Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1331  —  667. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um þyrluflug og Landspítalann.


     1.      Er þyrlupallur sem teiknaður er á tengibyggingu Nýja Landspítalans (rannsóknarbyggingu) við meðferðarkjarnann samþykktur af flugmálayfirvöldum og tekinn út af Landhelgisgæslunni, varðandi t.d. aðflugsferla, öryggissvæði og stærð, miðað við staðsetningu á 5–6 hæða byggingu?
    Þyrlupallur er sýndur á þaki rannsóknahúss hins Nýja Landspítala á deiliskipulagsstigi og á forhönnunarstigi hússins. Rétt eins og rannsóknahúsið sjálft hefur þyrlupallurinn ekki verið fullhannaður og því hefur pallurinn ekki farið í formlegt úttektar- og samþykktarferli hjá flugmálayfirvöldum. Það er ekki gert á þessu stigi. Á forhönnunarstigi rannsóknahússins voru hins vegar teiknaðir að- og fráflugsferlar miðað við þá staðsetningu sem um ræðir og öryggissvæði reiknuð og teiknuð. Í þessu hönnunarferli var ávallt reiknað með að stærð pallsins væri þannig að ívið stærri þyrlur en Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða í dag gætu lent þar. Stærðarviðmið þyrlupalla eru tekin úr töflu í alþjóðlegum hönnunarstaðli og hefur því aldrei leikið neinn vafi á því hver stærð pallsins eigi að vera. Þrátt fyrir að þyrlupallurinn hafi ekki farið í formlegt samþykktarferli enn hafa verið haldnir samræmingar- og kynningarfundir á vegum Nýs Landspítala ohf. með Landhelgisgæslunni, ISAVIA og Samgöngustofu. Á þessum samræmingarfundum er farið yfir flugferla og öryggissvæði og tekið tillit til athugasemda þessara aðila við breytingar og hönnunarþróun ferlanna.

     2.      Hefði þyrlupallurinn þurft að vera stærri?
    Sjá svar við 1. lið. Ekki er talið að þyrlupallurinn þurfi að vera stærri enda gerir hönnunin ráð fyrir að næsti stærðarflokkur fyrir ofan þyrlur Landhelgisgæslunnar geti lent á pallinum.

     3.      Hefur verið farið yfir þessa þætti eftir að neyðarbrautinni var lokað?
    Lokun brautarinnar hefur ekki áhrif á þyrluflug á umræddan þyrlupall.

     4.      Er miðað við að allt þyrluflug með sjúklinga og slasaða til Reykjavíkur fari til Landspítalans eða bara hluti þess?
    Miðað er við að allir sjúklingar sem koma með þyrluflugi til Reykjavíkur fari á Landspítalann þar sem bráðaþjónustan er, en sjúkrahús í nágrannasveitarfélögunum geta tekið við sjúklingum í neyðartilfellum.

     5.      Hver er hámarksþyngd vélar sem má lenda þar og er gert ráð fyrir sams konar þyrlum og Landhelgisgæslan hefur nú yfir að ráða?
    Sjá svör við 1. og 2. lið.