Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 983  —  444. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun starfsmanna.


     1.      Leiðir breytt samsetning heildarlauna ríkisstarfsmanna í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, á borð við þá sem ríkislögreglustjóri var nýlega í fréttum sagður hafa samið um við tiltekna aðstoðar- og yfirlögregluþjóna, til hækkunar lífeyris hlutaðeigandi starfsmanna?
    Af ákvæði 33. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, leiðir að verði breyting á samsetningu heildarlauna ríkisstarfsmanna í B-deild LSR, sem felur í sér að grunnlaun hækka, þá hefur það í för með sér hækkun lífeyris hlutaðeigandi starfsmanna úr sjóðnum, þar á meðal til þeirra yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna sem ríkislögreglustjóri samdi við. Falli breytingin hins vegar til innan árs áður en lífeyristaka hefst ber B-deild LSR ekki ábyrgð á auknum skuldbindingum vegna þessa heldur launagreiðandinn sjálfur. Gera má ráð fyrir því að þeir starfsmenn sem samkomulagið tekur til hefji lífeyristöku að minnsta kosti ári síðar að einum starfsmanni frátöldum.

     2.      Til hversu margra starfsmanna tóku fyrrgreindir samningar ríkislögreglustjóra?
    Alls skrifuðu tveir yfirlögregluþjónar og sjö aðstoðaryfirlögregluþjónar, sem eiga aðild að B-deild LSR, undir samkomulag við ríkislögreglustjóra. Einn aðstoðaryfirlögregluþjónn lét hins vegar af störfum vegna aldurs í lok desember 2019 en skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 ber embætti ríkislögreglustjóra því kostnaðinn af auknum skuldbindingum vegna hækkunar á lífeyri þess starfsmanns. Einn yfirlögregluþjónn og einn aðstoðaryfirlögregluþjónn eru hins vegar með óbreytt föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.
    Rétt er að geta þess að eftir að ríkislögreglustjóri skrifaði undir samkomulag við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna sína, gerði lögreglustjórinn á Suðurnesjum einnig samkomulag við einn aðstoðaryfirlögregluþjón sinn en sá lét af störfum vegna aldurs í lok október 2019. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 ber embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum því kostnaðinn af auknum skuldbindingum vegna þeirrar hækkunar.

     3.      Hver var meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna umræddra starfsmanna í krónum talið og hlutfallslega?
    Meðaltal fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá ríkislögreglustjóra fór úr um 672 þús. kr. í um 986 þús. kr. vegna samkomulags ríkislögreglustjóra. Meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu umræddra starfsmanna í krónum talið var því um 314 þús. kr. og hlutfallsleg hækkun nam um 48%.


     4.      Ef fyrrgreind breyting á samsetningu launa leiðir samkvæmt gildandi reglum til þess að mánaðarlegur lífeyrir umræddra starfsmanna verði við starfslok hærri en ella:
                  a.      hver verður hlutfallsleg hækkun lífeyris umræddra starfsmanna af fyrrgreindum ástæðum,
                  b.      hafa fyrrgreindir samningar áhrif á lífeyrisgreiðslur annarra en þeirra sem þeir taka til vegna svonefndrar eftirmannsreglu,
                  c.      hver eru kostnaðaráhrif fyrrgreindra samninga í krónum talið miðað við gildandi reglur og viðmið lífeyrissjóðsins fyrir tryggingafræðilegum úttektum og leiðir sá kostnaðarauki til skerðingar á framlögum til embættis ríkislögreglustjóra eða er hann færður sem almennur aukinn halli á skuldbindingum B-deildar?

    a. Mat á hlutfallslegri hækkun lífeyris hjá B-deild LSR vegna réttinda yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra byggist á upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá Fjársýslu ríkisins, LSR og Talnakönnun hf. Niðurstaðan er að skuldbindingar miðað við launin áður en samkomulagið var gert voru 563 millj. kr. en verða 872 millj. kr. miðað við launin samkvæmt samkomulaginu. Samkomulag ríkislögreglustjóra leiðir því til hækkunar um 309 millj. kr. vegna umræddra starfsmanna. Hlutfallsleg hækkun lífeyris þeirra af fyrrgreindum ástæðum nemur því um 55%. Því til viðbótar er hækkun sem embætti ríkislögreglustjóra ber sjálft kostnað af að fjárhæð 51 millj. kr. og hliðstæður kostnaður embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum nemur um 66 millj. kr., sbr. ákvæði 33. gr. laga nr. 1/1997.
    b. Samningarnir hafa aðeins áhrif á umrædda starfsmenn og þá sem gegnt hafa sama starfi, eða eiga eftir að gegna því, og taka lífeyri samkvæmt svonefndri eftirmannsreglu í 35. gr. laga nr. 1/1997 en ekki aðra.
    c. Samkvæmt því sem fram kemur í svari við a-lið þá er hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna fyrrgreindra samninga ríkislögreglustjóra 360 millj. kr. Sá kostnaðarauki leiðir ekki til skerðingar á framlögum til embættis ríkislögreglustjóra heldur færist hann sem almennur aukinn halli á skuldbindingum B-deildar LSR sem ríkissjóður þarf á endanum að fjármagna.
    Í þessu sambandi getur einnig verið tilefni til að skoða hugsanleg áhrif af því ef sams konar breytingar væru gerðar á launakjörum annarra starfsmanna í sambærilegri stöðu. Í því skyni fékk ráðuneytið Talnakönnun hf. einnig til að reikna hækkun á lífeyrisskuldbindingum vegna réttinda yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna, núverandi og fyrrverandi, hjá B-deild LSR ef allir fengju sams konar breytingu á viðmiðunarlaunum og hjá embætti ríkislögreglustjóra. Talnakönnun hf. fékk lista með 26 starfandi yfirlögregluþjónum og aðstoðaryfirlögregluþjónum og 33 lífeyrisþegum sem þiggja eftirlaun samkvæmt eftirmannsreglu miðað við stöðuna í desember 2019. Miðað var við upplýsingar um persónuréttindi þeirra í árslok 2018 og gert ráð fyrir 2% viðbót hjá starfandi frá áramótum og út desember. Miðað er við að starfandi hefji töku eftirlauna 65 ára gamlir. Forsendur sem notaðar voru eru tryggingafræðilegar forsendur, sem verða notaðar við úttekt á B-deild LSR í árslok 2019. Niðurstaðan er að lífeyrisskuldbindingar miðað við núverandi laun eru 3.481 millj. kr. og 5.391 millj. kr. miðað við hækkun launanna og breytta samsetningu þeirra. Þetta er hækkun um 1.910 millj. kr.

     5.      Hversu margir forstöðumenn ríkisstofnana hafa heimild til að auka skuldbindingar ríkissjóðs með hliðstæðum hætti og ríkislögreglustjóri, þ.e. með breytingum á samsetningu heildarlauna starfsmanna viðkomandi stofnana?
    Allir forstöðumenn stofnana ríkisins fara með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna og hafa því heimild til að gera breytingar á samsetningu heildarlauna starfsmanna í samræmi við kjarasamninga og stofnanasamninga. Almennt verður ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármála- og efnahagsráðuneytis.
    Breyting á samsetningu heildarlauna er tvíþætt ákvörðun. Annars vegar tekur forstöðumaður afstöðu til þess hvaða vinnumagni hann hyggst tryggja að viðkomandi starfsmaður skili og hins vegar metur hann hvort inntak starfsins hafi breyst þannig að hann geti dregið úr heildarvinnumagni en á móti gert ráð fyrir meiri afköstum innan hins reglubundna vinnutíma. Hækkun dagvinnulauna með breyttri samsetningu heildarlauna getur því aðeins komið til að um sé að ræða breytingu á inntaki starfs sem leiði til nýrrar röðunar samkvæmt þeim viðmiðum sem er að finna í stofnanasamningi viðkomandi stofnunar.

     6.      Telur ráðherra að forstöðumenn ríkisstofnana eigi frjálst mat um það hverjir af starfsmönnum ríkisins fá notið aukinna lífeyrisréttinda, sbr. fyrrgreinda samninga ríkislögreglustjóra?
    Ákvörðun ríkislögreglustjóra var sögð byggð á kjarasamningi og stofnanasamningi embættisins við Landssamband lögreglumanna. Kjarasamningar ríkisins eru þannig uppbyggðir að í miðlægum kjarasamningi er samið um þætti eins og vinnutíma, orlof, veikindarétt og fleira og almennar launahækkanir, en þar er hins vegar ekki gengið frá forsendum launasetningar. Lokahönd er lögð á kjarasamningsgerðina með gerð stofnanasamninga sem eru hluti af kjarasamningum. Stofnanasamningar eru sérstakir samningar milli stofnana og stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamninga að þörfum stofnana og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi eða öðru því sem gefur stofnunum sérstöðu. Helsta markmiðið með þessu samningalíkani er að færa ákvarðanir um launasetningu nær vettvangi. Stofnanir hafa síðan tækifæri til að umbuna starfsmönnum sínum á grundvelli mats á persónu- og tímabundnum þáttum, svo sem menntun, reynslu, og frammistöðu.
    Í stofnanasamningi skal semja um grunnröðun starfa og hvaða þættir eða forsendur skuli ráða röðuninni. Þar skulu fyrst og fremst metin þau verkefni og skyldur sem í starfinu felast auk þeirrar færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þarf til að geta innt starfið af hendi. Þá skal litið til skipurits stofnunar eða annars formlegs starfsskipulags við gerð samningsins. Starfslýsingar eru ein af forsendum röðunar starfa í launaflokka og skulu þær endurskoðaðar í takt við þróun starfa, t.d. í tengslum við starfsmannasamtöl. Samkomulag um fasta yfirvinnu eða annars konar viðbótargreiðslur á ekki heima í stofnanasamningi.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. geta breytingar á föstum launum fyrir dagvinnu hjá tilteknum sjóðfélaga haft í för með sér hækkun lífeyris við starfslok og þannig aukið skuldbindingu ríkissjóðs við B-deild LSR, sbr. 33. gr. laga nr. 1/1997. Falli breytingin hins vegar innan árs áður en lífeyristaka hefst ber launagreiðandi sjálfur ábyrgð á auknum skuldbindingum vegna þeirra hækkana. Ákvæði laga nr. 1/1997 gera því ráð fyrir því að til þess geti komið að launagreiðendur/forstöðumenn geri breytingar á föstum launum fyrir dagvinnu. Við breytingu á föstum launum fyrir dagvinnu verða forstöðumenn hins vegar að gæta að því að slíkar breytingar falli innan samþykkts stofnanasamnings og falli að grunnröðun starfa og þeirra þátta og/eða forsenda sem ráða skuli röðuninni, sbr. það sem fram kemur hér að framan. Forstöðumenn ríkisstofnana hafi því ekki frjálst mat um það hverjir af starfmönnum ríkisins fá notið aukinna lífeyrisréttinda þó svo að launasetningin sé hjá þeim heldur ber þeim að taka mið af stofnanasamningi og starfslýsingu við launasetningu starfsmanna sinna.