Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1495  —  494. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um rafmagnsöryggi.


    1.     Í hverju felst eftirlit ráðherra með öryggi flutnings raforku?
    Ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar fer með yfirstjórn orkumála. Samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, eru flutningsfyrirtækinu Landsneti, dreifiveitum og Orkustofnun falin ákveðin hlutverk og ábyrgð þegar kemur að öryggi með flutningi raforku. Hefur ráðuneytið almennt yfirstjórnunareftirlit með að þeim hlutverkum sé sinnt í samræmi við lög. Skv. 9. gr. raforkulaga ber flutningsfyrirtækið ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skal tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu. Enn fremur að hafa tiltækar viðbragðsáætlanir og annast samræmingu neyðaraðgerða í flutningskerfinu. Dreifiveitur skulu, sbr. 16. gr. raforkulaga, annast dreifingu raforku og kerfisstjórnun á dreifiveitusvæði sínu og bera ábyrgð á öryggi, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku. Dreifiveitur skulu hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá og taka þátt í neyðarsamstarfi raforkukerfisins þegar við á. Orkustofnun hefur eftirlit með orkufyrirtækjum samkvæmt raforkulögum og hefur valdheimildir til þess að tryggja að orkufyrirtæki starfi í samræmi við lögbundin hlutverk, m.a. varðandi afhendingaröryggi raforku. Nánar er um þessi atriði fjallað í reglugerð nr. 1048/2004 um gæði raforku og afhendingaröryggi.

    2.     Hvaða almennu sjónarmið gilda við mat á því hvort fullnægjandi öryggisráðstafanir séu til staðar til lágmörkunar á skerðingu og/eða truflunum á virkni raforkukerfisins þegar bregðast þarf við vá í skilningi raforkulaga, með hliðsjón af varaleiðum, varaaflsstöðvum, ísingu og öðrum atriðum?
    Bæði dreifiveitum og Landsneti er skylt samkvæmt raforkulögum að hafa tiltækar viðbragðsáætlanir þegar bregðast þarf við vá. Orkustofnun hefur eftirlit með að slíkar viðbragðsáætlanir séu til staðar, að þær uppfylli lágmarkskröfur og að unnið sé í samræmi við þær þegar á reynir. Viðbragðsáætlanir miða að því að lágmarka skerðingu og truflun á virkni raforkukerfisins. Undirliggjandi eru þau almennu sjónarmið sem kveðið er á um í raforkulögum, þ.e. að tryggja afhendingaröryggi raforku, gæði raforku og hagsmuni neytenda.
    Að því er framkvæmd skerðinga varðar er kveðið á um það í raforkulögum að ef ófyrirséð og óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn ber flutningsfyrirtækinu og dreifiveitum að grípa til skömmtunar raforku til notenda. Við skömmtun skal gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Nánari útfærslu á því er að finna í reglugerðum nr. 513/2003 og nr. 350/2016. Þar kemur m.a. fram að við skömmtun skuli gæta jafnræðis og leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.

     3.     Hefur verið gerð úttekt á því hvaða mannvirki sem teljast til nauðsynlegra innviða, sjúkrastofnanir, hitaveitur, vatnsveitur, fjarskiptamannvirki o.s.frv., eru viðkvæm fyrir rafmagnsskorti í lengri tíma? Ef svo er, hvenær fór hún fram, hvað leiddi sú úttekt í ljós og til hvaða ráðstafana hefur ráðherra gripið?
    Formleg úttekt á því hvaða mannvirki, sem teljast til nauðsynlegra innviða, séu viðkvæm fyrir raforkuskorti til lengri tíma, hefur ekki verið gerð. Ein af tillögum átakshóps stjórnvalda um uppbyggingu innviða, sem skilað var 28. febrúar 2020, var að kortlögð verði þörf og núverandi staða varaafls fyrir stofnanir og fyrirtæki mikilvægra innviða. Nánar er um það fjallað í skýrslu átakshóps stjórnvalda á vefnum www.innvidir2020.is. Aðrar tillögur í skýrslunni þessu tengt lutu að því að Orkustofnun hefði heildaryfirsýn yfir tiltækt varaafl og varaaflsþörf í raforkukerfinu, en Póst og fjarskiptastofnun héldi slíkri yfirsýn yfir varaafl í fjarskiptakerfinu. Eru þær aðgerðir sem lúta að varaafli í raforku komnar af stað og unnið að þeim á vettvangi Orkustofnunar, orkufyrirtækja og ráðuneytisins. Að því er varaafl heilbrigðis- og sjúkrastofnana varðar er unnið að þeim aðgerðum undir forræði heilbrigðisráðuneytis.

    4.     Hvaða ráðstafanir og kröfur eru gerðar af hálfu ráðherra og ráðuneytisins gagnvart einkaaðilum til að tryggja að mannvirki á þeirra ábyrgð sem teljast til nauðsynlegra innviða hafi fullnægjandi útbúnað til að sporna við eða lágmarka áhrif rafmagnsskorts til lengri tíma í vá í skilningi raforkulaga?
    Í samræmi við raforkulög, nr. 65/2003, og orkulög, nr. 58/1967, hafa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Orkustofnun almennt eftirlit með því að dreifiveitur, flutningsfyrirtæki, raforkuframleiðendur og hitaveitur hafi viðbragðsáætlanir og búnað til að lágmarka áhrif rafmagnsskorts til lengri tíma við vá. Einnig hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ákveðið hlutverk í samræmi við lög nr. 160/2010, um mannvirki, varðandi kröfur til mannvirkja sem eru á ábyrgð framangreindra aðila. Eftirlit með mannvirkjum annarra nauðsynlegra innviða, eins og á sviði fjarskipta, samgangna eða heilbrigðisstarfsemi, er á forræði þar til greindra stofnana og fagráðuneyta (sbr. Póst og fjarskiptastofnun, heilbrigðisstofnanir o.s.frv.).
    Eins og fram hefur komið var ein af tillögum átakshóps stjórnvalda um uppbyggingu innviða, sem skilað var 28. febrúar 2020, að kortlögð yrði þörf og núverandi staða varaafls fyrir stofnanir og fyrirtæki mikilvægra innviða. Sú vinna er hafin af þar til bærum stofnunum.

     5.     Telur ráðherra að núverandi skipulag öryggis raforkuafhendingar til nauðsynlegra innviða og viðbragðsáætlanir vegna stórfelldra bilana og veðuratburða sé fullnægjandi?
    Almennt séð, og í alþjóðlegum samanburði, er öryggi raforkuafhendingar til nauðsynlegra innviða gott á Íslandi. Fárviðrið í desember 2019 og janúar 2020 sýndi þó fram á ákveðna veikleika hvað afhendingaröryggi varðar, sérstaklega þegar horft er til mismunandi landsvæða. Í áðurnefndri skýrslu átakshóps stjórnvalda eru lagðar til alls 540 aðgerðir til að styrkja innviði landsins í kjölfar óveðursins. Eru þær aðgerðir ýmist í undirbúningi eða þegar komnar til framkvæmda. Miða þær m.a. að því að bæta öryggi raforkuafhendingar til nauðsynlegra innviða. Á sviði öryggis raforkuafhendingar má nefna þessar aðgerðir:
     1.      Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt þannig að árið 2025 verði henni að langmestu leyti lokið í stað ársins 2035.
     2.      Tillögur til einföldunar og aukinnar skilvirkni í leyfisveitingum vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku.
     3.      Framkvæmdum í svæðisflutningskerfi raforku, sem ekki eru á 10 ára kerfisáætlun Landsnets, verði flýtt.
     4.      Varaafl fyrir raforku og fjarskipti endurskilgreint og eflt.