Ferill 738. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1533  —  738. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Páli Val Björnssyni um meðferðir við offitu.


     1.      Hvaða meðferðir við offitu eru í boði hér á landi?
     Heilsugæsla og heilbrigðisstofnanir:
    Meginþorri þeirra einstaklinga sem eiga við ofþyngdar- eða offituvandamál að stríða fær meðferð og ráðgjöf í heilsugæslunni um land allt. Þar er bæði um að ræða einstaklingsbundna meðferð eða í svokölluðum lífsstílsmóttökum í heilsugæslunni eða á heilbrigðisstofnunum um landið. Þar er í boði þverfagleg ráðgjöf og atferlis- og stuðningsmeðferð fyrir þá sem þjást af ofþyngd og offitu, ýmist sem einstaklingsmeðferð eða í hópum.
    Sem dæmi má nefna eru lífsstílsmóttökur á átta heilsugæslustöðvum af 15 á höfuðborgarsvæðinu. Þá er einnig boðið upp á svokölluð heilsunámskeið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem miða að því að efla heilsu og heilbrigðan lífsstíl. Þau eru nú fyrir þrjá markhópa: Foreldra ungra barna sem eru of þung/feit, verðandi mæður með líkamsþyngdarstuðul >30 og sérstök námskeið fyrir konur með líkamsþyngdarstuðul >30.
    Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilsustofnunin í Hveragerði veita allar þverfaglegar hópmeðferðir vegna offitu sem byggir á heildrænni atferlismeðferð.
    Fyrir þá einstaklinga sem verst eru settir og þjást af alvarlegri offitu og fylgikvillum er boðið upp á meðferð á Reykjalundi og Kristnesi. Á Reykjalundi er rekin göngudeild fyrir of feita þar sem að lágmarki 100 einstaklingar fá meðferð árlega og á Kristnes koma rúmlega 30 manns árlega til meðferðar og er þeim fylgt eftir í þrjú ár. Að lokinni meðferð á þessum stofnunum hefur hluti einstaklinga farið í magahjáveitu- eða magaermiaðgerð á Landspítalanum.
    Nýlega var innleidd notkun hreyfiseðla sem er ávísun á hreyfingu sem hluta af meðferð við langvinnum sjúkdómum, þar á meðal offitu. Hreyfiseðlar eru nýjung innan íslensku heilbrigðisþjónustunnar en þeir eru mjög ákjósanleg aðferð til að styðja við aukna hreyfingu og bættan lífsstíl offitusjúklinga. Hreyfing er gagnleg og hagkvæm meðferð við langvinnum sjúkdómum og sýnt hefur verið fram á að með markvissri hreyfingu megi draga úr lyfjanotkun, læknaheimsóknum og innlögnum. Hreyfing samkvæmt hreyfiseðlum er gerð eftir forskrift fagaðila og sjúklingi er fylgt eftir reglulega eins lengi og þarf.

    Landspítali:
    Á árunum 1990–1998 voru framkvæmdar á Borgarspítala og síðar Sjúkrahúsi Reykjavíkur nokkrir tugir magabandsaðgerða. Frá árinu 2001 hafa verið framkvæmdar á Landspítala um 850 aðgerðir vegna sjúklegrar offitu, langflestar magahjáveituaðgerðir en einnig magaermiaðgerðir í vaxandi mæli síðustu árin.

     2.      Hvaða árangri hafa annars vegar hjáveituaðgerðir á maga skilað og hins vegar magabandsaðgerðir?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er magahjáveituaðgerð talin vera „hinn gullni“ staðall hvað varðar offituaðgerðir ef horft er til langtímaárangurs hvað þyngdartap varðar og til jákvæðra áhrifa á fylgikvilla og fylgisjúkdóma offitu.
    Nýlega lauk rannsókn á árangri hjáveituaðgerða á Landspítala og sýna niðurstöður hennar að langtímaárangur er góður og svipaður því sem gerist best á stórum erlendum meðferðarstofnunum. Gert er ráð fyrir að vísindagrein þess efnis verði birt í Læknablaðinu fljótlega.
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala voru magabandsaðgerðir gerðar í tölverðum mæli í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Hollandi og Belgíu á árunum 1990–2000. Þegar langtímaárangur þessara aðgerða var skoðaður í þessum löndum voru niðurstöðurnar að miklu leyti samhljóða. Það var mikið um síðkomna fylgikvilla sem leiddi til þess að um helmingur sjúklinga þurfti að fara í nýja aðgerð þar sem fjarlægja þurfti bandið. Verulegur hluti sjúklinga þyngdist aftur og aðeins um þriðjungur sjúklinga var með ásættanlegan langtímaárangur. Uppgjör árangurs magabandsaðgerða frá fleiri löndum hefur verið birt og sýna niðurstöður svipaða útkomu og fyrri niðurstöður.
    Ekki liggja fyrir hjá velferðarráðuneytinu eða embætti landlæknis upplýsingar um árangur af þeim magabandsaðgerðum sem einkaðili hefur framkvæmt hér á landi að undanförnu.

     3.      Hver er kostnaður ríkisins annars vegar við hverja hjáveituaðgerð og hins vegar við hverja magabandsaðgerð?
    Magahjáveituaðgerðir eru gerðar á Landspítalanum og algengast er að sjúklingar þurfi á sjúkralegu að halda í um sólarhring í kjölfar aðgerðar.
    Kostnaður við hverja aðgerð samkvæmt verðskrá 2016 er 839.102 kr.
    Þar sem magabandsaðgerðir eru eingöngu gerðar af einkaaðilum án aðkomu ríkisins er ekki um beinan kostnað af hálfu ríkisins að ræða.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands greiði kostnað við magabandsaðgerðir eins og við hjáveituaðgerðir?
    Heilbrigðisráðherra leggur megináherslu á markvissar aðgerðir til að sporna við ofþyngd og offitu, þ.e. fræðslu, leiðbeiningar og ráðgjöf en einnig að höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins á eigin heilbrigði og ábyrgðar foreldra gagnvart börnum sínum þar sem uppeldið leggur mikilvægan grunn að heilbrigði og velferð einstaklingsins alla ævi. Þá er stuðningur og meðferð heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana um allt land við þá sem eru of þungir eða of feitir afskaplega mikilvæg.
    Heilbrigðisráðherra hefur ekki í hyggju að svo stöddu að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera samning um greiðslur fyrir magabandsaðgerðir.