Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 835  —  326. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um áhrif þingmála á fjárhag sveitarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver eru áætluð heildaráhrif á fjárhag sveitarfélaga af 2. og 3. máli þessa þings, þ.e.:
     a.      frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta),
     b.      frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015?


    Í umsögn og greinargerð með frumvarpi laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (2. mál), koma fram áhrif á tekjur ríkissjóðs. Heildaráhrif á afkomu ríkissjóðs eru áætluð 3,7 milljarða kr. til lækkunar og þar af er 1 milljarður kr. vegna hækkunar barnabóta en sú hækkun hefur ekki áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Lögbundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru ákvörðuð með tvennum hætti samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Annars vegar framlag úr ríkissjóði sem nemur 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og hins vegar framlag sem nemur 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs. Gera má ráð fyrir að áhrif ákvæða frumvarpanna, sem fyrirspurn þessi lýtur að, á fjárhag sveitarfélaga muni skila sveitarfélögum um 57 millj. kr. lægri tekjum vegna minnkandi skatttekna ríkisins að þessu leyti. Í þessu sambandi er þó ástæða til að vekja athygli á að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 var gert ráð fyrir að framlag í Jöfnunarsjóð hækkaði um nærri 750 millj. kr. á næsta ári á grundvelli endurmats á tekjuáætlun ríkissjóðs, þ.m.t. með tilliti til þessara og annarra skattkerfisbreytinga. Í eftirfarandi töflu má sjá skiptingu á áætluðum áhrifum frumvarpanna sem hér um ræðir á fjárhag ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir einstökum gjalda- og skattabreytingum en hafa ber í huga að hér ekki lagt mat á þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvörpunum við þinglega meðferð þeirra.

Í millj. kr. Áhrif á
ríkissjóð
Áhrif á sveitarfélög
Almennt hlutfall virðisaukaskatts lækkar úr 25,5% í 24% -7.500 -159
Lægra þrep virðisaukaskatts hækkar úr 7% í 12% 11.000 233
Fólksflutningar í afþreyingarskyni 300 6
Afnám vörugjalda, annað en sykur -3.000 -64
Afnám vörugjalda af sykri -3.500 -74
-2.700 -57

    Í umsögn um frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015 (3. mál), er gert ráð fyrir að þær breytingar sem þar eru lagðar til muni leiða til þess að afkoma ríkissjóðs muni batna um 2,1 milljarð kr. frá því sem annars hefði orðið. Ekki er þar gerð sérstök grein fyrir hugsanlegum áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga þar sem þessar umsagnir miða fyrst og fremst að því að greina fjárhagsáhrif stjórnarfrumvarpa á ríkissjóð. Þegar umsögn fyrrgreinds frumvarps er skoðuð eru það einkum tvö atriði sem kunna að hafa í för með sér fjárhagsáhrif fyrir sveitarfélögin.
    Annars vegar er gert ráð fyrir að tímabilið sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar verði stytt frá og með 1. janúar 2015 um sex mánuði þannig að heimilt verði að greiða atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði í stað 36 mánaða. Þá er í samræmi við framangreint jafnframt gert ráð fyrir breytingum á tilteknum ákvæðum laganna þar sem kveðið er á um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum og viðurlög. Áætlað var að þessi breyting mundi leiða til þess að útgjöld vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækkuðu um 1.130 millj. kr. á árinu 2015 í samræmi við þáverandi spá Vinnumálastofnunar um þróun skráðs atvinnuleysis á árinu. Gangi þessar breytingar eftir má gera ráð fyrir að einhver fjöldi þeirra sem falla af atvinnuleysisbótum vegna þessara aðgerða muni sækja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Hins vegar er með öllu óljóst hversu mikill sá fjöldi verður á endanum en lauslega áætlað má gera ráð fyrir að fjöldinn geti verið á bilinu 40–60%. Í þessu sambandi má benda á að fjöldi viðtakenda fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna sem eru atvinnulausir hefur nánast ekkert aukist árin 2011–2013. Þannig hafa 3.500–3.600 manns sem eru atvinnulausir fengið fjárhagsaðstoð yfir þetta tímabil en þar af eru 2.300–2.400 sem eru án bótaréttar samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Gróflega áætlað má því gera ráð fyrir að þessi aðgerð geti leitt til nokkurra hundruð milljóna króna viðbótarútgjalda fyrir sveitarfélögin. Á móti er vakin athygli á því að fyrir þinginu liggur frumvarp til laga sem heimila sveitarfélögum að skilyrða ákvörðun um fjárhagsaðstoð við mat á vinnufærni og virka atvinnuleit þeirra sem taldir eru vinnufærir. Hefur velferðarráðuneytið áætlað að þetta gæti leitt til 100–150 millj. kr. lækkunar á útgjöldum sveitarfélaga. Loks er rétt að benda á lagabreytingu sem gerð var í lok árs 2010, og tók gildi 1. janúar 2011, sem fól í sér að atvinnuleysisbótatímabilið var lengt um eitt ár, eða úr þremur árum í fjögur ár, fyrir þá einstaklinga sem höfðu orðið atvinnulausir 1. maí 2008 eða síðar. Ætla má að ríkið hafi sparað sveitarfélögunum verulega fjármuni eða nokkra milljarða króna á árunum 2011–2013 með þessari lengingu á bótatímabilinu þar sem þessir einstaklingar hefðu að öðrum kosti margir hverjir átt rétt á framfærsluaðstoð af hálfu sveitarfélaga.
    Hins vegar er gert ráð fyrir að sú breyting sem gerð var til bráðabirgða með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. að lækka lægsta þrep tekjuskatts um 0,04%, úr 22,9% í 22,86% í staðgreiðslu á árinu 2014 og við álagningu á árinu 2015, verði framlengd tímabundið um eitt ár að svo stöddu til samræmis við tekjuhlið frumvarpsins. Sama á við um þá breytingu sem gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem hámarksútsvar var hækkað um 0,04%, úr 14,48% í 14,52% á árinu 2014. Að óbreyttum lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs hefðu aukist um 460 millj. kr. og tekjur sveitarfélaga lækkað um sömu fjárhæð. Með því að framlengja fyrrgreint ákvæði um eitt ár er því gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 460 millj. kr. lægri en ella hefði orðið, eða samtals 920 millj. kr. bæði árin 2014 og 2015, og útsvarstekjur sveitarfélaga samsvarandi hærri. Í þessu sambandi má einnig nefna að á liðnum árum hafa ýmsar ráðstafanir sem ríkið hefur gert fært sveitarfélögum miklar tekjur. Þannig hafa t.d. útsvarstekjur sveitarfélaga vegna sérstakrar úttektar séreignarsparnaðar aukist um samtals 13 milljarða kr. frá árinu 2009 miðað við meðalútsvar og þá er gert ráð fyrir að tekjur Jöfnunarsjóðs muni aukast um samtals 2,4 milljarða kr. á tímabilinu 2014–2017 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, svonefnds bankaskatts.