Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 509. máls.

Þingskjal 870  —  509. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
með síðari breytingum (samræming og einföldun).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




I. KAFLI
    Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Orðin „sbr. 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.“ í 3. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „22,9%“ í 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: 22,86%.

3. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „18%“ í 1. mgr. 2. tölul. og 1. málsl. a-liðar 3. tölul. 70. gr. laganna kemur: 20%.

4. gr.

    Í stað orðanna „og 7. tölul.“ í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna kemur: 7. og 8. tölul.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur“ kemur: umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
     b.      Í stað orðsins „stjórnsýsluumdæmum“ kemur: umdæmum.

6. gr.

    Í stað orðanna „30 dögum“ í 3. málsl. 1. mgr. 112. gr. laganna kemur: mánuði.

7. gr.

    Í stað orðanna „og 2013“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XLIV í lögunum kemur: 2013 og 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

8. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „22,9%“ í a-lið 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 22,86%.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Í stað orðanna „og 7. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 7. og 8. tölul.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
10. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „14,48%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 14,52%.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, með síðari breytingum.
11. gr.

    Á eftir orðunum „og önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki“ í 2. tölul. 2. gr. kemur: og rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast ákvæði 4. og 9. gr. gildi 1. júlí 2014 og ákvæði 3. og 5. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Tilefni lagasetningar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum sem eru af ólíkum toga en flestar varða framkvæmdaratriði.
    Tilefni frumvarpsins er yfirferð fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir ákveðin atriði í skattalöggjöfinni sem talin er þörf á að samræma, einfalda og skýra með gleggri hætti til að styrkja skattframkvæmd og auka réttaröryggi.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum sem skipta má í eftirfarandi átta flokka.

1. Afleiður – vaxtaskiptasamningar.
    Lögð er til sú nauðsynlega breyting að fella tilvísun til 8. gr. tekjuskattslaga, er fjallar um vexti, afföll og gengishagnað, brott úr 16. gr. laganna þar sem fallið var frá því að láta sérreglur gilda um skattlagningu vaxtaskiptasamninga og ákvæðið því markleysa þar sem sömu reglur gilda um skattlagningu afleiðuviðskipta óháð undirliggjandi eignum.

2. Breyting á lægsta þrepi tekjuskatts og hámarksútsvari gerð varanleg.
    Lagt er til að sú tímabundna breyting sem gerð var til bráðabirgða með lögum nr. 139/ 2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. að lækka lægsta þrep tekjuskatts manna um 0,04%, úr 22,9% í 22,86% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu á árinu 2015 verði gerð varanleg. Sama á við um þá breytingu er gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem hámarksútsvar var hækkað um 0,04%, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014.

3. Tekjuskattur aðila með takmarkaða skattskyldu.
    Til samræmingar er lögð til hækkun á tekjuskatti manna með takmarkaða skattskyldu úr 18% í 20%, sbr. áður lögfestar hækkanir á tekjuskattsprósentum manna og lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 70. gr.

4. Skylda aðila sem undanþegnir eru tekjuskatti til að greiða fjármagnstekjuskatt.
    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um það að rekstur vatnsveitna og/eða fráveitna, sem undanþeginn er tekjuskatti, sé ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts. Engin rök þykja standa til þess að undanþiggja reksturinn sérstaklega frá greiðslu skatts af fjármagnstekjum.

5. Innheimta opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
    Fyrir Alþingi hefur verið lagt frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði þar sem lagt er til að sýslumannsembættum verði fækkað úr 24 í 9. Með fækkuninni verður sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins eitt. Í frumvarpi þessu er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við fækkun sýslumannsembættanna og mun tollstjóri annast innheimtu opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu verði frumvarpið að lögum.

6. Eindagi tekjuskatts.
    Lagt er til að ákvæði 112. gr. laganna, sem kveður á um að eindagi tekjuskatts af öðrum tekjum en launatekjum sé 30 dögum eftir gjalddaga, verði breytt á þann veg að eindaginn verði mánuði eftir gjalddaga. Er þetta gert til að fullt samræmi verði milli mánaða almanaksársins.

7. Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga og rekstraraðila.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XLIV í lögum um tekjuskatt, er varðar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda rekstraraðila, verði framlengt út næsta ár til samræmis við framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða XXXVI og XXXVII er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar.

8.     Fjársýsluskattur og rafeyrisfyrirtæki.
    Lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.
    Skv. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, eru fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, skattskyldir aðilar þegar þau í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Rafeyrisfyrirtæki voru skilgreind sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og voru því skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt. Ný lög nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris (rafeyrislög), tóku gildi 1. apríl 2013. Í greinargerð með rafeyrislögum kemur fram að lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði sérstök tegund fjármálastofnana en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja eins og verið hefur. Eftir gildistöku rafeyrislaga falla rafeyrisfyrirtæki ekki með skýrum hætti undir ákvæði 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt. Slík fyrirtæki inna þó enn af hendi vinnu eða þjónustu sem talin hefur verið undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
    Í ljósi þeirrar breytingar, sem gerð hefur verið á stöðu rafeyrisfyrirtækja með rafeyrislögum, er hér lagt til að ákvæði laga um fjársýsluskatt verði breytt í þá veru að rafeyrisfyrirtæki verði með afdráttarlausum hætti felld undir ákvæði laganna um skattskylda aðila. Við gildistöku laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, var við það miðað að rafeyrisfyrirtæki yrðu skattskyld og ný lög um þá starfsemi þykja ekki hafa breytt neinu um þær forsendur.

3. Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Breytingartillögur þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru nær eingöngu framkvæmdalegs eðlis og var því ekki talin þörf á faglegu samráði.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum. Gera má ráð fyrir að með breytingum á tekjuskatti aðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi og skyldu aðila sem undanþegnir eru tekjuskatti til að greiða fjármagnstekjuskatt kunni tekjur ríkissjóðs að aukast lítillega. Upplýsingar um líklegar fjárhæðir liggja þó ekki fyrir. Afleiðing lagasetningarinnar á almannahagsmuni, hagsmunaaðila og stjórnsýslu ríkisins mun ekki verða teljanleg enda nær eingöngu um að ræða leiðréttingar og breytingar á ákvæðum um framkvæmd laganna. Ávinningurinn af samþykkt frumvarpsins verður því mun meiri en hugsanleg neikvæð áhrif, þar sem reglur verða skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir skattaðila sem og skattyfirvöld.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með lögum nr. 142/2013, um breytingu á lögum um tekjuskatt, voru lögfest ákvæði um skattalega meðferð afleiðuviðskipta. Í þeim breytingum felst að tekjur af afleiðusamningum, óháð undirliggjandi eignum, verða meðhöndlaðar sem söluhagnaður/tap í stað vaxtatekna/ gjalda. Það leiðir til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum fellur brott í þeim tilfellum þar sem tekjur af afleiðusamningum teljast til söluhagnaðar. Jafnframt verður heimilt að jafna saman hagnaði eða tapi af sölu afleiðna á tekjuári. Í frumvarpi því er varð að áðurnefndum lögum var upphaflega gert ráð fyrir því að vaxtaskiptasamningar, sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti, yrðu undanskildir, þ.e. áfram skyldu gilda sömu reglur og um vexti að því er varðaði vaxtaskiptasamninga. Í meðförum þingsins var fallið frá þessu og því gilda nú sömu reglur um skattlagningu afleiðuviðskipta óháð undirliggjandi eignum. Nauðsynlegt er að fella tilvísun til 8. gr. tekjuskattslaga, er fjallar um vexti, afföll og gengishagnað, brott úr 16. gr. laganna þar sem fallið var frá því að láta sérreglur gilda um skattlagningu vaxtaskiptasamninga.

Um 2., 8. og 10. gr.

    Lagt er til að sú breyting sem gerð var til bráðabirgða með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. að lækka lægsta þrep tekjuskatts manna um 0,04%, úr 22,9% í 22,86% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu á árinu 2015 verði gerð varanleg. Sama á við um þá breytingu er gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem hámarksútsvar var hækkað um 0,04%, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014.

Um 3. gr.

    Til samræmingar er hér lögð til hækkun á tekjuskatti manna með takmarkaða skattskyldu, sbr. áður lögfestar hækkanir á tekjuskattsprósentum manna og lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 70. gr. Menn sem njóta frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna skulu greiða 20% tekjuskatt af þeim greiðslum í stað 18% verði frumvarpið að lögum. Sama á við um menn sem fá greiðslu fyrir þjónustu eða starfsemi innta af hendi hér á landi. Sá hundraðshluti reiknast m.a. af launum eða þóknunum til listamanna og annarra sem fram koma í atvinnuskyni til skemmtunar eða í hvers konar keppni, en með launum og þóknunum teljast hvers konar hlunnindi, þ.m.t. flutningur að og frá landinu hafi móttakandi ekki greitt hann sjálfur.

Um 5. gr.

    Vegna frumvarps til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, sbr. 250. þingmál á 143. löggjafarþingi 2013–2014, er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Í frumvarpi til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði er lagt til að sýslumannsembættum verði fækkað úr 24 í 9. Með fækkun embætta breytist umdæmaskipan þeirra þannig að eitt sýslumannsembætti verður á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Fækkun embætta er jákvæð að því leyti að hún mun að öllum líkindum leiða til hagkvæmari, skilvirkari og samræmdari innheimtu opinberra gjalda. Þörf er á breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til samræmis við þær breytingar sem frumvarpið boðar. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að tollstjóri annist innheimtu opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu. Þessi breyting er eðlileg og hagkvæm þar sem tollstjóri hefur sinnt innheimtu opinberra gjalda í stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins í Reykjavík. Við sameiningu umdæma sýslumanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði í eitt skapast tækifæri til að ná fram verulegri hagræðingu og samlegðaráhrifum við innheimtu opinberra gjalda. Tollstjóri innheimtir nú þegar á milli 60% og 70% allra álagðra skatta og gjalda, ásamt því að gegna sérstöku lögbundnu hlutverki við innheimtu skatta og gjalda á landsvísu, sbr. 1.–3. tölul. 1. mgr. 111. gr. tekjuskattslaga.

Um 6. gr.

    Í 3. málsl. 1. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga er tiltekið að eindagi sé 30 dögum eftir gjalddaga. Þar sem mánuðir almanaksársins telja ekki allir jafn marga daga þykir eðlilegt að ákvæðinu verði breytt á þann veg að eindaginn verði mánuði eftir gjalddagann svo að samræmis gæti, sbr. 5. mgr. 112. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 114. gr.

Um 7. gr.

    Með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, voru bráðabirgðaákvæði XXXVI og XXXVII við tekjuskattslögin framlengd um eitt ár eða út árið 2014. Við breytingu þessa fórst fyrir samsvarandi framlenging bráðabirgðaákvæðis XLIV. Ákvæðin varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga annars vegar og rekstraraðila hins vegar, en fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kom fram að talsverður fjöldi aðila ætti enn eftir að fá úrlausn sinna mála. Ákvæðunum sem lögfest voru með lögum nr. 104/2010, sbr. einnig b-lið 19. gr. laga nr. 165/2010, var ætlað að vera liður í skilvirkri endurskipulagningu skulda sem yrði til þess fallin að flýta efnahagsbata.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XLIV í lögum um tekjuskatt er varðar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda rekstraraðila verði framlengt út næsta ár til samræmis við framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða XXXVI og XXXVII er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar.

Um 4. og 9. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga verði bætt við upptalningu 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Ákvæði 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga fjallar um skattfrelsi stofnana eða félaga í meirihlutaeigu ríkis og/eða sveitarfélaga vegna lögbundinna verkefna vegna reksturs vatnsveitu og/eða fráveitu. Ákvæðið kom inn í tekjuskattslögin með lögum nr. 142/2013, um breytingu á lögum um tekjuskatt. Við vinnslu breytingarinnar láðist að gera nauðsynlegar breytingar á 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, til þess að ganga úr skugga um að rekstur vatnsveitna og/eða fráveitna væri ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts. Ekki eru talin standa rök til þess að undanþiggja reksturinn sérstaklega frá greiðslu skatts af fjármagnstekjum. Flestir aðilar sem falla undir 4. gr. tekjuskattslaga þurfa að greiða slíkan skatt en þeirra á meðal eru t.d. félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu og lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla. Til þess að gæta samræmis í framkvæmd varðandi skattlagningu á fjármagnstekjum hjá aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. tekjuskattslaga er því lagt til að fella aðila skv. 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga undir skattskyldu skv. 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga.

Um 11. gr.

    Með ákvæðinu eru rafeyrisfyrirtæki skv. lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, felld undir ákvæði 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, þar sem skattskyldir aðilar samkvæmt lögunum eru tilgreindir.

Um 12. gr.

    Gert er ráð fyrir því að lög þessi öðlist þegar gildi. Þó mun 3. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015. Sama á við um 5. gr. sem öðlast einnig gildi 1. janúar 2015 í samræmi við gildistökuákvæði frumvarps til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, sbr. 250. þingmál á 143. löggjafarþingi 2013–2014. Þá munu 4. og 9. gr. öðlast gildi 1. júlí 2014 og er ástæðan framkvæmdarlegs eðlis.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum í þeim tilgangi að samræma, einfalda og skýra betur ákveðin atriði í núverandi skattalöggjöf. Markmið frumvarpsins er að styrkja skattaframkvæmd og auka réttaröryggi frá því sem nú er. Ítarlega er fjallað um þessar breytingar í athugasemdum við frumvarpið en fyrst og fremst eru þær framkvæmdalegs eðlis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.