Ferill 778. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1777  —  778. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um fjölda og starfssvið lögreglumanna.


    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögn embættis ríkislögreglustjóra. Umsögnin barst ráðuneytinu 16. september 2016 og var byggt á henni við vinnslu svarsins.

     1.      Hver hefur fjöldi fastráðinna og lausráðinna lögreglumanna verið á árabilinu 2007–2016 og hversu margir hafa á sama tíma annars vegar farið á eftirlaun og hins vegar hætt störfum af öðrum ástæðum?
    Á mynd 1 má sjá heildarfjölda skipaðra/settra lögreglumanna og afleysingamanna árin 2007–2016 miðað við stöðuna 1. febrúar ár hvert og núverandi umdæmaskipan. Héraðs­lögreglumenn og lögreglumenn við embætti héraðssaksóknara eru ekki meðtaldir.

Mynd 1. Heildarfjöldi skipaðra/settra lögreglumanna og afleysingamanna árin 2007–2016.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Þá létu 293 lögreglumenn af embætti á árunum 2007–2016 (tölur um fjölda lausna miðað við 1. ágúst 2016). Þar af létu 97 af embætti vegna töku eftirlauna en 197 lögreglumenn létu af embætti af öðrum ástæðum. Rétt er að taka fram að upplýsingar frá lögregluembættum um þetta efni liggja ekki á lausu fyrir árið 2014 sökum breytinga á lögreglulögum, nr. 90/1996, þar sem veitingavald færðist til lögreglustjóra, sbr. lög nr. 51/2014.

Mynd 2. Ástæður brotthvarfs vegna töku eftirlauna og annarra ástæðna árin 2007–2016.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hve margir lögreglumenn voru að störfum í hverju löggæsluumdæmi árabilið 2007– 2016 og hvert var hlutfall lögreglumanna á íbúa í hverju umdæmi ár hvert?
    Í töflu 1 er að finna heildarfjölda skipaðra/settra lögreglumanna árin 2007–2016, miðað við stöðuna eins og hún var 1. febrúar ár hvert og núverandi umdæmaskipan. Héraðs- og afleysingamenn eru ekki meðtaldir.

Tafla 1. Heildarfjöldi skipaðra/settra lögreglumanna árin 2007–2016 eftir embættum.


Embætti 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 47 44 48 45 38 40 37 39 42 38
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 30 26 27 26 27 23 23 24 31 33
Lögreglustjórinn á Austurlandi 24 25 25 23 21 21 19 20 19 19
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 20 21 20 19 16 19 18 18 18 17
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum 85 76 82 85 85 77 81 85 82 81
Lögregluskóli ríkisins 9 9 9 8 8 7 7 7 8 6
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 339 298 318 308 310 303 297 299 288 290
Ríkislögreglustjóri 94 89 92 87 85 79 76 75 84 80
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 16 16 15 14 14 12 12 14 15 15
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 36 30 39 36 35 35 32 31 37 39
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 12 12 11 8 8 8 8 8 10 11
ALLS 712 646 686 659 647 624 610 620 634 629

    Í töflu 2 er að finna fjölda lögreglumanna á hverja 1.000 íbúa í hverju umdæmi fyrir sig árin 2007–2016 miðað við núverandi umdæmaskipan. Tekið skal fram að embætti ríkis­lögreglustjóra, héraðssaksóknara og Lögregluskóli ríkisins eru ekki talin með. Byggt er á upplýsingum um fjölda íbúa miðað við núverandi umdæmaskipan frá Landmælingum Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Tafla 2. Fjöldi lögreglumanna á hverja 1.000 íbúa í hverju umdæmi árin 2007–2016.


Embætti 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016
Norðurland eystra 1,6 1,5 1,7 1,6 1,3 1,4 1,3 1,3 1,4 1,3
Vesturland 2,0 1,7 1,7 1,7 1,8 1,5 1,5 1,6 2,0 2,1
Austurland 1,8 2,1 2,3 2,2 2,1 2,1 1,9 1,9 1,8 1,8
Vestfirðir 2,7 2,9 2,7 2,6 2,3 2,7 2,6 2,6 2,6 2,5
Suðurnes 4,5 3,7 3,8 4,0 4,0 3,6 3,8 3,9 3,7 3,6
Höfuðborgarsvæðið 1,8 1,5 1,6 1,5 1,5 1,5 1,4 1,4 1,4 1,4
Norðurland vestra 2,1 2,1 2,0 1,9 1,9 1,6 1,7 1,9 2,9 2,1
Suðurland 1,7 1,4 1,8 1,8 1,6 1,6 1,5 1,4 1,7 1,7
Vestmannaeyjar 2,9 3,0 2,7 1,9 1,9 1,9 1,9 1,9 2,3 2,6
Alls 1,6 1,4 1,5 1,5 1,4 1,4 1,4 1,4 1,4 1,4

     3.      Hver hefur starfsmannavelta hjá lögreglunni verið í löggæsluumdæmum landsins undan­farin þrjú ár?
    Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var starfsmanna­velta 6,08% árið 2013. Árið 2014 var starfsmannaveltan 4,4% og jókst svo árið 2015 og var þá um 9%.
    Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á Vesturlandi var starfsmannaveltan 12% árið 2015.
    Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á Vestfjörðum hefur starfsmannavelta verið svipuð undanfarin þrjú ár eða 4% árið 2013, 3% árið 2014 og síðan aftur 4% árið 2015.
    Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á Suðurlandi var starfsmannaveltan 5 % árin 2013 og 2014 en fór niður í 3% árið 2015.
    Starfsmannavelta hjá embættum lögreglustjóranna í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Austurlandi var svo til engin. Ekki bárust svör frá lögreglu­stjóranum á Suðurnesjum.
    Embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluskóli ríkisins og embætti héraðssaksóknara eru ekki talin með þar sem þau teljast ekki til löggæsluumdæma.

     4.      Hvernig er aldurssamsetning fastráðinna lögreglumanna og hversu hátt hlutfall þeirra nær eftirlaunaaldri á næstu fimm árum?
    Í töflu 3 má sjá aldurssamsetningu allra lögreglumanna, þ.m.t. við embætti ríkislögreglu­stjóra, Lögregluskóla ríkisins, héraðssaksóknara og afleysingamanna, miðað við greidd mánaðarlaun í launavinnslu 1. september 2016. Tafla 3 sýnir aldurssamsetningu allra lög­reglumanna, þ.m.t. við embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluskóla ríkisins, héraðssaksóknara og afleysingamanna, miðað við greidd mánaðarlaun í launavinnslu 1. september 2016, 720 talsins.

Tafla 3. Aldurssamsetning lögreglumanna.


Aldursflokkun 20–29 ára 30–39 ára 40–49 ára 50–59 ára 60–65 ára Alls
Hlutfall 17,4% 25,3% 24,6% 23,5% 9,3% 100%

    85 lögreglumenn munu ná 65 ára lögskipuðum eftirlaunaaldri á árunum 2017–2021. Það eru 11,8% lögreglumanna.

     5.      Hefur fjölgun ferðamanna undanfarin ár haft áhrif á fjölda og staðsetningu lögreglu­manna og tilhögun starfa þeirra og ef svo er, hvaða áhrif?
    Fjöldi erlendra ferðamanna jókst á Íslandi um 800 þúsund á árunum 2007–2015 en á sama tíma fækkaði lögreglumönnum um 78 eða tæplega 11%.
    Fjöldi erlendra ferðamanna er mestur á suðvesturhorni landsins, þ.e. í umdæmum lög­reglustjóranna á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Flestir erlendir ferða­menn koma til landsins um Keflavíkurflugvöll, 4,5 milljónir farþega höfðu farið um Kefla­víkurflugvöll mánuðina janúar til ágúst 2016.

Mynd 3. Fjöldi erlendra ferðamanna árin 2007–2015 samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Á árinu 2007 voru 1,5 lögreglumenn á hverja 1.000 erlenda ferðamenn og þróunin hefur verið á þann veg að hlutfallið árið 2015 er 0,5 lögreglumenn á hverja 1.000 erlenda ferða­menn. Til samanburðar hefur fjöldi lögreglumanna á hverja 1.000 íbúa farið úr 2,3 árið 2007 í 1,9 árið 2015.


Mynd 4. Fjöldi lögreglumanna á hverja 1.000 íbúa og fjöldi lögreglumanna á hverja 1.000 erlenda ferðamenn árin 2007–2015.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Fjöldi lögreglumanna á mynd 4 er heildarfjöldi skipaðra/settra lögreglumanna og lausráð­inna afleysingamanna árin 2007–2016 miðað við stöðuna 1. febrúar ár hvert og núverandi umdæmaskipan. Héraðslögreglumenn og lögreglumenn við embætti héraðssaksóknara eru ekki meðtaldir.

     6.      Telur ráðherra að fjöldi lögreglumanna, búnaður þeirra og verksvið hafi þróast í samræmi við þær breytingar sem hafa orðið á samfélaginu undanfarin ár, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna? Sér ráðherra fyrir sér breytingar á lögreglumálum af þeim sökum?
    Ráðuneytið hefur ekki farið varhluta af mikilli aukningu ferðamanna hér á landi ásamt þeim áhrifum sem sú aukning hefur á störf lögreglu. Á síðustu árum hefur farið fram mikil og ötul vinna í því skyni að koma til móts við sívaxandi fjölda ferðamanna og samhliða því leitast við að efla störf lögreglunnar. Óhætt er að segja að í mörgu tilliti hafa orðið miklar umbætur í þessum efnum.
    Árin 2014 og 2015 var veitt aukalega 500 millj. kr. til að bæta úr veikleikum í starfsemi lögreglunnar. Ríflega 70% viðbótarframlagsins fór til eflingar löggæslu á landsbyggðinni, til eflingar hálendiseftirlits vegna fjölgunar ferðamanna, aukins aksturs lögreglubíla og til þess að bæta búnað og þjálfun lögreglumanna. Áhersla hefur verið lögð á að styrkja grunn­þjónustu lögreglu en lítið rekstrarlegt svigrúm hefur verið fram að þessu til að takast á við þær áskoranir sem við blasa, svo sem vegna fjölda ferðamanna og aukinnar umferðar um landamæri, fjölgunar afbrota, einkum netbrota, heimilisofbeldis, kynferðisbrota, stórfelldra ofbeldisbrota og skipulagðrar glæpastarfsemi. Lögregluembætti landsins fá í ár 400 millj. kr. viðbótarfjárframlag til að styrkja embættin og er með því verið að bregðast við auknum verkefnum, m.a. á sviði landamæraeftirlits, öryggis og umferðar. Ákvörðunin var byggð á greiningu á öryggi og þjónustu hjá lögregluembættunum og forgangsröðun verkefna og tengist einnig löggæsluáætlun sem nú er í smíðum hjá innanríkisráðuneytinu þar sem skil­greint verður öryggis- og þjónustustig, helstu markmið, mælikvarðar og aðgerðir lögreglu. Markmið löggæsluáætlunar er að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Jafnframt er tilgangurinn að kostnaður við verkefni lögreglu verði gagnsærri og þar með að koma á faglegri aðkomu þingsins að málaflokknum.
    Stjórnvöld, bæði löggjafar- og framkvæmdarvald, verða með opnum huga að leitast við að tryggja þeim stofnunum, sem falið er það vandasama hlutverk að halda uppi lögum og reglu og gæta öryggis, fullnægjandi starfsgrundvöll til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin, ásamt því að sjá til þess að nógur mannskapur sé til staðar til að leysa af hendi þau auknu verkefni sem fylgja fjölgun ferðamanna. Markmiðið er að lögreglan tryggi borgur­unum, hvar sem er á landinu, sambærilega þjónustu og öryggi eftir því sem hægt er og beiti sér sérstaklega í málefnum er lúta að öryggi ferðamanna.