     Sendingardagur tilkynningarinnar.

VI. VIÐAUKI
BIRTING

1.     Birting tilkynninga
    a)        Samningsyfirvöld/stofnanir eða hlutskörpustu bjóðendur skulu senda þær auglýsingar sem um getur í 30. og 52. gr. til útgáfuskrifstofu Evrópusambandsins á því sniði sem um getur í 32. gr. Kynningarauglýsing sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 30. gr., sem er birt í upplýsingaskrá kaupanda, eins og lýst er í öðrum lið, skal vera með sama sniði, svo og tilkynning um slíka birtingu.
            Skrifstofa útgáfustarfsemi Evrópusambandsins birtir auglýsingar sem um getur í 30. og 52. gr. en samningsyfirvöld/stofnanir birta kynningarauglýsingu, ef við á, um upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við fyrstu undirgrein 1. mgr. 30. gr.
            Auk þess geta samningsyfirvöld/stofnanir birt þessar upplýsingar á Netinu í „upplýsingaskrá kaupanda“ eins og um getur í 2. lið.
    b)        Skrifstofa útgáfustarfsemi Evrópusambandsins sendir samningsyfirvöldum/stofnunum staðfestingu á birtingu sem um getur í 8. mgr. 32. gr.
2.     Birting viðbótarupplýsinga
    Upplýsingaskrá kaupanda getur innihaldið kynningarauglýsingu eins og um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 30. gr., upplýsingar um yfirstandandi boð um að leggja fram tilboð, áformuð innkaup, val tilboða, ferli sem hætt er við og allar gagnlegar, almennar upplýsingar, svo sem um tengiliði, síma- og bréfasímanúmer, póstföng og tölvupóstföng.
3.     Snið auglýsinga og reglur um sendingu þeirra með rafrænum aðferðum
    Upplýsingar um snið auglýsinga og reglur um rafræna sendingu þeirra fást á netfanginu „http://simap.europa.eu“.

VII. VIÐAUKI
SKRÁR
A-HLUTI
Verksamningar:

Firmaskrár og samsvarandi yfirlýsingar og vottorð fyrir hvert aðildarríki eru:
–    í Belgíu: „Registre du Commerce“/„Handelsregister“,
–    í Búlgaríu: „......... ........“,
–    í Tékklandi: „obchodní rejstrík“,
–    í Danmörku: „Erhvervs- og Selskabsstyrelsen“,
–    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,
–    í Eistlandi: „Registrite ja Infosüsteemide Keskus“,
–    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn um að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ um að hann hafi fengið vottun um að hann sé lögaðili eða sé skráður eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
–    í Grikklandi: „M..... ............ ............ — ME..“, sem heyrir undir ráðuneyti umhverfismála, borgar og landsbyggðarskipulags og opinberra framkvæmda (...........),
–    á Spáni: „Registro Oficial de Licitadores y Empresas Clasificadas del Estado“,
–    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,
–    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“,
–    á Kýpur: verktakinn getur verið beðinn um að leggja fram vottorð frá „Skráningar- og endurskoðunarráði byggingarverkfræði og byggingarverktaka (..µ...... ........... ....... .......... ......µ.... ... ........ .....)“ samkvæmt lögum um skráningu og endurskoðun byggingarverkfræði og byggingarverktaka,
–    í Lettlandi: „Uznemumu registrs“,
–    í Litháen: „Juridiniu asmenu registras“,
–    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la Chambre des métiers“,
–    í Ungverjalandi: „Cégnyilvántartás“, „egyéni vállalkozók jegyzõi nyilvántartása“,
–    á Möltu: verktaki fær gefið upp sitt „numru ta' registrazzjoni tat- Taxxa tal- Valur Mizjud (virðisaukaskattur) u n- numru tal-licenzja ta' kummerc“, og viðkomandi skráningarnúmer sem gefið er út af fjármálaþjónustuyfirvaldi Möltu ef um er að ræða sameignarfélag eða félag,
–    í Hollandi: „Handelsregister“,
–    í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
    í Póllandi: „Krajowy Rejestr Sadowy“,
    í Portúgal: „Instituto da Construção e do Imobiliário“ (INCI),
    í Rúmeníu: „Registrul Comer t ului“,
    í Slóveníu: „Sodni register“ og „obrtni register“,
    í Slóvakíu: „Obchodný register“,
    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
–    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

B-HLUTI
Vörusamningar:

Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár og yfirlýsingar og vottorð eru:
    í Belgíu: „Registre du Commerce“/„Handelsregister“,
    í Búlgaríu: „......... ........“,
    í Tékklandi: „obchodní rejstrík“,
    í Danmörku: „Erhvervs- og Selskabsstyrelsen“,
    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,
    í Eistlandi: „Registrite ja Infosüsteemide Keskus“,
–    í Grikklandi: „.......... . .µ...... . ...µ....... ...µ........“ og „...... ............. .µ....... ......“,
–    á Spáni: „Registro Mercantil“ eða, ef um er að ræða óskráða einstaklinga, vottorð sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein,
    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,
–    á Írlandi: birgir kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
–    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“ og „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“,
–    á Kýpur: birgir kann að verða beðinn um að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies and Official Receiver“ (...... ......... ... .....µ............) eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
    í Lettlandi: „Uznemumu registrs“,
    í Litháen: „Juridiniu asmenu registras“,
    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la Chambre des métiers“,
    í Ungverjalandi: „Cégnyilvántartás“, „egyéni vállalkozók jegyzõi nyilvántartása“,
–    á Möltu: fær birgir gefið upp sitt „numru ta' registrazzjoni tat- Taxxa tal- Valur Mizjud (virðisaukaskattur) u n- numru tal-licenzja ta' kummerc“, og viðkomandi skráningarnúmer sem gefið er út af fjármálaþjónustuyfirvaldi Möltu ef um er að ræða sameignarfélag eða félag,
    í Hollandi: „Handelsregister“,
    í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
    í Póllandi: „Krajowy Rejestr Sadowy“,
    í Portúgal: „Registro Nacional das Pessoas Colectivas“,
    í Rúmeníu: „Registrul Comer t ului“,
    í Slóveníu: „Sodni register“ og „obrtni register“,
    í Slóvakíu: „Obchodný register“,
    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
–    í Breska konungsríkinu: birgir kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður þar, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

C-HLUTI
Þjónustusamningar:

Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár og yfirlýsingar og vottorð eru:
    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“ og „Ordres professionels/Beroepsorden“,
    í Búlgaríu: „......... ........“,
    í Tékklandi: „obchodní rejstrík“,
    í Danmörku: „Erhvervs- og Selskabsstyrelsen“,
–    í Þýskalandi: „Handelsregister“, „Handwerksrolle“, „Vereinsregister“, „Partnerschaftsregister“ og „Mitgliedsverzeichnisse de Berufskammern der Länder“,
    í Eistlandi: „Registrite ja Infosüsteemide Keskus“,
–    á Írlandi: þjónustuveitandi kann að verða beðinn um að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ um að hann hafi fengið vottun um að hann sé lögaðili eða sé skráður eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
–    í Grikklandi: verktakinn kann að verða beðinn að leggja fram eiðsvarna yfirlýsingu hjá lögbókanda um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein; í tilvikum sem kveðið er á um í gildandi landslögum, vegna veitingar rannsóknarþjónustu eins og getið er í I. viðauka, firmaskrána „M..... .........“ og „...... ........ .......“,
–    á Spáni: „Registro Oficial de Licitadores y Empresas Clasificadas del Estado“,
–    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,
–    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“, „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“ eða „Consiglio nazionale degli ordini professionali“,
–    á Kýpur: þjónustuveitandi kann að verða beðinn um að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies and Official Receiver“ (...... ......... ... .....µ.. ..........) eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
    í Lettlandi: „Uznemumu registrs“,
    í Litháen: „Juridiniu asmenu registras“,
    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la Chambre des métiers“,
–    í Ungverjalandi: „Cégnyilvántartás“, „egyéni vállalkozók jegyzoi nyilvántartása“, sum „szakmai kamarák nyilvántartása“ ef um er að ræða tiltekna starfsemi, vottorð þar sem fram kemur að viðkomandi aðili hafi leyfi til að stunda þá starfsemi eða starfsgrein sem um er að ræða,
–    á Möltu: getur þjónustuveitandi fengið gefið upp sitt „numru ta' registrazzjoni tat- Taxxa tal- Valur Mizjud (virðisaukaskattur) u n- numru tal-licenzja ta' kummerc“, og viðkomandi skráningarnúmer sem gefið er út af fjármálaþjónustuyfirvaldi Möltu ef um er að ræða sameignarfélag eða félag,
    í Hollandi: „Handelsregister“,
    í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
    í Póllandi: „Krajowy Rejestr Sadowy“,
    í Portúgal: „Registro Nacional das Pessoas Colectivas“,
    í Rúmeníu: „Registrul Comer t ului“,
    í Slóveníu: „Sodni register“ og „obrtni register“,
    í Slóvakíu: „Obchodný register“,
    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
–    í Breska konungsríkinu: þjónustuveitandi kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of Companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að hann hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

VIII. VIÐAUKI
Kröfur sem varða búnað til rafrænnar móttöku á þátttökutilkynningum og tilboðum

Búnaður fyrir rafræna móttöku þátttökutilkynninga og tilboða skal a.m.k. tryggja, með viðeigandi tækni og aðferðum, að:
a)    rafrænar undirskriftir varðandi þátttökutilkynningar og tilboð séu í samræmi við innlend ákvæði sem eru samþykkt samkvæmt tilskipun 1999/93/EB,
b)    unnt sé að ákvarða nákvæmlega tímasetningu og dagsetningu fyrir móttöku þátttökutilkynninga og tilboða,
c)    unnt sé að tryggja með nokkurri vissu að enginn geti fengið aðgang að gögnum, sem eru flutt samkvæmt þessum kröfum, áður en tilgreindur frestur rennur út,
d)     ef aðgangsbann er brotið sé unnt að tryggja með nokkurri vissu að auðvelt sé að sjá það,
e)     aðeins aðilar, sem hafa til þess heimild, geti sett eða breytt dagsetningum fyrir opnun gagna sem berast,
f)    á hinum ýmsu stigum útboðsferlis, verði aðgangur að öllum gögnum sem eru afhent, eða hluta þeirra, einungis mögulegur með aðgerðum sem eru gerðar samtímis af aðilum sem hafa til þess heimild,
g)    aðilar, sem hafa heimild til samtímis aðgerða, veiti einungis aðgang að gögnum, sem eru flutt, eftir tilgreinda dagsetningu,
h)    gögn, sem eru móttekin og opnuð í samræmi við þessar kröfur, verði ekki aðgengileg öðrum aðilum en þeim sem hafa heimild til að kynna sér þau.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 216, 20.8.2009, bls. 76.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB C 100, 30.4.2009, bls. 114.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 14. janúar 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB)     og ákvörðun ráðsins frá 7. júlí 2009.
Neðanmálsgrein: 5
(3)    Stjtíð. ESB C 280 E, 18.11.2006, bls. 463.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Ákvörðun um skrá yfir vörur (vopn, herbúnað og stríðstól og -tæki) sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 223. gr. – nú b-liður 1. mgr. 296. gr. – sáttmálans gildir (skjal 255/58). Fundargerð frá 15. apríl 1958: skjal 368/58.
Neðanmálsgrein: 7
(1)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(2)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 114.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 340, 16.12. 2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. EB L 317, 3.12. 2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Stjtíð. EB L 101, 11.4. 2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 18, 21.1.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 13, 19.1.2000, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 303, 2.12.2000, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB L 39, 14.2.1976, bls. 40.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Tilskipun ráðsins 89/665/EBE frá 21. desember 1989 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa- og verksamninga (Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Fyrsta tilskipun ráðsins 92/13/EBE frá 25. febrúar 1992 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla um beitingu á reglum Bandalagsins um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti (Stjtíð. EB 76, 23.3.1992, bls. 14).
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/66/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/665/EBE og 92/13/EBE að því er varðar aukna skilvirkni í reglum um meðferð kæru vegna gerðar opinberra samninga (Stjtíð. EB 335, 20.12.2007, bls. 31).
Neðanmálsgrein: 20
(4)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Sameiginleg aðgerð 98/733/JHA frá 21. desember 1998 sem ráðið innleiddi á grundvelli greinar K.3 í sáttmálanum um Evrópusambandið, um að það verði refsiverður verknaður að taka þátt í afbrotastarfsemi í aðildarríkjum Evrópusambandsins (Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 23
(2)    Gerð ráðsins frá 26. maí 1997 um að koma á samningnum um baráttu gegn spillingu tengdri embættismönnum Evrópubandalaganna eða embættismönnum aðildarríkja Evrópusambandsins, á grundvelli c-liðar 2. mgr. greinar K.3 sáttmálans um Evrópusambandið (Stjtíð. EB C 195, 25.6.1997, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 24
(3)    Rammaákvörðun ráðsins 2003/568/JHA frá 22. júlí 2003 um baráttu gegn spillingu í einkageiranum (Stjtíð. ESB L, 31.7.2003, bls. 54).
Neðanmálsgrein: 25
(4)    Stjtíð. EB C 316, 27.11.1995, bls. 49.
Neðanmálsgrein: 26
(5)    Rammaákvörðun ráðsins 2002/475/JHA frá 13. júní 2002 um baráttu gegn hryðjuverkum (Stjtíð. EB L 164, 22.6.2002, bls. 3).
Neðanmálsgrein: 27
(6)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB frá 26. október 2005 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi (Stjtíð. ESB L 309, 25.11.2005, bls. 15).