Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 597  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Aðfaraorð.
    Í áliti þessu er meðal annars fjallað um mikilvægi þess að búa í haginn fyrir komandi kjarasamninga. Fjallað er um þá gengislækkun sem átt hefur sér stað síðustu vikurnar á meðan á fjárlagavinnunni stóð og fyrirhugaða lánveitingu til Íslandspósts, sem meiri hlutinn leggur til nú við 3. umræðu. Einnig er fjallað um tillögu meiri hlutans um sölu á losunarheimildum koltvísýrings og gerð er grein fyrir breytingartillögu 3. minni hluta við 3. umræðu. Í lokin er síðan kafli sem ber yfirskriftina „Að styðja góð mál“ og loks er komið stuttlega inn á landbúnaðinn og áhugaleysi ríkisstjórnarflokkanna hvað hann varðar. Að öðru leyti er vísað í nefndarálit 3. minni hluta við 2. umræðu.

Ekki búið í haginn fyrir komandi kjarasamninga.
    Þriðji minni hluti lýsir vonbrigðum með að meiri hlutinn skuli ekki, nú við 3. umræðu, hafa dregið úr þeirri stefnu sinni að bæta í ríkisbáknið. Forgangsraða hefði átt ríkisútgjöldum með öðrum hætti og búa í haginn fyrir komandi kjarasamninga. Telja verður afar ólíklegt að samið verði um 3,6% launahækkun í 3,6% verðbólgu. Það er mikilvægt að taka fyrstu skrefin í því að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það kemur fólki í lægstu hópunum best. Hvað réttlætir það t.d. að dráttarvextir, sem öryrki fær greidda vegna máls sem hann vinnur fyrir dómstólum, skuli skerða örorkubætur viðkomandi. Sama á við um miskabætur. Þessu kerfi verður að breyta og það strax. Breytingar hvað þetta varðar þurfa ekki að vera spyrtar saman við breytingar á kerfinu í heild sinni.
    Rætt hefur verið um að kaupmáttur hafi aukist mikið síðustu ár og á þetta hefur m.a. fjármála- og efnahagsráðherra lagt áherslu í sínum málflutningi. Almennt hefur kaupmáttur vænkast um 30% síðastliðin fimm ár en hjá lífeyrisþegum aðeins um 6%. Samkvæmt kaupmáttarreiknivél VR er hækkunin til lífeyrisþega á bilinu 4–8%.

Gengislækkun sem stjórnvöld hefðu getað spornað við.
    Töluverðar breytingar hafa orðið á gengi krónunnar síðustu vikurnar og hefur það haft áhrif á fjárlagavinnuna milli umræðna. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að útgjöldum tengdum gengisbreytingum verði meðal annars mætt með sölu á losunarheimildum koltvísýrings. Nánar verður vikið að því hér á eftir.
    Peningastefnunefnd Seðlabankans gaf það út nýverið að ein ástæðan fyrir skarpri veikingu krónunnar undanfarið hafi verið óvissa um fjármögnun flugfélagsins WOW.
    Koma flugfélagsins WOW inn á íslenska millilandaflugmarkaðinn árið 2011 var mikilvæg fyrir hagkerfið. Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega og þeir sem koma til landsins koma aðallega með vélum frá Icelandair og WOW. Umfjöllun fjölmiðla um flugfélagið WOW var lengi vel jákvæð og fyrirtækið í miklum vexti. Umskipti verða síðan til hins verra á árinu 2017. Engar fjárhagsupplýsingar voru birtar fyrr en í miðjum júlí 2018 og birti félagið ársreikning sinn mjög seint. Í ágústmánuði komu síðan fréttir af taprekstri og að félagið væri að fara í skuldabréfaútboð.
    Í tengslum við skuldabréfaútboðið kemur fram að eiginfjárhlutfall WOW hefði verið komið niður í 4,5% í júní 2018. Skuldabréfaútboðið dugði síðan ekki til. Ljóst var að WOW var komið upp við vegg og átti ekki laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
    Samgöngustofa hefur eftirlit með rekstri flugfélaganna og vinnur samkvæmt reglugerð frá 2012, um flugrekstur og flugþjónustu innan EES. Samgöngustofa á að framkvæma reglulega mat á fjárhagsstöðu flugrekanda. Flugrekstur er kerfislega mikilvægur í hagkerfi landsins. Fjárhagslegir burðir íslensku millilandaflugfélaganna skipta þjóðarbúið miklu máli, varða efnahagslegan stöðugleika og flugöryggi.
    Ferðaþjónustan er okkar stærsta atvinnugrein og stendur hún undir 42% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan á því allt undir góðum og öruggum flugsamgöngum.
    Það verður því að segjast eins og er að það er með ólíkindum að svo kerfislega mikilvægur rekstur geti farið með eiginfjárhlutfallið niður í 4,5% um hábjargræðistímann og orðið valdur að snarpri gengislækkun krónunnar, sem síðan skilar sér hratt í aukinni verðbólgu, hækkun vísitölu og hækkun lána landsmanna.
    Samgöngustofa á að framkvæma reglulega mat á fjárhagsstöðu flugrekanda. Það er því réttmætt og eðlilegt að velta því fyrir sér hvort eftirlit Samgöngustofu með fjárhagsstöðu flugfélagsins WOW hafi yfir höfuð verið nægilegt og hvort stjórnvöld beri þá ekki að hluta til ábyrgð á hinni snörpu gengislækkun krónunnar.
    Samgöngustofa hefði átt að gera álagspróf á íslensku millilandaflugfélögunum með tilliti til fjárhagsstöðu og eiginfjárhlutfalls.
    Kerfislega mikilvægur rekstur eins og flugrekstur felur í sér áhættu fyrir innlend fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og fyrirtæki í ferðaþjónustu ef niðurstaðan verður sú að verulega dregur úr starfsemi þeirra. Það getur síðan aftur haft áhrif á arðgreiðslur ríkisbankanna til ríkisins og almennt á efnahagslífið ef dregur mikið úr komu ferðamanna til landsins.
    Í þessu sambandi má ekki gleyma því að bankarnir eru kerfislega mikilvægir eins og við þekkjum og til samanburðar höfum við í dag öflugt eftirlit með fjármálastarfsemi, sem er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Fylgst er náið með rekstri bankanna, sett eru skilyrði er varða útlánavöxt, söfnun innlána og þess háttar. Það sama verður að gilda um flugreksturinn.

Lán til Íslandspósts – óháð úttekt á rekstri fyrirtækisins nauðsynleg.
    Meiri hlutinn leggur til að lána Íslandspósti 1,5 milljarða kr. og er breytingartillaga við frumvarpið þess efnis lögð fram hér við 3. umræðu. Hér er um háa upphæð að ræða og ef hún er sett í samhengi sjáum við að hún er hærri en nemur skerðingunni til öryrkja á næsta ári eins og ríkisstjórnin leggur til í frumvarpinu. Mál þetta var töluvert rætt innan nefndarinnar og komu bæði fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og fyrirtækisins fyrir nefndina. Póstþjónusta í landinu verður að ganga hnökralaust. Vandinn í rekstri fyrirtækisins er alvarlegur og verður að teljast ámælisvert hversu seint hann er kynntur fjárlaganefnd. Nauðsynlegt hefði verið að nefndin kallaði eftir greiningu á rekstrinum frá þar til bærum aðilum, eins og Ríkisendurskoðun, áður en ákvörðun um að veita fyrirtækinu lánið er tekin. Skuldir fyrirtækisins hafa aukist jafnt og þétt frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi. Óháð úttekt á taprekstrinum hefði átt að fara fram og ábyrgð stjórnar fyrirtækisins auk þess sérstaklega skoðuð. Rekstur þessa mikilvæga fyrirtækis er kominn í þrot og verið að senda reikninginn á skattgreiðendur. Á fyrri stigum hefði átt að grípa til aðgerða, þessi vandi er ekki tilkominn á einni nóttu. Forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að bréfasendingum hafi fækkað langt umfram það sem reiknað var með og þar með drógust tekjur saman sem því nam. Tekjurnar áttu m.a. að standa undir kostnaði við póstþjónustu. Setja verður spurningarmerki við hvernig áætlanagerð innan fyrirtækisins er háttað þegar svo mikil frávik verða í tekjuáætlun.
    Í bréfi stjórnar Íslandspósts til nefndarinnar, dagsettu 2. desember sl., segir að forsenda þess að Íslandspóstur geti greitt umbeðið lán velti einkum á því hvort og hvernig stjórnvöld hyggjast fjármagna alþjónustuskyldu, sem lög gera ráð fyrir. Í fyrirliggjandi frumvarpi til nýrra póstlaga er gert ráð fyrir afnámi einkaréttar ríkisins á dreifingu bréfa, en honum hefur verið ætlað að standa undir alþjónustubyrði vegna þjónustu sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir að veita, þó svo að sú hafi ekki verið raunin undanfarin ár. Jafnhliða ákvörðun um afnám einkaréttar er sérstaklega brýnt að svara því hvernig leysa eigi ófjármagnaða alþjónustubyrði, sem fylgir rekstrarleyfi Íslandspósts. Málið er því þannig vaxið að Íslandspóstur getur ekki greitt lánið til baka nema með því að sækja fé í alþjónustusjóðinn, sem er tómur. Engar fjárheimildir eru ætlaðar í sjóðinn í frumvarpinu. Ef svo færi að Íslandspóstur fengi fé úr alþjónustusjóðnum þá þarf að fjármagna hann. Ekki gæti sú fjármögnun farið í gegnum varasjóðinn á næsta ári þar sem hér er ekki um ófyrirséð mál að ræða. Þannig að umgjörðin í kringum þetta mál er öll í ólestri og engan veginn í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. 3. minni hluti styður ekki þessa lánveitingu á meðan óháð úttekt á starfsemi fyrirtækisins hefur ekki farið fram.

Sala losunarheimilda á koltvísýringi óskynsamleg.
    Lagt er til að selja losunarheimildir okkar á koltvísýringi fyrir allt að 4 milljarða kr. eða um 85% heimilda. Hér er um að ræða geymdar heimildir fyrir árin 2013–2018 í svokölluðu ETS-kerfi. Frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur komið fram að hér sé ekki um að ræða varanlegar heimildir heldur hluta af þeim heimildum sem komið hafa í hlut Íslands, við hina árlegu skiptingu úthlutaðra heimilda á milli aðildarríkjanna, síðan Ísland gerðist virkur þátttakandi í ETS-kerfinu á árinu 2012 og fram til ársins 2018.
    Einnig kemur fram af hálfu ráðuneytisins að aðrar þjóðir innan EES hafa selt sínar heimildir á hverju ári hingað til en í tilviki EFTA-ríkjanna Noregs, Liechtenstein og Íslands hafa ákveðin lagatæknileg atriði verið ófrágengin og komið í veg fyrir að þessi þrjú ríki gætu selt sinn skerf. Á meðan hafa þær heimildir sem þeim bar að selja verið geymdar.
    Sala heimildanna er engu að síður gagnrýnisverð í ljósi þess að hér er um verðmæti að ræða sem aukast ár frá ári og eru nú seld til þess að mæta útgjaldaaukningu meiri hlutans við 2. umræðu fjárlaga. Hér er verið að selja kvóta sem þarf síðan að kaupa aftur síðar og þá örugglega á hærra verði. Ef það er svona nauðsynlegt að selja kvótann af einhverjum óskilgreindum tæknilegum ástæðum þá er 3. minni hluti þeirrar skoðunar að nota ætti andvirðið til þess að standa undir kvótakaupum síðar, stofna jafnvel loftslagskvótasjóð. Hvað ef ríkissjóður verður ekki aflögufær þegar kemur að því að kaupa meiri kvóta. Þá þarf væntanlega að leggja á nýja skatta til að standa undir kvótakaupum. Almenningur borgar þá brúsann eins og venjulega.
    Eins og málum er háttað í dag hvað þennan málaflokk varðar erum við að vinna í loftslagsmálum með mjög takmörkuðum hætti í raun aðeins á 5% af menguninni, með skattlagningu á bensín og dísilolíu. En 3. minni hluti gagnrýndi stefnuleysið í þessari skattlagningu í nefndaráliti við 2. umræðu. Það má því spyrja hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að auka enn frekar álögur á bensín og dísilolíu á næstu misserum, til þess að standa undir kaupum á mengunarkvóta. Það mun síðan bitna sérstaklega illa á landsbyggðinni eins og skatturinn gerir almennt. Honum er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og þess vegna er svo mikil hækkun skattsins, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir, óforsvaranleg. Heildstæð stefna verður að liggja fyrir um hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar, án þess að þær bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu.

Séreignarsparnaður og húsnæðismál – mikilvægt úrræði fellt niður.
    Að greiða niður skuldir er árangursrík leið til eignamyndunar og eiga stjórnvöld á hverjum tíma að leitast við að skapa aðstæður sem hvetja íbúðaeigendur til að greiða niður skuldir eins og kostur er. Með því að greiða inn á íbúðalán með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattafsláttar og mótframlags launagreiðanda auk þess sem innborgunin lækkar heildarvaxtagreiðslu og verðbætur. Hér hefur verið um mikilvægt úrræði að ræða sem felur í sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og inn á höfuðstól húsnæðislána. Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðum hefur þetta úrræði verið töluvert notað. Rúmlega 6.500 einstaklingar hafa sótt um úrræðið vegna kaupa á fyrstu íbúð. Í október sl. var greitt inn á lán hjá tæplega 3.000 einstaklingum og í sama mánuði bárust 408 umsóknir samkvæmt nýjustu upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Hvað íbúðakaup varðar hafa þeir sem nýtt hafa sér þetta úrræði getað fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í kaup á íbúð.
    Inn á höfuðstól húsnæðislána hefur verið heimilt að greiða allt að 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda, hámark 500.000 kr. á ári fyrir einstakling en 750.000 kr. á ári fyrir hjón, eða aðra sem uppfylla skilyrði til samsköttunar.
    Verð á fasteignum hér á landi hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Framboð íbúða annar engan veginn eftirspurn. Flestir undirliggjandi þættir vísa því til þess að fasteignaverð, sem er í hæstu hæðum, lækki ekki í bráð. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin ákveðið að falla frá heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána. Þetta kemur fram í frumvarpinu á bls. 114 og á að taka gildi um mitt ár 2019.
    Hér er um óskynsamlega ráðstöfun af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða að mati 3. minni hluta. Draga mun auk þess úr uppsöfnun séreignarsparnaðar í stað þess að auk ætti heimildir hvað þetta sparnaðarform varðar.
    Starfshópur sem forsætiráðherra (júní 2017) skipaði til að fara yfir hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs lagði einmitt áherslu á að auka svigrúm til séreignar- og húsnæðissparnaðar. Hópurinn skilaði vandaðri skýrslu í byrjun þessa árs. Starfshópurinn leggur til, að því gefnu að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð verði hækkað úr 12% af launum í 15,5%, að stjórnvöld skoði í samráði við hagsmunaaðila að lögum verði breytt þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til húsnæðissparnaðar og jafnframt að sjóðfélagar geti ráðstafað 3,5% af 15,5% lágmarksiðgjaldi í séreign eða til húsnæðissparnaðar að eigin vali, að tryggður verði sveigjanleiki sjóðsfélaga til að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á húsnæðislán og/eða við kaup á íbúð. Með útreikningum hefur verið sýnt fram á að einstaklingar, sem leggja fyrir 15,5% af launum í lífeyrissjóð alla starfsævina, munu safna upp tiltölulega góðum eftirlaunaréttindum.
    Með viðbótarlífeyrissparnaði geta eftirlaun jafnvel orðið meiri en atvinnutekjur. Starfshópur leggur því til að stjórnvöld skoði að auka heimildir til séreignarsparnaðar og nýta launatengdan lífeyrissparnað til húsnæðissparnaðar. Ekki verður séð annað en að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella niður almenna úrræðið um úttekt iðgjalda séreignarsparnaðar til kaupa á íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán gangi þvert á tillögur starfshópsins og eru það mikil vonbrigði.
    Því leggur 3. minni hluti til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að heimildarákvæðið til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána verði framlengt um tvö ár þegar ákvæðið á að renna út um mitt næsta ár.

Að styðja góð mál.
    Miðflokkurinn studdi í atkvæðagreiðslu við 2. umræðu ýmsar af tillögum ríkisstjórnarinnar, enda er það stefna flokksins að styðja góð mál hvaðan sem þau koma. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsóknarflokkur, greiddu atkvæði gegn öllum breytingartillögum 3. minni hluta og stjórnarandstöðunnar. Í þessu sambandi má nefna dæmi. Krabbameinsfélagið sótti um fjárframlag til fjárlaganefndar upp á 70 millj. kr. til þess að styrkja reksturinn. Krabbameinsfélagið vinnur mjög mikilvægt starf í baráttunni við krabbamein, sem er sannarlega þakkarvert. Félagið stundar rannsóknir, fræðslu og forvarnir og veitir ekki síst þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra mikilvægan stuðning. Krabbameinsfélagið hefur til fjölda ára unnið afar mikilvægt starf í leit að brjóstakrabbameini meðal kvenna. Þjónusta félagsins er viðkvæm og það er mjög mikilvægt að tryggja til framtíðar samfellu hennar á hendi reyndra sérfræðinga.
    Þriðji minni hluti flutti breytingartillögu við frumvarpið um sérstakt framlag til krabbameinsfélagsins upp á 50 millj. kr. Var tillagan felld af stjórnarflokkunum. Hér er um mjög mikilvægt starf að ræða og upphæðin lág í samhengi fjárlaga. Alþingi nýtur ekki mikils traust í störfum sínum meðal þjóðarinnar og er það fyrst og fremst stjórnmálamönnunum sjálfum að kenna. Flokkslína í atkvæðagreiðslum á Alþingi er gamaldags pólitík og ekki í anda nýrra og betri stjórnmála, sem þjóðin hefur kallað eftir. Að styðja góð mál hvaðan sem þau koma er mikilvæg leið til aukinnar virðingar gagnvart störfum Alþingis.

Stjórnarflokkarnir áhugalausir um landbúnaðinn.
    Það eru mikil vonbrigði nú við 3. umræðu að meiri hlutinn skuli ekki leggja til auknar fjárheimildir til landbúnaðarins til að mæta þeim neikvæðu áhrifum sem tollasamningurinn við Evrópusambandið kemur til með að hafa á búvöruframleiðslu okkar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í þinginu nú í haust að hann væri með í smíðum mótvægisaðgerðir til að mæta aukinni samkeppni erlendis frá. Engar fjárheimildir eru ætlaðar í umræddar mótvægisaðgerðir né heldur til að bæta stöðu sauðfjárbænda og sýnt þykir að ríkisstjórnarflokkarnir eru sem fyrr áhugalausir um hag landbúnaðarins og er það mikið áhyggjuefni.

Alþingi, 5. desember 2018.

Birgir Þórarinsson.