Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1051  —  505. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

Kjaratölfræðinefnd.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 26. nóvember 2019. Nefnd um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Með nefndinni er stofnað til samstarfs heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um framangreint en nefndinni er m.a. ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga.

Nefnd um löggjöf um hlutdeildarlán vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 28. október 2019. Hlutverk nefndarinnar verður að semja frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis), um úrræði stjórnvalda til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis á grundvelli tillagna starfshóps félags- og barnamálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað og undirbúningsvinnu félagsmálaráðuneytis og Íbúðalánasjóðs. Lagt er til grundvallar að stuðningur stjórnvalda við fyrstu kaup nái auk þeirra sem eru að festa kaup á íbúðarhúsnæði í fyrsta sinn til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár að nánari skilyrðum uppfylltum. Þá er nefndinni jafnframt falið að semja drög að reglugerð á grundvelli framangreindrar löggjafar. Áhersla er lögð á að samráð verði haft við samtök aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga við útfærslu tillagna nefndarinnar.

Nefnd um endurskoðun löggjafar um húsaleigumál (vegna tillagna átakshóps um húsnæðismál).
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 28. október 2019. Hlutverk nefndarinnar er að taka tillögur 11, 13, 14 og 15 í skýrslu átakshóps um húsnæðismál til nánari skoðunar og, eftir atvikum, útfærslu í formi lagabreytinga með hliðsjón af þeirri undirbúningsvinnu sem fram hefur farið, m.a. hjá leiguvettvangi Íbúðalánasjóðs og félagsmálaráðuneytisins, og þeim hugmyndum og sjónarmiðum sem fram komu á opnum samráðsdegi stjórnvalda um leigumarkaðinn sem haldinn var 29. maí 2019.

Nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 19. september 2019. Verkefni nefndarinnar er að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og vinna frumvarp í því sambandi þar sem m.a. verði brugðist við fyrirliggjandi álitum frá umboðsmanni Alþingis. Jafnframt er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Nefnd í því skyni að sporna gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 11. september 2019. Verkefni nefndarinnar er ritun lagafrumvarps þar sem einkum verði litið til aðgerða sem tilgreindar eru í stuðningi stjórnvalda við svokallaða lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði og falla undir málefnasvið félags- og barnamálaráðherra, þ.m.t. aðgerða gegn brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að nefndin hagi störfum sínum með þeim hætti að ráðherra verði unnt að leggja frumvarpið fram á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2020.

Starfshópur um málefni aldraðra.
Skipaður af félags-og barnamálaráðherra 4. september 2019. Verkefni starfshópsins er ap fjalla um málefni aldraðra á breiðum grundvelli:
          Hvernig fyrirkomulagi öldrunarþjónustu verði best háttað.
          Lífskjör aldraðra, þar á meðal hvernig eldri borgarar geti aukið ráðstöfunartekjur sínar með aukinni atvinnuþátttöku og frestun töku lífeyris.
          Lífsskilyrði aldraðra, aldursvæn samfélög og hvernig draga megi úr líkum á félagslegri einangrun aldraðra.
          Hvernig nýta megi nútímatækni betur í þágu aldraðra.
          Hvort ástæða sé til að breyta gildandi fyrirkomulagi um greiðsluþátttöku íbúa á hjúkrunarheimilum.
          Stytta biðtíma eftir hjúkrunarrými og bæta þjónustu við íbúa.

Starfshópur til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni.
    Skipaður af félags- og barnamálaráðherra 3. september 2019. Verkefni starfshópsins er að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu en margar konur þurfa að dveljast fjarri heimabyggð í einhvern tíma til að hafa öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á meðgöngu. Starfshópnum er ætlað að leggja fram tillögur að leiðum sem koma til móts við aðstæður þessara kvenna og fjölskyldna þeirra, hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir 31. desember 2019 þannig að þær nýtist m.a. við vinnu nefndar í tengslum við heildarendurskoðun laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, eftir því sem við getur átt.

Nefnd til undirbúning sameiningar Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 21. ágúst 2019. Verkefni nefndarinnar er m.a. að gera samrunaáætlun, fylgja áætluninni eftir og samræma aðgerðir stofnanna til undirbúnings gildistöku laganna. Jafnframt skal nefndin undirbúa gerð nauðsynlegra löggerninga vegna sameiningarinnar. Nefndin lýkur störfum þegar lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa tekið gildi.

Nefnd í tengslum við réttindi starfsmanna sem starfa við þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Skipaður af félags- og barnamálaráðherra 19. júní 2019. Verkefni nefndarinnar er m.a. að meta hvort réttindi starfsmanna sem starfa við þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir séu virt, svo sem hvað varðar vinnutíma, veikindaleyfi, orlof og vinnuaðstæður. Jafnframt skal nefndin standa fyrir könnun meðal starfsmanna sem starfa við veitingu umræddrar þjónustu og skila síðan ráðherra skýrslu um niðurstöður könnunarinnar þar sem sérstök áhersla verði lögð á umfjöllun um fyrrnefnd atriði. Þá er það hlutverk nefndarinnar að koma með tillögur um breytingar á lögum eða reglugerðum að því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem hér um ræðir, gerist þess þörf að mati nefndarinnar, m.a. út frá niðurstöðum fyrrnefndrar könnunar.

Starfshópur um móttökuáætlanir sveitarfélaga.
    Skipaður af félags- og barnamálaráðherra 5. mars 2019. Verkefni starfshóps um innleiðingu á samræmdri móttöku flóttafólks samkvæmt tillögum nefndar um samræmda móttöku flóttafólks, einkum hvað varðar móttökusveitarfélög, eru að:
          endurskoða greiðslufyrirkomulag ríkis til sveitarfélaga vegna samræmdrar móttöku flóttafólks í samræmi við tillögur nefndar um hlutverk móttökusveitarfélags,
          leggja fram nánari tillögur um innleiðingu búsetufyrirkomulags fyrir flóttafólk eftir að það hefur samþykkt tilboð um að flytjast til móttökusveitarfélags,
          koma með nánari tillögur um þjónustu og ábyrgð við fylgdarlaus börn.

Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna.
    Skipaður af félags- og barnamálaráðherra 15. janúar 2019. Hlutverk stýrihópsins er að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta og móta stefnu Íslands, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna, forgangsraða og útfæra þau markmið í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi haustið 2019. Í framhaldi af því skal hópurinn vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar stefnu og áætlunar. Ráðherra og stýrihópnum til ráðgjafar verður sérstakt ráð með fulltrúum stofnana, félagasamtaka og fleiri aðilum samfélagsins þar sem börn munu fá beina aðkomu og stuðning við að tjá afstöðu sína.
    Auk fyrrgreindra sjónarmiða um samhæfingu innan Stjórnarráðsins er jafnframt brýnt að stuðla að virkri þverpólitískri umræðu og samstöðu um málefni barna með samvinnu stýrihópsins við þingmenn og þingnefndir. Því mun stýrihópurinn starfa með nefnd þingmanna um málefni barna skipuðum af félags- og barnamálaráðherra, með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, þar sem kraftar verða sameinaðir með það að markmiði að styrkja og samhæfa þjónustu við börn, tryggja að hún verði veitt þegar þörf krefur og sjá til þess að þjónustan verði samfelld og gangi þvert á þjónustukerfi.

Nefnd um endurskoðun laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum, vegna rafbíla og heimagistingar.
    Skipuð af félags- og barnamálaráðherra 1. janúar 2019. Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir þau álitaefni sem upp geta komið innan húsfélaga á grundvelli laga um fjöleignarhús í tengslum við rafbíla og heimagistingu og hvort ástæða sé til að bregðast við þeim með breytingum á lögum um fjöleignarhús í ljósi reynslu af framkvæmd laganna og stefnu stjórnvalda.
    Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum til ráðherra í formi frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús eigi síðar en 1. mars 2019.

Verkefnisstjórn um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 6. desember 2018. Í minnisblaði sem félags- og jafnréttismálaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn Íslands föstudaginn 16. nóvember 2018 eru lagðar fram ýmsar tillögur til að fylgja eftir ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra, en þar segir: „Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þess.“
    Þá er lagt er til að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum félags- og jafnréttismálaráðherra, forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og Íbúðalánasjóðs sem hafi samráð við aðila vinnumarkaðar, lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og annarra hlutaðeigandi sem fari yfir ofangreindar tillögur og fleiri aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn.

Aðgerðahópur um verkefnið karlar og jafnrétti.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 28. nóvember 2018. Aðgerðahópur um verkefnið karlar og jafnrétti er skipaður í samræmi við verkefni 18 í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Meginhlutverk aðgerðahópsins er annars vegar að beita sér fyrir aðgerðum stjórnvalda um að auka þátttöku drengja og karla í öllu starfi og stefnumótun á sviði jafnréttismála og hins vegar að vinna tillögur um hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Aðgerðahópurinn skal ljúka störfum og skila skýrslu með tillögum haustið 2019 til félags- og jafnréttismálaráðherra og ráðherranefndar um jafnréttismál þar sem m.a. skal gera grein fyrir stöðu þekkingar um karla og jafnrétti og setja fram tillögur að rannsóknum og aðgerðum. Horft skal til fyrirmynda og stefnumótunar um karla og jafnrétti á Norðurlöndunum.

Samráðshópur vegna móttöku flóttafólks 2018–2020.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 20. nóvember 2018. Skv. 12. gr. viðmiðunarreglna flóttamannanefndar, dags. 10. maí 2013, um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks, skipar ráðherra samráðshóp vegna stuðnings og aðlögunar við flóttafólk í hvert sinn sem gerður er samningur við nýtt sveitarfélag, sbr. 11. gr. Samráðshópinn skipa tveir fulltrúar sveitarfélags, fulltrúi Rauða krossins á Íslandi, fulltrúi deildar Rauða krossins í viðkomandi sveitarfélagi og fulltrúi velferðarráðuneytis sem er formaður hópsins. Verkefni samráðshópsins er að tryggja sem best samræmi og samhæfingu vegna móttöku og aðstoðar við flóttafólkið og greitt flæði upplýsinga til flóttamannanefndarinnar og ráðuneytisins. Undirritaður hefur verið samningur milli velferðarráðuneytisins og Ísafjarðarbæjar, Mosfellsbæjar og Fjarðabyggðar og einnig Rauða krossins á Íslandi, um móttöku, aðstoð og stuðning við hóp flóttafólks 2018–2020. Skipað er í samráðshópinn til eins árs.

Stýrihópur um málefni utangarðsfólks.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 15. nóvember 2018. Vandi utangarðsfólks er fjölþættur og ábyrgð á úrlausnum liggur bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Mikilvægt er að samfelld og heildstæð félags- og heilbrigðisþjónusta standi utangarðsfólki til boða eftir því sem hentar hverju sinni. Velferðarráðuneytinu hafa borist erindi frá umboðsmanni Alþingis, Velferðarvaktinni og Reykjavíkurborg varðandi málefni utangarðsfólks. Hlutverk hópsins er að skoða þær ábendingar, hugmyndir og tillögur sem fram koma í bréfum ofangreindra aðila sem lúta að því að koma upp dagdvöl, bæta aðgengi að meðferð við vímuefnavanda, fjölga áfangaheimilum, útvega atvinnutækifæri, hjúkrunarrými fyrir eldra utangarðsfólk, húsnæðisvanda utangarðsfólks og skoða leiðir til að bæta málsmeðferðartíma.

Stýrihópur sérfræðinga Stjórnarráðsins um framkvæmd vottunar- og faggildingarmála.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 25. október 2018. Stýrihópur sérfræðinga Stjórnarráðsins um framkvæmd vottunar- og faggildingarmála samkvæmt tillögu ráðherranefndar um jafnréttismál sem lögð var fram á fundi nefndarinnar 3. maí 2018. Stýrihópnum er ætlað að fjalla um þau álitamál sem upp hafa komið við innleiðingu á jafnlaunastaðli ÍST 85 og til að tryggja framgang jafnlaunavottunar í samræmi við lög nr. 56/2017, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun). Hópnum er einnig falið að skilgreina viðmið og fyrirmæli um framkvæmd úttekta og vottunar samkvæmt staðlinum ÍST 85 Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar og fjalla um stöðu faggildingarmála með tilliti til reglugerðar 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Stýrihópnum er ætlað að vera ráðherranefnd um jafnréttismál til ráðgjafar og skal upplýsa nefndina með reglubundnum hætti. Gert er ráð fyrir að hópurinn afhendi ráðherra reglulega stöðuskýrslur sem fjalli eftir atvikum um afmörkuð viðfangsefni og leggi fram tillögur til úrbóta. Hópurinn skal fylgjast með framvindu tillagnanna og eiga samráð við þá sem málið varðar, m.a. Jafnréttisstofu, vottunarstofur, faggildingarsvið Einkaleyfastofu og samtök aðila vinnumarkaðarins. Að ári liðnu verði starf og skipan stýrihópsins metið og endurskoðað og ákvörðun tekin um framhald starfsins.

Samstarfshópur til að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 24. október 2018. Í því sambandi þykir m.a. mikilvægt að tryggja samstarf þeirra aðila sem hafa eftirlit á innlendum vinnumarkaði þannig að komi upp alvarleg mál séu þau til lykta leidd og þeir sem brotlegir eru dregnir til ábyrgðar. Þannig verði dregið úr líkum á að vinnuveitendur komist upp með að brjóta gegn ákvæðum laga og/eða ákvæðum kjarasamninga, jafnvel ítrekað. Slík brot bitna illa á launafólki auk þess sem þau geta grafið undan starfsemi annarra fyrirtækja sem fara að ákvæðum laga og kjarasamninga og spillt þannig forsendum eðlilegrar samkeppni. Hlutverk samstarfshópsins er m.a. að leggja til aðgerðir sem vænlegar þykja til árangurs hvað varðar framangreint. Einnig skal samstarfshópurinn leggja til sameiginleg markmið eftirlitsaðila á vinnumarkaði og skilgreina mælikvarða til að meta árangurinn af þeim aðgerðum sem lagðar verða til af hálfu hópsins.

Þingmannanefnd um málefni barna.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 8. október 2018. Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað endurskoðun á félagslegri umgjörð og þjónustu við börn með sérstakri áherslu á snemmtæka íhlutun. Stefna þarf að þverpólitískri nálgun og sátt þar sem stefnumótun er unnin að vel yfirlögðu ráði og byggt á niðurstöðum þverfaglegra rannsókna með samvinnu þvert á kerfi. Með þetta markmið að leiðarljósi rituðu ráðherrar félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála og samgöngu- og sveitarstjórnarmála auk Sambands íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu 7. september 2018 um aukið samstarf milli málefnasviða sem snúa að velferð barna.

    Nefnd þingmanna er skipuð fulltrúum allra þingflokka þar sem kraftar verða sameinaðir með það að markmiði að styrkja og samhæfa þjónustu við börn, að hún verði veitt þegar þörf krefur, samfellt þvert á þjónustukerfi þar sem ábyrgð og verkaskipting verði skýr og eftirfylgd þjónustu tryggð. Nefndin fær upplýsingar sem teknar hafa verið saman um stöðu og þróun í þjónustu við börn og er ætlað að leggja fram tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og framkvæmd þjónustunnar til að ná fyrrgreindu markmiði. Jafnframt verður skipaður þverfaglegur hópur sérfræðinga frá hlutaðeigandi ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem mun starfa með þingmannahópnum.

Faghópur um samfélagslega virkni fyrir einstaklinga með geðrænan vanda.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 28. september 2018. Ráðherra hefur ákveðið að skipa faghóp um samfélagslega virkni fyrir einstaklinga með geðrænan vanda. Hlutverk faghópsins er að skilgreina hvers konar þjónustu, fjármagnaðrar af hinu opinbera, er þörf á sviði félagsþjónustu og vinnumarkaðsaðgerða fyrir fólk með geðrænan vanda. Mikilvægt er að fólk með geðrænan vanda hafi aðgang að fjölbreyttum þjónustu- og virkniúrræðum til að auka lífsgæði og efla samfélagslega þátttöku með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði og virkja þá reynslu og þekkingu sem það býr yfir. Hópurinn er ólíkur innbyrðis og því þýðingarmikið að þjónustan sem í boði er sé sem fjölbreyttust og miðuð að þörfum einstaklinganna þannig að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi í því skyni að verða virkir í samfélaginu. Horft verði til snemmtækra inngripa og tryggt að þjónustan sé samfelld og samþætt þannig að komið sé í veg fyrir að einstaklingarnir falli milli þjónustukerfa. Áhersla skal því lögð á þverfaglega nálgun sem stuðlar að nánu samstarfi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem og vinnumála- og skólakerfisins. Faghópnum er eingöngu ætlað að fjalla um innihald og gæði þjónustunnar án tillits til framkvæmdaraðila, þ.e. þess sem veitir þjónustuna.

Starfshópur um fortíð og framtíð Íbúðalánasjóðs.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 5. september 2018. Starfshópnum er falið það verkefni að vinna að lausn á fortíðarvanda fjármögnunar almennra lána Íbúðalánasjóðs á gildistíma eldri laga og aðskilnaði hans frá starfsemi nýrrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Aukið framboð lána á húsnæðislánamarkaði, fyrst með tilkomu bankanna inn á markaðinn og á síðustu tveimur árum með stórauknum útlánum lífeyrissjóðanna til húsnæðiskaupa, ásamt þeim skilyrðum sem sett hafa verið á útlánastarfsemi Íbúðalánasjóðs, hefur gert það að verkum að uppgreiðslur á eldri lánum sjóðsins hafa aukist hratt. Í ljósi þess að skuldir sjóðsins eru óuppgreiðanlegar, verðtryggðar og með jöfnum greiðslum en eignir sjóðsins eru hins vegar uppgreiðanlegar og ekki nema hluti þeirra verðtryggður er afar mikilvægt að hið opinbera leiti leiða til þess að draga úr áhættu af þessu misræmi og áhrifum þess á lánasafnið. Helstu áhættuþættir í efnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs eru fólgnir í áhættu tengdri auknum uppgreiðslum, áhættu tengdri lækkun markaðsvaxta og áhættu tengdri auknu misvægi í greiðsluflæði.
    Starfshópum er ætlað að koma með tillögur að því hvernig hið opinbera geti dregið úr áhættu sinni með breytingum á fyrirkomulagi rekstrar lánasafnsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að farið verði í endurskipulagningu fjármálakerfisins. Vinna starfshópsins skal taka mið af þeirri stefnumörkun.

Aðgerðahópur í því skyni að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 24. ágúst 2018. Verkefni aðgerðahópsins er m.a. að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir að aðgerðahópurinn vinni að nánari útfærslu á einstaka verkefnum hópsins og líti í því sambandi m.a. til aðgerða annarra ríkja hvað þetta varðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að aðgerðahópurinn miði aðgerðir sínar við niðurstöður rannsókna nefndar sem ráðherra hefur skipað og falið er að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum.

Ráðgjafahópur til að vinna með nefnd sem falið er að semja nýja framkvæmdaáætlun í barnavernd skv. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 28. júní 2018. Nefnd sem falið var að semja nýja framkvæmdaáætlun í barnavernd mun leiða starf ráðgjafahópsins. Í nefndinni eru Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu, sem leiðir vinnunna ásamt Birnu Sigurðardóttur, sérfræðingi í velferðarráðuneytinu, Páll Ólafsson, sviðsstjóri ráðgjafar- og fræðslusviðs Barnaverndarstofu, Sigrún Þórarinsdóttir, félagsþjónustufulltrúi á lögfræði- og velferðarsviði Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Sigurður Örn Magnússon, deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Nefnd sem falið er að semja nýja framkvæmdaáætlun í barnavernd.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 19. júní 2018. Nefndinni er falið að semja nýja framkvæmdaáætlun í barnavernd skv. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga en þar segir: „Ráðherra leggur fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum.“
    Gert er ráð fyrir að með nefndinni starfi ráðgjafahópur með fulltrúum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum félagsmálastjóra á Íslandi, fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd í Félagsráðgjafafélagi Íslands, Barnaheillum, UNICEF, umboðsmanni barna, Geðhjálp, Olnbogabörnum, Félagi um foreldrajafnrétti, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sálfræðingafélagi Íslands, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Félagi fósturforeldra og Vímulausri æsku.

Starfshópur um greiningu á þörf fyrir úrræði fyrir börn með vímuefnavanda.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 25. júní 2018. Hlutverk starfshópsins er að greina þörf á úrræðum fyrir þennan hóp, en mikilvægt er að til staðar séu fjölbreytileg úrræði fyrir börn með vímuefnavanda.

Starfshópur um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 19. júní 2018. Hlutverk starfshópsins er m.a. að koma með tillögur um hvernig unnt sé að styðja betur fanga og fyrrum fanga til þátttöku í samfélaginu að lokinni afplánun, auka virkni þeirra til atvinnuþáttöku og/eða náms, draga úr endurkomutíðni í fangelsi, lækka hlutfall þeirra sem verða öryrkjar í kjölfar afplánunar og draga úr félagslegum vandamálum þeirra.

Verkefnastjórn um stefnumótun/framtíðarsýn í barnavernd til ársins 2030.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 25. maí 2018. Vinna við stefnumótun í barnavernd er undanfari þess að gera breytingar á regluverki sem um þennan málaflokk gildir, sbr. aðgerð í gildandi framkvæmdaáætlun um barnavernd. Áður en barnaverndarlög verða endurskoðuð telur velferðarráðuneytið æskilegt að móta stefnu með hliðsjón af þeim breytingum sem hafa orðið í samfélaginu, reynslu af vinnu á grunni gildandi laga og framtíðarsýn um þróun þjónustunnar. Gert er ráð fyrir að verkefnastjórnin skili tillögum sínum og aðgerðaáætlun til ráðherra eigi síðar 1. september 2018.

Nefnd í því skyni að bregðast við athugasemdum GRECO (e. Group of States Against Corruption) varðandi skipan dómara í Félagsdóm samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 7. maí 2018. Í úttekt GRECO frá árinu 2013 voru athugasemdir gerðar við að hvorki væru gerðar sérstakar kröfur til þeirra sem skipaðir eru dómarar við Félagsdóm né væru í gildi sérstakar reglur um skipanina samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þó er tekið fram að kveðið sé á um í lögunum að dómarar sem Hæstiréttur skipar í Félagsdóm skuli hafa lokið embættisprófi í lögfræði. Fram kemur að athugasemdir GRECO séu ekki síst settar fram í ljósi þess að kveðið sé á um í lögunum að mál sem höfða má fyrir Félagsdómi skuli ekki flutt fyrir almennum dómstólum, nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar. Enn fremur séu úrskurðir og dómar Félagsdóms endanlegir þar sem þeim verði ekki áfrýjað. Með vísan til þessa telja samtökin að lágmarkskröfur ætti að gera til þeirra sem skipaðir eru dómarar við Félagsdóm og að skipan þeirra ætti jafnframt að fara í gegnum ráðningarferli þar sem m.a. væri tryggt sjálfstæði og óhlutdrægni þeirra sem skipaðir eru hverju sinni auk þess sem stöðu dómara við Félagsdóm ætti að auglýsa líkt og gert er þegar dómarar eru almennt skipaðir í dómarastöður við aðra dómstóla hér á landi.

Starfshópur um kjör aldraðra.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 26. apríl 2018. Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 kemur fram að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Er þar lagt til að gerð verði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta lagðar fram og þeim fylgt eftir. Með vísan til sáttmálans hefur félags- og jafnréttismálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp um kjör aldraðra. Er starfshópnum falið að fjalla um kjör eldri borgara í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þær ólíku aðstæður sem eldri borgarar búa við og einnig að koma með tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem búa við lökustu kjörin. Í starfshópnum eigi sæti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og velferðarráðuneyti og þrír fulltrúar frá Landssamtökum eldri borgara, en jafnframt getur starfshópurinn kallað til ráðgjafar þá aðila sem þörf er á hverju sinni.

Samráðshópur um breytt framfærslukerfi almannatrygginga.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 18. apríl 2018. Faghópur um mótun og innleiðingu starfsgetumats hefur kynnt fyrstu tillögur sínar að nýju kerfi þar sem áhersla er lögð á getu fólks til starfa þannig að starfsgeta þess verði metin í því skyni að auðvelda viðkomandi að sjá styrkleika sína til að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Hlutverk samráðshópsins um breytt framfærslukerfi almannatrygginga er að koma með tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við markmið starfsgetumatsins. Nýju kerfi er ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu.
    Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin muni efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku.

Starfshópur um fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 16. apríl 2018. Velferðarráðuneytið hefur undanfarin misseri leitt vinnu við gerð aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í samfélaginu með fulltrúum dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Í því starfi hefur m.a. verið kallað eftir fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum. Í ljósi þessa og umræðunnar sem átt hefur sér stað í samfélaginu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni hefur félags- og jafnréttismálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp sem m.a. er falið að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot. Skal starfshópurinn leggja fram tillögur um viðeigandi úrræði og jafnframt hvernig megi efla forvarnir og fræðslu með það að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldisbrot. Starfshópurinn skal jafnframt hafa samráð við velferðarþjónustu sveitarfélaganna og eftir atvikum aðra sérfræðinga á þessu sviði.

Nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál á vinnustöðum.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 21. febrúar 2018. Gert er ráð fyrir að nefndin standi fyrir þríþættri rannsókn þar sem könnuð verði reynsla starfsmanna af kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum auk eineltis, ýmist sem þolendur, vitni eða gerendur. Jafnframt verði kannað hvernig vinnuveitendur hafa brugðist við framangreindum aðstæðum á vinnustöðum, þar á meðal til hvaða aðgerða hafi verið gripið. Þá verði kannað hvort vinnuveitendur hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sínum, þ.m.t. áætlun um forvarnir þar sem m.a. komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir framangreindar aðstæður á vinnustöðum þeirra og til hvaða aðgerða skuli gripið ef fram komi kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreindar aðstæður á vinnustöðum þeirra eða ef vinnuveitendur verða varir við slíka hegðun á vinnustað.

Verkefnisstjórn um mótun innleiðingaráætlunar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins.
    Skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 28. desember 2017. Verkefnisstjórn um mótun innleiðingaráætlunar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar í jafnréttismálum (2016–2019). Áætlunin skal taka mið af þeim samþættingarverkefnum sem þegar hafa verið unnin, m.a. í tengslum við fyrri framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, sbr. áætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð og jafnréttismat á stjórnarfrumvörpum. Verkefnið skal unnið í virku samráði og samstarfi við jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta, sem og aðra hlutaðeigandi, í samræmi við 17. lið starfsáætlunar jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna 2016–2017 þar sem segir að jafnréttisfulltrúar taki þátt í að móta heildstæða áætlun um samþættingu kynja og jafnréttissjónarmiða í samræmi við 13. gr. jafnréttislaga og 5. gr. starfsreglna.

Starfshópur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu skv. V. og VI. kafla í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
    Skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra 14. desember 2017. Starfshópur sem vann að breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með hliðsjón af innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýslu og húsnæðismál taldi rétt að undanskilja í vinnu sinni sértæka þætti sem lúta að framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Því er skipaður sérfræðingahópur sem falið er að taka til umfjöllunar atriði sem skipta máli í því samhengi. Mikilvægt er að horfa sérstaklega á samspil og samstarf félagsþjónustu, starfsendurhæfingar, Vinnumálastofnunar og heilbrigðis- og menntakerfis þar sem ákveðinn hópur einstaklinga sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu er í áhættu varðandi langtímaþátttökuleysi í samfélaginu. Því er mikilvægt að bregðast við og nýta þær leiðir sem sýnt hafa bestan árangur á þessu sviði.
    Verkefni:
          Kanna leiðir við framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu sem styðja við virkni og þátttöku sem flestra með valdeflingu og notendasamráð að leiðarljósi. Hópurinn skal leggja fram tillögur að fyrirkomulagi sem talið er að tryggi með bestum hætti ofangreint. Litið skal til mismunandi fyrirkomulags við framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu hér á landi og höfð hliðsjón af niðurstöðum rannsókna og kannana sem tengjast viðfangsefninu og fyrirliggjandi upplýsinga um viðhorf notenda auk þess að líta til fyrirkomulags og reynslu í nágrannalöndum.
          Fara yfir viðmið vegna fjárhæðar fjárhagsaðstoðar til framfærslu með það að leiðarljósi að samræma eins og kostur er.
          Skoða makatengingar í tengslum við ákvörðun fjárhagsaðstoðar til framfærslu með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár Íslands og leggja fram tillögur að breyttri framkvæmd sé þess þörf.

    Svarið við fyrirspurninni byggist á upplýsingum úr málaskrá félagsmálaráðuneytisins.