Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 490  —  361. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera (sbr. fskj. II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir umrædda tilskipun var ákvörðun nr. 59/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Markmið tilskipunarinnar er að tryggja samræmda framkvæmd á sviðum sem tengjast málefnum upplýsingasamfélagsins, þar á meðal verkefnum stjórnvalda um opin gögn og endurnotkun upplýsinga í opinberum skrám. Nú þegar er í gildi tilskipun 2003/98/EB þar sem mælt er fyrir um lágmarksreglur um endurnotkun opinberra upplýsinga. Hins vegar hafa sum EES-ríki gengið lengra en framangreind tilskipun mælir fyrir um og hafa sum ríki beinlínis tengt saman ákvæði um upplýsingarétt almennings og ákvæði um endurnotkun opinberra upplýsinga og gert öll almennt aðgengileg gögn endurnotanleg. Í öðrum EES-ríkjum hafa tengslin á milli upplýsingaréttar almennings og heimildar til endurnotkunar opinberra upplýsinga verið óskýrari. Það hefur skapað réttaróvissu og misræmi sem hefur skapað hindranir í flæði vöru og þjónustu. Því var ákveðið að ryðja þeim úr vegi og samræma reglur um endurnotkun opinberra gagna.
    Helstu breytingar frá núverandi skipan mála eru eftirfarandi:
          Á opinberum aðilum mun hvíla skylda til að heimila endurnotkun allra gagna sem réttur almennings til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum nær til. Þessi réttur til endurnotkunar nær þó ekki til höfundarvarinna gagna.
          Gildissvið endurnotkunar verður víkkað út og mun ná yfir söfn, þ.m.t. bóka- og skjalasöfn.
          Gera þarf breytingar á ákvæðum um gjaldtöku fyrir endurnotkun opinberra upplýsinga. Að meginreglu skal ekki taka hærra gjald en nemur kostnaði við hverja beiðni um endurnotkun.
          Undantekningar eiga við um söfn, bókasöfn og skjalasöfn, og aðstæður þar sem opinber aðili þarf að afla tekna til að standa straum af kostnaði við rekstur sinn. Í þeim tilfellum er þó óheimilt að taka hærra gjald en nemur tilteknu hámarki, sem reiknað er út frá raunkostnaði við að gera endurnotkun upplýsinga mögulega.
    Áfram er gert ráð fyrir því að gera þurfi sérstaka beiðni hverju sinni til að óska eftir endurnotkun á einstökum gögnum eða gagnasöfnum.
    Innleiðing tilskipunarinnar felur ekki í sér skyldu til þess að öll fyrirliggjandi gögn verði gerð aðgengileg til endurnotkunar. Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa umtalsverð áhrif á tekjur opinberra aðila af sölu gagna. Þannig verður þess gætt við innleiðingu tilskipunarinnar að skýr lagafyrirmæli gildi um gjaldtöku viðkomandi stofnana sem uppfylla kröfur b-liðar 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/98/EB eins og henni er breytt með tilskipun 2013/37/ESB. B-liður 2. mgr. 6. gr. undanþiggur skjöl, sem opinber aðili þarf að afla tekna af til að standa undir umtalsverðum hluta kostnaðar sem hlýst af söfnun, framleiðslu, fjölföldun eða dreifingu þeirra, frá meginreglunni um að ekki sé tekið hærra gjald en sem nemur kostnaði við hverja beiðni um endurnot.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á gildandi reglum um endurnot opinberra upplýsinga sem nú er að finna í VII. kafla upplýsingalaga, nr. 140/2012.



Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017, um breytingu
á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og
upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0490-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/37/ESB frá 26. júní 2013 um breytingu
á tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0490-f_II.pdf