Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 332. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 726  —  332. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um greiðsluþátttöku.


     1.      Hvaða breytingar hefur reglugerð nr. 1155/2013 í för með sér fyrir einstaklinga til að afla nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða samanborið við ákvæði fyrri reglugerðar um styrki sjúkratrygginga almannatrygginga? Óskað er eftir töflum sem sýni breytingar á greiðsluþátttöku í samanburði við árið 2013, annars vegar fyrir öryrkja og aldraða (lífeyrisþega) og hins vegar börn og unglinga.
    
Í reglugerð um styrki vegna hjálpartækja er kveðið á um styrki sjúkratrygginga til að afla nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða skv. 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Styrkir eru eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar. Styrkur getur ýmist verið greiddur sem ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða ákveðin fjárhæð til kaupa á tæki. Þegar um er að ræða samninga Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar útboðs er styrkur frá stofnuninni háður því að hjálpartæki sé keypt hjá tilteknu samningsbundnu fyrirtæki. Sjúkratryggingar Íslands gefa út innkaupaheimildir vegna einnota hjálpartækja sem gilda í eitt, fimm eða tíu ár eftir atvikum hverju sinni í samræmi við gildandi reglugerð.
    Breytingarnar sem gerðar voru á reglugerðinni og tóku gildi 1. janúar sl. hafa ýmist í för með sér lækkun á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í ákveðnum vöruflokkum, afnám á greiðsluþátttöku tiltekinna vöruflokka eða þrengingu á reglum um úthlutun ákveðinna hjálpartækja. Auk þess áforma Sjúkratryggingar Íslands að auka enn frekar endurnýtingu hjálpartækja.
    Þá má geta þess þó ekki sé um það spurt að frá 1. janúar sl. var reglugerð nr. 1154/2013 um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði einnig breytt, en reglugerðin fellur undir kostnaðarviðfang hjálpartækja. Annars vegar felur breytingin í sér aukna kostnaðarþátttöku sjúklings í næringarefnum um slöngu, en breytingin á kostnaðarþátttöku ríkisins hefur fylgt breytingum á örorkulífeyri. Í annan stað miðar breytingin að því að rýmka heimildir sjúkratrygginga til að greiða fyrir næringarefni og sérfæði vegna langveikra og fatlaðra barna sem eru í hvíldarinnlögnum á sjúkrahúsum eða stofnunum, eins og Rjóðrinu, en áður þurftu foreldrar að koma með varninginn með börnunum í slíka dvöl.
    Í töflu hér á eftir má sjá helstu vöruflokka sem breytingarnar í reglugerð nr. 1155/2013 ná til. Reynt er að skýra þær í eins stuttu máli og kostur er.

Breyting á reglum um úthlutun hjálpartækja notenda samkvæmt reglugerð
nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja.

040312 CPAP-öndunarvélar Des. 2013 1. jan. 2014
Hlutur barna og lífeyrisþega í leigugjöldum vegna CPAP, kr./mán., hækkuð. 250 kr. 440 kr.
Hlutur annarra í leigugjöldum vegna CPAP, kr./mán., hækkuð. 1.500 kr. 2.650 kr.
063018 Gervibrjóst
Almennt þrenging á reglum. Í auknum mæli eru brjóst byggð upp við brjóstmissi vegna krabbameins. Því er reglum um árlegan styrk til kaupa á gervibrjóstum/brjóstfleygum breytt. Reglur um styrki hafa breyst annars staðar á Norðurlöndunum og eru þær hafðar til hliðsjónar. Þar eru ekki veittir styrkir til kaupa á sundbolum eða brjóstahöldum.
093004 Bleiur Des. 2013 1. jan. 2014
Greiðsluhlutdeild SÍ lækkuð. 100 % 90 %
Óljóst hvort lækkun á virðisaukaskatti á bleium fyrir fullorðna nær fram að ganga sem mildar kostnaðaráhrif á notendur. 20,5 % 7 %
093303 Bað- og sturtustólar með og án hjóla
Þrenging á reglum. Hjálpartæki við snyrtingu og böðun, svo sem baðkersbretti og baðkerssæti. Kostnaðarþátttaka nú bundin við tilgreinda alvarlega/erfiða sjúkdóma. Þrengingin kemur aðallega við aldraða.
1212 Hjálpartæki í bifreið
Þrenging á reglu. Skilyrði fyrir styrkveitingu á miklum og sérhæfðum breytingum á bifreiðum er að einstaklingur sé virkur og stundi vinnu/skóla alla virka daga.
1203 Stafir og hækjur og 1233 snúningshjálpartæki
Þrenging á reglum, styrkur bundinn nú við tiltekna sjúkdóma.
122127 Rafknúnir hjólastólar
Þrenging á reglu.
215103 Öryggiskallkerfi Sept. 2013 1. jan. 2014
Hlutur SÍ kr./mánuði til þjónustufyrirtækja pr. notanda lækkar. 6.700 kr. 5.500 kr.
Aukið átak í endurnýtingu hjálpartækja

     2.      Hvaða breytingar hefur reglugerð nr. 166/2014 í för með sér á gjaldskrár og greiðsluþátttöku öryrkja, aldraðra, barna og unglinga sem þurfa á þjálfun að halda samanborið við ákvæði fyrri reglugerðar um þjálfun sem sjúkratryggingar taka til og hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við þjálfun? Óskað er eftir töflum yfir breytingar á greiðsluþátttöku í samanburði við árið 2013, annars vegar fyrir öryrkja og aldraða (lífeyrisþega) og hins vegar börn og unglinga.
    Hér á eftir koma fram upplýsingar um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við þjálfun á 365 daga tímabili eins og hún var á árinu 2013 og eins og hún er nú fyrir þá hópa sem um er spurt:
     *      Börn: Hlutdeild barna yngri en 18 ára breyttist ekkert.
     *      Lífeyrisþegar sem fá greidda óskerta tekjutryggingu: Var 23% fyrir fyrstu 30 skiptin og ekkert eftir það. Nú 25% fyrir fyrstu 30 skiptin og 10% eftir það.
     *      Lífeyrisþegar sem fá greidda skerta tekjutryggingu: Var 23% fyrir fyrstu 30 skiptin og 10% eftir það. Nú 25% fyrir fyrstu 30 skiptin og 15% eftir það.
     *      Lífeyrisþegar sem ekki fá tekjutryggingu: Var 33% fyrir fyrstu 30 skiptin og 20% eftir það. Nú 35% fyrir fyrstu 30 skiptin og 25% eftir það.
    Fyrirspurnin felur ekki í sér ósk um að gera grein fyrir þeim breytingum sem urðu á greiðsluþátttöku almennra sjúklinga á 365 daga tímabili. Engu að síður vill ráðuneytið draga þær fram, enda fela þær í sér hlutfallslega meiri hækkun en fyrir þá hópa sem um er spurt. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     *      Greiðsluþátttaka almennra sjúklinga: Var 73% fyrir fyrstu 30 skiptin og 40% eftir það fyrir alla þjálfun. Nú greiða almennir að fullu umsamið heildarverð fyrir fyrstu 5 meðferðarskiptin hjá sjúkraþjálfara, 80% fyrir næstu 25 meðferðarskipti og 40% eftir það. Nú 80% af heildarverði fyrir fyrstu 30 skiptin fyrir talmeinaþjónustu og iðjuþjálfun og 40% eftir það.
    Í töflu aftast í svarinu eru sýndar þær breytingar sem verða á greiðslum sjúkratryggðra fyrir þjálfun sem sjúkratryggingar niðurgreiða og endurspegla bæði breytingar á hlutdeild sjúkratryggðra samkvæmt reglugerð nr. 166/2014 í kostnaði við þjálfun og umsömdu einingarverði samkvæmt rammasamningum Sjúkratrygginga Íslands og þjálfara um kaup Sjúkratrygginga Íslands á þjálfun utan sjúkrahúsa.

     3.      Hver eru talin áhrif framangreindra reglugerða nr. 1155/2013 og nr. 166/2014, hvorrar um sig, á greiðslur úr ríkissjóði samanborið við ákvæði fyrri reglugerða?
    Breytingarnar sem gerðar voru á umræddum reglugerðum er ætlað að svara sértækum hagræðingaráformum gildandi fjárlaga, lækka útgjöld og bæta afkomu ríkissjóðs, en fjárframlög til hjálpartækja voru lækkuð um 150 millj. kr. og um 100 millj. kr. til þjálfunar. Áætlað er að breytingarnar gangi eftir og skili þeirri útgjaldalækkun sem gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum.


Greiðslur sjúkratryggðra fyrir þjálfun árin 2013 og 2014 í kr.

Börn undir 18 ára og einstaklingar með umönnunarkort frá TR Aldraðir og lífeyris- þegar með óskerta tekjutryggingu Aldraðir og lífeyris- þegar með óskerta tekjutryggingu vegna meðferða umfram 30 á hverju 365 daga tímabili Aldraðir og lífeyris- þegar með skerta tekjutryggingu Aldraðir og lífeyris- þegar með skerta tekjutryggingu vegna meðferða umfram 30 á hverju 365 daga tímabili Aldraðir og lífeyris- þegar án tekju- tryggingar Aldraðir og lífeyris- þegar án tekju- tryggingar vegna meðferða umfram 30 á hverju 365 daga tímabili Almennir sjúklingar
Sjúkraþjálfun*
Gjaldskrá 1. janúar 2013
Almenn meðferð 1.086 1.086 0 1.086 472 1.559 944 3.450
Gjaldskrá 14. febrúar 2014
Almenn meðferð 1.131 1.230 492 1.230 738 1.722 1.230 4.921
Talþjálfun
Gjaldskrá 1. mars 2013
30 mín. meðferð 1.340 1.340 0 1.340 583 1.923 1.166 4.253
40 mín. meðferð 1.794 1.794 1.794 780 2.575 1.560 5.695
60 mín. meðferð 2.421 2.421 2.421 1.053 3.474 2.106 7.685
Gjaldskrá 1. janúar 2014
30 mín. meðferð 1.403 1.525 610 1.525 915 2.135 1.525 4.880
40 mín. meðferð 1.871 2.034 813 2.034 1.220 2.847 2.034 6.507
60 mín. meðferð 2.806 3.050 1220 3.050 1.830 4.270 3.050 9.761
Iðjuþjálfun
Gjaldskrá 1.janúar 2013
Almenn meðferð 1.082 1.082 0 1.082 470 1.552 940 3.443
Gjaldskrá 1. janúar 2014
Almenn meðferð 1.082 1.176 470 1.176 705 1.646 1.176 3.762
*Almennir sjúklingar greiða nú fyrstu fimm meðferðaskiptin hjá sjúkraþjálfara að fullu, 4.921 kr. hvert skipti og 80% af umsömdu verði fyrir næstu 25 skiptin eða 3.936 kr. hvert skipti.