Ferill 772. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1319  —  772. mál.




Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um söfnun og miðlun fjárhagsupplýsinga.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hver tekur ákvörðun um hvort mótmæli við vinnslu eða miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni eru tekin til greina eða ekki? Hvaða sönnunarkröfur eru gerðar til kröfuhafa um réttmæti þeirra upplýsinga sem um ræðir?
     2.      Á hvaða lagaheimild byggist vöktun á vanskilaskrá með rafrænum eða öðrum hætti? Hvernig er tryggt að slík vöktun sé viðhöfð í samræmi við þær reglur sem um hana gilda? Hvernig er þess gætt að bann við vöktun með leynd sé virt? Hvernig er fylgst með því að sá sem ber ábyrgð á vöktun eyði upplýsingum sem safnast við slíka vöktun þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær?
     3.      Hvernig er úrskurðum Persónuverndar þar sem fallist er á kvartanir vegna miðlunar eða vinnslu fjárhagsupplýsinga framfylgt eða tryggt að farið sé eftir þeim?
     4.      Fallist Persónuvernd á kvörtun einstaklings, hvaða úrræði standa þeim einstaklingi þá til boða til að leita fullnustu slíks úrskurðar ef ábyrgðaraðili, þ.e. kröfuhafi eða umboðsmaður hans, eða eftir atvikum vinnsluaðili, t.d. fjárhagsupplýsingastofa, skirrist við að fara eftir niðurstöðum úrskurðarins?
     5.      Hvenær og með hvaða hætti er fyrirhugað að endurskoða reglugerð nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, og hverjir eru skilgreindir hagsmunaaðilar sem fyrirhugað er að hafa samráð við um slíka endurskoðun? Hvaða efnisþætti reglugerðarinnar telur ráðherra helst þarfnast endurskoðunar?


Skriflegt svar óskast.