Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 446  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að því var vísað til hennar 14. september sl. Nefndin fékk á sinn fund marga fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem svöruðu spurningum varðandi hina ýmsu kafla frumvarpsins. Einnig voru kallaðir til fulltrúar allra ráðuneyta sem bera ábyrgð á einstökum málefnasviðum og málaflokkum ríkisútgjalda. Þá var öllum þeim aðilum sem sendu nefndinni umsögn um frumvarpið boðið á fund nefndarinnar auk fulltrúa Hagstofunnar og Landspítalans sem skiluðu ekki umsögn en svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Fulltrúar frá eftirfarandi umsagnaraðilum komu á fund nefndarinnar: Ríkisendurskoðun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifstofu Alþingis, öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, BSRB, Samtökum ferðaþjónustunnar, öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum atvinnulífsins, Landssamtökunum Þroskahjálp, Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Félagi eldri borgara, Bandalagi háskólamanna, Félagi um femínísk fjármál og Kennarasambandi Íslands. Einnig komu fulltrúar frá Virk, starfsendurhæfingarsjóði, Kvikmyndaskóla Íslands, Vegagerðinni, Ofanflóðasjóði, Kirkjugarðasambandi Íslands og Krikjugarðaráði á fund nefndarinnar. Nefndin hélt fjarfund með fulltrúum Byggðastofnunar.

Verklag nefndarinnar.
    Í samræmi við lög um opinber fjármál hefur nefndin breytt og endurbætt verklag í tengslum við fjárbeiðnir og tillögur sem berast nefndinni. Áður en nefndin tók afstöðu til þeirra var óskað eftir afstöðu viðkomandi ráðherra og kallað eftir upplýsingum um hvort viðkomandi beiðni félli að stefnumörkun málaflokksins og hvort ráðherra hefði gert samning eða hygðist gera samning við viðkomandi aðila. Svör ráðuneyta voru ekki alltaf viðunandi en meiri hlutinn fyrirhugar að fylgja þessu breytta verklagi frekar eftir í tengslum við erindi sem berast nefndinni framvegis.
    Tilgangurinn með þessu breytta verklagi er að tengja fjárbeiðnir betur saman við stefnumörkun í viðkomandi málefnaflokki þannig að ákveðin samfella myndist í fjárveitingum sem aftur hefur áhrif á uppfærslu fjármálaáætlunar að vori og kallar jafnframt eftir því að gerð sé grein fyrir árangri breyttra fjárveitinga í ársskýrslu hvers ráðherra.

Heildaráhrif breytingartillagna.
    Gerðar eru breytingatillögur við tekjuáætlun frumvarpsins sem nema 364,2 millj. kr. til hækkunar tekna og breytingatillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnasviða eftir málaflokkum og ráðuneytum sem samtals nema 396,4 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 892.025,9 millj. kr. og gjöldin 863.089,6 millj. kr. og heildarafkoman verður þá jákvæð um 28.936,3 millj. kr. sem er nánast óbreytt frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu eða 32,2 millj. kr. lækkun en eftir sem áður er áætlað að afgangur nemi um 1% af vergri landsframleiðslu eins og lagt er upp með í fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Í töflunni koma fram breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem gjöld og tekjur ríkissjóðs eru sundurliðuð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli, þ.e. að teknu tilliti til aðlagna og innbyrðisviðskipta ríkisaðila.

Í millj. kr. Frumvarp Breytingartillögur Samtals
Frumtekjur 880.455,3 1.085,0 881.540,3
Frumgjöld 803.250,7 -603,6 802.751,7
Frumjöfnuður 77.204,6 1.668,6 78.893,2
Vaxtatekjur 11.206,4 -720,8 10.485,6
Vaxtagjöld 59.442,5 1.000,0 60.442,5
Vaxtajöfnuður -48.236,1 -1.720,8 -49.956,9
Heildartekjur 891.661,7 364,2 892.025,9
Heildargjöld 862.693,2 396,4 863.089,6
Heildarjöfnuður 28.968,5 -32,2 28.936,3

    Í töflunni koma fram breytingar á frumjöfnuði og vaxtajöfnuði. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda og tekna. Hann hefur verið jákvæður allt frá árinu 2012 og vegur upp neikvæðan vaxtajöfnuð.
    Tekjuáætlun frumvarpsins hefur verið uppfærð með hliðsjón af endanlegu tekjuuppgjöri í ríkisreikningi 2017, álagningu og innheimtu skatta fram til loka október nú í ár og áhrifa af uppfærðri þjóðhagsspá í nóvember. Endurmatið leiðir til óverulegra breytinga eða heildarhækkunar um 0,4 milljarða kr. Frávik eru hins vegar í báðar áttir. Þar munar mest um 4 milljarða kr. lækkun virðisaukaskatts, 1,7 milljarða kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 milljarða kr. tekjur af sölu koltvísýringslosunarheimilda í eigu íslenska ríkisins á uppboðsmarkaði á næsta ári. Forsendur áætlunarinnar eru að um 85% heimilda Íslands verði seldar á árinu 2019, á verðinu 15 evrur (fyrir hvert tonn), og skýrist hækkunin frá frumvarpinu af mikilli verðhækkun á markaðinum á þessu ári. Önnur frávik á tekjuhlið vega minna.
    Gjöldin hækka um 0,4 milljarða kr. en þar eru líka frávik í báðar áttir. Lagt er til að fjárheimildir aukist um 3,8 milljarða kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlagafrumvarpsins. Af þeirri fjárhæð eru um 2,3 milljarðar kr. vegna endurmats á gengisforsendum þar sem miðað er við meðalgengi í októbermánuði en í frumvarpinu var miðað við meðalgengi í júlí. Þá hækka fjárheimildir vegna breyttra launaforsendna og forsendna um bótahækkanir. Gert er ráð fyrir 3,6% launahækkun í stað 3,4% hækkunar frá og með 1. apríl í fjárlagafrumvarpinu sem tekur mið af breyttum verðlagsforsendum í endurmetinni þjóðhagsspá. Þá er einnig gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki um 3,6% í stað 3,4% sem er í takt við verðbólguspá næsta árs en gert er ráð fyrir að bæturnar hækki frá og með 1. janúar nk. Loks hækka almennar verðlagsforsendur frá frumvarpinu í takt við breytta verðbólguspá.
    Á móti vegur endurmat til lækkunar á ýmsum útgjaldaskuldbindingum og aukið aðhald í rekstri samtals um leiðir til 4,3 milljarða kr. lækkunar. Endurmat vaxtagjalda hækkar gjöldin um 2,7 milljarða kr. en á móti vegur einn milljarður króna sem sérstök ráðstöfun til að lækka vexti á næsta ári. Samtals hækka því gjöldin um 0,5 milljarða kr. frá frumvarpinu.
    Einstakar breytingartillögur á gjaldahlið er skýrðar í sérstökum kafla aftast í álitinu.

Efnahagsforsendur.
    Efnahagsforsendur frumvarpsins byggjast á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var 1. júní sl. Eftir að frumvarpið gekk til fjárlaganefndar hefur Hagstofan birt nýja spá og hefur meiri hlutinn tekið tillit til hennar í breytingartillögum sínum. Í töflunni koma fram hlutfallslegar breytingar á nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í samanburði við fyrri spá, bæði fyrir árið í ár og 2019.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sjá má að breytingar koma fram bæði í endurmati yfirstandandi árs og spá næsta árs. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur 2019 verði aðeins minni en í fyrri spá eða sem nemur 0,2% magnminnkun. Á móti vegur hækkun á endurmati yfirstandandi árs eða 0,9% magnaukning. Áhrifin á áætlaðar tekjur, t.d. virðisaukaskatt, eru óveruleg. Hins vegar er nú spáð nokkuð hærri verðbólgu en áður sem skýrist m.a. af lægra raungengi. Áhrifa verðbólguspár gætir víða í endurmati á tekjum og gjöldum ríkisins.

Helstu markmið frumvarpsins.
    Frumvarpið er sett fram í samræmi við lög nr. 123/2015, um opinber fjármál (LOF). Í 16. gr. laganna er tilgreint hvernig tölugrunnur frumvarpsins er byggður upp og settur fram. Í 14. gr. kemur fram að frumvarpið skuli vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar sem samþykkt var sem þingsályktun á 148. þingi, 6. júní sl.
    Í greinargerð frumvarpsins er gerð grein fyrir helstu markmiðum þess og horfum í ríkisfjármálum. Í fjármálaáætlun fyrir 2019–2023 komu fram stefnumið varðandi afgang af heildarafkomu sem hlutföll af vergri landsframleiðslu (VLF) og varðandi vöxt frumtekna og gjalda, líka sem hlutföll af VLF. Sett var markmið um að heildarskuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu LOF verði komnar undir 25% af VLF í árslok 2019. Loks er miðað við að fjárfestingar ríkissjóðs aukist sem hlutfall af VLF og verði að jafnaði 2,5% af VLF samanborið við 2,1% árið 2018.
    Frumvarpið endurspeglar aukinn hagvöxt undanfarinna ára, ríkissjóður hefur skilað afgangi á hverju ári frá og með árinu 2014 og einskiptis og tímabundnar tekjur hafa verið nýttar til að greiða niður skuldir. Á aðeins sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af VLF í 31% í árslok nú í ár, úr 1.501 milljörðum kr. í um 843 milljarða kr. Það nemur 658 milljörðum kr. og til samanburðar nemur sú fjárhæð 76% af heildarútgjöldum ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu.
    Þá gera áætlanir ráð fyrir að greiddir verði árlega 7 milljarðar kr. inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þær námu samtals 619 milljörðum kr. í árslok 2017 og hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum. Með þessum forinngreiðslum er gert ráð fyrir að unnt verði að lækka skuldbindinguna verulega og bæta greiðslustöðu B-deildarinnar.
    Með þessum og öðrum langtímaaðgerðum er aukið á sjálfbærni ríkisfjármála sem er eitt af meginmarkmiðum laga um opinber fjármál.
    Í greinargerð frumvarpsins er einnig vakin athygli á því að fyrirhuguð er stofnun þjóðarsjóðs sem ætlunin er að fjármagna með tekjum af orkuauðlindum og orkuvinnslu á vegum hins opinbera, einkum arðgreiðslum frá Landsvirkjun.
    Afgangur af rekstri ríkissjóðs er alveg við gólf fjármálastefnunnar eða 1% af VLF sem gerir tæpa 29 milljarða kr. Ljóst er að lítið má út af bregða til að afkomumarkmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar raskist. Efnahagshorfur eru reyndar almennt góðar en engu að síður er farið að hægja á hagvexti undanfarinna ára sem meðal annars má rekja til hægari vaxtar í ferðaþjónustunni eins og nánar er farið yfir í umfjöllun um málefnasvið 14 Ferðaþjónusta.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að framvegis komi fram svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar, þannig að afkoma fjárlagafrumvarps ráði við sveiflur og endurskoðun efnahagshorfa án þess að afkomumarkmið fjármálastefnu sé í hættu.

Töluleg framsetning gagna frumvarpsins og fylgirits.
    Lög um opinber fjármál kveða meðal annars á um gerbreytta framsetningu ríkisfjármála og að reikningsskilin skuli framvegis byggð á alþjóðlegum stöðlum. Nú byggist frumvarpið á alþjóðlegum stöðlum þar sem reikningsskil fyrir ríkissjóð í heild eru byggð á reikningsskilastaðli (IPSAS) en reikningsskil einstakra ríkisaðila skuli uppfylla ákvæði laga um ársreikninga. Í lögunum er kveðið á um að framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál A-hluta ríkissjóðs skuli vera samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli (GFS). Í frumvarpinu er kafli þar sem mismunandi framsetning er birt og mismunur gjalda og tekna útskýrður.
    Nefndin telur engu að síður að framsetningin sé um margt ruglingsleg og nauðsynlegt sé að bæta úr framsetningu talnagrunns, textaumfjöllunar um einstök málefnasvið og sundurliðunar í fylgiriti með frumvarpinu. Þetta kemur fram í nokkrum umsögnum um frumvarpið, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ríkisendurskoðun. Nokkur dæmi þessu til stuðnings má nefna:
          Fjármálaáætlun er sett fram samkvæmt GFS-staðli og þar koma fram áform um afkomu ríkissjóðs.
          Reikningsskil fyrir ríkissjóð í heild skal færa samkvæmt IPSAS-staðli og þar nema fjárheimildir málefnasviða 921,5 milljörðum kr.
          Framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál A-hluta ríkissjóðs skal færa samkvæmt GFS-staðli og í fjárstreymisyfirliti í 1. gr. frumvarpsins eru heildargjöldin 862,7 milljarðar kr.
          Fjárheimildir málefnasviða og málaflokka skv. 3. og 4. gr. frumvarpsins eru samkvæmt IPSAS-stöðlum.
          Ríkisreikning skal færa samkvæmt IPSAS-stöðlum.
    Í umsögn sinni nefnir Ríkisendurskoðun að til þess að hægt sé að uppfylla þá kröfu að birta samanburð fjárlaga og ríkisreikning fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild er mikilvægt að ljóst sé hvaða yfirlit fjárlaga skuli bera saman við ríkisreikning. Eins og lögin liggja fyrir er ekki fyllilega ljóst með hvaða hætti slíkur samanburður verður gerður fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild.
    Í umfjöllun um einstaka þætti frumvarpsins er oftast miðað við „þjóðhagsgrunn“ (GFS-staðal) en sums staðar kemur fram samanburður á tölum annars vegar á GFS og hins vegar IPSAS-grunni. Mikil endurtekning kemur fram í umfjöllun málefnasviða og málaflokka þar sem breytingar milli ára eru skýrðar bæði miðað við heildargjöld og einnig hagræna skiptingu þeirra. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa bent á að sundurliðun fjárveitinga til ríkisaðila, félagasamtaka o.fl. í fylgiriti með frumvarpinu er ekki nægilega ítarleg og er að mati meiri hlutans ekki gagnsæ fyrir vikið. Nefndin tekur undir þessar ábendingar.
    Nefndin í heild er sammála um að leggja til að:
          Framsetning talnagrunns verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra og einfalda framsetninguna. Hugsanlega þarf lagabreytingar til að ná því fram.
          Fylgirit með frumvarpi verði mun ítarlegra en nú er og þannig verði auðveldara að rekja fjárveitingar einstakra ríkisaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.
          Verulega verði dregið úr endurtekningum í skýringartexta einstakra málefnasviða og flokka. Horft verði til þess að skýra fyrst og fremst breytingar á heildargjöldum og sleppa, eins og hægt er, skýringum samkvæmt hagrænni skiptingu.
          Megináhersla í texta frumvarpsins ætti að felast í ítarlegri skýringum á svokallaðri útgjaldabrú sem birt er fyrir hvert málefnasvið fyrir sig. Fram til þessa hafa skýringar verið of knappar og oftar en ekki bæta þær engu við stöplaritið sem sýnir breytingar á ramma á milli ára.

Hagræn skipting ríkisútgjalda.
    Nefndin hefur kannað sérstaklega þróun á samsetningu ríkisútgjalda miðað við hagræna skiptingu. Með því er átt við að gjöldin eru flokkuð í rekstrarútgjöld stofnana og ríkisaðila, fjárframlög sem einkum eru almannatryggingar, tilfærslur til sveitarfélaga og stofnfjárframlög, vaxtagjöld og fjárfestingu að frádregnum afskriftum. Samsetning útgjalda getur haft veruleg áhrif á hversu auðvelt er að bregðast við skyndilegum áföllum eða öðrum breytingum í efnahagsumhverfinu.
    Þróunin frá árinu 2011 sýnir að launagjöld og almannatryggingar hafa hækkað hlutfallslega meira en önnur gjöld. Fjárfesting og kaup á vörum og þjónustu dregst hins vegar hlutfallslega saman eins og sjá má á línuritinu.
    Árið 2011 námu heildarlaun 97,5 milljörðum kr. en höfðu hækkað í 157,7 milljarða kr. árið 2017. Á sama tíma fjölgaði ársverkum ríkisstarfsmanna úr 16.366 í 17.097. Fjölgun starfsfólks nemur 731 ársverki eða 4,5% fjölgun. Á sama tímabili hafa heildarlaun hækkað um 60,2 milljarða kr. eða um 62%. Launavísitalan hefur á þessu tímabili hækkað um 53%.
    Launagjöld hafa hækkað mjög mikið á undanförnum árum og draga má þá ályktun af því að haldi sú þróun áfram að laun og almannatryggingar hækki hlutfallslega meira en önnur útgjöld dragi það úr svigrúmi til innviðauppbyggingar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Aðhaldsstig ríkisfjármála.
    Nokkrir umsagnaraðilar telja aðhaldsstig ríkisfjármála ekki viðunandi og vara við því að afgangur sé of lítill þannig að ekkert megi út af bregða til þess að ekki myndist halli á rekstri ríkissjóðs.
    Ekki liggja fyrir nægilega miklar sviðsmyndagreiningar á þessu sviði en nefndin mun kalla eftir þeim í tengslum við endurskoðun fjármálaáætlunar. Á línuritinu sést þróun afkomu ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF). Árið 2016 er ekki sambærilegt við önnur ár. Þá voru tekjufærð stöðugleikaframlög samkvæmt samningum við slitabú fallinna fjármálafyrirtækja og á gjaldahlið framlög vegna lífeyrisskuldbindinga vegna uppgjörs á skuldbindingum A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Heildarjöfnuður sýnir heildarafkomu ríkissjóðs en frumjöfnuður sýnir tekjur og gjöld án vaxtatekna og vaxtagjalda.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Frá árinu 2016 kemur glögglega fram að frumjöfnuður lækkar sem hlutfall af VLF. Seðlabanki Íslands leggur mat á aðhaldsstig ríkisfjármála, síðast í Peningamálum 2018/4, og metur, að teknu tilliti til óreglulegra tekju- og gjaldabreytinga, að hve miklu leyti afkoman endurspeglar breytingar á almennum efnahagsumsvifum. Að mati Seðlabanka Íslands jókst aðhaldsstigið árið 2018 og telur meiri hlutinn það skynsamlega ríkisfjármálastefnu komandi frá toppi hagsveiflunnar. Samkvæmt mælingum bankans undanfarin þrjú ár var slakað á aðhaldsstigi ríkisfjármála. Gangi spá bankans eftir miðað við fyrirliggjandi frumvarp má búast við að á ný slakni á aðhaldinu á næsta ári. Draga mætti þá ályktun af því að ríkisfjármálastefnan styðji þannig ekki nægilega vel við peningamálastefnuna fyrir æskilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
    Á móti má benda á að þá skiptir máli í hvað peningarnir fara, í auknar fjárfestingar eða t.d. í laun og verðlagsbætur. Nýjasta endurmetna spá Hagstofu Íslands sýnir að hagvöxtur fer minnkandi og því telur meiri hlutinn eðlilegt að slaka á aðhaldinu og auka skynsamlega fjárfestingar til velferðarmála, samgangna og menntamála eins og birtist í frumvarpinu. Vegna skuldalækkunar undanfarinna missira má gera ráð fyrir að vaxtajöfnuðurinn batni um 10 milljarða kr. milli ára sem kemur fram í útgjaldaaukningu í frumjöfnuði.

Umfjöllun um einstök málefnasvið.
Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála eru að aukast verulega, í samræmi við stjórnarsáttmála og ríkisfjármálaáætlun. Um er að ræða átak í samgöngumálum til næstu þriggja ára og birtist það í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem útgjaldabreytingin á milli ára er 13,9%, að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum.
    Samgönguáætlun til næstu 5 og 15 ára liggur nú fyrir þinginu til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd og er sú áætlun í samræmi við áætlaðar fjárveitingar sem birtast í ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 og hér í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Í ríkisfjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti á vorþingi kemur fram að setja eigi verulega aukna fjármuni til að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf og sinna nauðsynlegum úrbótum í samgöngum og fylgja eftir átakinu Ísland ljóstengt til loka, hlúa að netöryggismálum og viðhalda sterkri stöðu Íslands í fjarskiptamálum sem viðurkennd er af Alþjóðafjarskiptasambandinu.
    Liðir fjárlagafrumvarpsins á sviði samgöngu- og fjarskiptamála eru skýrt dæmi um að lög um opinber fjármál styrkja samspil stefnumótunar og áætlanagerðar þannig að fjárlög endurspegli heildstæða samþætta stefnu og áætlanagerð í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar. Því má segja að frumvarpið staðfesti að samgönguáætlun sé raunsæ og ábyrg.

Málefnasvið 12 Landbúnaður.
    Óverulegar breytingar verða á fjárveitingum málefnasviðsins milli ára, enda yfirgnæfandi hluti fjárhagsrammans bundinn í samningum ríkisvaldsins og bænda.
    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðar. Veruleg lækkun tollverndar, hækkaður launakostnaður við úrvinnslu afurða og stóraukinn innflutningur í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu hefur skert kjör bænda. Minni markaðshlutdeild og lágt afurðaverð auk verðlækkunar á útfluttum landbúnaðarafurðum rýrir mjög framleiðsluvilja landbúnaðarins. Auknar innflutningsheimildir, og sérstaklega með innflutningi á hráu kjöti, gera samkeppnisstöðu landbúnaðarins enn erfiðari. Mikilvægt er að hafa þessa stöðu í huga við undirbúning fjármálaáætlunar og endurskoðun búvörusamninga á næsta ári.
    Meiri hlutinn gerir ekki tillögur um breytingar á frumvarpinu, frá gildandi samningum. Margir bændur hafa ekki, á undanförnum árum, notið þeirra bættu kjara sem hefur verið reyndin í afkomu flestra þjóðfélagshópa. Lækkun tollverndar, sem skilar sér í lægra vöruverði til neytenda, er því fyrst og fremst sótt til bænda. Sú þróun getur ekki verið sanngjörn til lengri tíma. Bregðast verður við því með markvissum aðgerðum. Afkoma frumframleiðenda og úrvinnslufyrirtækja er beintengd afkomu og getu margra byggðarlaga til að veita íbúum þjónustu.
    Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning fjármálaáætlunar og næstu fjárlagagerðar verði hugað að sókn til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu, m.a. með markvissu samstarfi þeirra stofnana ríkisins sem starfa á sviði landbúnaðar, matvælarannsókna og þróunar.

Málefnasvið 13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
    Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og hefur löngum verið einn helsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur okkar. Vöxtur hans og viðgangur er því afar mikilvægur fyrir efnahagslífið allt. Það er ljóst að atvinnugreinin skapar mikil verðmæti. Því leggur meiri hlutinn áherslu á að umhverfi hans af hálfu stjórnvalda verði sanngjarnt og stöðugt.
    Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um veiðigjald. Fyrirkomulagi veiðigjalds verður breytt frá og með árinu 2019. Reiknað er með að með þessu nýja fyrirkomulagi verði álagning veiðigjalds skilvirkari og unnt verði að leggja það á nær í tíma en hefur verið raunin. Þá verður innbyggður í nýtt fyrirkomulag veiðigjalds hvati til endurnýjunar fiskiskipa og búnaðar til þess að stuðla að því að umhverfisspor af auðlindanotkun verði sem minnst. Gjaldhlutfall af hagnaði sjávarútvegsins mun verða óbreytt frá afturreiknuðu gjaldhlutfalli síðustu tíu ára. Fram hefur komið að gjaldið leggst mjög þungt á minni sjávarbyggðir þar sem veiðar og vinnsla er að mestu bundin við botnfisk. Það liggur fyrir að tekjur af veiðigjaldi verða lægri vegna versnandi afkomu greinarinnar samfara flutningi útreiknings nær í tíma. Landshlutasamtök og aðilar innan greinarinnar lýsa yfir miklum áhyggjum af of háu veiðigjaldi.
    Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnar að fram fari ítarlegri vinna um áhrif veiðigjalds á byggðir landsins, enda sé um að ræða einn af grunnatvinnuvegum landsins sem er víða undirstaða byggðar.

Málefnasvið 14 Ferðaþjónusta.
    Meiri hlutinn ítrekar álit sitt sem fram kom vegna fjármálaáætlunar 2019–2023 í vor um mikilvægi þess að hagskýrslugerð sem varðar ferðaþjónustuna á Íslandi verði bætt eins og stefnt er að. Nú þegar ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsatvinnugrein landsins er mikilvægt að þekking á efnahagslegu mikilvægi greinarinnar sé til staðar. Þá er ekki síður mikilvægt að áhrif greinarinnar á afkomu ríkisins séu greind með sem bestum hætti. Á undanförnum árum hefur verið staðið vel að gagnasöfnun í tengslum við íslenska ferðaþjónustu. Það sem helst hefur vantað upp á hefur snúið að úrvinnslu þeirra gagna sem til eru og skort hefur rannsóknir á hagrænum þáttum í tengslum við ferðaþjónustuna.
    Meiri hlutinn ítrekar áherslur frá fyrri álitum sínum um að sviðsmyndagreiningar séu unnar sem snúi að efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á íslenskt efnahagslíf og rekstur ríkisins.
    Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa í huga áherslu meiri hlutans frá því í fyrra vegna fjárlaga 2018:
    „Öflugur vöxtur hefur verið í komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum til Íslands og hann hefur haft mikil áhrif á efnahagslífið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að rannsóknir og sviðsmyndagreiningar sem snúa að efnahagslegum áhrifum atvinnugreinarinnar verði efldar. Hér er rétt að ítreka mikilvægi þess að hinn öflugi flugrekstur sem stundaður er af íslenskum flugrekstraraðilum sé einnig skoðaður í þessu samhengi. Sá rekstur skapar umtalsverðan hluta gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar.“
    Á þessu ári hefur dregið verulega úr fjölgun ferðamanna og líklegt er að áhrif atvinnugreinarinnar á hagvöxt verði töluvert minni á komandi ári en hefur verið á síðastliðnum árum.

Málefnasvið 17 Umhverfismál.
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er forgangsraðað í þágu umhverfismála í fjárlögum ársins 2019. Að raungildi hækka útgjöldin um rúmlega 1,5 milljarða kr. sem eru tæp 9% og eru aðeins örfá málefnasvið þar sem hækkunin er hærri. Útgjaldasvigrúmið nemur 1.320 millj. kr. og þar vega þyngst framlög vegna loftslagsmála og til að styrkja innviði á náttúruverndarstöðum og vegna aukinnar landvörslu.
    Mikilvægi loftslagsmála sem sameiginlegs verkefnis samfélagsins hefur aukist með hverri skýrslunni á fætur annarri sem bendir á að nú sé kominn tími aðgerða. Í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum verður stórauknu fé varið til að hefja átak í landgræðslu og skógrækt, endurheimt votlendis og birkiskóga og stöðvun jarðvegseyðingar. Til að virkja nýsköpun og einstaklingsframtak er gert ráð fyrir 60 millj. kr. í Loftslagssjóð. Ríkisstjórnin forgangsraðar einnig í þágu náttúruverndar með því að auka framlög til landvörslu, treysta innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og efla rannsóknir og vöktun í tengslum við náttúruvernd.
    Meiri hlutinn hvetur til meiri umræðu um hagsmuni Íslendinga og sérstöðu um möguleika á að ná stærri og meiri áföngum í bindingu kolefnis með landgræðslu og skógrækt. Sérstöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum verður að fá viðurkennda á alþjóðavettvangi.

Mennta- og menningarmál.
    Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur mikla áherslu á öflugt menntakerfi enda menntun, vísindi og rannsóknir forsenda nýsköpunar og framfara og ávísun á framtíðarhagvöxt. Undirstaða íslenska skólakerfisins verður áfram skapandi og gagnrýnin hugsun ásamt læsi og þátttöku í lýðræðissamfélagi enda miða verkefnin að því að styrkja þessar undirstöður með margvíslegum hætti. Menning, skapandi greinar og íþróttir eru hverju þjóðfélagi afar mikilvæg. Einkum er aðkallandi að tryggja öllum aðgengi að menningu, íþróttum og æskulýðsstarfi og efla skapandi greinar sem atvinnuveg.
    Rúmlega 11% af heildarútgjöldum ríkissjóðs renna til málefnaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðherra. Málefnasviðin eru fimm talsins, málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál, málefnasvið 19 Fjölmiðlun, málefnasvið 20 Framhaldsskólastig, málefnasvið 21 Háskólastig og önnur skólastig og málefnasvið 22 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.

Málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
    Heildarútgjöldin eru áætluð 14,5 milljarðar kr. og aukast lítilega að raungildi milli ára. Í samræmi við þau fyrirheit að fólk fái notið menningararfsins og að honum verði miðlað til landsmanna, ekki síst barna og unglinga, eru fjárheimildir safnamála auknar um 75 millj. kr. til eflingar höfuðsöfnunum þremur. Varðveisla íslenskrar tungu er mikilvægur þáttur menningar og samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 hefur ráðherra lagt fram frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku þar sem markmiðið er að efla læsi og vernda íslenska tungu. Framlög eru aukin til Kvikmyndasjóðs og aðgerðaáætlunar um máltækni þar sem heildarframlagið 2019 til verkefnisins verður 460 millj. kr. Heildarframlög til málefnasviðsins aukast um tæp 4% og verða rúmir 14,5 milljarðar kr.
    Að stærstum hluta fer íþróttastarf fram á vettvangi sveitarfélaga og hjá frjálsum félögum og félagasamtökum og er drifið áfram að miklu leyti af sjálfboðaliðastarfi. Unnið er að nýrri íþróttastefnu. Áhersla er lögð á að greiða fyrir þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og unnið er að því að greina stöðu þessa hóps. Þá er í vinnslu aðgerðaáætlun í samræmi við tillögur starfshóps „ég líka-byltingar“ og ráðherra mun m.a. leggja fram frumvarp til laga um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Heildarframlög til málaflokksins eru tæpir 4 milljarðar kr. og mesta aukning málaflokksins milli ára er í Afrekssjóð ÍSÍ eða 100 millj. kr.

Málefnasvið 19 Fjölmiðlun.
    Undir málefnasviðið heyra fjölmiðlanefnd og Ríkisútvarpið ohf. Heildarframlög til málefnasviðsins eru 4,7 milljarðar kr. og aukast um 12,9% og er þar rekstur Ríkisútvarpsins langfyrirferðarmestur. Fjárheimild til málaflokksins eykst um 360 millj. kr. í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi. Einnig er verið að auka fjárheimildir um 175 millj. kr vegna sjóðs til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Í samræmi við markmið um að bæta starfsumhverfi fjölmiðla og á grundvelli úttekta og skýrslna er unnið að aðgerðum til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla og hefur ráðherra boðað frumvarp í janúar um stuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Málefnasvið 20 Framhaldsskólar.
    Fjárheimildir haldast nær óbreyttar á milli fjárlagaára og er heildarfjárheimildin rúmlega 31 milljarður kr. en vegna fækkunar nemenda hækka framlög á hvern nemanda og styrkir þannig fjárhagslega stöðu framhaldsskólanna eins og lagt var upp með við styttingu framhaldsskólanna. Í fjármálaáætlun kemur fram að fjöldi ársnemenda er áætlaður 17.896 á þessu ári og fækkar þeim í 16.714 á næsta ári. Miðað við breytingar á rekstrarframlögum málefnaflokksins hækkar ríkisframlag á nemanda um 180 þús. kr. á milli ára. Það er hins vegar mikilvægt að fylgjast með öðrum áhrifum af þeim breytingum sem verða við styttingu framhaldsskólans, svo sem hlutfalli brautskráðra, brottfallinna og þeirra sem enn eru í námi fjórum árum eftir upphaf náms.

Málefnasvið 21 Háskólar.
    Heildarútgjöld til háskólastigsins verða 46,7 milljarðar kr. og aukast að raungildi um 705 millj. kr. á milli ára. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025 og er vinnuhópur ráðuneytisins með Hagstofu Íslands að skilgreina hvernig best er að bera saman þróun framlaga til háskólastigsins við það sem gerist erlendis. Mikilvægt er að fyrir liggi samanburðarhæfir mælikvarðar og dregið sé fram hvar við liggjum á þeim mælikvarða. Gæta þarf að því að íslensku háskólarnir dragist ekki aftur úr alþjóðlegri þróun og uppfylli alþjóðlegar gæðakröfur.
    Ekki síður er nauðsynlegt að skilgreina hver ávinningurinn er af því að fylgja þeim mælikvörðum. Það verður m.a. gert með úttektum á gæðum háskólanáms og breytingum á reiknilíkani um fjárveitingar með það að markmiði að auka áherslur á gæði námsins frekar en fjölda nemenda.

Málefnasvið 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu um fjárframlag til lýðháskóla á Flateyri og LungA á Seyðisfirði. Báðir þessir skólar eru mikilvægir í endurreisn sinna byggðarlaga. LungA hefur starfað á Seyðisfirði í fjögur ár en skólinn á Flateyri var settur í fyrsta sinn nú í haust. Tilkoma skólanna hefur þegar skapað mikil umsvif og sett svip á bæjarbraginn. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þessi framlög eru grunnur að tilraun með þetta skólastarf. Fyrir liggur frumvarp um þetta skólastig og er mikilvægt að Alþingi fjalli um og afgreiði það svo að þetta skólaumhverfi fái lagagrundvöll. Meiri hlutinn felur mennta- og menningarmálaráðherra að gera formlega samninga við skólana og tryggja fjármögnun þeirra.
    Rekstur þekkingarmiðstöðva, endurmenntunar og fræðslu er umfangsmikill. Á undanförnum árum hafa verið stofnuð háskóla- og fræðslusetur víða um land. Meiri hlutinn vill að við gerð næstu fjármálaáætlunar verði farið yfir fjármögnun þeirra, forsendur og uppbyggingu. Talsverður munur virðist vera á milli svæða í framlögum og nauðsynlegt að marka heildarstefnu um fjármögnun og rekstur þeirra. Miðstöðvarnar eru afar mikilvægar fyrir menntunar- og fræðslustarfsemi í mörgum byggðarlögum. Margvísleg rök geta verið fyrir mismunandi fjármögnun, m.a. staðhættir og veik staða byggða. Í þessu samhengi leggur meiri hlutinn til breytingartillögu um framlag til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Austurbrúar þar sem fjarlægðir og samgöngur krefjast ákveðinnar dreifingar á starfseminni.

Heilbrigðismál.
    Mikið hefur verið kallað eftir mörkun heildstæðrar stefnu í heilbrigðisþjónustu og ánægjulegt er að fyrstu skrefin hafi verið stigin á fjölmennu heilbrigðisþingi 2. nóvember.
    Framlög til heilbrigðismála verða aukin að nafnvirði um 7% á árinu 2019, eða um tæplega 15 milljarða kr. Megináherslan er á greiðara aðgengi að heilsugæslu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, framkvæmdir við nýjan Landspítala, öflugri göngudeildarþjónustu, styrkingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, uppbyggingu hjúkrunarrýma og bætta geðheilbrigðisþjónustu.
    Innan málaflokksins er megináhersla á heilsugæsluna og er 650 millj. kr. hækkun framlags að raungildi til málaflokksins ætlað að styrkja hana sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni. Til að fylgja eftir geðheilbrigðisáætlun eru settar aðrar 650 millj. kr. í aukin rekstrarframlög.
    Að auki er 840 millj. kr. fjárheimild til að gera framkvæmd biðlistaaðgerða varanlega, 250 millj. kr. hækkun til að efla mönnun, 200 millj. kr. til eflingar göngudeildarþjónustu, 200 millj. kr. til að efla starfsemi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, 192 millj. kr. til sérhæfðrar sjúkraþjónustu og 151 millj. kr. til lækkunar afsláttar á húsaleigu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um auknar fjárheimildir á nokkrum málefnasviðum velferðarráðuneytis til viðbótar við verulega aukningu sem er að finna í frumvarpinu sjálfu. Tillögurnar eru ekki veigamiklar í hlutfalli við umfang málaflokksins en þá ber að hafa í huga að í frumvarpinu er lagt til að framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu auk lyfja og lækningavara aukist um samtals 4,8 milljarða kr. að raungildi milli ára. Áfram er því haldið á þeirri braut sem mörkuð var með fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
    Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, m.a. á stofum sérfræðinga, sjúkraþjálfara, tannlækna og fleiri, er mikilvægur þáttur í því fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu sem lengi hefur verið á Íslandi. Til að tryggja sem besta nýtingu fjármuna, og einnig að þjónustan sé í samræmi við þarfir, er mikilvægt að samningar um þessa þjónustu séu vel kostnaðargreindir, auk þess sem þarfir á þjónustukaupum séu áætlaðar eftir bestu upplýsingum hverju sinni. Sérstaklega er mikilvægt að þessi þjónusta standi til boða sem víðast á landinu. Nú er í gangi vinna í velferðarráðuneytinu og hjá Sjúkratryggingum Íslands við þessa samningagerð. Mikilvægt er að vel takist til svo að ekki verði hnökrar á þjónustu og að þeir sem við þessa þjónustu starfa geti gert áætlanir um starfsemi sína.
    Meiri hlutinn hvetur heilbrigðisráðherra til að kanna til hlítar kosti þess og hagkvæmni að nýta sérhæfða sjúkraþyrlu til að veita bráðaþjónustu á vettvangi, fjarri spítölum og bráðadeildum. Vísað er til niðurstaðna í þremur nýlegum skýrslum varðandi þetta mál, þar sem m.a. kemur fram það stóraukna öryggi sem mundi fylgja slíku úrræði á fjölsóttustu ferðamannastöðum á Suðurlandi. Hvatt er til þess að ráðherra beiti sér fyrir tímabundnu tilraunaverkefni á þessu sviði á grundvelli þeirra hugmynda sem ráðuneytinu hafa verið kynntar. Einnig er bent á að umfang sjúkraflugs sem gert er út frá Akureyri hefur vaxið mikið á undanförnum árum og getur komið til þess að endurmeta þurfi til hækkunar þá læknisþjónustu sem þarf til að sinna um 800 ferðum á ári.
    Starfsemi hjúkrunarheimila og önnur öldrunarþjónusta er veigamikill þáttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu hér á landi. Jafnhliða því að eldra fólki fjölgar er mikilvægt að opinberir aðilar komi fram með lausnir sem geta breytt áherslum í öldrunarþjónustu, með aukinni áherslu á dagdvalarþjónustu og „ekki stofnanaúrræði“ en úrræði með varanlegri búsetu eldra fólks á stofnunum. Stefnumörkun í því efni verður væntanlega hluti af heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í velferðarráðuneytinu.

Málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Sjúkrahúsþjónusta er umfangsmesta málefnasvið ríkisins og heildargjöldin áætluð 102 milljarðar kr. á næsta ári. Nú eru varanlegar rekstrarfjárveitingar til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri hækkaðar um 1,8% og er þá tekið mið af raunvexti vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu og öldrun þjóðarinnar. Að auki er biðlistaátak að fjárhæð 840 millj. kr. gert varanlegt. Á móti vegur reyndar aðhaldskrafa og hækkun rekstrarfjárveitinga sem nemur samtals 2,5 milljörðum kr.
    Stofnkostnaður vegna byggingar nýs Landspítala hækkar um 4,4 milljarða kr. milli ára. Áformað er að hefja jarðvegsvinnu við nýjan meðferðarkjarna á árinu.
    Meiri hlutinn bendir á nauðsyn þess að áfram sé beitt aðhaldi og hagkvæmni í rekstri þessa umfangsmesta málefnasviðs ríkisins. Viðsnúningur hefur orðið í rekstri Landspítalans en þó eru vísbendingar um að halli muni verða á rekstrinum á þessu ári, að stærstum hluta til vegna mönnunarvanda. Heilbrigðisráðherra hefur til skoðunar ýmsar aðgerðir í því skyni að tryggja mönnun til framtíðar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að brugðist verði við með skjótum og afgerandi hætti.

Málefnasvið 25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Nefndin hefur kynnt sér ítarleg gögn og átti fundi um fjárhagstöðu hjúkrunar- og endurhæfingarstofnana. Raunhækkun milli ára skýrist alfarið af áætlaðri fjölgun á hjúkrunar- og dagdvalarrýmum sem nemur rúmlega 600 millj. kr.
    Skipulag yfirstjórnar málaflokksins er flókið og óskilvirkt. Velferðarráðuneytið hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að gera þjónustusamninga við stofnanirnar innan þess fjárhagsramma sem ráðuneytið forgangsraðar í frumvarpinu. Sundurliðun fjárheimildar fyrir einstaka aðila liggur ekki fyrir fyrr en eftir samþykkt fjárlaga. Faglegt eftirlit er hjá landlæknisembættinu sem setur fram kröfulýsingu sem engan veginn rúmast innan fjárhagsrammans. Gildistími rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila rennur út um næstu áramót en heimilt er að framlengja hann ef samkomulag næst. Það er ekki í hendi. Greiningar á rekstrarlíkani stofnananna benda til þess að meiri hluti fyrirtækjanna sé rekinn með halla en hann er þó mjög mismikill án þess að greinargóðar skýringar liggi fyrir á því af hverju svo sé. Þannig verður ekki séð að hagkvæmni stærðar sé til staðar í kerfinu þar sem afkoma stærri hjúkrunarheimila er að meðaltali ekki betri en þeirra sem minni eru, en ljóst er þó að þjónustustig hjúkrunarheimila er mjög mismunandi og aðstæður misjafnar til að bæta úr því með hliðsjón af staðsetningu, stærð og fjármagni.
    Bent er á að nýrri heimilin eru að jafnaði ekki hagkvæmari einingar en þau sem eldri eru. Jafnvel er um öfugþróun að ræða í þeim efnum. Brýnt er að ráðuneytið taki öll húsnæðismál, þar á meðal viðmið um stærðir rýma, til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að stórauka hagkvæmni í rekstri málaflokksins.
    Meiri hlutinn kallar eftir því að gerð verði, sem allra fyrst, viðamikil kostnaðargreining þar sem rekstur allra hjúkrunarheimila er undir. Brýnt er að draga fram skýrar ástæður þess að afkoman er mjög mismunandi. Í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá 2012 og 2014 og eftirfylgniskýrslu árið 2015 er ítrekað bent á nauðsyn þess að skilgreina lykilupplýsingar um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila og tryggja að þær séu uppfærðar reglulega. Það hefur ekki verið gert enn sem komið er.

Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Nefndin hefur margsinnis fjallað um málefni öryrkja bæði í tengslum við fjármálaáætlun og fjárlagafrumvörp og aflað sér upplýsinga m.a. frá velferðarráðuneyti, Tryggingastofnun ríkisins og Virk, starfsendurhæfingarsjóði.
    Örorkulífeyrisþegum fjölgaði um 2.615 talsins á sex ára tímabili, eða sem nemur 17%. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að hægi á þessari þróun og miðað við árlega fjölgun um 1,9% að jafnaði fram til ársins 2030, þá leiðir það til þess að öllu óbreyttu að örorkubætur hækki úr 41 milljarði kr. nú í ár í um 90 milljarða kr. árið 2030. Heildarþróunin hérlendis er ekki einsdæmi en skoða þarf samspil bóta, endurhæfingar og atvinnuþátttöku öryrkja og sjálfsagt er að líta til reynslu og árangurs Norðurlanda á því sviði. Ástæður aukinnar örorku eru einkum geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar, auk lýðfræðilegra breytinga.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Stöplaritið sýnir hvernig útgjöld málefnasviðsins hafa þróast allt frá árinu 2010. Fram kemur raunaukning (miðað við vísitölu neysluverðs) sem sýnir að útgjöldin hafa aukist umtalsvert, sérstaklega á allra síðustu árum.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að auka sveigjanleika í kerfinu til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga með skerta starfsgetu. Á fundum nefndarinnar hafa komið fram ýmiss konar tillögur til úrbóta sem lúta m.a. að innleiðingu kerfa þar sem horft verði til getu í stað vangetu með áherslu á atvinnutengda endurhæfingu, snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu. Með slíkri nálgun er reynt að meta getu einstaklingsins til launaðra starfa, fremur en að horfa einvörðungu til læknisfræðilegrar skerðingar eins og gert er í örorkumati. Að sama skapi er varhugavert að tengja rétt til lífeyris við annan stuðning sem tengist allt öðrum þáttum eða aðstæðum einstaklings.
    Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að ekki hafa orðið grundvallarbreytingar á örorkubótakerfinu um árabil og núgildandi örorkumat byggist á staðli frá árinu 1999 sem er barn síns tíma og löngu tímabært að endurskoða kerfið frá grunni. Telur meiri hluti fjárlaganefndar mikilvægt að um leið og horft er til breytinga á matskerfinu verði staðinn vörður um hlutverk almannatryggingakerfisins sem framfærslukerfis og þar með öryggisnets þeirra sem ekki geta framfleytt sér á vinnumarkaði sökum skertrar starfsgetu.
    Vinnuhópar á vegum velferðarráðuneytisins eru að undirbúa tillögur um endurbætt örorkumatskerfi og nýtt framfærslukerfi. Ekki er þó gert ráð fyrir að nýtt heildstætt kerfi taki gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2020 þar sem stefnt er að sem víðtækastri pólitískri sátt um kerfisbreytingar.
    Nú er gert ráð fyrir 2,9 milljarða kr. viðbótarframlagi til kerfisbreytinga til að bæta kjör öryrkja vegna seinkunar á vinnu starfshóps sem fjallar um tillögur um kerfisbreytingar, auk 700 millj. kr. hækkunar til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að fjárveitingunni verði ekki ráðstafað nema sem hluta af heildstæðri áætlun. Nálgast þarf verkefni um að draga úr nýgengi einstaklinga á örorku á heildstæðan máta þar sem gerðar hafa verið breytingar sem snúa að uppbyggingu á framfærslukerfi, starfsendurhæfingarþjónustu, með fjölgun hlutastarfa og starfa sem henta fólki með skerta starfsgetu, sem og almennri breytingu á viðhorfi og vinnubrögðum í samfélaginu og meðal atvinnurekenda.

Málefnasvið 28 Málefni aldraðra.
    Meiri hlutinn bendir á að ekkert málefnasvið hækkar jafnmikið að raungildi og málefni aldraðra. Mesta hækkunin kemur í kjölfar kerfisbreytinga sem samþykktar voru árið 2016 og tóku gildi frá og með árinu 2017 þegar heildarendurskoðun bótakerfa kemur til framkvæmda. Ellilífeyrisþegar voru 36.200 talsins árið 2011 en 43.650 árið 2016, það er fjölgun um 21%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á þremur árum (frá 2016) nemur hækkunin 30,5 milljörðum kr. eða 60%. Það er langt umfram öll önnur málefnasvið. Þeim sem eru 67 ára og eldri fjölgar um tæp 7% á sama tíma og útgjöldin hækka um 60%.
    Þrátt fyrir þessa þróun hafa Félag eldri borgara og fleiri aðilar lýst yfir vonbrigðum með að bótafjárhæðir fylgi ekki almennri launaþróun. Meiri hlutinn beinir því til stjórnvalda að greina betur stöðu aldraðra og draga sérstaklega fram hverjir það eru sem búa við hvað lökust kjör og aðgerðir ættu að beinast að þeim hópi sem lakast stendur. Þá mætti líta sérstaklega til þeirra sem eru í neðstu tveimur tekjutíundunum fremur en að láta breytingar ganga upp eftir öllum tekjuskalanum. Nú eiga um 35.500 manns virk réttindi til ellilífeyris hjá Tryggingastofnun en af þeim eru innan við 900 manns eða 2,4% sem hafa nánast engar tekjur fyrir utan ellilífeyri almannatrygginga. Að mati meiri hluta nefndarinnar ætti að setja hækkun til þessa hóps í algeran forgang. Starfshópur á vegum ráðherra vinnur nú að því að greina stöðuna og leggur meiri hlutinn áherslu á að niðurstöður og tillögur hópsins liggi fyrir við endurskoðun fjármálaáætlunar.

Málefnasvið 29 Fjölskyldumál.
    Framlög til málefnasviðsins endurspegla forgangsröðun fjölskyldumála í fjárlagafrumvarpi. Aukning að raungildi nemur 4,6 milljörðum kr. sem eru 14% og því hlutfallslega þriðja mesta hækkun málefnasviðs á milli ára. Mest munar um 1,6 milljarða kr. hækkun barnabóta sem eru hækkaðar sérstaklega til að styðja við tekjulægri fjölskyldur. Bæði er um að ræða hækkun fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta. Fjárheimild Fæðingarorlofssjóðs er aukin samtals um 2,2 milljarða kr. og munar þar mest um hækkun hámarksgreiðslna foreldra í fæðingarorlofi upp í 600 þús. kr. á mánuði en einnig er áætlað fyrir hækkun framlags í lífeyrissjóði upp í 11,5%.
    Þá eru veittar 200 millj. kr. til snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna og aðgerða í þágu efnalítilla barnafjölskyldna.

Málefnasvið 33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
    Vaxtagjöld og lífeyrisskuldbindingar vegna B-hluta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru yfirgnæfandi hluti málefnasviðsins. Samhliða þeim árangri sem náðst hefur í lækkun skulda á síðastliðnum árum er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin lækki um rúma 10 milljarða kr. á milli ára. Á móti vegur að lífeyrisskuldbindingar hækka um 27 milljarða kr. en um 20 milljarðar kr. af þeirri hækkun skýrast af breyttu reikningshaldi í samræmi við IPSAS-reikningsskilastaðal.
    Vaxtagjöld innlendra lána lækka um 9,7 milljarða kr. en vaxtagjöld af erlendum lánum lækka lítillega. Raunaukning lífeyrisskuldbindinga nemur um 7 milljörðum kr. að frátöldum reikningshaldslegum breytingum.


Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.
    Gert er ráð fyrir 500 millj. kr. tímabundinni lækkun vegna breyttra forsendna frá fjárlagafrumvarpi 2019. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að fjárheimildir 2018 verði ekki að fullu nýttar og að þær færist yfir á árið 2019 ásamt öðru ónýttu fjármagni. Þetta mun því ekki hafa áhrif á framkvæmdir.
    Gert er ráð fyrir að veitt verði 96 millj. kr. framlag til verkefnis sem snýr að því að ráða aðstoðarmenn þingflokka. Stefnt er að því að á næstu þremur árum, 2019–2021, fái þingflokkarnir 17 stöður aðstoðarmanna. Þessi útfærsla og útgjöld vegna hennar lágu ekki fyrir við vinnslu fjármálaáætlunar 2019–2023 en vilyrði var gefið fyrir því að kostnaður vegna ársins 2019 yrði fjármagnaður með millifærslu fjármuna af framkvæmdafé til nýbyggingar Alþingis en taka þarf þessi mál til ítarlegri skoðunar fyrir fjármálaáætlun 2020–2024.
    Gert er ráð fyrir að veitt verði 10 millj. kr. framlag til samstarfsverkefnis Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Forsaga málsins er sú að 17. júlí sl. samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 31/148 um verkefnið. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að kostnaðurinn muni nema um 25–30 millj. kr. og að skipta megi honum á þrjú ár, 2019–2021.
    Gert er ráð fyrir að veitt verði 10 millj. kr. framlag vegna heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi á árunum 2018–2021. Forsaga málsins er sú að 22. febrúar sl. var undirritað samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og WPL, Women Political Leaders, Global Forum um að efna til heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi á árunum 2018–2021. Samkomulagið var undirritað af forsætisráðherra, forseta Alþingis og stofnanda WPL, Global Forum. Forsætisráðuneyti og Alþingi munu hvort um sig leggja til 10 millj. kr. árlega næstu þrjú árin, 2019–2021.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 20 millj. kr.
    Endurmat launa- gengis og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,8 millj. kr.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 9,7 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,9 millj. kr.

02 Dómstólar.
02.10 Hæstiréttur.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,5 millj. kr.

02.20 Héraðsdómstólar.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,9 millj. kr.

02.30 Landsréttur.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,7 millj. kr.

02.40 Dómstólasýslan.
    Gerð er tillaga um 1 millj. kr. hækkun framlags sem millifærist frá sameiginlegri stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis. Framlaginu er ætlað að mæta kostnaði Dómarafélagsins við alþjóðasamstarf og endurmenntun dómara.
    Gerð er tillaga um 81,6 millj. kr. leiðréttingu á tegundaskiptingu milli launa og annarra gjalda.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,1 millj. kr.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.10 Embætti forseta Íslands.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 3,2 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

03.20 Ríkisstjórn.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

03.30 Forsætisráðuneyti.
    Gert er ráð fyrir 200 millj. kr. tímabundinni lækkun vegna breyttra forsendna frá fjárlagafrumvarpinu.
    Gert er ráð fyrir að veitt verði 10 millj. kr. tímabundið framlag til heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi á árunum 2018–2021. Forsaga málsins er sú að 22. febrúar sl. var undirritað samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands, Alþingis og WPL, Women Political Leaders, Global Forum um að efna til heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi á árunum 2018–2021. Samkomulagið var undirritað af forsætisráðherra, forseta Alþingis og stofnanda WPL, Global Forum. Forsætisráðuneyti og Alþingi munu hvort um sig leggja til 10 millj. kr. árlega næstu þrjú árin, 2019–2021.
    Gert er ráð fyrir um 17,5 millj. kr. lækkun framlags til reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Til að fylgja eftir áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um aukið gagnsæi og eflingu trausts er lagt til að starfsemi úrskurðarnefndar um upplýsingamál verði efld og hækkar framlagið því um 15,5, millj. kr.
    Gerð er tillaga um varanlegan tilflutning á 5,5 millj. kr. af lið 09-990-110 ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar á lið 01-190-190 til að standa straum af kostnaði við árlegan Stjórnarráðsdag.
    Gerð er tillaga um breytta tegundaskiptingu fjárveitingar og eru 36 millj. kr. færðar af launum yfir á önnur gjöld í samræmi við þróun útgjalda á fjárlagaliðnum.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 11,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,1 millj. kr.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Lagt er til 65 millj. kr. tímabundið framlag til eins árs vegna setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Hinn 26. júní sl. tók ríkisstjórnin ákvörðun um að Ísland byði sig fram til setu í mannréttindaráði og var Ísland kjörið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. júlí sl. Frá kjöri var ljóst að nokkur kostnaður mundi falla til vegna verkefnisins sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum 2018 árs né í fjármálaáætlun 2019–2023. Styrkja þarf fastanefnd Íslands í Genf tímabundið ásamt því að styrkja fyrirsvar utanríkisráðuneytisins í mannréttindamálum. Á því 18 mánaða tímabili sem um ræðir er áætlað að útgjöld vegna verkefnisins verði 95 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir 30 millj. kr. árið 2018 og 65 millj. kr. árið 2019.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 141,5 millj. kr.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Lagt er til að hagræn skipting fjárheimildar málaflokksins verði færð að skiptingu útgjalda í bókhaldi með flutningi á 1.590 millj. kr. úr rekstrartilfærslu í rekstrarframlög (önnur gjöld). Rekstrarframlög málaflokksins hækka því um 1.590 millj. kr. og verða 2.162,8 millj. kr. og rekstrartilfærslur lækka að sama skapi og verða 15,3 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 6,6 millj. kr.

04.40 Þróunarsamvinna.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 79,6 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 20,9 millj. kr.

04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs.
    Lagt er til að fjárframlag til NATO verði hækkað um 12,5 millj. kr. Í janúar 2018 tók gildi ný kostnaðarskipting milli bandalagsríkjanna þar sem hlutdeild Íslands hækkaði úr 0,0519% í 0,0597%. Þessar breytingar eiga rætur í bættum efnahag á Íslandi. Útgjöld bandalagsins vegna ársins 2019 eru enn til umræðu í fjárlaganefnd og byggist kostnaðarútreikningur Íslands á síðustu drögum fjárhagsáætlunar bandalagsins til næstu ára, MTRP (e. Medium Term Resource Plan). Heildarframlög Íslands til NATO eru áætluð 1.441.000 evrur eða 179,3 millj. kr. miðað við gengi fjárlaga 2019. Í fjárlagafrumvarpinu var stuðst við eldri áætlun og gert var ráð fyrir 166,8 millj. kr. framlagi til NATO. Hækkun aðildargjalda nemur 12,9 millj. kr. eða sem nemur 103.968 evrum.
    Lagt er til að framlag til OECD hækki um 20,6 millj. kr. en aðildargjaldið hækkar úr 1.108.000 evrum árið 2018 í 1.274.000 evrur árið 2019, eða um 166.000 evrur, eða sem nemur 20,6 millj. kr. Stafar þetta m.a. af bættu efnahagsástandi hér á landi.
    Lögð er til 6 millj. kr. lækkun á framlagi til ÖSE í samræmi við áætlun um framlög til stofnunarinnar fyrir árið 2019.
    Lögð er til 14 millj. kr. hækkun á framlagi til stofnana EFTA í samræmi við áætlun fyrir árið 2019, en gert er ráð fyrir 110.000 evra hækkun frá árinu 2018, úr 1.247.038 evrum í 1.357.137 evrur. Miðað við gengi fjárlaga 2019 er þetta 14 millj. kr. hækkun.
    Lögð er til 9,1 millj. kr. lækkun á framlagi til Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) í samræmi við áætlun fyrir árið 2019.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 150,4 millj. kr.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Lagt er til að veitt verði 75 millj. kr. framlag til að styrkja rekstur ríkisskattstjóra. Undanfarin ár hafa ríkisskattstjóra verið falin aukin verkefni og viðameira hlutverk. Mörg þessara verkefna voru í fyrstu talin minni og afmörkuð í tíma en hafa reynst stærri og yfirgripsmeiri og hefur fjármögnun því ekki verið tryggð frá upphafi. Sem dæmi um verkefni sem hafa reynst embættinu kostnaðarsöm eru:
          Fyrsta íbúð og nýting séreignarsparnaðar.
          Ný eining um milliverðlagningu.
          CTS (Common Transmission System).
    Fram til þessa hefur embættið átt uppsafnaðan höfuðstól sem hægt hefur verið að nýta í þróunarverkefni og ný verkefni en nú er útlit fyrir að höfuðstóllinn verði uppurinn og er embættið rekið með halla. Mikilvægt er að rekstrargrundvöllur stofnunarinnar sé traustur svo að hún geti sinnt hlutverki sínu við álagningu og eftirlit. Auk þess verði áfram þróaðar nýjar lausnir til að takast á við nýjar áskoranir við úrlausn verkefna til að tryggja tekjuöflun fyrir hið opinbera.
    Lagt er til að veitt verði 48 millj. kr. framlag til ríkisskattstjóra vegna aukins kostnaðar hjá embættinu við verkefni sem verða lögbundin verkefni ríkisskattstjóra verði frumvarp til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka samþykkt óbreytt. Um er að ræða þrjú ný stöðugildi hjá embætti ríkisskattstjóra. Markmið frumvarpsins er m.a. að draga úr hættu á að lögmæt starfsemi sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og standa þannig vörð um trúverðugleika og traust á fjármálamarkaðinn sem er undirstaða heilbrigðs atvinnulífs.
    Lagt er til að veitt verði tímabundið 35,6 millj. kr. framlag til ríkisskattstjóra vegna aukins kostnaðar hjá embættinu við verkefni sem verða lögbundin verkefni ríkisskattstjóra verði frumvarp til laga um veiðigjald samþykkt óbreytt. Um er að ræða tímabundinn stofnkostnað við þróun upplýsingamiðlunar (áritunar gagna) frá Fiskistofu og gerð reiknigrunns.
    Einnig er gert ráð fyrir að samtals verði fluttar 19,9 millj. kr. af fjárlagaliðum 04-190-110 (16,4 millj. kr.) og 04-982-110 (3,5 millj. kr.) á fjárlagalið embættis ríkisskattstjóra vegna kostnaðar hjá embættinu við verkefni sem verða lögbundin verkefni ríkisskattstjóra verði fyrrnefnt frumvarp til laga um veiðigjald samþykkt óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að verkefni sem embætti ríkisskattstjóra hefur sinnt samkvæmt þjónustusamningi við framkvæmd núgildandi laga verði lögbundin verkefni embættisins. Auk þess er gert ráð fyrir að embættið axli aukna ábyrgð af ákvörðunum og birtingu gjaldstofns veiðigjalds hvers árs og taki með því við hluta af verkefnum veiðigjaldsnefndar sem lögð verður niður. Ekki verði því gerður þjónustusamningur eins og áður heldur verði um að ræða lögbundið verkefni embættisins.
    Aukinn rekstrarkostnaður verður hjá ríkisskattstjóra ef frumvarp um raunverulega eigendur nær fram að ganga og er lagt til 20 millj. kr. framlag vegna þess. Jafnframt er gerð tillaga um 15 millj. kr. framlag vegna aukins stofnkostnaðar. Um er að ræða mál vegna innleiðingar á hluta fjórðu peningaþvættistilskipunar ESB og viðbrögð við úttekt FATF.
    Endurmat launaforsendna vegna úrskurðar kjararáðs 2018.4.001 fyrir yfirskattanefnd nemur 1,8 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 69,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 18,4 millj. kr.

05.20 Eignaumsýsla ríkisins.
    Vegna mistaka voru rekstrartekjur Ríkiseigna ofskráðar um 0,5 millj. kr. við gerð fjárlagafrumvarpsins. Það er hér með leiðrétt.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 7,2 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 21,9 millj. kr.

05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
    Gert er ráð fyrir að rekstur og eignarhald allra ráðherrabifreiða verði í höndum miðlægrar þjónustueiningar innan Rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Hvert ráðuneyti millifærir því vegna þessa rekstrarkostnað bifreiðanna sem byggist að mestu leyti á því að ráðningarsamband bílstjóra flyst til þessarar miðlægu þjónustueiningar (09-980-611). Fjárhæðin nemur alls 176,3 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 29,2 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14,1 millj. kr.

05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags til reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist yfir á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Lagt er til að millifært verði 14 millj. kr. framlag til Hagstofu Íslands vegna samkomulags fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofunnar um samstarf við gerð þjóðhagsspár og efnahagslegra sviðsmyndagreininga. Um er að ræða samstarf við undirbúning spágerðar Hagstofunnar annars vegar og undirbúning fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga hins vegar.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 27,6 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 8,9 millj. kr.

06 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Gert er ráð fyrir að 14 millj. kr. verði fluttar tímabundið til Hagstofu Íslands vegna samkomulags fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofunnar um samstarf við gerð þjóðhagsspár og efnahagslegra sviðsmyndagreininga. Um er að ræða samstarf við undirbúning spágerðar Hagstofu Íslands annars vegar og undirbúning fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlaga hins vegar.
    Breyttar forsendur eru vegna aukinna sérfræðiverkefna á næsta ári, m.a. fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Því er gerð tillaga um að 52 millj. kr. verða færðar af launum á önnur gjöld.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 35,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 8,1 millj. kr.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 146,6 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 200,7 millj. kr.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Gert er ráð fyrir að framlag til Hönnunarmiðstöðvar Íslands verði hækkað um 25 millj. kr. tímabundið í eitt ár meðan unnið er að útfærslu hönnunarstefnu. Hönnunarmiðstöð hefur verið rekin á framlögum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti samkvæmt samningi þeirra við Hönnunarmiðstöð.
    Lögð er til 1.000 millj. kr. hækkun á framlagi í samræmi við áætlun um útborganlegan skattfrádrátt vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna samkvæmt lögum um nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Áætlað er að þessi skattfrádráttur muni nema um 3,3 milljörðum kr. á árinu 2019 vegna rekstrarársins 2018.
    Gert er ráð fyrir að 97 millj. kr. verði skráðar sem tilfærslur í stað þess að vera skráðar sem önnur gjöld í samræmi við uppfærða áætlun fyrir fjárlagaliðinn. Breytingin nemur því 97 millj. kr. til leiðréttingar á hagrænu skiptingunni.
    Gert er ráð fyrir að 7,2 millj. kr. verði skráðar sem tilfærslur í stað þess að vera skráðar sem önnur gjöld í samræmi við uppfærða áætlun fyrir fjárlagaliðinn. Í henni er gert ráð fyrir að ekki verði kostnaður vegna sérfræðiþjónustu á árinu heldur að öll fjárheimildin verði nýtt í tilfærslur. Breytingin nemur því 7,2 millj. kr. til leiðréttingar á hagrænu skiptingunni.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 74,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,1 millj. kr.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Gerð er tillaga um að fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækki um 131 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðið framlag í sjóðinn af skatttekjum ársins 2019 og útsvarsstofni árið 2018. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 1.126 millj. kr. hækkun á framlaginu frá fjárlögum fyrir árið 2018 og verður hækkunin því alls 1.257 millj. kr. Spáin miðast við að innheimtar skatttekjur verði 787.034 millj. kr. árið 2019 og að útsvarsstofn ársins 2018 verði 1.547.000 millj. kr. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru lögbundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ákvörðuð með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi er 16.614 millj. kr. framlag úr ríkissjóði sem er 2,111% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Í öðru lagi er 4.084 millj. kr. framlag sem er 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að lögbundin framlög til sjóðsins verði samtals 20.698 millj. kr. árið 2019.

08.20 Byggðamál.
    Gerð er tillaga um breytingu á tegundaskiptingu gjalda þar sem aðkeypt þjónusta er áætluð 40 millj. kr. en ekki 80,8 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 17,4 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gert er ráð fyrir 64 millj. kr. hækkun á framlagi til að fjölga stöðugildum um fjögur til að styrkja rannsóknir og saksókn lögreglu svo að tryggja megi haldlagningu og upptöku fjárhagslegs ávinnings af auðgunarbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi. Aðgerðin er liður í nauðsynlegri fjármögnun vegna nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og til að standa þannig vörð um trúverðugleika, stöðugleika og orðspor fjármálamarkaðarins. Varanlegur heildarkostnaður er áætlaður 214 millj. kr. þegar lögin verða að fullu komin til framkvæmda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 70 millj. kr. til að mæta kostnaði við tvö stöðugildi peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara og tvö stöðugildi í greiningardeild ríkislögreglustjóra, auk rekstursá upplýsingakerfum. Þá er gert ráð fyrir 64 millj. kr. til að mæta kostnaði við þrjú stöðugildi sérfræðinga hjá ríkisskattstjóra og stöðugildi sérfræðings á aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins auk áðurnefndra stöðugilda.
    Gert er ráð fyrir 14,6 millj. kr. framlagi um sem nemur einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í kynferðisbrotamálum og er framlagið millifært af fjárlagalið 06-390 Ýmis löggæslu- og öryggismál.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 39 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 33,5 millj. kr.

09.20 Landhelgi.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 96,2 millj. kr.

09.30 Ákæruvald og réttarvarsla.
    Gerð er 21 millj. kr. tillaga til leiðréttingar á breyttri tegundaskiptingu sem talin var til fjárfestingarframlags en fellur undir rekstur. Breytingin snýr að endurnýjun hugbúnaðar til móttöku og utanumhalds peningaþvættistilkynninga.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 5,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,2 millj. kr.

09.40 Réttaraðstoð og bætur.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 53 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,4 millj. kr.

09.50 Fullnustumál.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,7 millj. kr.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.10 Persónuvernd.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 2,6 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,5 millj. kr.

10.20 Trúmál.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til Kirkjugarðasambands Íslands sem hefur glímt við vaxandi rekstrarvanda.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 41,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 19,6 millj. kr.

10.30 Sýslumenn.
    Gert er ráð fyrir 34,3 millj. kr. tímabundnu framlagi sem fjármagnað er með sértekjum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu samkvæmt sérstöku samkomulagi milli þess og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Framlaginu er ætlað að standa undir hluta af 12 mánaða átaki til að efla eftirlit með skammtímaleigu, „heimagistingarvakt“, sem hófst í ágúst 2018. Markmið verkefnisins er að tryggja virkt eftirlit með skammtímaleigu einstaklinga í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
    Gert er ráð fyrir 40 millj. kr. hækkun á framlagi til að mæta kostnaði við innleiðingu frumvarps til laga um breytingar á þinglýsingalögum (rafrænar þinglýsingar). Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði samhliða hinni venjubundnu þinglýsingu á skjali að þinglýsa veðréttindum með rafrænni færslu. Innleiðing rafrænna þinglýsinga er mikilvægt skref í uppbyggingu innviða samfélagsins og upptöku stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Til lengri tíma litið mun þetta fyrirkomulag leiða af sér hagræðingu í rekstri sýslumannsembættanna sem og hjá fjármálastofnunum og fleiri aðilum. Gera verður ráð fyrir nokkrum upphafskostnaði við slíka breytingu ef vel á að takast til við innleiðinguna. Tímabundinn heildarkostnaður við innleiðingu frumvarpsins, verði það óbreytt að lögum, er áætlaður 50 millj. kr. og er af tvennum toga. Annars vegar þarf að ljúka nauðsynlegri tæknivinnu upplýsingakerfis sem Þjóðskrá hefur unnið að síðustu missirin, koma upp þjónustugátt og hanna útlit á vefsíðum og er kostnaður við verkþættina áætlaður 29 millj. kr. Hins vegar er kostnaður við verkstjórn sem áætlaður er 21 millj. kr. Áætlað er að 10 millj. kr. framlag komi frá íslenska upplýsingasamfélaginu.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 23,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 5,8 millj. kr.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist yfir á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Gert er ráð fyrir 16 millj. kr. hækkun á framlagi til ráðningar starfsmanns til að halda utan um og sinna málefnum stýrihóps og vinna að öðrum verkefnum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Aðgerðin er liður í nauðsynlegri fjármögnun vegna nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og og með því standa vörð um trúverðugleika, stöðugleika og orðspor fjármálamarkaðarins. Varanlegur heildarkostnaður er áætlaður 214 millj. kr. þegar lögin verða að fullu komin til framkvæmda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 70 millj. kr. til að mæta kostnaði við tvö stöðugildi peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara og tvö stöðugildi í greiningardeild ríkislögreglustjóra, auk rekstursá upplýsingakerfum. Þá er gert ráð fyrir 128 millj. kr. til að mæta kostnaði við þrjú stöðugildi sérfræðinga hjá ríkisskattstjóra og fjögur stöðugildi sérfræðinga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu auk kostnaðar við fyrstnefnda stöðugildið.
    Gerð er tillaga um 1 millj. kr. lækkun framlags sem millifærist yfir á dómstólasýsluna. Framlaginu er ætlað að mæta kostnaði Dómarafélagsins við alþjóðasamstarf og endurmenntun dómara.
    Launaendurmat 2018 vegna fyrri hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til lækkunar um 0,8 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 3,3 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 11,1 millj. kr.

10.50 Útlendingamál.
    Lagt er til að 135 millj. kr. framlag verði millifært frá Útlendingastofnun á fjárlagalið 06-399 Hælisleitendur. Með tilfærslunni munu 13 starfsmenn sem starfa á verndarsviði taka laun af hælisliðnum og þar með yrði allur kostnaður vegna umsókna um alþjóðlega vernd á einum fjárlagalið en ekki tveimur ólíkum.
    Lögð er til 29,2 millj. kr. hækkun á framlagi til að mæta auknum kostnaði við flýtimeðferð dvalar- og atvinnuleyfa. Tillagan byggist á 53. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, en í kostnaðarmati frumvarpsins var gert ráð fyrir að andvirði teknanna færi til Útlendingastofnunar. Tillagan gerir þó ráð fyrir að gjaldið renni í ríkissjóð en stofnunin fái útgjaldaheimild sem nemur þremur stöðugildum til að mæta kostnaði við öflun teknanna.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 57,7 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 12,1 millj. kr.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Gerð er tillaga um 400 millj. kr. tímabundna lækkun hjá Vegagerðinni vegna breyttra forsendna frá fjárlagafrumvarpinu.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu tegundaskiptingar vegna fjárfestinga hjá Samgöngustofu, 25 millj. kr. færast af öðrum gjöldum á eignakaup vegna breyttra forsendna.
    Gerð er tillaga um breytta tegundaskiptingu vegna áætlunar um bílakaup, 3,4 millj. kr. færast af eignakaupum á önnur gjöld vegna breyttra forsendna.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 153,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 21,6 millj. kr.

11.20 Fjarskipti.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 18,8 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

11.30 Stjórnsýsla samgönguráðuneytis.
    Gerð er tillaga um breytingu á tegundasundurliðun hjá aðalskrifstofu ráðuneytisins. Um er að ræða þjónustu skrifstofunnar við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Formlegur samningur var undirritaður við sjóðinn á árinu 2018 sem kveður á um þjónustu við sjóðinn og er gert ráð fyrir áframhaldandi þjónustu á árinu 2019.
    Gerð er tillaga um breytingu á tegundasundurliðun hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið ráðgerir að nýta í auknum mæli vinnu starfsmanna ráðuneytisins í verkefni sem tengjast áherslumálum ráðherra, en þau voru áður keypt frá ráðgjafarfyrirtækjum. Um er að ræða nýráðningar allt að tveggja sérfræðinga sem verða kostuð af liðnum.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist yfir á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Launaendurmat 2018 vegna fyrri hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til hækkunar um 0,8 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 1,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,8 millj. kr.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Gerð er tillaga um að forgangsraða 9,6 millj. kr. til Matvælastofnunar vegna hlutdeildar stofnunarinnar í húsnæði að Dalshrauni í Hafnarfirði. Í kjölfar athugunar Framkvæmdasýslu ríkisins á húsnæðismálum stofnananna var ákveðið að flytja starfsstöðvar Matvælastofnunar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem leigusamningar voru að renna út, í húsnæði Fiskistofu í Hafnarfirði. Fiskistofa mun greiða húsaleigu og sameiginlegan kostnað við rekstur húsnæðisins og Matvælastofnun endurgreiðir Fiskistofu í samræmi við hlutdeild stofnananna í húsnæðinu og samning þar um. Húsnæðiskostnaður Matvælastofnunar hækkar enda er stofnunin komin í stærra og hentugra húsnæði. Ráðuneytið forgangsraðar 9,6 millj. kr. til Matvælastofnunar vegna hærra fermetraverðs á nýjum stað en Matvælastofnun mætir kostnaði við aukinn fermetrafjölda, í samræmi við þarfagreiningu Matvælastofnunar og Framkvæmdasýslu ríkisins, með forgangsröðun hjá sér.
    Gert er ráð fyrir að 1,8 millj. kr. verði skráðar sem önnur gjöld í stað þess að vera skráðar sem tilfærslur og að tilfærslur Matvælastofnunar verði þannig 0,2 millj. kr. í stað 2,0 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2019. Undanfarin ár hefur kostnaður stofnunarinnar vegna tilfærslna verið um 0,2 millj. kr. og því talið rétt að leiðrétta umfangið í fjárlögum til samræmis við rauntölurnar.
    Gert er ráð fyrir að 15 millj. kr. verði fluttar til Matvælastofnunar af fjárlagalið 04-981 Ýmis framlög í landbúnaði vegna innleiðingar og umsjónar með frammistöðuflokkun í samræmi við breytingar á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem samþykkt var á Alþingi í maí 2018. Ráðinn verður starfsmaður vegna verkefnisins auk þess sem kaupa þarf vinnu vegna kerfisþróunar, viðhalds og þess háttar.
    Gert er ráð fyrir að 172 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið 04-811 Búnaðarlagasamningur á fjárlagalið 09-381 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun í samræmi við samning Bændasamtaka Íslands, fjármála- og efnahagsráherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samningurinn lýtur að skiptingu samningsaðila á ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum sem myndast hafa eða munu myndast í B-deild LSR vegna starfsemi Bændasamtaka Íslands sem fjármögnuð er með framlagi úr ríkissjóði á grundvelli rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Samkomulag er um að ríkissjóður taki yfir og ábyrgist áfallnar lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skv. 32. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, miðað við stöðu þeirra samkvæmt tryggingafræðilegu mati 31. desember 2018. Þá færist ábyrgð á greiðslu hækkana sem verða á áður úrskurðuðum lífeyri, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997, um LSR, frá Bændasamtökum Íslands til ríkissjóðs frá og með 1. janúar 2019. Framlög samkvæmt rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins munu lækka frá og með árinu 2019 þar sem ábyrgð á greiðslu lífeyrishækkana vegna skuldbindinga þeirra sem samningurinn tekur til færist til ríkissjóðs.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 17,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 59,6 millj. kr.

12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gerð er tillaga um að millifæra 9,6 millj. kr. til Matvælastofnunar vegna hlutdeildar stofnunarinnar í húsnæði að Dalshrauni í Hafnarfirði. Í kjölfar athugunar Framkvæmdasýslu ríkisins á húsnæðismálum stofnananna var ákveðið að flytja starfsstöðvar Matvælastofnunar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem leigusamningar voru að renna út, í húsnæði Fiskistofu í Hafnarfirði. Fiskistofa mun greiða húsaleigu og sameiginlegan kostnað við rekstur húsnæðisins og Matvælastofnun endurgreiðir Fiskistofu í samræmi við hlutdeild stofnananna í húsnæðinu og samning þar um. Húsnæðiskostnaður Matvælastofnunar hækkar enda er stofnunin komin í stærra og hentugra húsnæði. Ráðuneytið forgangsraðar 9,6 millj. kr. til Matvælastofnunar vegna hærra fermetraverðs á nýjum stað en Matvælastofnun mætir kostnaði við aukinn fermetrafjölda, í samræmi við þarfagreiningu Matvælastofnunar og Framkvæmdasýslu ríkisins, með forgangsröðun hjá sér.
    Gerð er tillaga um breytingu á tegundaskiptingu á lið ýmissa framlaga í landbúnaði þannig að 14 millj. kr. verði fluttar af öðrum gjöldum á laun í samræmi við rauntegundaskiptingu fjárlagaliðarins.
    Gerð er tillaga um að 15 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið 04-981 Ýmis framlög í landbúnaði til Matvælastofnunar vegna innleiðingar og umsjónar með frammistöðuflokkun í samræmi við breytingar á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem samþykkt var á Alþingi í maí 2018. Ráðinn verður starfsmaður vegna verkefnisins auk þess sem kaupa þarf vinnu vegna kerfisþróunar, viðhalds og þess háttar.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 1,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,4 millj. kr.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Lagt er til að 42 millj. kr. verði skráðar sem tilfærslur í stað þess að vera skráðar sem önnur gjöld í samræmi við meðferð gjaldanna í bókhaldi en þar eru aðildargjöld og þess háttar vegna alþjóðlegs samstarfs færð á tegundir sem falla undir tilfærslur.
    Lagt er til að 5,5 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið 04-982 Ýmis framlög í sjávarútvegi á fjárlagalið 04-845 Alþjóðlegt samstarf í sjávarútvegi vegna kostnaðar við viðbótarsamning við ICES, International Council for the Exploration of the Sea. Undanfarin ár hafa átt sér stað viðræður milli ICES annars vegar og ráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar hins vegar um svokallað MoU (Memorandum of Understanding), sem er formlegur samstarfssamningur milli aðila sem felur í sér ákveðin réttindi, en jafnframt kemur til aukinn kostnaður sem þyrfti að greiða.
    Bæði ESB og Noregur hafa slíkt MoU og Noregur hefur hvatt íslensk stjórnvöld til þess að gera eins.
    MoU við ICES fæli í sér að:
          það mundi almennt tryggja betri þjónustu ICES við Ísland á grundvelli samnings,
          ekki þyrfti að greiða sérstaklega fyrir mat á nýjum aflareglum eða endurskoðun eldri reglna á þeim stofnum sem taldir eru upp í MoU,
          það mundi styrkja valdahlutföll Íslands og Noregs innan ICES þar sem ESB er óneitanlega ríkjandi afl.
    Árlegan kostnað má áætla 5–6 millj. kr. sem fer þó eftir því hvernig til tekst í samningum við ICES.
    Gert er ráð fyrir að tekjur Fiskistofu hækki um 37,2 millj. kr. á árinu 2019 vegna hlutdeildar Matvælastofnunar í húsnæði að Dalshrauni í Hafnarfirði. Í kjölfar yfirferðar Framkvæmdasýslu ríkisins á húsnæðismálum stofnananna var ákveðið að flytja starfsstöðvar Matvælastofnunar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem leigusamningar voru að renna út, í húsnæði Fiskistofu í Hafnarfirði. Fiskistofa mun greiða húsaleigu og sameiginlegan kostnað við rekstur húsnæðisins og Matvælastofnun endurgreiðir Fiskistofu í samræmi við hlutdeild stofnananna í húsnæðinu og samning þar um.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 10,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 5,7 millj. kr.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um 300 millj. kr. framlag til hönnunar og undirbúnings smíði hafrannsóknaskips í samræmi við ályktun Alþingis á hátíðarfundi á Þingvöllum 18. júlí 2018 í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Þingsályktunartillagan var undirbúin af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eigi á Alþingi og kveður ályktunin á um smíði hafrannsóknaskips sem kemur til með að efla rannsóknir í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland. Smíðina skyldi fjármagna með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019–2021, og voru 300 millj. kr. áætlaðar til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019. Vinnu við talnabálk frumvarps til fjárlaga lauk í júní 2018, áður en þingsályktunartillagan var lögð fram.
    Lagt er til að 5,5 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið 04-982 Ýmis framlög í sjávarútvegi á fjárlagalið 04-845 Alþjóðlegt samstarf í sjávarútvegi vegna kostnaðar við viðbótarsamning við ICES, International Council for the Exploration of the Sea, sbr. skýringu við 13.10.
    Lagt er til að fluttar verði samtals 19,9 millj. kr. af fjárlagaliðum 04-190-110 og 04-982-110 á fjárlagalið embættis ríkisskattstjóra, 09-210, vegna kostnaðar hjá embættinu við verkefni sem verða lögbundin verkefni þess verði frumvarp til laga um veiðigjald samþykkt óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að verkefni sem embætti ríkisskattstjóra hefur sinnt samkvæmt þjónustusamningi við framkvæmd núgildandi laga verði lögbundin verkefni embættisins auk þess sem gert er ráð fyrir að embættið axli aukna ábyrgð á ákvörðunum og birtingu gjaldstofns veiðigjalds hvers árs en embættið taki með því við hluta af verkefnum veiðigjaldsnefndar sem verður lögð niður. Ekki verði gerður þjónustusamningur eins og áður heldur verði um að ræða lögbundið verkefni embættisins, enda um skattákvörðun að ræða. Embættið hefur lagt mat á kostnað sinn af þessum verkefnum í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Fiskistofu sem þekkir til vinnunnar. Árlegur rekstrarkostnaður, einkum vegna söfnunar og vinnslu upplýsinga úr skattframtölum vegna útreiknings veiðigjalds, er áætlaður 19,9 millj. kr. frá og með árinu 2019.
    Gert er ráð fyrir að tekjuáætlun Hafrannsóknastofnunar lækki um 250 millj. kr. og þess í stað komi til 250 millj. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs til stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun hefur fengið styrki úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Framlagi ríkissjóðs til Hafrannsóknastofnunar verður ráðstafað í sambærileg verkefni og styrkveitingum Verkefnasjóðs sjávarútvegsins hefur verið ráðstafað til, þ.e. til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 42,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 12,9 millj. kr.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Gert er ráð fyrir 50 millj. kr. tímabundinni lækkun vegna breyttra forsendna frá fjárlagafrumvarpinu.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 21,0 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 12,2 millj. kr.

15 Orkumál.
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    Gert er ráð fyrir að 22 millj. kr. verði skráðar sem önnur gjöld í stað þess að vera skráðar sem tilfærslur í samræmi við uppfærða áætlun fyrir fjárlagaliðinn Niðurgreiðslur á húshitun og dreifingu raforku.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 7 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 11 millj. kr.

16 Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Gert er ráð fyrir millifærslu fjárveitingar að fjárhæð 9 millj. kr. af fjárlagalið velferðarráðuneytisins, 08-500-110, á fjárlagalið Neytendastofu, 04-238-101, sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, vegna eftirlits Neytendastofu með framkvæmd laga nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Fjárveitingin skiptist með eftirfarandi hætti: Laun 7,9 millj. kr. og önnur gjöld 1,1 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 2,4 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,5 millj. kr.

16.20 Stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar.
    Gerð er tillaga um 18,7 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Gerð er tillaga um að 1,1 millj. kr. verði skráð sem tilfærsla í stað þess að vera skráð sem önnur gjöld hjá aðalskrifstofu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í samræmi við uppfærða áætlun ráðuneytisins. Breytingin nemur því 1,1 millj. kr. til leiðréttingar á hagrænu skiptingunni.
    Lagt er til að fluttar verði samtals 19,9 millj. kr. af fjárlagaliðum 04-190-110 og 04-982-110 á fjárlagalið embættis ríkisskattstjóra, 09-210, vegna kostnaðar hjá embættinu við verkefni sem verða lögbundin verkefni þess verði frumvarp til laga um veiðigjald samþykkt óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að verkefni sem embætti ríkisskattstjóra hefur sinnt samkvæmt þjónustusamningi við framkvæmd núgildandi laga verði lögbundin verkefni embættisins auk þess sem gert er ráð fyrir að embættið axli aukna ábyrgð á ákvörðunum og birtingu gjaldstofns veiðigjalds hvers árs en embættið taki með því við hluta af verkefnum veiðigjaldsnefndar sem verður lögð niður. Ekki verði gerður þjónustusamningur eins og áður heldur verði um að ræða lögbundið verkefni embættisins, enda um skattákvörðun að ræða. Embættið hefur lagt mat á kostnað sinn af þessum verkefnum í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Fiskistofu sem þekkir til vinnunnar. Árlegur rekstrarkostnaður, einkum vegna söfnunar og vinnslu upplýsinga úr skattframtölum vegna útreiknings veiðigjalds, er áætlaður 19,9 millj. kr. frá og með árinu 2019.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 13,7 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,6 millj. kr.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 116,8 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 8,6 millj. kr.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,9 millj. kr.

17.40 Varnir vegna náttúruvár.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 9,9 millj. kr.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Lagt er til að allt að 180 millj. kr. verði varið til þróunarverkefnis á vegum Skútustaðahrepps sem byggist á aðskilnaði fráveitukerfa í byggingum á svæðinu og að nýta svokallað svartvatn til uppgræðslu auðna á Hólasandi. Með þessu næst markmið um verndun Mývatns ásamt því að endurnýta næringarefni til uppgræðslu á Hólasandi í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Um er að ræða fjármögnun á kostnaði við byggingu á geymsluþró fyrir svartvatn ásamt grófhreinsistöð á Hólasandi eða holræsabíl með fullnægjandi hreinsibúnaði. Verkefnið byggist á umbótaáætlun Skútustaðahrepps og rekstraraðila í fráveitumálum sem lögð var fram í febrúar 2018 og er í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda.
    Almennt gildir sú regla að sveitarfélög bera ábyrgð á fráveitumálum og standa straum af kostnaði við framkvæmdir og rekstur með gjaldheimtu af íbúum og atvinnurekstri. Ljóst er hins vegar að aðstæður við Mývatn eru óvenjulegar því þar eru gerðar strangari kröfur en almennt gerist og mikill þrýstingur heilbrigðisyfirvalda um skjótar úrbætur. Svæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum og alþjóðlegrar verndar Ramsar-samningsins. Ríkisstjórnin fól fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti að ganga til viðræðna við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um fráveitumál við Mývatn. Samkomulagið felur í sér að sveitarfélagið og rekstraraðilar á svæðinu ráðist í nauðsynlegar aðgerðir við breytingar á frárennslislögnum bygginga í því skyni að aðskilja svartvatn og grávatn úr skólpi, geri nauðsynlegar lagfæringar á siturbeðum fyrir hreinsun grávatns, standi að uppbyggingu og rekstri geymsluaðstöðu á Hólasandi og annist flutning á svartvatni þangað. Á móti mun ríkissjóður styðja við þróunarverkefnið með því að taka þátt í uppbyggingu aðstöðunnar á Hólasandi og Landgræðsla ríkisins mun annast reglubundna niðurplægingu svartvatnsins á Hólasandi auk umsjónar og eftirlits með verkefninu.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Rannsóknastöðvarinnar Rif. Markmið rannsóknastöðvarinnar er að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, safna og halda utan um miðlun upplýsinga um náttúrufar á svæðinu ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum. Meiri hlutinn leggur til að umhverfisráðuneytið geri samning við Rannsóknastöðina Rif, í fjárlögum fyrir árið 2020, sem samsvarar því að hægt sé að halda úti einu stöðugildi.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Gert er ráð fyrir að 34,0 millj. kr. verði skráðar sem önnur gjöld í stað þess að vera skráðar sem tilfærslur á lið ýmissa verkefna. Um er að ræða leiðréttingu þar sem þar er ekki um að ræða neinar tilfærslur heldur eingöngu önnur gjöld.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 11,5 millj. kr.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um 27,5 millj. kr. hækkun á framlagi til safnamála sem skiptist þannig:
          5 millj. kr. tímabundið framlag til endurbóta á friðaðri steinhlaðinni hlöðu á Kálfatjörn, Skjaldbreið,
          5 millj. kr. tímabundið framlag til rekstursSöguseturs íslenska hestsins,
          6 millj. kr. tímabundið framlag til rekstursFlugsafns Íslands,
          1,5 millj. kr. framlag til Steinshúss ses. til að koma upp aðgengi fyrir hreyfihamlaða við Steinshús, minningarsafn um Stein Steinarr,
          10 millj. kr. tímabundið framlag til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Árnasonar.
    Þá er lagt til að millifærðar verði 5 millj. kr. af lið 02-998-1.15 Varasjóður málaflokks 18.10 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 35 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 9,8 millj. kr.

18.20 Menningarstofnanir.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarstofnana sem skiptist þannig:
          3 millj. kr. tímabundið framlag til Ólafsdalsfélagsins,
          14 millj. kr. tímabundið framlag í fjögur ár til Hins íslenska fornritafélags til viðbótar við þær 14 millj. kr. sem nú þegar er gert ráð fyrir í ramma ráðuneytisins,
          8 millj. kr. tímabundið framlag til að halda áfram uppbyggingu í Safnahúsi Ólafsfjarðar, Pálshúsi, en þar er ráðgert að opna vatnasýningu vorið 2019 og efri hæðina, Ólafsfjarðarstofu, snemma árs 2020.
    Lagt er til að 35 millj. kr. verði millifærðar af lið 02-981-1.01 Kvikmyndamiðstöð Íslands á lið 02-981-1.10 Kvikmyndasjóðir vegna framlags sem veitt hefur verið til kvikmyndahátíða, annarra verkefna á sviði kvikmynda og ferðastyrkja af rekstrarlið Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Lagt er til að framlagið verði fært yfir á fjárlagalið Kvikmyndasjóðs.
    Lagt er til að millifærðar verði 3 millj. kr. af lið 02-998-1.20 Varasjóður málaflokks 18.20 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra.
    Launaendurmat 2018 vegna seinni hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til hækkunar um 2,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14 millj. kr.

18.30 Menningarsjóðir.
    Lagt er til að veitt verði 400 millj. kr. framlag til stuðnings við útgáfu bóka á íslensku. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram á haustþingi frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Meginmarkmið frumvarpsins er að styðja við og efla útgáfu bóka á íslensku vegna menningarlegs mikilvægis bókaútgáfu fyrir vernd íslenskrar tungu ásamt því að efla læsi. Það verði gert með því að veita bókaútgefendum stuðning í formi endurgreiðslu á 25% af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna stuðningsins verði 400 millj. kr. á ársgrundvelli. Matið byggist á gögnum Hagstofunnar um rekstrarafkomu fyrirtækja sem skráð eru í bókaútgáfu, skattframtölum frá ríkisskattstjóra og ársreikningum stærstu bókaútgefenda. Þá gæti fallið til einhver kostnaður vegna nefndar sem annast mun afgreiðslu umsókna, einkum á upphafsárinu 2019. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir áhrifum frumvarpsins í tekjuáætlun. Vegna breytinga sem gerðar voru á framkvæmd aðgerðarinnar færist hún yfir á útgjaldahlið á málefnasviði 18.
    Lagt er til að veitt verði 100 millj. kr. tímabundið framlag til fimm ára til Barnamenningarsjóðs Íslands, samkvæmt þingsályktun nr. 32/148. Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands samþykkti Alþingi að stofnaður yrði Barnamenningarsjóður Íslands. Markmið sjóðsins er að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Gert er ráð fyrir að framlag til sjóðsins verði veitt í fimm ár og að heildarframlög til hans verði alls 500 millj. kr. á tímabilinu.
    Gerð er tillaga um 31 millj. kr. hækkun framlaga til fjögurra verkefna og skiptist framlagið þannig:
          10 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, Reykjavík International Film Festival, til að efla alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík,
          2 millj. kr. tímabundið framlag til tónlistarhátíðarinnar Músík í Mývatnssveit,
          15 millj. kr. tímabundið framlag til Skaftfells, Myndlistarmiðstöðvar Austurlands, til viðhalds og rekstrar,
          4 millj. kr. tímabundið framlag til Kalaks, vinafélags Íslands og Grænlands vegna heimsóknar barna frá Austur-Grænlandi í sundkennslu á Íslandi.
    Lagt er til að 35 millj. kr. verði millifærðar á lið 02-981-1.10 Kvikmyndasjóðir af lið 02-981-1.01 Kvikmyndamiðstöð Íslands vegna framlags sem veitt hefur verið til kvikmyndahátíða, annarra verkefna á sviði kvikmynda og ferðastyrkja af rekstrarlið Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
    Lagt er til að 5 millj. kr. verði millifærðar af 02-982-1.21 Samningar og styrkir til starfsemi á sviði lista og menningar á lið 02-961-1.01 Fjölmiðlanefnd vegna fjölgunar stöðugilda til að nefndin geti sinnt betur lögbundnu hlutverki sínu.
    Lagt er til að millifærðar verði 4 millj. kr. af lið 02-998-1.25 Varasjóður málaflokks 18.30 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,7 millj. kr.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Rangárbakka ehf. til uppbyggingar landsmótssvæðis á Rangárbökkum á Hellu fyrir Landsmót hestamanna 2020.
    Lagt er til að millifærðar verði 5 millj. kr. af lið 02-998-1.15 Varasjóður málaflokks 18.10 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra. Lagt er til að millifærðar verði 3 millj. kr. af lið 02-998-1.20 Varasjóður málaflokks 18.20 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra.
    Þá er lagt er til að millifærðar verði 4 millj. kr. af lið 02-998-1.25 Varasjóður málaflokks 18.30 á lið 02-989-1.13 Samningar og styrkir til íþróttamála. Tillagan er í tengslum við frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála sem gert er ráð fyrir að lagt verði fyrir Alþingi á haustþingi. Fyrirhugað er að til verði starf sérstaks samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem skal hafa það meginhlutverk að bæta umgjörð til að tryggja öryggi allra þeirra sem taka þátt í starfi þeirra félaga og samtaka sem frumvarp þetta nær til og leiðbeina þeim sem verða fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starf þeirra.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,3 millj. kr.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Lögð er til 10 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins sem skýrist af tveimur millifærslum á lið 02-961-1.01 Fjölmiðlanefnd vegna fjölgunar stöðugilda til að nefndin geti sinnt betur lögbundnu hlutverki sínu. Annars vegar er lagt til að 5 millj. kr. verði millifærðar af 02-982-1.21 Samningar og styrkir til starfsemi á sviði lista og menningar og hins vegar að 5 millj. kr. verði millifærðar af 02-998-1.35 Varasjóður málaflokks 21.10 á lið 02-961-1.01.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,1 millj. kr.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Gerð er tillaga um tímabundið 15 millj. kr. framlag til rekstursKvikmyndaskóla Íslands. Framlagið er háð því skilyrði að fyrir liggi samningur á milli ráðuneytisins og skólans.
    Lagt er til að millifærðar verði 9 millj. kr. af fjárlagalið 02-314-1.10 Sameiginleg verkefni og þjónusta á fjárlagalið 02-430-1.01 Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna túlkunar í framhaldsskólum. Miklar sveiflur eru í eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar í framhaldsskólum og erfitt er að láta sértekjur standa alfarið undir kostnaði við hana. Mikilvægt er að stofnunin sé í stakk búin til að veita þjónustuna þegar eftir henni er kallað.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 62,1 millj. kr.

20.20 Tónlistarfræðsla.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

20.40 Jöfnun námskostnaðar.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 80 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,5 millj. kr.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar.
    Gerð er tillaga um að hækka bæði tekjur og gjöld skólans um 30 millj. kr. vegna aukinna rannsókna sem keyptar eru af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Lagt er til að millifærðar verði 30,1 millj. kr. af fjárlagalið 02-210-1.01 á fjárlagalið 02-298-1.10 Styrkir á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Gert var ráð fyrir 20 fleiri hjúkrunarfræðinemum við Háskólann á Akureyri en forsendur voru til og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 2019. Vilji stendur til þess að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði í landinu og er gert ráð fyrir að fjárhæðinni verði varið til þessa verkefnis þegar fyrir liggur hvernig skólarnir verða í stakk búnir til að taka á móti auknum fjölda nemenda í hjúkrunarfræði.
    Lagt er til að 5 millj. kr. verði millifærðar af 02-998-1.35 Varasjóður málaflokks 21.10 á lið 02-961-1.01 Fjölmiðlanefnd vegna fjölgunar stöðugilda til að nefndin geti sinnt betur lögbundnu hlutverki sínu.
    Lagt er til að millifærðar verði 5 millj. kr. af varasjóði háskóla 02-998-1.35 á fjárlagalið 02-430-1.01 Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Millifærslan er til styrkingar á rekstrargrunni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Kostnaður vegna túlkaþjónustu hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Jafnframt hafa verið sveiflur í efturspurn eftir túlkaþjónustu hjá Háskóla Íslands og hafa þær sértekjur sem stofnunin aflar vegna þjónustunnar ekki náð að brúa það bil sem myndast hefur. Mikilvægt er þó að SHH hafi burði á hverjum tíma til að veita þjónustuna.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 50 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 70,6 millj. kr.

21.20 Rannsóknastarfsemi á háskólastigi.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til Stofnunar Árna Magnússonar vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um þjóðsagnasöfnun í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Árnasonar.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Landbúnaðarháskóla Íslands vegna aukinna rannsókna sem keyptar eru af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
    Lagt er til að 41 millj. kr. verði millifærð af fjárlagalið 02-231-1.01 Rannsóknamiðstöð Íslands á fjárlagalið 02-298-1.10 Styrkir á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Tilefnið er að í fyrirhugaðri reglugerð um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði Gæðaráðs íslenskra háskóla, þ.m.t. að ráðherra geti falið ráðinu að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um að sinna verkefninu. Því er gert ráð fyrir að fjárveiting vegna verkefnisins verði flutt á safnlið, en frá árinu 2011 hefur Rannsóknamiðstöð Íslands haft fjárveitingu til að sinna umsýslu með verkefnum Gæðaráðs.
    Lagt er til að millifærðar verði 30,1 millj. kr. af fjárlagalið 02-210-1.01 Háskólinn á Akureyri á fjárlagalið 02-298-1.10 Styrkir á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Í ljós er komið að gert var ráð fyrir 20 fleiri hjúkrunarfræðinemum við Háskólann á Akureyri en forsendur voru til og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 2019. Vilji stendur til þess að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði í landinu og er gert ráð fyrir að verja fjárhæðinni til þessa verkefnis þegar fyrir liggur hvernig skólarnir verða í stakk búnir til að taka á móti auknum fjölda nemenda í hjúkrunarfræði.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 49,6 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 8,3 millj. kr.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 30 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr.

22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Gerð er tillaga um 73 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins vegna eftirfarandi fimm verkefna:
          30 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar.
          15 millj. kr. tímabundið framlag til LungA. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir því að ráðherra mennta- og menningarmála gangi til samninga við LungA um starfsemina.
          15 millj. kr. tímabundið framlag til Lýðháskólans á Flateyri. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir því að ráðherra mennta- og menningarmála gangi til samninga við skólann um starfsemina.
          10 millj. kr. tímabundið framlag til Þekkingarnets Þingeyinga.
          3 millj. kr. tímabundið framlag til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.
    Lagt er til að millifærðar verði 9 millj. kr. af fjárlagalið 02-314-1.10 Sameiginleg verkefni og þjónusta á fjárlagalið 02-430-101 Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna túlkunar í framhaldsskólum. Miklar sveiflur eru í eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar í framhaldsskólum og erfitt er að láta sértekjur standa alfarið undir kostnaði vegna hennar. Mikilvægt er að stofnunin sé í stakk búin til að veita þjónustuna þegar eftir henni er kallað.
    Jafnframt er lagt til að millifærðar verði 5 millj. kr. af varasjóði háskóla 02-998-1.35 á fjárlagalið 02-430-101 Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra til styrkingar á rekstrargrunni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Kostnaður vegna túlkaþjónustu hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Jafnframt hafa verið sveiflur í efturspurn eftir túlkaþjónustu hjá Háskóla Íslands og hafa þær sértekjur sem stofnunin aflar vegna þjónustunnar ekki náð að brúa það bil sem myndast hefur. Mikilvægt er þó að SHH hafi burði á hverjum tíma til að veita þjónustuna.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 5,9 millj. kr.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Gerð er tillaga um 17,5 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist yfir á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
    Lagt er til að 41 millj. kr. verði millifærð af fjárlagalið 02-231-1.01 Rannsóknamiðstöð Íslands á fjárlagalið 02-298-1.10 Styrkir á sviði háskóla- og vísindastarfsemi. Tilefnið er að í fyrirhugaðri reglugerð um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði Gæðaráðs íslenskra háskóla, þ.m.t. að ráðherra geti falið ráðinu að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um að sinna verkefninu. Því er gert ráð fyrir að fjárveiting vegna verkefnisins verði flutt á safnlið, en frá árinu 2011 hefur Rannsóknamiðstöð Íslands haft fjárveitingu til að sinna umsýslu með verkefnum Gæðaráðs.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,1 millj. kr.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 9,9 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Sjúkrahússins á Akureyri til að mæta kostnaði við nýjan kjarasamning við ljósmæður.
    Gerð er tillaga um 32 millj. kr. millifærslu fjárveitingar af lið sjúkraflutninga á lið Landspítala. Í nýju útboði á sjúkraflugi er gert ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana við sjúkraflug milli stofnana hækki .
    Gerð er tillaga um millifærslu 40 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-389 Aðrir samningar um endurhæfingarþjónustu á lið Landspítala. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að koma á fót sérstöku stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir.
    Lagt er til að fjárveiting til byggingar sjúkrahúss á lóð Landspítalans verði lækkuð um 2.500 millj. kr. Skýrist það af því að framkvæmd með hliðsjón af samningi við verklega framkvæmd gatnagerðar og jarðvinnu vegna meðferðarkjarnans hófst allt að fimm mánuðum síðar á árinu 2018 en ráð var fyrir gert og uppsteypa meðferðarkjarnans hliðrast því til á árinu 2019, sem nemur 2.500 millj. kr. samkvæmt sjóðstreymisáætlun, en með fyrirvara um heimild til útboðs og samninga vegna uppsteypuhluta verksins, sbr. lög nr. 84/2001.
    Launaendurmat 2018 vegna seinni hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til hækkunar um 9,4 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 6,2 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 157,1 millj. kr.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu um 200 millj. kr. framlag til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði á heilbrigðistofnunum á landsbyggðinni. Endurnýjun slíks búnaðar er mikilvæg til styrktar starfsemi þeirra. Skipting fjárins skal fara fram í samstarfi ráðherra og forstöðumanna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.
    Launaendurmat 2018 vegna seinni hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til hækkunar um 6,4 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 1,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 18,4 millj. kr.

23.30 Erlend sjúkrahúsþjónusta.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 155,4 millj. kr.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um 50,1 millj. kr. hækkun framlaga í málaflokki heilsugæslu til að mæta kostnaði við nýjan kjarasamning við ljósmæður og skiptist framlagið þannig:
          1,7 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða,
          10 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands,
          18,7 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,
          3,2 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Austurlands,
          3,9 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,
          6 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja,
          6,6 millj. kr. viðbótarfjárveiting fer til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
    Gerð er tillaga um að millifæra 26 millj. kr. af lið sjúkraflutninga á nokkrar stofnanir en nýtt útboð á sjúkraflugi gerir ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana hækki við sjúkraflug milli stofnana. Framlagið skiptist þannig:
          16 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,
          3 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands,
          3 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða,
          4 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
    Gert er ráð fyrir millifærslu fjárveitingar að fjárhæð 9 millj. kr. af fjárlagalið velferðarráðuneytins, 08-500-110, til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins vegna eftirlits Neytendastofu með framkvæmd laga nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Fjárveitingin skiptist í laun, 7,9 millj. kr., og önnur gjöld, 1,1 millj. kr.
    Lögð er til 119,7 millj. kr. millifærsla fjárveitinga þar sem heimilislæknar utan heilsugæslu færast til heilsugæslunnar.
    Launaendurmat 2018 vegna seinni hluta bókunar 6 í samkomulagi við 14 aðildarfélög BHM frá febrúar 2018 leiðir til hækkunar um 5,6 millj. kr.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 3,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 46,7 millj. kr.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Lögð er til 119,7 millj. kr. millifærsla fjárveitinga þar sem heimilislæknar utan heilsugæslu færast til heilsugæslunnar.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 114,1 millj. kr.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 35 millj. kr.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Gerð er tillaga um 58 millj. kr. millifærslu af lið sjúkraflutninga á nokkrar stofnanir en í nýju útboði á sjúkraflugi er gert ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana við sjúkraflug hækki. Framlagið skiptist þannig:
          16 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,
          3 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands,
          3 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða,
          4 millj. kr. færast á lið Heilbrigðisstofnunar Austurlands,
          32 millj. kr. færast á lið Landspítala.
    Jafnframt er gerð tillaga um 73 millj. kr. millifærslu fjárveitingar af lið sjúkraflutninga á lið sjúkratrygginga, sjúkraflutningar og ferðir innanlands, en í nýju útboði á sjúkraflugi er gert ráð fyrir að kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna nýs samnings hækki.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 4,9 millj. kr.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Lagt er til að fjárveiting til reksturs hjúkrunarrýma hækki um 276,4 millj. kr. vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar samkvæmt ákvæði í rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands um þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum, en þar er kveðið á um allt að 2% hækkun á milli ára.
    Lögð er til 300 millj. kr. tímabundin lækkun fjárveitingar. Tafir hafa orðið á framkvæmdum við uppbyggingu hjúkrunarheimila. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum sem nema 300 millj. kr. seinki þannig frá 2019 til 2020.
    Lögð er til tímabundin 734 millj. kr. lækkun á fjárveitingu liðarins en vegna tafa á framkvæmdum við uppbyggingu hjúkrunarheimila verður töf á að hluti nýrra rýma verði tekinn í notkun. Því er ekki þörf á fjárveitingunni fyrr en á árinu 2020 þegar umrædd rými verða komin að fullu í notkun.
    Millifærð er 100 millj. kr. fjárveiting til að styrkja rekstur biðdeildar aldraðra á Vífilsstöðum. Síðastliðin tvö ár hefur sambærileg fjárveiting verið millifærð innan ársins en í ljósi reynslunnar er gert ráð fyrir að fjárheimildin verði færð varanlega til Vífilsstaða.
    Lagt er til að hluti launa- og verðlagsreiknings fjármála- og efnahagsráðuneytisins verði skráður sem önnur gjöld í stað þess að vera skráður sem laun til samræmis við tegundaskiptingu fjárlagaliðarins í heild sinni.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 78,1 millj. kr.

25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. tímabundið framlag til starfsemi meðferðarheimilisins í Krýsuvík.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. tímabundið framlag til Hlaðgerðarkots þar sem Samhjálp rekur áfengis- og vímuefnameðferð.
    Gerð er tillaga um millifærslu 40 millj. kr. fjárveitingar af lið 08-389, Aðrir samningar um endurhæfingarþjónustu, á lið Landspítala. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að koma á fót sérstöku stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 0,1 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 10,8 millj. kr.

26 Lyf og lækningavörur.
26.10 Lyf.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1.415,4 millj. kr.

26.30 Hjálpartæki.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 169,6 millj. kr.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, örorkulífeyrir.
    Gert er ráð fyrir 1.100 millj. kr. lækkun á lið örorkulífeyris vegna breyttra forsendna frá fjárlagafrumvarpi. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir 4 milljarða kr. framlagi vegna kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja en fyrir liggur að innleiðing á nýju mats- og framfærslukerfi almannatrygginga tekur lengri tíma en áætlað var í upphafi og hefst ekki fyrr en á árinu 2020. Engu að síður er gert ráð fyrir að fyrstu skrefin verði tekin í átt að nýju kerfi á árinu 2019 og er áætlaður kostnaður vegna þeirra 2,9 milljarðar kr.
    Lögð er til 300 millj. kr. lækkun á lið tekjutrygginga örorkulífeyrisþega.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 92 millj. kr.

27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    Gerð er tillaga um 300 millj. kr. hækkun frá fyrri áætlun málaflokksins sem skýrist af:
          100 millj. kr. lækkun bifreiðakostnaður örorkulífeyrisþega,
          150 millj. kr. lækkun á sérstakri uppbót örorkulífeyrisþega,
          200 millj. kr. hækkun á heimilisuppbót örorkulífeyrisþega,
          350 millj. kr. hækkun á endurhæfingarlífeyri.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 31,5 millj. kr.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,2 millj. kr.

27.40 Aðrar örorkugreiðslur (Önnur velferðarmál, lífeyristrygg.).
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,4 millj. kr.

28 Málefni aldraðra.
28.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra.
    Endurmat á útgjöldum á lið ellilífeyris bendir til þess að útgjöld ársins verði um 1,2 milljarði kr. lægri en fjárlagaheimild ársins. Með vísan til þess eru að mati ráðuneytisins rök til þess að leggja til lækkun á útgjaldaheimild ársins 2019 um 1.050 millj. kr.
    Við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2018 voru settar 1.500 millj. kr. vegna endurmats á bótum almannatrygginga og áætluðum umframútgjöldum ársins 2017. Þetta var gert vegna væntra áhrifa af endurskoðun bótafjárhæða almannatrygginga, einföldun bótakerfisins og breytinga á frítekjumarki. Framkvæmd fjárlaga í ár bendir til að þetta framlag hefði aðeins þurft að vera 300 millj. kr. en ekki 1.500 millj. kr. Tillaga ráðuneytisins vegna ársins 2019 gerir ráð fyrir að 450 millj. kr. af þessum 1.500 millj. kr. verði haldið eftir innan bótaflokksins.
    Þá er lögð til 30 millj. kr. hækkun frá fyrri áætlun vegna vasapeninga ellilífeyrisþega.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 143,8 millj. kr.

28.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, öldrun.
    Framlag til málaflokksins lækkar um 410 millj. kr., annars vegar vegna 500 millj. kr. lækkunar frá fyrri áætlun á heimilisuppbót ellilífeyrisþega og hins vegar 90 millj. kr. hækkunar vegna bifreiðakostnaðar ellilífeyrisþega.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 13,3 millj. kr.

29 Fjölskyldumál.
29.20 Fæðingarorlof.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1,7 millj. kr.

29.30 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,8 millj. kr.

29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Lagt er til að 200 millj. kr. verði varið til húsnæðisúrræða og búsetuþjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda. Ábyrgð á þjónustu við börn sem þurfa sérhæfð úrræði og mikla samhæfða þjónustu margra þjónustukerfa, svo sem félags-, heilbrigðis- og menntamála, var felld undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Mál þessara barna hafa verið á borði margra aðila og ekki ljóst hver bar meginábyrgð á þjónustunni. Í kostnaðarmati sem fylgdi frumvarpinu var gert ráð fyrir að 500 millj. kr. þyrfti til þess að standa straum af kostnaði við þjónustuna og úrræðin. Í fjárlögum fyrir árið 2018 voru veittar 150 millj. kr. til þessa verkefnis. Í fjármálaáætlun 2018–2022 var gert ráð fyrir að 350 millj. kr. bættust við þá fjárhæð árið 2019. Fyrir mistök var aðeins gert ráð fyrir 150 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Hér er því lagt til að 200 millj. kr. verði bætt við þá fjárhæð þannig að unnt verði að standa við fyrri áform um þjónustuna.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Miðstöðvar foreldra og barna, sem rekur þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu fyrir foreldra og ungbörn, til að hægt verði að fjölga stöðugildum úr rúmlega tveimur í fimm. Viðræður hafa verið á milli velferðarráðuneytis, Miðstöðvar foreldra og barna og BUGL um að starfsemi miðstöðvarinnar fari undir BUGL. Yfirlæknir BUGL telur mikilvægan ávinning felast í að fá starfsemina þangað til að gera BUGL kleift að veita börnum þjónustu frá fæðingu eins og gert er t.d. í Noregi og víðar. Með eflingu Miðstöðvar foreldra og barna yrði unnið á biðlistum BUGL og álagi létt af starfseminni þar. Meiri hlutinn brýnir velferðarráðuneytið í því að koma starfsemi Miðstöðvar foreldra og barna fyrir í kerfinu sem varanlegu úrræði á föstum fjárlögum enda brýnt að tryggja hag ungbarna með því að veita foreldrum þeirra viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu á meðgöngu og fyrstu árum barnsins.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Art-verkefnisins sem snýst um félagsfærni-, sjálfstjórnar- og siðferðisþjálfun barna með hegðunarvanda.
    Gert er ráð fyrir að 20 millj. kr. verði varið til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Um er að ræða framlag samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og er það hluti af aðgerðaáætlun um kynferðisbrot. Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni velferðarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nokkurra félagasamtaka. Starfsemin felst í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, eða eru brotaþolar í mansalsmálum. Fjárheimildin er innan útgjaldaramma dómsmálaráðuneytisins og er gert er ráð fyrir að hún verði millifærð til velferðarráðuneytis.
    Gerð er tillaga um 18 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs Aflsins.
    Gerð er tillaga um að millifærð verði 50 millj. kr. fjárheimild til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til að efla rekstur hennar.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 0,7 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 14,4 millj. kr.

29.50 Bætur til eftirlifenda.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 1 millj. kr.

29.60 Bætur vegna veikinda og slysa.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 3,6 millj. kr.

29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 5,5 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,6 millj. kr.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Lagt er til 260 millj. kr. aukið framlag til Ábyrgðasjóðs launa í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um útgjöld ársins 2019. Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað umtalsvert á yfirstandandi ári samanborið við síðasta ár. Þá hefur orðið töluverð aukning á kröfum til Ábyrgðasjóðs launa einkum vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda.
    Lagt er til að 250 millj. kr. verði varið til vinnusamninga öryrkja. Vinnusamningar eru árangursríkasta úrræðið sem í boði er til að auka virkni fólks með skerta starfsgetu. Þeir eru í mörgum tilfellum hluti af starfsendurhæfingu öryrkja og því mikilvægur liður í að virkja fólk til varanlegrar endurkomu á vinnumarkaðinn. Í fjármálaáætlun 2018– 2022 var boðað að þetta vinnumarkaðsúrræði yrði eflt til muna með um 660 millj. kr. aukningu á tímabilinu. Ásókn í úrræðið hefur reynst meiri en áætlað var og tekur umbeðin viðbótarfjárheimild mið af því að ekki þurfi að grípa til takmarkandi aðgerða.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs Jónsvers á Vopnafirði.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 39,5 millj. kr.

30.20 Vinnumarkaður.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 2,8 millj. kr.

31 Húsnæðisstuðningur.
31.10 Húsnæðisstuðningur.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldaaukningu nema 90,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,3 millj. kr.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Lagt er til að gerð verði leiðrétting á hækkun sértekna Lyfjastofnunar að fjárhæð 352,8 millj. kr. Mistök voru gerð af hálfu Lyfjastofnunar í tekjuáætlun til næstu þriggja ára og skilaði sú villa sér í vinnslu fjárlagafrumvarpsins í júní áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi í september. Lyfjastofnun gerir ráð fyrir óbreyttum sértekjum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 frá fjárlögum fyrir árið 2018.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 7,1 millj. kr.

32.20 Jafnréttismál.
    Gerð er tillaga um 13 millj. kr. fjárveitingu til Jafnréttisstofu vegna stöðugildis sem til er komið vegna breytinga á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, frá 1. júní 2017.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 0,3 millj. kr.

32.30 Stjórnsýsla velferðarmála.
    Lagt er til að veittar verði 70 millj. kr. til aðalskrifstofu velferðarráðuneytisins vegna skiptingar ráðuneytisins í tvö ráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, frá og með 1. janúar 2019. Beinn kostnaður við uppskiptingu aðalskrifstofu velferðarráðuneytisins er áætlaður um 70 millj. kr. vegna launa- og rekstrarkostnaðar við ráðuneytisstjóra, ritara ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra fjármálaskrifstofu.
    Áætlaður kostnaður við að efla nýju ráðuneytin er 92,3 millj. kr. með ráðningu sex nýrra sérfræðinga. Þá er gerð tillaga um nýtt stöðugildi skrifstofustjóra á skrifstofu jafnréttismála sem verður í forsætisráðuneytinu en jafnréttismál færast til forsætisráðuneytisins um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að þessi fjárveiting færist til forsætisráðuneytisins við 3. umræðu fjárlaga.
    Gerð er tillaga um 150 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs SÁÁ. Velferðarráðuneyti feli Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ auk þess að styrkja aðra þjónustu í samræmi við stefnumótun.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstur Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem eru hagsmunasamtök fyrirtækja, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu.
    Gerð er tillaga um 35,1 millj. kr. lækkun framlags vegna reksturs ráðherrabifreiðar sem millifærist yfir á Rekstrarfélag Stjórnarráðsins (09-980-611). Breytingin skýrist af flutningi á ráðningarsambandi bílstjóra ásamt eignarhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til miðlægrar þjónustueiningar.
         Gerð er tillaga um millifærslu 15 millj. kr. fjárveitingar af liðnum Heilbrigðismál, ýmis starfsemi á lið Sjúkratrygginga Íslands. Umsvif verkefna í erlendum endurkröfum hafa aukist á undanförnum árum.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 21,9 millj. kr.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 32,9 millj. kr.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
33.10 Fjármagnskostnaður.
    Með endurmati á áætluðum vaxtagjöldum, m.a. með tilliti til nýrrar þjóðhagsspár, er gert ráð fyrir 2.700 millj. kr. hækkun vaxtagjalda. Þar af hækka verðbætur um 2.346 millj. kr. vegna meiri verðbólgu og vegna þess að nú er gert ráð fyrir nýjum verðtryggðum flokki, riks 26, í nýsölu á seinni hluta áranna 2018 og 2019.
    Gert er ráð fyrir að hafnar verði viðræður við Seðlabanka Íslands um kaup á ríkisskuldabréfum í hans eigu. Við það lækka skuldir ríkissjóðs að nafnvirði um 23 milljarðar kr. Uppkaupin hefðu í för með sér kostnað upp á 1,4 milljarða kr. á árinu 2018 en á móti kæmi til vaxtasparnaðar sem nemur 1,7 milljörðum kr. á árinu 2019 og um 0,8–1,3 milljörðum kr. á árunum 2020–2023.

33.30 Lífeyrisskuldbindingar.
    Gert er ráð fyrir að 172 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið 04-811 Búnaðarlagasamningur á fjárlagalið 09-381 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun í samræmi við samning Bændasamtaka Íslands, fjármála- og efnahagsráðherra, sjávarútvegs- og landbúnarðarráðherra og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samningurinn lýtur að skiptingu samningsaðila á ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum sem myndast hafa eða munu myndast í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna starfsemi Bændasamtaka Íslands sem fjármögnuð er með framlagi úr ríkissjóði á grundvelli rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Samkomulag er um að ríkissjóður taki yfir og ábyrgðist áfallnar lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skv. 32. gr. laga nr. 1/1998, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, miðað við stöðu þeirra samkvæmt tryggingafræðilegu mati 31. desember 2018. Þá færist ábyrgð á greiðslu hækkana sem verða á áður úrskurðuðum lífeyri, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga. nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, frá Bændasamtökum Íslands til ríkissjóðs frá og með 1. janúar 2019 þar sem ábyrgð á greiðslu lífeyrishækkana vegna skuldbindinga þeirra sem samningurinn tekur til færist til ríkissjóðs.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 43,6 millj. kr.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Endurmat launa-, gengis- og verðlagsreiknings fjárlaga fyrir 2. umr. nemur 27,5 millj. kr.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir.
    Gerð er tillaga um varanlegan tilflutningur á 5,5 millj. kr. af lið 09-990-110 ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar á lið 01-190-190 til að standa straum af kostnaði við árlegan Stjórnarráðsdag.
    Almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti nema 2,8 millj. kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 14. nóvember 2018.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Páll Magnússon.