Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 663  —  358. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2013.


1. Inngangur.
    Það sem var helst í brennidepli á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2013 voru hótanir Evrópusambandsins (ESB) um refsiaðgerðir gegn Færeyjum og Íslandi vegna makrílveiða landanna og ákvörðun ESB um refsiaðgerðir gegn Færeyjum vegna síldveiða. Í sameiginlegri yfirlýsingu ársfundar ráðsins fordæmdi það harðlega þessar aðgerðir sambandsins. Því sjónarmiði var einnig komið á framfæri á sameiginlegri ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs um nýtingu auðlinda hafsins sem fram fór í kjölfar ársfundar, og á fundum síðar á árinu með Norðurlandaráði annars vegar og sendinefnd Evrópuþingsins hins vegar. Á sameiginlegri ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs var m.a. fjallað um hvernig fiskstofnar fara úr einni lögsögu yfir í aðra í kjölfar loftslagsbreytinga, og mikilvægi þess að móta verklagsreglur um hvernig leysa beri ágreiningsmál milli landa um veiðar. Gert er ráð fyrir að halda áfram umræðum um málið á fundi umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs í apríl 2014. Önnur mál sem voru einnig í brennidepli á árinu var mótun sameiginlegrar vestnorrænnar norðurslóðastefnu og aukið samstarf á sviði heilbrigðismála.
    Þemaráðstefna ráðsins fór fram á Ísafirði í upphafi árs og var umræðuefnið aukið samstarf Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum, þar með talið geðheilbrigðismálum. Á ráðstefnunni var fjallað um hvernig heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda eru byggð upp, þá samvinnu sem nú þegar er til staðar þeirra í milli og framtíðarsýn þeirra á þessu sviði. Loks greindu heilbrigðisráðherrar landanna frá hugmyndum ríkisstjórna sinna um frekara samstarf. Niðurstaða ráðstefnunnar var sú að nauðsynlegt og gagnlegt væri að efla samstarf á sviði heilbrigðismála á milli vestnorrænu landanna og það mundi kalla á ýmis úrlausnarefni, m.a. hvað varðaði sjúkraskrár, samgöngur, tryggingamál og lagaleg atriði.
    Ársfundur ráðsins var haldinn á Grænlandi í ágúst. Á fundinum voru samþykktar fjórar ályktanir. Fyrstu tvær snúa að auknu samstarfi á sviði heilbrigðismála, annars vegar hvað varðar samstarf heilbrigðisstarfsfólks í löndunum þremur og hins vegar þróun frekara samstarfs á sviði skurðaðgerða. Þriðja ályktunin snýst um að vinna gegn brottflutningi kvenna frá vestnorrænu löndunum og sú fjórða um að efla samstarf um stuðning við les- og skrifblinda. Ályktanirnar voru lagðar fram sem þingsályktunartillögur á Alþingi í upphafi 143. löggjafarþings auk tveggja annarra frá fyrra ári.
    Forsætisnefnd ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, tók þátt í sumarfundi Norðurlandaráðs í Bodø í Noregi í júní og 65. þingi Norðurlandaráðs í Osló í október. Í Osló fundaði nefndin með forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum. Auk þess tók Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, til máls á þinginu sjálfu þar sem hún hvatti til frekara samstarfs milli Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins um sameiginleg hagsmunamál og að deilumál væru leyst með samningum í stað hótana. Þar vísaði hún í framangreindar hótanir ESB um refsiaðgerðir gegn Færeyjum og Íslandi vegna makrílveiða landanna og ákvörðun sambandsins um refsiaðgerðir gegn Færeyjum vegna síldveiða. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins átti síðan sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Strassborg í nóvember þar sem aðgerðir ESB gegn Færeyjum og Íslandi voru fordæmdar auk þess sem fjallað var um önnur mál sem snúa að sameiginlegum hagsmunamálum.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur reglulega saman, tvisvar á ári, til þemaráðstefnu og ársfundar. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleið Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu sinna markmiða með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi.
    Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Síðarnefndi samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt á fundum hvors annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2013 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu, sem fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins, og var hún haldin í beinu framhaldi af ársfundi Vestnorræna ráðsins. Stendur til að halda þeirri stefnu áfram að halda sameiginlega fundi um sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna og Norðurlandanna í framtíðinni. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og sótt var um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu á árinu 2013.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi ársins 2013 skipuðu Íslandsdeildina þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þór Saari, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásbjörn Óttarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Framsóknarflokks, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru kosnir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vígdís Hauksdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Páll Valur Björnsson, þingflokki Bjartrar framtíðar, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Framsóknarflokks, Haraldur Einarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Óttarr Proppé , þingflokki Bjartrar framtíðar, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Vilborg Ása Guðjónsdóttir gegndi starfi ritara Íslandsdeildar þar til 1. september 2013 og Magnea Marinósdóttir til áramóta. Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu þar sem þátttaka í starfsemi ráðsins var undirbúin.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2013.
    Þemaráðstefna ársins var haldin á Ísafirði í janúar en ársfundurinn í Narsarsuaq á Grænlandi í ágúst. Forsætisnefnd ráðsins kom fjórum sinnum saman á árinu auk þess sem hún átti fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum vestnorrænu landanna á sviði mennta- og menningarmála, heilbrigðismála, utanríkismála og norræns samstarfs í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló. Þá átti forsætisnefnd fund með Evrópuþinginu í nóvember. Loks tók formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Unnur Brá Konráðsdóttir, í starfi sínu sem formaður Vestnorræna ráðsins starfsárið 2013–2014, þátt í fundi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í september og þingmannaráðstefnu Norðlægu víddarinnar í nóvember, auk þess að vera viðstödd opnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk á Grænlandi 8. nóvember.

Þemaráðstefna á Ísafirði 14.–17. janúar 2013.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um tækifæri og möguleika í heilbrigðisþjónustu á Vestur-Norðurlöndum var haldin á Hótel Ísafirði dagana 14.–17. janúar sl. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, Sigurður Ingi Jóhannsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Heilbrigðisráðherrar og 20 leiðandi sérfræðingar frá löndunum þremur á sviði heilbrigðismála tóku þátt í ráðstefnunni og ræddu tækifæri til nánari samvinnu Vestur-Norðurlanda á sviði heilbrigðisþjónustu. Umræðuefni fyrirlesara voru af þrennum toga. Fyrst var fjallað um hvernig heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda eru byggð upp og þá samvinnu sem nú þegar er milli landanna þriggja á þessu sviði. Því næst var fjallað um þróun frekari samvinnu og hvaða framtíðarsýn löndin þrjú hafa í því efni. Loks skýrðu heilbrigðisráðherrar landanna frá því hvernig ríkisstjórnir þeirra sjá fyrir sér frekara samstarf.
    Josef Motzfeldt, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ráðstefnuna og að því loknu bauð Ólína Þorvarðardóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, ráðstefnugesti velkomna. Ólína sagði við það tilefni að samstarf og vinátta Vestur-Norðurlanda byggðist á rótum sem næðu dýpra en einungis til pólitísks samstarfs, og það væri það sem gerði það svo árangursríkt.
    Þátttakendur á þemaráðstefnunni voru sammála um nauðsyn þess að efla samstarf á sviði heilbrigðismála á milli landanna þriggja, og að það mundi gagnast öllum löndunum þremur. Þau væru að mörgu leyti að eiga við sömu hluti, strjálbýli, einangraðar byggðir og vaxandi atvinnustarfsemi á svæðinu. Auk þess væru löndin nálægt hvert öðru landfræðilega. Það væri hins vegar ýmislegt sem þyrfti að taka á, m.a. hvað varðaði samgöngur, tryggingamál og lagaleg atriði. Í samráðsferlinu þyrfti að taka til greina bæði fræðileg og praktísk viðfangsefni.
    Á ráðstefnunni voru ýmsir möguleikar til frekara samstarfs á sviði heilbrigðismála ræddir. Þar á meðal var menntun heilbrigðisstarfsfólks. Aðrir möguleikar sem ræddir voru sérstaklega voru samstarf um skurðaðgerðir vegna brjóstakrabbameins, sjúkraflug, samstarf á sviði geðheilbrigðismála og notkun rafrænna sjúkraskráa.
    Jóanis Erik Køtlum, deildarstjóri í velferðarráðuneyti Færeyja, kynnti skipulag heilbrigðiskerfisins þar í landi. Meðal helstu styrkleika nefndi hann hátt menntunarstig, stuttar fjarlægðir á milli bæja, samstarf við önnur ríki, rannsóknir og fjarlækningar. Hvað samstarfsmöguleika Vestur-Norðurlanda varðaði nefndi hann sérstaklega umönnun sjúklinga, notkun rafrænna sjúkraskráa, innkaup, menntun og rannsóknir.
    Ann Birkekær Kjeldsen, deildarstjóri í velferðarráðuneyti Grænlands, fjallaði um heilbrigðiskerfið þar í landi. Meðal verkefna nefndi hún aldurssamsetningu þjóðarinnar, fjármagnsskort og þörf fyrir endurbætur. Hún nefndi sérstaklega mikilvægi samvinnu Vestur- Norðurlanda við menntun starfsfólks.
    Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, skýrði frá skipulagi íslenska heilbrigðiskerfisins. Meðal helstu úrlausnarefna nefndi Sveinn sérstaklega efnahagskreppuna, en greindi frá því að reynt hefði verið að forgangsraða eins mikið og hægt væri til að viðhalda þjónustustiginu.
    Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs Landspítalans, fjallaði um samstarf Íslands og Færeyja á sviði heilbrigðismála. Hún lýsti yfir ánægju sinni með samstarfið og ræddi um næstu skref, sem fela m.a. í sér verkefni á sviði menntunar, endurmenntunar og rannsókna, sameiginleg innkaup og betra skipulag við flutning á sjúklingum.
    Kent Kleinschmidt, yfirráðunautur lækningamála hjá heilbrigðis- og forvarnastofnun Grænlands, fjallaði um fjarlækningar, en í þeim felst að heilbrigðisstarfsfólk greinir og meðhöndlar sjúklinga með aðstoð upplýsinga- og samskiptatækni. Kleinschmidt greindi m.a. frá góðri reynslu Grænlendinga af þessu kerfi.
    Rigmor Andersen Eide, fulltrúi norska Stórþingsins og Norðurlandaráðs á ráðstefnunni, fjallaði um heilbrigðiskerfið í Noregi, þar á meðal tilraunir til hagræðingar í starfi. Þá ræddi hún um helstu vandamál á sviði fjarlækninga og möguleika til framfara.
    Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, fjallaði um yfirstandandi rannsókn á því hvers vegna það reynist erfitt að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa í dreifbýli. Ísland, Grænland, Svíþjóð, Skotland, Noregur, Kanada og Írland taka þátt í rannsókninni sem stendur til ársins 2014. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum eru ástæðurnar helst faglegar, fjárhagslegar eða fjölskylduhagir.
    María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármáladeildar Landspítalans og lektor við Háskóla Íslands, ræddi um möguleikann á samstarfi um notkun rafrænna sjúkraskráa á Íslandi og Grænlandi, líkt og gert hefur verið í Færeyjum. Slíkt samstarf gæti auðveldað samvinnu á öðrum sviðum.
    Kristján Skúli Ásgeirsson, læknir við Landspítalann og lektor í læknisfræði við Háskóla Íslands, sagði frá vel heppnuðu samstarfsverkefni milli Landspítalans og Landssjúkrahúss Færeyja á sviði skurðaðgerða við brjóstakrabbameini, en í verkefninu felst að læknir frá Íslandi fer reglulega til Færeyja og framkvæmir aðgerðir þar.
    Björn Gunnarsson læknir ræddi um hagkvæmni nánari samvinnu ríkjanna þriggja við sjúkraflutninga. Í erindi sínu sýndi hann fram á að oft getur verið rökréttara, í ljósi styttri vegalengdar, að fljúga með sjúkling á sjúkrahús á Vestur-Norðurlöndum en að fljúga alla leið til Danmerkur.
    Páll Matthíasson, læknir og framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, ræddi um samstarfsmöguleika á sviði geðheilbrigðismála. Að hans mati væri samstarf sem sneri að forvörnum gegn sjálfsvígum mest aðkallandi.
    Shahin Gaini, yfirlæknir og forseti rannsóknardeildar Landssjúkrahússins í Færeyjum, fjallaði um möguleikann á frekara samstarfi milli Vestur-Norðurlanda á sviði rannsókna og menntunar. Hann kynnti þau samstarfsverkefni sem er lokið og eins þau sem eru áætluð. Að mati Gaini felst mikill ávinningur í frekara rannsóknasamstarfi, þar á meðal fjárhagslegur og eins hvað varðar samnýtingu á þekkingu og búnaði.
    Gert Mulvad, sérfræðingur í almennri læknisfræði og forseti grænlensku rannsóknarmiðstöðvarinnar, ræddi um siðferðislegar spurningar þegar kemur að fjárhagslegu skipulagi heilbrigðisþjónustu. Í máli hans kom m.a. fram að kostnaður við heilsugæslu ríkja endurspegli einnig menningu samfélagsins. Þannig einkennist menning Vestur-Norðurlanda af sátt við náttúruna, samspilinu milli líkama og sálar, mikilvægi tilfinninga, samstarfi og vægi andlegra gilda frekar en efnislegra.
    Loks fjallaði Tummas í Garði, aðstoðarforstjóri Landssjúkrahússins í Færeyjum, um framtíðarmöguleika vestnorrænnar samvinnu á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, og velti upp þeirri spurningu hvort raunhæft, hagkvæmt og gagnlegt væri að skapa samvestnorrænt heilbrigðiskerfi.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 1. mars 2013.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn 1. mars. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Vilborg Ása Guðjónsdóttir ritari, fyrir hönd Ólínu Þorvarðardóttur, formanns, sem forfallaðist en tók þátt í fundinum í gegnum síma. Helstu mál á dagskrá voru ársfundur ráðsins á Suður-Grænlandi í ágúst, tillögur að ályktunum til samþykktar á ársfundi, sameiginleg ráðstefna Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs á meðan á ársfundi stæði og þemaráðstefna ráðsins sem haldin var á Ísafirði í janúar.
    Ákveðið var að halda ársfund ráðsins í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi í ágúst og að bjóða fulltrúa frá þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og fulltrúa frá danska þinginu að taka þátt í ársfundinum, til viðbótar við fulltrúa norska þingsins, Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda (Vestnordenfonden) og Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), þar sem þeir munu sækja sameiginlegu ráðstefnuna. Bill Justinussen, formaður landsdeildar Færeyja, benti á að Suðureyjar hefðu áhuga á samstarfi við Vestnorræna ráðið. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri ráðsins, sagði frá því að nú þegar væri búið að ákveða að bjóða fulltrúa þaðan til að taka þátt í sameiginlegri ráðstefnu Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Hann benti jafnframt á að ýmislegt benti til að Kanada hefði áhuga á frekara samstarfi, og lagði fram þá hugmynd að kanadíska sendiherranum og færeyska sendimanninum í Reykjavík yrði einnig boðið til sameiginlegu ráðstefnunnar. Forsætisnefndin samþykkti tillöguna. Einnig var ákveðið að setja sérstaka umræðu um starfsemi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál á dagskrá ársfundar. Tillaga Josefs Motzfeldts, formanns ráðsins, um að formaður muni kynna fyrir ársfundinum framlag Vestnorræna ráðsins innan þingmannaráðstefnunnar var samþykkt.
    Samhliða ársfundinum var ákveðið að halda sameiginlega ráðstefna Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samþykkti forsætisnefnd að fundurinn mundi fjalla um nýtingu lifandi auðlinda, þar á meðal sameiginlega fiskstofna, í Norður-Atlantshafi með vísan í deilur um makríl- og síldveiðar. Forsætisnefndin var sammála um að tilgangur ráðstefnunnar væri að tryggja aukinn skilning milli landanna varðandi nýtingu auðlinda. Þá var einnig samþykkt að bjóða samtökum launafólks á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum (SIK), sem hafði óskað eftir fundi með ráðinu, til sameiginlegu ráðstefnunnar, í stað þess að halda aðskilinn fund með samtökunum.
    Forsætisnefndin var sammála um að þemaráðstefna ráðsins á Ísafirði 14..17. janúar hefði heppnast einstaklega vel, bæði með tilliti til upplýsandi fyrirlestra og góðra umræðna, og eins skipulags. Í kjölfarið var fjallað ítarlega um tillögur að ályktunum fyrir ársfund ráðsins, sem byggðar voru á niðurstöðum þemaráðstefnunnar um aukið samstarf Vestur-Norðurlandanna á sviði heilbrigðismála. Forsætisnefndin komst að þeirri niðurstöðu að leggja fram tvær tillögur, annars vegar um aukið samstarf um skurðaðgerðir, og hins vegar um aukið samstarf um náms- og starfsmannaskipti á milli landanna, þar á meðal á sviði geðheilbrigðismála. Aðrar tillögur sem ræddar voru lúta að samstarfi um sjúkraflug, sameiginlegum innkaupum á lyfjum og tækjabúnaði, rafrænum sjúkraskrám og fjarlækningum. Því næst var rætt um mögulegt þema fyrir ráðstefnu ráðsins árið 2014. Forsætisnefndin ákvað að þiggja boð Norðurlandaráðs um þátttöku í þemafundi þess í Bodø í Noregi 25..27. júní og að sækja fund þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Tromsø í Noregi í byrjun júní. Einnig var samþykkt að formaður Vestnorræna ráðsins mundi skrifa stuðningsbréf fyrir samtökin VOX Natura, sem hafa það að markmiði að auka meðvitund fólks um afleiðingar loftlagsbreytinga á ís og vatn, og eins hugsanlega að taka þátt í einstaka verkefnum samtakanna, þar á meðal „alþjóðlegu ári íssins“ (e. International Year on Ice). Formaður landsdeildar Grænlands benti á að háskólinn í Ottawa hefði einnig áhuga á samstarfi við Vestnorræna ráðið, og væri viðloðandi verkefnið „alþjóðlegt ár íssins“. Loks voru drög að dagskrá vestnorræns dags á Grænlandi í september rædd.

Ársfundur í Narsarsuaq á Grænlandi 19.–20. ágúst 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson og Oddný G. Harðardóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá fundarins voru málefni norðurslóða, nýting auðlinda, hótanir Evrópusambandsins (ESB) í garð Færeyja og Íslands vegna makrílveiða, sem og refsiaðgerðir ESB gegn Færeyjum vegna síldveiða. Þá var farið yfir afrakstur þemaráðstefnu ráðsins á Ísafirði í janúar og viðfangsefni næstu þemaráðstefnu rædd.
    Lars Emil Johansen, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ársfundinn og gerði grein fyrir starfi forsætisnefndar síðasta árið. Þar bar hæst þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og góður árangur af samstarfi við mismunandi ráðuneyti landanna þriggja en frá árinu 2009 hefur formaður Vestnorræna ráðsins markvisst fylgt eftir ályktunum ráðsins með því að funda með viðeigandi fagráðherrum á Norðurlandaráðsþingi og í heimalöndunum eins og mögulegt hefur verið. Að loknu ávarpi formanns gerði framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins grein fyrir starfsemi liðins árs og ársreikningi ársins 2012 sem var samþykktur af fundinum.
    Því næst gerðu formenn landsdeilda grein fyrir starfinu á liðnu ári. Fram kom í máli Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns Íslandsdeildar, að mikil ánægja hefði verið með Vestnorrænan dag sem haldinn var í Reykjavík um haustið. Hins vegar hefði stærsta verkefni Íslandsdeildar verið undirbúningur þemaráðstefnu ráðsins á Ísafirði. Á meðan á ráðstefnunni stóð hefði Vestnorræna ráðinu gefist tækifæri til að hitta bæjarráðsmenn bæði Ísafjarðar og Bolungarvíkur, og eins hefðu fundargestir verið viðstaddir opnun Grænlandsseturs í Bolungarvík. Unnur Brá greindi einnig frá skipun nýrrar Íslandsdeildar eftir kosningarnar í apríl, myndun nýrrar ríkisstjórnar og skipan nýs samstarfsráðherra.
    Laila Dåvøy, varaforseti norska Stórþingsins, flutti kveðju Stórþingsforseta og ræddi um sameiginlegar áskoranir Noregs og vestnorrænu landanna, einkum hvað varðaði auðlindanýtingu í hafi. Hún greindi frá því að Noregur færi nú með formennsku Norðurlandaráðs og hefði lagt sérstaka áherslu á vestnorrænt samstarf í formennskuáætlun sinni. Færeyski þingmaðurinn Høgni Hoydal tók því næst til máls fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs og flutti kveðju frá Marit Nybakk, forseta Norðurlandaráðs. Hann ræddi samstarf Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins, sem hann taldi hafa gengið vel, ekki síst hvað snerti áherslur um afleiðingar loftlagsbreytinga og nýtingu auðlinda í hafi. Loks tók mennta-, kirkju- og menningarmálaráðherra Grænlands, Nick Nielsen, til máls og ræddi um hvernig vestnorrænt samstarf hefði styrkst jafnt og þétt síðustu fjögur árin, m.a. samstarf Grænlands og Færeyja um þróun smáiðnaðar og verkefni á vegum Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), sjóðs á vegum ráðherraráðs Norðurlandaráðs. Þá væri opnun á aðalræðisskrifstofu Íslands í höfuðstað Grænlands, Nuuk, í september 2013 til marks um sífellt sterkari tengsl.
    Niðurstöður þemaráðstefnu ráðsins á Ísafirði í janúar komu næst til umræðu en ráðstefnan fjallaði um möguleikana á auknu vestnorrænu samstarfi á sviði heilbrigðismála eins og að framan greinir. Á ráðstefnunni komu fram margvíslegar hugmyndir um samstarf og urðu tvær þeirra að grundvelli ályktana sem voru samþykktar á ársfundinum. Fyrri ályktunin sneri að auknu samstarfi heilbrigðisstarfsfólks í löndunum þremur og síðari ályktunin að þróun frekara samstarfs á sviði skurðaðgerða. Jafnframt var samþykkt að stofna sérstakan vinnuhóp landanna þriggja sem hefði það hlutverk að þróa aðrar hugmyndir frekar.
    Í umræðu um norðurslóðir lagði Unnur Brá Konráðsdóttir til að Vestnorræna ráðið ynni, í samráði við fræðimenn, tillögur að sameiginlegri stefnu Vestur-Norðurlandanna um málefni Norðurslóða sem síðan yrði kynnt fyrir utanríkisráðuneytum landanna. Samþykkti fundurinn það. Þá var einnig samþykkt að sækja um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
    Í umræðu um hvernig hægt væri að styrkja vestnorrænt samstarf frekar var gerð sú tillaga að forsætisnefndin gæti beint fyrirspurnum til vestnorrænu ríkisstjórnanna. Samþykkt var að framkvæmdastjóri ráðsins skoðaði þessa leið frekar.
    Til viðbótar við ályktanir um heilbrigðissamstarf samþykkti ársfundur tvær aðrar ályktanir, annars vegar um að vinna gegn brottflutningi kvenna frá vestnorrænu löndunum og hins vegar um að efla samstarf um stuðning við les- og skrifblinda. Þá var ákveðið að efni þemaráðstefnu í Færeyjum í janúar 2014 yrði hvernig þróa mætti frekar vestnorrænan matvælamarkað.
    Við umræður um auðlindanýtingu sjávar samþykkti ársfundurinn ályktun sem fordæmir harðlega hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílveiða landanna, sem og refsiaðgerðir sambandsins gegn Færeyjum vegna síldarveiða þeirra. Í ályktuninni undirstrikaði ráðið að aðferðir ESB væru ekki viðunandi í alþjóðasamskiptum og benti enn fremur á að fyrri aðgerðir ESB hafi haft alvarleg áhrif á lítil samfélög í vestnorrænu löndunum, til dæmis þegar sambandið hafi lagt innflutningsbann á selvörur. Ráðið hvatti þá bæði Noreg og Norðurlandaráð til að styðja Færeyjar og Ísland og taka afstöðu gegn aðferðum ESB. Að lokum hvatti Vestnorræna ráðið ríkisstjórn Grænlands til að opna grænlenskar hafnir fyrir þau færeysku skip og vörur sem kunna að verða fyrir barðinu á refsiaðgerðum ESB, en Danmörk á sem kunnugt er aðild að ESB.
    Að lokum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Var Unnur Brá Konráðsdóttir einróma kjörin formaður Vestnorræna ráðsins fram að næsta aðalfundi. Unnur Brá sagði í ræðu sinni á fundinum að í formennskutíð sinni mundi hún leggja höfuðáherslu á að þrýsta á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að styrkja Norðurskautssamstarf landanna. Hún sagði jafnframt að hún mundi vinna að því að tryggja áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu, sem og að leggja áherslu á að löndin efldu samstarf sitt í heilbrigðismálum. Unnur Brá gerði að umtalsefni aðgerðir ESB í tengslum við makrílveiðar Íslands og Færeyja og síldveiðar Færeyja, sem og stuðning sjávarútvegsráðherra Noregs við þær, og sagði að hún mundi taka ályktun ársfundarins um málið upp á fundi forsætisnefndar ráðsins með sendinefnd Evrópuþingsins.
    Samhliða ársfundi fór fram fundur í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þar sem forsætisnefnd samþykkti tillögu að dagskrá fundar og fjallaði um framkomnar tillögur.
    Að ársfundi loknum stóð Vestnorræna ráðið fyrir sameiginlegri ráðstefnu með Norðurlandaráði, norska Stórþinginu og danska þinginu, um sameiginlegan skilning á nýtingu auðlinda sjávar í Norður-Atlantshafi. Sjávarútvegsráðherra Grænlands tók þar fyrstur til máls og fór yfir sögu fiskveiða á Grænlandi. Alyson Bailes, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, fylgdi á eftir með umfjöllun um stöðu og möguleika smáríkja í alþjóðakerfinu. Halldór Ásgrímsson, fyrrum framkvæmdastjóri ráðherraráðs Norðurlandaráðs og fyrrum forsætisráðherra Íslands, flutti erindi um þróun sjávarútvegs á Íslandi síðastliðin 30 ár. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, fjallaði um áhrif loftlagsbreytinga á fiskstofna, og Dr. Bjørn Kunoy, lögfræðingur í utanríkisráðuneyti Færeyinga, ræddi nýtingu auðlinda sjávar út frá hafrétti og komandi málaferli Færeyinga við Evrópusambandið vegna refsiaðgerða ESB gagnvart Færeyjum vegna síldveiða þeirra. Jahn Petter Johnsen, lektor við sjávarútvegsfræðadeild Tromsø-háskóla, hélt erindi um auðlindanýtingu út frá stjórnmála- og félagslegum vinkli, og Isabella Lövin, Evrópuþingmaður frá Svíþjóð, fjallaði m.a. um þróun fiskveiðistefnu ESB. Loks flutti Josef Therkildsen, frá samtökum launafólks á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum (SIK), erindi um áhrif auðlindanýtingar á launafólk í löndunum þremur, og Helle Siegstad, deildarstjóri hjá Náttúrustofnun Grænlands, fjallaði um þróun fiskstofna við Grænland.

Fundir Vestnorræna ráðsins á 65. Norðurlandaráðsþingi í Osló 28.–31. október 2013.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Norðurlandaráðsþing Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, auk Magneu Marinósdóttur alþjóðaritara. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku formanna landsdeilda Færeyja, Grænlands og Íslands í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum. Tilefni fundanna með fagráðherrunum var að ræða ályktanir ráðsins og önnur vestnorræn mál.
    Á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var ákveðið að umræðuefni næstu þemaráðstefnu ráðsins yrði möguleikar á sameiginlegum vestnorrænum matvörumarkaði. Þá var ákveðið að næsti ársfundur yrði í Vestmannaeyjum 1.–5. september 2014. Rætt var um undirbúning fyrir árlegan fund forsætisnefndar með sendinefnd Evrópuþingsins, sem haldinn var í nóvember í Strassborg og fjallað var um Vestnorræna daginn í Grænlandi sem haldinn var dagana 13.–14. september. Samþykkt var að Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, sækti 3. þingmannafund hinnar norðlægu víddar, sem er samstarfsvettvangur Íslands, Rússlands, Noregs og Evrópusambandsins um norðurslóðamál, í Arkhangelsk í Rússlandi í nóvember. Ákveðið var að forsætisnefnd sækti 11. fund þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í september 2014 í Whitehorse í Kanada. Jafnframt var samþykkt að formaður ráðsins auk framkvæmdastjóra mundi eiga fundi með fagráðherrum í öllum þremur löndunum ásamt formanni viðkomandi landsdeilda árið 2014 til að fylgja eftir ályktunum ráðsins og ræða forgangsmál í vestnorrænu samstarfi, m.a. þá vinnu sem þegar er hafin við að móta sameiginlega norðurskautsstefnu Vestur-Norðurlanda.
    Norska þingkonan Rigmor Andersen Eide, áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs á fundum Vestnorræna ráðsins, stýrði fundi forsætisnefnda ráðanna tveggja. Í inngangsorðum sínum lýsti hún því hvernig fjallað væri um mál á fundum Vestnorræna ráðsins sem tækifæri frekar en hindranir. Hún vék síðan sérstaklega að ályktunum Vestnorræna ráðsins um aukið samstarf í heilbrigðismálum og fækkun kvenna á jaðarsvæðum sem eru mál sem Norðurlandaráð hefur einnig ályktað um. Í umræðunni um heilbrigðismál var m.a. bent á að tæknilega væru möguleikar á samstarfi miklir, sbr. fjarlækningar til að veita þjónustu á stórum og strjálbýlum landsvæðum. Til að stuðla að betri samvinnu á sviði heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum, þar með talið Vestur-Norðurlöndum, væri hins vegar nauðsynlegt að koma upp rafrænum sjúkraskrám. Hvað fækkun kvenna á jaðarsvæðum snertir voru allir sammála um mikilvægi þess að taka saman niðurstöður rannsókna um orsakir þróunarinnar enda mikilvægt að snúa henni við.
    Á fundinum var einnig rætt um þátttöku Vestnorræna ráðsins á sumarfundi Norðurlandaráðs þar sem fjallað var um leit og björgun – mál sem hefur verið á dagskrá Vestnorræna ráðsins síðan 2006 – og sameiginlega þemaráðstefnu ráðanna um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins þar sem makríldeilan var m.a. til umræðu. Voru forsætisnefndarmenn beggja ráða sammála um mikilvægi áframhaldandi samráðs um sameiginleg hagsmunamál. Í þessu samhengi benti Eide á að tilkoma nýrrar ríkisstjórnar í Noregi gæti falið í sér tækifæri til að finna lausn á makríldeilunni. Að lokum lofaði hún Vestnorræna ráðið fyrir að hafa forgöngu um að koma aðkallandi málum á dagskrá eins og öryggi skipasiglinga, björgunarmál á norðurslóðum og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins – mál sem hafa síðar verið tekin til umfjöllunar bæði innan Norðurlandaráðs og Norðurskautsráðsins. Í framhaldinu stakk Lars-Emil Johansen, formaður landsdeilar Grænlands og forseti grænlenska þingsins, upp á þremur umræðuefnum fyrir næsta sameiginlega þemafund ráðanna: öryggismál á norðurslóðum, afleiðingar loftslagsbreytinga á umhverfi og samfélag, m.a. með vísan til hreyfinga uppsjávartegunda milli efnahagslögsagna, eða næstu skref í samvinnu á norðurslóðum. Hvað síðastnefnda umræðuefnið varðaði vísaði hann í samninga Norðurskautsráðsins um samstarf við leit og björgun á norðurslóðum frá 2012 og um samvinnu um viðbrögð gagnvart olíuslysum á svæðinu frá 2013. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs tók vel í hugmyndirnar og upplýsti í kjölfarið um fund Norðurlandaráðs um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem haldinn verður á Akureyri í apríl 2014. Fundurinn mun halda áfram þaðan sem frá var horfið á sameiginlegum fundi ráðanna síðastliðið haust, ekki síst hvað varðar leiðir til að leita lausna á deilum á borð við makríldeiluna. Loks bauð Vestnorræna ráðið Norðurlandaráðsþingi á þemaráðstefnu sína í janúar 2014 sem mun fjalla um möguleika á sameiginlegum vestnorrænum matvörumarkaði, en nokkrar takmarkanir eru t.d. á innflutningi kjötvöru til Íslands frá Færeyjum og Grænlandi. Í umræðunni kom m.a. fram að matur áhafna skipa og flugvéla frá Færeyjum og Grænlandi, sem millilendi á Íslandi, sé enn gerður upptækur en árið 2011 samþykkti Vestnorræna ráðið ályktun um frjálsan flutning á matvöru til einkanota.
    Á fundi með utanríkisráðherrum Vestur-Norðurlandanna var vinna við vestnorræna norðurskautsstefnu kynnt og sú afstaða Vestnorræna ráðsins að stefnumótunin muni renna styrkari stoðum undir sameiginlegan málflutning og hagsmunabaráttu Vestur-Norðurlanda. Ráðherrarnir voru sammála um að norðurskautsstefna Vestnorræna ráðsins gæti orðið góð viðbót við norðurskautsstefnu danska sambandsríkisins, stefnu einstakra Norðurlanda og Norðurlandaráðs, en bentu jafnframt á að löndin yrðu að eiga með sér virkt samráð um stefnumarkandi aðgerðir. Í því sambandi gerði Vestnorræna ráðið að tillögu sinni að ráðið mundi funda reglulega með utanríkisráðherrunum í tengslum við ársfund þess til að ræða norðurslóðamál. Hvað varðar takmarkanir á innflutningi kjötvöru til Íslands frá Færeyjum og Grænlandi benti grænlenski utanríkisráðherrann á að þetta væri úrlausnarefni íslenskra stjórnvalda þar sem reglur sem snúa að sjúkdómavörnum á Íslandi væru strangari en reglur Evrópusambandsins. Að mati ráðherrans er hugsanlega um landamærahindrun að ræða og athugandi hvort rýmka mætti íslensku reglurnar, sem eiga við um allan innflutning á allri matvöru erlendis frá, þegar Grænland og Færeyjar eiga í hlut. Vonir stæðu til að landbúnaðarráðherrar landanna þiggðu boð um þátttöku á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í upphafi árs 2014 til að ræða mögulegar leiðir til lausnar. Að lokum var upplýst að Vestnorræna ráðið hefði óskað eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.
    Það sem bar hæst á fundi með mennta- og menningarmálaráðherrum var kynning á formennskuáætlun Íslands fyrir Norðurlandaráð árið 2014 þar sem rík áhersla er lögð á Vestur- Norðurlöndin, staðfesting færeyska mennta- og menningarmálaráðherrans á því að Vestnorræni dagurinn yrði haldinn í Færeyjum 2014 og kynning á rammaáætlun Grænlendinga um menningu og listir 2014–2018. Þá var rætt um hvernig Ísland getur miðlað til Færeyja og Grænlands upplýsingum um og reynslu sinni af stuðningskerfi sínu við bókmennta- og kvikmyndageirann, en stuðningur við rithöfunda og kvikmyndagerðarmenn kom til umræðu í tengslum við kynningu á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2012 um stuðning við ritlist og sagnahefð í löndunum.
    Auk fundanna héldu formaður Vestnorræna ráðsins og Íslandsdeildar og formaður landsdeildar Færeyja ræður á Norðurlandaráðsþinginu. Í ræðu sinni lagði Unnur Brá Konráðsdóttir áherslu á samvinnu Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og samstarf við lausn ágreiningsefna í stað hótana með vísan í deilur um makríl- og síldveiðar. Auk þess sagði hún frá því að Vestnorræna ráðið væri að vinna að mótun vestnorrænnar norðurskautsstefnu og að ráðið hefði óskað eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Bill Justinussen, formaður landsdeildar Færeyja, las upp yfirlýsingu Vestnorræna ráðsins frá ársfundinum þar sem refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Færeyjum vegna síld- og makrílveiða og hótanir í garð Íslendinga vegna makrílveiða voru fordæmdar sem og stuðningur Noregs við aðgerðir sambandsins. Á sama tíma benti hann á mikilvægi fiskveiða fyrir Vestur-Norðurlöndin, einkum Færeyjar og Grænland þar sem 80.90% útflutningsverðmæta landsins koma frá sjávarútvegi, og mikilvægi þess að hafa sanngirni að leiðarljósi við lausn deilna.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins í Strassborg 21..22. nóvember 2013.
    
Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins og sendinefnd Evrópuþingsins áttu sinn árlega fund í Strassborg í nóvember. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar, sat fundinn fyrir hönd Vestnorræna ráðsins auk formanns landsdeildar Færeyja, en fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn Pat Gallagher, formaður, Paul Rübig, Catherine Stihler og Indrek Tarand.
    Á fundinum kom forsætisnefndin á framfæri gagnrýni sinni á hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Færeyjum og Íslandi vegna makrílveiða landanna og ákvörðun ESB um refsiaðgerðir gegn Færeyjum vegna síldveiða. Ráðið lagði áherslu á hversu ósátt það væri við aðferðir ESB, og kallaði á sanngjarnt samningaferli um ágreininginn með vísan í niðurstöður rannsókna sem bent hafa á að mikil stofnstækkun makríls í kjölfar loftslagsbreytinga undanfarinna ára kunni að valda umhverfisvanda í hafinu. Bent var á hversu vestnorrænu þjóðirnar eru háðar nýtingu sjávarauðlinda og alvarlegar afleiðingar fyrri aðgerða ESB með vísan í innflutningsbann ESB við selafurðum sem hafði neikvæð áhrif á lífsafkomu smárra selveiðibyggða á Grænlandi. Á fundinum kom fram að ESB telur sig í fullum rétti til þess að beita refsiaðgerðum þegar þjóðir fylgja ekki meginreglunni um sjálfbærni. Á sama tíma kom einnig fram í máli Evrópuþingmannanna að mikilvægt væri að ágreiningsmál væru leyst með samningum frekar en hótunum. Auk þessa máls var einnig fjallað um hval- og selveiðar vestnorrænu þjóðanna, endurskoðun sameiginlegrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, áhrif loftslagsbreytinga, nýjar siglingaleiðir á Norður-Atlantshafi og öryggismál sæfarenda.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem voru samþykktar á ársfundi í Narsarsuaq á Grænlandi 19. –20. ágúst 2013.
          Ályktun nr. 1/2013 um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna.
          Ályktun nr. 2/2013 um innleiðingu formlegs samstarfs við Færeyjar og Grænland um skurðlækningar.
          Ályktun nr. 3/2013 um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um orsakir fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.
          Ályktun nr. 4/2013 um samstarf við Færeyjar og Grænland um aukið framboð á kennslu til að taka á lestrar- og skriftarvanda.

Alþingi, 26. febrúar 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


formaður.


Vigdís Hauksdóttir,


varaformaður.


Katrín Jakobsdóttir.



Oddný G. Harðardóttir.


Páll Valur Björnsson.


Páll Jóhann Pálsson.