Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1408  —  633. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Unu Maríu Óskarsdóttur um athyglisbrest með ofvirkni (ADHD).


     1.      Hversu margir einstaklingar hafa verið greindir með ADHD sl. þrjú ár? Svar óskast sundurliðað eftir aldri, kyni, búsetu og heilbrigðisumdæmum.
    Samkvæmt embætti landlæknis er gögnum um fjölda ADHD-greininga ekki safnað miðlægt.

     2.      Hver er fjöldi greiningaraðila og hversu margar greiningar hefur hver og einn innt af hendi sl. 3 ár? Svar óskast sundurliðað eftir heilbrigðisumdæmi og kyni greiningaraðila og eftir kyni og aldri greindra.
    Greiningar á ADHD hjá börnum eru gerðar á Þroska- og hegðunarstöð. Greiningar á ADHD hjá fullorðnum eru gerðar hjá ADHD-teymi Landspítala. Einnig eru greiningar á ADHD hjá börnum og fullorðnum gerðar hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Gögnum um fjölda greiningaraðila og greininga er ekki safnað miðlægt.

     3.      Hversu margar tegundir lyfja er skrifað upp á við ADHD og hver er lyfjakostnaður einstaklinga sem hlutfall af heildarkostnaði?
    Árið 2019 var skrifað upp á fimm gerðir lyfja, talið eftir virkum innihaldsefnum, sem eru með skráða ábendingu til meðhöndlunar á ADHD. Óskað var eftir kostnaðarskiptingu frá Sjúkratryggingum Íslands og má sjá svör í meðfylgjandi töflu.

Ár Atc ATC heiti Fjöldi einstaklinga Kostnaður sjúkratrygginga, kr. Heildarsölu verðmæti, kr. Hlutur SÍ % Hlutur
einst.
%
2017 N06BA Adrenvirk lyf með verkun á miðtaugakerfið 11.334 665.025.287 1.038.900.568 64% 36%
2018 N06BA Adrenvirk lyf með
verkun á
miðtaugakerfið
11.997 667.164.745 1.016.502.085 66% 34%
2019 N06BA Adrenvirk lyf með
verkun á
miðtaugakerfið
13.376 901.996.147 1.278.059.829 71% 29%

    Síðastliðin þrjú ár hefur kostnaðarhlutdeild SÍ farið vaxandi og var árið 2019 komin í 71%. Aukin kostnaðarhlutdeild SÍ skýrist einna helst af tilkomu lyfjaskírteina til að geta fengið afgreitt metýlfenídat og amfetamín sem um leið útilokar að einstaklingar geti leyst út lyfin á eigin kostnað. Þá hefur verið tekin upp sú regla að mest má afgreiða 30 daga skammt af þessum lyfjum sem leiðir til notkunar óhagkvæmari pakkningastærða samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands.

     4.      Hvernig er eftirfylgni fagaðila og eftirliti háttað með þeim sem eru greindir og fá lyf?
    Í svari frá Geðlæknafélagi Íslands við fyrirspurninni kemur fram að langflestir þeirra sem eru greindir og fá lyfjameðhöndlun fái greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala eða sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Einstaklingum sem greinast hjá sálfræðingum er vísað til sjálfstætt starfandi geðlækna sem ákvarða lyfjameðferð. Sumir þessara sjúklinga afþakka lyf og fá þá ráðleggingar um ákveðinn atferlismiðaðan lífsstíl sem hentar vel þeim sem hafa þessa röskun. Aðrir fá lyfjameðferð og skrifar viðkomandi geðlæknir lyfjaskírteini og hefur meðferðina.
    Í svari Geðlæknafélags Ísland kemur jafnframt fram að eftirlit og eftirfylgni sé mjög mismunandi eftir læknum. Sumir hitti sjúklinga sína reglulega og fylgist þannig með lyfjaáhrifum og líðan sjúklinga, aðrir hitta þá sjaldnar eða láta sér nægja að ræða við þá reglulega í síma. Sumum þessara sjúklinga er vísað á heilsugæsluna en það er einstaklingsbundið. Meðferðin sé þannig á höndum margra aðila.
    Geðlæknafélag Íslands bendir á að þetta sé ólíkt því fyrirkomulagi sem tíðkast í sumum nágrannalanda okkar þar sem bæði greining og meðferð er á einni hendi. Venjulega hafi þá allir verið greindir á taugasálfræðideildum viðkomandi sjúkrahúsa eða göngudeilda og meðferð alfarið í höndum teymis sem starfi á viðkomandi deild. Við slíkar kringumstæður sé mun auðveldara að koma upp ákveðnu verklagi þar sem allir fái svipaða meðferð og sömu eftirfylgni.