Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 968  —  438. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um pyndingar.


     1.      Hefur verið brugðist við tilmælum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu til íslenskra stjórnvalda um að lagfæra skilgreiningu pyndingahugtaksins í almennum hegningarlögum og tryggja með fullnægjandi hætti að pyndingar verði gerðar refsiverðar?
    Kveðið er á um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Sambærilegt bann er að finna í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Ekki er að finna skilgreiningu á hugtakinu pyndingum í hegningarlögum þó svo að ákvæði laga taki til þeirrar háttsemi sem rúmast innan hugtaksins. Eins og komið hefur fram í reglulegum skýrslum íslenskra stjórnvalda til nefndarinnar sem hefur eftirlit með framkvæmd samningsins hefur afstaða stjórnvalda verið sú að lagaumgjörðin sé fullnægjandi hvað varðar ákvæði 1. gr. samningsins. Hér er sérstaklega vísað til ákvæða 217. og 218. gr. hegningarlaga um líkamsárásir og sérrefsiákvæða vegna brota í opinberu starfi í XIV. kafla laganna, þ.e. ákvæða 131., 132., 134., 135. og 138. gr. Þá ber að geta ákvæða 225. gr. hegningarlaga um ólögmæta nauðung og 226. gr. um frelsissviptingu, sem og ýmis ákvæði XXII. kafla laganna um kynferðisbrot. Þá er rétt að minna á þá almennu túlkunarreglu að landslög ber að túlka til samræmis við þjóðarétt. Því er ljóst að ef reyndi á hugtakið yrði það túlkað til samræmis við ákvæði 1. gr. samningsins. Við vinnslu reglubundinna skýrslna til nefnda sem fara með eftirlit með mannréttindaskuldbindingum Íslands fer ávallt fram mat á athugasemdum nefndanna frá síðustu fyrirtöku á grundvelli viðkomandi samninga. Nú er unnið að svörum til nefndarinnar sem hefur eftirlit með samningnum gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu vegna næstu fyrirtöku á framkvæmd íslenskra stjórnvalda. Í þeirri vinnu verða athugasemdir nefndarinnar teknar til skoðunar.

     2.      Hve margar kærur bárust ríkissaksóknara á árunum 2011–2013 þar sem kært var fyrir brot sem fellur undir atferlislýsingu 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og hver urðu afdrif málanna í réttarkerfinu?

    Fyrsta grein samningsins gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er svohljóðandi: „Í samningi þessum merkir hugtakið „pyndingar“ hvern þann verknað sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu með í því skyni t.d. að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar þeim sársauka eða þjáningu er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem rekja má að öllu leyti til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum.“
    Almennt hefur verið talið að greinin feli í sér ákveðin skilyrði. Þar er efnisskilyrði um grófleika verknaðarins, skilyrði um að verknaður sé framinn af tilteknum hvötum og fortakslaust skilyrði um aðkomu handhafa opinbers valds að verknaðinum. Óskað var eftir upplýsingum frá ríkissaksóknara um fjölda kæra sem borist hafa embættinu og varða meinta misbeitingu valds lögreglumanna í starfi. Taflan hér á eftir tekur til allra kæra sem varða meinta misbeitingu frá árinu 2008 til 2014. Á tímabilinu reyndi því ekki á ákvæði hegningarlaga er varða háttsemi eins og lýst er í 1. gr. samningsins.

Kærur sem varða meinta misbeitingu 2008–2014.

Ártal Brot Afgreiðsla
2008 Niðurlægjandi háttsemi við líkamsleit Fallið frá saksókn/athugasemdum við hegðun
2008 Harðræði Fellt niður
2008 Harðræði Fellt niður
2008 Harðræði Ákæra (sakfellt fyrir líkamsárás, sýkna af broti í starfi)
2008 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2008 Harðræði Rannsókn hætt
2008 Harðræði/neitað um salernisferð Fellt niður
2008 Harðræði Fellt niður
2008 Harðræði/niðrandi ummæli Fellt niður
2008 Harðræði Fellt niður
2008 Harðræði Fellt niður
2008 Harðræði við handtöku Fellt niður
2008 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2008 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2008 Harðræði Rannsókn hætt
2009 Harðræði ákæra (sýkna í héraði, sakfellt fyrir brot í starfi í Hæstarétti, sýknað af líkamsárás)
2009 Harðræði Fellt niður
2009 Harðræði Rannsókn hætt
2009 Harðræði Rannsókn hætt
2009 Harðræði Rannsókn hætt
2009 Ill meðferð/of löng vist í fangaklefa Fellt niður
2009 Harðræði/of lengi í klefa, ekki samband við ættingja/lögmann Fellt niður
2009 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt/athugasemdir við orðalag lögreglu
2009 Harðræði Fellt niður
2009 Harðræði Rannsókn hætt
2009 Harðræði Fellt niður
2009 Harðræði/ólögmæt líkamsleit Fellt niður/fallið frá saksókn
2010 Harðræði Fellt niður
2010 Harðræði Fellt niður
2010 Niðurlægjandi meðferð við handtöku Fellt niður
2010 Harðræði Kæra afturkölluð
2010 Harðræði við handtöku Fellt niður
2010 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2010 Hótun Fellt niður
2010 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2010 Harðræði Rannsókn hætt
2010 Harðræði Rannsókn hætt
2010 Harðræði Rannsókn hætt
2010 Harðræði Rannsókn hætt
2010 Harðræði við handtöku Fellt niður
2010 Harðræði við handtöku/illur aðbúnaður í klefa Fellt niður
2011 Niðurlægjandi meðferð/leit í fjölmiðlum Rannsókn hætt
2011 Niðurlægjandi meðferð/leit í fjölmiðlum Rannsókn hætt
2011 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2011 Harðræði við handtöku Fellt niður
2011 Ill meðferð Rannsókn hætt
2011 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt
2011 Harðræði Rannsókn hætt
2011 Harðræði Rannsókn hætt
2011 Harðræði Fellt niður
2011 Gögnum leynt vegna gæsluvarðhalds Rannsókn hætt
2011 Harðræði Rannsókn hætt
2012 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga. (Gerð athugasemd við að ranglega var bókað að kærandi óskaði ekki eftir verjanda og ekki bókað að hún óskaði þess að samband yrði haft við aðstandendur)
2012 Harðræði við handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga. (Gerð athugasemd við tímalengd frelsissviptingar í kjölfar handtöku)
2012 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga. (Gerðar athugasemdir við að menn í sjálfsvígshættu séu látnir afklæðast)
2012 Harðræði við handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2011 Harðræði við handtöku Sakfellt í héraði fyrir brot á 132. gr. almennra hegningarlaga
2012 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga . (Gerðar athuga- semdir við að menn í sjálfsvígshættu séu látnir afklæðast)
2012 Harðræði við handtöku og í klefa Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga (Fyrnt)
2012 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2012 Harðræði við handtöku/líkamsárás Fallið frá saksókn, 146. gr. sakamálalaga
2012 Harðræði við handtöku/líkamsárás Kæru vísað frá, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2012 Harðræði við handtöku/líkamsárás Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2012 Andlát manns í vörslu lögreglu Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði, niðurlægjandi framkoma við handtöku Kæru vísað frá
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku Kæru vísað frá
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Líkamsárás vegna afskipta við handtöku Rannsókn hætt
2013 Líkamsmeiðing af gáleysi á vettvangi Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Ekki virt ósk um rétt til lögmanns Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku Hæstaréttardómur, skilorðsbundið fangelsi
2013 Harðræði við handtöku Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku Kæru vísað frá
2013 Harðræði við handtöku Kæru vísað frá – fyrnt
2013 Harðræði við handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Harðræði við handtöku og í klefa Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Niðurlæging við handtöku og vöntun á upplýsingum um handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Niðurlæging við handtöku og vöntun á upplýsingum um handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2013 Niðurlæging við handtöku og vöntun á upplýsingum um handtöku Fellt niður, 145. gr. sakamálalaga
2014 Harðræði við handtöku Kæru vísað frá
2014 Harðræði við handtöku og í klefa Rannsókn hætt, 4. mgr. 52. sakamálalaga
2014 Tillitssemi og háttvísi áfátt – upplifði neikvæð samskipti Kæru vísað frá
2014 Harðræði við handtöku og í klefa Ekki tilefni til að framkvæma rannsókn
2014 Harðræði við handtöku og í klefa Kæru vísað frá