Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1368  —  733. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.


     1.      Hvaða útgjöld hafa ráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra haft ár hvert frá árinu 2015 vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, svo sem á Facebook, Instagram, YouTube og Twitter?
    Upplýsingar um útgjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og stofnana sem undir það heyra og hafa einhver útgjöld vegna auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum ár hvert frá árinu 2015 má finna í eftirfarandi töflu:

Heiti stofnunar 2015 2016 2017 2018
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið 30.000 27.000 28.000 73.000
Umhverfisstofnun 111.439 210.017 151.940 285.540
Þingvallaþjóðgarður 0 10.000 0 0
Úrvinnslusjóður 0 0 0 100.000
Skipulagsstofnun 618 24.561 10.506 13.858
Landmælingar Íslands 0 0 0 9.700
Veðurstofa Íslands 0 0 5.300 0

     2.      Hvaða stefnu hefur ráðherra að því er snertir auglýsingakaup á samfélagsmiðlum?
    Ekki hefur verið mótuð stefna um auglýsingakaup umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á samfélagsmiðlum af hálfu ráðherra. Á sínum eigin samfélagsmiðlum hefur ráðherra ekki keypt auglýsingar.

     3.      Hvernig telur ráðherra það að kaupa auglýsingar eða kostaða dreifingu á erlendum samfélagsmiðlum samræmast stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla íslenska fjölmiðla?
    Markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu fjölmiðla tekur til starfsumhverfis fjölmiðla í víðu samhengi, sbr. skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 og drög að frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis sem kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Auglýsingamarkaðurinn skiptir þar miklu máli ásamt öðru og er mikilvægt að gagnsæi ríki um kaup opinberra aðila á auglýsingum, sbr. umfjöllun í framangreindri skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Er einnig mikilvægt til lengri tíma litið að fylgst verði með þróun auglýsingamarkaðar og hlutdeild samfélagsmiðla á honum og hvaða áhrif markaðshlutdeild slíkra miðla hefur á auglýsingatekjur annarra fjölmiðla. Eins og sjá má af svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur umfang auglýsingakaupa og kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og stofnunum sem undir það heyra verið takmarkað á umliðnum árum. Verður ekki séð, að svo stöddu, að slík auglýsingakaup raski stefnu ríkisstjórnarinnar um eflingu íslenskra fjölmiðla.
    Vert er að benda á að Umhverfisstofnun hefur veigamiklu hlutverki að gegna við fræðslu og miðlun upplýsinga til almennings, en það er sú stofnun ráðuneytisins sem er með hæstu útgjöldin til auglýsinga eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum, sbr. töflu í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.