Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 657  —  343. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Álfheiði Ingadóttur
um styttingu bótatímabils atvinnuleysistrygginga.


     1.      Hversu margir er talið að missi atvinnuleysisbætur um næstu áramót við styttingu bótatímabils úr þremur árum í tvö og hálft ár?
    Gert er ráð fyrir að um 500 atvinnuleitendur hafi fullnýtt rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði um næstu áramót verði tímabilið sem atvinnuleysisbætur eru greiddar innan atvinnuleysistryggingakerfisins tvö og hálft ár frá og með 1. janúar 2015. Áætlun þessi miðast við stöðuna á atvinnuleysisskránni hjá Vinnumálastofnun um miðjan nóvember og jafnframt við það miðað að umræddir atvinnuleitendur verði samfellt skráðir án atvinnu innan kerfisins fram til næstu áramóta.

     2.      Hverjir eru það sem missa bætur vegna styttingarinnar? Óskað er sundurliðunar eftir kyni, aldri og búsetusveitarfélagi.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig þeir atvinnuleitendur sem gert er ráð fyrir að muni fullnýta rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði um næstu áramót, miðað við að tímabilið sem atvinnuleysisbætur eru greiddar innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði tvö og hálft ár og að viðkomandi verði samfellt skráðir án atvinnu innan kerfisins fram að þeim tíma, skiptast eftir kyni, aldri og búsetusveitarfélagi. Ekki eru tiltekin sérstaklega þau sveitarfélög þar sem gert er ráð fyrir að um verði að ræða færri en fimm atvinnuleitendur.

Fjöldi atvinnuleitenda sem lýkur bótarétti um áramót
miðað við styttingu bótatímabils.

Áætlun Vinnumálastofnunar 30 ára og yngri      30–50 ára 50 ára og eldri     
Sveitarfélag Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Samtals
Reykjavík 29 31 47 58 31 33 229
Kópavogur 7 6 10 14 6 11 54
Hafnarfjörður 8 5 4 20 3 14 54
Akureyri 3 3 6 3 7 7 29
Reykjanesbær 3 3 7 6 4 4 27
Garðabær 2 3 3 8 1 2 19
Sveitarfélagið Árborg 2 2 1 6 2 2 15
Mosfellsbær 0 0 1 3 4 3 11
Akranes 1 0 1 2 3 2 9
Grindavíkurbær 2 0 1 3 0 0 6
Fjallabyggð 0 1 2 1 1 1 6
Færri en fimm atvinnulausir í sveitarfélaginu 4 9 8 11 13 9 54
Samtals 61 63 91 135 75 88 513
Heimild: Vinnumálastofnun.

     3.      Hvernig er fyrirhugað að aðstoða þennan hóp í atvinnuleit og framfærslu? Hversu miklu fjármagni verður varið til þess á næsta ári?
    Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Það hefur verið litið svo á að það sé hlutverk löggjafans að ákveða hvernig þeirri aðstoð skuli háttað en með lögum hefur verið komið á ákveðnu kerfi í þeim tilgangi að tryggja þeim sem á þurfa að halda aðstoð. Atvinnuleysistryggingakerfið er einungis eitt af þeim kerfum sem saman mynda íslenska velferðarkerfið en auk þess má nefna félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og almannatryggingakerfið, sbr. lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Hefur löggjafanum verið ætlað ákveðið svigrúm til að ákveða viðmiðunarreglur um hvenær menn séu taldir þurfa aðstoðar við og fer það eftir þeim viðmiðunarreglum hvar umræddir atvinnuleitendur eiga rétt á aðstoð sér og sínum til framfærslu.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur stofnunin þegar brugðist við fyrirhugaðri styttingu á bótatímabili innan atvinnuleysistryggingakerfisins með ýmsum hætti. Þannig fá allir atvinnuleitendur sem nýtt hafa meira en 25 mánuði af bótatímabili sínu innan kerfisins einstaklingsmiðaða þjónustu en gert er ráð fyrir að hver ráðgjafi sem sinnir þessum hópi atvinnuleitenda hafi ekki fleiri en 100 ráðþega í þjónustu sinni á hverjum tíma. Stofnunin leggur áherslu á að þjónusta stofnunarinnar sé samfelld og taki ekki mið af því hvort og þá hvaðan viðkomandi atvinnuleitendur fá aðstoð hvað varðar framfærslu og því munu þeir atvinnuleitendur sem fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins halda áfram að fá þjónustu hjá stofnuninni eftir að bótaréttur hefur verið fullnýttur. Hjá Vinnumálastofnun hefur verið komið á fót eins konar virknitorgi sem meðal annars er byggt á því nána samstarfi sem komið hefur verið á milli ráðgjafa Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, félagsþjónustu sveitarfélaga og Virk, starfsendurhæfingarsjóðs, en allt eru þetta aðilar sem veita atvinnuleitendum þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfi þeirra. Tilgangurinn með samstarfi framangreindra aðila á virknitorgi er meðal annars að tryggja samvinnu og skilvirkni milli ólíkra kerfa þar sem hugsanlega er verið að aðstoða sama einstaklinginn með einum eða öðrum hætti innan mismunandi þjónustukerfa á sama tíma. Með samstarfinu er jafnframt unnt að tyggja ákveðna samfellu komi til þess að viðkomandi einstaklingur flytjist á milli þjónustukerfa, meðal annars í tengslum við aðstoð hvað varðar framfærslu. Á virknitorginu er atvinnuleitendum meðal annars boðið, eftir því sem við á hverju sinni, að taka þátt í starfsleitarnámskeiði þar sem farið er yfir ýmis atriði í tengslum við atvinnuleit, svo sem gerð ferilskrár og fleira. Enn fremur getur verið um að ræða ýmiss konar sjálfstyrkingarnámskeið og hvatningarnámskeið. Þá getur atvinnuleitendum sem ekki hafa verið metnir með læknisfræðilegan heilsubrest staðið til boða að taka þátt í atvinnutengdri endurhæfingu, sbr. lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, en í slíkum tilvikum er miðað við tólf vikna námskeið, meðal annars í samstarfi við Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Þeir sem hafa verið metnir með læknisfræðilegan heilsubrest fá þjónustu hjá Virk, starfsendurhæfingarsjóði, sbr. lög nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu.
    Auk þess sem að framan greinir gerir stofnunin ráð fyrir að leita eftir samstarfi við atvinnulífið með það að markmiði að fjölga nýjum starfstækifærum fyrir atvinnuleitendur sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er þá gert ráð fyrir að stofnunin greiði atvinnurekendum sem ráða umrædda atvinnuleitendur til vinnu styrk í tiltekinn tíma sem nemur grunnatvinnuleysisbótum ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð. Í þessu sambandi stefnir Vinnumálastofnun að því að opna svokallaða starfagátt þar sem atvinnurekendur eru hvattir til að skrá inn laus störf sem gætu nýst þeim einstaklingum sem verið hafa án atvinnu um lengri eða skemmri tíma og ekki eiga lengur rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá mun Vinnumálastofnun veita þeim atvinnurekendum sem þess óska aðstoð við ráðningu og móttöku starfsmanns sem lengi hefur verið án atvinnu, meðal annars hvað varðar þjálfun svokallaðra mentora eftir því sem þörf krefur.
    Almennt leggur Vinnumálastofnun áherslu á að greina starfshæfni atvinnuleitenda eins fljótt og unnt er eftir að viðkomandi hefur skráð sig án atvinnu hjá stofnuninni og hefur meðal annars verið notast við matstækin „Heilsutengd lífsgæði“ og „DASS“ í því sambandi. Einnig hefur verið gengið frá samningi við Múlalund um fjögurra vikna starfsprufur í raunaðstæðum á vinnustað í þeim tilgangi að leggja mat á vinnufærni atvinnuleitenda. Þá er Vinnumálastofnun í nánu samstarfi við sérfræðinga hjá Virk, starfsendurhæfingarsjóði, við mat á vinnufærni einstaklinga. Í þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi er metinn óvinnufær veitir Vinnumálastofnun honum upplýsingar um hvar innan kerfisins hann getur óskað eftir þjónustu eftir því sem við á hverju sinni.
    Samkvæmt upplýsingum frá Starfi – vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. setti Starf ehf. í október 2014 af stað verkefni sem kallað hefur verið „Til starfa á ný“ þar sem áhersla hefur verið lögð á þjónustu við þá atvinnuleitendur sem gera má ráð fyrir að hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins um næstu áramót verði tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar innan kerfisins tvö og hálft ár frá og með 1. janúar 2015. Í tengslum við verkefnið hafa atvinnuráðgjafar Starfs ehf. unnið eftir tiltekinni framkvæmdaáætlun þar sem öll úrræði og áætlanir hafa miðast við að aðstoða atvinnuleitendur við að verða þátttakendur á vinnumarkaði að nýju enda sé viðkomandi atvinnuleitandi vinnufær. Þeim atvinnuleitendum sem ekki hafa þótt vinnufærir hefur verið leiðbeint hvað varðar önnur hugsanleg úrræði.
    Frá því að verkefnið hófst hefur Starf – vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. aflað grunnupplýsinga um hvern atvinnuleitanda sem fær þjónustu frá Starfi ehf. auk þess sem umræddir atvinnuleitendur hafa verið boðaðir í viðtal þar sem þeir hafa verið upplýstir um réttindi þeirra innan kerfisins. Eftir að viðkomandi atvinnuleitendum hefur verið boðin þátttaka í ýmis konar úrræðum hefur þeim verið fylgt náið eftir af ráðgjöfum Starfs ehf., meðal annars í því skyni að tryggja þátttöku þeirra í þeim úrræðum sem ákveðið hefur verið að þeir taki þátt í. Samkvæmt upplýsingum frá Starfi ehf. mun sú eftirfylgni halda áfram fram að næstu áramótum en verkefnið „Til starfa á ný“ gerir ráð fyrir slíkri eftirfylgni þar til verkefninu lýkur. Þá munu ráðgjafar Starfs ehf. jafnframt upplýsa atvinnuleitendur sem bætast í umræddan hóp atvinnuleitenda fram að næstu áramótum um bótarétt þeirra innan kerfisins ásamt því að bjóða viðkomandi atvinnuleitendum þátttöku í viðeigandi úrræðum hverju sinni.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 (1. mál) er gert ráð fyrir að um 600 millj. kr. verði til ráðstöfunar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í sérstök átaksverkefni á árinu 2015.

     4.      Verður hagræðingarkrafa ráðuneytisins lækkuð eða skorið niður á öðrum útgjaldaliðum, og þá hverjum, ef fyrirhugaður sparnaður vegna styttingar bótatímabils atvinnuleysistrygginga verður minni en 1.130 millj. kr. á árinu 2015, eins og nú stefnir í?
    Gert er ráð fyrir að hagræðingin verði um 130 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir í upphafi í ljósi þess að áætlað er að skráð atvinnuleysi verði lægra á árinu 2015 en upphaflega var gert ráð fyrir. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að skráð atvinnuleysi verði 3,2–3,3% á árinu 2015 í stað 3,8%. Ekki er gert ráð fyrir að skorið verði niður á öðrum útgjaldaliðum þar sem lækkun atvinnuleysis kemur þá fram á öðrum fjárlagaliðum.

     5.      Hver er afstaða ráðherra til kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin fái sérstaka fjárveitingu til að mæta 500 millj. kr. kostnaðarauka þeirra vegna áformaðrar styttingar bótatímabils atvinnuleysistrygginga?
         Það þykir ekki sjálfgefið að atvinnuleitendur sem fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins leiti til félagsþjónustu sveitarfélaga. Ítrekað er að ástæða þess að lagt er til að tímabilið sem atvinnuleysisbætur eru greiddar innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði stytt um sex mánuði er sú jákvæða þróun sem hefur verið á innlendum vinnumarkaði síðustu missirin. Dregið hefur úr atvinnuleysi, bæði skráðu atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun og mælingum í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Verður því að ætla að nokkrar líkur séu á að atvinnuleitendur án tillits til lengdar atvinnuleitar þeirra fái störf á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur er lögð áhersla á að atvinnuleitendur fái áfram einstaklingsbundna þjónustu innan þess kerfis sem þykir þjóna hagsmunum hvers og eins best. Kunna atvinnuleitendur sem ekki eiga lengur rétt á greiðslum innan atvinnuleysistryggingakerfisins einnig að eiga rétt á endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, verði talið að þeir þurfi á atvinnutengdri starfsendurhæfingu að halda eða hugsanlega læknisfræðilegri endurhæfingu. Þá má gera ráð fyrir að einhverjir leiti aðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélaga enda er sú þjónusta eitt af þeim kerfum sem mynda saman íslenskt velferðarkerfi. Það er jafnframt ljóst að sífellt þarf að meta fjárþörf sveitarfélaganna miðað við raunþörf þeirra vegna þjónustu þeirra við fólk er nýtur fjárhagsaðstoðar eða annars konar aðstoðar á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga til að gera sveitarfélögum það kleift að veita lögboðna þjónustu.

     6.      Hver er afstaða ráðherra til kröfu Samtaka atvinnulífsins um að lækka um 1.000 millj. kr. framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð í stað þess að auka inneign sjóðsins hjá ríkissjóði?
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 gerir ráð fyrir að útgjöld sem greiðast skulu úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2015 nemi um 14.035 millj. kr. þegar tekið er mið af þeim sparnaði sem ráðgert er að verði vegna styttingu tímabilsins sem atvinnuleysisbætur eru greiddar innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Tekjur hans af atvinnutryggingagjaldinu samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, eru áætlaðar nema um 14.500 millj. kr. þannig að ekki verður séð að sá rúmi milljarður sem sparist vegna fyrirhugaðrar styttingar bótatímabils leiði til inneignar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.