Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1330  —  514. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Páli Val Björnssyni um skerðingu örorkulífeyris.


     1.      Hvaða áhrif telur ráðherra að breytt framkvæmd Greiðslustofu lífeyrissjóða frá því í janúar 2015, þ.e. að barnalífeyrir almannatrygginga hafi áhrif til skerðingar á örorkulífeyri, hafi á lífeyrissjóðsgreiðslur til þeirra sem fá greiddan barnalífeyri á árunum 2015 og 2016? Hver eru áhrifin annars vegar á heildarörorkulífeyrisgreiðslur þeirra lífeyrissjóða sem Greiðslustofa lífeyrissjóða þjónustar og hins vegar á heildargreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til örorkulífeyrisþega?
    Ráðuneytið leitaði til Greiðslustofu lífeyrissjóða og fékk þau svör að ekki væri unnt að kalla fram þessar upplýsingar úr tölvukerfum greiðslustofunnar, hvorki um fjölda né fjárhæðir. Það er þó talið að um tiltölulega fámennan hóp sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins munu bætur almannatrygginga hækka um 0%, 38,35%, 49,5% eða 100% af lækkun lífeyrissjóðanna, allt eftir því hvernig staða öryrkjans er gagnvart almannatryggingum.

     2.      Hvaða áhrif hefur fyrrnefnd breytt framkvæmd á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega og hversu margir örorkulífeyrisþegar með börn á framfæri hafa þurft að þola skerðingu á lífeyrissjóðstekjum vegna hennar?
    Eins og fram kom í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar býr Greiðslustofa lífeyrissjóða ekki yfir tæknilausnum til að kalla fram umbeðnar upplýsingar.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að hin breytta framkvæmd verði tafarlaust afturkölluð og leiðrétt afturvirkt þannig að örorkulífeyrisþegar sem breytingin hefur haft áhrif á fái bættar þær skerðingar sem þeir hafa þurft að þola?
    Skv. 15. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, á sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Þegar metið er hvort sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins er litið til tekna sjóðfélagans fyrir og eftir orkutapið og er þá tekið mið af atvinnutekjum hans, lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum sem hann nýtur vegna örorkunnar. Það hefur því verið tekið mið af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum við athugun á því hvort sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjumissi, en að sögn greiðslustofunnar gat hún lengi vel ekki aflað upplýsinga um barnalífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum og því var framkvæmdinni ekki breytt fyrr en í ársbyrjun 2015.
    Þegar spurt er hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að hin breytta framkvæmd verði afturkölluð er vísað til þeirrar vinnu sem stendur yfir við endurskoðun almannatryggingakerfisins. Útfærsla tillagna liggur ekki fyrir en gert er ráð fyrir að samspil greiðslna lífeyrissjóða og almannatrygginga verði endurskoðað.