Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 204  —  145. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um könnun á gæðum skólamáltíða í leik- og grunnskólum.


Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að koma því til leiðar að embætti landlæknis kanni næringarinnihald og heilnæmi skólamáltíða í leikskólum og grunnskólum og skili niðurstöðum í skýrsluformi fyrir lok ársins 2017. Verði niðurstaða rannsóknarinnar að skólamáltíðum sé ábótavant með tilliti til framboðs, gæða og næringarinnihalds geri embætti landlæknis tillögur til úrbóta. Þá leggi embættið mat á það hvort ástæða sé til að koma á reglulegu eftirliti með framboði og gæðum skólamáltíða.
    Alþingi ályktar jafnframt að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að embætti landlæknis fái fé til verkefnisins.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga var fyrst flutt á 145. löggjafarþingi (71. mál) af Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en varð ekki útrædd. Málið er endurflutt óbreytt að öðru leyti en því að ártali í tillögutexta er breytt. Eftirfarandi greinargerð fylgdi málinu við fyrsta flutning:
    „Næg og holl næring er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og skiptir afar miklu fyrir vöxt þeirra og viðgang, auk þess sem matarmenning og viðhorf til matar og fæðuneyslu mótast í grundvallaratriðum á skólaaldri. Þessir þættir hafa afgerandi áhrif á heilsufar og er því matur og mataruppeldi skólanna einkar mikilvægur þáttur í þroska nemendanna. Allur þorri íslenskra barna sækir leikskóla og síðan grunnskóla og verja börnin stórum hluta æsku sinnar á þessum vettvangi. Næring barna á skólatíma er því mikilvægt atriði í rekstri skólanna og skiptir miklu fyrir vellíðan barnanna á skólatíma, þroska þeirra, námsgetu og heilsufar. Þótt ýmislegt hafi verið gert til að stuðla að því að skólamáltíðir samræmist manneldismarkmiðum og falli neytendum þeirra í geð benda ýmsar athuganir til þess að ástæða sé til að kanna framboð, gæði og næringarinnihald máltíða í leik- og grunnskólum landsins.
    Skv. 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, eiga nemendur grunnskólanna í landinu kost á máltíð á skólatíma og skal hún vera í samræmi við opinber manneldismarkmið. Ekki er sambærilegt ákvæði um skólamáltíðir í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, en samkvæmt aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011, sem er ígildi reglugerðar, ber að leggja áherslu á hollt mataræði í leikskólum. Lýðheilsustöð, sem starfaði á árunum 2003–2011 og var síðan sameinuð embætti landlæknis, gaf út Handbók fyrir leikskólaeldhús árið 2005 og endurskoðaða útgáfu árið 2009. Þá lét embætti landlæknis gera könnun árið 2013 á matarframboði í leikskólum landsins og birtust niðurstöður hennar í samnefndri skýrslu í febrúar árið 2015. 1 Þær verða ekki raktar hér, enda er skýrslan aðgengileg á vefsvæði embættisins, en efni hennar ber þess vissulega vott að verulegur munur er á stefnu leikskólanna og framkvæmd varðandi næringu og matarframboð og ekki fylgja allir leikskólar ráðleggingum Handbókar fyrir leikskólaeldhús. Þetta gefur tilefni til að huga að því hvort hagsmunum leikskólabarna sé ávallt nægilega vel sinnt þegar kemur að næringu og matarframboði á skólatíma og hvort ástæða sé til að setja um þetta skýrari reglur og auka samræmingu.
    Lýðheilsustofnun gaf einnig út Handbók fyrir skólamötuneyti, fyrst árið 2003 og síðast árið 2010, sem geymir leiðbeiningar um matseld og matarframboð fyrir grunnskólanema og rekstur skólamötuneyta og ýmiss konar átaksverkefnum hefur verið hrundið í framkvæmd til að efla vitund um hollt mataræði, ekki síst á vegum verkefnisins „Heilsueflandi grunnskóli“ sem unnið hefur verið að á undanförnum árum undir stjórn landlæknisembættisins. Annað veifið sjást þó umkvartanir vegna skólamáltíða þar sem fundið er að því að þær séu ekki nægilega hollar eða lystugar og erfitt sé að nálgast upplýsingar um innihald þeirra eða næringargildi.
    Víðar en á Íslandi hefur athyglin beinst að þörfinni fyrir að bæta skólamáltíðir og voru m.a. úrbætur á þeim meðal áhersluatriða á alþjóðlegum degi neytendaréttar 15. mars 2015 auk þess sem alþjóðlegu neytendasamtökin leggja mikla áherslu á þennan þátt í tillögum um alþjóðlegan sáttmála um heilsusamlegra mataræði. 2 Rannsókn á skólamáltíðum hérlendis gæti leitt til betra og heilsusamlegra mataræðis barna og stuðlað þannig að styrkara heilsufari þjóðarinnar þegar fram í sækir og bættri matarmenningu.“
1     Könnun á matarframboði í leikskólum. Embætti landlæknis, Reykjavík 2015:
     www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item26274/Konnun_a_matarframbodi_i_leikskolum_loka_feb2015.pdf.
2     Recommendations towards a Global Convention to protect and promote healthy diets. Consumers International. London 2014.