Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 369  —  152. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um áfengisgjald.


     1.      Hver er ástæða þess að hærra áfengisgjald er lagt á öl en á vín?
    Í frumvarpi til laga nr. 93/1998, um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, er að finna eftirfarandi rökstuðning fyrir mismunandi áfengisgjaldi á öl og vín: „Æskilegt þykir að greina á milli einstakra flokka áfengra drykkja með þessum hætti í því skyni að löggjafinn geti kveðið á um mismunandi hátt áfengisgjald eftir því um hvers kyns áfengi er að ræða og þannig beitt gjaldtöku til neyslustýringar. Þess háttar neyslustýringu hefur verið beitt í ýmsum nágrannaríkjum. Flokkun til gjaldskyldu ræðst af flokkun vöru í tollskrá, en það þykir nauðsynlegt til að tryggja að ekki verði vafi á flokkun einstakra áfengistegunda til gjaldskyldu. Rétt er að taka fram að vöruflokkun tollskrárinnar byggist á alþjóðlegri tollflokkun vara.“
    Hafa ber í huga að þrátt fyrir að hærra áfengisgjald (krónur/sentilítra) sé lagt á öl en á vín þá eru fyrstu 2,25 sentilítrar af vínanda öls og víns undanþegnir áfengisgjaldi. Þar sem öl inniheldur alla jafna færri sentilítra af vínanda en vín er það hlutfallslega minna skattlagt. Sem dæmi þá eru greiddar 942 kr. í áfengisgjald af víni sem er 750 ml og með 13,5% í styrkleika og 111,3 kr. í áfengisgjald af öli sem er 330 ml og með 5% í styrkleika. Til þess að innbyrða sambærilegt magn af vínanda þarf 6 einingar af öli á móti einni einingu af víni. Þannig þyrfti að greiða 667,6 kr. í áfengisgjald af öli sem innihéldi sambærilegt magn af vínanda og vín sem ber 942 kr. áfengisgjald.

     2.      Kemur til greina að endurskoða álagninguna?
    Ekki stendur til að endurskoða álagningu áfengisgjalds á næstunni.