Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1106  —  687. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala.


Frá velferðarnefnd.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að móta heildstæða opinbera stefnu um rekstur og skipulag bráðaþjónustu utan spítala. Markmið stefnunnar verði að formfesta samstarf þeirra sem sinna þjónustunni, skilgreina með skýrari hætti ábyrgð og verkaskiptingu innan hennar og efla menntun, endurmenntun og starfsþjálfun þeirra sem starfa við sjúkra- og neyðarflutninga og veita bráðaþjónustu á vettvangi slysa eða í öðrum neyðartilvikum.

Greinargerð.

    Í samræmi við 1. mgr. 26. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, hefur velferðarnefnd fjallað um málefni utanspítalaþjónustu. Nefndin hefur fengið á fund sinn fulltrúa frá velferðarráðuneytinu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
    Umfjöllun nefndarinnar um utanspítalaþjónustu hefur afmarkast við sjúkra- og neyðarflutninga og þá bráðaþjónustu sem veitt er þeim sem verða bráðveikir eða slasast alvarlega, þ.e. bráðaþjónustu utan spítala.
    Vægi sjúkra- og neyðarflutninga innan heilbrigðiskerfisins hefur aukist töluvert undanfarin ár. Ýmsir þættir hafa valdið því að tíðni útkalla og þær kröfur sem gera þarf til þjónustunnar hafa aukist. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, fjölgun ferðamanna, fækkun fæðingarstaða og lokanir skurðstofa á landsbyggðinni hafa átt stóran þátt í þeirri þróun. Samhliða breyttum aðstæðum hefur tækninni fleygt fram og möguleikar sjúkraflutningamanna og bráðatækna til þess að bjarga mannslífum eða koma í veg fyrir varanlegt tjón, svo sem örorku, vegna alvarlegra slysa meiri en áður hefur verið. Mikilvægt er að hafa í huga að rétt fyrstu viðbrögð og sú meðferð sem veitt er á milli slysstaðar og heilbrigðisstofnunar geta skipt sköpum um líf og heilsu manna. Öflug bráðaþjónusta utan spítala er því nauðsynlegur hlekkur í öflugu heilbrigðiskerfi.

Skipulag þjónustunnar.
    Samkvæmt 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, skulu allir landsmenn eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Undanfarin ár hafa farið fram athuganir á vegum stjórnvalda og sérfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar á því hvernig best sé að bregðast við auknu mikilvægi þjónustunnar í samræmi við framangreint markmið. Hins vegar hefur vantað yfirsýn og framtíðarstefnu í þjónustunni og verkaskipting og dreifing ábyrgðar innan málaflokksins hefur verið óljós.
    Draga má saman nokkur atriði sem eru til marks um hvernig verkefnum og ábyrgð er skipt á milli fagráðuneyta, sveitarfélaga og einkaaðila sem starfa á grundvelli þjónustusamnings við Sjúkratryggingar Íslands eða ráðuneytin. Í reglugerð um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga, nr. 262/2011, er fjallað um alla flutninga sjúkra og slasaðra utan sjúkrahúsa, hvort sem er í lofti, á láði og legi. Skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fer yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa með læknisfræðilega forsjá sjúkraflutninga yfir landinu. Þá er í 5. gr. fjallað um fagráð sjúkraflutninga sem skal veita velferðarráðuneytinu (nú heilbrigðisráðuneytinu) ráðgjöf um öll fagleg málefni sem varða sjúkraflutninga. Að öðru leyti fjalla lög um heilbrigðisþjónustu eða reglugerðir settar á grundvelli laganna ekki um það með hvaða hætti sjúkraflutningum skuli háttað. Sjúkraflugvél er starfrækt á grundvelli þjónustusamnings við Sjúkratryggingar Íslands og Rauði krossinn hefur annast rekstur sjúkrabílaflotans á grundvelli samnings sem gerður var við velferðarráðuneytið. Sá samningur rann út um árslok 2015 og hefur ekki verið endurnýjaður. Ýmsir aðrir koma að sjúkraflutningum, þar á meðal Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæslan. Þessir aðilar hafa þróað með sér verkaskiptingu og samstarf sem full ástæða er til að formfesta enn frekar. Þær stofnanir sem koma með einum eða öðrum hætti að þjónustunni skiptast einnig á milli fagráðuneyta og sveitarfélaga. Til dæmis vinnur Mannvirkjastofnun, undir yfirstjórn félags- og barnamálaráðherra, að samræmingu brunavarna í landinu og leiðbeinir sveitarstjórnum um kröfur sem gerðar eru til eldvarnaeftirlits og slökkviliða, sbr. 6. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000. Sveitarfélögin sjá um starfsemi slökkviliðanna. Þá fer heilbrigðisráðuneytið með málefni sjúkraflutninga og dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, sem oft veitir nauðsynlega aðstoð við framkvæmd sjúkraflutninga og bráðaþjónustu.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ýmsar ábendingar um atriði í þjónustunni sem þarfnast endurskoðunar. Brýnt er að þessi atriði verði sérstaklega tekin til skoðunar þegar mörkuð verður heildstæð opinber stefna um rekstur og skipulag þjónustunnar. Meðal annars kom fram að starf yfirlæknis utanspítalaþjónustu væri 50% starf, en það dygði ekki til þess að sinna uppbyggingarstarfi og gæðaeftirliti í málaflokknum. Skilgreina þyrfti betur hlutverk fagráðs sjúkraflutninga og koma á fót miðstöð eða samstarfsvettvangi sérfræðinga í málaflokknum svo tryggt verði að samráðsvettvangur verði um skipulag þjónustunnar. Þá komu fram ýmsar tillögur að því hvernig megi bæta menntun sjúkraflutningamanna hér á landi líkt og nánar er rakið hér á eftir.

Tillögur að úrbótum.
    Í tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 (þskj. 835, 509. mál) er lögð áhersla á að skapa heildrænt kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni. Meðal stefnumiða er að aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði jafnað með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vísað til þess árangurs sem náðst hefur erlendis af svokölluðum þekkingarsetrum (e. centres of excellence). Hugmyndir um slík þekkingarsetur komu einnig fram í umfjöllun nefndarinnar um utanspítalaþjónustu. Til þess að sú sérþekking sem verður til í þjónustunni nýtist sem best þarf að líta til þess hvernig best megi þjappa saman færni, kunnáttu og þekkingu með þeim hætti sem greinir í framangreindri tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í því sambandi var, við umfjöllun nefndarinnar, bent á þann árangur sem náðst hefur með stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar og Mennta- og þróunarseturs lögreglunnar sem hefur það lögbundna hlutverk að annast starfsnám nema í lögreglufræðum, hafa umsjón með símenntun lögreglumanna auk annarra verkefna er tengjast starfsemi lögreglunnar. Stofnun viðlíka miðstöðvar um bráðaþjónustu utan spítala mundi tryggja að vinnuferlar sjúkraflutningamanna, námskrá Sjúkraflutningaskólans, þjónustuviðmið, endurmenntun og gæðaeftirlit með þjónustunni væri samræmt. Mundi þannig skapast mun betri yfirsýn yfir þær úrbætur sem eru nauðsynlegar og hvernig best megi tryggja faglega menntun, endurmenntun og starfsþjálfun þeirra sem starfa við þjónustuna. Sams konar hugmyndir birtast að nokkru leyti í skýrslu um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi sem unnin var af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði 9. febrúar 2018. Í niðurstöðum skýrslunnar er lagt til að skipaður verði samráðshópur sem væri meðal annars ætlað það hlutverk að samræma verklag í þeim tilgangi að stytta viðbragðstíma og tryggja rétt viðbragð, bæta og samræma skráningu allra viðbragðsaðila, skipuleggja menntun þeirra sem sinna þjónustunni og meta mögulega þörf fyrir enn frekari þjónustu. Mikilvægt er að við framkvæmd nýrrar heilbrigðisstefnu verði það haft í forgrunni að koma á fót viðlíka samstarfsvettvangi.
    Við mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala er nauðsynlegt að tryggja samráð allra þeirra fagráðuneyta sem koma með einhverjum hætti að sjúkra- og neyðarflutningum auk fagaðila sem veita þjónustuna.
    Leita þarf lausna við því hvernig best megi standa að uppbyggingu og endurnýjun sjúkrabílaflotans. Tryggja þarf fjármagn til innkaupa á nýjum sjúkrabílum og tækjabúnaði til þess að koma til móts við breyttar þarfir og aukið álag í þjónustunni svo tryggja megi að þeir sem annast bráðaþjónustu utan spítala geti sinnt henni sem best. Þá komu fram tillögur um hvernig megi bæta menntun sjúkraflutningamanna hér á landi. Kom fram að námskrá Sjúkraflutningaskólans væri komin til ára sinna og full ástæða sé til endurskoðunar hennar. Taka mætti til skoðunar hvort ástæða sé til að koma á bráðatæknanámi á háskólastigi hér á landi en þá menntun hefur hingað til þurft að sækja til útlanda. Einnig hefur verið bent á mikilvægi þess að endurmennta heilsugæslulækna á landsbyggðinni þar sem atvik kunna að vera fá en mikilvægi þess að læknar séu reiðubúnir að bregðast við ekki minna. Með því að fela miðstöð eða samráðshópi um bráðaþjónustu utan spítala að annast um slíka endurskoðun verður hægt að tryggja að þekking þeirra sem koma að þjónustunni nýtist til hins ýtrasta við slíka endurskoðun.