Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1258  —  490. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni um úthlutun listamannalauna.


     1.      Telur ráðherra að úthlutun listamannalauna standist stjórnsýslulög þar sem stjórn fag­félags velur í úthlutunarnefnd sem deilir út styrkjum til stjórnarmanna?
    Sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern launasjóð eru skipaðar árlega þremur fulltrúum viðkomandi heildarsamtaka. Þær annast árlega úthlutun starfslauna úr sjóðunum samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/2009, um listamannalaun.
    Nánari ákvæði um störf úthlutunarnefnda og framkvæmd laganna eru í reglugerð um listamannalaun nr. 834/2009. Þar er m.a. kveðið á um hvernig staðið skuli að tilnefningum í úthlutunarnefndir. Þeim skal hagað þannig að á aðalfundi eða formlega boðuðum félags­fundi er ákveðið hvernig staðið skuli að tilnefningu og skal leitast við að tryggja sem jafn­astan hlut karla og kvenna og þess gætt að sami aðili sé ekki tilnefndur oftar en í þrjú ár í röð. Það er því ekki stjórn fagfélags sem velur úthlutunarnefndina. Með því að hafa þennan hátt á telur ráðherra að úthlutunin standist stjórnsýslulög.

     2.      Telur ráðherra að skilgreina þurfi betur hvernig styrkir eru hugsaðir og hvort ekki sé ráðlegt að styrkir beinist til ákveðinna verkefna frekar en einstaklinga?
    Í lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, kemur fram að listamannalaunum sé ætlað að efla listsköpun í landinu og að listamannalaun skuli veitt sjálfstætt starfandi listamönnum. Starfslaun eru veitt til listamanns sem telst sjálfstætt starfandi í listgrein sinni og er á skrá hjá stjórn listamannalauna. Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíman­um eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Kveðið er á um að þeir sem njóti listamannalauna í sex mánuði eða lengur skuli ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur. Listamannalaunum er úthlutað úr samkeppnissjóðum og eru verkefni dæmd eftir gæðum og gildi þeirra fyrir íslenskt menningarlíf. Listamenn fá styrki á grundvelli verkefna sem þeir eru að vinna að eða hyggjast vinna að á starfstímanum og eiga að skila skýrslum um fram­gang verkefnanna þegar starfstíma lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni að mati stjórnar. Það er því þegar gert ráð fyrir því að styrkir beinist til ákveðinna verkefna.

     3.      Telur ráðherra hugsanlegt að tekjutengja listamannalaun?
    Það hefur ekki komið til álita hvort tekjutengja eigi listamannalaun. Launin voru 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga ársins 2009 og eru þau skilgreind sem verktakalaun. Launin eru endurskoðuð ár hvert með tilliti til launa- og verðlagsbreytinga fjárlaga. Miðað við verð­lag fjárlaga ársins 2016 nema launin 351.400 kr. á mánuði. Listamannalaun eru í mörgum tilfellum eini möguleiki starfandi listamanna til að helga sig list sinni óskipt í nokkurn tíma. Þó svo að allir starfandi listamenn geti sótt um listamannalaun hefur reynslan sýnt að tekju­hæstu listamenn þjóðarinnar sækja alla jafna ekki um listamannalaun.

     4.      Telur ráðherra að hámarka ætti heildargreiðslur til þeirra sem þiggja listamannalaun, eða ákvarða hámarksmánaðafjölda?
    Í lögum um listamannalaun er þegar kveðið á um hámarksmánaðafjölda sem heimilt er að úthluta og er þar átt við samfelldan tíma. Veita má starfslaun til 6, 9, 12, 18 eða 24 mánaða. Heimilt er að úthluta starfslaunum til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Sú upphæð sem varið er til þessa, sem og til ferðastyrkja, skal ekki vera hærri en nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef starfslaunum er úthlutað til einstaklinga vegna afmarkaðra verkefna. Í lögunum er miðað við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs verði að jafn­aði veittur til listamanna sem taka laun í eitt ár eða lengur. Heimilt er að úthluta starfslaunum til lengri tíma en 24 mánaða, þó aldrei lengur en til 36 mánaða. Heildargreiðslur eru þar af leiðandi þegar hámarkaðar, í samræmi við framangreint.

     5.      Hyggst ráðherra gera breytingar á reglum um úthlutun launa til listamanna til þess að reyna að skapa sátt um þessar úthlutanir?
    Eðlilegt er að fyrirkomulag við úthlutun listamannalauna sæti reglulegri endurskoðun. Það hafa komið fram kröfur frá einstaka félögum listamanna um að þau verði endurskoðuð á meðan önnur samtök listamanna virðast ekki sama sinnis. Ráðuneytið hefur til að mynda til skoðunar erindi frá samtökum sviðslista þar sem þau óska þess að launasjóður sviðslistafólks verði aflagður en framlagi því sem nú rennur til hans verði varið alfarið til úthlutunar til starfsemi atvinnuleikhópa. Er þessi tillaga byggð á reynslu af fyrirkomulaginu, sem samtökin telja ekki nægilega skýrt, með tveimur sjóðum, annars vegar launasjóði og hins vegar verk­efnasjóði. Hefur komið fram ósk frá samtökunum um að einfalda kerfið á ný, líkt og áður var. Þá telja samtök listamanna brýnt að hækka launaviðmiðið. Það þarf því að huga að formlegri endurskoðun laganna og skoða hvernig til hefur tekist með framkvæmd þeirra á þeim tæpa áratug sem liðinn er frá gildistöku þeirra.

     6.      Hefur ráðherra áætlun um að styrkja frekar unga og nýja listamenn?
    Ekki hefur verið gefin út stefna af hálfu ráðuneytisins um það að ungir og nýir listamenn verði sérstaklega styrktir en benda má á að það er í höndum stjórnar listamannalauna og úthlutunarnefnda að hafa áhrif í þessa veru. Í samkeppnissjóðum er heimilt að leggja áherslur á ákveðin atriði umfram önnur við úthlutun hverju sinni. Eina skilyrðið er að það komi skýrt fram í auglýsingum sjóðsins hvaða áherslur verða hafðar til viðmiðunar við næstu úthlutun. Það væri því í raun ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt núverandi fyrirkomulagi að auglýsa að við úthlutun listamannalauna á einhverjum ákveðnum tíma yrði lögð sérstök áhersla á að styrkja unga og nýja listamenn, kjósi stjórn listamannalauna að gera svo.