Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 162. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 485  —  162. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um áhrif skilmálabreytingar á skuldabréfi ríkissjóðs til Seðlabanka Íslands.


     1.      Mun lækkun vaxta um 10,7 milljarða kr. vegna breytingar á skilmálum skuldabréfs sem ríkissjóður lagði til Seðlabanka Íslands hafa áhrif á arðgreiðslur til ríkissjóðs frá Seðlabankanum á árinu 2014? Ef svo er, er þá gert ráð fyrir því í áætluðum arðgreiðslum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014?
    Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um Seðlabankann skulu tveir þriðju hlutar hagnaðar bankans greiddir í ríkissjóð. Þó skal aðeins greiða einn þriðja hluta af hagnaði í ríkissjóð ef eiginfé bankans er innan 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins ársins á undan. Arðgreiðslur Seðlabanka til ríkissjóðs á árinu 2014 ráðast þannig af hagnaði bankans á árinu 2013. Breytingar á skilmálum skuldabréfsins á árinu 2014 hafa því ekki áhrif á arðgreiðslur ársins 2014.

     2.      Getur fjármála- og efnahagsráðuneytið einhliða ákveðið lengingu á téðu skuldabréfi og lækkun á vöxtum þess? Samræmist sú aðgerð sjálfstæði Seðlabankans og ákvæðum laga um bankann?
    Forsaga þessa máls er að ráðuneytið og Seðlabankinn ákváðu í lok árs 2011 að fela vinnuhópi skipuðum fulltrúum beggja aðila að fara yfir ýmis mál er varða fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands ásamt verklagi við stýringu á elendum lánum ríkissjóðs. Í því fólst m.a. að fara yfir fyrirkomulag vaxtakjara þeirra lána sem veitt eru frá ríkissjóði til Seðlabankans til þess að styrkja gjaldeyrisforða bankans, setja viðmiðunarreglur um framkvæmd viðskipta með erlend lán ríkissjóðs og setja fram tillögur að endurskoðun á skilmálum bréfs ríkissjóðs til styrkingar á eiginfé Seðlabankans. Þá skyldi vinnuhópurinn einnig meta hvort breytingar á verklagi kölluðu á endurskoðun á reglum varðandi arðgreiðslur og eiginfé Seðlabanka Íslands.
    Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins sem gefið var út 12. janúar 2009 er öðrum hvorum aðilanum heimilt að óska eftir því að teknar verði upp viðræður um milli aðila um framlengingu, breytingu eða endurnýjun á skuldabréfinu. Ákvörðun aðila um að taka upp viðræður um skilmála bréfsins byggist á þessu ákvæði.

     3.      Telur ráðherra að breytingin á skilmálum bréfsins leiði til peningalegrar slökunar, sbr. áhyggjur Seðlabankans sem fram koma í Peningamálum 2013/4? Hvert er mat ráðherra á áhrifum skilmálabreytingarinnar á peningamagn í umferð, verðbólgu og hag ríkissjóðs?
    Breytingin á skilmálum skuldabréfsins leiðir til minni vaxtakostnaðar fyrir A-hluta ríkissjóðs og minni vaxtatekna fyrir Seðlabankann, en breytir engu þegar ríkissjóður og Seðlabankinn eru tekin saman í samstæðureikningi. Engin peningaprentun hefur átt sér stað hjá Seðlabanka.
    Áhrif skilmálabreytingar á peningamagn í umferð og verðbólgu fara eftir því við hvaða forsendur er stuðst. Í meginatriðum getur verið um tvær sviðsmyndir að ræða:
     a.      Ef ekki hefði komið til skilmálabreytingarinnar og útgjöld ríkissjóðs hefðu verið skorin niður um 10,7 milljarða kr. frá því sem er í fjárlagafrumvarpi (eða skattar hækkaðir sem því nemur) þá leiðir aðgerðin til lægra aðhaldsstigs ríkisfjármála en ella.
     b.      Ef ekki hefði komið til skilmálabreytingarinnar og ríkissjóður hefði verið rekinn með 10,7 milljarða kr. lakari afkomu en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þá skiptir skilmálabreytingin ekki máli fyrir aðhaldsstig ríkisfjármála.
    Hvor sviðsmyndin hefði orðið ofan á er ómögulegt að staðhæfa um nú. Ef sú fyrri hefði orðið ofan á er ljóst að aðhaldsstig ríkisfjármála hefði verið minnkað, en mjög óverulega (0,6% af vergri landsframleiðslu). Áhrif skilmálabreytingarinnar á verðbólgu eru því að öllum líkindum hverfandi.
    Að síðustu er spurt um áhrif skilmálabreytingarinnar á hag ríkissjóðs. Vegna aðgerðarinnar er afkoma A-hluta ríkissjóðs á rekstrargrunni 10,7 milljörðum kr. betri en ella miðað við að endursamið hefði verið um bréfið og það ekki lengur verðtryggt.