Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 349. máls.

Þingskjal 653  —  349. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir,
staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 226/2013, frá 13. desember 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 226/2013, frá 13. desember 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
    Tilskipunin breytir eldri tilskipun 2008/43/EB sem kom á fót kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota, í þá átt að undanskilja kveikiþræði og hvellhettur frá gildissviði tilskipunar 2008/43/EB og lengja tímafresti.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Vegna þess hve langt er um liðið síðan ákvörðunin var tekin og fyrirséð er að efnisleg innleiðing gerðarinnar mun dragast þykir rétt að leggja málið fyrir Alþingi nú í formi þingsályktunartillögu til staðfestingar ákvörðuninni, sbr. 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

3. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
    Eins og að framan greinir breytir tilskipunin eldri tilskipun 2008/43/EB sem kom á fót kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota. Með sprengiefni til almennra nota er átt við sprengiefni sem ekki er ætlað til hernaðarnota, t.d. sprengiefni sem notað er til byggingarframkvæmda.
    Ísland staðfesti 5. september 2012 ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um að fella tilskipun 2008/43/EB inn í samninginn, sbr. þingsályktun þess efnis frá 11. maí 2012. Í þeirri tilskipun var m.a. kveðið á um að framleiðendur og innflytjendur sprengiefnis skuli auðkenna það þannig að það sé rekjanlegt til framleiðanda til samræmis við viðauka við tilskipunina.
    Með tilskipuninni sem nú er til umfjöllunar, 2012/4/ESB, eru kveikiþræðir og hvellhettur undanskilin gildissviði tilskipunar 2008/43/EB. Þá tók lengri tíma en ætlað var að þróa auðkennin og tölvukerfin sem nauðsynleg eru til að auðkenna og rekja sprengiefnin og því var gefinn lengri tími til að fullþróa, gera prófanir og síðan fullgilda skrárnar sem um ræðir, eða fram til 5. apríl 2013. Einnig er ljóst að lengri tími líður þar til allir í aðfangakeðjunni geti tekið upp rafræn kerfi til að rekja sprengiefni auk þess sem að enn um sinn verður í birgðum sprengiefni sem framleidd voru áður en kröfur tilskipunar 2008/43/EB tóku gildi. Ekki er talið hagkvæmt að skylda fyrirtæki til að halda mismunandi skrár. Því er skyldum um gagnaöflun og skráningu frestað til 5. apríl 2015. Að lokum er tekið mið af því að sumar vörur sem notaðar eru í þessu samhengi eru þannig að lögun að ekki er hægt að festa á þær auðkennin sem krafist er. Hins vegar gætu tækniframfarir leitt til þess að merking þessara hluta gæti orðið og því skal fresta merkingu þeirra til loka árs 2020 en þá skal endurmeta stöðuna.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    
Eins og að framan greinir staðfesti Ísland ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um að fella tilskipun 2008/43/EB inn í samninginn 5. september 2012, sbr. þingsályktun þess efnis frá 11. maí 2012. Enn er þó eftir að innleiða þá tilskipun hérlendis, en innleiðing hennar kallar á breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum. Þar af leiðandi var það metið svo að innleiðing þeirrar tilskipunar sem nú er til umfjöllunar kalli jafnframt á breytingu á vopnalögum. Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp um breytingar á vopnalögum til innleiðingar á tilskipunum 2008/43/EB og 2012/4/ESB, en framlagning mun þó ekki nást á yfirstandandi löggjafarþingi. Innleiðing tilskipunar 2012/4/ESB kallar ekki á aukinn kostnað umfram þann kostnað sem felst í innleiðingu tilskipunar 2008/43/EB.

Fylgiskjal I.



ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 226/2013

frá 13. desember 2013

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota ( 1 ).

2)        II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í 5. lið (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB) í XXIX. kafla II. viðauka við EES-samninginn:

„eins og henni var breytt með:

–         32012 L 0004: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/4/ESB frá 22. febrúar 2012 (Stjtíð. ESB L 50, 23.2.2012, bls. 18).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2012/4/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 14. desember 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 13. desember 2013.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Þórir Ibsen

formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 2012/4/ESB
frá 22. febrúar 2012
um breytingu á tilskipun 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af tilskipun ráðsins 93/15/EBE frá 5. apríl 1993 um samhæfingu ákvæða um markaðssetningu og eftirlit með sprengiefnum til almennra nota ( 1 ), einkum öðrum málslið annarrar málsgreinar 14. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Kveikiþræðir, þ.m.t. púðurkveikiþræðir ásamt hvellhettum, falla undir tilskipun 93/15/EBE, en þeir eru notaðir í flugeldavörur frekar en sprengiefni. Hugsanleg áhrif af misnotkun þeirra eru líklega svipuð og áhrifin af misnotkun á flugeldavörum sem af stafar lítil hætta og því eru þessi áhrif mun síður alvarleg í samanburði við aðrar gerðir sprengiefna. Með skírskotun til meðalhófs skal undanþiggja kveikiþræði, þ.m.t. púðurkveikiþræði ásamt hvellhettum, að því er varðar kerfið til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
2)          Þróun tölvukerfanna sem nauðsynleg eru fyrir innleiðingu kerfisins til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir upphaflega. Nauðsynlegt er að fresta beitingu tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB ( 2 ) til að sprengiefnaiðnaðurinn fái meiri tíma til að fullþróa, prófa og fullgilda og auka þannig öryggi rafrænu kerfanna sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar á tilskipun 2008/43/EB. Til að þetta sé unnt skal fresta því að framleiðendum og innflytjendum sé skylt að merkja sprengiefni um eitt ár til 5. apríl 2013. Meiri tími er nauðsynlegur til að allir aðilar í aðfangakeðjunni geti innleitt tilskilin, rafræn rakningarkerfi. Enn fremur verða sprengiefnabirgðir með lengra geymsluþol, sem voru framleiddar áður en þurfti að merkja þær í samræmi við tilskipun 2008/43/EB, enn í aðfangakeðjunni og það er óhagkvæmt að skylda fyrirtæki til að halda mismunandi gerðir af skrám. Skyldum varðandi gagnaöflun og skráningu skal því frestað um þrjú ár til 5. apríl 2015.
3)          Ákveðnar vörur eru of litlar til að hægt sé að festa á þær skráningarnúmer framleiðslustaðar og upplýsingar, sem hægt er að lesa rafrænt. Á tilteknar aðrar vörur er tæknilega ómögulegt að festa sérstakt auðkenni vegna lögunar þeirra eða hönnunar. Í þessum tilvikum skal festa auðkenni sem krafist er á allar minnstu pökkunareiningarnar. Tækniframfarir gætu leitt til þess að mögulegt verði að festa skráningarnúmer framleiðslustaðar og upplýsingar sem hægt er að lesa rafrænt á þessar vörur. Framkvæmdastjórnin skal því endurskoða stöðuna fyrir lok ársins 2020 og meta hvort hægt sé að festa upplýsingarnar sem krafist er á vörurnar sjálfar.
4)          Því ber að breyta tilskipun 2008/43/EB til samræmis við það.
5)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót skv. 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 93/15/EB.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 2008/43/EB er breytt sem hér segir:
1)     Eftirfarandi d-, e- og f-liður bætist við 2. gr.:
    „d)    um kveikiþræði, sem svipar til þráðar, sem eru ekki sprengifimir,
    e)    um púðurkveikiþræði, sem samanstanda af kjarna úr fínkornóttu svörtu púðri sem er umlukinn sveigjanlegu ofnu efni með eina eða fleiri ytri hlífðarkápur og sem brennur á gefnum hraða án þess að valda ytri áhrifum með sprengingu,
    f)    um hvellhettur sem samanstanda af hylki úr plasti eða málmi, sem inniheldur lítið magn sprengiefnablöndu sem auðvelt er að tendra með höggi, og sem þjónar hlutverki kveikibúnaðar í skothylkjum fyrir handvopn eða hvellhettum fyrir drifhleðslur.“,
2)     Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:
    „7. gr.
     Púðurhvellhettur
    Að því er varðar púðurhvellhettur skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á hylki púðurhvellhettunnar eða sérstaka auðkennið prentað eða stimplað beint á það. Setja skal tengdan merkimiða á hvern kassa af hvellhettum.
    Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki sem fest er við hverja hvellhettu og tengt merki fyrir hvern kassa af hvellhettum.“,
3)    Í stað 9. og 10. gr. komi eftirfarandi:
    „ 9. gr.
     Kveikjur og forsprengjur
    Að því er varðar kveikjur aðrar en þær sem um getur í 2. gr. og forsprengjur skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á kveikjuna eða forsprengjuna eða sérstaka auðkennið prentað beint á þær. Setja skal tengdan merkimiða á hvern kassa af slíkum kveikjum og forsprengjum.
    Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust, rafrænt merki sem fest er við hverja slíka kveikju og forsprengju og tengt rafrænt merki fyrir hvern kassa af slíkum kveikjum og forsprengjum.
     10. gr.
     Sprengiþræðir
    Að því er varðar sprengiþræði skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem er límdur á keflið eða sérstaka auðkennið er prentað beint á það. Sérstaka auðkenninu verður annað hvort komið fyrir með fimm metra millibili á ytri kápu þráðarins eða á pressaða innra plastlaginu sem er rétt undir ytri trefjum þráðarins. Setja skal tengdan merkimiða á hvern kassa af sprengiþráðum.
    Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki, sem komið er fyrir inni í þræðinum, og tengt merki fyrir hvern kassa af sprengiþráðum.“,
4)     í stað annarrar undirgreinar 1. mgr. 15. gr. komi eftirfarandi:
    „Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 5. apríl 2013. Hins vegar skulu þau beita ákvæðunum til að fara að 6. mgr. 3. gr. og 13. og 14. gr. frá og með 5. apríl 2015.“,
5)    eftirfarandi 15. gr. a bætist við:
    „15. gr. a
    Fyrir 31. desember 2020 skal framkvæmdastjórnin taka til skoðunar hvort tækniframfarir gera kleift að afturkalla undanþágurnar sem settar eru fram í 3. lið viðaukans.“,
6)    Í 3. lið viðaukans bætast eftirfarandi málsgreinar við:
    „Að því er varðar vörur sem eru of litlar til að hægt sé að festa á þær upplýsingarnar sem settar eru fram í i. og ii.-lið í b-lið 1. liðar og 2. lið eða ef það er tæknilega ómögulegt vegna lögunar þeirra eða hönnunar að festa sérstakt auðkenni á þær, skal festa sérstakt auðkenni á minnstu pökkunareiningarnar.
    Minnstu pökkunareiningunum skal loka með innsigli.
    Merkja skal allar púðurhvellhettur eða forsprengjur sem falla undir undanþáguna sem sett er fram í annarri málsgrein með upplýsingunum sem settar eru fram í i. og ii.-lið í b-lið 1. liðar með varanlegum hætti og þannig að tryggt sé að þær séu auðlæsilegar. Prenta skal fjölda púðurhvellhetta og forsprengna á minnstu pökkunareiningarnar.
    Merkja skal alla sprengiþræði sem falla undir undanþáguna sem sett er fram í annarri málsgrein með sérstaka auðkenninu á spóluna eða keflið og eftir atvikum á minnstu pökkunareininguna.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 4. apríl 2012. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða og samsvörunartöflu yfir viðkomandi ákvæði og þessa tilskipun.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 5. apríl 2013.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 22. febrúar 2012.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
    forseti.
    José Manuel BARROSO


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 50, 23.2.2012, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. EB L 121, 15.5.1993, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Stjtíð. ESB L 94, 5.4.2008, bls. 8.