Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 682  —  291. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um úrbætur í jafnréttismálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða aðgerðum hafa stjórnvöld beitt til að bregðast við um ársgömlum tilmælum um úrbætur í jafnréttismálum frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum þar sem sérstaklega var lögð áhersla á:
     a.      samþykkt aðgerðaáætlunar gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa fatlaðra kvenna og kvenna af erlendum uppruna,
     b.      að tryggt verði að lögregluembætti um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum,
     c.      að þegar verði gripið til aðgerða til að fjölga konum innan lögreglunnar og Hæstaréttar og í háttsettum stöðum í utanríkisþjónustunni?

    Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 var samþykkt á Alþingi í september 2016. Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er lögð fram til samþykkis Alþingis í samræmi við 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Áætlunin er byggð á tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón var höfð af umræðum á síðustu tveimur jafnréttisþingum og skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra (nú félags- og jafnréttismálaráðherra) um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015 sem lögð var fyrir síðasta jafnréttisþing, í nóvember 2015.
    Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Kaflar áætlunarinnar endurspegla markmið stjórnvalda á sviði jafnréttismála og er áhersla lögð á að öll ráðuneyti hafi hlutverki að gegna við framkvæmd hennar. Í framkvæmdaáætluninni er m.a. lögð áhersla á verkefni sem hafa að markmiði að útrýma kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Kynbundið ofbeldi er grafalvarlegt samfélagslegt vandamál en afleiðingar þess fyrir hvert samfélag eru efnahagslegar, pólitískar, félagslegar og heilsufarslegar. Til að ná árangri í að uppræta kynbundið ofbeldi er nauðsynlegt að ólíkar fagstéttir vinni saman, að vandinn sé greindur á fyrstu stigum og því nauðsynlegt að stjórnvöld hverju sinni vinni samkvæmt nákvæmum aðgerðaáætlunum.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var samþykkt á Alþingi í september 2016. Við mótun hennar voru skýrslur og alþjóðlegar skuldbindingar hafðar að leiðarljósi og þau tilmæli sem þar eru birt. Má þar m.a. má nefna skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi, skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum. Tekið skal fram að í framkvæmdaáætluninni er lögð umtalsverð áhersla á upplýsingamiðlum, þ.e. að innflytjendur séu upplýstir um rétt sinn í samfélaginu.
    Í þingmálaskrá 146. löggjafarþings 2016–2017 kemur fram að félags- og jafnréttismálaráðherra muni á yfirstandandi þingi m.a. mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Ekki reyndist unnt að leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn ofbeldi á núverandi þingi.
    Í drögum aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í íslensku samfélagi til fjögurra ára er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Enn fremur verður áhersla lögð á stuðning við þolendur ofbeldis. Stýrihópur um aðgerðir gegn ofbeldi hefur starfað frá árinu 2015 og unnið síðustu misseri samkvæmt samstarfsyfirlýsingu þriggja ráðherra frá desember 2014 að landssamráði, svæðisbundnu samráði og fyrrnefndri aðgerðaáætlun. Samstarf ráðherranna hefur verið endurnýjað og fjórði ráðherrann bæst í hópinn. Að samstarfsyfirlýsingunni standa ráðherrar dómsmála, félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála og er nú verið að endurskipa stýrihópinn með fulltrúum allra ráðherranna. Aðgerðaáætlunin mun byggjast á framangreindri samstarfslýsingu fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Í drögum að framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks er m.a. gert ráð fyrir aðgerð sem stuðla á að aukinni þekkingu lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis við rannsókn og meðferð ofbeldismála og hefur að markmiði að fatlað fólk njóti verndar réttarkerfisins til jafns við aðra.
    Í byrjun mars 2017 hófst starfssemi í Bjarkahlíð við Bústaðaveg í Reykjavík þar sem rekin er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Bjarkahlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Manréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Starfsemi Bjarkahlíðar er að hluta til byggð á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að fullorðnir þolendur ofbeldis geti fengið samhæfða þjónustu og ráðgjöf á einum stað. Um er að ræða viðtöl og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum og tengingu við aðra þjónustu sem er í boði, þ.m.t velferðarþjónustu sveitarfélaganna, réttindagæslumenn fatlaðs fólks og heilsugæslu.
    Hlutverk Bjarkahlíðar er að:
     a.      Veita samhæfða þjónustu og úrræði fyrir fullorðna þolendur ofbeldis, undir sama þaki, með það að markmiði að auðvelda þolendum að leita aðstoðar.
     b.      Efla fræðslu, þekkingu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, vera miðstöð upplýsinga og fræðslu um málefni sem tengjast ofbeldi og fylgjast með rannsóknum og nýjungum í málaflokknum.
     c.      Bæta þjónustu fyrir hópa í samfélaginu sem aukin hætta er á að verði fyrir ofbeldi.
     d.      Stuðla að þverfaglegri samvinnu milli opinberra aðila, frjálsra félagasamtaka o.fl. sem starfa að málaflokknum og þjónusta þolendur ofbeldis.
     e.      Skapa hlýlegt og öruggt umhverfi þar sem þolendur ofbeldis mæta skilningi og þekkingu á aðstæðum sínum.
    Bjarkahlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára.

    a. Í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda eru tilgreindar tvær aðgerðir sem snúa beint að ofbeldi. Annars vegar er um að ræða aðgerð sem snýr að auknum stuðningi við konur sem búið hafa við heimilisofbeldi. Markmið aðgerðarinnar er að efla stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem búið hafa við heimilisofbeldi og auka forvarnir með það að markmiði að draga úr heimilisofbeldi og afleiðingum þess. Útbúa á fræðsluáætlun og námskeið fyrir konur af erlendum uppruna sem búa við félagslega erfiðleika og lítið stuðningsnet. Undirbúningur verkefnisins er hafinn og verður það unnið í samstarfi við Kvennaathvarfið. Þá er í framkvæmdaáætluninni einnig tilgreind aðgerð sem felur í sér að stofnaður verði starfshópur sem leggi drög að rannsóknum á ofbeldi í garð innflytjenda og meðal þeirra hér á landi. Hópnum er ætlað að leggja mat á þær rannsóknir sem þegar hafa verið unnar. Út frá rannsóknaniðurstöðum og annarri þekkingu sem liggur fyrir verða lagðar til aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi, þ.e. hatursorðræðu, andlegu ofbeldi vegna uppruna, heimilisofbeldi og hvers konar öðru ofbeldi. Sérstakalega er verkefninu ætlað að huga að börnum í framangreindum aðstæðum. Undirbúningur vegna verkefnisins mun hefjast innan skamms.
    Með tilkomu Bjarkahlíðar, þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, hefur skapast vettvangur til þess að þjóna betur konum af erlendum uppruna. Einn samstarfsaðila Bjarkahlíðar er Kvennaathvarfið þangað sem margar erlendar konur leita á ári hverju. Þær konur þurfa oft á margs konar aðstoð að halda, og svo sem félagslegri ráðgjöf, lögfræðiráðgjöf eða ráðgjöf frá lögreglu, en sú þjónusta er til að mynda veitt í Bjarkahlíð skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Samkvæmt upplýsingum frá Bjarkahlíð hafa ein samtök kvenna af erlendum uppruna nú þegar sett sig í samband við miðstöðina og óskað eftir því að fá að vera með fræðslu um ofbeldi fyrir sín samtök.
    Í framangreindum drögum að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi til fjögurra ára er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Eins og áður er fram komið mun aðgerðaáætlunin byggjast á samstarfslýsingu fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir að fjalla um málsmeðferð fatlaðra þolenda ofbeldis með það fyrir augum að fleiri lögregluembætti á landinu innleiði svokallaða „réttindaleið“ sem er verklag sem lögreglan á Selfossi fylgir og felur í sér ákveðið ferli við skýrslutökur hjá seinfærum einstaklingum. Mikill áhugi og vilji fyrir innnleiðingu verklagsins hefur komið fram á fundum í ólíkum landshlutum sem stýrihópur um aðgerðir gegn ofbeldi hefur undanfarna mánuði staðið fyrir með það að markmiði að styrkja þverfaglegt samráð meðal lykilaðila á hverju landsvæði fyrir sig.
    Í drögum að framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks er lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja að réttarkerfið, þ.e. lögregla, ákæruvald og dómsvald, taki nauðsynlegt tillit til þarfa og aðstæðna fatlaðs fólks hvort sem það hefur stöðu brotaþola, gerenda í brotamálum eða vitna. Sérstaklega verði skoðuð staða fatlaðs fólks sem meintra gerenda, ekki síst með tilliti til ákvarðana um gæsluvarðhald og fangelsisrefsingar. Einnig verði horft til verndar fatlaðra kvenna og barna gegn ofbeldi, svo sem kynferðislegu ofbeldi, þar sem rannsóknir sýna að fatlaðar konur og fötluð börn verða frekar fyrir ofbeldi en kynsystur/jafnaldrar. Á grundvelli niðurstaðna verði útbúið fræðsluefni fyrir starfsfólk.

    b. Á framangreindum landshlutafundum hefur verklag lögreglunnar í heimilisofbeldismálum, sem upphaflega hófst á Suðurnesjum og var síðan innleitt í Reykjavík, á Akureyri og í Árnesþingi, verið kynnt og rætt ítarlega. Formleg innleiðing þess krefst bæði skuldbindinga og góðs samstarfs af hálfu löggæslu, velferðarþjónustu og eftir atvikum réttindagæslumanna. Starfsemi Bjarkahlíðar er dæmi um gott samstarf lykilaðila þessu sviði.

    c. Með breytingu á lögum um dómstóla sem gildi tóku í júní 2016 er nú skýrt kveðið á um að við tilnefningar í nefnd um hæfni þeirra sem sækja um embætti dómara verði tilnefningaraðilar að tilnefna bæði karl og konu til setu í nefndinni sem metur hæfni dómaraefna. Rétt er að hafa í huga að á undanförnum árum hefur hlutfall kvenna í héraðsdómi verið að aukast og eru þær nú 43% héraðsdómara, 18 konur og 24 karlar. Með auknum fjölda kvenna í dómarastétt og öðrum lögfræðistörfum má búast við því að fleiri konur sækist eftir að starfa hjá æðsta dómstóli landsins. Má í því samhengi líta til þess að nýlega voru auglýst laus til umsóknar embætti 15 dómara við Landsrétt. Umsækjendur um embættin voru 37, þar af voru 14 konur eða 40% umsækjenda.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra hefur ekki beinlínis verið gripið til sértækra aðgerðir til að auka hlut kvenna meðal lögreglumanna en vitund um mikilvægi þess er til staðar innan lögreglunnar og hefur aukist á síðustu árum. Ríkislögreglustjóri hefur hins vegar unnið að ýmsum umbótaverkefnum og leitað samstarfs við sérfræðinga á sviði jafnréttismála innan háskólasamfélagsins og utan til að vinna gegn brotthvarfi kvenna úr stétt lögreglumanna. Í rannsókn Finnborgar Salome Steinþórsdóttur frá árinu 2013 Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar – Af hverju eru konur svo fámennar meðal lögreglumanna? er sjónum m.a. beint að ástæðum brotthvarfs kvenna úr stétt lögreglumanna með tilliti til þessa mikla kynjahalla sem enn er innan lögreglunnar. Í kjölfar niðurstaðna rannsóknar Finnborgar á vinnumenningu lögreglunnar voru lagðar til tillögur til úrbóta sem embætti ríkislögreglustjóra hefur brugðist við með aðgerðum á síðastliðnum árum. Enn fremur hefur embætti ríkislögreglustjóra unnið að mörgum verkefnum til að vinna gegn brotthvarfi kvenna meðal lögreglumanna og að bættri vinnumenningu innan lögreglunnar. Embætti ríkislögreglustjóra vinnur á grundvelli aðgerðaáætlunar á sviði jafnréttismála og safnar tölulegum upplýsingum frá öðrum lögregluembættum sem greindar eru eftir kyni. Samkvæmt þeim upplýsingum hefur hlutfall lögreglukvenna aukist frá árinu 2012 úr 11,8% í 15,6% árið 2016. Þá hefur konum fjölgað í lögreglunámi en þær eru nú 56% þeirra sem nú stunda starfsnám við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar.
    Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu voru konur 55% þeirra sem störfuðu í utanríkisþjónustunni árið 2016. Fyrsta konan til að gegna embætti sendiherra var skipuð árið 1991, frú Sigríður Snævarr. Í því samhengi má einnig taka fram að árið 2006 var kona fyrst skipuð utanríkisráðherra. Nú eru konur rúmlega þriðjungur sendiherra, eða 12 af 39. Kynjahlutföll sendiherra sem skipaðir hafa verið á undanförnum tveimur árum eru jöfn (4/4), en á síðasta ári voru þrjár konur skipaðar sendiherrar og einn karl. Markvisst er unnið að því að jafna hlut kynjanna í utanríkisþjónustunni, m.a. með því að taka tillit til kynjahlutfalls við ráðningu sérfræðinga svo að undirbúa megi jafnt konur sem karla fyrir ábyrgðarstörf í utanríkisþjónustunni.