Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1331  —  464. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um rannsóknir í ferðaþjónustu.


     1.      Hvaða rannsóknir eða úttektir hafa verið gerðar á sviði ferðaþjónustu hér á landi undanfarin tíu ár?
    Í kjölfar mikils vaxtar í ferðaþjónustu undanfarin ár hefur töluvert verið rætt um mikilvægi þess að auka tölfræðivinnslu og rannsóknir á sviði ferðamála á Íslandi. Í Vegvísi í ferðaþjónustu, nýrri stefnu og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu á Íslandi (útgefinn í október 2015), er sérstaklega fjallað um að verulega skorti á að til séu tímanleg, áreiðanleg og alþjóðlega samanburðarhæf gögn um ferðaþjónustu á Íslandi. Nauðsynlegt sé að bygga traustan grunn undir ferðaþjónustu á Íslandi og því eru Áreiðanleg gögn einn af sjö áhersluþáttum Vegvísisins til ársins 2020. Með það að leiðarljósi lagði ráðherra til að veittar yrðu 150 millj. kr. á fjárlögum 2016 til aukinna rannsókna á sviði ferðamála. Þessum fjármunum hefur nú verið úthlutað eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.
    Þó svo að nauðsynlegt sé að bæta í tölfræðivinnslu og rannsóknir á sviði ferðamála hefur ýmislegt verið unnið á síðustu árum. Rannsóknir á sviði ferðaþjónustu geta verið af ýmsum toga, en yfirleitt er gerður greinarmunur á gagnaöflun fyrir ferðaþjónustuna og framsetningu grunngagna. Hvað öflun og framsetningu grunngagna varðar hefur verkefnum á því sviði helst verið sinnt af Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands en nánari upplýsingar um þá gagnaöflun má nálgast á vefsíðum stofnananna. 1 Þá hafa Samtök ferðaþjónustunnar einnig tekið saman tölur fyrir atvinnugreinina, 2 Íslandsstofa hefur metið árangur kynningar- og markaðsstarfs, auk þess að gera viðhorfsrannsóknir á lykilmörkuðum erlendis og ýmsir einkaaðilar hafa einnig sinnt gagnaöflun fyrir ferðaþjónustuna.
    Ekki er haldið utan um rannsóknir á sviði ferðaþjónustu á Íslandi á einum stað. Það og óljós skilgreining á hugtakinu „rannsóknir“, gerir það ókleift að gefa tæmandi yfirlit um allar rannsóknir sem tengjast atvinnugreininni á undanförnum tíu árum, en hins vegar má víða nálgast þær margvíslegu rannsóknir sem unnar hafa verið. Þannig heldur Ferðamálastofa utan um útgefið efni í gagnabanka sínum 3 en einnig má fá góða yfirsýn yfir rannsóknir sem stundaðar eru innan háskólasamfélagsins á Skemmunni (skemman.is) með því að leita t.d. eftir leitarorðunum „ferðaþjónusta“ og „tourism“. 4

     2.      Er þörf á auknum rannsóknum á sviði ferðaþjónustu og hvað þyrfti þá helst að rannsaka?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnnar er breið samstaða um að þörf sé á auknum rannsóknum á sviði ferðaþjónustu og eru Áreiðanleg gögn einn af sjö áhersluþáttum í Vegvísi í ferðaþjónustu. Stjórnstöð ferðamála hefur hafið vinnu við að koma aðgerðum sem heyra undir þessa áhersluþætti í framkvæmd, m.a.:
       –          að gögn um ferðaþjónustuna verði uppfærð reglulega, verði tímanleg, aðgengileg og birt miðlægt,
       –          að þjónustureikningar (Tourism Satellite Accounts) verði áfram unnir árlega,
       –          að rannsóknir verði efldar.
    Í september 2013 kom út skýrsla sem KPMG tók saman að beiðni Ferðamálastofu undir heitinu Þörfin fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu. Skýrslan var unnin í samræmi við aðgerðaáætlun sem sett var fram í þingsályktun um ferðamálaáætlun 2011–2020 þess efnis að þarfagreining um rannsóknir fyrir ferðaþjónustu verði endurskoðuð með aðkomu hagsmunaaðila. Í skýrslunni voru skilgreind eftirtalin ellefu forgangsverkefni:
    1.          Stærð ferðaþjónustunnar á Íslandi og lykiltölur.
    2.          Markhópagreining.
    3.          Þolmörk ferðamennsku.
    4.          Ferðamenn á landsvísu.
    5.          Arðsemi ferðaþjónustunnar.
    6.          Ferðamenn eftir landsvæðum.
    7.          Virðiskeðja ferðaþjónustunnar.
    8.          Sérstaða svæða.
    9.          Ferðaþjónusta framtíðarinnar.
    10.     Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustunnar.
    11.     Þjónustugæði.
    Á fjárlögum fyrir 2016 eru 150 millj. kr. veittar aukalega í mælingar og rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu og fól ráðherra Stjórnstöð ferðamála að gera tillögu um ráðstöfun á þessu fjármagni. Stjórnstöð ferðamála setti á fót í janúar 2016 stýrihóp um áreiðanleg gögn. Eitt af verkefnum stýrihóps var að endurmeta mikilvægi og forgangsröðun rannsóknarverkefnanna í fyrrgreindri skýrslu og koma með tillögur um ráðstöfun á framangreindum fjármunum. Vinnuhópar greindu einstök rannsóknarverkefni og stýrihópur valdi síðan verkefni með áherslu á að sameiginlega skili þau niðurstöðum sem veita heildstæða yfirsýn yfir stöðu mála tengd ferðaþjónustunni.
    Á fundi stjórnar Stjórnstöðvar ferðamála 11. maí 2016 var tillaga Stjórnstöðvar ferðamála um úthlutun 135,3 millj. kr. til eftirfarandi 10 verkefna lögð fram:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ráðherra hefur samþykkt tillögu Stjórnstöðvarinnar og gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir á þessu ári eða í upphafi næsta árs.

     3.      Eru færri rannsóknir gerðar í þessari atvinnugrein en t.d. iðnaði, landbúnaði eða sjávarútvegi?
    Ekki er mögulegt að svara því til hvort færri rannsóknir séu gerðar í ferðaþjónustu en í þeim greinum sem taldar eru upp í fyrirspurninni þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir um fjölda rannsókna. Slík mæling gæfi líka takmarkaða mynd af þróun og stöðu rannsókna þar sem m.a. þarf að taka tillit til eðli verkefna og tímalengd þeirra. Hjá Rannsóknasjóði eru veittir styrkir til fjölbreyttra verkefna en flest þeirra eru flokkuð sem grunnrannsóknir á meðan rannsóknir á vegum ferðaþjónustunnar eru oftar en ekki flokkuð sem þróunarverkefni. Hjá Tækniþróunarsjóði eru veittir þróunarstyrkir til verkefna sem heyra beint undir ferðaþjónustuna og líka til verkefna sem eru flokkuð undir aðrar atvinnugreinar en tengjast ferðaþjónustunni. Allur samanburður um rannsóknir milli atvinnugreina getur því verið erfiður. Það sem skiptir hins vegar meginmáli er að framlög til rannsókna í atvinnulífinu taki mið af raunverulegri þörf á hverjum tíma en ekki eingöngu fjölda verkefna.

     4.      Er tilteknu stjórnvaldi eða öðrum aðila falið að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf um málefni ferðaþjónustunnar?
    Eftirtaldar stofnanir og samráðsvettvangar mynda grunninn að stoðkerfi ferðaþjónustunnar og koma öll að ráðgjöf til stjórnvalda um málefni ferðaþjónustunnar með einum eða öðrum hætti:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er ráðuneyti ferðamála á Íslandi og vinnur að vexti og nýsköpun í íslenskri ferðaþjónustu. Þá fer ráðuneytið með stefnumótun um hvernig hátta skuli samstarfi hins opinbera við einkaaðila á sviði ferðamála. Ráðuneytið ber einnig m.a. ábyrgð á gerð ferðamálaáætlunar, lagafrumvarpa, reglugerða og endurskoðun laga um ferðamál.

Ferðamálastofa.
    Ferðamálastofa heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Samkvæmt lögum um skipan ferðamála fer Ferðamálastofa með framkvæmd ferðamála. Helstu verkefni Ferðamálastofu eru:
       –          Útgáfa leyfa og skráning á starfsemi.
       –          Rannsóknir og gagnaöflun.
       –          Miðlun upplýsinga.
       –          Markaðsmál innanlands.
       –          Uppbygging, skipulag og umhverfismál.
       –          Gæða- og öryggismál.
       –          Fræðsla og stuðningur.
       –          Þróunarmál.
    Ferðamálastofa hefur samstarf við ýmsar aðrar stofnanir og aðila sem koma að ferðamálum, t.d. Nýsköpunarmiðstöð, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, markaðsstofur, atvinnuþróunarfélög, ferðamálasamtök, SAF og Íslandsstofu. Þá tekur stofnunin þátt í starfi Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) og Ferðamálasamtaka Norður-Atlantshafsins (NATA).

Ferðamálaráð.
    Ferðamálaráð er ráðgefandi fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í því sitja fulltrúar skipaðir af ráðherra, Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Ferðamálasamtökum Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar og Íslandsstofu. Ferðamálaráð gerir, árlega eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Jafnframt skal ferðamálaráð vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ferðamálaráð skal veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.

Stjórnstöð ferðamála.
    Í kjölfar útgáfu Vegvísis í ferðaþjónustu og á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar var í nóvember 2015 sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa til ársloka 2020. Forsætisráðherra skipar í stjórn hennar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, er formaður. Einnig eiga fjármála- og efnahagsráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og innanríkisráðherra sæti í stjórninni ásamt fjórum fulltrúum frá Samtökum ferðaþjónustunnar og tveimur fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Stjórnstöð ferðamála er samstarfs- og samráðsvettvangur. Stjórnstöðin sér til þess að næstu fimm ár verði nýtt til að ráðast í þau verkefni sem listuð eru í Vegvísi í ferðaþjónustu og sem nauðsynleg eru til að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu. Áhersluþættir í Vegvísi eru samhæfing, jákvæð upplifun ferðamanna, áreiðanleg gögn, náttúruvernd, hæfni og gæði, aukin arðsemi og dreifing ferðamanna. Hlutverk Stjórnstöðvar er að samhæfa aðgerðir sem heyra undir þessa áhersluþætti og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.

Íslandsstofa.
    Íslandsstofa heyrir undir utanríkisráðuneytið en er með samning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna kynningar- og markaðsstarfs á sviði ferðamála. Hlutverk Íslandsstofu er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

Rannsóknamiðstöð ferðamála.
    Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, SAF og Ferðamálastofa starfrækja sameiginlega Rannsóknamiðstöð ferðamála. Hún er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands hvetur til nýsköpunar og eflir framgang nýrra hugmynda í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki. Nýsköpunarmiðstöð Íslands heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki og þar er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem við kemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja. Hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda, reksturs og samstarf erlendis. Þá hefur Nýsköpunarmiðstöð sinnt ýmsum verkefnum á sviði ferðamála, m.a. með útgáfu upplifunarhandbókar fyrir ferðaþjónustuna.

Samtök ferðaþjónustunnar.
    Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru hagsmunasamtök ferðaþjónustufyrirtækja. Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna, vinna að því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði og vinna að vexti og viðgangi greinarinnar með öllum tiltækum ráðum, svo sem með því að halda úti fræðslustarfi. Innan SAF starfa sjö fagnefndir en þar að auki starfa þverfaglegar nefndir, svo sem umhverfisnefnd, nethópur og nefndir sem sinna sérstökum verkefnum. SAF er aðili að Samtökum atvinnulífsins.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafurhagstofa.is/talnaefni/atvinnuvegir/ferdathjonusta/
Neðanmálsgrein: 2
2     www.saf.is/lykiltolur/
Neðanmálsgrein: 3
3     www.ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafur/utgefid-efni
Neðanmálsgrein: 4
4     skemman.is/en/search/simple;jsessionid=2346177C12D257E8F2FB551DE8943F2C?q=fer%C3%B0a%C3%BEj%C3%B3nusta
    – skemman.is/en/search/simple?q=tourism