Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 981  —  411. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um starfsmannamál ráðuneytisins og stofnana þess.


     1.      Hversu oft á undanförnum sjö árum hefur ráðuneytið eða stofnanir þess greitt bætur fyrir ólögmætar uppsagnir starfsmanna vegna annars vegar dómsmála, sátta fyrir dómstólum og sáttamála hjá ríkislögmanni og hins vegar annars konar sáttar eða samkomulags?
    Á undanförnum sjö árum hefur ein stofnun ráðuneytisins greitt bætur vegna eins dómsmáls sem varðar ólögmæta uppsögn starfsmanns.

     2.      Hversu margir starfslokasamningar hafa verið gerðir undanfarin sjö ár í ráðuneytinu annars vegar og stofnunum ráðuneytisins hins vegar? Hver var árleg heildarfjárhæð í hverjum flokki uppgjörs fyrir sig?
    Þrír starfslokasamningar hafa verið gerðir í ráðuneytinu undanfarin sjö ár. Samningarnir hafa ekki falið í sér greiðslur umfram ákvæði í ráðningar- og kjarasamningum. Í stofnunum ráðuneytisins hafa verið gerðir samtals níu starfslokasamningar á tímabilinu og hafa greiðslur vegna þeirra numið um 17 millj. kr.

     3.      Hver er ábyrgð forstöðumanna sem segja starfsmanni upp á ólögmætan hátt á því tjóni sem þeir valda ríkissjóði og hvernig hefur verið farið með þá ábyrgð?
    Í 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er mælt fyrir um ábyrgð forstöðumanns á sinni stofnun. Ákvæðinu var ætlað að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald. Samhliða voru því gerðar auknar kröfur til forstöðumanna og ábyrgð þeirra aukin. Forstöðumanni er ekki aðeins gert að sjá til þess að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, heldur ber hann og ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Er hér einkum átt við þrjá þætti í starfsemi stofnunar, þ.e. þjónustu hennar við almenning, úrlausn verkefna að öðru leyti og fjárhagslegan rekstur. Í 2. mgr. 38. gr. er svo mælt fyrir um að fari útgjöld fram úr fjárlagaheimildum, sé verkefnum stofnunarinnar ekki sinnt sem skyldi eða þjónusta hennar teljist óviðunandi geti ráðherra veitt forstöðumanni áminningu skv. 21. gr. laganna eða, ef um ítrekaða eða stórfellda vanrækslu er að ræða, veitt honum lausn frá embætti. Fjármála- og efnahagsráðherrar hafa ekki til þessa nýtt heimild í 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og áminnt forstöðumann í framhaldi af dómsmálum sem varða ólögmætar uppsagnir.

     4.      Hversu áreiðanlegar telur ráðherra að upplýsingar um fjölda og fjárhæðir starfslokasamninga séu? Telur ráðherra hugsanlegt að gerðir séu starfslokasamningar sem fela í sér greiðslur úr ríkissjóði umfram lagaskyldur og kjarasamninga án vitneskju ráðuneytisins?
    Engin ástæða er til að ætla annað en að upplýsingar um fjölda og fjárhæðir starfslokasamninga séu áreiðanlegar. Slíkir samningar eru þó gerðir án aðkomu ráðuneytisins enda bera forstöðumenn stofnana ráðuneytisins ábyrgð á stjórn og rekstri viðkomandi stofnana, eins og fram kemur t.d. í sérlögum um viðkomandi stofnanir. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ber forstöðumaður ábyrgð á því að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf og að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

     5.      Hversu oft hafa starfsmenn ráðuneytisins eða stofnana þess haft forgang að sambærilegum störfum hjá ríkinu eftir að starf þeirra hefur verið lagt niður eða þeim hefur verið sagt upp og hvernig tryggir ráðuneytið að starfsmenn njóti þeirra réttinda?
    Það er meginregla í mannauðsmálum ríkisins að auglýsa skuli öll laus störf, sbr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þeim tilvikum þegar stofnanir hafa verið lagðar niður með lögum og verkefni þeirra færð yfir í aðra eða nýja stofnun hefur verið höfð hliðsjón af lögum um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem og sjónarmiðum um meðalhóf. Starfsmönnum sem áður sinntu störfunum hafa þá verið boðin ný störf hjá þeirri stofnun er tók við verkefninu. Það er því alla jafna löggjafinn sem tekur þessa ákvörðun hverju sinni með sérstökum ákvæðum í löggjöf þar sem gerðar eru breytingar á skipulagi stofnana eða verkefna. Fjármála- og efnahagsráðuneytið býr ekki yfir tölfræði yfir hversu oft starfsmönnum hefur verið tryggður forgangur til annarra starfa hjá stofnunum þess þegar breytingar hafa orðið á stofnanakerfi þess.