Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 240  —  223. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum
(efling neytendaverndar o.fl.).


Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lögin eru ófrávíkjanleg.


    Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiðir af lögum þessum.
    Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig að lög annars ríkis takmarki þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laga þessara.

2. gr.


    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, sem orðast svo:

Lagaval.


    Hafi neytandi búsettur á Íslandi gert samning við lánveitanda sem hefur staðfestu í öðru ríki skulu íslensk lög gilda um samninginn ef:
     a.      undanfari samningsins var sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og nauðsynlegar ráðstafanir til samningsgerðarinnar af hans hálfu fóru fram hér á landi,
     b.      gagnaðilinn, eða umboðsmaður hans, tók við pöntun neytandans hér á landi, eða
     c.      samningur er um sölu vöru og neytandinn ferðaðist frá Íslandi til annars lands og gerði pöntun sína þar, að því tilskildu að ferðin hafi verið skipulögð af seljandanum í þeim tilgangi að hvetja neytandann til kaupanna.
    Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig að lög ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi um lánssamning sem er nátengdur yfirráðasvæði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ef það leiðir til kjara sem eru neytandanum óhagstæðari en leiðir af lögum þessum.

3. gr.


    Við 26. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Brjóti lánveitandi eða lánamiðlari gegn ákvæði 1. mgr. er neytanda ekki skylt að greiða heildarlántökukostnað láns.

4. gr.


    Á eftir 2. mgr. 29. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Neytendastofa getur krafið lánveitendur sem ekki eru starfsleyfisskyldir samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja til að meta áhrif lánastarfsemi á fjármálamarkað og neytendur. Neytendastofa getur krafist upplýsinga og gagna munnlega eða skriflega og skulu þau veitt innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
    Upplýsingar og gögn skv. 1. mgr. geta náð til:
     a.      fjölda útlána á tilteknu tímabili,
     b.      fjárhæðar útlána á tilteknu tímabili,
     c.      meðalfjölda lána á hvern neytanda,
     d.      aldursdreifingar neytenda, og
     e.      hlutfalls vanskila miðað við daga, fjárhæðir, lánshæfismat og aldurshópa.

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á grundvelli vinnu starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem skipaður var með bréfi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 11. júlí 2018.
    Formaður starfshópsins var Hákon Stefánsson lögmaður. Aðrir meðlimir starfshópsins voru Ásgeir Helgi Jóhannsson lögmaður, Fjóla Agnarsdóttir, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðmundur Ásgeirsson, lögfræðingur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur hjá BSRB, Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur hjá velferðarráðuneytinu (nú félagsmálaráðuneytinu), Sara Jasonardóttir, lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara, og Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu. Starfshópurinn fundaði haustið 2018 og skilaði skýrslu til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í janúar á þessu ári sem ber heitið Starfsumhverfi smálánafyrirtækja á Íslandi og tillögur til úrbóta. Í skýrslunni eru gerðar tillögur að úrbótum á starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem hafðar voru til hliðsjónar við frumvarpsgerðina.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um neytendalán til að efla neytendavernd á fjármálamarkaði. Frumvarpið felur í sér hluta af tillögum starfshópsins. Í skýrslu starfshópsins er lagt til að kannað verði hvort rétt sé að breyta lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, til að koma í veg fyrir að innheimtur sé kostnaður af neytendalánum umfram lögbundið hámark. Lögin falla undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins og er sá þáttur málsins til skoðunar þar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010, en veiting smáláns felst í því að neytanda er veitt lán til skamms tíma og óskar neytandi eftir útgreiðslu lánsins á heimasíðu lánveitanda eða með því að senda smáskilaboð úr farsíma í fyrirframgreint símanúmer. Það sem er einkennandi fyrir þessa tegund lána er stuttur lánstími, lágar lánsfjárhæðir og hár kostnaður sem áskilinn er úr hendi neytanda vegna lántökunnar.
    Árið 2013 tóku gildi lög um neytendalán, nr. 33/2013, sem fólu meðal annars í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB sem kveður á um réttindi neytenda og skyldur lánveitenda í samningum um neytendalán.
    Með lögunum voru jafnframt gerðar tvær breytingar sem ætlað var að tryggja nauðsynlega neytendavernd gagnvart smálánastarfsemi. Annars vegar var kveðið á um að lögin giltu um öll neytendalán óháð fjárhæð, þ.m.t. smálán. Hins vegar var kveðið á um að árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum mætti ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.
    Í kjölfar lagasetningarinnar tók að gæta lækkunar á kostnaði beintengdum lántöku smálána og var afgreiðslutími lánanna lengdur. Hins vegar var neytendum boðið að greiða svonefnt flýtigjald til að fá lánsumsókn afgreidda samstundis. Flýtigjaldið var ekki reiknað inn í árlega hlutfallstölu kostnaðar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2016 í máli nr. E-1935/2015 var staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála að sérstakur kostnaður vegna flýtiafgreiðslu lána teldist til heildarlántökukostnaðar samkvæmt lögunum.     Smálánafyrirtæki breyttu lánafyrirkomulagi í kjölfar úrskurða og ákvarðana Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála og hófu að veita lán í tengslum við kaup á rafbókum, en samhliða lántökunni gátu neytendur jafnframt tekið annað lán ótengt bókakaupunum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í máli nr. E-2895/2017 var staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála að kostnaður vegna kaupa á bókum teldist til heildarlántökukostnaðar samkvæmt lögunum og að tiltekið smálánafyrirtæki hefði brotið gegn ákvæðum laganna um árlega hlutfallstölu kostnaðar með því að innheimta gjald sem næmi 3.333,87% árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.
    Starfsemi smálánafyrirtækja hefur einnig sætt úrlausn hjá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála vegna óumbeðinna fjarskipta sem og hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki vegna lántökukostnaðar. Smálánafyrirtækin sem stjórnvöld hafa haft afskipti af voru íslenskir lögaðilar sem ráku starfsemi sína undir mismunandi vörumerkjum. Flest umræddra vörumerkja eru enn starfandi á íslenskum markaði en eru nú rekin af erlendum lögaðila sem skráður er í Danmörku.
    Skuldavandi tengdur starfsemi smálánafyrirtækja hefur orðið tilefni nokkurrar umræðu á Alþingi og í fjölmiðlum. Hagsmunaaðilar og og eftirlitsaðilar á neytendamarkaði hafa lýst yfir miklum áhyggjum af starfsemi smálánafyrirtækja enda er kostnaður þeirra hár, lánin markaðssett gagnvart ungu fólki, þeim sem höllum fæti standa og þeim sem hafa lítið milli handanna. Umboðsmaður skuldara gerði greiningu á greiðsluerfiðleikum þeirra sem hefðu leitað til stofnunarinnar vegna smálánaskulda, dags. 28. febrúar 2018. Í janúar 2019 skilaði starfshópur um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja jafnframt skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
    Helsta álitaefnið tengt starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi er lánskostnaður umfram löglegt hámark. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja er því lýst að smálánafyrirtæki hafi markvisst reynt að sniðganga ákvæði laganna um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar með ýmsum aðferðum. Í skýrslunni er því einnig lýst að aðgerðir stjórnvalda á sviði neytendaverndar vegna sniðgöngunnar hafi leitt til þess að smálánafyrirtæki er nú staðsett í Danmörku og stundi markaðssókn yfir landamæri gagnvart íslenskum neytendum. Ætla verði að ástæða þess fyrirkomulags sé ein leið til þess að sniðganga löglegt hámark lánskostnaðar. Núverandi ástand má því að mestu leyti rekja til tveggja þátta. Annars vegar er ekki kveðið skýrt á um afleiðingar þess að brotið er gegn ákvæði laganna um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Hins vegar eru lánin veitt erlendis frá.
    Þrátt fyrir að kveðið hafi verið á um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í lögum um neytendalán er ekki eins skýrt hvaða einkaréttarlegu afleiðingar það hefur fyrir lánveitendur og neytendur þegar ólögmæt lán eru boðin. Með frumvarpinu er stefnt að því að gera skýrara gagnvart neytendum hvaða rétt þeir hafa gagnvart innheimtu kostnaðar vegna ólögmætra lána og jafnframt að gera skýrara gagnvart lánveitendum hvaða áhætta fylgir því að veita ólögmæt lán.
    Ekki er hægt að ætlast til þess að hinn almenni neytandi sem þessi tegund markaðssóknar beinist að þekki réttarstöðu sína að því er varðar lagaval samninga sem gerðir eru yfir landamæri. Rétt þykir því að taka upp ákvæði í lögin sem skýra betur réttarstöðu neytenda og sem leiða sjálfkrafa til þeirrar niðurstöðu að íslensk lög gildi um lánssamning.
    Frumvarpið leggur til grundvallar markvissa nálgun. Með því er átt við að lagabreytingarnar hafi sem mest áhrif á fyrirtæki sem stunda ólögmæta lánastarfsemi en minni áhrif á önnur. Stefnt er að því að uppræta orsök þess meginvanda sem lýst er í skýrslu starfshópsins án þess að hafa skaðleg áhrif á samkeppni eða framboð á löglegum neytendalánum sem veitt eru í fjarsölu. Við greiningu á valkostum var höfð hliðsjón af tillögum í skýrslu starfshópsins og þær tillögur valdar sem mundu skila sem mestum árangri.
    Með frumvarpinu er réttarstaða neytenda og ábyrgð lánveitenda skýrð betur. Markmið frumvarpsins er að efla neytendavernd á fjármálamarkaði og takmarka eða koma í veg fyrir sniðgöngu laganna.

3. Meginefni frumvarpsins.
Ófrávíkjanleg ákvæði.
    Með frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á meginreglunni um að ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. tilskipunar 2008/48/EB skal tryggja að neytendur hafi ekki heimild til að afsala sér þeim rétti sem þeir hafa samkvæmt ákvæðum í landslögum sem eru til framkvæmdar tilskipuninni eða sem samsvara henni. Í þessu felst að tryggja verður að ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg gagnvart neytendum. Lagt er til að orðalag núgildandi ákvæðis verði gert skýrara og meira í samræmi við hliðstæð ákvæði um ófrávíkjanleika í íslenskum neytendarétti.
    Þá er lagt til að meginreglan um ófrávíkjanleika verði skýrð nánar þannig að óheimilt verði að semja um eða bera fyrir sig lög annars ríkis ef slíkt takmarkar neytendavernd laganna. Markmiðið er að tryggja að um lánssamninga fari eftir íslenskum rétti.

Lagaval.
    Lánssamningur getur haft tengsl við fleiri en eitt land. Til dæmis getur neytandi búsettur á Íslandi gert lánssamning við lánveitanda í Danmörku. Þegar svo er vaknar spurningin um hvers lands lög gilda um samninginn. Niðurstaðan getur ráðist af lagavalsreglum íslensks réttar og alþjóðlegs einkamálaréttar. Í lögum um neytendalán er hins vegar ekki að finna sérstakt ákvæði um lagaval. Neytendur verða því að reiða sig á ákvæði laga um lagaskil á sviði samningaréttar, nr. 43/2000, og bera fyrir sig neytendavernd ákvæðanna. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að kveða á um að íslensk lög gildi um samning ef íslenskur neytandi geri samning við erlendan lánveitanda að uppfylltum nánari skilyrðum. Markmiðið með þessu er að neytendur átti sig betur á réttarstöðu sinni og að niðurstaða um lagaval leiði sjálfkrafa af ákvæðum laga um neytendalán.
    Í 2. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að í 2. mgr. nýrrar 4. gr. a verði kveðið á um lagavalsreglu þegar samningur hefur náin tengsl við ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Lagt er til að ákvæðið verði sett til að uppfylla skilyrði 4. mgr. 22. gr. tilskipunar 2008/48/EB.

Kostnaður ólögmætra lána.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um afleiðingar sem ólögmætar lánveitingar hafa í för með sér. Lagt er til að neytanda sé óskylt að greiða heildarlántökukostnað láns ef lánveitandi eða lánamiðlari brýtur gegn ákvæði 26. gr. laga um neytendalán um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Með heildarlántökukostnaði er átt við allan kostnað, þ.m.t. vexti, verðbætur, þóknun, skatta og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning og lánveitanda er kunnugt um við samningsgerð, að frátöldum þinglýsingarkostnaði. Undir þetta fellur einnig kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingariðgjöld, ef skylda er að gera viðbótarþjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með auglýstum skilmálum og kjörum.
    Markmið breytinganna er að gera ákvæði 26. gr. skýrara og tryggja skilvirkari framfylgd þess. Ákvæðið á einnig að virka sem viðurlög fyrir fyrirtæki sem notast við eitt eða fleiri samningsákvæði í lánssamningi sem stríða gegn 26. gr. laganna. Þótt ákvæðið sé nokkuð afdráttarlaust er það hins vegar á ábyrgð lánveitanda að haga lánastarfsemi sinni í samræmi við góða viðskiptahætti og ófrávíkjanleg ákvæði laga.

Upplýsingaskylda.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að Neytendastofa fái heimild til upplýsingaöflunar samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Í skýrslu starfshópsins var talið mikilvægt að eftirlitsaðili hefði aðgengi að upplýsingum um útlánasafn lánveitenda sem ekki féllu undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í þeim tilgangi að fylgjast með umfangi starfseminnar og áhrifum hennar á hegðun neytenda. Upplýsingaöflun getur verið nauðsynleg fyrir Neytendastofu til að fylgjast með því hvaða áhrif lánastarfsemi hefur á markaðinn og neytendur, svo sem hvort hlutfall vanskila skeri sig úr á milli lánategunda. Upplýsingar geta einnig gefið vísbendingar um hvort lögbundið lánshæfismat lánveitanda veiti áreiðanlegar upplýsingar um líkur á því að neytandi geti staðið í skilum. Hátt hlutfall vanskila í útlánasafni gæti til að mynda verið vísbending um að lánshæfismat lánveitanda stæðist ekki kröfur laga um neytendalán. Ákvæðinu er ætlað að auðvelda Neytendastofu að fylgjast með markaðnum með almennum hætti í samræmi við eftirlitshlutverk sitt samkvæmt lögunum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Við útfærslu lagaákvæða um lagaval vegna lánssamninga yfir landamæri var hliðsjón höfð af lögum um lagaskil á sviði samningaréttar, nr. 43/2000. Þá var þess gætt að Ísland var ekki aðili að Rómarsamningnum frá 19. júní 1980 en Rómarreglugerðir Evrópusambandsins nr. 593/2008 og 864/2007 eru ekki teknar upp í EES-samninginn. Heimilt er því að taka upp lagavalsákvæði frumvarpsins í íslenskan rétt.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsemi fjármálastofnana og neytenda. Með frumvarpinu er brugðist við skýrslu starfshóps um starfsumhverfi smálánafyrirtækja á Íslandi. Í starfshópnum sátu fulltrúar BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Hagsmunasamtaka heimilanna, Neytendastofu, Samtaka fjármálafyrirtækja, Umboðsmanns skuldara og velferðarráðuneytisins (nú félagsmálaráðuneytisins). Starfshópurinn lauk störfum í janúar 2019. Í skýrslunni eru gerðar tillögur að úrbótum á starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem hafðar voru til hliðsjónar við frumvarpsgerðina.
    Áform um lagasetninguna voru send til kynningar hjá öðrum ráðuneytum 11. júní 2019 og birt í samráðsgátt stjórnvalda 12. júlí 2019, sbr. mál nr. 227/2019. Umsagnir bárust frá umboðsmanni skuldara, Hagsmunasamtökum heimilanna og Neytendasamtökunum. Í framhaldi af því voru frumdrög frumvarpsins birt í samráðsgáttinni þann 16. september 2019 og frestur veittur til umsagna til 24. september 2019. Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendasamtökunum og Neytendastofu. Við ritun frumvarpsins var höfð hliðsjón af athugasemdum sem bárust í samráði. Nokkrar breytingar voru gerðar til að auka skýrleika og samræma hugtakanotkun í greinargerð. Einnig var skerpt á því í greinargerð að lögin skuli gildi um samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Þá er er lagt til að í stað orðsins „endurgreiða“ í 3. gr. frumvarpsins komi orðið „greiða“.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið getur haft áhrif á fjármálafyrirtæki sem stunda lánastarfsemi samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 33/2013. Með frumvarpinu er ábyrgð lánveitenda á ólögmætum lánveitingum aukin. Aukin áhætta mun fylgja því að veita lán sem eru umfram leyfilegt hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar þar sem heildarlántökukostnaður fæst ekki endurgreiddur. Þá getur frumvarpið leitt til kostnaðar, einkum vegna vinnu lánveitenda sem ekki hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, við að svara upplýsingabeiðnum Neytendastofu telji stofnunin tilefni til að beita heimild til upplýsingaöflunar.
    Frumvarpið getur haft áhrif til hagsbóta fyrir neytendur. Taki neytendur lán sem ber árlega hlutfallstölu kostnaðar umfram löglegt hámark verður þeim ekki skylt að greiða slíkan kostnað. Þá er neytendum gert auðveldara að bera fyrir sig íslensk lög þegar gerður er lánssamningur við erlendan lánveitanda. Stefnt er að því að frumvarpið dragi úr skuldavanda neytenda vegna smálánaskulda.
    Markmið frumvarpsins er að efla neytendavernd á fjármálamarkaði og takmarka eða koma í veg fyrir sniðgöngu laganna. Breytingar frumvarpsins hafa að mestu leyti íþyngjandi áhrif á fyrirtæki sem stunda ólögmæta lánastarfsemi.
    Frumvarpið getur haft áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Með frumvarpinu er Neytendastofu veitt almenn heimild til upplýsingaöflunar frá lánveitendum til þess að meta áhrif lánastarfsemi á markaðinn og neytendur. Óvíst er hvort þörf verði á að nýta heimild til upplýsingaöflunar. Fari svo er stofnunin vel í stakk búin til að takast á við verkefni af því tagi. Frumvarpið felur hvorki í sér auknar tekjur né gjöld fyrir ríkissjóð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á afkomu ríkissjóðs vegna lagabreytinganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að kveðið verði skýrar á um þá meginreglu 4. gr. laga um neytendalán að ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg.
    Ákvæði 1. mgr. hefur skýrara inntak en núgildandi 4. gr. laganna. Kveðið er á um að óheimilt sé að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiða mundi af lögunum. Það leiðir hins vegar af ákvæðinu að aðilum er heimilt að semja um kjör sem eru neytendum hagstæðari en vera mundi samkvæmt lögunum.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Lagt er til að óheimilt sé að semja um eða bera fyrir sig að lög annars ríkis takmarki þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna. Ákvæðinu er ætlað að skýra nánar meginregluna í 1. mgr. Af ákvæðinu leiðir að ekki er unnt að sniðganga ófrávíkjanleg ákvæði laganna með samningi um að lög annars ríkis gildi um lánssamning. Þetta á bæði við þegar lánveitandi og neytandi eru búsettir hér á landi og þegar lánveitandi er búsettur erlendis og neytandi búsettur hér á landi. Ákvæðið nær jafnt til þeirra tilvika þegar samningur er fyrir hendi og þegar aðili ber fyrir sig að erlend lög gildi án þess að samið hafi verið sérstaklega um það.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til lagavalsákvæði með nýrri 4. gr. a. Ákvæði 1. mgr. byggist að nokkru á ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um lagaskil á sviði samningaréttar, nr. 43/2000. Sérstaklega er kveðið á um að íslensk lög skuli sjálfkrafa gilda um samning aðila þegar svo er ástatt sem lýst er í ákvæðinu. Fyrir þessu eru þó sett ákveðin skilyrði sem fram koma í málsgreininni. Nægilegt er að samningur uppfylli eitt þessara skilyrða. Markmið ákvæðisins er að tryggja að um samninga sem mest tengsl hafa við Ísland fari eftir íslenskum lögum.
    Ákvæði 2. mgr. nýrrar 4. gr. a er nýmæli. Með lögum um neytendalán, nr. 33/2013, var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánssamninga fyrir neytendur innleidd í íslenskan rétt. Í 4. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríkin skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að neytendur verði ekki sviptir þeirri vernd sem þessi tilskipun veitir þeim með því að velja lög þriðja lands sem gildandi lög fyrir lánssamninginn ef hann tengist náið yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja. Við innleiðingu tilskipunarinnar var ákvæði af þessum toga ekki tekið upp í lög um neytendalán, nr. 33/2013. Aðrar nauðsynlegar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar til að tryggja að 4. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar sé rétt innleidd. Ákvæði tilskipunarinnar byggist á þeirri forsendu að aðilar geti samið um að lög þriðja ríkis gildi um samning þegar þeir eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæði tilskipunarinnar miðar hins vegar að því að neytendur séu ekki sviptir rétti samkvæmt tilskipuninni í slíkum tilvikum. Sú aðstaða sem upp kann að koma samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar getur verið frábrugðin þeirri aðstöðu sem lagt er til að kveðið verði á um í 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. gr. frumvarps þessa. Markmið ákvæðisins er að lögfesta efni 4. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar. Þykir með hliðsjón af þessu rétt að leggja til ákvæðið sem hér um ræðir. Fyrirmynd ákvæðisins er 2. mgr. 3. gr. laga um neytendakaup, nr. 48/2003.

Um 3. gr.


    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins er nýmæli. Í nýrri 2. mgr. 26. gr. laganna er lagt til að neytendum verði óskylt að greiða heildarlántökukostnað láns þegar lánveitandi eða lánamiðlari brýtur gegn ákvæði 1. mgr. 26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Með þessu er átt við að neytandi þurfi einungis að endurgreiða heildarfjárhæð láns, þ.e. höfuðstól lánsins. Neytandi þarf því ekki að greiða kostnað vegna lánsins, sbr. skilgreiningu á heildarlántökukostnaði í h-lið 5. gr. laga um neytendalán, nr. 33/2013. Hafi neytandi þegar greitt kostnaðinn á hann rétt á endurgreiðslu samkvæmt ákvæðinu. Af ákvæðinu leiðir einnig að skuldari verður ekki krafinn um dráttarvexti af öðrum kröfum en heildarfjárhæð láns. Rétt þykir að skýrt kveða á um þær afleiðingar sem brot gegn ákvæði laganna um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar hefur í för með sér fyrir lánveitanda. Krefji lánveitandi neytendur um einhvern hluta heildarlántökukostnaðar ætti Neytendastofa að geta gripið til allsherjarréttarréttarlegra aðgerða gegn viðskiptaháttunum á grundvelli laganna.

Um 4. gr.


    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins er nýmæli og kveður á um heimild Neytendastofu til upplýsingaöflunar. Í 2. mgr. 29. gr. laga um neytendalán er þegar kveðið á um heimildir eftirlitsaðila til að afla upplýsinga og vísað til þeirra heimilda sem kveðið er á um í VIII. kafla laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í 1. mgr. 20. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, segir að eftirlitsaðili geti krafið þá sem lögin taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála og í 2. mgr. sömu greinar segir að þetta taki einnig til gagna. Heimild Neytendastofu til upplýsingaöflunar í núgildandi lögum er því bundin við úrlausn tiltekins máls. Með ákvæðinu er ætlunin að Neytendastofa geti aflað upplýsinga um lánastarfsemi með almennari hætti og ekki einungis í tengslum við úrlausn tiltekins máls.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. er kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi. Gert er ráð fyrir að lögin gildi um samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra.